Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Flokksráðsfundur Vinstri Grænna. Æ, æ!

var fjölsóttur um helgina. Á annað hundrað manns lét sjá sig til að hlusta á Hjörleif Guttormsson afneita afkvæmi sínu og gera það arflaust. Ekki einungis útaf svikunum um ESB aðildarumsóknina. Heldur miklu fremur um veitingu leyfanna á Drekasvæðinu sem SteingrímurJ. framkvæmdi á dögunum. Sem við Sjálfstæðismenn fögnuðum sem áfanga í framfarasókn þjóðarinnar.

Æ, mér finnast svona stjórnmálaatburðir raunalegir. Að sjá svona einlægt hugsjónafólk svona grátt leikið. Sjálfur hef ég aldrei upplifað þessa tilfinningu í pólitík. Í mínum flokki hefur mér aldrei fundist að neinn hafi svikið mig. Ég hef upplifað það að mín sjónarmið náðu ekki fram. Auðvitað var ég sjálfsagt draugfúll og röflandi en það var alltaf svo margt annað sem tengdi mig við fólkið og flokkinn að ég gat aldrei séð mig í svona afneitun.

Sjálfsagt er ég ekki jafnoki Hjörleifs að vitsmunum, skapfestu og sannfæringu hvað þá heldur Jóns Bjarnasonar. Fyrir mig myndu vatnaskilin fyrst koma ef landsfundur samþykkti að sækja um aðild að ESB eða eitthvað svoleiðis sjálfstæðisafsal. Þá hugsa ég að ég myndi fara heim til mín. En að hrekjast svona frá fylgd sinni eins og Hjörleifur gerir núna er alltaf hræðilegt.Ég get bara ekki fagnað þegar ég horfi á þessa raunasögu milli fyrrum vina og samherja í þessum VG flokki.

Enn hræðilegra finnst mér vera fyrir þá sem eftir standa eins og saltstólpar í eyðimörkinni eins og Steingrímur Jóhann gerir núna. En gagnvart honum eru augu mín þurr. Mér finnst að hann hafi kallað þetta allt yfir sig með eigindum sínum og einhverjum skorti á vitsmunum eða skaphöfn sem flokksforingi verður að hafa. Honum verður ekki vorkennt hér heldur þess óskað að hann megi hverfa frá stöðu sinni sem stjórmálaforingi sem fyrst vegna þess að hann veldur henni ekki.

Flokksráðsfundur Vinstri Grænna skildi eftir sig hræðilega uppgjöf og tóm og vonbrigði fyrir margt ærlegt fólk. Það er ekki fagnaðaratburður ef maður reynir að setja sig í spor þess. Æ, æ!


Af hverju Landsbankinn

þarf að halda áfram starfsemi sem var einkabanki Björgólfs Guðmundssonar og félaga hans er mörgum hulið? Hann auglýsti sig sem National Bank of Iceland og hefur án efa fengið traust fólks til að leggja fé sitt á Icesave reikninga. Sú "gargandi snilld" bankastjórans dró dilk á eftir sér.

Það þurfti fjármálaséní á borð við Steingrím J. Sigfússon til að gera þá samninga varðandi meðferð banka gjaldþrotsins sem nú skulu efndir. Landsmenn búa nú við grímulaust eðli Aríon og Íslandsbanka. Harðar innheimtustofnanir í eigu erlendra fjármálafyrirtækja og fæst af virðingarverðri gerð.

Það má hugleiða spakmælið sem haft er eftir einum uppanum í viðskiptalífinu að "fólk er fífl" í sambandi við að fólk skuli telja þessa banka verðuga viðskipta sinna og finnast allt vera sem áður af því það sér sama góða starfsfólkið í sætum sínum þegar vitað er um eignarhaldið. Sama máli gegnir um Landsbankann. Hann telur fólki trú um að hann sé enn sami góði bankinn og hann var um áratugi fyrir einkavæðinguna þegar viðskiptavinirnir voru seldir með nafninu og málverkunum. Eru Íslendingar ekki geðlurður af Guðs náð?

Nú er sá sannleikur að renna upp að komið er að skuldadögum þegar 100 dagar lifa eftir af regeringstíð Steingríms Jóhanns frá Þistilfirði. Hann mun ekki klára vandamálið sem hann skapaði um Landsbankann. Það bíður annarra að moka flórinn eftir hann.


Landsbankann í gjaldþrot

ekki seinna en strax.

Morgunblaðið lýsir vel í yfirliti hvílíkri skelfingu bankglöp Steingríms J. Sigfússonar eru að valda þjóðinni eina ferðina enn. Óleysanleg snjóhengja vofir yfir þjóðinni sem samningar Steingríms eru að leiða yfir hana.

Landbankinn bæði gamli og nýi eiga engann tilverurétt lengur. Burt með þá báða í gjaldþrotaskipti.


Kæri Jón

er þér berst þetta bréf, burtu farin þá ég er, sagði einhvernveginn svona í slagaranum.

Þetta gæti verið kveðjubréf þjóðarinnar til Jóns Bjarnasonar áður á Hólum.

Nú er þessi Jón búinn að segja sig úr þingflokki þeim sem kjósendur hans kusu hann í. Hann er hvergi í neinni áhrifastöðu til þess að láta reka sig úr eða segja sig frá. Sá kaleikur er ekki lengur í boði því hann er orðinn einn á skeri. Enginn talar við hann meira því hann hefur ekkert að bjóða nema að hann muni hugsanlega kyssa á rass Steingríms J. ef honum liggi lítið við til að framlengja líf ríkisstjórnarinnar. Hann ætlar ekki í sérframboð heldur. Hvað er þá eftir af kæra Jóni?

Ætli það sé svona sem menn verða þingskörungar í Íslandssögunni kæri Jón?


Þannig vinnast sigrarnir í jafnréttismálum,

hver af öðrum.

" Með skýrri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar var staðinn vörður um almannaþjónustuna og atvinnu kvenna og nú er það efnahagslega svigrúm sem skapast hefur nýtt til nýrrar sóknar m.a. til að hækka aftur fæðingarorlofsgreiðslur, barnabætur og lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Þá hafa styrkveitingar hafist að nýju úr Jafnréttissjóði, sem var tímabundið lagður til hliðar í kjölfar kreppunnar...."

.... " Þannig vinnast sigrarnir í jafnréttismálum, hver á fætur öðrum, undir forystu okkar jafnaðarmanna...." Jóhanna Sigurðardóttir 22. 01.2013)

Frétt í Mogga:

" Samkvæmt dómi héraðsdóms, sem féll í dag, braut Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er hún skipaði Arnar Þór Másson í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu. Jóhanna skipaði hann í embættið fram yfir annan umsækjanda, Önnu Kristínu Ólafsdóttur.
Íslenska ríkið er dæmt til að greiða Önnu 500.000 krónur í miskabætur auk málskostnaðar upp á 1600 þúsund krónur. Krafa Önnu um skaðabætur var hins vegar ekki tekin til greina..."

Annar ráðherra í ríkisstjórninni er líka mikill jafnréttissinni. Gömul fréttúr Mogga:

" Ögmundur Jónasson telur sig hafa staðið faglega að ráðningu í embætti sýslumanns á Húsavík í lok síðasta árs. Hann telur sig ekki þurfa að biðjast afsökunar né segja af sér. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort niðurstaðan verði kærð til dómstóla...."

" Með sömu fingrum sver hann rangt og söfnuðinn blessar..." orti níðskáldið um prestinn sinn sem pólitískur andstæðingur

Þannig vinnast sigrarnir í jafnréttismálum þegar manni hentar.


Útleggingin eða textinn?

Hvort kemur á undan? Eggið eða hænan?

Frétt í Mogga um Tryggva Gunnarsson og umsögn hans sem umboðsmanns.

".....Í umsögn Tryggva kemur fram að hann telji greinargerð sem fylgir frumvarpinu (sérstaklega athugasemdir við einstakar greinar) veita takmarkaðar skýringar á efni frumvarpsins.

Hann segir skýringarnar sem með fylgi í ýmsum tilvikum misvísandi.

Einnig beri á skorti á að gerð sé grein fyrir efnislegum sjónarmiðum sem búi að baki texta sem einstakar greinar feli í sér.

Af þessu tilefni telur hann að huga þurfi að úrbótum við athugasemdir við einstakar greinar, gera þær hnitmiðaðri, svo þar megi finna skýringar á afstöðu flutningsmanna frumvarpsins og á hvaða grundvelli skilningur þeirra er byggður.

Þannig yrði greinargerðin betri til túlkunar á þeim reglum sem settar verða fram í stjórnarskránni....."

Setjum biflíuna í hlutverk textans og prestana í hlutverk skýringanna. Hvort gildir?

Átti stjórnarskráin ekki að gilda í einstökum greinum? Er hún háð útleggingum einstakra sérfræðinga?

Til hvers þá stjórnarskrá ef það er útleggingin en ekki textinn sem skiptir máli?.


Skiptiþjóðin

Íslendingar er í fullum gangi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar erum við að skipta um þjóð í landinu.

" Í lok 4. ársfjórðungs 2012 bjuggu 321.890 manns á Íslandi, 161.440 karlar og 160.450 konur. Landsmönnum fjölgaði um 1.230 á ársfjórðungnum. Erlendir ríkisborgarar voru 21.470 og á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 205.740 manns.

Á 4. ársfjórðungi 2012 fæddust 1.110 börn, en 490 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 630 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 5 umfram brottflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 620 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Noregur var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 260 manns á 4. ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 430 íslenskir ríkisborgarar af 650 alls. Af þeim 340 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 120 manns...."

Er Ísland að verða eftirsóknarverðara í augum annarra en Íslendinga? Eru þeir hægt og bítandi að skipta um þjóð í landinu?


Stórfréttir

eru það að kjarasamninar hafa verið framlengdir. Að vísu með verðbólguhækkunum sem eru þó mun minni en annars hefði orðið.

Athygli vekur að samningamenn ná þessu fram án aðkomu ríkisstjórnarinnar. En þeir höfðu áður lýst því að loforð hennar væri til einskis nýt vegna reynslunnar. Samtökin ætla að fara út í mótun stefnu í atvinnu-og haftamálum í því skyni að geta lagt til framtíðarmála eftir kosningar. En skortur á fjárfestingu og gjaldeyrishöft halda aftur af allri sókn í atvinnumálum landsmanna. Það er morgunljóst að samningamenn líta á ríkisstjórn Íslands aðeins sem hindrun á þeirri vegferð.

Alþingi getur þá haldið áfram í sandkassanum sínum þá daga sem eftir lifa til kosninga að rísla sér með stjórnlagaþingsskrána sína og fleira smálegt, sem engu mun breyta til batnaðar fyrir þjóðina sem kaus það. Fyrirlitning á þessu framferði er útbreidd tilfinning meðal fólksins.

Það er gleðilegt að þarna hafi vitibornir menn komið saman til að reyna að bjarga þessari þjóð frá sjálfri sér. Vonandi fæst svo skárra Alþingi eftir kosningar en það fólk sem nú fer þar fram með himinskautum. Það yrðu þær stórfréttir sem við þörfnumst mest.


Pí-lögmálið mitt

stenst við byggingu Hörpu. En Helgi Gunnarsson verkefnisstjóri sagði í ágúst 2008 að kostnaðaráætlun myndi standast: " Um 14 milljarðar."

Í júlí s.l. skrifar Ármann Örn Ármannsson blaðagrein um Hörpu. Þar segir m.a.:

" Fyrir nær þrjátíu árum skrifaði ég blaðagrein sem olli því að mér var ýtt út í að veita forystu Samtökum um byggingu Tónlistarhúss (SBTH). Ég varði stórum hluta frítíma míns næstu tíu ár í þetta verkefni. Við hlutum mikinn stuðning og samtökin höfðu yfir 2.000 borgandi stuðningsaðila. Við höfðum 12 manna stjórn skipaða tónlistaráhugamönnum og tónlistarmönnum og 30 manna fulltrúaráð sem skipað var fulltrúum allra helstu samtaka tónlistar í landinu. Eftir norræna hönnunarsamkeppni fengum við samþykktar byggingarnefndarteikningar fyrir glæsilegt tónlistarhús í Laugardal, sem allir voru sáttir við. Þetta hús hefði kostað um 6 milljarða króna á núvirði. Það hafði fullnægjandi aðstöðu til að hýsa óperu.....

Þessum áformum var öllum kastað á haug og nýtt tónlistarhús hannað í lok aldarinnar.... Ísland var ríkt og aðeins það besta skyldi verða að raunveruleika. Ýmsar tölur hafa verið nefndar um heildarkostnað Hörpu, á bilinu 30-50 milljarðar. Byggingarkostnaður hefur hvergi verið birtur en á fjárlögum getum við séð að almenningur þessa lands og komandi kynslóðir þurfa að greiða 534 milljónir á ári næstu 35 ár til að greiða niður hluta af herkostnaði við þetta mannvirki....

Margar spurningar hafa vaknað við efnahagshrun Íslands fyrir nær fjórum árum og langar mig að spyrja nokkurra þeirra varðandi Hörpu.

Hver var heildarbyggingarkostnaður og hvernig sundurliðast hann í stjórnunarkostnað þeirra stjórna sem voru myndaðar til að byggja Hörpu – á endanum leggst vitaskuld allur kostnaður á almenning. Þar á ég við félög eins og Austurbakka, Portus, Totus, Ago o.s.frv. Það er ekki auðvelt að botna í þessum félagafjölda kringum eina byggingu og hygg ég að það sé einsdæmi. Öll hafa þessi félög stjórnir, sem vísast sitja ekki þar fyrir velvild eina og a.m.k. flest eru enn við lýði. Við eigum rétt á að vita hvernig farið var með fé okkar og hvernig farið er með það í dag. Einnig væri áhugavert að vita hver hönnunarkostnaður var en sjálfur byggingarkostnaðurinn er eitthvað sem ræðst af hönnun. Þessari spurningu beini ég til ríkisstjórnar Íslands.

Starfsmannafjöldi Hörpu er skv. upptalningu á heimasíðu 33 manns og eru þá ekki taldir lausráðnir ráðgjafar sem ég hef fregnir af að séu nokkrir. Sambærileg hús eins og t.d. í Ósló hafa 15 manns. Rétt er að það komi fram að Harpa heldur sjálf enga tónleika og skrifstofufólk Íslensku óperunnar er um 8 og sinfóníunnar um 10 en hvorug talan varðar starfsmannafjölda Hörpu. Ég spyr því í einlægni: Hvað réttlætir þetta örlæti í starfsmönnum? Það væri einnig áhugavert að fá skýringar á hvers vegna Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur, Þórunn Sigurðardóttir og Pétur Eiríksson, sem mér vitanlega hafa hvorki sérstaka menntun í tónlist né stjórnun tónlistarhúsa, eru í forsvari fyrir þessu fyrirtæki. Halldór hefur sér til aðstoðar í fullu starfi lögfræðing hvernig sem á því nú stendur. Á tímum sérmenntunar væri ekki eðlilegt að fólk sem hefur sérmenntað sig á þessu sviði eða er a.m.k. menntað á sviði tónlistar, hefði þarna eitthvað með mál að gera? Það fólk er til á Íslandi. Auðvitað eru einnig haldnar ráðstefnur í Hörpu eins og í flestum sambærilegum húsum. Ég beini þessari spurningu minni til borgarstjórnar Reykjavíkur og ríkisstjórnar Íslands sem bera ábyrgð á rekstri Hörpu. Það væri áhugavert að fá upplýst hvað felst í þeirri ábyrgð....

....Á heimasíðu Hörpu er tíundaður fjöldi stjórna sem tengjast Hörpu og eitt 7 manna listráð. Verksvið listráðs er hvergi tilgreint.

....Íslensku óperunni var sópað inn í Hörpu enda þótt aldrei hafi verið gert ráð fyrir henni þar. Ég hygg að hún hefði verið betur komin í Gamla bíói með öllum þeim annmörkum sem eru vissulega á því húsi. Við vorum komin vel af stað með að byggja Óperuhús í Kópavogi þegar hrunið varð. Höfðum haldið samkeppni um hönnun og höfðum í hendi hús sem skv. kostnaðaráætlun kostaði um 3 milljarða króna og einkaaðilar voru tilbúnir að leggja fram um einn milljarð af þeim kostnaði. Því var sjálfkrafa hætt við hrun og hefur ekki heyrst af því síðan....."

Ég hef fyrir margt löngu sett fram pí-lögmál mitt sem ekki hefur samt fengið alþjóðlega viðurkenningu. En það segir að kostnaðaráætlanir stjórnmálamanna og hirðráðgjafa þeirra við framsett gæluverkefni þurfi að margfalda með pí til að fá rauntölur.

Það virðist ekki bregðast hvað byggingarsögu Hörpu snertir.

En við hönnun hússins var yfirskilvitleg byggingaþekking viðhöfð. Enginn mátti dirfast að setja útá hönnuði eða spyrja um kostnað. Hvað þá að tæknilegar útfærslur væru til umræðu. Sem dæmi um krítísk vinnubrögð var öllu stálvirkinu hent einu sinni og annað fengið í staðinn. Allt í lagi Kínverjinn borgar sögðu menn.

En nú er húsið þarna. Vissulega glæsilegt í alla staði. En er það þetta sem okkur var sagt í byrjun?

Til viðbótar hefur hönnun og eftirlit greinilega snarbilað í mörgum stöðum. Stálvirkið er greinilega ekki þeirra gæða sem Kínverjinn átti að skaffa.
Húsið þolir ekki íslenskt rok, míglekur, fýkur úr því og svo haugryðgar allt móverkið hans Ólafs dýra Elíassonar nem glerið. Þeir sem vilja sjá hörmungina nánar geta sé myndir hjá Örnólfi Hall arkitekt sem fylgst hefur með málum þarna í mikilli óþökk og við algera þöggun yfirvalda.

En flott er þetta óneitanlega. Það kostar mikið að reka og stjórna þessu öllu. Nú reka menn upp ramakvein yfir reikningunum. Og þetta er auðvitað hvergi nærri búið. Harpa er eins og Blönduvirkjun, getur aldrei borgað sig en verður á framfæri skattgreiðenda svo lengi sem land byggist. Danir geta ekki einu sinni rekið sína óperu þó þeir hafi fengið húsið gefins.

Pí-lögmálið mitt stenst líklega við stofnkostnað Hörpu.


Hver skilur pólitík ?

sem útilokar samninga aðildarviðræður að Evrópusambandinu? Annaðhvort fáum við að ráða eða við verðum utan stjórnar segja menn blákalt.

Er stjórnmál ekki list hins mögulega? Fikra menn sig ekki áfram að meiri hagsmunum með því að gefa eftir hina minni?

Hvernig í veröldinni geta menn sem bjóða sig fram til formennsku í stórum stjórnmálaflokkum vitað að þeir semja ekki um neitt í sambandi við hugðarefni sín? Þurfa þeir ekki að sjá taflstöðuna fyrst?

Guðbjartur og Árni vilja ekki láta þjóðina svara því hvort hún vilji standa í aðildarviðræðum. Þeirra afstaða er svo rétt að enginn meirihluti getur haft réttara fyrir sér.

Hver skilur svona nýmóðins gagnsæispólitík?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband