Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Góður leiðar í Mogga!

Leiðari Mogga í dag ber yfirskriftina: 
"Áhyggjur ESB
Vandræðagangurinn um aðildarviðræður við Evrópusambandið fer vaxandi. Evrópusambandið sjálft er í uppnámi. Atvinnuleysi í Frakklandi og Spáni er með ólíkindum, ekki síst hjá fólki undir fertugu, þar sem það er nærri 40 prósent. Það er þó vinnuaflið sem í hverju landi er sveigjanlegast, en hugmyndafræði ESB gengur meðal annars út á hreyfanlegt vinnuafl.
Og allir vita um hremmingarnar sem vonarmynt sumra Íslendinga er að ganga í gegnum. Við þessar aðstæður er Samfylkingin að reyna að ýta Íslendingum nauðugum inn í ESB. En nú hafa búrókratarnir í Brussel ekki aðeins áhyggjur af hræðilegu atvinnuleysi ungs fólks í sambandinu og myntinni sem er að molna sundur.
 Í nýlegri skýrslu kemur fram að búrókratarnir hafa áhyggjur af krötum á Íslandi og eru sumir þeirra þó búralegir. Segja þeir í skýrslu sinni um aðildarviðræðurnar, dagsettri 17. maí, frá því áhyggjuefni að Samfylkingin á Íslandi sé að tapa fylgi. Svo merkilegt sem það hljómar virðast brusselmenn einnig hafa áhyggjur af því að á sama tíma fari fylgi VG vaxandi. Það er þó ríkisstjórnarflokkur líka og ber sem slíkur fulla ábyrgð á bjölluatinu í Brussel.
Og enn eitt er athyglisvert í þessari öskugráu skýrslu búrókratana. Þeir segja að »margir« efist um að »forysta« Samfylkingarinnar í ríkisstjórn sé hæf til að leiða hana. Þarna tala diplómatar og búrókratar og slíkir opna ekki munninn um svona mál nema að hafa bæði kartöflu og sveskju upp í sér á meðan.
 Hver er þessi »forysta« sem »margir« telja ófæra um að leiða ríkisstjórnina, og hver er hann þessi »margir«? Tveir einstaklingar skipa forystu Samfylkingarinnar. Varaformaðurinn Dagur berst nú fyrir auknum hagvexti í Háaleitishverfinu og er ekki í ríkisstjórn. Svo ekki er það hann. Og vitað er hver hinn er. Og hver skyldi hann vera þessi »margir« sem hefur vakið athygli á að »hinn« sé óhæfur til að leiða ríkisstjórn Íslands?
Til að finna hann eru tvær vísbendingar hjálplegastar. Leitið að búralegasta kratanum og við þá leit skulu menn byrja á þjóðskránni aftanverðri. Þetta ætti að duga langflestum til árangurs. Fyrir þá fáu sem enn »hafa ekki séð ljósið« má nefna að »margir« lítur upp til sín og talar því iðulega um sig í þriðju persónu. Verðlaun eru ferð til Brussel með MS Evrunni, en athygli er vakin á að enginn hefur fengist til að tryggja ferðina enn sem komið er."
Það er greinilega einhver húmoristi sem gengur laus á Mogganum. Hver skyldi þessi maður vera annars?
Svo les maður Baugstíðindin sem troðið er innum lúguna hjá manni. Þar er alvara málsins kynnt til sögunnar. Arion banki ætlar að leggja sæstreng fyrir allt virkjað afl Íslands til Evrópu og selja úr landi. Kostnað skiptimynt á kvarða Jóns Ásgeirs. 360 milljarðar.(að vísu sinnum pí skv. reynslunni þegar opinberir aðilar eru með áætlanir í pólitískum tilgangi) Spena til Grænlands til að auka enn orkuflæðið til Evrópu.
Og svo skrifar Þórálfur Matthíasson úr Háskólanum um það að það sé gott að eiga sæstreng til Evrópu ef orkuverin okkar stíflist af eldgosum, þá skilst manni að við getum fengið straum þaðan. Og um leið er ekki seinna vænna að fá innflutt ódýr matvæli frá Evrópu og leggja okkar styrkjalandbúnað niður. En eins og allir vita er ekkert styrkjavandamál í landbúnaði til í Evrópusambandinu.
 Og svo sé besta aðferðin til að láta Íslendinga fá straum sé að loka stóriðuverum á Íslandi. Líkleg gerir Þórálfur sér vonir um að fá stöðu í Brussel Sýnist enda nauðsyn á að hann fari að kenna annarsstaðar en í Háskóla Íslands. Það er alger sóun að þessi maður sé að sóa andlegu atgervi sínu á svo fámenna þjóð.En fyrst þarf að borga Icesave með vöxtum er hann búinn að segja og að því fengnu eiga allar styr að standa Íslendingum opnar.
Það er gaman að lesa Mogga þegar vel viðrar í pólitíkinni.



 

Was nun Ögmundur ?

Nú horfir maður á Ögmund í sjónvarpinu steyta sig vegna sölunnar á HS til Magma. Algert prinspípatriði segir þessi maður að halda auðlindunum í eigu þjóðarinnar. Aðrir VG þingmenn láta sér fátt um finnast.Og ekki hefur Steingrímur frekar skoðun á þessu en öðru.

Var hann Ögmundur ekki áður búinn að segja að það væri forgangsatriði að halda uppi atvinnu í landinu ? Samt styður hann ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu sem er að undirbúa niðurskurð uppá 50 milljarða. Ætli það hafi nokkur áhrif á fjölda starfa hjá þeim sem Ögmundur einu sinni bar fyrir brjósti áður en hann fékk ráðherraveikina ?

Var hann ekki eitt sinn á móti inngöngu í ESB ? Samt styður hann ríkisstjórn sem er að eyða sexmilljörðum í alvöru aðildarviðræður við Evrópusambandið ? Sem hann líklega veit að er í algerri óþökk meirihluta kjósenda.  Vonandi þarf hann ekki þessa milljarða til að setja í atvinnutryggingasjóð þegar fyrrum skjólstæðingar hans sem lenda í niðurskurðinum þurfa á bótunum að halda.

Skyldi Jóhanna taka eitthvað mark á þessum byrstingum þingmannsins og ráðherrans fyrrverandi og væntanlega ? Eða bara ekkert mark ?

Á ég að taka ég eitthvað mark á Ögmundi ? Á ég að ímynda mér að VG hafi aðrar hugsjónir en þær sem birtast í því að halda Steingrími J. á ráðherrastóli ? Og hvað með garminn hann Jón Bjarnason sem Jóhanna ætlar að hagræða útaf bara si sona ? Hverslags flokkur er þetta VG fyrirbrigði annars ?

Ögmundur hefur væntanlega hlustað á  Árna Pál boða það í útvarpi að stórfelldur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu sé óumflýjanlegur og lokanir deilda. Er hann með tillögur um það hvert örvasa fólkið á að fara ? Skyldi bara eiga að fleygja því ? Verður hann ekki að horfast í augu við það, að hann verður að leggja til að þjóðinni verði fækkað eigi þetta dæmi að ganga upp ?  Verður ríkisstjórnin sem hann styður að fara að hjálpa fólki til að komast úr landi ef niðurskurðurinn á að ganga upp ?  Kalla færri lögregluþjónar ekki á færra fólk ? Færri sjúkrarúm á fækkun sjúklinga ?  Færri öldrunarpláss á færri öldunga ?  Small is beautiful er tískuorðið núna. 

Þetta allt hlýtur Ögmundur að skilja manna best þegar hann berst við að halda auðlindunum í þjóðareigu. En hvaða þjóðar ? Hversu fjölmenn verður þjóðin þegar þessari ríkisstjórn léttir ?

Was nun Ögmundur ?

 

  

 


Undirstaðan og aðalatriðin

 

Smátt og smátt er ég að reyna að velta fyrir mér atburðunum frá hruninu. Horfa á umhverfið og reyna að skilja hvað bærist með fólkinu og sjálfum mér.

Mér finnst eiginlega að við höfum lent í trúarbragðastyrjöld uppúr þessu öllu saman. Við skiptumst í hópa sem deila mest um það hverjum hafi verið að kenna um að þetta fór svona allt saman. Það voru þeir  Davíð og Halldór sem fóru að selja bankana vinum sínum í stað almennings sem komu þessu öllu af  stað. Allt er þeim að kenna af því að þeir hófu leikinn án þess að geta séð það fyrir hvað yrðu úr kaupendunum þeirra. Sem þá höfðu hreinan tandurhreinan skjöld og voru alls ekki taldir vera verðandi glæpamenn.   Og svo auðvitað öllum flokkunum þeirra sem voru búnir að kjósa þá Halldór og Davíð til forystu án þess að sjá fyrir hvaða vitleysur þeir myndu gera síðar í bankasölumálum. Sem fæstum fannst vera nokkur vitleysa þegar það var gert þó núna sé sá auli vandfundinn sem veit það ekki.

Síðan komu eftirlitin öll. Fjármáleftirlit, Samkeppniseftirlit.   Allt skipað flokksgæðingum af þessum sömu mönnum, þó svo að flokksgæðingur geti alveg eins verið afbragðsgóður maður.  Núna eftir hrunið  sjá menn að Fjármálaeftirlitið var ekki nógu gott og ekki Samkeppniseftirlitið heldur. Einnig Seðlabankinn sem var skipaður venjulegu fólki en ekki spámönnum og sjáendum. Velmenntað fólk með alþjóðlega menntun.Þessi  Seðlabanki undir stjórn þessara manna  brást.  Fjármálaráðherrar brugðust, allir létu blekkjast  og hrunið kom okkur öllum á óvart. Viðbrögð þjóðarinnar  eru niður með Sjálfstæðisflokkinn, niður með Davíð, niður með Halldór, niður með Björgin, niður með Árna Matt. Niður með helst alla. Upp með Jóhönnu og Össur í staðinn af því þau stóðu fyrir utan þetta allt.

Nú vita margir hér  í bloggheimum að minnsta kosti   Sjálfstæðisflokkurinn er  óalandi og óferjandi til eilífðar  vegna þessa skorts á framsýni hins almenna flokksmanns.

Ef ég væri kaupmaður í byssubúð  og seldi manni byssu því hann segðist ætla á rjúpu og gæs, eða jafnvel refi og mink. Þetta er grandvar maður sem borgar byssuna útí hönd. Er ég sekur af því að ég athugaði ekki að hann hafði fengið lánað fyrir byssunni hjá henni  ömmu sinni og borgaði henni ekki til baka. Hún er í stórvandræðum vegna þessa.

 Er ég þá aðalsökudólgurinn  þegar þessi maður fremur rán með byssunni í stað þess að skjóta rjúpur,gæsir , mink eða ref?   Er það lausnin að taka mig til bæna ? Í framhaldi af því stórherða eftirlit með mér svo ég selji ekki fleiri byssur til slíkra manna eða bara engar byssur.Og svo eftirlit með öllum  ömmum sem eiga peninga og gætu lánað barnabörnum fyrir byssum?

Beina athyglinni allri að byssunni, hvað gerð hún er, hvaða hlaupvídd, hálfsjálfvirk eða tvíhleypa. Síðan beina athyglinni af þeim sem voru rændir. Hvernig ég og þú eigum að bæta þeim skaðann. Ræða um nauðsyn þess að banna byssur. Endilega verður að hafa eftirlit með byssum. Hafa eftirlit með byssukaupmönnum og setja strangar reglur um það hvernig við eigum að selja byssur, hvernig byssur  eigum við að selja.? Eða bara banna  byssur ?  Svo er nærtækt að þeir sem ekki hafa keypt sér byssur  hafi miklar skoðanir á byssusölum.  Er ekki rétt að hata alla byssusala ? Allavega suma byssusala ef þeir eru í Sjálfstæðisflokknum til  dæmis og vilja ekki ganga í Evrópubandalagið.

 

 Það er tæknilega  hægt að gefa út dagblað til að endurtaka þennan sannleika á hverjum degi og reka sjónvarpsstöð sem er á sama máli. Og viti menn, allir fara að tala bara um byssusalann og geta gleymt sér við það lengi, lengi. Svo kemur eitt og eitt eldgos inná milli og kryddar tilveruna og við gleymum ráninu á meðan.

Er ekki dálítið undarlegt að athygli okkar beinist eiginlega síðast að manninum sem keypti byssuna og framdi ránið ?   Ef heiðarlegir menn með bankaþekkingu en ekki menn með einbeittan brotavilja hefðu keypt bankana, hefði þá farið svona ? Ef heiðarlegur maður hefði keypt byssuna og ekki framið rán með henni, hefði þá allt verið í lagi?

Við hefðum bara setið uppi með gömlu óhæfu eftirlitsstofnanirnar og pólitíkusana, sem unnu okkur ekki teljandi tjón á fyrri tíð. Hugsuðu mest um eigin hag og náinna vina sinna og svo auðvitað eftirlaunin sín. Smáaurar miðað við ósköpin sem hlutust af manninum sem fór ekki með byssuna á rjúpnaveiðar heldur í bankarán. Allt hefði sullast áfram ídaglegu nöldrinu,

Erum við ekki búin að tapa áttum í öllu þessu moldviðri ? Eltumst við aukaatriðin svo ákaft að við festumst í þeim og skiptumst í trúfélög útaf þessu öllu.  Berjumst innbyrðis um það hver sé verri en hinn í bransanum  sem selur byssur. Gleymum okkur í mannjöfnuði hver sé verri en betri.  Það skiptir meira máli  hver  gleymdi að líta eftir hverjum heldur en hvað af því hlaust.

 Allt annað en horfa á niðurstöðuna:

Það voru  glæpamenn sem náðu byssunum og rændu alla þjóðina. Hún situr uppi með skaðann. Þeir eru búnir að valsa um í 18 mánuði frá hruni til að undirbúa málsvarnir sínar án þess að við höfum lyft litlafingri. Þeir hafa matað okkur á ásökunum og fullyrðingum, rangupplýsingum og gamanefni í bland bara til þess að við gleymum þeim og hvað þeir gerðu. Og þeir eru enn á fullu.

Ég finn að ég hef látið blekkjast með fjöldanum. Ég hef verið hafður að fífli með mörgum  hinum. Rifið mig ofan í  rass við að verja Sjálfstæðisflokkinn,  sem er alls ekki sekur í málinu og framdi ekkert rán. Verja Davíð sem er heldur ekki sekari en byssukaupmaðurinn og framdi heldur ekkert rán.   Ég hef verið svæfður og látinn gleyma því að horfa á þá sem frömdu ránið. Rændu mig persónulega.  Gleymt að horfa á glæpamennina sem misnotuðu traust okkar allra. Héldu mér  uppteknum við að horfa á sjónhverfingar og pottagaldra.

Mér svíður auðvitað að hafa verið það fífl að láta fara svona með mig.

Hin napra staðreynd er að glæpamennirnir voru bara svona miklu snjallari en ég. Miklu snjallari en menn sem eru miklu snjallari en ég.  Hversu mikið  vitum við líklega aldrei þó að  skattrannsóknastjóri fari  nú með háar nýlegar tölur.

„Varðar mest til allra orða

undirstaðan rétt sé fundin...“

 Svo kvað Björn Gunnlaugsson.

Ef til vill erum við loks að fóta okkur sem þjóð eftir holskefluna,-finna undirstöðuna og aðalatriðin.

Ég er eiginlega skúffaður.

Ég hélt í einfeldni minni að prófessor Þorvaldur Gylfason hafi verið að skrifa í Frétablaðið af hugsjón eins og við vesælir blekbullarar í pólitík erum að gera án þess að fá borgað fyrir. Nú les maður á AMX að svo sé alls ekki. Þar er fullyrt að prófessorinn sé á launum við þetta eins og fleira. Hugsjónaeldurinn prófessorsins er þá keyptur eftir allt saman. Og hugsanlega skattfrjálst líka.

Ég er eignlega bara skúffaður.  


Prófessor Þorvaldur toppar !

Þorvaldur Gylfason, starfsmaður AGS og Evrópusambandsins, og raunar flestra opinberra kerfa og stofnanna í heiminum að því að Wikipedia upplýsir, skrifar enn eina haturs-og ofstækisgreinina gegn Sjálfstæðisflokknum í Baugstíðindi í dag. Enda liggur mikið við þar sem húsbændur hans standa höllum færi gagnvart dómskerfi landsins, sem er nefnilega skipað í  spillingartíð Sjálfstæðisflokksins að mati Þorvaldar og því líklegt að fara óvægnum höndum um vini hans. Grípum niður í hamförunum:

 

„...Skýringin á vantrausti almennings í garð dómskerfisins blasir við. Dómskerfið er skilgetið afkvæmi gerspilltrar stjórnmálastéttar. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem standa nú berskjaldaðir frammi fyrir landsmönnum í ljósi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA), hafa stýrt dómsmálaráðuneytinu og skipað alla dómara landsins frá 1926, ef frá eru talin sex ár (1944-47, 1956-58, 1979-80, 1987-88). Þessir tveir flokkar settu bankana í hendur manna, sem keyrðu bankana í kaf á sex árum. Því er skiljanlegt, og einnig í ljósi ýmissa genginna dóma á fyrri tíð, að fólkið í landinu telji sig þurfa að óttast, að dómstólarnir sýkni flesta eða alla sakborninga bankahrunsins, þegar þar að kemur. Skýrsla RNA segir berum orðum, að bankarnir hafi brotið lög.“

 

Ég hef ekki orðið var við að þeir sem mestum sökum eru nú bornir, hafi stutt Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega fremur en Samfylkinguna. En Baugstíðindi hafa aftur hefur stutt Þorvald og húsbændur hans dyggilega.

 

   ......Prófessor William Black flutti nýlega tvo fyrirlestra í Háskóla Íslands um afbrotafræðilegar hliðar hrunsins og benti á, að Alþingi þyrfti að endurskoða skipan dómstólanna, ef svo illa færi, að ljóslega sekir bankastjórnendur og aðrir slyppu við refsingu. Nær væri því að endurskoða dómstólaskipanina, áður en bankahrunið kemur til kasta dómstólanna. Ég sendi forsætisráðherra stutta minnisgrein um málið 27. marz 2009 með afriti til tveggja af helztu lögræðingum landsins, en ég hef engin viðbrögð fengið frá ráðuneytinu....“

 

Ekki er að spyrja að því, prófessor Þorvaldur hefur alla hluti betur séð öðrum mönnum. Hvernig stendur á því að menn taka ekki meira mark á honum ?

 

„.....Í minnisgreininni lýsti ég því, að mörg undangengin ár hafa legið fyrir stjórnvöldum tillögur frá dómarafélaginu og öðrum um að umskipa dómsvaldinu með því að hafa dómstigin þrjú frekar en tvö. Rökin eru þau, að of mörg mál komi nú til kasta Hæstaréttar og því sé eðlilegt, að nýtt millidómstig taki við málum, sem áfrýjað er úr héraði, og Hæstiréttur fjalli aðeins um þau mál, sem mikilvægust eru talin, og hafi þá betri skilyrði en hann hefur nú til að vanda til verka.

 

Sé þetta gert, er hægt að leggja niður störf allra dómara í Hæstarétti samkvæmt heimild í 61. grein stjórnarskrárinnar, en þar segir um dómara: " ... og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana." Þessi heimild stjórnarskrárinnar er ótvíræð og auðskiljanleg: hægt er að flytja dómara í annað embætti á móti vilja þeirra, sé verið að koma nýrri skipun á dómstólana. Síðan er hægt að skipa dómara í Hæstarétt upp á nýtt með nýrri aðferð, þar sem erlendir menn, til dæmis lagaprófessorar og dómarar, verða fengnir til að hjálpa til við að meta hæfi umsækjenda og girða fyrir landlægan klíkuskap og nápot. Fyrri dómarar hefðu sama rétt og aðrir til að sækja um störfin.“

 Mann vissu svo sem fyrir hvert Þorvaldur vill stefna Íslendingum. En að hann hefði vit á vð alla Hæstaréttardómara landsins vissi ég ekki og þekki nóga menn í útlöndum til að stjórna fyrir okkur.  

.... „Þessi róttæka tillaga er ekki borin fram að ástæðulausu. Fyrrum ráðherra, sem Rannsóknarnefnd Alþingis segir hafa sýnt vanrækslu, fékk nýlega á sig dóm fyrir að skipa son flokksformanns síns í dómarastarf, þótt aðrir mun hæfari umsækjendur væru í boði. Frændinn og vinurinn í Hæstarétti eru mönnum í fersku minni, og það er einnig viðsnúningur Hæstaréttar í kvótamálinu undir þrýstingi frá ríkisstjórninni. Þennan ávirðingalista mætti lengja. Með því að endurskipa Hæstarétt nú þegar væri betur tryggt, að útgefnar ákærur ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara fengju trúverðuga meðferð í Hæstarétti, þar sem dómendur hafa fengið hæfnisdóm erlendrar matsnefndar. Svipuð hreingerning þyrfti einnig að fara fram í öllu dómskerfinu og hjá ríkislögreglustjóra, og þótt fyrr hefði verið."

 

Ég segi nú: Hvað með Háskólann ? Er slíkir eldstólpar sem prófessor Þorvaldur heppilegir  til að hafa áhrif á æskulýð þessa lands ?

 

...“Þótt spillingin í Sjálfstæðisflokknum (og einnig Framsóknarflokknum) hafi mengað svo dómskerfið, að almenningur telur sig ekki geta treyst dómstólunum, bera aðrir flokkar einnig ábyrgð. Enda hafa þeir yfirleitt ekki reynt að leiðrétta slagsíðuna í þau fáu skipti, sem þeir hafa stýrt dómsmálaráðuneytinu, til dæmis í tíð þeirrar ríkisstjórnar, sem nú situr. Vandinn er því ekki bundinn við gömlu helmingaskiptaflokkana, heldur við stjórnmálastéttina eins og hún leggur sig. Við þessum vanda þarf að bregðast, áður en bankahrunið kemur til kasta Hæstaréttar.“

 

Það er ástæða til að benda á það, að leiðin til þess að auka áhrif prófessors Þorvaldar í þjóðlífinu er að styðja Baugsveldið og Samfylkinguna til góðra verka og láta ekki hið gerspillta dómsvald íhaldsinshafa truflandi áhrif á líf þessara aðila.

Mér finnst prófessorinn toppa sig  í þessari grein og hefur maður þó séð ýmislegt. 

Vitleysa eða vitleyza ?

 

 

Ólafur ritstjóri Baugstíðinda skrifar undarlegan leiðara í í morgun. Orkan beinist að því að sverta krónuna, sérstaklega þá verðtryggðu á kostnað evrunnar og Evrópubandalagsins. Grípum niður í þessa ritsmíð:

 

„Margir vilja losna við verðtrygginguna. Það er skiljanlegt, eftir að hún hefur valdið mörgum heimilum miklum búsifjum. Þeir sem voru til dæmis með húsnæðislán í íslenzkum, verðtryggðum krónum hafa horft upp á lánið sitt hækka um margar milljónir á sama tíma og þeir hafa greitt drjúgan hluta af mánaðarlaununum sínum í afborganir, vexti og verðbætur."

 

Hvað með þá sem tóku lán í Evrum? Hafa þau lán breyst eitthvað ?  Vextirnir eru þeir sömu í evrum. Verðbæturnar birtast í tvöföldun höfuðstólsins. Er hér einhver munur á ?

 

....„Í umræðum um verðtrygginguna ber stundum á því að menn telja að hægt sé að fara einfaldar leiðir. Aflétta einfaldlega verðtryggingunni og þá sé vandinn leystur. Málið er ekki svo einfalt. Eins og fram kemur í skýrslu, sem Askar Capital vann fyrir efnahags- og viðskiptaráðuneytið, er verðtryggingu einkum að finna í löndum, sem búa við óstöðugan, lítinn gjaldmiðil og mikla verðbólgu. Verðtryggingin er verðið, sem við greiðum fyrir íslenzku krónuna.

 

Verðtryggingin er himnasending fyrir sparandann. Hvergi í heiminum er hægt að geyma peninga án þess að verðbólgan nagi þá nema ´þar sem er verðtrygging. Sá sem sparar í evrum eða dollurum verður að sætta sig við að höfuðstóllinn lækkar ár frá ári þar sem vextirnir eru lægri en verðbólgan. Sá sem skuldar í í verðtryggðum krónum horfir á höfuðstólinn hækka í takt við verðið á evrunni. Það er eins og enginn vilji hugsa málin öðruvísi en útfrá skuldum. Er ekki sparnaður undirstaða alls ?

 

Vegna þess hvað verðgildi krónunnar er óvíst eru fáir reiðubúnir að lána til langs tíma án verðtryggingar, nema þá með mjög háum vöxtum. Með afnámi verðtryggingar við núverandi aðstæður færi fólk því aðeins úr öskunni í eldinn. Að sama skapi vildu líklega fáir afnema verðtryggingu á lífeyrisskuldbindingum á meðan hætta er á að krónan sveiflist eins og hún hefur gert hingað til."

 

Að hvaða niðurstöðu er Ólafur eiginlega að leita?  Hann gerir sér ljóst að verðtrygging er eina leiðin til þess að einhver vilji lána sinn sparnað. Vill Ólafur lána húsbændum sínum til dæmis sinn lífeyrissjóð óverðtryggt á lágum vöxtum til langs tíma ? Vill hann umreikna hann í evrur á gengi dagsins og lána hann út til langs tíma á 4 % vöxtum ?  

 

„ Ef við byggjum við stöðugan gjaldmiðil væri verðtryggingin ekki stórkostlegt vandamál. Enda er stór hluti húsnæðislána landsmanna tekinn á tíma þegar krónan virtist stöðug og verðbólgan var lítil. Það er ekki fyrr en skellurinn kemur, með tilheyrandi verðbólgu, að verðtryggingin bítur í budduna okkar."

Þekkir Ólafur landið Sjangríla, þar sem er stöðugt verðlag og engin áföll ríða yfir ? Nei líklega efast hann um tilvist þess því hann heldur áfram:

„Það er rétt, sem Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir í Fréttablaðinu í gær, að forsendan fyrir því að afnema verðtrygginguna er að ná tökum á stjórn peningamálanna; ná að halda gengi gjaldmiðilsins stöðugu og verðbólgunni lágri. „

Hversu lengi þarf Gylfi að vera ráðherra til þess að þetta sé tryggt: 10 ár ?, 20 ár ?

 

Síðan gefst Ólafur upp við að reyna að færa rök fyrir hugsunum sínum og grípur til örþrifaráða:

„Ef gjaldmiðillinn er stöðugur, skiptir ekki máli hvað hann heitir. Ef hægt er að gera íslenzku krónuna að stöðugum gjaldmiðli, má vel búa við hana út frá hagsmunum heimilanna. En þeir, sem mest mæra krónuna nú um stundir, virðast einmitt líta á það sem hennar helzta kost að hún geti sveiflazt duglega, í þágu útflutningsgreinanna. Síðasta sveifla var reyndar ekki hagstæðari en svo að fjöldamörg fyrirtæki (líka útflutningsfyrirtæki) eru tæknilega gjaldþrota vegna þess að skuldir þeirra í erlendri mynt tvöfölduðust á skömmum tíma, jafnvel þótt tekjurnar séu meiri í krónum talið. „

 

Rökleysan er alger. Útlfytjandi getur ekki orðið gjaldþrota við gengisfall nema hann hafi tapað í spilum á kauphöllinni. Sem síðasta hálmstrá grípur Ólafur til þess að reyna að telja sér trú um að lasunin sé að ganga í Evrópusambandið af því að hann trúir á það eins og aðrir kratar gera.

 

„Sagan sýnir að það er hæpið að lítill, sjálfstæður gjaldmiðill eins og krónan geti skapað þann stöðugleika sem bæði heimili og fyrirtæki vilja búa við. Ísland á augljósan annan kost, sem er evran. Hún fæst ekki nema með inngöngu í Evrópusambandið. Bent hefur verið á að evrusvæðið glími nú við mikla erfiðleika. Enn sem komið er eru þeir smávægilegir miðað við það sem krónusvæðið Ísland lenti í. Innganga í ESB og upptaka evru er verkefni, sem tekur mörg ár. Nóg svigrúm gefst í umsóknar- og aðildarferlinu til að meta hvort evran kemst í gegnum núverandi hreinsunareld og stenzt samanburð við krónuna sem forsenda þess að hægt verði að afnema verðtrygginguna."

 

Leiðarinn endar því í algerri uppgjöf fyrir spurningunni um framtíð heimsins enda hefur hún alltaf verið hulin móðu. Breyturnar eru alltof margar. Jafnvel Rentumark Hjalmars Schact varð að lúta í lægra haldi fyrir stjórnleysi nasistanna. Dollarinn er aðeins orðin örfá sent frá stríðslokum. Íslenska krónan er brota af þeirri dönsku. Ekki af utanaðkomandi áhrifum heldur af glæpsamlegri hegðun íslenskra verkalýðsfélaga sem beita ofbeldi og gíslatöku til þess að eyðileggja lífið fyrir sjálfum sér og öðrum. Hreinsunareldurinn sem bálar nú í kringum Evrópusambandið er þvílíkur eldsvoði að Samfylkingin mun verða í vandræðum að fá nægt slökkvivatn hjá íslensku þjóðinni til að keyra hana áfram, á hafinni braut. „Credo ergo sum",  er niðurstaða fyrrum Morgunblaðsritstjórans. Vistaskiptin hafa ekki aukið við aðdáun mína á skrifum hans.

Hinsvegar skrifar Ólafur  zetu, og það líkar mér vel og mættu menn taka það sér til fyrirmyndar. Sá ritstíll hefur dugað lengur en evran en verið gengisfelldur eins og krónan.

En evruvitleysan  verður vitleysa jafnvel þótt maður reyndi að skrifa vitleysu með zetu.


Jónína kveður að !

 

Eitt af fyrirheitum pottaglamursríkisstjórnarinnar var að gegnsæi í stjórnsýslunni myndi aukið og hætt yrði spilltum mannaráðningum flokksgæðinga  Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks.

 

Stjórnin byrjaði á því að ráða sér seðlabankastjóra frá útlöndum án auglýsingar. Og svo að handvelja næsta mann úr sínum röðum eftir einhverja málamyndaleiksýningu. Síðan hefur hver ráðningin rekið aðra án auglýsinga á fólki úr öðrum hvorum stjórnarflokknum. Sama er með Icesave málið. Þar gildir leyndin og pukrið og ekkert má ræða opinskátt.Ráðningar í stjórnarráðið eru ekki auglýstar, menn verða ráðuneytisstjórar og sérverkefnamenn eftir geðþótta. Þjóðinni er hrundið fram í Evrópubandalagsviðræður þrátt fyrir skýra andstöðu sína. Við stjórnarandstöðuna er ekki talað heldur er látið að því liggja að hún sé of spillt og vitlaus til þess að vera samboðin hinni flekklausu ríkisstjórn.

 

Langir fundir um ráðstöfun ráðuneyta og allra þeirra starfa sem af því munu hljótast eru haldnir bak við lokaðar dyr og ein sem heyrist eru mótmælaöskur þeirra sem á að slátra. Af því sem óeirðaflokkarnir lofuðu Austurvallarindjánunum hefur ekkert verið efnt. Ekkert hefur verið gert í skjaldborgarmálum eða atvinnumálum. Allt er fast í endalausum samráðum og nefndarskipunum. Ríkisstjórnin er svo heppinn að uppákomur í þjóðlífinu hafa raðast saman þannig að Baugsmiðlarnir hafa geta séð um að halda kastljósinu frá getuleysi hennar . Og séu Baugsmiðlarnir  samtaka um upphrópin hleypur afgangurinn af fjölmiðlunum á eftir og tyggur upp það sem hinir segja. Nema Mogginn en hann lesa bara alltof fáir.

 

Í Baugstíðindum í dag skrifar Jónína Michaelsdóttir góða grein þar sem hún veltir ástandi stjórnmálanna fyrir sér. Ástæða er til að vekja athygli á nokkrum punktum úr grein hennar:

 

„  Nú, þegar vönduð rannsóknarskýrsla er komin í hvers manns hendur sem eftir því sækist, byrjað að sækja menn til saka, og Icesave-málið ekki lengur í hámæli, þar sem við erum eins máls þjóð, þá er við hæfi að snúa sér af fullri alvöru að því sem er mest aðkallandi í dag: Atvinnumálum. Í það á orkan að fara. Þegar vinnufært fólk um allt land er að missa bæði heilsu og sjálfsvirðingu af því að það er enga vinnu að hafa og hver spámaðurinn á fætur öðrum segir að ástandið verði ekkert skárra á næstu árum, þá gefst fólk einfaldlega upp. Á slíkum tímum er ekki hægt að vera með persónulegar skoðanir á hvað megi gera. Það verður að nýta hvert tækifæri sem gefst til að byggja upp og skapa atvinnu. Virkjanir eða einkasjúkrahús fyrir útlendinga þar með. Það er beinlínis lítilsvirðing við almenning á þessum tímum að leggja stein í götu framkvæmda sem skapa atvinnu til framtíðar.

 

Heilbrigðisráðherra segir í viðtali við Læknablaðið að hugmyndir um einkasjúkrahús séu óraunhæfar og hætta á að hér skapist tvöfalt kerfi í heilbrigðisgeiranum. "Það er eitur í mínum beinum og ég mun seint stuðla að því að svo verði," segir ráðherrann.

 

Lögin geri ekki ráð fyrir að heilbrigðisyfirvöld ráði þessu. Þetta sé dæmi um glímuna sem þau séu daglega í við arfleifð fyrri ríkisstjórna. "Svokölluðum einkaframkvæmdum var gert hátt undir höfði, lagaumhverfið sniðið að þörfum markaðsaflanna."

 

Nú spyr maður sig, hvað eru einkaframkvæmdir? Er hönnun og önnur listsköpun ekki einkaframkvæmdir? Eru litlu búðirnar sem spretta upp með heimagerðum hlutum ekki einkaframtak, sem og markaðurinn í Kolaportinu. Eru einhverjir svo forskrúfaðir að þeir skilja ekki hvaða verðmæti felst í frelsi einstaklingsins til athafna? Ekki bara efnisleg, heldur sjálfsvirðing og efling skapandi hugsunar. Þó að einhverjir hafi ekki virt almennar umferðarreglur, ekið yfir á rauðu hvar sem þeim sýndist, verið ölvaðir undir stýri og eyðilagt ómetanleg verðmæti, þýðir það ekki að dagar einkabílsins séu taldir. „

 

Það er við þessar aðstæður sem einhverjir litlir spámenn í liði Sjálfstæðisflokksins á þingi á Suðurnesjum töldu seg þess umkomna að breyta Sjálfstæðisstefnunni með því að taka orðið „einstaklingsfrelsi" út úr henni. Skyldii jafnvel Gordon Brown hafa dottið í hug að breyta Magna Charta fyrir kosningar? Á ég að trúa því að formaðurinn láti  þetta yfir sig ganga?  En ég og fleiri ætlum ekki að breyta okkar útgáfu á stefnunni héðanaf þar sem jafnvel Jónína Michaelsdóttir skilur þýðingu þess betur en þessir fulltrúar á fundinum á Reykjanesi. En líklega verða allir flokkar að fá sína „Egilsstaðasamþykkt" einhvern tímann.

Jónína heldur áfram:

 

„Sitjandi ríkisstjórn og fylgismenn hennar hafa frá fyrsta degi talað um vondu íhaldsöflin sem eyðilögðu allt. Góða björgunarsveitin var allt annarrar gerðar og henni best treystandi.Þessi mantra gengur ekki lengur. Það verður enginn betri fyrir það eitt að annar er lakari. Samanburður breiðir ekki yfir vanhæfni þess sem beinir spjótum sínum að öðrum.

 

Þeir sem tala hæst um valdagræðgi og leynd annarra stjórnmálamanna, hafa það yfirlýsta markmið eitt, að hvað sem á milli ber, þá ætli þeir ekki að sleppa valdataumunum. Þeir sem hafa talað hæst um gagnsæi, standa dyggast vörð um leyndina þegar þeim hentar. Þetta er við blasandi og öllum ljóst. Þeir sem tala hæst um spillingu í vina og flokksbræðra ráðningum, geta aðeins unnið með og ráðið sitt fólk, vini og flokksbræður. Sumir ráðherrar taka stöðuheitið bókstaflega og minna stundum á að þeir ráði í tilteknu máli, og hofmóður þeirra og yfirlæti dylst engum.....

 

Ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn öðlast traust með góðum verkum, en einnig með framkomu og fagmennsku. Við lifum á tímum þar sem fólk tjáir sig frjálslega um eitt og annað, einkum á Netinu og gildismat á margan hátt annað en áður var. Sjálfri finnst mér að þeir sem sitja í ráðherrastólum eigi að sýna hlutverki sínu þá virðingu að fara ekki með slúður og halda sig við staðreyndir. ,,,,

 

...Ef það þykir við hæfi að tala um framtak einstaklinga sem oftar en ekki kemur fleirum vel sem, "svokallaðar einkaframkvæmdir", má alveg eins segja "svokallaðir ráðherrar" um suma sem því embætti gegna. „

 

Jónína kveður fast að orði og segir það sem ég vildi sagt hafa en hef ekki getað komið orðum að á svona skýran hátt. Sérstaklega er þetta athyglisvert þar sem hún er ekki þekkt að því að hampa sjálfstæðisstefnunni sem hljóðar svo án afskipta útnesjamanna:

 

 

  • 1. „Að standa vörð um frelsi og sjálfstæði Íslands"
  • 2. „Að vinna í innanlandsmálum að þjóðlegri og víðsýnni umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum."

 

Það eru þessi einföldu grunnatriði sem eru Sjálfstæðisflokkurinn. Hvað sem rógberarnir og götustrákarnir í öðrum flokkum, kostunarmenn þeirra og leigupennar, framleiða af rógburði og auri um Sjálfstæðisflokkinn þá breytist þetta ekki. Allt sem reynt er að klína á flokkinn sem vitnisburð um hans illa eðli er einfaldlega rangt. Hafi orðið mistök þá er það einstökum mönnum að kenna, ekki grunnhugsjóninni. Og mistök í Sjálfstæðisflokknum verða alltaf til þess að menn reyna að læra af þeim. Öfugt er því farið með vinstra fólkið vegna þess að það veit aldrei í hvaða flokki það er. Það hefur enga skýra grunnstefnu heldur er hún matreidd ofan í þá af kokkum hvers tíma. Það eru vinglar í eðli sínu, veikgeðja lið sem hleypur eftir hverju mýrarljósi sem það sér. Kommúnistaflokkurinn, Sameiningarflokkur Alþýðu-Sósíalistaflokkurinn, Þjóðvarnarflokkurinn, Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Bandalag Jafnaðarmanna, Þjóðvaki, Samfylking, Vinstri hreyfingin-grænt framboð.

Er ekki tími Jóns Gnarr greinilega kominn ?

 

Spyrji menn  Steingrím eða Jóhönnu hverjar séu þeirra grunnhugsjónir ? Hversu langt orðaflóð myndi koma útúr þeim ? Myndi  nokkur maður geta skilið það frekar en stjórnarathafnir þeirra ? Allt saman skilyrt og háð aðstæðum og auðvitað stöðugri andspyrnu og skemmdarverkum Store Stygge Ulv þeirra vinstri manna, Sjálfstæðisflokksins.

 

Ísland mun ekki rísa  úr öskustónni fyrr en þessi  sundurlynda pottagaldursríkisstjórn er farin frá.


Casa Blánka.

Frá minni ungtíð man ég að verið var að byggja smáíbúðahverfið við Sogaveg sem gárungarnir kölluðu CasaBlanca, af því þar voru allir svo blankir að byggja húsin, meintu þeir. Þar hafði bæjarstjórn úthlutað litlum lóðum fyrir lítil hús sem hentuðu fyrir fátækt  en heilbrigt fólk til að byggja með eigin höndum og vinna sjálfu sér. Ég sá margar myndir í Steypustöðinni frá þessum árum þar sem mátti sjá síðar þekkta borgara á vinnugöllunum að leggja steypu.

Nú í kreppunni hef ég árangurslítið  reynt að vekja áhuga Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi á að gera eitthvað í þessa veru til að reyna að efla unga fólkið til átaka. En því miður virðist flokkurinn ekki geta hugsað öðruvísi en í verktökum og bröskurum sem selja fullgerð hús á góðu verði því ekki rataði þetta inná stefnuskrána að þessu sinni. Þó held ég að margir Sjálfstæðismenn séu þessu fylgjandi í hjarta sínu enda er það stefna Sjálfstæðisflokksins að allir verði eignamenn.

Samfylkingin þar hefur fundið upp Kópavogsbrúna og sett í sína stefnuskrá.Hún felst í því að taka milljarða úr tómum bæjarkassanum og  afhenda bönkunum þær. En bankarnir  græddu 50 milljarða á því að rukka heimilin í landinu síðasta ári meðan Kópavogur stórtapaði. Þetta fé vill Samfylkingin nota til að fullgera blokkir sem bankarnir eiga frá fallítt verktökum og breyta þeim í félagsíbúðir á vegum Kópavogs.

 

Félagsbústaðir eiga nú þegar hundruð íbúða sem þeir hafa keypt á markaði eftir því sem fé hefur fengist til. Félagsíbúðir Kópavogs hafa verið frábærlega vel reknir  af Húsnæðisnefndinni og ekki þurft annað en fjármagn til íbúðakaupa til þessa. Þeir hafa aldrei geta annað eftirspurn vegna skorts á fjármagni.  Þetta líkar ekki Guðríði Arnardóttur og Samfylkingunni , því hún er alltaf gáfaðri en aðrir að eigin áliti. Hún vill því fara þessa nýju leið bankaleið.

 

Ég hef lagt til á fundum Sjálfstæðismanna að taka svæði uppi við Vatnsenda og breyta skipulaginu úr 2007 villunum á st+oru lóðunum  yfir í  lítil tveggja hæða hús með súðarþaki eða einhvern veginn þannig. Þetta gætu verið kannski  6-800 fermetra lóðar. Þessar lóðir yrðu lánaðar að fullu völdu fjölskyldufólki sem vill byggja yfir sig. Fleiri íbúar á hektara þýðir meira útsvar. Engin útborgun við lóðaúthlutun en veð í framkvæmdinni.    

Þannig getur fjölskyldan hafið byggingu með sparifé sínu án þess að láta fyrstu peningana í lóðina.  Ef viðkomandi gefst upp leysir bærinn til sín framkvæmdina á kostnaðarverði og selur næstu fjölskyldu.  Fjölskylda sem klárar að byggja og flytur inn myndi ekki byrja að borga af lóðinni eftir 3 ár til dæmis og greiddi hana upp á einhverjum tíma. Þannig fengi bærinn meira útsvar með bættum hag fólksins.

 

Þarna getur fólk komist í eigið hús þó ekki sé allt klárað með tekki og palesander með zinkhvítu  eins og fyrir hrun. Alveg  eins og þetta var í gamla daga, þegar fólk flutti inn á steininn. Hugsanlega er komið annað gildismat í landinu síðan þá.  Fólk fær sér auðvitað aðstoð fagmanna  en vinnur mikið sjálft eins og var gert í Smábúðahverfinu í gamla daga, hjálpast að við að steypa osfrv.

 

Þetta myndi stuðla að verðmætasköpun í þjóðfélaginu og koma einhverju á stað sem ekki myndi veita af í kreppunni. Bankarnir geta sjálfir klárað sín hús af gróðanum og selt þeim sem það vilja án þess að Guðríður rétti þeim peninga úr bæjarsjóði .Milljarðar Guðríðar væru held ég betur komnir í þessu því þeir  myndu gagnast fleirum á þennan hátt. 

Hugsanlega  gerir næsta bæjarstjórn í Kópavogi eitthvað í þessu.

Kjósum X-D í þeirri von !


Sannleikurinn er sagna bestur.

Ég rakst á grein eftir Hannes Hólmstein frá 30 mrs.sl. Fyrir þá sem ekki hafa lesið þetta set ég þetta hér inn:

"Sú hugsun sækir sífellt fastar að mér, að íslenska bankahruninu megi helst líkja við grískan harmleik, þar sem engu varð um þokað og allir voru leiksoppar örlaganna þrátt fyrir góðan ásetning flestra. Hvað sem því líður, má sjá, að tveir aðsópsmiklir þátttakendur í þjóðlífinu misserin fyrir hrun áttu sér hliðstæður í fornum, grískum sögum.

Davíð Oddsson var — eins og Guðmundur Andri Thorsson benti raunar einu sinni á — Kassandra, sem var dæmd til að sjá allt fyrir, en enginn trúði. Árin 2003–2004 reyndi hann að veita auðjöfrunum viðnám, en fjölmiðlar (flestir í eigu auðjöfranna), álitsgjafar (sumir á launum hjá auðjöfrunum), stjórnmálamenn (sumir á vænum styrkjum frá auðjöfrunum) og jafnvel dómarar lögðust á hina sveifina og réðu úrslitum. Og árin 2005–2009, á meðan Davíð var seðlabankastjóri, varaði hann hvað eftir annað við útþenslu bankakerfisins og óeðlilegum ítökum auðjöfranna, þótt hann yrði stöðu sinnar vegna að tala varlegar opinberlega en á einkafundum, en þá átti hann til dæmis sex um yfirvofandi hættur með Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur árið fyrir hrun.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vitaskuld Pandóra. Hún sagði raunar sjálf hlæjandi í Kastljósi Sjónvarpsins 30. desember 2002: „Nú verð ég að fara að opna mitt pólitíska Pandórubox.“ Líklega kunni hún ekki söguna um Pandóru, sem opnaði af forvitni kistu eina (ekki box, eins og Ingibjörg Sólrún sagði á vondri íslensku) þrátt fyrir bann við því. Út úr kistunni stukku margvíslegar plágur, sem herjuðu síðan á mannkyn. Þetta gerðist svo sannarlega á Íslandi. Ingibjörg Sólrún flutti sína Borgarnesræðu vorið 2003 og dylgjaði um, að lögreglurannsókn á auðjöfrunum væri af óeðlilegum hvötum runnin. Þegar hún settist síðan í ríkisstjórn, daufheyrðist hún við viðvörunum Davíðs og átti það áhugamál eitt eftir hrun að reyna að hrekja hann úr stöðu seðlabankastjóra.

Ein versta plágan, sem stökk upp úr kistu hinnar íslensku Pandóru, var skefjalaus auðmannadýrkun. Baugsfeðgar og aðrir auðmenn gera mikið gagn (eins og ég þreyttist seint á að segja á fyrri tíð), þegar þeir keppa sín í milli um að fullnægja þörfum almennings vel og ódýrt. En góðir þjónar geta verið vondir húsbændur. Þótt kapítalisminn þurfi á röskum kapítalistum að halda, verður að halda þeim — eins og stjórnmálamönnum — í skefjum.

Einu má þó ekki gleyma. Pandóra Sólrún opnaði í fákænsku sinni kistuna, og upp stukku plágurnar, ruku í allar áttir og herjuðu á fólk. En samkvæmt grísku sögunni varð vonin eftir á kistubotninum. Er eftir það sagt, að ekki sé öll von úti.

Íslendingar geta vissulega vonast eftir betri tíð. Þjóðin er vel menntuð og snögg að nýta sér ný tækifæri, og þótt Ísland sé ekki frjósamt land eða gjöfult, nægja auðlindir þess ríflega þeim þrjú hundruð þúsundum, sem það byggja. Ekki er öll von úti."

Ógæfu Íslands verður allt að vopni. Ég er sannfærður um að sú ríkisstjórn sem nú situr og situr þrátt fyrir getuleysi á öllum sviðum, framlengir píslir fólks til jafnlengdar. Hún er auðvitað sjálfskaparvíti að öllu leyti. En það er kominn tími til að fólk horfist í augu við hvað áframhaldandi seta hennar þýðir.

Sannleikurinn er sá að ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt til þess að gagnast fólkinu í landinu. Hún hefur logið öllu og svikið allt sem hún lofaði nema að sækja um inngöngu í ESB.

Og sannleikurinn er sagna bestur.



FÍFL !

"Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segist vonast til að handtökur Kaupþingsmannanna Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar muni sefa óánægju almennings. "

Hverskonar fífl er þessi maður ? Hvað hefur atvinnuleysinginn útúr því að þessir menn sitji inni ? Hvað hefur fólkið í neyðinni útúr því að öðrum líði illa ? Bætir það nokkrum manni skaða hans ?

Okkur líður illa vegna þess að Steingrímur er gersamlega óhæfur í sínu starfi og ríkisstjórnin öll. Hún hefur nákvæmlega ekkert gert af því sem þjóðin þarfnaðist. Hér stefnir allt til andskotans fyrir ráðleysi og ræfildóm Steingríms og alls sem hann stendur fyrir. Hér birtir ekki fyrr en hann og Jóhanna eru farin frá. Annað sefar ekki óánægju almennings með það vonleysi sem allstaðar blasir við.

Steingrímur talar eins og fífl. Af hverju ? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband