Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Hvað lafir hún lengi ?

Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifar svo á sína síðu:

" Enn fjölgar opinberum störfum

Frá hinu svonefnda hruni haustið 2008 hefur störfum á almennum vinnumarkaði fækkað um 11.000, en á sama tíma hefur störfum í þágu hins opinbera fjölgað um rúm 16.000. Þetta kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Ármannssyni alþingismanni.

Þetta þýðir að 11.000 færri starfsmenn þurfa að standa undir aukinni skattheimtu til að greiða fyrir útþenslu ríkisbáknsins sem lýsir sér m.a. í því að opinberum störfum hefur fjölgað jafn gríðarlega eins og fram kom í svari fjármálaráðherra.

Svar fjármálaráðherra er alvarlegur áfellisdómur yfir honum og ríkisstjórninni. Ef til vill áttar fólk sig ekki á því hvað það er alvarlegt að auka ríkisumsvifin á þeim tímum sem öllum á að vera ljóst að það þarf að skera niður.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra er liprasti stjórnmálamaður landsins í munninum en að sama skapi vanhæfur til annarra verka. Þannig hefur hann þrástagast á því að standa blóðugur upp að öxlum við niðurskurð ríkisútgjalda á sama tíma og hann er að auka þau.

Göran Person forsætisráðherra Svíþjóðar gaf íslendingum það ráð að taka á vandanum strax vegna þess að þeim mun lengur sem það drægist þá yrði það þeim mun verra.  Ríkisstjórnin tekur ekki á neinum hlut og í eitt og hálft ár hefur ástandið ekki gert neitt annað en versna. Ljóst er af tölum um fjölgun opinberra starfa að ríkisstjórnin telur sig enn standa við veisluborð á kostnað vinnandi fólks í landinu. "

 

Í gær var sagt 1í fréttum að 3000 manns hefðu flutt úr landi frá áramótum. Í fyrra fóru 4000 manns. Þetta túlkar ríkisstjórnin sem svo að hún sé að vinna bug á atvinnuleysinu. Það fjölgar lítið  á atvinnuleysisskránum þessa dagana. Suðurverk segir upp öllum starfsmönnum þar sem engin verkefni eru boðin út. Þrátt fyrir að 80 % af öllum framkvæmdakostnaði endi hjá ríkissjóði. Þetta skilja kommatittirnir ekki og því fer sem fer.

Og í kvöld komu tölur um að áfengissalan hefði minnkað um 12 %. Verðhækkanirnar hefðu skilað minni drykkju. Sem var víst alltaf yfirlýstur tilgangur ÁTVR að hafa vín svo dýrt að fólkið drykki minna. Loksins gerist það og nú telur Steingrímur vá fyrir dyrum því að tekjurnar bregðist !

Hvað skyldi þessi stjórn geta lafað lengi áður en fólkið tekur sig til og sleifar hana út á Austurvelli ?


SjangRíLa og RíLaSjang

Árni brúni skrifaði grein um launafrystingu opinberra starfsmanna um daginn. Auðvitað vill enginn viðurkenna að nokkuð af viti geti komið frá Árna brúna og verkalýðsforystan formælir hugmyndum hans norður og niður. Og Steingrímur skoðanalausi segir auðvitað að þetta hafi Árni alls ekki rætt við sig.

En innst inni veit hvert mannsbarn að verðbólga étur yfirleitt upp allar pappírskjarabætur og fólkið sem átti að hjálpa er verr sett. Svo er auðvitað heimska fólksins sem lýsir sér í því að það sé í lagi að hafa það skítt ef nágranninn hefur það heldur verra.

Hugsum okkur að í SjangRíLa hafi vitsmunaverur og reynsluboltar sem við getum kallað Einar Odd og Guðmund Jaka, talað svo um fyrir fólki, að það sé tilbúið að frysta öll laun tímabundið gegn því að opinber þjónusta verði ekki hækkuð. Hvað finnst mönnum líklegt að mynd gerast í því ágæta landi ?

 Myndi ekki verð á gjaldeyrinum frá  stóra nágrannanum RílaSjang lækka um leið og krónan í SjangRíLa  yrði sterkari. Launþeginn þar fengi meiri gjaldeyri fyrir sína krónu en áður og þar með meira af innfluttri vöru. Það yrði mun meira aðlaðandi að fara  í frí til nágrannríkisins RílaSjang þar sem allt var svo dýrt áður og verðbólgan át allan sparnað upp til agna vegna skorts a verðtryggingu. Flugfargjöld myndu hafa lækkað og verðbæturnar á afborganirnar af lánunum væru allt í einu orðnar NÚLL. Bara lágir vextir eftir og verðbótaþáttur vaxta orðinn að NÚLL. Það væru allt í einu raunvextir á bankabókinni.Rafmagnið og hitinn myndu ekki hækka um næstu mánaðarmót og bensínið ekki heldur.

En Árni brúni er á Íslandi og varla nokkur maður sem trúir honum né neinu sem frá honum kemur því að hann er eins og strákurinn sem æpti alltaf úlfur úlfur svo menn voru óviðbúnir þegar úlfurinn kom. Og Árni brúni er bara kratagrey en ekkert líkur Einari Oddi eða Jakanum að lífsreynslu. Þess vegna trúir enginn neinu sem hann segir.

En ég trúi því að hann hafi sagt satt þennan dag. Íslendingum myndi vel farnast ef þeir færu þessa leið.

Mun betri lífskjör allrar alþýðu, gamlingja og öryrkja gætu verið framundan ef skynsemin fengi að ráða. En til þessa vantar okkur menn sem geta talað þjóðina til. Það eru bara engir sem fólkið myndi trúa ef þeir ræddu við það í þaula eins og Einar Oddur tuggði sannindin í okkur 1989. Aftur og aftur þar til að við trúðum. Hér hlaupa bara einhverjir spilltir fjármálagosar um völl frá gömlum prófkjörum sínum og enginn trúir á þá og sem þjóð getum við ekki hugsað skynsamlega þó einstaklingar geti það.

En við eigum hinsvegar Guðmund Í Rafiðnaðarsambandinu, forystumenn opinberra starfsmanna og nóg af flugumferðarstjórum og frjálsum þrýstihópum sem krefjast samninga um verðbólgu þegar í stað og að heilbrigð skynsemi sé gerð útlæg af þjóðinni þangað til að þeir hafi fengið sínum kröfum framgengt. Þá megi hinir setja á verðstöðvun þeirra vegna.

Það hafa því 3000 manns flutt frá Íslandi til annarra landa frá áramótum. Gott að þeir eru þá farnir af atvinnuleysisbótum sem ríkisstjórnin túlkar sem efnahagslegan árangur og björgun þúsunda heimila frá gjaldþroti. Það léttir á ríkissjóði við þessi tíðindi

Er ekki bara best að sem flestir flytji frá SjangRíLa til RíLaSjang ?

 

 


Talað undir rós

" Hæstiréttur New York RíkisNew York sýslaGlitnir Banki HF, með og í gegn um  skilanefnd, slitastjórn og erlendan fulltrúa; og Steinunni Guðbjartsdóttur, einungis í krafti réttlega skipaðrar stöðu sinnar sem fullgildur erlendur fulltrúi Glitnis Banka hf.                                                                     

                                                                     Stefnendur,                                             

    -gegn-

JÓN ÁSGEIR JÓHANNESSON,

THORSTEINN JÓNSSON,J

ÓN SIGURÐSSON

LÁRUS WELDING

PÁLMI HARALDSSON

HANNES SMÁRASON

INGIBJÖRG STEFANÍA PÁLMADÓTTIR,

Og

PRICE WATERHOUSE COOPERS HF.,                                                                                                                                                                                   Stefndu 

Stefnendur Glitnir Banki hf,,vegna  og  fyrir hönd Skilanefndar, Slitastjórnar og erlends fulltrúa; og Steinunnar Guðbjartsdóttur, einungis í krafti réttlegrar skipaðrar stöðu sinnar sem erlendur fulltrúi Glitnis Banki hf.(saman "Stefnendur“), í gegnum undirritaða lögmenn,Steptoe & Johnson LLP, og ein fyrir sakargiftir gegn ákærðu .....(upptalning nafnanna) ...,  með allri virðingu lýsa yfir og gefa að sök samkvæmt eftirfylgjandi:

Formáli

1.   Milli Apríl 2007 og  og Ferbúar 2008, tóku ákærðu, hópur kaupsýslumanna,  undir forystu hins dæmda hvítflibbaglæpamanns, ákærðs Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, þátt í víðfeðmu samsæri til að sölsa undir sig hinn íslenska banka, Glitnir banki hf.(„Glitnir „ eða „Bankinn“) til þess að ná til sín með sviksamlegum hætti, 2 billjónum  Bandaríkjadala  úr bankanum  til þess að fylla eigin vasa sína og hressa við fyrirtæki sín á fallanda fæti. Til þess að fjármagna þessar gerðir, reiddu ákærðu sig mjög á fjármagn sem aflað var með sölu meðallangra skuldabréfa („MTN´s“) til fjárfesta í New York og annarsstaðar í Bandaríkjum Norður-Ameríu. Hinir ákærðu hafa aldrei borgað til baka þær fjárhæðir sem þeir tóku úr bankanum."....

 Þannig hefst 80 bls. stefna Glitnis á hendur ofantöldum útrásarvíkingum fyrir Hæstarétti New York Ríkis. Í henni er rakið hvernig þessi hópur, í aðgerð sem þeir nefndu " Operation Tornado" eða hvirfilvindinn, stálu öllu fé Glitnis Banka hf. fyrir sig og skildu mig og alla aðra meðhluthafa sína eftir á köldum klaka.

Dómurinn úrskurðar sig hafa lögsögu yfir Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu þar sem þau eiga heimili í New York.  Og í Bandaríkjunum sleppa menn yfirleitt ekki með þriggjamánaða skilorð fyrir verulegar sakir eins og dómurinn yfir Maddoff og Enron fólkinu sýndi.

Þjóðfélagið okkar lætur sem ekkert sem sé  þó hinn "dæmdi hvítflibbaglæpamaður " ráði yfir stærstu fjölmiðlum landsins og stýri í eigin þágu með leigupennum sínum. Lætur sem ekkert sé þó að félög hans hafi skilð eftir eina 6 milljarða hjá almenningi landsins í leikfléttu með Rauðsól, 365 miðla og íslenzka afþreyingu  til þess eins að geta haldið áfram að verja sjálfan sig og sína

Þóðin lætur sem ekkert sé þegar banki í ríkiseigu er að afhenda honum til baka yfirráð yfir verslunarveldinu Högum sem rekur Bónus og Hagkaup, sem almenningur heldur að hafi verið honum til hagsbóta með lágu vöruverði ! Er ekki allur afslátturinn  fram kominn núna  þó seint sé ?  Hefur reikningurinn fyrir afsláttinn ekki verið réttur almenningi  við hrunið eins og lesa má í stefnuskjalinu og víðar ?

  Hvernig stendur á því að Íslendingar umgangast svona menn á þann hátt sem þeir gera? Af hverju nefnum við ekki hlutina réttum nöfnum ? Af hverju tölum við alltaf undir rós ? 

Ákæruskjalið er hugsanlega ekki bráskemmtilegt aflestrar. En það er spennandi, skipulagt  og yfirþyrmandi. Það ætti brýnt  erindi til almennings og því hvarflar það að manni  að ríkið ætti að láta þýða það og koma því  fyrir almenningssjónir svo menn geti áttað sig á því samsæri sem þessir menn eru virðast hafa skipulagt.  Annað eins þýðir nú Össur af Evróputilskipunum um sveigjur á agúrkum. 

 Og ekki bara sugu þeir allt fé úr Glitni hf. Heldur skipulögðu þeir aðra fléttu, sem líklega enginn eltir þá með, en sú flétta  leiddi til gjaldþrots BYR og ógæfu hundruða fjölskyldna, sem nú sjá fram á að verða settar í gjaldþrot ef ekki vill betur  þegar arftaki Glitnis, Íslandsbanki,  fer að innheimta skuldirnar vegna stofnfjáreigendur tóku á sig vegna fyrrnefndrar fléttu. Örvasa gamalmenni og ungabörn, sem voru skrifuð fyrir lánum verða gerð ábyrg ífyrir greiðslum af þessum lánum sínum. En margir vitnisburðir eru til um það, að starfsmenn BYR töluðu stofnfjáraðila inn á kaupin undir því yfirskyni að ekkert væri lagt undir nema bréfin sjálf. En svo á aldeilis ekki að verða samkvæmt skilningi Íslandsbanka heldur skulu menn gjald með hryggjarstykkjum sínum ef ekki vill betur.

Spurningin verður  hvort sýna megi fram á vísvitandi sviksamlegt athæfi seljandans og lánveitandans, bæði  þar sem sölumenn fengu bónusa fyrir hverja sölu sem þeir komu á svo og það sem eftir fylgdi af hálfu stjórnenda Glitnis gagnvart ólögráða, elliglöptu eða trúgjörnu fólki? 

Á morgun kl. 17 halda þeir sem eiga um sárt að binda vegna stofnfjárfléttunnar miklu, sem hluta af "Operation Tornado" í BYR  fund með sér í húsakynnum BYR við Borgartún. Ein lítil tilraun hinna smáu til þess að reyna halda hópinn og reyna að verjast aðsókninni sem í vændum er.

Vonandi verður ekki talað þar undir rós.


Niðurlæging Alþingis

Mér finnst Alþingi niðurlægja sig þegar það eyðir tíma í það að láta vinstrimönnum eftir þá flugu, að hér þurfi stjórnlagaþing til að setja landinu stjórnarskrá !  Ef Alþingi hefði sinnt skyldum sínum í þessu efni væri ekki verið að þrátta um þetta núna. En Alþingi getur ekki leyst þetta verkefni. Af hverju ekki ?

Af því að Alþingi er ekki lýðræðislega kjörið. Það er ekki þversnið af þjóðinni. Það endurspeglar ekki þjóðarviljann af því að einn maður hefur ekki eitt atkvæði við kjör til þess. Svo gefst þetta Alþingi upp við að sinna skyldum sínum að setja landinu lög því það getur ekki leiðrétt grunnskekkjuna vegna andstöðu hinna óréttlátu lýðræðisóvina.

Nú ætla kommarnir að keyra í gegn eitthvað ráðgefandi stjórnlagaþing, þar sem þeir ætla að raða á lista þeim sem þeir vilji að þangað fari. Eitthvert svona handvalið lið á að gera rándýrar tillögur til Alþingis um hvað það geti gert í stjórnarskrármálum ! Fyrirgefið, en mér finnst þetta bæði heimskulegt og ömurlegt. Og auðvitað rándýrt til viðbótar.

Alþingi á að taka á sig rögg og samþykkja þær breytingar sem við blasa að eru nauðsynlegar ef Ísland á að vera lýðræðisríki. Sem byggist á jafnræði þegnanna til að ráðstafa sínum málum. Ekkert minna, ekkert meira.

Allt annað er bara fasismi og kommúnismi. Og aumingjaskapur til viðbótar.

Eitthv að ráðgefandi stjórnlagaþing úti í bæ er alger niðurlæging Alþingis sem stjórnlagaþings þessarar þjóðar.


Vitleysan hjá Sjálfstæðisflokknum

var að láta litlu kommaflokkana tala sig inná að fjármál stjórnmálaflokka yrðu gerð  opinber. Miklu frekar á að banna að veita þeim opinbera styrki af skattfé. Litlu kommaklíkurnar öfunduðu alltaf Sjálfstæðisflokkinn af því að  menn vildu styrkja hann til góðra verka en ekki þeirra litlu og ljótu kommaflokka.

Stjórnmálaflokkar eiga að hafa fullkomið frelsi til þess að reka sig án afskipta yfirvalda. Það kemur engum við hverjir styrkja þá. Það á að vera algert einkamál milli þeirra og styrkjandans. Þeir eiga að gefa út löglegar auglýsingakvittanir fyrir styrkjum þar sem fram kemur að þeir innheimti ekki virðisaukaskatt. Þessar kvittanir eiga að vera frádráttarbærar frá skatti hjá þeim fyrirtækjum sem þess óska. Að öðru leyti er þetta einkamál. Stjórnmálaflokkar eiga að að greiða launaskatta og skyldur af þeirri starfsemi sem þeir hafa með höndum en ekki aðra skatta nema fullan virðisaukaskatt af aðföngum sínum. Annað kemur kommunum ekki við í rekstri Sjálfstæðisflokksins og honum ekki hvað aðra flokka varðar. Ef flokkur ekki borgar er gegnið að eigum hans eða hann lýstur gjaldþrota.

Það varðar engan um það hver styrkir hvern í þessu þjóðfélagi. Hvorki Steinunni Valdísi eða Guðlaug Þór svo lengi sem þau fara eftir sömu reglum.

Fólk á að mega að reyna að kaupa mér vináttu, vændi eða greiða ef það vill. Það er ekkert öðruvísi með kaup á vændi eða styrkja stjónmálamenn. Þetta á að vera einkamál milli þess sem vill kaupa og þess sem vill þiggja. Og hverjir nærast mest á þessu ? Þeir sem sem eiga flesta fjölmiðlana og vilja draga athyglina frá sér.

En núna í vitleysunni eiga allir víst að segja af sér, alltfrá Jóhönnu sem líka fékk mútur niður í Gulla greyið sem var duglegastur að betla og svo er sótta að öllum sem er hægt að gera grunsamlega.

vitleysa gengur ekki hvorki hjá Sjálfstæðisflokknum né öðrum flokkum. Fyrirkomulagið núna býður bara upp á hatur og tortyggni og grefur undan lýðræðinu. Stjórnmál eru nauðsynleg hvað sem hver segir. Þetta er hugsjónastarf og kemur engum öðrum við. 


The buck stops here !

Truman Bandaríkjaforseti hafði skilti á borðinu hjá sér þar sem þetta stóð.Það þýðir einfaldlega að hér enda málalengingarnar og afgreiðsla fer fram.

Berum þetta saman við forsætisráðherra Íslands sem lét sérhanna sérstaka leiksýningu um að öllum væri frjálst að sækja um eina stöðu seðlabankastjóra fyrir ári síðan.  Hún var þá þegar búin að ákveða þann sem átti að ráða á bak við tjöldin þegar búið væri að reka Davíð, sem var í framhjáhlaupi sýknaður af meintu misferli í embætti í dag.

Farsinn um gegnsæið marglofaða sem þessi ríkisstjórn þykist viðhafa í mannaráðningum var  hinsvegar settur á svið í venjulegum blekkingastíl. Fosætisráðherrann  æpti bara á Sigurð Kára að honum færist nú ekki að vera að spyrja sig jafn Baugspilltur og hann væri nú.

Hún var svo í sjónvarpinu hjá Sigmari í kvöld sem þráspurði um launakjörin á þessum eina manni sem heyrir beint undir forsætisráðherra og hún réði beint til landsins úr himinhárri stöðu í Sviss.  Hún hélt því blákalt fram að hún vissi ekki neitt um hvaða kaup maðurinn hefði eða hefði átt að fá og setti á langar ræður um laun ríkisforstjóra almennt. Og slapp með það!

 Hún var ekki spurð um það hvort hún hefði lesið tölvupóstinn frá manninum sem um ræðir til hennar sjálfrar þar sem hann spurði um kaupið sitt eða af hverju hún svaraði honum ekki skriflega eða öðruvísi. Hvernig væri að Már yrði spurður hvort hann hefði engin viðbrögð fengið við sínu erindi ? Hvorki munnlega né á annan hátt ?

Jóhanna slapp því með að halda því fram að hún vissi ekkert um málið, það kæmi henni ekki við. Hugsið ykkur, þetta er forsætisráðherra Íslands sem talar og kemst upp með að bera þetta á borð fyrir þjóð sína !

Makalaust hvernig þetta Samfylkingarfólk sleppur með að meðhöndla okkur öll sem fífl sem trúum öllu sem rétt er að okkur.   "Það var þá" dugar Samfylkingarfólki til að útskýra svikin loforð. Kannski erum við bara öll fífl og eigum ekki betra skilið ? 

Af hverju eru engar kröfur gerðar til stjórnmálamanna af þessum vinstri kanti ? Þeir fá að bulla og þvæla alveg eins og þeir vilja og það er bara allt í lagi.  Þeir kunna  ágætlega  "Pass the buck" eins og lágt settra kontórísta er háttur sem benda hver á annan.   Hér ber enginn úr ríkisstjórninni ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Það er tönnlast á sömu slagorðunum um gagnsæi og opið ferli í þessu og hinu  aftur og aftur. Bílalánin eru alveg að leysast og skjaldborgin um heimilin er alveg að rísa meðan fógetarnir bóka uppboðsdagana.   Sem betur fer er stöðugleikasáttmálinn enn í lagi hjá ASÍ af því að ríkisstjórnin  er úr réttum flokkum að mati spíssanna sem halda þá friðinn á meðan.

En bukkurinn stoppar bara hvergi !   

 


Ekki alls varnað !

Hver sagði að nýja meirihlutanum í Kópavogi væri alls varnað ?

Þeir höfðu vit á að ráða hana vinkonu mína hana frú Guðrúnu Pálsdóttur í embætti bæjarstjóra. Hún er held ég langtum klárari á bæjarmálin en allur þessi nýi meirihluti er, ef guðfaðirinn Guðmundur Oddsson er ekki talinn með.  Hún getur sem best rekið bæinn án þess að meirihlutinn þurfi að hafa verulegar áhyggjur af því frá degi til dags. Best er líka fyrir okkur bæjarbúa að hann skipti sér sem minnst af rekstrinum því þá gerir hann ekki skammir af sér á meðan. En sjálfsagt geta þeir ekki látið það vera og því munu fylgja einhver útlát fyrir bæjarbúa. En það er heldur varla hætta á því að þeir geri mikið sem máli skiptir því ekki er þetta fólk mikilla sæva upp til hópa.

En Guðrúnu Pálsdóttur treysti ég vel og óska henni velfarnaðar í starfi.

Og Guðmundi Oddssyni er svo sannarlega heldur ekki alls varnað. Á laugardaginn skrifaði hann prýðilega grein í Mogga þar sem hann tók í hnakkadrambið á þessu liði sem er sífellt að ófrægja stjórnmálamenn. Þar rak hann óhjákvæmilega þessu liði á Kópavogslistanum og hjá Næstbestaflokknum duglega utanundir svona til þess að koma því niður á jörðina.

Þetta er svo satt hjá Guðmundi  að finna að þessu " helvítis kjaftæði" um að eitthvað sé til sem heitir " venjulegt fólk"  í pólitík sem sé eitthvað betra en við hin sem reynum að taka þátt í stjórnmálum að ég var svo sannarlega ánægður með Guðmund minn Oddsson þennan dag.


Alfreð gegn almenningi !

Nú er verið að senda almenningi reikninginn yfir þá spillingartíð Ingibjargar Sólrúnar og R-listans, þegar hún mokaði krásunum stöðugt í gin Alfreðs Þorsteinssonar og Framósknarflokksins til þess að halda R-listanum á lífi. Alfreð barst mikið á og mokaði milljörðum í allskyns fantasíur sínar eins og Risarækju, LínuNet, TetraLínu, ljósleiðara og byggði Orkuveituhúsið og margt fleira sem maður er farinn að ryðga í núna. Allt þetta reyndist svo uppsafnaður vandi sem hlóð utaná sig eins og snjóbolti í hláku.

Lengst af hefur heitavatnið hjá Orkuveitunni kostað um helmingi meira en heitavatnið á Nesinu sem hefur hagnast á því verði. Einokunin á rafmagninu hindrar samanburð á því sviði en er áreiðanlega af sama stofni. Nú boðar einhver Guðlaugur Sverrisson að Orkuveitan þurfi að hækka 37 % bara sí sona.Nú er verið að rétta almenningi reikninginn yfir spillingartíð R-listans og Alfreðs Þorsteinssonar. Geyser Green og flottheitin í kringum forystumennina. Nú á að sæta lagi þegar fíflaflokkurinn hefur fengið völdin og láta almenning borga án þess að nokkur taki eftir því. Mátulegt á kjósendur.

Nú borgar almenningur reikninginn fyrir að hafa kosið R-listann. Nú fær almenningur að finna fyrir því hvað Alfreð Þorsteinsson kostaði  þegar þessi reikningur er réttur fram. 

 

 


Guðmundur að baki Guðríðar !

"Það má Halldór Jónsson hinsvegar vita að við erum afar stolt af Guðríði og stöndum heilshugar að baki henni "

 

Þessa digurbarkalegu yfirlýsingu sendi Guðmundur Oddsson mér í laugardagsblaði Mogga á kosningadaginn. Nú, ekki viku eftir kosningar er stuðningur Guðmundar og Samfylkingarinnar ekki meiri en svo , að þau neita að styðja Guðríði til bæjarstjóraembættis í Kópavogi, vegna þess að slíkt yrði þá í boði íhaldsins ! En það hatar Guðmundur og Samfylkingin meira en þau eru stolt af oddvita flokksins, Guðríði Arnardóttur.

 

Heilshugur Guðmundar og Samfylkingarinnar og stolt  bak við Guðríði Arnardóttur var þá ekki meiri en svo, að hann vill heldur fá jafngildi hvers sem er frekar en Guðríði, utanúr bæ til að vera bæjarstjóri í Kópavogi með tætingslegum fjögurra flokka meirihluta heldur en að treysta Guðríði, oddvita Samfylkingarinnar,  fyrir bæjarstjóraembætti í tveggja flokka  öruggum meirihluta.  Það virðist vera meira hlustað á gamla hrossabresti í hefndarhug í  Samfylkingunni en að þar sé hugleitt hvernig Kópavogi verður best stjórnað með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Allt er núna betra en að Guðríður verði bæjarstjóri að heilshug Guðmundar og stolti.

 

Það hefðu þótt tíðindi í öðrum flokkum sem styddu oddvita sína á þennan hátt. 

 

 Guðríður mín Arnardóttir ! Sá sem á svona stolta vini og heilshugar bakland eins og Guðmund Oddsson í Samfylkingunni, hann  þarf greinilega ekki að óttast óvinina.

 


Evran ekki allra gagn

Á bloggi Gunnars Rögnvaldssonar rakst ég á athyglisverða grein úr  LeMonde um það að Evran sé á útleið hjá þeim þjóðum sem í mestum erfiðleikum eru núna, Grikkjum, Spánverjum,Portúgölum. Höfundur bendir á að þeim þjóðum eins og Dönum og Svíum vegni mun betur með eigin myntir sem þær geta gengisfellt sem þurf þykir. Hann minnir á að DeGaulle endurreisti Frakkland með því að gengisfella Frankann um 18 %,

Evran getur greinilega ekki gengið upp að mati höfundar nema hjá þeim þjóðum sem geta stjórnað eigin innri málum. Grikkir geta það ekki það er ljóst. Og reynslan bendir nú til þess að Íslendingar gætu það ekki heldur, ofurvaldbeiting verkalýðsbófanna okkar hefur komið í veg fyrir alla skynsamlega hagstjórn landins okkar á alveg sömu forsendum að Grikkir neita nú að leysa sín mál með kauplækkun og niðurskurði sem væri nauðsynleg ef þeir ætla að halda Evrunni.

 

Þess vegna tala hagfræðingar um það í alvöru að betra sé fyrir Grikki að lýsa yfir þjóðargjaldþroti og taka upp dröchmuna aftur Eins og nú horfir verður aðstoðinni sturtað niður í klósettin í Grikklandi, sem oftar en ekki eru þar sóðaleg og og innangeng úr eldhúsunum, sem sýnir einn muninn á Þjóðverjum og Grikkjum. Þessar þjóðir geta engan vegið myndað eitt ríki þó þau geti lifað saman í Evrópufriði. Ólíkar þjóðir eins og Þjóðverjar og vanþróaðar þjóðir lifa ekki í sama efnahagskerfi nema að á annan hallist eins og Hitler gerði sér grein fyrir.

 

Hugsanlega verður Evran í framtíðinni að reiknieiningu í viðskiptum eins og SDR  var en þjóðarmyntir verði teknar upp aftur í flestum löndum ESB.  Að minnsta kosti vilja Þjóðverjar fá sitt D-mark aftur þó það myndi nú verða síðast í röðinni. Ef til vill er skýringin á jafnlyndi þýskra stjórnmála að leita í mikilli öldrun þjóðarinnar. Innfluttir kynstofnar eru að taka völdin í gömlu Evrópu sem tímgast mun hraðar en innfæddir. Ef til vill verða Þýskaland, Frakkland og Bretland  orðin múslímaríki eftir örfáa áratugi.

 

Íslenskir kratar  leggja allt kapp á að fylgja fordæmi Evrópusambandsþjóða eins og kunnugt er. Þeir fimbulfamba um inngöngu Íslands og upptöku evru eins og þetta bíði á næsta götuhorni. En ef þú spyrð alþýðuna í Þýskalandi um  skoðanir hennar  á Evrópubandalaginu og evrunni, þá færðu ýmislegt að heyra sem er öðruvísi en það  sem Angela Merkel segir í ræðum sínum á þinginu. 

 

Íslendingar eiga krónunni okkar mikið að þakka. Það er hinsvegar hörmulegt hvernig okkar nútíma Sturlungar hafa leikið hana. Hún gæti verið besta mynt í heimi hjá skynsamari þjóð. Hún hefur sýnt það hvers hún er megnug þegar við umgöngumst hana af virðingu eins og var á þjóðarsáttardögunum.

Krónan getur verið okkar sómi sverð og skjöldur áfram því flest bendir til þess að Evran verði ekki allra gagn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband