Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Kommúnistar herða tökin

Kommúnistarnir eru komnir einu skrefi lengra í því að breyta Íslandi í til gamla Austur-Evrópustílsins. Þar var þegnunum haldið frá því að ferðast til útlanda.

Nú fá Íslendingar ekki lengur 500.000 í gjaldeyri til ferðalaga heldur 350.000.  Hvað skyldi verða næsti áfangi ?

Smám saman legst kreppumara ríkisstjórnarinnar  yfir landið og vonleysið vex. Kommúnistar herða tökin á hálsi þjóðarinnar.


Verslum við KOST !

Jón Gerlad Sullenberger skrifar í MBL. opið bréf til Jóns Ásgeirs.
Þá er ástæða til að vekja athygli á þessu bréfi og velta því fyrir sér hvað maður geti sjálfur gert í smæð sinni, til þess að vinna á móti því sem Jón lýsir.
Bréfið er hérna: 
"Opið bréf til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar
SÆLL Jón Ásgeir. Það eru dapurlegir tímar á Íslandi núna þegar afleiðingar hrunsins eru að koma í ljós, langvarandi atvinnuleysi, niðurskurður á öllum...

Jón Gerald Sullenberger
SÆLL Jón Ásgeir. Það eru dapurlegir tímar á Íslandi núna þegar afleiðingar hrunsins eru að koma í ljós, langvarandi atvinnuleysi, niðurskurður á öllum sviðum velferðarkerfisins og stórfelld lækkun á lífeyrisgreiðslum til aldraðra. Félög eins og Baugur Group eru búin að ryksuga upp alla sjóði í íslensku bönkunum. Ekki má gleyma öllum þeim gríðarlegu fjármunum sem lífeyrissjóðirnir lögðu í ykkar félög sem nú eru öll gjaldþrota. Svona mætti lengi telja.

 

Nú þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis liggur fyrir - gögnin skýr og staðreyndir tala sínu máli - er hin íslenska þjóð að vakna upp við vondan draum. Ég má til með að senda þér smá línu vegna pistils þíns sem birtist í dagblaði eiginkonu þinnar 22. apríl sl. Þar fjallar þú m.a. um vanlíðan þína yfir hruni Íslands og fullyrðir að þú munir gera allt til að bæta íslensku þjóðinni upp mistök þín og aðstoða við að byggja Ísland upp að nýju. Að vísu eru þetta nánast sömu orð og þú ritaðir í grein þinni í desember 2008, »Setti ég Ísland á hausinn?« Eftir þá grein var nú lítið um aðstoð frá þér og þínu fólki, þar sem allur tími þinn fór í að tryggja þér stóran hlut í verslunarveldinu Högum og skrá það á föður þinn, svo og að ná tangarhaldi á fjölmiðlaveldinu 365 og skrá það á eiginkonu þína, ásamt ýmsum öðrum »fléttum«. Þú talar í greininni um draum þinn að byggja upp fyrirtæki sem þú gætir verið stoltur af, og léti gott af sér leiða fyrir íslenskt samfélag, og lýsir hvernig þú hafir í 12 ár unnið dag og nótt til að ná því markmiði. Það er dapurlegt að þetta hafi mistekist því eins og allir Íslendingar vita stóð fyrirtækjanet þitt fyrst og fremst fyrir þau gildi sem þú minnist á: »Gjafmildi og gegnsæi.« Eða hvað?! Það var t.d. aðdáunarvert hversu örlátur þú varst að deila leiktækjum þínum með þjóðinni.

 

Til vitnis um það eru t.d. 3 þúsund milljón króna einkaþotan, 3 þúsund milljón króna 101 lystisnekkja ykkar hjóna, 2 þúsund milljón króna 101 Charlet skíðaskálinn ykkar í Frakklandi, og ekki má gleyma lúxusíbúðinni ykkar í New York sem kostaði vel yfir 3 þúsund milljón krónur. Þú segir í grein þinni að þú eigir enga peninga á aflandseyjum og gefur til kynna að þú sért þar með nánast eignalaus maður. Það er auðvitað skelfilegt. Ekki er lengra síðan en árið 2007 þegar þú fékkst Tinu Turner til að syngja svo eftirminnilega »Simply the best« í Mónakóveislunni frægu. »Í draumi sérhvers manns er fall hans falið« orti skáldið. Vonandi þarftu ekki að fara í biðröð eftir matvælum eins og þúsundir Íslendinga þurfa að gera í dag, ég vona alla vega að þú eigir fyrir Diet Coke. Og þá erum við komin að tilefni þessara bréfaskrifta. Nýlega birtust opinberlega tölvupóstar sem voru í stefnu Glitnis á hendur þér þar sem þú pirrast yfir því hversu seint bankastjóri Glitnis bregst við tilmælum þínum að afhenda þér um 1000 milljónir á einkareikning þinn. Orðrétt segir þú í póstum til bankastjóra almenningshlutafélagsins Glitnis: »Klára Goldsmith ef þessu 1 milljarði sem ég átti að fá greitt þarf 250 að fara til að borga yfirdrátt hjá GLB prinsip mál að vera ekki með persónulegar skuldir á mér. Rest get ég í raun geymt hjá GLB þ.e.a.s. 750 þannig að net cash út hjá GLB er 1,2 til PH.« »Þetta eru málin nenni ekki að bögga ykkur á hverjum degi með þessu enda ætlast ég til að CEO þessara félaga vinni sín mál ef við komum þessum málum frá þá er borðið mitt hreint. Annars er kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB.«

 

Þessir póstar gefa sterklega til kynna að þú hafir verið með litlar sem engar persónulegar skuldir í bankakerfinu, enda sagðir þú svo eftirminnilega i viðtali við Viðskiptablaðið nýlega: »Ég er ekki umvafinn persónulegum ábyrgðum. Fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af mér.« Því langar mig að forvitnast hjá þér, Jón minn:

 

1) Arðgreiðslur til þín og fjölskyldu þinnar undanfarin 5 ár úr íslenskum eignarhaldsfélögum nema mörg þúsund milljónum króna - þetta eru raunverulegir peningar sem voru greiddir til þín úr íslenskum bönkum. Skv. seinasta ársreikningi Gaums nam innleystur hagnaður hluthafa Gaums (þ.e. þú og fjölskylda þín) þúsundum milljóna króna. Hvar eru þessir fjármunir í dag?

 

2) Arðgreiðslur úr eignarhaldsfélögum eiginkonu þinnar nema einnig mörg þúsund milljónum króna undanfarin ár. Í september 2008 - korteri fyrir hrun - greiðir bara eitt félaga hennar, ISP ehf., henni 300 milljón krónur í arð, skv. opinberum ársreikningi. Hvar eru þessir fjármunir?

 

3) Ertu tilbúinn að upplýsa hvaða eignir þú geymir í félögum þínum í Lúxemborg - þau skipta tugum en ég spyr þig bara um þessi til að spara plássið:

 

Purple Holding.

 

Piano Holding.

 

Epping Holding.

 

Gaumur Holding.

 

Er eiginkona þín tilbúin að upplýsa hvaða eignir hún geymir í Edmound Holding, en eins og þú veist flutti hún margvíslegar eignir þangað fyrir hrun, skv. ársreikningum félagsins.

 

4) Hvaðan komu 1,5 þúsund milljón krónurnar sem þú lagðir fram árið 2008 til að kaupa fjölmiðlaveldið 365? ´

 

5) Hvaðan komu 1 þúsund milljónirnar sem þú lagðir fram um daginn til að tryggja þér endanlega yfirráð yfir fjölmiðlaveldinu 365?

 

6) Hvaðan komu þær mörg þúsund milljónir króna sem þú varst tilbúinn að leggja fram í tilboði þínu til Arion banka vegna Haga?

 

7) Hvaðan munu peningarnir koma til að opna 3 nýjar Bónus-búðir í London, sbr. fréttir þess efnis nýlega?

 

8) Hvar eru þessar 1 þúsund milljónir sem Pálmi vinur þinn Haraldsson var svo almennilegur að millifæra á einkareikning þinn eins og frægt er og lesa má um í stefnu Glitnis?

 

9) Hvar er hagnaður ykkar hjóna af framvirkum hlutabréfasamningum og gjaldmiðlasamningum þar sem þið tókuð stöðu á móti íslensku krónunni sem nefndin minnist á í skýrslu sinni? Ljóst er að hann nemur þúsundum milljóna króna og veikti mjög íslensku krónuna vorið 2008 sem þjóðin er núna að súpa seyðið af.

 

Ætli ég láti þetta ekki duga að sinni en fagna þeim orðum þínum að þú munir gera allt sem í þínu valdi stendur til að bæta fyrir mistök þín og leggja þitt af mörkum til að byggja upp Ísland að nýju. En þá verða menn einnig að vera búsettir á Íslandi, Jón Ásgeir. Það kom fram í fjölmiðlum um daginn að þú og þín kona hafið ákveðið að flytja lögheimili ykkar til Bretlands og því er ljóst að hinar miklu skattahækkanir ríkisstjórnarinnar sem og hinn stórfelldi niðurskurður á öllum sviðum íslensks samfélags mun ekki bitna á þér og þinni fjölskyldu. Eða mun »aðstoðin« eingöngu verða í formi »hugskeyta« til hinnar íslensku þjóðar?


>> Vonandi þarftu ekki að fara í biðröð eftir matvælum eins og þúsundir Íslendinga þurfa að gera í dag, ég vona alla vega að þú eigir fyrir Diet Coke. "
Hefur enginn velt því fyrir sér hversvegna þeir feðgar Jóhannes og Jón Ásgeir sleppa svona billega útúr umræðunum um hrunð ? Getur það ekki verið af því að þeir eiga flesta fjölmiðlana  og stjórna þeim ?
Ég hef áhyggjur af því að fólk athugi ekki að það getur látið álit sitt í ljósi með því að beina viðskiptum sínum til þeirra aðila sem þeim eru þóknanlegri en aðrir. Maður er og kærulaus í þessum efnum. Sérhvert hár gerir skugga sagði vís maður.
Sullenberger er hundeltur af ríkisbankabankakerfinu sem lánar honum ekki krónu. Enda Samfylkingin sem stjórnar þeim í þágu hinna þóknanlegu. 
Verslum við Jón Gerald Sullenberger í verslun hans KOST við Reykjanesbraut !

Húrra fyrir hetjunum !

Ég hrópa húrra fyrir hetjunum sem flykktust austur fyrir Eyjafjöll að hjálpa bændum að moka.

Það er skelfilegt að horfa á eyðilegginguna til dæmis á Þorvaldseyri þar sem maður hefur horft á með hvað mestri aðdáun á því hvað íslenskir bændur geta afrekað á landinu okkar kalda.

Mér hefur dottið í hug hvort gúmmihjólavélar gætu ekki skafið öskuna saman í hrauka á túnunum? Hæfileg stærð frá Bobcat í minni hjólaskóflur ? Myndi þá ekki gróðurinn komast fyrr upp þar sem skafið var. Eitthvað fleiri beygjur að taka í slættinum ?  Magnið af helvítis öskunni er svo ferlegt og akrarnir stórir að manni finnst að verði  að koma til vélarkraftur til að vinna á þessu.  Hvað segir Dofri í Suðurverki ? Sér hann leiðir til að létta á þessu ?

Á meðan hylli ég þann baráttuanda sem fólkið þarna sýnir. Ég vildi að ég hefði svona sálarkraft sjálfur.


Hugmynd um fisk.....

Þar kom að því að mér líkaði vel við skrif Guðmundar Andra Thorssonar. Grein hans í Baugstíðindum "Hugmyndin um fisk er ekki fiskur " er afbragð að mér fannst. Grípum niður í henni:

"Ósköpin hófust með kvótakerfinu. Þá fylltist allt af peningum sem voru ekki til, frá mönnum sem höfðu aflað þeirra með því að selja það sem þeir áttu ekki: óveiddan fisk. Eins og helstu hugmyndafræðingar þessa kerfis þreyttust ekki á að útskýra fyrir heimsbyggðinni á sólríkum ráðstefnum þá var kvótakerfið undirstaða hinnar svokölluðu velmegunar Íslendinga. Sú velmegun var í raun og veru óveidd, rétt eins og þorskurinn í sjónum - og blásin út, rétt eins og verðið fyrir aðganginn að hinum óveidda fiski.

Með öðrum orðum: ekki til. Hins vegar urðu til menn sem héldu að helsta hlutverk athafnamannanna í samfélaginu væri að græða peninga til að græða peninga, til að græða peninga. Til að græða peninga.

Kvótakerfið lagði grunninn að lyginni. Það bjó til glópagullið. Samkvæmt þessu kerfi voru búin til verðmæti úr réttinum til að veiða úr fiskistofnum sem eru sameign þjóðarinnar. Búinn var til eignaréttur á því sem aðrir áttu - og það sem meira var og enn afdrifaríkara: þann eignarétt var hægt að veðsetja.

Hugmyndin um fisk varð yfirsterkari hinum raunverulega fiski. En: Fiskurinn verður ekki að verðmætum fyrr en búið er að veiða hann og vinna. Það skapar ekki verðmæti í sjálfu sér að einhver eigi möguleika á að búa þau til. Það að ég gæti veitt fisk táknar ekki að ég sé búinn að því.

Væri svipað kerfi í gangi í bókmenntunum þá hefði ég fengið umtalsverðan kvóta vegna skáldsöguskrifa minna frá því fyrir 1990 og síðan þyrfti Eiríkur Örn að borga mér fúlgur fjár fyrir að fá að skrifa bækur vegna þess að ég ætti réttinn á að skrifa þær, og gæti gert það ef ég nennti en mér finnst náttúrlega þægilegra að láta Eirík puða við það úr því að hann er svo duglegur, svo að ég get þá veðsett þessa eign mína og slegið lán fyrir Wolverhampton Wanderers. Verðmætasköpun varð að verðmætaskáldun. Raunveruleg verðmæti urðu að pappírsverðmætum. Raunverulegir útgerðarmenn urðu að pappírsbarónum. Dugnaðarforkar urðu að iðjuleysingjum. Mannsefni urðu að landeyðum....."

" Allt var einhvern veginn óraunverulegt. Til varð lénskerfi þar sem fólk lenti í þeirri ógæfu að hafa skyndilega fullar hendur fjár sem það átti ekki skilið. Krónurnar komu bara. Mannkynssagan geymir ótal dæmi um að slíkur auður leiðir til ófarnaðar og eyðslusemi sem umfram allt er tjáning á örvæntingu: Kvóta-aðallinn sem var að rífa stóreflis hús til að reisa ný og enn þá ljótari var náttúrlega fyrst og fremst að tjá okkur hinum fyrirlitningu sína - á okkur, húsunum, peningum, sjálfum sér...."

Þetta er allsnörp ádrepa hjá Guðmundi Andra. Það er þessi úthlutun á sérréttindum sem skekkir allt samfélagið. Úthlutun stjórnmálaflokka á embættum frá Hæstarétti niður í rollufjölda og leigubíla. Styrkir mig í þeirri skoðun, að ólýðræðislegt Alþingi sé alltof máttugt í þjóðlífinu. Mikið af því sem það er að bauka með væri betur komið hjá lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum eins og víða annarsstaðar þekkist. Það er ekki endalaust hægt að benda á hvað Samherji sé flott fyrirtæki þegar menn athuga að það mun auðveldara að byggja upp flott fyrirtæki í skjóli einokunar og forgjafar.Samherji getur verið seldur á morgun til ESB með öllu, kvóta, sem öðru. Þessi auðlind Íslendinga getur gengið þjóðinni úr greipum ef eigendunum bíður svo við að horfa.

Einkakvóti í nýtingu náttúruauðlinda lands er íhugunarefni. Í Bandaríkjunum á ríkið alla veiði í vötnum og ám, ekki landeigendur. Af hverju eigum við Guðmundur Andri ekkert tilkall til neins þorsks í sjónum ? Af hverju getum við ekki selt okkar hugmyndir eins og athafnaskáldin í sjávarútvegi ?

 

 


Hvar er Jóhanna?

Ég sá viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur í sjónvarpinu rétt áðan. Hún var stödd í galtómum stórum sal, þar sem umhorfs var eins og allir hefðu hlaupið þaðan úr veislu  í skyndingu.

En það var ekki umhverfið  sem vakti athygli mína heldur hvað Jóhanna sagði. Hún sagði að matvara hefði hækkað alltof mikið að undanförnu. Verðbólgan hefði verið á uppleið en nú væri þetta allt  að lagast með örri lækkun stýrivaxta og afnámi gjaldeyrishaftanna og því færi verðbólgan ört minnkandi.

Hvar er Jóhanna eiginlega stödd?

Væri ekki ráð að Sjónvarpið spyrði seðlabankastjóra hennar hversu mikið af erlendu fé biði þess að komast úr landi ? Eru það 300 milljarðar eða 700 ? Hvenær gjaldeyrishöftunum verði aflétt ? Í ár ? Næsta ár ? Hitt árið ? Þarnæsta ár ? Hvort það væri tæknilega hægt að fella gengi krónunnar í einu Nordælsku slagi þannig að dollarinn færi í svona þúsundkall og flytja þessa erlendu peninga hreppaflutningi úr landi á því gengi ? Auðvitað ósvífið en hvað skal gera ? Hversu lengi myndi ástandið vera óþolandi eftir það ?  Hversu fljótt gætum við tekið upp flotgengi aftur ? Það er ekkert náttúrulögmál að halda dollaranum þar sem hann er núna. Þetta er aðeins slembitala eins og hver önnur og hefur ekkert að gera með gengi krónunnar. 

Fólk getur spurt sig sjálft hvort það sjái batamerki í þjóðlífinu ? Hefur vandi heimilanna minnkað ? Hefur verðlag lækkað ? Hefur atvinnuleysi minnkað ? Hafa atvinnutekjur aukist hjá þeim sem hafa vinnu ? Hafa skattar lækkað ? Hefur uppboðum fækkað ?

Ég verð að játa það að ég veit ekki hvaða vitneskju Jóhanna Sigurðardóttir býr yfir sem fær hana til að tala með þessum hætti. Var hún upptendruð af fögnuði yfir því sem slangur af einhverjum  þýskum þingmönnum var að segja í tómum sal á þýska þinginu, að nú væri Ísland á leiðinni í ESB með fiskimiðin sín og hernaðarlegt mikilvægi ?  Er Jóhanna búin að fá einhver loforð frá ESB sem valda hér straumhvörfum ? Hefur hún eitthvað til að selja okkur í pokahorninu ?

Ef ekki, þá velti ég alvarlega fyrir mér í hvaða veröld forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, er stödd.

 


Súpermann ?

Það dylst manni ekki við lestur Fréttablaðsins hvernig fjárglæframaðurinn Jón Ásgeir og fjölskylda nota þetta stærsta blað landsins til að ófrægja stjórnmálamenn og þá auðvitað mest Sjálfstæðisflokkinn. Blaðið eys eldi og eimyrju dag eftir dag yfir flokkinn og alla forystumenn hans og hefur til þess legíó af leigupennum og sjálfboðaliðshatursmönnum. Nýbúnir að kaupa sér brottrekinn ritsjóra af Morgunblaðinu leggst blaðið eins og plága yfir landsmenn á hverjum degi. Eini kosturinn er sá að blaðið er frítt að því að menn halda. En einhversstaðar bíða milljarða reikningar sem þjóðin á að afskrifa vegna útkomu snepilsins. 

 

Í dag skrifar einn reglulegi Fréttablaðspenninn Sverrir Jakobsson áreiðanlega þóknanlega grein fyrir Bónusfjölskylduna. Innihaldið er að ausa svívirðingum yfir Sjálfstæðisflokkinn og alla sem honum tengjast.

Grípum niður í sorann  í greininni sem heitir Iðrun og endurmat, sem er að mestu leiti órökstuddur slagorðavaðall og bull:

....." Ekki er lengur hægt að efast um skaðsemi þeirrar stefnu sem rekin var í íslensku viðskiptalífi allt frá einkavæðingu bankanna og fram að hruni. Á hinn bóginn er óvíst að almenn samstaða væri um það ef ekki hefði verið fyrir hrunið. Efnahagshrunið veldur því að nú blasir við að kerfið var rotið og að tilraunin með fyrirmyndarsamfélag frjálshyggjunnar á Íslandi bar feigðina í sér frá upphafi...."

Þetta er augljós slagorðavaðall og á ekkert skylt við sagnfræði. Aðeins verið að draga athyglina frá glæpum þjófanna og reyna að klína sökinni á Alþingi.

..."Jafnframt er skýrslan áfellisdómur yfir pólitískri menningu á Íslandi á veltiárunum eftir einkavæðingu bankanna. Fljótlega eftir einkavæðingu bankanna árið 2002 hafði myndast breið samstaða um ýmsar pólitískar kreddur. Fyrir alþingiskosningar 2003 kepptust stærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Samfylking, til dæmis við að lofa sem mestum skattahækkunum...."

Sama þvælan nema rugluð niðurstaða.

...."Í skýrslunni viðurkennir Geir H. Haarde fv. forsætisráðherra að það hafi verið meðal afdrifaríkustu hagstjórnarmistaka áratugarins að efna þetta loforð. En þessi málflutningur féll bönkunum vel í geð. Þeir veittu peningum óspart til þessara flokka og styrktu frambjóðendur þeirra í prófkjörum. Fjórði flokkurinn, Vinstrihreyfingin-grænt framboð, fór hins vegar aðra leið. Í fyrsta lagi gagnrýndi hann bæði einkavæðinguna og framkvæmd hennar og hafnaði frjálshyggjukreddum hinna flokkanna.....

Hverjir voru þessir flokkar?

..."Í öðru lagi setti VG sér þær reglur að hvorki flokkurinn né frambjóðendur hans gátu tekið við milljónastyrkjum frá bönkunum og öðrum stórfyrirtækjum. Þess vegna eru engir vinstrigrænir á listanum yfir styrkþega bankanna. Munurinn felst í ólíkri, pólitískri menningu innan flokkanna þar sem einungis einn viðhafði þá siði sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þess vegna voru íslensk stjórnmál ekki spillt í gegn; stjórnmálaflokkar gátu kosið að taka ekki þátt í peningavæðingu stjórnmálanna og sumir gerðu það...."

Það er náttúrlega að enginn vildi neitt með VG hafa að gera því þeir hafa verið á móti öllu. Niður með allt, nema fjallagrasatínslu. Enginn hefur viljað við þá tala um neitt þar sem þeir eru þversum á móti öllu. Enginn vill styðja slíkan flokk.

....."Öflug krafa er uppi um að þessi og hinn eigi að víkja og sumir vilja helst skipta út öllum stjórnmálamönnum fyrir nýtt og syndlaust fólk. En vandi íslenskra stjórnmála fyrir hrunið var kerfislægur en ekki persónubundinn. Það leysir ekki vandann að kúlulánþegi segi af sér þingmennsku því að næsti varamaður er líklega kúlulánþegi líka. Sumir flokkar aðhylltust einfaldlega ákveðna aðferðafræði í samskiptum við bankanna og rekstur fyrirtækja. Þess vegna er t.d. sá sjálfstæðismaður vandfundinn sem ekki hefur einhver tengsl við þau fyrirtæki sem koma fyrir í skýrslunni. Þó að sextán sjálfstæðismenn segi af sér þingsæti koma aðrir sextán í staðinn sem hafa til þess umboð frá þjóðinni...."

Burt með Sjálfstæðisflokkinn allan.

...."Þess vegna er lausnin ekki endilega mannaskipti heldur nýtt hugarfar. Það er einmitt það sem vantar hjá Sjálfstæðisflokknum; að hann hafi gert markvissa tilraun til að sýna fram á sú stefna sem hann boðar núna sé eitthvað annað en sá hrunadans sem lýst er í rannsóknarskýrslu alþingis. Að segja að fólk hafi brugðist en ekki stefnan dugar ekki því að rannsóknarskýrslan er samfelldur áfellisdómur yfir hugmyndafræði flokksins og stefnu hans í framkvæmd undanfarinn áratug...."

Þvílík endemis steypa sem maðurinn fer með. Nógu þykkt skal smurt svo að umræðan beinist frá húsbændum höfundarins og beinist að þeim sem hefðu átt að vera grimmari við þá og stöðva glæpaverkin fyrr. Skjótum sendiboðann.  

...."Á hinn bóginn örlar á slíku endurmati hjá Samfylkingunni. Það kom að einhverju leyti fram í iðrunarræðu Ingibjargar Sólrúnar á flokksráðsfundinum á laugardaginn en þó enn frekar í grein hennar í seinasta hefti Tímarits Máls og menningar. Það hefur líka komið fram í ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar að undanförnu, þar sem Blair-ismanum er hafnað. Það verða að teljast tíðindi þar sem "hin nútímalega jafnaðarstefna" sem fellst í meginatriðum á allar helstu kreddur frjálshyggjunnar hefur verið ein af grunnstoðum Samfylkingarinnar allt frá stofnun flokksins. Að vísu dugar hér ekki Samfylkingunni að skipta um slagorð; gera verður þá kröfu að stefnubreytingarinnar sjái líka stað í landsfundarsamþykktum flokksins og verkum hans í ríkisstjórn. Raunveruleg stefnubreyting af því tagi væri töluvert meira virði en afsagnir fjölmargra þingmanna...."

Finnst einhverjum þetta vera sagnfræði. Grenjur Ingibjargar á fundinum snertu fáa. Hún bar sem flokksformaður ábyrgð á störfum Jóhönnu og sjálfrar sín í  síðustu ríkisstjórn. En hún gerði ekki neitt og málflutningur hennar fram að fundinum beindist allur að því að segja;"Ekki benda á mig....."

 

Á öftustu síðu er vitnað í flokkahlauparann Kristinn H. Gunnarsson:

Sjúkir flokkar

"Flokkarnir eru sjúkir og þeir verða ekki læknaðir með því að verja þá," skrifar Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, á vef sinn. "Framsóknarflokkurinn gekk kannski flokka lengst þegar hann rak þingmann sinn fyrir það að spila ekki með liðinu," segir Kristinn, sem hefur setið á þingi fyrir Alþýðubandalagið, Framsóknarflokkinn og Frjálslynda. Hann segir flokka eiga að vera samtök þar sem skynsemi og dómgreind ráði för. Spurning hvort nýr flokkur er í burðarliðnum?"

 

Skyldu menn taka mikið mark á þessum landhlaupa sem hefur farið eins og logi yfir akur á hinu pólitíska sviði í endalausri leit sinni að vegtyllum fyrir sjálfan sig.

 

Svo skrifar Njörður P. Njarðvík grein í sama tölublaðið, Þjóðarspegill:

......". Þessu verðum við að hætta og krefjast umbóta og hreinsunar þegar í stað. Þegar stjórnmálamenn bregðast þjóð sinni svo gersamlega sem nú ber raun vitni, verður þjóðin að hafa vit fyrir þeim. Alþingi bar ábyrgð á þeirri ríkisstjórn sem brást í aðdraganda hrunsins - og við sem þjóð bárum ábyrgð á þingmönnum...."

 

..."Um ábyrgð virðist tilgangslítið að ræða eins og skýrslan sýnir berlega. En það er líka hægt að taka öðru vísi til orða. Við getum í staðinn sagt, að menn skuli taka afleiðingum gerða sinna - og þar með aðgerðaleysi. Við erum stödd í ógöngum og "hnípin þjóð í vanda". Til þess að losna úr þeim ógöngum og endurreisa okkur sjálf þarf fyrst undanbragðalausa hreinsun. Og sú hreinsun þarf að hefjast í grundvallarstofnun íslensks samfélags, þeirri stofnun sem eitt sinn var kölluð "Hið háa Alþingi". Þeir sem þar brugðust, verða að víkja. Allt annað er markleysa. Þegar þetta er ritað, hafa tveir þingmenn vikið tímabundið, þeir Björgvin G. Sigurðsson og Illugi Gunnarsson. Þeim ber að þakka nokkurt raunsæi. En það er ekki nóg. Þótt ég beri persónulegan hlýhug til sumra einstaklinga sem sitja nú á þingi, þá verður hann að víkja fyrir nauðsyn. Kunningjatengsl eru einmitt hluti af vandanum...."

 

Ekki eitt einasta orð um glæpamennina sjálfa. Hakka á Sjálfstæðisflokknum. Hann er sekur, ekki þjófarnir, ekki svikahrapparnir, bankastjórarnir. Nei ráðumst á Alþingi. Sá sem átti að passa þjófana gerði það ekki.

 

„  Af þessum sökum verð ég að segja, að allir þeir þingmenn sem koma með vafasömum hætti við sögu í rannsóknarskýrslunni, eiga að segja af sér þingmennsku í þágu þjóðarinnar og framtíðarhorfa hennar. Allir ráðherrar í fyrrverandi hrunstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar ættu að víkja af þingi og úr ríkisstjórn. Þeir báru með stjórnarsetu sinni samábyrgð með stjórninni í heild, þótt ráðherrasvið þeirra krefðist ekki beinnar, persónulegrar ábyrgðar. Og allir þingmenn sem nutu óeðlilegrar lánafyrirgreiðslu óheiðarlegra banka og vafasamra styrkja frá vafasömum fyrirtækjum (svo að ekki sé kveðið fastar að orði), ættu þegar í stað að segja af sér þingmennsku. Það er nefnilega ekki þannig, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins komst að orði í klaufalegri sjálfsvörn, að eðlilegt sé að þingmenn "taki þátt í atvinnulífinu". Þvert á móti er nauðsyn, að seta á löggjafarþingi krefjist þess, að þingmenn séu algerlega óháðir þeim sem þeir eiga að setja lög um. Ef menn skilja það ekki, eru þeir ekki hæfir til þingsetu. Ef vanhæfir þingmenn skynja ekki alvöru málsins, verður þjóðin að sýna þeim fram á hana...."

Er nokkur sem getur setið á þingi nema Njörður P.Njarðvík og Sverrir Jakobsson. Hvernig myndu þeir standa sig ef þeir kæmust í freistingar ? Eru þeir úr öðru efni en fólk er flest?

Súpermenn eins og Jón Ásgeir ?

Af hverju vextir?

Nú hefur ríkisstjórnin lögst hundflöt fyrir framan guðinn sinn AGS sem lofaði þeim nú smávegis lánagusu. Hundrað milljarða sem engu breytir til eða frá í Icesave pakkanum sem hún vill borga. Nú lofa ræflarnir að borga vexti, sanngjarna vexti ofaná höfuðstólinn. Hvað er sanngjarnt ? Hvað er sannleikur spurði Pétur postuli? "How smooth is smooth? " spurði Guðmundur Einarsson verkfræðingur Kanann á Vellinum og lagði heimsveldið.

Nú hefur verð á skuldabréfum gamla Landsbankans hækkað úr núlli í 0.10. Einhverjir spekúlantar eru búnir að finna út að það verði afgangur þegar búið er að borga Icesave af búinu. Sem eru góð tíðindi. En Bretar borga ekki vexti né bætur á kyrrsett fé? Af hverju vill Steingrímur endilega borga vexti ?

Er ekki verið að borga vátryggingu ? Það er verið að bæta hlut sem tapaðist. Það eiga engir vextir við í slíkum viðskiptum

Bretar er nú búnir að fá plenty ash í stað cash sem með naumindum tókst að forða þjóðinni frá. Er cé-ið bara ekki 25 % afsláttur? Höfuðstóllinn greiddur á táknrænan hátt. Skuldum við þeim nokkuð meira ? Vill Steingrímur og VG kannski borga kolefnisskatt á þap líka og draga það frá losunarheimildunum sem hann ætlar að afsala þjóðinni?

Án gamans þá borgaði Landsbankinn tryggingar eftir breskum lögum. Þeir eiga enga kröfu á íslensku þjóðina eins og Loftur Altice Þorsteinsson verkfræðingur er margbúinn að færa rök fyrir.

Steingrímur getur legið flatur fyrir framan guðinn sinn AGS og Jóhanna fyrir framan Brüsselvaldið. Þjóðin telur sig ekki skulda neinum neitt útaf þessu Icesave þó að þessi hjú vilji óð og uppvæg leggja á hana drápsbagga til frambúðar. En fyrst gætu þau svarað grundvallarspurningunni.

Eiga einhverjir einhliða vextir við í Icesave deilunni ?


"Ekkert það myrkur er til ?"

 

Guðmundur Andri Thorsson skrifar vandlætingargrein „Ekkert það myrkur er til ?"  í Baugstíðindin í dag. Greinin er í hefðbundnum Samfylkingarstíl. Hamast á Sjálfstæðisflokknum, Davíð, Geir,Bjarna, Þorgerði, Illuga og svo jafnvel Ólafi Forseta líka til að gefa greininni víðsýnan svip.

Allt er öðrum en þjófunum sjálfum að kenna. Þessi pottaslagari af Austurvelli sem styður þá ríkisstjórn leynt og ljóst sem lætur Arion banka afhenda til dæmis Ólafi í Samskip fyrirtækið til baka eftir að hann hramsaði  til sín 18 % af eigin fé Kaupþings í skjóli aðstöðu sinnar, afhendir svo Jóhannesi í Bónus Haga til baka eftir að fjölskyldan hefur tapað þúsund milljörðum af fé bankanna sem hún lánaði sjálfri sér með misbeitingu.

Guðmundur segir:

„ Enginn þeirra sem léku aðalhlutverkin í þessum leik á afturkvæmt. Einstaklingarnir eru hrifnir með í þessum feiknum og berast með flaumnum, hver í áttina að sínum óhjákvæmilega stað. Ekkert verður sem áður. Þeir atburðir sem við lifum nú í kjölfar Skýrslunnar eru stærri og meiri en svo að nokkur einstaklingur fái stöðvað þá eða snúið þeim sér í hag."...

Sem sagt, allt stjórnmálafólkið er „down and out." En ekki endilega banksterinn, hann jafnar sig með tímanum.

„..... Nokkrir lykilþátttakenda hafa brugðist við Skýrslunni þó að flestir þeirra reyni enn að fela sig inni í gosmekkinum, nú þegar þeir geta ekki lengur dulist inni í Icesave-moldviðrinu. Því eins og segir í Jobsbók 34:22: "Ekkert það myrkur er til eða niðdimma þar sem illvirkinn geti falist."

Ekki byrjaði það vel. Það var beinlínis líkamlega óþægilegt að sjá Geir Haarde birtast daginn eftir Skýrslu eins og sjálfan Pontíus Pílatus. Hann sagði nei. Nei og nei og nei-nei-nei: ekki ég, ekki við, og alls ekki Davíð. Þegar maður heyrði og sá þennan Herra Hrun svona gersamlega ósnortinn af öllu endurlifði maður þessa skelfingardaga veturinn 2008 þegar hann var daglegur gestur í sjónvarpi að fullvissa okkur um endaleysur....."

Sem sagt, Sjálfstæðisflokkurinn orsakaði fall Lehmansbræðra. Það var Geir og Sjálfstæðisflokkurinn sem orsakaði hrunið á alþjóðamörkuðum sem vildu ekki lána banksterunum meira.

„....Illugi Gunnarsson og Björgvin G. Sigurðsson hafa báðir ákveðið að horfast í augu við raunverulega stöðu sína og láta af þingmennsku. Gott hjá þeim, fari þeir vel. Og Þorgerður Katrín. Heyrst hefur að ósanngjarnt sé að hún skuli gjalda fyrir lánabrask eiginmanns síns, en málið snýst ekki um það. Í merkri ræðu sinni á Flokksstjórnarfundi Sjálfstæðisflokksins tók hún á sig ábyrgð á stefnu- og aðgerðaleysi ríkisstjórnar Geirs Haarde og virtist afsögn hennar fyrst og fremst vera út af þeim áfellisdómi sem störf þeirrar ríkisstjórnar hlýtur í Skýrslunni. Hún dregur sem sé sínar eðlilegu pólitísku afleiðingar af því sem þar stendur. Gott hjá henni. Fari hún vel.

Rétt eins og Ingibjörg Sólrún gerði í sinni ræðu hjá Samfylkingunni: Hún hafði manndóm til að standa frammi fyrir því fólki sem trúði henni til þess á sínum tíma að vera í fararbroddi við siðbót íslensks samfélags og segja: Ég brást bæði sjálfri mér og ykkur og kjósendum.

Gerum ekki lítið úr því sem þessar konur hafa gert. Þær hafa gert afneiturum erfiðara um vik, skapað hollan þrýsting á aðra þá sem brugðust í aðdraganda hrunsins - Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson og alla hina sem tóku afdrifaríkustu ákvarðanirnar um íslenskt efnahags- og fjármálalíf.

Og Bjarna Benediktsson sem telur sig hafa gert hreint fyrir sínum dyrum, vafningalaust, en er nokkurn veginn einn um það. Hann var flæktur í eitt ógeðfelldasta gróðabrall glópagullaldarinnar, þegar Sjóvá var tæmt. ..."

Þá sjá menn upptalninguna á því hverjir séu aðalleikendurnir. Þeir skulu sóttir til ábyrgðar og varpað í ystu myrkur. Hvað gera heimilin í skjaldborginni við tár Ingibjargar Sólrúnar eða Þorgerðar? Borga þau uppboðshaldaranum með þeim? Með hverju eiga 17000 atvinnuleysingjar að borga af lánum sínum ?

Eins og tár, öskur og óhljóð Guðmundar Andra breyti hætishót hjá þessu fólki? Svik og ræfildómur stjórnarinnar sem Guðmundur Andri barði inn með pottum sínum er vandamál þessa fólks. En það getur hann ekki skilið í einfeldni sinni. Hann er áskrifandi að skáldastyrkjum frá ríkisstjórninni  og líður ekki skort.

...."Að ekki sé talað um banksterana sem nú segja: það átti að líta eftir mér, ég var bara villingur, ég var alltaf að bíða eftir því að einhver stoppaði mig. Þeir eru sinnar og okkar ógæfu smiðir. Þeir eiga nú loksins að reyna að haga sér eins og fullorðnir menn. Þeir eiga að koma heim með sinn rangfengna auð og skila honum, játa syndir sínar, finna sér heiðarlega vinnu, temja sér dyggðir, leita ljóssins. Því að ekkert það myrkur er til þar sem þeir geti falist. „

Já greyin þessi. Þeirra eru bara smámál. Þeir kannski gera einhvern tímann yfirbót og verða góðir strákar. Aðalatriðið er að Store Stygge Ulv, Sjálfstæðisflokkurinn, verði barinn til óbóta.

Heldur Guðmundur Andri Thorsson að allt verði fínt ef Sjálfstæðisflokkurinn verður hrakinn útí horn. Upptaldir menn hans klæðist sekk og ösku og verði hýddir fyrir höfuðkirkjum ? Heldur Guðmundur Andri að banksterarnir muni skila einhverju fé af sjálfsdáðum, smápeningum sem þeir telji sig geta séð af? Hæg eru heimatökin fyrir hann að kanna það þar sem þetta eru óbeinir húsbændur hans sjálfs og Samfylkingarinnar. Hefur Guðmundur Andri aldrei reynt að setja sig inn í hugsunarhátt glæpamanna ?

Það eru þjófarnir sjálfir sem eru sekir. Ekki einhverjir aular sem þeir léku á. Aulinn situr uppi með skömmina og reynir hugsanlega að læra af mistökunum. En banksterinn er harðsoðinn krimmi sem ekki lætur sig nema með þumalskrúfum. Vonandi kemur að því að Eva Joly setji þær á. 

Guðmund Andri verður að átta sig á mismuninum í sinni andlegu formyrkvun.

„Ekkert það myrkur er til ?", að það geti ekki orðið enn dimmara ef það smýgur í sálina.

Sjálfstæðisflokksfóbían.

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er í tveimur greinum:
  • 1. „Að standa vörð um frelsi og sjálfstæði Íslands"
  • 2. „Að vinna í innanlandsmálum að þjóðlegri og víðsýnni umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum."

Þessi stefna hefur dugað stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar án þess að þurft hafi breyta einum staf í 80 ár á meðan vinstri flokkarnir hafa stöðugt málað yfir nöfn og númer eins landhelgisbrjótar gerðu eftir því sem vindarnir blésu á miðunum. Það er ömurlegt að hlusta á fólk sem hefur það sem æðsta pólitískt stefnumark, að koma Íslandi undir erlend yfirráð snúa út úr þessari stefnu og rakka Sjálfstæðisflokkinn með því niður í svaðið. Fólk sem á pólitíska fortíð í Kommúnistaflokki Íslands, Sameiningarflokki Alþýðu-Sósíalistaflokknum, Alþýðubandalaginu, Vinstri Grænum, Alþýðuflokkurinn,Bandalagi Jafnaðarmanna,Þjóðvaka, Samfylkingu. Alltaf gamalt vín á nýjum belgjum til að reyna að lauma meðalinu ofan í trúgjarnt fólk.

Þessi stefnuskrá hefur auðvitað ekki komið í veg fyrir að misjafnir sauðir hafi verið valdir til forystu í Sjálfstæðisflokknum.  En löngum hafa þeir reynst þjóðinni skár en sumir forystumenn annarra flokka. Og svo mun enn verða því að hugsjónagrundvöllurinn er sá sami og hefur ekki breyst.Til Sjálfstæðisflokksins hefur frjálsborið fólk leitað á öllum tímum, fólk sem hleypur ekki á eftir ismum og tískubólum heldur vill hafa báða fætur á jörðinni, trúa á landið sitt og treysta hvoru öðru.

Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn Þorstein Pálssonar fékkst við aðra tíma en Sjálfstæðisflokkur Ólafs Thors og Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde og núna Bjarna Benediktssonar. Ásýnd flokksins útivið kann að breytast í augum fólks eftir viðfangsefnum líðandi stundar. En grunnstefið er það sama. Frá því hefur ekki verið kvikað þó einhverjir hafi reynt að skrifa eigin tilbrigði um stefnuna með miklum orðaflaumi. Það breytir ekki grunninum sjálfum. Það verður því þungt fyrir fæti fyrir Evrópubandalagssinna að koma því í gegnum landsfund Sjálfstæðisflokksins að ganga í bandalagið.

Í öllu pólitísku starfi gildir að það verður að vera sátt um forystufólkið. Það má ekki geyma beinagrindur inn í skápum sem hringlar í við hvert fótmál. Á Norðurlöndum hafa menn haft þann háttinn á að menn sem lenda í vondum málum, jafnvel upplognum og ósönnuðum eða minniháttar á okkar mælikvarða, stíga umsvifalaust til hliðar til að skaða ekki flokkinn sinn og hans trúverðugleika. Ef til vill verður þróun mála í þessa veru hérlendis ef maður lítur til nýlegra afsagna þingmanna. Þetta hæfileikafólk á yfirleitt greiða leið inn í stjórnmál að nýju þegar andrúmsloftið er orðið öðruvísi og fólk tilbúið að taka það í sátt aftur.

En að rjúka upp eins og kommatittanna er háttur og öskra "niður með stóra Satan Sjálfstæðisflokkinn, bannfærum hann til eilífðar með öllu sem honum fylgir" , er náttúrlega álíka vitlaust og geta ekki átt vini í öðrum flokkum, unnað fólki sannmælis eða unnið með því að sameiginlegum málum.  Menn verða að skyggnast undir yfirborðið og reyna að leita sannleikans og greina hismið frá kjarnanum.

Sjálfstæðisflokksfóbían er nefnilega verst fyrir þá sem eru haldnir henni.  Vonandi  batnar þeim með tímanum.


Tími prófkjöra liðinn?

Ég hef lengst af verið hlynntur prófkjörum til að raða á framboðslista flokksins míns. Uppstillingar eru með því versta sem ég hef lent í. Prófkjörslisti er óumdeilanlegur og útilokar klofningsframboð ef þeir eru virtir.   Ég hef mestan áhuga haft á sveitarstjórnarmálum í gegn um tíðina enda alltaf fundist að í sveitarfélögunum eigi fólkið að ráða sem mestu um eigið líf og næsta umhverfi.

Veikleiki Íslendinga almennt finnst mér vera að ríkið og Alþingi sé með alltof mörg mál á sinni könnu sem betur væri komin í héröðum. Til viðbótar er kosningaréttur til Alþingis svo brenglaður þar sem sumir hafa svo margfaldan kosningarétt á við aðra, að mér þykir það svo viðurstyggilegt að ég get ekki litið á Alþingi með nægilegri virðingu af þeim ástæðum og finnst jafnvel Forsetakjör skárra. Þess vegna sé nauðsynlegt að takmarka viðfangsefni Alþingis þess sem allra mest og losna við afskiptasemi landsbyggðarþingmanna af umferðarmálum í Kópavogi til dæmis. En Alþingi Íslendinga er að ráðstafa um 60-70 % af opinberu fé meðan sveitarstjórnir ráðstafa hinum hlutanum. En þetta hlutfall er jafnvel öfugt í öðrum löndum sem við jöfnum okkur til.

Bensíngjaldið sem við þéttbýlismenn greiðum er til dæmis rifið til framkvæmda á afskekktum stöðum í  héröðum samgönguráðherranna sem venjulega koma úr dreifbýlinu.  Völdin finnast mér því eiga að vera sem mest heima í héröðum þar sem hver maður hefur eitt atkvæði aðeins, en ekki niður við Austurvöll þar sem óréttlætið verður alltaf geigvænlegt meðan kosið er með óbreyttum hætti.

Ég hef hinsvegar haft vaxandi áhyggjur af þróuninni eins og hefur verið í peningaaustri og auglýsingamennsku prófkjöranna. Að þau atriði fæli fólk beinlínis frá þátttöku í stjórnmálum. Þannig fari fólkið á mis við krafta margs góðs fólks sem ekki vill eða treystir sér fjárhagslega til að taka þátt í þeim hráskinnaleik.Það er ekki æskilegt að aðeins efnafólk geti sóst eftir áhrifastöðum eins og maður sér til dæmis í Bandaríkjunum.

Í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kópavogi nú í vor fannst mér svo keyra um þverbak í því að opna prófkjörið uppá gátt og beinlínis smala fólki til þess að ganga að nafninu til í Sjálfstæðisflokkinn á kjördegi án þess að svo mikið sem greiða árgjald. 16 ára börnum var greinilega smalað úr íþróttafélögum og öðrum stjórnmálaflokkum til þess að kjósa þennan frambjóðandann og fella hinn. Ég tók þá persónulegu ákvörðun eftir að verða vitni að þessu að ég mun eftirleiðis ekki skirrast við að ganga í alla flokka til þess að taka þátt í að velja frambjóðendur þó svo að mér komi ekki til hugar að kjósa þá í kosningum.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig við gætum á annan hátt komist betur frá svona máli. Ef ég tek dæmi héðan úr Kópavogi, þá finnst mér að stjórnmálaflokkur geti með einum eða öðrum hætti fundið 22 frambjóðendur til framboðs til 11 manna bæjarstjórnar. Þessum lista sé stillt upp sem framboðslista flokksins. Kjósandinn merki við tölur frá einum upp í ellefu hverja hann vilji kjósa og í hvaða röð.  Þannig verða bæjarfulltrúar valdir. 1. maður, 2. maður og svo framvegis.

Á þennan hátt hefur raunverulegur kjósandi viðkomandi flokks úrslitaáhrif um val fulltrúanna.  Prófkjör og kjör samtímis. Engir aðrir en flokksmenn kjósa fulltrúa flokksins.  Fjársterkustu frambjóðendurnir sjálfir munu sjá um verulegan hluta kostnaðar af framboði flokksins á þennan hátt og í mun meira mæli en áður. Þeir sem eru frægir þurfa ekki að hrópa. Minni þörf verður því fyrir beina styrki til flokkanna en verið hefur.  

Til Alþingis má hafa auðvitað hafa sama lagið á. Tillögur þeirra sem vilja að kjósendur velji fólk af öllum listum finnast mér ekki góðar. Ég álít að stjórnmálaflokkar séu nauðsynlegar stofnanir og þeir sem vilja þá feiga séu ekki að gera sér grein fyrir eðli stjórnmála eða hvernig þarf seð geta náð markvissum árangri. Stjórnmálaflokkar eiga því að njóta ríkisstyrkja eftir einhverjum reglum til þess að draga úr þörf fyrir styrki frá greiðasækjendum. 

Mér finnst kominn fyllsti tími til að hugsa prófkjörin uppá nýtt.

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband