Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Aðför Hjörleifs að þjóðarblóminu

mínu, lúpínunni góðu frá Alaska, í Morgunblaðinu í dag, gerir stóra beyglu í þá brynju umburðarlyndis sem ég hef íklæðst til varnar honum vegna margra góðra hluta sem hann hefur látið frá sér fara á seinni árum. Við erum samherjar í Evrópumálum og því að Íslendingar láti ekki plata sig í viðskiptum við heimsins skálka svo eitthvað sé nefnt.

En þarna fer Hjörleifur  langt útfyrir þau mörk sem ég þoli. Ég varð fyrir því einu sinni að eyðileggja bílinn minn á Mýrdalssandi. Þökk sé lúpínunni eru lítil líkindi á því að það myndi gerast í dag. Ég man holtin uppblásnu í kringum Reykjavík í gamla daga. Nú sýnir maður erlendum ferðamönnum þessar yndislegu bláu breiður fullur af stolti. Hjörleifur segir að lúpínan kæfi  berjalyngið. Það er í besta falli ósatt og ég get sýnt Hjörleifi dæmi um sambýli lúpínu og lyngmós.

Engin jurt hefur gert meira til að endurheimta landgæði íslands en lúpínan. Það sanna víði-og birkibrúskar sem teygja sig upp úr bláu breiðunum. Líklega afkomendur þess viðs sem Ísland var vaxið frá fjöru til fjalla áður en sauðkindin kom til. Engin jurt verðskuldar því meira að hljóta útnefningu sem "þjóðarblóm" Íslands. Það er hún í mínum augum að minnsta kosti.

Ég þoli ekki aðför og rógskrif Hjörleifs Guttormssonar að þjóðarblóminu mínu.  


Hvað er að frétta?

af ríkisstjórninni?

Sigmundur Davíð er að gera það gott í útlöndum og spilar á evrópska stórfursta meðan farið er að rjúka úr Róm. Kjaramálin eru að fara úr böndum með "kjaraleiðréttingar" uppá svona fimmtung á einu bretti og óvíst að það muni duga geislafræðingum og öðrum verðugum.

Eitthvað kjararáð er búið að hækka laun Sigmundar og fleiri frammámanna sem er greinilega að verða til þess að aðrir opinberir starfsmenn ætla sér ekki minni hlut. Hefðbundið gengur þetta fólk á undan "kjarasamningum" við ASÍ sem vonandi sýnir ábyrgð og semur um svona 3 % í áföngum  eins og vera ber.

Það er því greinilega ekki verið að gera neitt annað en að undirbúa veglegt "verðbólguskot" eins og farið er að kallla það til aðgreiningar frá venjulegri verðbólgu sem hefur séð til þess að evruspekingar fá blóð á tunguna og tala um ónýta krónu. Auðvitað væri betra að fá kauphækkanir í evrum eins og Þjóðverjar, sem hafa víst beðið eftir svoleiðis í ein 10 ár.

Allir stórfurstar ríkisins hafa hátt á aðra milljón á mánuði í tryggum embættum sinum. Ég er atvinnulaus og vildi gjarnan fá að bjóða í eitthvað af þessum störfum sem varla eru svo merkileg að enginn geti framkvæmt þau sen viðkomandi einstaklingar svo betri sem þeir sjálfsagt eru. En hversu mörg hundruð prósent betri en atvinnulausir Pétur eða Páll? Er ekki kominn tími til að umsækjendur um opinber störf geri um leið tilboð í kaupið sem þeir fara fram á?

Manni er sagt að ríkisstjórnin liggi undir feldi og er það vel. Vonandi er sá feldur ekki svo þykkur að hann útiloki öll óhljóð, brak og bresti sem nú berast úr innviðum samfélagsins og trufla skálaglam og fagnaðarræður? Vorum við ekki að tala um leiðtogaleysi fyrir kosningar? 

Er ekkert að frétta? 


Bókstafstrú á ESB

er einkennandi við málflutning ýmissa mætra manna þegar aðild að sambandinu kemur til umræðu.

Einn þessara manna er Einar Benediktsson ambassador. Hann drepur oft niður penna um heimsmálin þar sem hann er oft fróðari en flestir. Hann ruglast hinsvegar í ríminu þegar kemur að ESB. Þá breytist rökhyggjan í trúarbrögð. Einar skrifar góða grein í Mbl. í dag. Hann segir m.a.:

"...Það er vandmeðfarið fyrir Kína að rísa úr öskustónni og tryggja hagsmuni sína sem næstmesta viðskipta- og efnahagsveldi heims. Þeir þurfa að sjálfsögðu fullt siglingafrelsi á hinum nýju, íslausu siglingaleiðum norðurskautsins. En liður í því er ekki að byggja og eiga sjálfir risavaxna gámahöfn í Finnafirði, eins og er með yfirráð skipafélags þeirra, COSCO, á Pireaus í Grikklandi. Þeir sækja í samkeppni við aðra um þátttöku í nýtingu auðlinda norðurskautsins, á landi og hafsbotni. En því fylgir ekki að Íslendingar selji þeim land til þeirra umsvifa á Norðausturlandi, væntanlega undir flugvöll og búðir til flutninga fjölmenns starfliðs í námur á austur- og vesturströnd Grænlands. Í Lloyds List má lesa að COSCO vilji samvinnu við íslensk skipafélög. Samvinna er sjálfsögð en ekki eignarhald á íslenskum flutningafyrirtækjum. Og megi ísbrjótur þeirra koma og fara án þess að hafa Ísland að bækistöð sinni...."

 

Enn segir Einar: 

".... En það verður að vera föst og ákveðin stefna Íslendinga um alla tíð, að Kína fái ekki varanlega aðstöðu á Íslandi. Stórt sendiráð þeirra setur þau takmörk.

 

Að lokum þetta: Fríverslun við Kína stuðlar að hagkvæmum viðskiptum, sem þó hafa lítið að segja um alla afkomu okkar. Það sama yrði ekki sagt um samninginn um fríverslun og fjárfestingar milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, sem viðræður hófust um í Washington í síðastliðinni viku. Nýtt svæði efnahagssamskipta frjálsra lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins, mun leiða til aukinnar atvinnu og samkeppnishæfni og þar með getu til að styðja þróun opinna og frjálsra þjóða. Ísland getur verið með á þeim vettvangi sem aðildarumsækjandi að Evrópusambandinu."

Af hverju er það betri stefna að ESB fái varanlega aðstöðu á Íslandi?  

Ég er sammála Einari um mikilvægi þess að  Íslendingar glati ekki yfirráðum yfir landi sínu eins og Grikkir. Stórveldi eru alltaf stórveldi og stór peningaseðill blindar marga.  En Evrópusambandið er stórveldi alveg eins og Bandaríkin. Þau eru ekki að gera samning með hagsmuni Íslends sérstaklega fyrir augum.

Það er mjög langt sótt hjá Einari að halda því fram að við séum annaðhvort fyrir innan eða utan og með eða án hagsmuna í þessum viðræðum.  Hann vill koma þjóðinni í ESB og telur því fylgja kosti En trúir hann því að slík skrif beri árangur nú í ljósi refsiaðgerða sem Damanki boðar vegna makrílsins? Einmitt vegna þess að við erum ekki bundnir samningum við stórveldið getum við boðið því byrginn. Alveg eins og Kínverjum sem sjálfstæð þjóð með eigin utanríkismál. Innan ESB færi sambandið með samningamál Íslendinga um Grímsstaði og Norðurslóðir.

 Það er skaði þegar góður og gegn ambassador og þrautreyndur  maður í heimsmálum eins og Einar Benediktsson  áttar sig ekki á að bókstafstrú í pólitík er andstæð rökhugsun.

 

 


Hvað eiga slitastjórnirnar?

að fá lengi enn að stunda sjálftöku meira en tífaldra verkamannalauna við iðju sína í þrotabúum bankanna?

Þetta lið sýnir ekki á sér fararsnið hvað þá að að verklok séu í umræðunni nú bráðum 5 árum eftir fall bankanna. Mér heyrðust stjórnmálamenn tala um að fyrir kosningar að þessu yrði lokið með hörku ef ekki vildi betur?

Þolinmæði almennings á þessari skrautsýningu er áreiðanlega löngu þrotin þó auðvitað skipti hún engu. Hefðu ekki búin ekki betur fyrir  löngu vera farin í gjaldþrot með einum einföldum skiptastjóra? Hafa skrípalætin sem þessar stjórnir Steingríms og Jóhönnu  hafa staðið fyrir með misheppnuðum málarekstri í útlöndum ekki gengið fram af neinum?

Hvað á þetta að ganga lengi? 


Haltu mér slepptu mér

aðgerðir Evrópusambandsins taka á sig hinar kynlegustu myndir.

Hinn ástsæli og virti fræðajöfur, Baldur Þórhallsson, úr Háskóla Íslands, fær stórar upphæðir frá ESB til að stofna öndvegissetur fyrir sambandið og gefa  út gyllibók handa tregum Íslendingum sem vilja ekki ganga inn.

Svo kemur gríska járnfrúin Damanaki, og boðar tyftunaraðgerðir gegn Íslendingum fyrir að veiða makríl í sinni lögsögu, þar sem hann er orðinn svo ósvífinn að hrygna án pappíra frá Brüssel. Sigmundur Davíð er farinn í ofboði til fundar við frúna til að reyna að sefa bræði hennar. Það fylgdi ekki sögunni hvar Össur er niðurkominn, en að óbreyttu hefði það hugsanlega sefað reiði frúarinnar að fá að hýða hann eins og Sturlu Sighvatsson fyrir höfuðkirkjum og láta hann síðan kyssa undirdánugast á vöndinn af sinni sannfæringu.  Það er ekki víst hversu leiðitamur eða samningalipur Sigmundur Davíð verður þannig að það má óttast mjög um rygti mörlandans fái þeir Baldur og Össur ekki tækifæri á að sefa reiði frúarinnar.

Fjandi kemst hann Kain langt,/kirkjulaus hann messar./Með sömu fingrum sver hann rangt/og söfnuðinn blessar. orti einn frændi minn á sinni tíð við annað tækifæri. 

Hvort finnst manni þjóðhagslega mikilsverðara að prófessorinn fái styrki, Össur klapp eða Sigmundur straff?

Evrópusamtökin geta án efa svarað því hvort haltu mér slepptu mér stefnan verði ekki til að þjappa þjóðinni enn frekar saman í afstöðu sinni til ESB?

 


Beint lýðræði

er hugtak sem ýmsir lukkuriddarar í íslenskri pólitík hafa talað um hástöfum án þess að færa rök fyrir ágæti þess sérstaklega. Dæmi um beint lýðræði er kunnugt úr sögunni, þegar lýðurinn hrópaði "Krossfestið hann en gef oss Barrabas lauan!"

Aþeningar reyndu ýmislegt í lýðræðistilraunum. Þeir beittu hlutkesti við val í ríkisstjórn. Þar var gengið út frá því að allir menn væru jafnir og því jafnhæfir til að stjórna. Síðan komust menn til valda í kosningum eftir þvi hversu vel þeir töluðu svipað og nú.  Perikles sem varð þeirra farsælastur dó í plágunni 429 Fkr. og eftir hann komst Kleón sútari til valda sem kjaftaði sig upp í æðstu stöður sem stríðsæsingamaður. Hann hefur fengið misjafna dóma í sögunni karlinn sá vegna óraunsæs alþýðusnobbs sem endaði með því að hann féll með fulllum heiðri í styrjöld við Spörtu ásamt með Brasidas Spörtuforingja. Eftir það var fyrst hægt að semja frið þar sem hann hafði verið öðrum mönnum þverari.  Það gafst því ekki vel þá frekar en á síðustu öld að fela óbreyttum bæheimskum dáta  yfirstjórn herveldis svo sem ráða má af ummælum Hindenburgs um Hitler.

Fulltrúalýðræðið virðist hafa sannað sig til að vera það skársta stjórnarform sem völ er á. "Fólk er fífl" er haft eftir virtum manni úr viðskiptalífinu. Og víst er fólkið almennt yfirleitt ekki með þær upplýsingar handbærar til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um öll mál. Þessvegna er alveg fráleitt að láta fólkið bæði greiða atkvæði um skatta sína og útgjöld ríkisins eins og dæmin frá Californiu er sögð sanna. Hinsvegar hafa áhrif hávaðans eins verið dýrkeypt frá dögum Kleóns til þessa dags. Íslensk pólitík er til marks um það hversu heimskir gikkir geta hossast hátt til áhrifa þjóðinni til sárrar bölvunar.

Það var því sem betur fer engin von til þess að Ólafur Forseti myndi láta þetta hávaðalið með undirskriftirnar trufla sig með veiðigjaldsfrumvarpið. Icesave var allt annað málefni, sem fór góðu heilli til þjóðarinnar.

Það væri óskandi að við þessi í þjóðinni fengjum að greiða atkvæði um inngöngu í ESB og jafnvel áframhald EES svo við gætum lokið þeim leiðindamálum einhvern tímann.

Að slepptu þessu óþarfa tali um beina lýðræðið sýnist manni fátt standa eftir af þessum tillögum stjórnlagaráðs em prófessor Þorvaldur Gylfason var svo andsetinn af að hann stofnaði stjórnmálaflokk þeim til framgangs. Af þeim flokki fréttist nú lítt sem ekki. Núverandi stjórnarskrá sýnist því alveg vera nægjanleg fyrir Íslendinga.

Það sem helst skortir er að þjóðin leiti skynseminnar í stað æsinganna yfir aukatriðum. Það er það beina lýðræði sem best myndi duga.


ESB og Sovétríkin

eru  náskyld að eðli og uppbyggingu.  Sovétríkin liðuðust í sundur ad sömu ástæðum og brakið í innviðum  ESB gefur nú til kynna.

Rússland gat ekki haldið Sovétinu saman. Þýskaland getur heldur ekki haldið ESB saman.

Bandaríkin eru þjóð. ESB verður aldrei þjóð fremur en Sovétríkin sálugu voru þjóð. 


Um hvað snúast "aðildarviðræður"?

að ESB?

Hún snýst um að taka upp stjórnarskrá ESB sem kallast Lissabon sáttmálinn. Hann liggur alveg klár fyrir og frá honum eru ekki veittar undanþágur.

Mastricht skilyrðin þarf að uppfylla til þess að geta tekið upp Evru. Þau er ekki hægt að semja um þó hugsanlega sé hægt að ljúga sig tímabundið frá einhverjum þáttum.

Blekkingunni um að Evrópusambandið sé reiðubúið að aðlaga sig Íslandi þarf að linna. ESB er heimsvaldasinni sem vill leggja Ísland undir sig  ekki síður en Kínverjar. Evrópusambandið á í miklum erfiðleikum vegna þess að Þjóðverjar eru á brúninni með að bresta og Frakkar eiga í vaxandi vandamálum.

Hættum ruglandinni og hættum aðildarviðræðum því þær eru aðeins aðlögunarviðræður. Um það eitt snúast "aðildarviðræður" Íslendinga við Evrópusambandið.


Ekki skrifa undir

áskorun um að halda aðildarviðræðunum áfram.

Þetta er blekking því um er að ræða aðlögunarviðræður við ESB þar sem Ísland lagar sig að Sambandinu en það ekki að Íslandi.

Látum ekki blekkja okkur til að skrifa undir marklaust og misvísandi plagg sem fer gegn meirihluta kjósenda sem eru búnir að segja sitt álit í nýafstöðnum kosningum. Látið ykkur ekki dreyma um að Forsetinn muni taka mark á þessu plaggi landsöluaflanna.

 Trúum á frjálst og fullvalda Ísland. Gerið ykkur sjálfum ekki þá skömm að skrifa undir þetta skammarlega plagg sem er ígildi beiðni um endurnýjun Gamla Sáttmála.


Malala

barnunga stúlkan hugrakka á afmæli í dag. Maður sendir henni hlýjar hugsanir og óskar henni alls hins besta. En til eru menn í röðum Islamista sem segjast ætla að skjóta hana aftur í höfuðið við fyrsta tækifæri. Malala býður þeim byrginn og hvikar hvergi frá sannfæringu sinni.

Maður er magnlaus yfir þeirri grimmd og ómennsku sem Islamistar leyfa sér  að fremja á saklausu fólki eins og Malala. Við Íslendingar ætlum núna að fara að hjálpa þessum öflum með því að leyfa skyldmennum þeirra  að byggja mosku í Reykjavík? Dýrð sé Jóni Gnarr?

Og hverjir eru þeir Islamistarnir í röðum múslíma? Eru þeir Shíar, Súnnítar, Talibanar eða hvað undirdeidlirnar heita allar saman?  Hvaða deildir eiga Ýmishúsið í Öskjuhlíð?  Er eitthvað reynt að njósna um hvað þar fer fram og hvaða múllar koma hingað og hvað þeir kenna?

Heyrist eitthvað í íslenskum múslímum varðandi afstöðu þeirra til árásarinnar á Malölu litlu? Hvaða afstöðu hafa þeir til Talibana sem brátt leggja sinn dimma fald yfir Afgahnistan þegar fjölþjóðaherliðið fer þaðan? Hvað afstöðu hafa þeir til hundruða árása Islamista á skóla í múslímaríkjunum í því skyni að fæla stúlkur frá námi? Hvaða lög setja þeir hærra, íslensk lög eða sharíalög?

Malala, til hamingju með afmælið, þó hjarta okkar blæði yfir vonsku heimsins þíns.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418215

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband