Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Sérleiðir Íslands

Baugstíðindi fara mikinn í ESB áróðrinum þennan morgun. Það er hart að horfa uppá hvernig afli ríkisins er beitt í að halda þessu blaði úti. Milljarða skuldafráganga er látin sem ekkert  sévegna þess að blaðið þénar undir Samfylkinguna og áróður hennar fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Samsteypan þarf ekki að horfast í augu við gjaldþrot sitt og allt svindlið með afskriftirnar þess vegna.

En maður les þetta af því að því er troðið inn um lúguna. Og blaðið er ekki alvont auðvitað. 

Bergur Ebbi skrifar skemmtilega grein um Íslendinga en kemst að rangri niðurstöðu. Ég sting uppá því að hann ætti að flytja en ekki meirihluti landsmanna.

 

Guðmundur Andri fer mikinn að vanda fyrir húsbændur sína og vinnur vel fyrir ritlaunum dagsins fyrir Jóhönnu og ESB-stjórnina. Grípum niður í grein hans:

„Við þurfum að fara að hugsa öðruvísi. Allt þetta úti/inni - útrás/innrás - þeir/við: þetta gengur ekki lengur. Íslenskt samfélag getur orðið ágætt: Hér er fátt fólk og mikið rými, verðmætasköpun, sveigjanleiki, mikið stéttaflökt, sterkt menningarlíf, góðir skólar á yngri stigum og ýmsar forsendur til að byggja fyrirmyndarsamfélag jafnaðar og framtakssemi. En við verðum að hætta að sækja sjálfsmynd okkar til útlendinga. Við eigum að hætta að vera hinn athyglissjúki krakki Evrópu. Hætta að ýkja afbrigðin og útúrdúrana í eigin fari, hætta að vegsama óhófið....“ „Við eigum að horfa á styrk okkar: hér er allgóð og stundum frumleg verkkunnátta, tungumál sem er vel til þess fallið að hugsa um hvaðeina, gróska í tónlist, háþróaður sjávarútvegur, góðar mjólkurvörur og lambakjöt, landið fagurt og frítt og hér er landlægur dugnaður?Veikleikarnir eru til dæmis vond háskólamenntun, einkum á sviði viðskiptalífs og laga, spilling valdastéttarinnar, landlæg trú á að lífið sé lotterí, vantrú á regluverki, skilningsleysi á gildi þess að gefa stefnuljós í lífinu rétt eins og í umferðinni - og landlægur dugnaður.....“

"Efnahagshrunið varð ekki út af reiði Davíðs eða þýlyndi Geirs, ágirnd útrásarvitfirringa, fláttskap framsóknarforkólfa eða læpuskap Samfylkingarinnar. Það varð ekki vegna skapgerðarbresta ráðamanna. Ekki bara að minnsta kosti, en við munum alltaf hafa skammsýna ráðamenn, ágjarna kaupsýslumenn og hrokafulla bankamenn meðal okkar: hrunið varð vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem sköpuðust hjá þessu þjóðarkríli í gættinni að ESB.“

Og lærdómurinn:

„Við þurfum að komast af sérleiðunum á sjálfa þjóðbraut viðskiptanna. Hugmyndin um Ísland sem efnahagslegt eyland sem spilar til skiptis á Kanann og Kínverjann er stórhættuleg. Ísendingar eru ekki klóka sérleiðaþjóðin og þar með þrotlaust umhugsunarefni öðrum þjóðum. Við þurfum umgjörð um efnahagslífið. Við þurfum skjól.“ Gizur Þorvaldsson hefði hefði ekki getað haft með sér flottari texta frá Noregskóngi til Alþingis en þetta. Alger uppgjöf fyrir hönd Íslands og hinna . í hinu orðinu, duglegu Íslendinga. Hann getur ekki komið auga á hætturnar sem felast í því að ganga erlendu valdi á hönd sem þarf ekki að orðlengja hér. Aka beina hraðbraut inn í eitthvað sem Guðmundur Andri skilur ekki til hlítar fremur en ég.

 

Þennan mann elur þjóðin á brjóstum sér með rithöfundastyrkjum og alskyns hossi. Af hverju flytur  hann ekki með Bergi Ebba til ESB?

Getur það verið að þar verði erfiðara með styrki en hér? Sérstaða hans  sem rithöfundar Evrópusinna hverfi í mannhafið ? Það sé ekki jafnvíst beitiland fyrir heimalninga þar eins og hér?

 Sérleiðir Íslands eru sem betur verið fyrir hendi.

Þjóðráð vofa yfir

Nú vofa þau þjóðráð yfir í þingfríinu, að Jóhanna og Steingrímur staðfesti undirskrift Svavars á Icesave samningnum til að uppfylla skilyrðin um aðildarviðræðurnar.

Allt bendir til þess, að Samfylkingin sé tilbúin að leggja allt í sölurnar til þess að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. VesælGrænir hlýða dáleiddir á His Masters Voice eins og hundurinn á grammifónsplötunni. Því annars lýkur þeirra valdatíma. Og hann selja þeir síðast.

Það verður bara kosið aftur og aftur um samninginn þangað tl hann verður samþykktur segja þeir kratar sem maður hittir á götunni.

Þjóðráð Samfylkingarinnar eru að láta landið ganga í Evrópusambandið með einum eða öðrum hætti og hvernig svo sem farið verður að því. Icesave er bara eitt af þeim þjóðráðum sem til þarf.

 


VG=VesælGrænir ?

Þegar maður horfir á það hvernig VG hefur látið Samfylkinguna trampa á sér í hverju málinu á fætur öðru, þá furðar maður sig á langlyndinu. Mér finnst þeir virkilega eiga bágt sem flokkur. Þeir eru beinlínis vesælir.

Ef til vill ætti skammstöfunin VG að standa fyrir VesælGrænir ? 


Kratarnir í Kópavog karpa

Ekki byrjar það vel hjá krötunum í Kópavogi að vera komnir í alvöru pólitík eftir 20 ára hvíld. Það gengur nú hinsvegar oft til svona þegar á á að herða og meirihlutinn er tæpur.Kannski hefðu þeir átt að taka Framsóknarmanninn með svona til þess að hafa borð fyrir báru. Því nú eiga þeir við þrjá aðra flokka til viðbótar eigin varabæjarfulltrúa. Það má ólíklegt telja að enginn þeirra hafi sérþarfir sem verði að uppfylla áður en lengra sé haldið. 

Elfur Logadóttir segir á síðu sinni, að aðalkosningamál Samfylkingarinnar um ágæti þess að kaupa íbúðir af bönkunum og leiga út á félagslegum grunni, sé stórkostlegt fjárhagslegt feigðarflan. Samylkingin hélt þessarri áætlun mjög á lofti fyrir kosningarnar og kallaði Kópavogsbrú. Elfur Logadóttir segir að ekki sé heil brú í þessu kosningaloforði. Það var ærlega sagt alveg eins og Samfylkingunni væri ókunnugt um það, að Húsnæðisnefnd Kópavogs, sem á og rekur nærri 400 slíkar íbúðir,  hefur  ekki getað nema safnað skuldum á slíkum rekstri og þarf hundruðir miljóna úr bæjarsjóði ár hvert. En uppbygging félagslega húsnæðiskerfisins var mikil og jöfn alla samstarfstíð fyrri meirihluta í 20 ár. 

Elfur segir oddvita sinn og varaoddvita hafa vitandi vits lagt upp með þetta kosningaplagg og vitað að það væri óframkvæmanlegt nema með stórtapi. Þau afgreiddu aðfinnslu Elfar með því,  að það væri þá hægastur vandinn að svíkja þetta loforð eftir kosningar. Ekki var Elfur Logasóttir dús við svona yfirlýsingar kennaranna Guðríðar Arnardóttur og Hafsteins Karlssonar, sem eiga víst að innræta börnum okkar Guðsótta og góða siði,- þar með talið væntanlega að segja ávallt satt.

Menn hafa kannski  heyrt söguna af unga nýkjörna breska þingmanninum, sem fékk eldri þingmann til að sýna sér bresku málstofuna áður en þinghald hæfist.

"Hérna megin við ganginn sitjum við og hinu megin við ganginn sitja andstæðingarnir, " sagði eldri þingmaðurinn við unga manninn. 


 " Mikið hlakka ég til að sitja hérna í fremstu röð og takast á við óvinina hinu megin við ganginn " sagði þá ungi þingmaðurinn.


" Óvinina ? Nei sonur sæll, þetta er ekki rétt hjá þér"sagði þá eldri þingmaðurinn, " Andstæðingarnir sitja þarna.  Óvinirnir sitja hérna fyrir aftan þig."

Innanflokksátök eru það sem stjórnmálaforingjar allstaðar verða að búa við. Sá einn er foringi sem getur sett niður deilur í eigin flokki og haldið lokinu á suðupottinum.  Bjarni Benediktsson sagði eitt sinn eitthvað á þessa leið:  "Það er kannski erfitt að vera forsætisráðherra og berjast við erfiðleikana. En það er miskunnarlaust starf að vera formaður í Sjálfstæðisflokknum."

Gallinn við  íslenska jafnaðarmenn er sá, að þeir eru svo miklir ójafnaðarmenn í sér.  Saga vinstrihreyfingarinnar á Íslandi ber þessu órækt vitni við hlutlausa athugun. Hvergi hafa pólitískar innanflokksdeilur risið hærra en þar.  Man einhver Alþýðuflokkinn, Kommúnistaflokkinn, Sameiningarflokk Alþýðu-Sósíalistaflokkinn, Alþýðubandalagið,  Bandalag Jafnaðarmanna, Á rauðu ljósi,  Þjóðvaka, Samfylkinguna og svo vinstri VG ?

Því miður eru vinstri menn oft ekki sammála um neitt annað en að vera á móti Sjálfstæðisflokknum. Það kom berlega fram við myndun meirihlutans í Kópavogi, að engin skynsemi komst að ofar þeirri hugsun, að koma Sjálfstæðisflokknum frá, hvað sem það kostaði. Nú eru verðmiðarnir að fara að koma í ljós.  

Vonandi ná þeir Samfylkingarmenn saman aftur svo að þeir geti farið að sinna bæjarmálunum með Guðrúnu Pálsdóttur, sem tryggir þó daglegan rekstur meðan kratarnir í Kópavogi karpa innbyrðis. 


Hver borgar ?

Þessi frétt er sett fram án athugasemda í Mbl. Það er eins og hér sé um þjóðþrifamál að ræða: 
"Fjarskiptasamstæðan Teymi hefur fengið um 21 milljarð afskrifaðan af vaxtaberandi skuldum. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2009. Á árinu 2008 fór að halla undan fæti hjá fyrirtækinu, ekki síst þegar gengi krónunnar féll og eigið fé í árslok var neikvætt um 25 milljarða. Stór hluti skulda Teymis var í erlendri mynt, en stærstur hluti þeirra hefur nú verið afskrifaður. Í lok árs 2008 námu vaxtaberandi skuldir Teymis tæplega 36 milljörðum króna, en samkvæmt ársreikningi ársins 2009 voru þær 14,6 milljarðar. Fjármagnsuppbygging félagsins á árinu 2008 var heldur óhagstæð. Til að mynda bar stærsta einstaka lán fyrirtækisins upp á 12,5 milljarða 18,1% vexti. Sú skuld hefur ekki verið afskrifuð, en vextir hafa verið lækkaðir í 10,9%. Í skuldasafninu var 770 milljóna lán víkjandi lán með 24% vöxtum.....

Teymi skilaði tapi upp á 2,5 milljarða á síðasta ári, en eftir skatta stendur eftir 545 milljón króna tap. Þórðar Á. Þórðarson, stjórnarformaður Teymis, segir að hár fjármagnskostnaður félagsins skýrist meðal annars af því að fyrirtækið hafi borgað vexti af skuldbindingum sínum fyrir afskriftir fyrstu fjóra mánuði ársins. Jafnframt hafi nauðasamningaferlið verið afar dýrt ferli, og hár einskiptiskostnaður sé tilkomer raureiknar með því að fyrirtækið skili hagnaði á yfirstandandi ári. »Ég vil ekki nefna neina tölu, en við sjáum fjarskiptahlutann halda vel sjó á fyrstu þremur mánuðum ársins. nar framar okkar væntingum,« segir Þórður í samtali við Morgunblaðið. inn vegna samninganna. Þórður telur að núverandi skuldastaða fyrirtækisins sé sjálfbær, og Upplýsingatæknihlutinn stendur vel og ....

 

Fjöldi fyrirtækja eru innan Teymissamstæðunnar. Ber þar helst að nefna Vodafone á Íslandi og í Færeyjum. Kögun, Skýrr, Landsteinar Strengur, Hugur-Ax og EJS eru einnig hluti af Teymi. "

Hvað er verið að bera á borð fyrir okkur ? Hvað af þessu má ekki hreinlega missa sig ef þetta fyrirtæki er einfaldlega sett á hausinn ? Hver myndi sjá eftir þessu ? Jú, Þórður alveg áreiðanlega. Hann vill fá að að halda áfram að  hafa það gott.
Til hvers er verið að láta almenning standa undir þessu ? Er það ekki kallað  sósíalismi andskotans að fara að gera út á almannafé Þórður gerir sig breiðan um hvernig allt verði í lagi ef hann bara fær meiri peninga ? Hversvegna spilaði hann  rassinn úr buxunum egar allt lék í lyndi fyrir hrun ?
Þarf ekki frekar að loka fallíttfyrirtækjum og leysa upp ?
Er það ekki  drifkraftur kapítalismans að menn fari á hausinn og svo sé málið búið ? Ný fyrirtæki rísi upp og nýir menn taki við af fallíttistunum ? Ekki að einstaklingur sem ekki getur borgað húsnæðisskuld missi það á uppboði og sé svo eltur útýfir gröf og dauða með það sem á vantar.
Myndi þessi aðferð sem er verið að lýsa í frétt Morgunblaðsins eiga sér stað í Bandaríkjunum ?  Skila menn ekki lyklinum sem borga ekki af húsinu sínu ? Sækir ekki  Lýsingin þar  bílinn sem ekki er borgað af en hrekur ekki ekkjuna á vergang í framhaldinu. Af hverju er verslað með sálir og hluti á Íslandi en ekki hluti  eins og þar ?. Af hverju ber lánveitandi enga ábyrgð á Íslandi ? 
Í Bandaríkjunum eru málin afgreidd á grundvelli þess sem verslað er með. En á Íslandi skaltu gjalda fyrir með lífinu alveg eins og sá sem borgar ekki Mafíunni. Bankamaðurinn hér fær bónus ef hann getur fíflað einhvern til að taka við láni sem hann getur ekki borgað. Fíflið er réttlaust. 
Hér?
Húsasmiðjan, Steypustöðin, BM Vallá,Kögun,Vodafone,Strengur,HugurAx,EJS,Hagar,Penninn,365 miðlar með Fréttablaðið og Stöð2,Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion Banki, Byr ,Sjóvá, Bónus, Hagkaup  osfrv.
Skyldum við ætla að hafa bara eitt fyrirtæki í landinu ? Ríkissjóð hf ? Hafa menn tekið eftir því hvílíkan fjörkipp auglýsingar frá fallítt fyrirtækjum taka eftir að þau komast í eigu bankanna ? 
Heimilisfeðurnir á uppboðunum í haust geta velt því fyrir sér af hverju þeir geti ekki fengið afskrifaðar skuldir? Eru þeir eitthvað ómerkilegri en þessar fyrirtækjasúpur sem sífellt er verið að ýta í fang ríkisins og bankanna ? 
Hver borgar á endanum

Hámörkun heimskunnar

Ýmsir dökkir bakkar eru við sjóndeildarhring. Japan býr sig undir erfiðleika, Spánn,Portúgal og Grikkland eru vandamál Evrópusambandsins og evrunnar, Bandaríkjamenn draga úr neyslu sinni. Allt er þetta ískyggilegt og er betra að fara með gát.Samt eru enn til hér kratar sem tala um að taka upp evru sem allra fyrst

Á sama tíma keyrir ríkisstjórnin ótrauð áfram umsóknina um aðild að Evrópusambandinu með daglegum herkostnaði uppá  tíu til tuttugumilljónir. Og kannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar vill stöðva viðræðurnar þegar í stað. Hernaðurinn gegn heimilunum á hefjast með haustinu þegar fógetarnir fara á fullt með að bjóða upp húseignirnar. Við þessar aðstæður dundar ríkisstjórnin sér við finna leiðir til þess að koma hausnum á okkur í Icesave snöruna, fara í eiturhernað gegn lúpínunni og halda uppi atvinnu fyrir hundrað Kínverja við að smíða Hörpu sem ekki verður hægt að opna vegna fjárskorts.

Allt er stopp í álversframkvæmdum Helguvík, allt dottið uppfyrir með Bakka, engar virkjunarframkvæmdir, engin útboð í vegagerð, 3000 manns flúnir land síðan á áramótum til viðbótar 4000 sem fóru í fyrra, 17000 atvinnulausir, margir  við að það að missa bæturnar frá ríkinu vegna langvarandi atvinnuleysis og falla þá á gjaldþrota sveitarfélög sín til framfærslu. Á meðan leikur  Steingrímur á skattafiðluna sem er farið að urga í vegna strengirnir bara slakna við meiri strekkingar. Það eina jákvæða við þessa ríkisstjórn er að hún nýtur velvilja verkalýðsforystunnar sem sættir sig hvað sem er vegna umbjóðenda sinna bara ef íhaldið er hvergi nærri og Baugsmiðlanna sem eru henni Haganlega skuldbundnir.

Með íslensku krónunni og auknum fiskveiðum getum við Íslendingar haldið velli í vályndum heimi. En við þurfum að hætta við að hegða okkur eins og hámörkun heimskunnar se´okkar æðsta takmark.


Umhverfisfasismi

Loksins las ég eitthvað mér til ánægju í Baugstíðindum. Leiðari ristjórans Ólafs Stephensen fjallar um málefni sem hefur alveg gengið fram af mér. Fjandskapur Vinstri Grænna við Alaskalúpínuna sem nú skartar sínu fegursta um allt land. Hún boðar jafnvel eiturefnahernað gegn þessum borgara landsins sem vill bæta hann og betra.

Í leiðaranum segir Ólafur m.a.:

"Bótanískt útlendingahatur
Það er miður júní og breiður af bláum blómum gleðja augað víða um land.

Það er miður júní og breiður af bláum blómum gleðja augað víða um land. Hæðir og holt í nágrenni höfuðborgarinnar, þar sem áður voru uppblásin moldarbörð, eru blá yfir að líta; einstaklega falleg sjón í sumarblíðunni að undanförnu. Lúpínan setur svip sinn á landið, klæðir það með þykku teppi þar sem áður var enginn, lítill eða rytjulegur gróður.

Gleðin yfir fegurð þessa nýbúa í flóru Íslands er samt engan veginn fölskvalaus. Umhverfisráðherrann, með fulltingi Landgræðslunnar og Umhverfisstofnunar, hefur skorið upp herör gegn lúpínunni. Tilkynnt hefur verið að hún sé "ágeng tegund" og nú skuli barizt gegn henni með öllum tiltækum ráðum, slætti, sauðfjárbeit og eiturhernaði. Síðastnefnda leiðin mun vera talin árangursríkust.....

 

Í Fréttablaðinu á laugardag sagði Jón Loftsson skógræktarstjóri: "Við höfnum þessu öllu saman á þeim grunni sem það er sett fram á. [...] Grunnurinn að þessum tillögum er sá að líffræðilegri fjölbreytni stafi hætta af lúpínunni. Við teljum það alrangt. Við teljum að gera þurfi miklu ítarlegri úttekt og rannsóknir á lúpínunni, áður en menn fara af stað í einhverja herferð, ég tala nú ekki um einhvern eiturefnahernað, gegn henni. Fullyrt er að hún vaði yfir gróið land. Hvar gerir hún það? Það eru ekki til neinar rannsóknir, sem byggja má á hvort og þá hvar hún er að gera skaða."

 

Svandís Svavarsdóttir hefur í ráðuneyti sínu samanlagt unnið íslenzkri þjóð meira tjón en margir aðrir og er þá langt til jafnað. Skemmdarverk hennar gegn atvinnuuppbyggingu  hafa toppað afrek Þórunnar Sveinbjarnardóttur á því sviði og þóttu þau samt ærin.

 

Umhverfisfasistar eru farnir að vinna náttúru Íslands beint tjón.

 


Alþingi skammist sín !

Alþingi á að skammast sín fyrir að bjóða þjóðinni uppá það að þingmenn hlaupi nú heim til sín frá vandamálunum á fullu kaupi. Skilji þau hrikalegu vandamál eftir sem framundan eru án þess að gera tilraun til að finna lausnir. Hvern fjandann hafa þingmenn annað að gera en að vera í vinnunni við þessar aðstæður.

 Þvæla kratanna  um nauðsyn stjórnlagaþings til að setja landinu stjórnarskrá er útí Hróa.  Hvaða þörf er fyrir einhverja nýja stjórnarskrá núna þegar allt stefnir í bál og brand ? 3000 manns eru flúin land síðan á áramótum.

 Er ekki nær að reyna að finna út hvað á að gera ef hér brýst út bylting vegna uppboðanna sem skella á heimilunum  í haust ? Hverskonar aulalið er þetta sem við höfum kosið og erum að borga kaup til að finna lausnir á vanda þjóðarinnar.? Ef Alþingi hefði sinnt skyldum sínum í þessu stjórnarskrárefni væri ekki verið að þrátta um þetta núna. En Alþingi hefur svikist um að leysa þetta verkefni og ætlar að útvista því á kostnað þjóðarinnar.  Alþingi á að skammast sín fyrir aumingjaháttinn. Virðingu mína hefur það ekki.

Alþingi er ekki lýðræðislega kjörið. Það er ekki þversnið af þjóðinni. Það endurspeglar ekki þjóðarviljann af því að einn maður hefur ekki eitt atkvæði við kjör til þess. Þessvegna fer sem fer.

Og ráðgefandi stjórnlagaþing er höfuðið af skömminni. Menn útí bæ eiga að gera tillögur til einhvers Alþingis sem getur ekki leyst málin, hver sem niðurstaðan verður. Sjá menn ekki hversu vitlaust þetta er ? Bæði heimskulegt og ömurlegt og svo  rándýrt til viðbótar.

Alþingi á að skammast sín.


Bófarnir í BYR

Mbl. birti ágæta grein um málefni BYR í dag. Meginatriðin tek ég upp hérna.

„Í næstu viku verður lögð fram greinargerð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í máli nokkurra stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði. Íslandsbanki hefur höfðað mál á hendur nokkrum stofnfjáreigendum til að fá úr því skorið hvort bankinn geti gengið að öðrum eignum þeirra sem tóku lán hjá Glitni til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr í kringum áramótin 2007-2008.

Á fjölmennum  fundi sem Samtök stofnfjáreigenda í Byr stóðu fyrir í gær sagði Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður, sem fer fyrir tilteknum hópi stofnfjáreigenda, að krafa hans skjólstæðinga væri einfaldlega sú að bankinn tæki stofnfjárbréfin í Byr á móti lánum. Hann sagði að lánin sem veitt voru til stofnfjáraukningar í Byr hefðu verið veitt með veði í bréfunum eingöngu og því verði þess krafist fyrir dómi að ekki verði hægt að ganga að öðrum eignum stofnfjáreigenda.  Á fundinum, sem haldinn var í húsakynnum Byrs sparisjóðs í Borgartúni, kom fram að líklega sitji um 500 manns uppi með skuldir vegna kaupa á stofnfjárbréfum þannig að margir aðrir tengjast þessu máli .  

 Hróbjartur tók dæmi af máli sem lagt verður fyrir héraðsdóm í næstu viku og varðar ekkju fædda 1932. Glitnir ráðlagði ekkjunni, sem hefur ekki aðrar tekjur en ellilífeyri, að taka lán í erlendri mynt til 18 mánaða til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Að sögn Hróbjarts vildi þessi kona ekki taka lán en henni hafi verið sagt að tæki hún ekki þátt í stofnfjáraukningu Byrs myndi hún tapa 86% af því stofnfé sem hún átti fyrir. Hann segir ljóst að Glitnir, sem var umsjónaraðili stofnfjáraukningar í umboði Byrs, hafi enga skoðun gert á greiðslugetu einstaklinga. Í dæmi ekkjunnar sé t.d. augljóst að hún hafi ekki haft möguleika á að afla sér tekna til að standa undir afborgunum. Þá hafi henni verið tjáð að engar tryggingar lægju að baki láninu aðrar en veð í stofnbréfunum sjálfum. »Þetta mál lýsir því að það hefði ekki getað komið til nein önnur ábyrgð en bara stofnbréfin sjálf,« sagði Hróbjartur.“

 Það liggja margir vitnisburðir fólks sem hníga alfarið að því að því hafi verið talin trú um, að það, að engra annarrar trygginga yrði krafist en veðs í bréfunum sjálfum, væri samstofna því að engin önnur áhætta fylgdi lántökunni. Ég hefði sjálfur aldrei farið að taka lán fyrir mínum hlut hefði ég trúað öðru eftir viðtal við ráðgjafa í bankanum, svo gersamlega fannst mér þetta gráupplagt og sjálfsagt að styrkja mitt fyrirtæki í harðri samkeppni við risana.

  Ég var þá algerlega grunlaus um að svo væri í pottinn búið sem svo kom á daginn. Að „the convicted whitecollar criminal, Jón Ágeir Jóhannesson „ eins og hann kallast í málsskjölum Hæstaréttar New York Fylkis, þar sem honum er borið á brýn að hafa stolið tveimur billjónum bandaríkjadala af Glitni og bandarískum fjárfestum,  væri búinn að tryggja sér öll völd í báðum stofnunum, Og það væri verið að hafa mig bæði að fífli og að ginna af mér fé. Sem mér auðvitað svíður, einkanlega það fyrra af því maður þykist auðvitað vera svo sniðugur. Egóið er í lágmarki eftir svona atburði. 

En það mega íslensk útrásarþjófagengi best vita, að Bandaríkjamenn sumir hverjir líta það öðrum augum en Íslendingar að vera snuðaðir um stórfé og selja egóið dýrt. Ekki myndi ég að minnsta kosti vilja vita af sumum þeirra á eftir mér vegna ógreiddra skulda þó þeir geti hlegið að okkur ræflunum í BYR. Og Bandaríkjamenn líta allt öðruvísi á glæpamenn en við Íslendingar. Þeir telja að glæpamenn eigi að vera í fangelsum en ekki á hvíldarheimilum.

 

Dómarnir yfir Maddoff voru að minnsta kosti lítið í ætt við íslenska þriggja mánaða skilorðsdóma  þannig að það gæti orðið eilítil bið á að sumir færu til að skoða frelsisstyttuna þegar Hæstiréttur New York fylkis hefur talað.

Stofnfjáreigendur í BYR telja sig hart leikna af bófunum í BYR og ætla að minnsta kosta að verjast saman til síðasta manns.


Má ekki hlusta á Jón ?

Á síðu Jóns Kristjánssonar fiskifræðings rekst ég á skarplegar hugsanir, sem hans er von og vísa. Ég leyfi mér að birta hér glefsur úr þessum skrifum eftir að hafa upptendrast af viðtali Arnþrúðar á Sögu við Jón í dag.

Jón byrjar með því að segja að ;

"Þrátt fyrir að þetta séu gömul skrif hefur lítið breyst, nema að þorskaflinn var skorinn niður stuttu síðar vegna "ofmats" og fór kvótinn niður í 130 þús tonn 2007. Enn er verið að þrátta um Kvótakerfið svo greinin á fullan rétt á sér.

Kvótakerfið sem nú hefur verið notað síðan 1984 er að ganga sér til húðar. Þetta stjórnunarkerfi var sett á til þess að vernda þorsk gegn meintri ofveiði, tímabundið í eitt ár. Hvort þorskstofninn hafi þá verið í hættu vegna ofveiði er álitamál og alls ósannað. Hvort tókst að vernda þorsk gegn meintri ofveiði er spurning um skilgreiningu, en það er staðreynd er að að þorskafli er nú árið 1999 talsvert minni en þegar kerfinu var komið á 1984, en þorskaflinn árið 1983 var 300 þúsund tonn. Það hefur sem sagt tekist ágætlega að draga úr veiði á þorski.

Tilgangurinn með veiðistjórnuninni 1984 var að draga úr veiði til þess að byggja stofninn upp svo unnt yrði að veiða meira seinna, en gjarnan var haldið fram að jafnstöðuafli þorsks við Ísland gæti verið 500 þúsund tonn á ári. Kerfið hefur ekki orðið til þess að þessi afli hafi náðst, þvert á móti hefur sífellt verið að minnka. Þar á ofan hefur það haft í för með sér ýmsar hliðarverkanir sem höfundar þess sáu ekki fyrir í upphafi og kerfið er orðið svo flókið að yfirsýn þess er orðin ómöguleg. Sífellt er verið að stoppa í göt eins og það er kallað, en við það opnast ný göt, enda flíkin orðin slitin. Víst er að menn sáu ekki þróunina fyrir þegar kerfinu var komið á.

Hér má sjá afla nokkurra botnfisktegunda 1989 -1998. Þorskaflinn sést sem rauð lína og aflatölur eru gefnar upp með rauðum tölum vinstra megin (tonn x 1000). Allir stofnar hafa verið á niðurleið síðan þá, þorskurinn hefur þokast aðeins upp á við. Afli annara tegunda en þorsks er sýndur hægra megin (svartar tölur). Það kallast nú "uppbygging stofnsins". Enn er langt í land að aflinn verði sá sem hann var 1990 þegar uppbyggingin var að hefjast fyrir alvöru með niðurskurði.

En það er ekki aðeins að þorskaflinn hafi minnkað: Afli flestra annara botnfisktegunda hefur einnig verið að minnka undarnfarinn áratug. Því er von að menn hiksti aðeins þegar talað er að við séum með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heiminum. Má vera, ef markmiðið er að halda alltaf sömu arðsemi með minnkandi afla, heimsmetið verður væntanlega að halda tekjunum þegar aflinn er orðinn enginn. Þá erum við á réttri leið......

....Ráðamenn vilja halda dauðahaldi í núverandi kerfi og nota gjarnan þá röksemd að ekki sé annað betra til, enginn hafi sett fram aðrar tillögur þrátt fyrir að margar hafi reyndar komið fram. Flestar tillögur sem fram hafa komið eru byggðar á aflamarki og því í raun ekki annað en útfærslur á núverandi kerfi (byggðakvóti, uppboð aflaheimilda o.s. frv.). Þörf er nýhugsunar ef á að búa til nýtt kerfi, fara á byrjunarreit, hugsa upp á nýtt, án þess að vera sífellt með núverandi kerfi á bakinu. Þá verður að skilgreina markmið og notast við forsendur um nýtingu fiskstofna sem eru líklegri til að gefa meiri afrakstur en þær en þær sem eru uppi í dag.

Fram til þessa hafa verið ráðandi vísindi (hugmyndir um samspil veiða og fiskstofna) sem ekki hafa staðist dóm reynslunnar. Þær hafa í stuttu máli byggst á þeirri hugmyndafræði að ef beðið væri með að veiða fiskinn þar til hann yrði stærri, fengist meiri afli. Á það var bent 1984 að slíkar hugmyndir, sem lagðar voru til grundvallar kerfinu þá, -væru rangar, en ekki var tekið tillit til ábendinganna. Þorskur hafði þá horast árin á undan og gagnrýnin var þá sú að ekki væri hægt að friða fisk ef næg fæða væri ekki fyrir hendi, en því var vísað á bug af Hafrannsóknastofnun. Gríðarleg orka og fé hefur farið í að verja hinar röngu forsendur í tímans rás.

Markmið veiðstjórnunar má m.a. skilgreina þannig:

  • Hámarka afrakstur fiskstofna til langs tíma
  • Hámarka arðsemi veiðanna
  • Hámarka arðsemi þjóðarbúsins
  • Stuðla að jafnvægi í byggð landsins

Þegar kerfið var sett á fannst mönnum eðlilegt að takmarka aflann með því að setja hámark á leyfilegan afla. Á þeim tíma voru menn "vanir" því að tala um afla, meiri eða minni og sú hugsun var allsráðandi að með því að stjórna því sem veitt var eitt árið, væri unnt að hafa áhrif á afraksturinn árið eftir. Menn sáu ekki fyrir þær breytingar sem urðu við að fara að stjórna aflanum sem tekinn var úr sjónum í stað þess að hafa stjórnað veiðidögunum, sókninni:

Frá því að hámarka aflann þá daga sem veitt var, selja hvern ugga til að skapa tekjur, þá borgaði sig nú að vera útsmoginn, velja úr dýrasta fiskinn og selja hann, en kasta verðminni afla. Það á ekki að þurfa að útskýra að grundvallarmunur er á þessu tvennu:

Sóknarmark hámarkar nýtingu þess afla sem kemur á dekk, aflamark hámarkar verðmæti þess afla sem kemur í land.

Gallar aflamarkskerfis eru eftirfarandi:

1. Besti fiskurinn veiddur.

Gæði, og þar með verðmæti einstaklinga sömu tegundar eru misjöfn. Má þar nefna holdafar, stærð, lit, sníkjudýrabyrði o. s. frv. Þegar leyft er að veiða ákveðið magn reyna menn að hámarka arðinn með því að ná sem verðmætustu vörunni. Þetta er gert á tvennan hátt:

a) Með því að sækja ekki á slóð þar sem von er á lélegum fiski eða nota einungis veiðarfæri sem velja úr stærsta og dýrasta fiskinn. Dæmi: Bátar á sunnanverðum Vestfjörðum sækja ekki í Breiðafjörð vegna þess að fiskurinn þar er ormaveikur og hentar illa i vinnslu og hann gefur lágt verð. Þetta veldur því að svæði og þar með undirstofnar verða vannýttir. Margir nota einungis 9-11 tommu net á vetrarvertíð.

b) Með því að henda verðlitlum fiski. Þættirnir a) og b) valda því að mat á stærð fiskstofna lækkar og ef beitt er aflareglu, minnkar kvótinn. Það ýtir undir að koma með enn dýrari fisk að landi. Þetta gildir óháð því hvaða stefna (hugmyndafræði) er i gildi um hvernig fara eigi að því að hámarka afrakstur fiskstofna.....

....Aflamark er einungis nothæft á einsleitar veiðar, t.d. loðnuveiðar. Þá er ekkert á ferðinni nema sá fiskur sem veiða má, en óhæft þegar um blandaðar veiðar (botnfiskveiðar) er að ræða, því þá verða menn að henda þvi sem kvóti er ekki fyrir. Þó hefur þetta reynst illa við síldveiðar þó ekkert veiddist í nótina nema síld. Sú var tíðin þegar auðvelt var að ná kvótanum að mikið var um smásíld á miðunum. Þá slepptu menn niður köstum sem voru mest megnis smásíld, köstuðu og köstuðu þar til þeir fengu stærri og verðmeiri síld. Megnið af síldinni sem sleppt var drapst eftir að búið að þrengja að henni í nótinni, enda fóru sögur af úldinni síld á botninum í fjörðunum fyrir austan.

2. Félagslegir ókostir

Hér hefur einungis verið fjallað um helstu líffræðilega ókosti aflamarkskerfis, en ótaldir eru aðrir ókostir af félagslegum toga sem tengjast framseljanlegum kvóta m.a. tilfærslu afla milli staða og tilheyrandi byggðavanda og flutningi fjár út úr greininni þegar menn labba sig út úr greininni eins og sagt er. Ekki verður hér farið nánar út í þennan ókost.

Athyglisvert er að aldrei hefur verið talað um það í kvótakerfinu, að t.d. helmingur veiðileyfanna (kvótans) væri sameiginlegur. Þannig mætti hugsa sér að helmingi loðnukvótans væri úthlutað á skip, en hinn helmingurinn væri frjáls öllum, boðinn upp, úthlutað til nýrra aðila skv. umsóknum t.d., eða veiddur í samkeppni, allt eftir eðli veiðanna.

Þegar við vorum að ná yfirráðum yfir fiskimiðum okkar færðum við út landhelgina í áföngum frá þremur sjómílum í 200. Þetta var sóknarstýring. Hún var svo öflug, að fiskveiðar frá Grimsby lögðust af. Þetta var okkar hagsmunamál og á þeim tíma voru allir vissir um að þetta væri nægjanlegt til verndar fiskstofnunum. Á sama hátt getum við stjórnað eigin veiðum með landhelgi (svæðaskiptingu).

Einnig má gera þetta með því að stýra veiðarfærum: möskvastærð, önglafjölda, netafjölda o.s. frv. Það er ljóst að fari enginn á sjó, eða skip rói án veiðarfæra þá er friðun algjör. Síðan er einhver millivegur í óhefta sókn.

Nýtt kerfi: Stjórn fiskveiða byggist á sóknarstýringu

1. Úthlutað verði, á einhvern hátt, veiðileyfum sem gilda í ákveðinn tíma. Leyfið gildir óháð tegundum, með þeirri undantekningu þó að sérhæfum veiðum verður haldið aðskildum. Má þar nefna hrokkelsaveiði, uppsjávarfiska og krabbadýr.

2. Settar verði umgengnis- eða umferðarreglur s.s. svæðaskipting skipa/veiðarfæra, í meginatriðum að smærri skip nýti grunnslóð en þau stærri djúpslóð svipað og var þegar landhelgin var sett út í 12 mílur. Einnig verði tekið tillit til "vertíða" og tímabundinna veiðisvæða.

3. Sérveiðar (loðna, síld, humar, hrokkelsi) hlíta aflamarki ef það á við. Hluta (helmingi) verði úthlutað á skip skv. reynslu, afgangi jafnt á alla (eftir stærð skipa) á hverju ári (í hvert skipti), án tillits til fyrri veiðireynslu.

4. Sett verði á aflagjald, mismunandi eftir tegundum og tímabilum. Aflagjaldið getur verið bæði jákvætt og neikvætt. Þetta er aðferð sem ætlað er að stýra sókn í einstakar tegundir ef þurfa þykir og efla nýtingu vannýttra tegunda, sé álitin þörf á því.

Aflagjaldið hefur þann kost að:

1. Eigandinn fær greitt afgjald af sameigninni. Sbr. að taka upp rófur og fá annan hvern poka, veiðimaðurinn er orðinn verktaki eigandans (þjóðarinnar) og greiðir honum fyrir það sem hann tekur úr sjónum (ath. ekki er greitt fyrir að fá leyfi til að taka úr sjónum heldur fyrir hvern titt sem landað er).

2. Hægt er að stýra sókn (vernda tegundir) með því að hafa gjaldið mishátt. Gjaldið gæti verið neikvætt (styrkur, niðurgreiðsla) ef um vannýttar tegundir væri að ræða.

3. Allir geta róið til fiskjar, þeir þurfa einungis að hlíta settum (leik) reglum og greiða afgjald.

Ástæðulaust er að fara út í nánari útfærslu hér, hún er tæknilegt atriði. En rétt er að minna á það sem áður hefur verið sagt um fiskifræðina, sem hingað til hefur verið lögð til grundvallar stjórnun fiskveiða. Hún hefur ekki staðist og bent hefur verið á hvers vegna það hún hafi ekki staðist. Þær ábendingar hafa hins vegar ekki hlotið háð stjórnvalda, sem haldið hafa verndarhendi yfir hinum misheppnuðu forsendum. Þetta verður að breytast, eigi að verða vit í stjórnun fiskveiða hjá þessari þjóð, " í mesta fisklandi heimsins, þar sem jafnvel hundar ganga út og spýja heyri þeir nefndan lax".

----------------------------

Viðbót 2009:

Síðan þetta var skrifað, árið 2000, hef ég kynnst sóknarkerfi Færeyinga, Það byggir á úthlutun veiðidaga sem eru mismunandi fyrir hina ýmsu skipaflokka, trillur, línubáta, togara o.s.frv.

Þar er ekki tekið aflagjald eins og stungið er upp hér að ofan. Ástæðan var að það hvatti til endurskírnar á tegundum, tegundum með hátt aflagjald var "breytt" í tegundir með lægra gjald. Vilji menn kynna sér það frekar hef ég sett upp sérstaka Færeyjasíðu.

Höggvið á hnútinn? (Febrúar 2010)

Til stendur að endurskoða kvótakerfið og nú verjast sægreifar eins og þeir geta til að missa ekki aflaheimildir. Svo virðist sem stjórnvöld hafi ekki kjark til að gera róttækar breytingar af hræðslu við Greifana. Mér sýnist ekki hægt að breyta kerfinu á löngum tíma, innköllunn á 20 árum, í samvinnu við "hagsmunaaðila". Þeir vilja ekki breyta neinu og hagsmunaðillinn Þjóðin fær ekki að vera með.

Eina leiðin virðist vera að höggva á hnútinn pólitiskt og breyta kerfinu á einni nóttu, með einu pennastriki eins og sagt er. Ég skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem ég sting upp á hvernig höggva megi á hnútinn. Hún fer hér á eftir.

Einföld leið út úr kvótakerfinu (skrifað í maí 2009)

Stjórn fiskveiða með því að ákveða fyrir fram hve mikið skuli veiða af hverri tegund, kvótakerfið, hefur ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast, þ.e. að auka afrakstur fiskstofna. Eftir aldar fjórðungs tilraun er þorskafli í sögulegu lágmarki og vöxtur fiskanna er lélegri en nokkru sinni fyrr. Menn greinir á um hvers vegna þetta sé, Hafrannsókn kennir um ofveiði, að ekki hafi verið farið hárfínt eftir ráðleggingum þeirra. Aðrir vilja meina að þær líffræðilegu forsendur sem lagðar voru til grundvallar hafi ekki staðist. Þegar dregið var úr veiðum dró úr vexti einstaklinganna. Næg fæða var ekki fyrir hendi til að standa undir stærri stofni.

Þegar úthlutað er afla til kvótahafa reyna þeir skiljanlega að fá út úr honum sem mest veðmæti. Þeir reyna að ná sem verðmestum fiski og sé ekki kvóti fyrir því sem veiðist fer það í sjóinn aftur.

Þar sem kvótakerfið hefur í sér innbyggðan hvata til sóunar, þá þarf að leggja það af. Einnig er vafasamt að úthluta afla ár fram í tímann, ómögulegt er að telja fiskinn í sjónum og ekki er unnt að sjá fyrir breytingar á fiskgegnd eða aflabrögðum þegar kvótar eru ákveðnir. Sóknarkerfi eins og notað er í Færeyjum nemur breytingarnar strax og er laust við brottkast.

Nú tala menn um að breyta þurfi kerfinu og bæta það en fyrning, innköllun á kvóta, uppboð eða hvað það nú heitir viðheldur kerfinu en kemur ekki í veg fyrir galla þess.

Það hefur vafist fyrir mönnum hvort unnt sé að innkalla aflaheimildir án þess að ríkið eigi yfir höfði sér skaðabótamál. Margir útgerðarmenn halda því fram að verði aflaheimildir af þeim teknar smám saman og boðnar upp fari fyrirtæki þeirra á hausinn. Þeir sem hafa tekið lán til kvótakaupa séu stórskuldugir og þurfi tekjur til að borga af lánunum.

Krafa er um að aflaheimildir verði boðnar út hæstbjóðendum til að fá tekjurnar af auðlindinni í ríkiskassann. Þá myndu menn bjóða hver í kapp annan svipað og við lóðauppboð á höfuðborgarsvæðinu, sem endaði með skelfingu. Innkoman fór beint í aukna eyðslu sveitarfélaganna til að kynda undir brjálæðinu.

Hafa verður í huga að kvótinn sem slíkur er einskis virði, verðmætin liggja í fiskinum sem kemur að landi og það mun skila sér til þjóðarinna eftir sínum leiðum. Kvótauppboð myndu aðeins auka rekstrarkostnað, sem kæmi fram í auknu fiskverði, erfiðari samkeppnisaðstöðu og taprekstri. Auk þess færi afgjaldið af kvótanum svipaða leið og bensíngjaldið, í ríkishítina.

Það er ekki flóknara að stíga út úr þessu kerfi en það var að fara inn í það. Það gæti t.d.hafist með eftirfarandi tilkynningu frá Sjávarútvegsráðherra:

"Við endurskoðun gagna og endurmat á líffræðilegum forsendum þykir ekki þörf á að vernda þorsk og aðrar botnfisktegundir sérstaklega.

Eftirfarandi tegundir eru því teknar út úr kvóta: Þorskur, ýsa, ufsi, skarkoli, steinbítur, karfi, úthafsækja .... Skipum með gilt veiðileyfi er heimilt að stunda veiðar á þessum tegundum. Settar verða nánari reglur um umgengni til að koma í veg fyrir árekstra veiðarfæra og skipaflokka. Ákvörðun þessi gildir til eins árs í senn."

Með þessu er ekki verið að taka aflaheimildir frá neinum og því ekki um neina –bótaskyldu" að ræða. Svona breytingar myndu þýða aflaukningu, nokkuð sem er gagnstætt friðunarstefnu Hafrannsóknar, en í ljósi ömurlegrar reynslu ættu stjórnmálamenn varla að þurfa mikinn kjark til að taka af þeim ráðin. Sýna má fram á með vísindalegum rökum að það er ekki einungis í stakasta lagi, heldur blátt áfram nauðsynlegt að auka veiðar til að bæta vaxtarskilyrði einstaklinganna og koma í veg fyrir sjálfát svo góðir árgangar verði ekki étnir upp áður en þeir geta tekið út vöxt. Einn slíkur er að sögn á leiðinni og myndi muna um að hann yrði að gjaldeyri en færi ekki á matseðilinn hjá horþorskinum. "

Það er óhugnanlegt til þess að vita, að Jón hefur sætt skipulagðri þöggun af hálfu vísindamanna Hafró og kvótakallanna í Sjálfstæðisflokknum, sem hafa einokað sjárútvegsnefndina svo marga landsfundi sem ég man eftir. Það er ljóst að kvótagreifarnir hafa beitt fjármagni til þess að kaupa sér liðveislu við óbreytt ástand og rekið sjálfir öfluga áróðursdeildir í þessu skyni.

Í útvarpinu tók Jón grásleppuveiðar Íslendinga sem dæmi. Við tökum 15 þúsund tunnur af grásleppuhrognum ! HROGNUM sem verða ekki að nýjum grásleppum ! Hafró hefur ekki hugmynd um stofnstærðir þessa fisks og er alveg sama því veiðarnar eru stundaðar á smábátum upp við land. Stofninn stjórnar sér sjálfur með veiðimönnunum og markaðnum. Allt virðist ganga ágætlega án Hafró sem leggur til málamynda það til, að stunda veiðar með gát.

Erf ekki kominn tími til að leyfa Jóni að komast að með sinn málflutning og mótmæla þeirri skoðanakúgun sem Hafró beitir okkur landsmenn ?  Stofnunin situr uppi með vantraust eftir að hafa ofmetið hrygningarstofnana og ennfremur að hafa aldrei látið hvalastofninn og átið á honum til sín taka. En hvalirnir éta miklu meira en allur flotinn okkar veiðir og eru því beinir keppinautar okkar í fiskveiðum við Ísland. Að auki er ólykt af því að LÍU, kvótagreifarnir sjálfir, séu að bera fé í stofnunina.

 Það þykir minnsta kosti ekki fínt ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga í hlut að þiggja styrki frá Baugi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 3418162

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband