Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Auknar aflaheimildir?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið fyrir nokkru og þar segir hún m.a:


g hef góðar vonir um að atvinnuástand glæðist með vorinu þar sem mikill gangur er í ferðamennsku og tækniiðnaði svo og í sjávarútvegi og áliðnaði. Skortur á aflaheimildum í sumar er áhyggjuefni og hlýtur að verða til þess að gerð verði sérstök athugun á því hvort hægt sé að auka aflaheimildir tímabundið til að kljást við þann vanda innan forsvaranlegra marka".

Jón Kristjánsson fiskifræðingur bendir á það að LÍU hafi keypt sig til meirihlutastjórnar í Hafró með því að gefa rannsóknaskip. Þeir séu á móti auknum fiskveiðiheimildum vegna þess að þá lækki leiguverð á kvóta. Jón bendir á að auðlindin hafi minnkað um 2/3 í vörslu Hafró á aldarfjórðungi samfara margföldun á stærð stofnunarinnar. Þeir hafi á sama tíma keypt sig til áhrifa í Háskóla Íslands og hafi þar áhrif til að halda niðri kvótanum á vísindalegan hátt.

Jón hefur haldið því fram, að það sé skortur á smáfiskadrápi sem veldur stofnstærðarvandmálum þorsksins. Hreint líffræðilega hlýtur að verða að grisja of stóran stofn vegna fæðuskorts eða landrýmis með fækkun allra einstaklinga.  Bændur myndu ekki reka lömb sín á fjall en drepa allar ærnar fyrst. Jón vill framkvæma samanburð á einhverju svæði og leyfa þar frjálsar veiðar til samanburðar við kvótasvæði.

Jón telur að fiskveiðisamfélagið stundi kerfisbundna þöggun gegn sér og sínum hugmyndum af þeirri samtvinnun rannsóknaaðila og hagsmunaaðila sem átt hafi sér stað í íslensku samfélagi. Er þetta ef til vill svo ólíkt því sem gerðist í fjármálageiranum? 

Hefur Jóhönna verið þögguð af einhverjum í  því að tala meira um auknar aflaheimildir?

 


Eliot Ness

Ekki get ég sagt að ég hafi orðið uppnuminn að hlusta á leiðtoga stjórnmálaflokkanna ræða skýrsluna í Kastljósinu í kvöld.

Þarna þurfti maður enn og aftur að hlusta á fullyrðingar Jóhönnu og Steingríms um það, að hrunið hafi orðið vegna frjálshyggjunnar og stefnu Sjálfstæðisflokksins í fyrsta lagi og síðan í öðru lagi vegna þess að sami aðili hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu eftir að vera búinn ásamt samstarfsflokki sínum Framsóknarflokknum að afhenda ríkisbankana í ræningjahendur.

Þarna þurfti maður enn og aftur að hlusta á því haldið fram, að stefna Sjálfstæðisflokksins,sem var samin fyrir 80 árum og þeirra kalla frjálshyggju, hafi endanlega brugðist og eigi beina sök á hruninu.

Ég spyr þetta fólk, voru  AlCapone og Lucky Luciano frjálshyggjumenn ?  Ber að hundelta Eliot Ness og hans menn fyrir að vera svona lengi að stöðva þessa glæpahunda ? Ber að fordæma þá líka sem voru forsetar Bandaríkjanna á þeirra tímum og báru þar með  æðstu ábyrgð á þessum mönnum og gerðum þeirra þar í landi?

Af hverju geta menn þráttað svona lengi um hrunið og hver gerði og hver gerði hvað ekki ? Allt í stað þess að tala um hverjir það voru sem gerðu ? Hverjir voru mennirnir sem framkvæmdu bankaránin? Hvaða fjölskylda er  ábyrg fyrir að að helmingur alls eiginfjár bankanna hvarf ? Hvar eru peningarnir?  Hverjir stjórna meirihluta íslenskrar fjölmiðlunar og stýra fréttaflutningnum ? Hverjir fara með stærstu atvinnufyrirtæki landsmanna enn ? Hverja virðast núverandi stjórnvöld ætla að styðja til áframhaldandi valda og eignarhalds á helstu þeim fyrirtækjum sem almenningur er  upp á kominn ?

Skyndilega er ekki lengur talað um þjófana og bófana heldur af hverju Eliot Ness var svona lengi að stöðva þá?  Það er eins og það skipti höfuðmáli hversvegna ákveðnum kjölfestufjárfestum voru seldir bankarnir svo dómgreindarlaust sem raun bar vitni? Skiptir það minna máli að kaupendurnir reyndust vera ótíndir glæpamenn sem lugu og fölsuðu sín á milli allar staðreyndir um sjálfa sig og hvað þeir ættu af peningum ? Blekktu auðtrúa seljendurna beinlínis sem verða nú líklega gjalda  eigin heimsku með æru sinni ?

Er það skyndilega orðinn sá sem stolið er frá sem er orðinn sekari en þjófarnir sjálfir? Hafa þjófarnir og falsararnir líka ekki heri manns við þá iðju að snúa þessum staðreyndum við og sverta þá stöðugt sem seldu ? Er það ekki sá málflutningur sem almenningur verður að sitja undir í síbylju fréttaflutningsins? Holar ekki dropinn steininn?

Er ekki mesta áherslan lögð á það, að gera alla tortryggilega sem í einhverjum viðskiptum voru við þessa glæpabanka?  Skiptir það meira máli  en  að reyna að endurheimta þýfið hjá þjófunum? Á mönnum endalaust að líðast að valsa um glaðbeittir og tæma bankareikninga á undan lögheimtumönnum?. Eiga þessir menn  að hafa allt frelsi í heimi til að fela, svindla  og svíkja eins og ekkert hafi í skorist? Og nú síðast að fá eignarhald yfir sínu fyrra veldi  með atbeina ríkisvaldsins,  sem nú er búið að endureinkavæða bankana með nýjum eigendum sem enginn þekkir raunverulega hætishóti betur en í fyrra skiptið hverjir eru?

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er í tveimur greinum:

  • 1. „Að standa vörð um frelsi og sjálfstæði Íslands"
  • 2. „Að vinna í innanlandsmálum að þjóðlegri og víðsýnni umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum."

Þessi stefna hefur dugað stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar án þess að þurft hafi breyta einum staf í 80 ár á meðan vinstri flokkarnir hafa stöðugt málað yfir nöfn og númer eins landhelgisbrjótar gerðu eftir því sem vindarnir blása. Það er ömurlegt að hlusta á fólk sem hefur það sem æðsta pólitískt stefnumark, að koma Íslandi undir erlend yfirráð snúa út úr þessari stefnu og rakka Sjálfstæðisflokkinn með því niður í svaðið.

Þessi stefnuskrá hefur auðvitað ekki komið í veg fyrir að misjafnir sauðir hafi verið valdir til forystu í Sjálfstæðisflokknum.En löngum hafa þeir samanlagt reynst þjóðinni skár en margir forystumenn annarra flokka.Og svo mun enn verða því að hugsjónagrundvöllurinn er sá sami og hefur ekki breyst.Til Sjálfstæðisflokksins leitar frjálsborið fólk á öllum tímum, fólk sem hleypur ekki á eftir ismum og tískubólum heldur vill hafa báða fætur á jörðinni, trúa á landið sitt og treysta hvoru öðru..

Það er ömurlegt að hlusta á gamla kommúnista eins og Steingrím J. Sigfússon  vaða elginn og tönglast á því að frjálshyggjan hafi brugðist og því verði stjórnlyndið og frelsissviptingin að taka við undir þeirra stjórn. Menn sem bera hrundustu hugsjónaborgir heimsins á herðum sér vita núna allt um hvert þjóðfélagið skuli stefna þó þeir láti öðrum eftir bæði stýrið og kompásinn.Sigla aust-west eins og Oddur. 

Ísland mun þá fyrst rísa úr öskustó kreppunnar  þegar hin borgaralegu gildi ná aftur hljómgrunni meðal fólksins, þegar atvinna gefst aftur fyrir vinnufúsar hendur.Þegar eign fyrir alla verður orðin reglan í þjóðfélaginu en ekki undantekningin. Það verður hinsvegar ekki í tíð núverandi ríkisstjórnar, svo mikið er fyrirsjáanlegt.

Það er atvinnulífið sem öllu máli skiptir fyrir endurreisn þjóðarinnar. Þar verða allir að leggjast á eitt. Áfellumst því ekki Eliot Ness eða hans menn þó þeim hafi gengið seint að ná bófunum. Reynum  heldur að hjálpa þeim til góðra verka svo að borgarar landsins geti verið óhultir um sparifé sitt og snúið sér að þarfari störfum við uppbyggingu þá sem framundan er.


"Þetta eru asnar Guðjón !"

Grunaði mig ekki, skýrslan komin eftir hver veit hversu marga milljarða.Útgáfudagurinn væntanlega valinn með tilliti til komandi sveitarstjórnarkosningar.

 Og hvað stendur svo í henni ?

Allt sem við vissum áður samantekið á einn stað. Aðalgerendurnir eru þeir sömu og alltaf er verið að hafa yfir nöfnin á nema ný nöfn bætast við.   Davíð Oddsson er aðalsökudólgurinn, primus motor að ógæfunni og svo auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn sem var bara persóna Davíðs og einhverjir jessmenn sem hann reið við fast taumhald og svo skjálfandi ræflar frammi á gangi. Lýsingar á hruninu fyrir mörgum árum, hver stal hverju þá. Ekki hver stelur hverju núna.

Allir brugðust í kerfinu þá nema sá sem er til yfirheyrslu fyrir nefndinni  í það og það skiptið. Sigurjón Digri viðurkennir að hann hafi alltaf grunað að Björgólfarnir ættu sér húsbændur enda ætti hann manna best að vita það þar sem fyrsta útibú þeirra  var opnað í Leningrad. Fullt af viðbótarupplýsingum um hvaða Sjálfstæðismenn of Framsóknarmenn fengu hversu mikil lán á einhverjum tímum. Stöku maður úr öðrum flokkum slæðist með en hann er þá líka yfirleitt pólitísk þátíð.

Nettó niðurstaðan er sú sem kommúnistastjórnin stefndi að. Draga athyglina frá því hvernig hún er að leika þjóðina með svikum og aðgerðaleysi í öllu því sem skiptir máli og rakka niður Sjálfstæðisflokkinn með því að persónugera hrunið í fólki sem honum tengist. Til lengri tíma dugar ekkert nema róttæk úthreinsun allra borgaralegra eiginda til að endurfæða þessa Þjóð á vinstri grænum ódáinsvöllum, saklausa og hreint hugsandi. Allt gamalkunnar hugsjónir sem hafa verið reyndar í mismunandi útfærslum frá Mussólíni til Pol Pot.

Hvernig skyldi sú framtíð Íslands eiga að líta út ? Verða farnar 1.maí göngur að grafhýsum Steingríms J. og Jóhönnu ? Fólksins sem færði þjóðina aftur til hamingunnar og hins einfalda lífs með því að reyta burt arfann? 

Til skemmri tíma skal reynt að eyðileggja framboð Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarmálum með því að setja skýrsluna fram fyrir kosningarnar.  Í Kópavogi birtist þetta með því að birta tölur um skuldastöðu Ármanns Kr. Óllafssonar efsta manns á lista á einhverjum tíma fyrir þremur árum. Svoleiðis mál þýðir ekki að útskýra í komandi kosningabaráttu þar sem dómur er fallinn án þess að hlusta á sakborninginn. Það er alveg sama hvað Ármann segir, Guðríður mun vita betur. Allir sem viðskipti hafa stundað eða rekið fyrirtæki skulu gerðir tortryggilegir. Aðeins opinberir starfsmenn eru kjörgengir í pólitík hér eftir.

Nú geta fjölmiðlarnir, bæði ríkisfjölmiðlarnir og þeir sem aðalvíkingarnir eiga,  hakkað á þessu öllu og vandamál dagsins eru gleymd.  Ekkert skiptir lengur máli í nútíð eða framtíð. Svínaríið heldur áfram í bönkunum sem enginn kannast við að vita hverjir eiga, afskriftir á aðalleikendurna halda áfram og afhending fyrirtækjanna til þeirra gengur á fullu. Atvinnuleysið, landflóttinn, aðgerðaleysið, ekkert skiptir máli nema pólitískar nornaveiðar ríkisstjórnarinnar sem fjölmiðlarnir dýrka  flestir.

Karpið heldur áfram. Máttvana réttarkerfið getur ekkert gert. Allt gufar upp áður og ekki næst í neitt til baka. Í framtíðinni verður eiithvað sent til saksóknara. Síðan fer það til Hæsaréttar. Einhverjir geta átt vona á heimsóknum á elliheimilin í framtíðinni. Allt ein háðung fyrir hinn venjulega skuldaþræl.

Kreppan heldur áfram og á henni eru engar lausnir nema tilfallandi túrismi vegna eldgossins. Stýrðar uppákomur eins og skýrsluútkoman draga athyglina frá nútíðinni og framtíðinni og búa í haginn fyrir langtímaáætlanir Samfylkingarinnar.

"Þetta eru asnar Guðjón !"

 


Ekki benda á mig...!

segir varðstjórinn, þetta kvöld var eg að æfa lögreglukórinn.

Nú er skýrslan komin. Allt brást sem brugðist gat. Þetta lið sem gekk með nefið uppí loftið af merkilegheitum voru þá bara venjulegir asnar. Ekki flóknara en það. Nú hefst seinni kaflinn þar sem allir segjast saklausir. Bara hinir sem brugðust. Ingibjörg Sólrún er byrjaði. Hún er alveg saklaus. Állir vissu að hvorki Össur né Jóhanna vissu nokkurn skapaðan hlut úr fyrri stjórnum.

Ég sá auglýsta stöðu bankastjóra Landsbankans. Ég fór að hugsa að ég gæti alveg verið bankastjóri þar eins og þeir sem þar hafa verið og skilað borðliggjandi árangri.

 Á ég ekki bara að sækja um ? Er nokkuð gefið að ég sé vitlausri en hinir ?

 


Það skal í ykkur !

Í ritstjórnargrein Baugstíðinda skrifar Ólafur eftirfarandi:

"....

Þriðja skrefið, sem mun hjálpa okkur við endurreisnina, er að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins samþykki að hefja formlegar aðildarviðræður við Ísland. Aðildarviðræður eru skýr yfirlýsing af Íslands hálfu um að stefnt sé að því að regluverk og eftirlit hér á landi sé með sama hætti og í ríkjum Evrópusambandsins og að þær umbætur, sem þar eru nú til umræðu, komi einnig til framkvæmda hér á landi. Þær eru sömuleiðis yfirlýsing um að stefnt sé að því að taka upp trúverðugan gjaldmiðil og beita þeim aga við hagstjórnina, sem nauðsynlegur er til að taka þátt í myntbandalagi. Þetta mun efla traust umheimsins á íslenzku efnahagslífi.

Það er rétt, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði í viðtali við þýzkan blaðamann, að fáir virðast þora að taka pólitíska forystu fyrir aðildarumsókninni þessa dagana. Ályktun hennar er hins vegar röng. Þetta þýðir ekki að fresta eigi umsókninni, heldur að fólk í öllum flokkum, sem hefur trú á að ESB-aðild muni stuðla að því að efla hagsæld og samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs til lengri tíma, láti rækilega í sér heyra. Það er ekkert nýtt að í upphafi aðildarferlis sé stuðningur við ESB-aðild lítill. Það átti við í ýmsum núverandi aðildarríkjum ESB en dró ekki kjarkinn úr stjórnmálamönnum, sem höfðu trú á eigin málstað...."

Það vantar ekki einbeitnina í þessum nýlega viðtakandi leigupenna Baugs og Samfylkingarinnar. Daginn áður lagði ritstjórinn útaf orðum bankamanns nokkurs sem skrifaði..." Ég geri allt sem þú segir mér..." Spurning er hvert samband ritstjórans er við eiganda blaðsins og Samfylkinguna sem hafa hinar réttu skoðanir? Það er ekkert pláss fyrir raunsæi Ingibjargar Sólrúnar sem kallar þó ekki allt ömmu sína í umgengni við staðreyndir.

Þetta staðfestir orð kratans vinar míns um að það verði bara að kjósa aftur og aftur þangað til að samþykki fæst.

Það skal í ykkur

 


Þjóðarblóm Íslands.

Í Baugstíðindum á laugardaginn stendur eftirfarandi: 
"Ráðherra lýsir stríði á hendur lúpínunni
Takmarka á tjón af völdum alaskalúpínu hérlendis með því að hefta útbreiðslu hennar og uppræta þar sem hún veldur skaða. Umhverfisráðherra segir nýja áætlun eiga að sameina sjónarmið náttúruverndarsinna og landgræðslufólks.
umhverfismál Ræktun lúpínu á Íslandi verður stórlega takmörkuð frá því sem nú er, samkvæmt nýrri áætlun umhverfisráðuneytisins..

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fól í nóvember í fyrra þeim Sveini Runólfssyni landgræðslustjóra og Jóni Gunnari Ottóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, að gera áætlun um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu alaskalúpínu og uppræta hana þar sem hún sé óæskileg. Niðurstaða þeirrar vinnu var kynnt á blaðamannafundi í umhverfisráðuneytinu í gær. Einnig var fjallað um plöntuna skógarkerfil sem eins og lúpínan reyndist útbreiddari á hálendinu og friðlýstum svæðum en áður var talið. Skýrsluhöfundar leggja til að setja þessum tegundum strangar skorður til að takmarka neikvæð áhrif þeirra en jafnframt nýta lúpínuna á völdum svæðum til landgræðslu og ræktunar.

Meðal annars er lagt til að gerð verði lagabreyting þannig að ræktun lúpínu verði algerlega bönnuð í yfir 400 metra hæð yfir sjó í stað 500 metra áður. Skipa á sérstaka aðgerðastjórn vegna baráttunnar við þessar plöntur sem fyrst voru fluttar til Íslands í kringum árið 1900 og eru nú farnar að drepa niður annað plöntulíf.

"Á ári líffræðilegrar fjölbreytni þarf að huga sérstaklega að þeim þeim þáttum sem varða ágengar tegundir. Þar hefur farið fremst í flokki alaskalúpínan," sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

Sigurður H. Magnússon frá Náttúrfræðistofnun Íslands sagði áhrifaríkustu leiðina til að eyða lúpínu vera að úða hana með eitri. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri sagði aðspurður á fundum að sú aðferð væri ítarlega rannsökuð og myndi ekki valda skaða ef rétt væri staðið að verki. Sauðfjárbeit og sláttur lúpínunnar eru tvær aðferðir sem einnig voru nefndar. Báðir vildu Sveinn og Sigurður þó fyrst og fremst höfða til almennings að vera meðvitaðan um óæskileg áhrif lúpínunnar.

"Lúpínan hefur alltaf fengið blóðið til að renna í fólki, einhverra hluta vegna," svaraði Svandís spurð hvort hún ætti jafnvel von á pólitískum deilum vegna hinnar nýju stefnu ráðuneytisins. "Bæði náttúruverndarsinnar og landgræðslusinnar hafa haft á þessu miklar skoðanir - eðlilega vegna þess að þarna er um mjög kraftmikla plöntu að ræða sem er frábær landgræðsluplanta en um leið mjög ógnandi við náttúrulegt umhverfi. Það sem ég er að freista þess að gera með þessari vinnu og þessari skýrslu er að leiða þessi sjónarmið saman og leita leiða til að stemma stigu við lúpínunni þar sem hún á alls ekki heima."

Þetta er ekki fyrsta atlaga sem fólk af vinstra vængnum gerir atlögu að þeirri jurt sem frekar en nokkur önnur verðskuldar nafnið þjóðarblóm Íslendinga. Nýbúinn, Alaskalúpínan, sem Hákon Bjarnason flutti til landsins eftir seinna stríð hefur klætt örfok þessa lands gróðurteppi. Himinbláar breiður bylgjast í blænum þar sem áður voru hrjóstur ein. Mýrdalssandur er orðin hættulaus bílum þar sem sandurinn hefur verið bundinn af þessari einstöku jurt. Á Haukadalsheiðum hefur sandfok stórlega verið minnkað á sama hátt. Engin rök hafa komið fram af hálfu landeyðingarmanna um skaðleg áhrif lúpínu. Allur málatilbúnaður ráðherrans og skósveina hans er því ómerkur og staðlausir stafir. Meint tjón er aðeins huglægur smekkur sérvitringa en ekki vísindaleg rannsókn.

 Það er illt til þess að vita að Jón Gunnar Ottósson skuli standa að frásögn um að lúpínan hafi verið flutt inn um 1900 án þess að geta fóstra síns Hákonar Bjarnason. Sjaldan launar kálfur ofeldið. Hernaður Svandísar gegn framfaramálum þjóðarinnar er orðinn ærinn og það tjón sem hún er þegar búin að valda þó að hún ráðist ekki líka fram til að vinna spjöll líka á gróðurfari landsins. Nóg var samt. 

Ég er ekkert viss um að lúpínan kæri sig mikið um að vaxa fyrir ofan 400 metra hæð eða 500. Að undirbúa eiturefnahernað gegn landinu á boðaðan hátt fyrir skattfé almennings yfirgengur mann gersamlega. Ingibjörg Sólrún sendi útrýmingarsveitir í Öskjuhlíð fyrir skattfé Reykvíkinga til að rífa upp lúpínu. Ingibjörg Sólrún  er orðin pólitísk þátíð en lúpínan er fegurri en nokkru sinni fyrr. Bráðum verður Svandís líka orðin þátíð í íslenskum stjórnmálum, því fyrr því betra,  og þessi vitleysa verður gleymd og grafin. Lúpínan mun lifa hana af og halda áfram að klæða landið.

Lúpínan er ekki ræktuð nema rétt fyrst þegar hún er flutt á nýjan stað.Síðan ræktar hún upp landið. Hún víkur af sjálfu sér fyrir skógi og öðrum gróðri þegar hún hefur skapað jarðveginn.

Það er auðvelt mál að gera átak í því að dreifa fræjum þjóðarblómsins yfir klungur þessa lands sem allra víðast. Ég er fús að starfa að slíkum málum. Ég held að eiturmenn og upprífarar muni tapa þeirri baráttu fyrir vinum landsins ef þeir færu að beita sér. Það verður aldrei nóg af gróðri í þessu landi sem ætti að höfða til kolefnisjöfnunarsinna eins og maður hélt að kommatittirnir væru flestir. Þeim mun meiri gróðurþekja, þeim mun meiri útblástur þolum við samkvæmt þeirra Kyotoreikningsbókum.

Stöndum vörð um Alaska-lúpínuna Íslendingar !  Þetta er góður nýbúi  landsins sem það þarf svo skelfilega mikið á  að halda til að bæta fyrir misgerðir og rányrkju feðranna á fósturjörðinni í 1100 ár. Heiðrum minningu Hákonar Bjarnason skógræktarstjóra sem færði okkur hana. 

Leggjumst ekki í eiturefnahernað gegn himinbláum breiðum Alaskalúpínunnar. Hún er sannkölluð þjóðargersemi.

Sannkallað þjóðarblóm Íslands.    


Hver hefur séð peningana ?

Úr Mogga: 

"Fréttablaðið hefur í dag eftir Ingibjörgu Pálmadóttur, stjórnarformanni 365 miðla, sem meðal annars gefur blaðið út, að eins milljarðs hlutafjáraukningu í félaginu er lokið. Fer Ingibjörg með 90,2% af atkvæðisbæru hlutafé en hún og Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, eiga hlutaféð saman.

Fram kemur í frétt blaðsins að hlutafé 365 miðla nemi nú um þremur milljörðum, um 2,4 milljörðum í A-hluta og um 600 milljónum í B-hluta. Fyrir utan 90,2% hluts Ingibjargar og Jóns Ásgeirs í A-hluta  á Ari Edwald forstjóri 365 miðla 5,9% hlut og Stefán Hilmarsson, fjármálastjóri, 3,8%.

Ingibjörg segist ekki vilja upplýsa hverjir séu eigendur að  B-bréfum 365 en segir að það séu  þöglir hluthafar sem fari ekki með atkvæði í félaginu."

 Hver lagði 600 milljónir í útgáfufélag Fréttablaðsins  sem aldrei hefur greitt arð? Hver sá þessa peninga og hvar eru þeir núna ?

Hver hefur séð þessa peninga ?


Ingibjörg Sólrún sannar sig !

Allan pólitíska feril Ingibjargar Sólrúnar hefur hún vakið sérstaka aðdáun mína. Hvernig hún gat komsit áfram á einföldum hlutum. Það var sama hvaða mál komu upp, þá dró hún saug hún djúpt andann og sagði,"en Sjálfstæðisflokkurinn " og síðan kom löng upptalning á misgerðum þess flokks. Eða þá upptalning á misgerðum Davíðs Oddssonar. Rukkuð um hversvegna hún hefði ekki staðið við gefið loforð um að vera áfram í Borgarpólitík en ekki fara í landsmálin, svaraði hún einfaldlega: " Það var þá."
Og komst auðvitað upp með það.
Þannig komst hún ég gegnum alla skerjagarða á ósvífni og samanburðarpólitík. Ég var eiginlega viss um að það yrði ekki langt á milli endaloka Davíðs í pólitík og hennar.
Nú birtist hún enn á forsíðu málgagns Samfylkingarinnar á síðasta föstudag.
Yfirskriftin er:   
" Ingibjörg Sólrún óttast ekki að verða dregin fyrir dóm "
Fyrrum utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur fengið að sjá fjórar síður úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og segist næsta viss um að hún verði ekki sótt til saka samkvæmt stjórnsýslulögum eða lögum um ráðherraábyrgð. Í aðdraganda efnahagshrunsins hafi efnahags- og fjármál enda verið á borðum annarra ráðherra.

Þetta kemur fram í viðtali við Ingibjörgu á High North, heimasíðu þýsks blaðamanns hjá Focus og Financial Times en hann ræddi við fyrrum ráðherrann í vikunni.

"Það gætu orðið lagaflækjur, en það á ekki við um mig," segir Ingibjörg. Í viðtölum við rannsóknarnefndina hafi hún ekki getað upplýst um margt. "Sem utanríkisráðherra hafði ég ekki mikið á borðinu sem snerti fjármálageirann. Þetta var aðallega á borði forsætisráðherra sem bar almennt séð ábyrgð á efnahagsmálum og Seðlabankanum," segir Ingibjörg: "Einnig á borði viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðherra. Hinir vissu líklega mun meira en ég."

Ingibjörg segist ekki sjá neitt það sem hún hefði getað gert betur í ríkisstjórn í aðdraganda hrunsins. Þó hefði pólitískt séð átt að gera meiri kröfur til samstarfsflokksins í upphafi samstarfsins, svo sem um breytingar á stjórnsýslu. Það hafi verið mistök að telja Geir Haarde sjálfstæðan formann, en ekki fastan í skugga Davíðs Oddssonar.

Að ganga til ríkisstjórnarsamstarfsins hafi þó ekki verið mistök, því annars hefðu sjálfstæðismenn myndað stjórn með VG, sem hefði ekki verið betra: "Það er margt sem sameinar þessa flokka, til dæmis þjóðernishyggjan og andstaðan við Evrópusambandið," segir Ingibjörg, sem hefur miklar áhyggjur af vegferð Íslands í ESB. Enginn tali fyrir því að Ísland gangi inn, enda sé það ekki líklegt til vinsælda. Aðildin verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. "

Er þetta ekki dásamlegt ? Hún vissi ekkert frekar en Jóhanna Sigurðardóttir hvert stefndi. Björgvin Sigurðsson sagði henni ekkert. Það er allt Sjálfstæðisflokknum að kenna hvernig fór, Geir Haarde var bara búktal Davíðs Oddssonar.

Nú standa yfir aðildarviðræður við ESB. Niðurstaðan verður felld í þjóðaratkvæðagreiðslu segir Ingibjörg. Ég spurði einn ágætan eðalkrata vin minn hvað þá yrði gert. " Þá verðu bara kosið aftur og aftur þangað til þetta verður samþykkt "sagði sá vísi krati.

Ekki benda á mig,segir varðstjórinn !

Ingibjörg Sólrún sannar sig enn og aftur fyrir mér.


Hvað kostar skýrslan?

Er ekki hægt að fá uppgefið hvað stóra skýrslan kostar  ? Þarf ekki þjóðin að vigt árangurinn á móti kostnaði ?

Hvað kostar skýrslan?


Charlie Brown ?

"Sæll Steingrímur,
 
Ég hef lengi orðið að búa við það, að ráðamenn landsins hafa gefið sér niðurstöðu í málum sem að mér snúa. Í átta ár virtust stjórnarherrar landsins telja að harður dómur væri það eina, sem komið gæti til greina í málarekstri ákæruvaldsins gegn mér. En niðurstaðan, sem fékkst þegar mál höfðu verið skoðuð ofan í kjölinn varð önnur.  Dómur Hæstaréttar, sem siðað samfélag hefur ákveðið að sé endanlegur, var á allt aðra lund en sleggjudómar valdsmanna.

Í ljósi þessarar forsögu fer ég þess á leit við þig og aðra æðstu ráðamenn landsins, að þið sitjið á ykkur þegar ávirðingar eru bornar á borgara þessa lands. Öll mál eiga sér fleiri en eina hlið. Sú hlið sem kemur fram í stefnu eins aðila er bara ein hlið.  Ráðherra hefur engar forsendur til að meta gildi hennar frekar en hver annar – enda er það ekki  hans hlutverk.  En ábyrgð hans er mikil.

Ég bið þig þess vegna allra vinsamlegast að leyfa þeim yfirvöldum, sem við höfum komið okkur saman um að til þess séu bær, að fjalla um hugsanleg dómsmál sem að mér snúa áður en þú kynnir þína einkaniðurstöðu fyrir þjóðinni.  Ég þykist vita, að þinn dómur, sem verður til fyrir framan myndavélar sjónvarpsstöðvanna á örfáum augnablikum, hefur meiri áhrif en velviljaður stjórnmálamaður raunverulega vill.  

Það er eitt að nota stór orð í umræðum í þingsal þar sem allir málsaðilar eru viðstaddir og geta brugðist við á sama vettvangi, en annað - og í eðli sínu gerólíkt - þegar sá sem orðin beinist gegn hefur ekki þann vettvang.

Kveðja,

Jón Ásgeir Jóhannesson "


Af hverju er menn alltaf að pikka í hann Charlie Brown ?

Er þetta nokkuð nema viðskiptamál eins og þegar Gaumur keypti Baug með hans eigin  peningum ? Nú fær ríkisstjórnin algert frí á meðan við tölum um löngu skýrsluna og gosið á Fimmvörðuhálsi. Algert frí frá vandamálum fólksins, atvinnuleysinu, aðgerðaleysinu. Þjóðin getur nú væntanlega hatað Davíð og Sjálfstæðisflokkinn sem aldrei fyrr þegar RÚV verður búið að hakka á skýrslunni.

Aumingja Charlie Brown.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband