Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Eigi skal gráta Björn bónda...

heldur safna liði, sagði Ólöf ríka þegar ljóst varð að maðurinn hennar hefði hitt Englendinga  og kæmi því ekki í kvöldmatinn.

Liggur ekki við stundum að maður sé búinn að fá nóg af þessari stöðugu umræðu um hverjir gerðu hvað og hvað ekki í hruninu. Það eru núna tvö ár liðin og við erum enn upptekin við að kalla eftir lögum, reglugerðum og paragröffum sem eiga að hindra að svona hrun gerist aftur.Blind er trú margra á að lagafyrirmæli geti sagt fyrir um alla mannlega hegðun í stað hinnar almennu þekkingar sem lífsreynslan færi skynsömu fólki.  

"Það sem aldrei hefur gerst getur alltaf gerst aftur" sagði fljóthuga framkvæmdamaður og brýndi sína menn til dáða. Þurfum við nokkuð að óttast það að samskonar atburðir gerist hjá okkur á næstunni? Ég held ekki. Við vitum allt um kennistærðir einkabanka. Þeir koma ekki aftur í bráð í því sósíalíska ríkisforsjárhagkerfi sem við nú búum í. Krosseignatengsl og skuldsettar yfirtökur, viðskiptavildarmargföldun og þar fram eftir götunum, verða ekki vandamál á næstunni. Það er hinsvegar vandamál að fá vinnu.  Það er vandamál númer eitt fyrir hinn venjulega mann. 

Þurfum við ekki að hætta að eyða orkunni eins og Alþingi er að fara að gera núna í umræðum um fortíðina. Það bíða nefnilega bráðaðkallandi mál. Fólkið okkar flykkist úr landi því að það er ekkert efnahagslíf á Íslandi utan sjávarútvegs og landbúnaðar. Uppboðsauglýsingum fjölgar dag frá degi og menn sjá að allt talið um lagfæringar voru mest orðin tóm. 

Það er eiginlega alveg sama hvaða vexti  bankarnir bjóða á lánum, það er enginn að taka lán. Stýrivextir Seðlabankans skipta venjulegt fólki engu máli þó að blaðurskjóður tali mest um þá á öllum rásum. Það þorir enginn að gera neitt því allt traust er horfið. Fólkið treystir ekki neinu lengur, því það veit ekki hvort það hefur vinnu eftir hálft ár.  Það trúir ekki á banka sem örugga stofnun fyrir sig þegar hann býður bara neikvæða ávöxtun á spariaurana. Það veit ekki hver á bankann en það veit bara að stjórnendur hans og skilanefndin hafa það gott. 

Þú treystir ekki stjórnvöldum lengur fyrir forsjá þinna mála. Þú trúir því ekki að þau geri yfirleitt nokkuð til að hjálpa þér í skuldabaslinu. Þú trúir ekki á ferðalagamátt Forsetans til Kína.   Þú trúir ekki lengur á Alþingi eða fólkið sem þar situr núna. Þér finnst það ekki vara að leysa neitt. Það sé bara upptekið af sjálfu sér, hefndarhug og fast í einhverri fortíðarstýringu. Þú ert meira að segja hættur að trúa því að nýjar kosningar myndu breyta einhverju. Getur ástandið nokkuð versnað með því að ganga í Evrópubandalagið?

Þessvegna ert þú  bara að bíða eftir að eitthvað gerist sem verður þér til framdráttar. Eitthvað tækifæri fyrir þig og þína. Eitthvað  gerist sem þú veist þó fullvel að hefur aldrei gerst fyrir fulltingi ríkisvaldsins eða skattheimtunnar. Framfarirnar hafa alltaf orðið til af einhverju í  huga fólksins og einstaklinganna. Þennan framkvæmdahug sem menn þekktu forðum.  Þennan framfaraanda sem þú myndir þekkja aftur ef þú mættir honum og myndi hugsanlega smita þig og koma blóðinu á hreyfingu.  En þessi hugur kemst ekki enn upp á yfirborðið. Neistinn er þarna falinn en hann þarf að fá eitthvað súrefni til að verða að því báli sem dugar.

Er ekki komið nóg af væli og voli og ákalli á að stjórnvöld geri þetta eða hitt? Eru þau vön að gera  eitthvað sem máli skiptir fyrir þig? Var það ekki þín vinnandi hönd sem gerði hlutina? Verður einhver framþróun þó að Ögmundur ráði sér tvo aðstoðarmenn í stað eins eða hversu mikið Steingrímur og Össur væla útaf ófrágengnu Icesave vegna væntanlegrar  Evrópubandalagsaðildar og AGS?  Skiptir eitthvað af þessu  máli fyrir þín vandamál í dag ? Er það ekki aðeins fólkið sem getur tekið til hendinni og  skapað eitthvað það sem ekki var til áður? Er það ekki sköpun verðmæta sem er hagvöxturinn sem Jóhanna og ríkisstarfsmenn þrífast á? 

Réttvísin hefur sinn gang og tekur sig af glæpamönnunum í fyllingu tímans.  Það er ekkert uppá daginn með það hvenær þeir koma ekki í kvöldmatinn.  En það liggur á í dag að fara að taka til höndum og vinna. Það er það sem skiptir mestu máli að nýta orkuna í hugum og höndum fólksins.

Allt hefur sinn tíma. En er ekki  bráðum búið að gráta Björn bónda nóg?

 


Margrét vill ekki hýsa þá

Það var eiginlega léttir að heyra svo skýra rödd og skilmerkilega eins og hennar Margrétar fangelsisstjóra Frímannsdóttur, fyrrum Samfylkingarleiðtoga. ´Hún áttar sig á því hvert lýðræðið er komið í landinu ef lítill hluti þingmanna getur tæknilega ákært og sakfellt meðþingmenn sína fyrir sérstökum byltingardómstóli sem þeir handvelja sjálfir að meirihluta.  Fyrir jafnvel þær sakir helstar að hafa ekki skilið hvað fram fór í kringum þá.  Af einhverjum ástæðum virðist núverandi  forsætiráherra helst ekki minnast á að hún hafi setið í fyrri ríkisstjórn með hinum ákærðu.

Ég hef heyrt af manni  sem hafði verið sviptur flugréttindum vegna galgopaháttar. Sagt var að lögmaður hans hefði fengið þau aftur vegna þess að það væru stjórnarskrárvarin réttindi manna að vera hálfvitar. Skyldi stjórnarskráin ekki gilda líka um þingmenn ?

Sovétríkin voru lengi fyrirmynd íslenskra kommúnista. Þar voru mikil réttarhöld fyrir stríð til að hreinsa stjórnkerfið af spillingu. Ekki var það talið hafa skilað árangri þegar vantaði tilfinnanlega fólk með reynslu skömmu síðar. 

Það var eiginlega upplífgandi fyrir mig að uppgötva að þjóðin átti þó einn fangavörð til að hafa vit fyrir  hæstaréttarlögmanninum Atla Gíslasyni og meðreiðarsveinum hans.

Svo er Margrét líka húsnæðislítil á Eyrarbakka fyrir sína núverandi biðlista þó Alþingi fari ekki að lengja í þeim.


mbl.is Fráleitt að sækja ráðherrana til saka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrsla Rannsóknanefndar Alþingis

á skýrslunni um hrunið er stórfróðlegt og vandlega unnið plagg.

Það skilur mann eftir eiginlega sjokkeraðan, hversu vitlaus og bláeygður maður var að gapa uppí þetta þinglið sem alvörumeira fólk og betur gefið en maður er sjálfur og þess vegna betur fært um að fylgjast með,  draga ályktanir og vara við hættum en maður gæti nokkru sinni gert sjálfur. Við trúðum þeim og treystum og þeir brugðust okkur.

Allt þetta hrynur yfir mann. Fjarlægðin gerði þessi fjöllin blá. En nálægðin sýnir manni að þetta var bara urð og grjót, drulla og dý. Þingmenn voru margir ekki hætishót betri en fólk er flest, fljótfært, heimskt, spillt  og trúgjarnt.

Og ráðherrarnir, almáttugur, lausmálgir,  ómerkilegir, kærulausir og latir með lítinn skilning á umhverfinu. Ólæsir á fjármál og bankamál með öllu. Sumir í  hæsta lagi kjölfróðir kjaftaskar. Þvílíkt forardíki vanhæfni er þetta allt. Og forseti lýðveldisins  farþegi í þotum þrælbeinanna og veitandi þeim orður og verðlaun í bak og fyrir.

Og auðvitað er þessi "kommanefnd" sem skýrsluna skrifar með tveimur úr Sjálfstæðisflokknum ekki hótinu betri. Var þetta fólk ekki bullandi meðvirkt allan tímann,  sem eyddi þingtíma sínum í almenn slagorð og svo ferðalög á ríkisins kostnað. Þykist núna hafa öðlast allan sannleikann og þess umkomið að gefa út ákærur á samskonar liði og nefndarliðið er sjálft.

Með lestri skýrslunnar, með meira að segja kynjafræðilegum hugleiðingum um karllæga þjófsnáttúru umfram kvenglæpamenn, hverfur manni eiginlega síðasta virðing fyrir stjórnmálamanninum  sem maður var haldinn áratugum saman. gapti af hrifningu uppí þetta lið án þess að skyggnast undir yfirborðið.  Þetta voru þá ekki ekki hótinu betri menn en Pétur og Páll, sem fara því aðeins eftir lögum og reglum að þeir komist ekki upp með annað eins og  hver annar lúði  á laxveiðum og  ferðalanguri í utanlandssiglingum.

Hvaða tilgang hefur sú rakettusýning, sem forsætisráðherrann stendur vafalítið á bak við, að kæra sjálfstæðisþingmenn fyrir Landsdómi ?  Með því að sleppa sjálf með Össuri fórnar hún hiklaust einum af  þjónunum sínum.  Þá er heilög vandlætingin uppmáluð á blaðamannafundum. þar sem hjörðin gapir uppí hana  og gleymir alveg að skrifa um hrundar skjaldborgir og  uppboðsauglýsingarnar sem þekja margar síður í blöðunum eða kanna annan ræfildóm ríkisstjórnar hennar sem er að verða sú ömulegasta í sögu lýðveldisins. Og að hún hafi sjálf tekið þátt í ríkisstjórn með delinquentunum sem nú á að kæra, nei það er af og frá.

Þannig vinna loddarinn og þjóðamálskúmurinn. Þannig vinna vefarar keisarans vef sinn úr hræsni og heilagari einfeldni.  Íslenskur stjórnmálamaður  fær ekki háa einkunn hjá mörgum kjósandanum eftir þetta.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis er þörf samantekt fyrir þá sem vilja kynna sér glæpaverkin og heimskupörin á hæstu stigum samfélagsins sem leiddu til hrunsins.  Hrunsins sem litli maðurinn borgar eins og venjulega en margir aðrir græða á.

Þjóðin er í vanda. Landsdómur yfir einhverjum brúkuðum  pólitíkusum vegna gamalla heimskupara mun ekki laga hætishót fyrir henni. Bara meiri kostnaður fyrir ekki neitt, því ráðherrar eru örugglega með einskonar starfsábyrgðartryggingu hönnuða, þar sem iðgjaldið er borgað af ríkissjóði. 

Þjóðin þarf heldur að fara að vanda valið á fulltrúum sínum. Ekki sætta sig við fólk með afskriftir lána á bakinu sem fullgilt fólk, ekki sætta sig við spillta skattsvikara, þjófa eða sérhagsmunafólk sem þingmenn fyrir sig heldur venjulegt heiðarlegt fólk. Ef það er þá nokkursstaðar til? 

Þjóðin þarf að hætta að trúa þeim vefurum keisarans á borð við þá sem birtast ljóslifandi á síðum skýrslunnar.  

 


Snjöll hugsun !

Í Mogga skrifar lögfræðingur um Landeyjahöfn. Snjöll hugmynd um að láta náttúruna dæla  út úr Landeyjahöfn.

 Lúðvík Gissurarson segir:

"Þetta gengur brösótt með Landeyjahöfn. Í gærkvöldi (7. sept.) mátti sjá í sjónvarpi sandrif þvert yfir hafnarmynnið sem lokaði skipaumferð. Höfnin sogar inn til sín sand sem alltaf rekur þarna með ströndinni fram og aftur. Sandrif lokar enn Landeyjarhöfn, segir sjónvarpið.

 

Greinarhöfundur skoðaði mannvirki þarna fyrir stuttu og sá galla þeirra strax. Var í sveit við Dyrhólaós og þekkir sjóinn og sandinn. Fyrir ofan Landeyjahöfnina er drjúg smáá sem vel myndi henta til að veita niður í gegnum Landeyjahöfnina og út um hafnarmynnið á sjó út. Þannig væri sandi veitt út úr höfninni og hún hreinsuð og mynni hennar sérstaklega. Allt sandflóð inn í núverandi höfn myndi stoppa. Ekkert sandrif myndi verða til í mynninu. Setja þarf ný sandrif í sjóinn báðum megin við mynni hafnarinnar til að verja hana og beina burt á haf út sandi, sem alltaf berst og rekur þarna með ströndinni. Kom seinast úr austri og lagðist á eystri hafnargarð. Lokar höfninni. Sandrif væru sett á sjávarbotn báðum megin hafnarmynnis. Þau myndu beina sandburði við botninn á haf út. Rifin væru gerð úr notuðum bíldekkjum sem fest væru við hafsbotninn með því að hlaða á þau sandpokum.

 

Nú geta mér vitrari menn hugsað hvort þessi nýja hugmynd mín bjargar Landeyjahöfn úr núverandi vandræðum. Greinarhöfundur hugsar oft um gamla Dyrhólaósinn og sandinn úr Kötlu frá 1918. "

Ef að nægt vatn er til staðar og Herjólfur drífur á móti straumnum þá gæti þetta hugsanlega gengið.

Mér finnst þetta snjöll hugsun!


Landsdómur

er þáttur í gamalþekktu munstri frá gömlu Sovétríkjunum og þriðja ríkis Hitlers. Leiða pólitíska andstæðinga fyrir rétt og berja þá opinberlega til þess að ná athygli lýðsins.

Kannski fórnar maður peði í tangarsókn gegn því lýðræði sem fer í taugarnar á mörgum vinstri tittunum?

Landsdómur er bráðsniðugt apparat. 


Leikhús fáránleikans

er hafið. Búið er að velja fólk til setu á þjóðfundinum með slembiúrtaki úr félagaskrám Samfylkingar og VG meðal annars. Þetta fólk á að segja sérvöldu stjórnlagaþingi um hvað ný stjórnarskrá eigi að fjalla. Á sama tíma sem unnið er að því öllum árum að taka upp stjórnarskrá EU. Allt nema að taka upp jafnan atkvæðisrétt til Alþingis sem gæti þá auðveldlega afgreitt smámál eins og stjórnarskrármál.

Allt þetta stand kommanna með stjórnlagaþing er fyrir mér aðeins rándýrt leikhús fáránleikans. 


Meistari uppákomunnar

er að mínu mati Jóhanna Sigurðardóttir. Hún gefur okkur þá mynd af sér að hún sé bara þessi gamla góða gæðakona sem sé eiginlega að ganga á þrek sitt við það að stjórna okkur vegna þess að enginn annar geti það.

En hvernig fer hún að því að verjast ásókn okkar gammanna, sem eru sífellt að rukka ríkisstjórnina um gefin loforð?

Ég held að hún skipuleggi stöðugar uppákomur sem nægja til að heimskir fjölmiðlarnir hlaupi upp og leiði umræðuna frá því sem hún vill ekki tala um. Og hennar fjölmiðlar auðvitað berja auðvitað lóminn áfram svo lengi sem kostur er að hennar geðþótta.

Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki hún sem sviðsetji hina og þessa viðburði, allt frá köttum í Dýrafirði til Færeyja,  þannig að fjölmiðlar hafi eitthvað annað að tala um en hrundar skjaldborgir og gjaldþrota heimili, sem hún vill síður láta tala um.

Er ekki Jóhanna bara meistari uppákomunnar?


Perlan Moska?

Ég hef heyrt að múslímar vilji fá lóð i Öskjuhlíð undir Mosku. Ég hef heyrt að Jón Gnarr vilji selja Perluna.

Gæti draumsýn Kjarvals um ljóskastara á toppi kristalshvelsins sem lýsti upp himingeiminn ekki fallið saman við stóran upplýstan hálfmána sem snérist á toppnum á Perlunni? Þá þurfa menn ekki að deila um lóð eða ekki. Múslímar eru búnir að eignast gamla félagsheimili Karlakórsins Ými sem þeir geta nýtt sem safnaðarheimili.  Fara þeir ekki létt með að kaupa  Perluna og gleðja  um leið alla kommatittina sem hafa hatast við húsið allt frá því að Davíð lét byggja það sællar minningar.

Yrði Perlan ekki glæsilegastan Moska á Norðurlöndum?


Ég fyrst. Þú seinna

Eftir Vilmundi Jósefssyni formanni  SA var eftir haft í Viðskiptablaðinu um málefni lífeyrissjóða á aðalfundi í vor:

"það væri mikið umhugsunarefni að opinberir starfsmenn þurfi ekki að glíma við skerðingu á sínum lífeyri í því árferði sem nú ríkir. Vilmundur bendir á að hjá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna hafi hrúgast upp skuldbindingar langt umfram inngreiðslur. Sjóðir hins opinbera hafi þannig verið með yfir 500 milljarða króna tryggingafræðilegan halla í árslok 2008 sem sé ávísun á miklar skattahækkanir í framtíðinni. 

Ríkisábyrgð er á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þannig að lífeyrisgreiðslur eru ekki skertar þrátt fyrir neikvæða stöðu. Vilmundur segir að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins tæmist um árið 2020 og þá þurfi ríkissjóður að leggja henni til árlega fjármuni sem nemi yfir 1% af landsframleiðslu í meira en áratug en síðan lækki það hlutfall smám saman fram á miðja öldina.

Vilmundur segir þetta vanda sem standi mönnum nær í tíma en margir haldi.

 

„Vandamálin eru því miklu nær í tíma en oft er talið og stækka ár frá ári á meðan ekki er á þeim tekið. Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist. Á almennum vinnumarkaði þurfa lífeyrissjóðir að rísa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar en opinberu sjóðirnir eru með ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda og þar með skattgreiðenda. Skattgreiðendur á almennum markaði þurfa því bæði að þola skert lífeyrisréttindi frá eigin sjóðum og skertar ráðstöfunartekjur til viðbótar vegna lífeyrissjóða hins opinbera."

 

Ég er einn af þeim sem hef fengið  bréf frá mínum lífeyrissjóði þar sem mér er tilkynnt um 10 % skerðingu á mínum lífeyri, sem er langt undir lágmarkslaunum en nóg til að þurrka út allar greiðslur frá Tryggingastofnun. Ég get því ekki tekið undir með Steingrími J. að hér ríki eitthvert norrænt velferðarríki hjá almenningi. Aldraðir verða að sjá um sig sjálfir, Steingrímur gerir það ekki.

Það er hinsvegar tryggt að ríkisstarfsmenn og stjórnmálamenn hafa tryggt sinn lífeyri hjá skattgreiðendum. En það verða þeir sem sjá fyrir þessu fólki í framtíðinni. Eftirlaunafrumvarp Davíðs er ekki gleymt en Steingrímur J. er einn af þeim sem keyptur var til fylgis við það á sínum tíma þegar ránsfengnum var skipt.

Það er stöðugt verið að skipta þjóðinni upp í verðuga og óverðuga. Nomenklatúran sér um sig og sauðsvartir éta það sem úti frýs. Pétur á Útvarpi Sögu talar um stjórnmálastéttina, sem eigi sök á öllum óförum fólks þessa heims.

Ég er farinn að halda að þessi stétt hugsi  fyrst um sig áður en röðin kemur að kjósendum. Ég pant fyrst sögðu krakkarnir í gamla daga. 

 Ég fyrst. Þú kannski seinna.

 

 


Að vera eða vera ekki

Að vera eða vera ekki William Shakespeare spurði forðum að vera eða vera ekki, er vinstri stjórn í fáum orðum.  

Í stjórnarmálgagninu Baugstíðindum er lítil frétt á forsíðu:

 „ Fyrirtæki sem hugðust koma með verkefni inn í gagnaver Verne Holding á Suðurnesjum, meðal annarra tölvurisinn IBM, hafa hætt við fjárfestinguna. Ástæðan er hversu illa fjármálaráðuneytinu gengur að leysa tæknileg vandamál tengd virðisaukaskattsmálum....Þetta fullyrti Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í gær. Hún lýsti áhyggjum af því að framkvæmdir þar myndu hugsanlega brátt stöðvast vegna málsins.Skúli Helgason, formaður iðnaðarnefndar, sagði athugasemdina réttmæta. Forsvarsmenn gagnavera væru tvístígandi vegna þess að hér stæðu þeir ekki jafnfætis gagnaverum í Evrópusambandinu hvað varðar virðisaukaskatt á netþjóna. Það mál þyrfti að leysa“.

Er þetta enn eitt verk ríkisstjórnarinnar í því að hindra atvinnusköpun með erlendu fjármagni á landinu?

Fyrri verk Svandísar Svavarsdóttur blasa við og myndi þetta ríma við annað. Eru ráðuneyti Steingríms J og Svandísar sameinuð við þessi verk? 

Skáldið G.Th. velti því atriði fyrir sér, sem virðist hrjá flesta stjórnmálamenn af vinstra vængnum:

Að vera eða vera ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband