Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Af hverju ekki samstaða þjóðar?

spyr maður sig þegar menn eru að mótmæla því að Forsetinn megi hafa skoðun á því sem fleiri málum.

Það virðist vera að Forsetinn pirri fyrrum skoðanbræður sína  á vinstri vængnum mest með ávarpi sínu á nýjársdag. Hagfræðiprófessor telur að verðbólgutímar hafi fært þjóðinni meiri kaupmátt. Höfðu aðrir þá haldið því fram að 4000% taxtahækkanir hefðu skilað kaupmáttarlækkun þegar upp var staðið. Þessvegna hefðu menn ráðist í þjóðarsátt sem krafðist þess að Ólafur Ragnar sem ráðherra ógilti gerðan samning sinn við BHM. En Stefán Ólafsson miklar ekki fyrir sér að halda hinu gagnstæða fram og færir talnarök fyrir þeirri skoðun sinni. En hallar hann hvergi máli né segir öðruvísi til? Til eru þeir sem vilja fara ofan í þær fullyrðingar.

Ég minnist þess að við upphaf þjóðarsáttar var hér kreppa sem stóð til 1994. Hvergi var peninga að fá til eins né neins. Það var erfitt um vinnu. Það ríkti stöðnun og eftirspurnarleysi. Svo lagaðist það og Davíð Oddsson upplifði það fyrstur íslenskra forsætisráðherra að sjá dollarann fara úr 60 krónum  í 110 og svo aftur niður fyrir 60. Skyldi  betra gengi krónunnar ekki vera besta kaupmáttaraukningin fyrir launþega meðan útflutningurinn getur hagrætt á móti? Lækkar ekki verð á nauðsynjum ef gengið hækkar? Trúði ekki Jón Þorláksson á gengishækkun og lét hækka það stöðugt þangað til að sjávarútvegurinn þoldi það  ekki og allt fór í strand? En kom ekki heimskreppan þar líka við sögu áður en sölutregðan á fiskinum kom til?

Hefði Seðlabankinn getað gert annað frá árinu 2000 til hruns annað en að hækka sífellt stýrivexti?  Hertu vstýrivaxtahækkanirnar ekki á innflæði jöklapeninga? Gat hann ekki dempað þesnluna betur á annan hátt? Sumir segja að hann hefði getað bundið gjaldeyrinn í stað þess að horfa á bankana lána þá út á lágum vöxtum. Sem var ólöglegt ef textinn í lánsskjalinu minntist á íslenskar krónur.  Af hverju sagði enginn neitt?

Ekki fannst mér neitt að orðum Ólafs Ragnars um gagnsemi samstöðu þjóðar.  Ég var á Þingvöllum í rigningunni 17.júní 1944.  Var ekki samstaða þjóðar um að stofna lyðveldið?  Var ekki þjóðin samtaka um að hafna Icesave í tvígang þegar okkur var sagt af leiðtogum okkar að samþykkja? 


Einblínum við ekki um of á hagsmuni skuldara þegar við hrópum niður verðtrygginguna?  Látum vera þó sérreglur gildi um íbúðalán. En hví skyldum við fordæma verðtryggingu? Velur ekki fólkið hana umfram breytilega óverðtryggða vexti hjá Íbúðalánasjóði? Og er víistalan endilega að mæla sanngjarnt?

 Þurfum við ekki að hugleiða verðtryggingu fyrir þá sem vilja geyma fé sitt til skemmri tíma en þriggja ára? Bankarnir hafa greinilega  sér (ólöglegt?) samráð um verðtryggð kjör. Pétur Blöndal segir hina tekjulægst spara mest. Þeim er því refsað fyrir ráðdeild sem aðra skortir. 

Ég held að samstaða um þjóðarsátt á vinnumarkaði sé eftirsóknarverð.  Við þurfum að vernda krónuna og gengi hennar. Hækkandi gengi hennar kemur öllum vel með lækkandi verðlagi á neysluvöru og eldsneyti. Það kemur þeim lægstlaunuðu líka til góða.

Á ekki verðtrygging að vera valkvæð leið?  Eigum við ekki að hugsa um þá sem vilja spara en eki að fletta þá vísvitandi eins og bankarnir gera núna?

Ef þjóðin stendur saman er margt hægt að gera. Við getum hamið verðbólguna saman. Við getum aðeins hindrað sjálftöku þrýstihópa með samstöðu.   Við getum saman slegið á putta græðgishópanna í bönkunum og stórfyrirtækjunum, einkareknum sem  opinberum, Við getum unnið á spillingunni saman en ekki sitt í hvoru lagi.

Samstaða þjóðar hefur sýnt sig að vera til góðs hvenær sem hún tekst. 


Hið ólýsanlega

sorglega flugslys á Akureyri er rifjað upp á 365 miðlum sem birta myndband af því á vef sínum. Ég læt vera að dæma um hvort þetta sé æskilegt eða ekki. En allt of lengi hef ég þjáðst af ranghugmyndum um þetta atvik. Með áfellisdóma. Þetta myndband hjálpaði mér.

Maður verður auðvitað að beita sig hörðu til að horfa á þennan sorgaratburð þar sem ungir menn í blóma lífsins láta lífið. Óskiljanlegt er manni hvernig einn þeirra kemst lífs af þessum hrikalega viðburði. Og hversu mikli mildi er að enginn skyldi verða fyrir vélinni.

Þetta dró hinsvegar ský frá mínum augum varðandi slysið. Mér létti sem flugmanni. Eg get ekki séð annað en að þetta sé hreint óhapp þegar vélinni er flogið á fullu afli yfir svæðið enda ekki við öðru að búast þegar vanir menn eru að heilsa upp á félagana með lágu yfirflugi eða lópassi eins og það er kallað. Slíkt yfirflug við flugsamkomur er alltaf það sem allir áhorfendur þrá mest og heillast mest af.

Vélin þarna er ekki í neinu afbrigðilegu flugi, ofrisi eða slíku, heldur aðeins í hættulitlu lágflugi. Sem vanir flugmenn geta auðveldlega framkvæmt eins og til dæmis er alsiða á flugsýningum.  Auðvitað stendur í öllum reglum að menn skuli ekki fljúga lágt eða hægt , hvað þá hvorutveggja. Þarna er ekki verið að fljúga hægt sem er hættulegast. Þarna er bara flogið örlítið of lágt.

En flugmenn eru flugmenn og verða víst alltaf flugmenn. Þeir vita yfirleitt hvað þeir eru að gera. Þeir vita það líka þarna á traustum farkosti.  En þarna grípur Drottinn inn í atburðarásina. Regluverk mannanna breyta þarna engu um.  Það sem á ekki að  gerast gerist. DC10 var flogið inn í Mount Erebus af því að menn gleymdu sér við að horfa á ómerkilega sprungna peru. Það eru margar litlar þúfurnar sem hafa velt þungu hlassi. 

Augnabliks óaðgæsla flugmannanna leiðir til þess að vængurinn snertir jörðina. Þetta er alltaf möguleiki í svona flugi og þessvegna kitlar lágflugið alla flugmenn. Í svona flugi þenjast taugarnar og menn eiga að vera spenntir til hins ítrasta. Eftir því sem reynslan er meiri getur einbeitingin slaknað. Ég hef flogið svona svipað með reyndum flugstjórum og orðið skíthræddur, jafnvel togað í stýrið. þega mér ofbauð. Sá reynsluminni er yfirleitt meira strekktur á taugum en sá vani.   

Slysið verður ekki af vanhæfni flugmannanna eða vankunnáttu. Þetta er óhapp í öllum skilningi. Auðvitað hrikalega sorglegt. En við skulum ekki dæma einn eða neinn fyrir þetta. Flugvélin flýgur eins og henni er lagið og er bersýnilega vel flogið. Það vantar skyndilega örfáa sentímetra til að allt fari vel. En þeir eru ekki í boði að þessu sinni. Forlögin eru skyndilega hérna og enginn má sköpum renna.

Þannig er flugið og hefur alltaf verið. Manni er allt í einu neitað um smáræði eins og nokkra sentimetra, örlítið skyggni, eða sekúndubrot. Allt smáræði  sem skilur hárfínt á milli lifs og dauða. Hafandi verið heppinn og farsæll með allt fram að þessu augnabliki þá er þér neitað um smáræði. Hversu mörg eru ekki slysin og hversu mörg eru ekki tilvikin þegar slysum forðað fyrir tilviljun eða heppni. Í fluginu er stundum ekki boðið upp á endurtekningu.

Ég sendi öllum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hugsum hlýtt til allra sem þessu tengjast. Þetta var ólýsanlega sorglegt slys. 


Tuðið heldur áfram

um að þjóðin vilji kíkja í pakkann eins og það er kallað í Evrópusambandsaðildarviðræðunum.

Það er talað um að Sjálfstæðisflokkurinn svíki landsfundarsamþykktir sínar með því að gangast ekki fyrir þjóðaratvæðagreiðslu um að halda áfram viðræðunum. Hið rétta er að flokkurinn  samþykkti með meira en 90 % atkvæða að gera hlé á viðræðunum og hefja þær ekki á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.Ríkisstjórnin gefur tilkynnt að aðildarviðræðum hafi verið frestað. Það stendur ekki til hjá ríkisstjórninni eða hennar þingmeirihluta  að Ísland gangi í Evrópusambandið. Meirihluti Alþingis er á þeirri skoðun að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Er þá líklegt að Alþingi vilji þá ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland vilji ganga í ESB?

Samt tuðar minnihlutinn og Þorsteinn Pálsson um efna beri til þjóðartkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. Aðild er ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Hvernig í veröldinni er hægt að eyða tíma eftir tíma í þetta tuð í þessu fólki?

Það  vita allir sem vilja vita, að aðildarviðræðurnar snúast aðeins og það að hveru miklu leyti Íslendingar hafi aðlagað sig að lögum og regluverki sambandsins. Sem lýtur stjórnarskrá hinn 27 ríkja sem er Lissbonssáttmálinn. Hann liggur alveg klár fyrir í íslenskri þýðingu og er aðgengilegur á vefnum. Samt harpar þetta lið, frá Þorsteini Pálssyni til Ingva Hrafns  á því að það sé nauðsynlegt að aðildarsamningur Íslands liggi fyrir svo þjóðin geti tekið afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu til umsóknar um aðild. Hvað er að þessu fólki?

Gamalt Alþingi  ákvað að sækja um aðild með naumum meirihluta sem var jafnvel keyrður fram í handjárnum og með hótunum.

Núverandi Alþingi vill ekki aðild.

Það er Alþingi sem getur ákveðið að draga umsóknina til baka.

Ríkisstjórnin sótti ekki um aðild.Hún vill ekki sækja um aðild. Hún hefur aðeins ákveðið að gera hlé á viðræðunum.

Afgreiði Alþingi málið sem það sjálft byrjaði, þá hlýtur ríkisstjórnin að tilkynna fyrir hönd þjóðarinnar að viðræðum aðild sé slitið. Alveg án þjóðaratkvæðis eins og þegar umsóknin var send.

Enginn af þáverandi stjórnarherrum lagði til að spyrja þjóðina um hvort senda ætti umsóknina. Það benti nefnilega allt til þess þá, að ekki væri stuðningur við umsóknina.

Alveg sama hvað staðreyndir málsin eru oft rifjaðar upp. Áfram tuðar Þorsteinn Pálsson og öll ESB-hjörðin um einhverjar pakkagæjur.

Tuða og tuða.


Kjaramál kennara

eru með þeim hætti að þeir telja laun sín alltof lág.

Þeir sem taka við pródúktinu frá þeim finnst þeir fá allt of lítið í sinn hlut. Helmingurinn ólæs upp úr grunnskóla.

Eiginlega enginn nemandi  kann margföldunartöfluna upp úr 10.bekk í grunnskólanum. Til hvers líka spurði hún yndisleg mín, ég er með reiknivél. Já, en ef þú ert nú úti í móa og hefur gleymt reikninvélinni heima og þarft að margfalda 6x9?? Iss ,það er allt í lagi, ég er með reikninvél í símanum mínum.

Hvað er hægt að gera? Enginn peningur til, of margir kennarar og nógir krakkar.

Mér hefur dottið í hug að raða í bekki eftir námsgetu sem hlýtur að vera hægt að meta. Í A og B bekkjum verði kennurum borgaður bónus  fyrir hvern nemanda sem er umfram 20 í bekk. Í C og D bekkjum verði borgaður hærri bónus upp að 25 nemendum úr 18 þannig að betri kennarar keppi þangað.  

Kennari fær bónus fyrir hvern 0,1 sem einkunn nær yfir eitthvað ákveðið viðmið. Kennari fær bónus fyrir hvern nemanda upp úr 10. bekk sem kann margföldunartöfluna. Sömuleiðis fyrir hvern læsan nemanda.

Fækkað verði starfsdögum kennara og skólinn lengdur. Hægt sé fyrir foreldra að kaupa heimanám undir kennaraeftirliti sem fer þá fram í skólanum. Sveitarfélög greiði tekjulágum styrki til þessa. 

Nettó niðurstaða:

Kostnaður lækkar við skólahaldið.

Kjör kennara batna .

Bætt geta nemenda.

Ánægðari kennarar sem þurfa ekki að fara í verkfall. 

 

 

  


Framleiðni

og aftur framleiðni er það sem lyftir lífskjörum Íslendinga.

Hver kannast ekki við spurninguna sem einhver bar fram á opinberum vinnustað: Hvað vinna hér margir? Svarið var sagt vera :Helmingurinn.

Á Hrafnaþingi hjá Ingva fór Tryggvi Þór yfir ástæður þess að það er verið að selja frystitogarana og flytja vinnsluna í land. Ævintýralegar tekjur sjómanna á frystitogurunum hafa löngum verið landkröbbum öfundarefni. Nú er það veiðigjaldið og olíuverðið sem knýr á með hagræðinguna. Vélbúnaðurinn í landi sem nýtir hráefnið kannski 2-3 % beturog ódýrara fólk ræður úrslitum. Rafmagnið, vatnið, maturinn, aðbúnaðurinn  í landi er ódýrara en um lúxusinn um borð í þessum fögru fleyjum. 

Þei félagar ræddu fram og aftur um nauðsyn framleiðninnar sem framkallaði þessar breytingar í sjávarútveginum. Í heild var þetta skemmtilegur þáttur með vitrænni umræðu þar sem fleiri fengu að tala en Ingvi Hrafn.

Ég fór að velta því fyrir mér að á Íslandi eru 4100 bankastarfsmenn. Í Evrópusambandinu eru  þeir 3 milljónir. Í Bandaríkjunum innan við 2 milljónir. Deilum þessu með fjölda Bandaríkjamanna sem eru þúsund sinnum fleiri en við og fjölda Evrópusmbandsfólksins sem eru meira en 1400 sinnum fleiri en við. Sé litið til fjölda útibúa er sama uppi á teningnum. Greinlega óhagstæður samanburður.

Svona mætti reikna áfram og taka fjölda stjórnarráðsmanna. kennara, lækna, verkfræðinga, hjúkrunarfræðinga og sjúkraflutningamanna. Ef til vill kæmi eitthvað út sem er okkur álíka óhagstætt.

En það er segin saga ef minnst er á eitthvað sem hefur með störf að gera, þá er rekið upp ramakvein og allt úrskurðað bull og vitleysa sem viðkomandi er að segja. Íslenskar séraðstæður kalli á allt annað en í Bandaríkjunum þekkist. Við verðum að hafa mörg og lítil fjárbú. Mörg býli frekar en stórbýli.Þjóðlega sveitamenningu.

Bandarísk þjóðarframleiðsla nemur 17 trilljónum dollara. Meðallaun eru um 45 þúsund dollarar. Útflutningur er 1.7 trilljónir dollara. Innflutningur til Bandaríkjanna nemur 2.3 trilljónnum og kemur 19% frá Kina en 14 % frá Canada. Aðeins innan við 5 % koma frá Þýskalandi. Þessi 19 % haldi Kína uppi og án þeirra væru þeir slappir. Vinnuafl þeirra nemur 156 milljónum.Ríkistekjurnar eru 2.77 trilljónir. Ríkisútgjöld eru 3.4 trilljónir. Herkostnaðurinn er 18 % af því og ef þeir leggðu herinn niður yrði ríkissjóður hallalaus. Það eru áreiðanlega til einhverjir hagspekingar í Bandaríkjunum sem koma með svo snjallar hugmyndir í kratískum stíl.

Þetta segir okkur að við Íslendingar erum í sérflokki svona fáir.(trilljón = þúsund milljarðar. Milljarður er billjón) Við erum einstakir með öll þessi gríðarlegu auðævi landsins okkar. Það er enda að Evrópusambandið líti okkur hýru auga og ásælist bæði orku, makríl og Norðurslóðir. Það er enda að Kínverjar vilji kaupa hér Grímsstaði og þökk sé Ögmundi fyrir að hafa stoppað það.

En málið er samt það, að ef við framleiðum meira á mann þá geta kjörin batnað. 2.8% launahækkunin til hinna hæstlaunuðu( það er óþarfi að telja láglaunafólkið með þar sem 2.8% af næstum núlli er næstum núll) er þegar horfin í gjaldskrárhækkanir opinberu fyrirtækjanna og eftir stendur bara aukin verðbólga.2.8 % launalækkun til allra hefði hinsvegar þýtt raunverulegar kjarabætur fyrir alla.  Svo koma bráðum opinberir starfsmenn og þeir ætla sko ekki að láta bjóða sér neina svona smámuni og gera bara skrúfu ef svo ber undir. Það gætir verið athugandi að setja á ráðningabann hjá ríkinu sem þýðir að ekki verði ráðið í þau störf sem losna nema hugsanlega í heilbrigðis og löggæslugeira. Og engin ný embætti stofnuð.

Það vantar meir framleiðni víðar en í útgerðinni og bönkunum.

 

 

 

 


"Nú get ég"

segir meirihlutinn í Reykjavík, þegar kjörtímabilið er að renna sitt skeið án þess að hann hafi tekið á einu einasta máli svo heitið geti.

Þessí stað hefur tími Borgarstjórnar farið í allskyns uppákomur og leikhús fáránleikans eins og        Hofsvallagötugrínið og meðfylgjandi íbúðabyggingar fyrir fugla himinsins. En manni skilst að þeir höfðu þó meira vit en það að þiggja þótt bæði Gnarrinn og Dagurinn segðu púddapúdd og  hafa þeir án efa vitað að varlegt er að tryggja sig fyrir bakreikningum eins og PISA könnunin í skólunum kallar á.

Borgin hefur að mér finnst stórum látið á sjá frá fyrri tíð. Ssóðaskapur og vanhirða blasir við hvert sem auga er litið og er æpandi mismunur á Reykjavík og nágrannabyggðunum.

Við þessar aðstæður tilkynnir meirihlutinn í Reykjavík að hann ætli að byggja 2500 leiguíbúðir á þessu ári.  Aðeins standi á að ríkið fjármagni framkvæmdina með húsaleigubótum. Fáist það fullyrðir Björk Vilhelmsdóttir að íbúðirnar muni þjóta upp. En allur undirbúningur tekur tíma því verður þetta víst eftir kosningar.

Þessar nýju íbúðir eiga allar að vera í barnvænu hverfunum við Daníelsslipp og svo líklega á flugvellinum í göngufæri við búllurnar í miðborginni.

Þetta er í stíl við framkvæmdagleði vinstrimanna í síðustu ríkisstjórn. Það vantaði  ekki útgjaldaloforðin fyrir næsta kjörtímabil sem þeir vissu samt auðvitað  að yrði annarra flokka viðfangsefni.  

Kjósendur sáu í gegnum blekkingar stjórnarmeirihlutans  í kosningunum síðasliðið vor og munu væntanlega gefa þessum öflum  verðskuldað frí í kosningunum í vor. Það eina sem getur komið í veg fyrir það er að Sjálfstæðismönnum takist ekki að koma sínum boðskap til skila. Verulegt átak mun þurfa hjá þeim ef þeirra rödd á að sjást og heyrast

Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur þanið út starfsmannafjöldann í allskyns nefndum og ráðum þannig að launakostnaður er yfirþyrmandi hæra hlutfall útgjalda í Reykjavík en hjá þeim sveitarféllögum sem sambærilgust eru. Ljóst er að ráðningabann muni koma til framkvæmda hjá Borginni þegar nýr merihlujti tekur við í vor. Þessvegna mun flokksgæðingum verða raðað á jöturnar sem aldrei fyrr í vetur til að nota tækifærið meðan gefst. Við skulum hafa sérstak auga á framkvæmdum á því sviði.

Það er billegt að samþykkja stórútgjöld og byggja skýjaborgir sem aðrir munu bersýnilega uppi með. Svo varð umrammaáætlunina góðu sem virkjunarfriðaði hálft Ísland. Ráða svo ekki við sig í hneykslun ef viðtakandi meirihluti hefur aðrar skoðanir á þörfinni.

Það er auðvelt að segja "nú get ég"  þegar fyrir liggur að viðkomandi það gat ekki neitt þegar tækifærin gáfust

.


Nýr tónn

kveður við hjá forsætisráðherra í áramótaávarpi hans. Hann þakkar þjóðinni fyrir dugnað hennar og þrautseigju við að axla byrðarnar. Páll Vilhjálmsson vekur athygli á þessum gerbreytta stíl forsætisráðherra okkar núna í samanburði við fyrri stjórnartíð. Þjóðin sé honum ofar í huga en hann sjálfur.Það má taka undir þetta með hinum ágæta bloggara Páli og hafi hann þökk fyrir að vekja athygli á þessu þýðingarmikla atriði.

Varla var þó tónninn í Forseta vorum mikið í þá veru að setja sitt eigið ljós undir mæliker þegar hann ræddi framtíð lands og þjóðar. En allt um það voru báðar þessar ræður okkar forystumanna í jákvæðum stíl sem við þörfnumst sárlega og til þess fallnar að tala kjark í þjóðina og auka henni bjartsýni og trú á framtíðina.

Það er aukaatriði að bera þessa ræðu Sigmundar Davíðs saman við raupið í Steingrími og Jóhönnu  frá þeirra stjórnartíð. Hvergi var þá minnst á þjóðina sem ber byrðarnar en sífellt þruglað um þeirra eigið ágæti. Að maður tali nú ekki um garminn hann Össur,  sem nú segir daglega frá því á öllum rásum sem hann kemst í hvað hann var næstum því búinn að gera til að bjarga þjóðinni en gerði þó ekki af hinum og þessum ástæðum.

Öll eiga þessi skötuhjú, sem og flestir þeir liðsmenn stjórnarandstöðunnar sem enn eru á pólitísku lífi, það sameiginlegt að hamra á því hvernig þau persónulega hafi bjargað þjóðinni frá hremmingum sem yfir hana riðu við hrunið. Til þess er svart sagt hvítt og nú hvítt sagt biksvart eins og Árni Páll getur flutt um langar tölur sé hann spurður um sorg sína yfir frestun aðildarviðræðnanna og inngönguleysinu í Evrópusambandið.Í hans huga á þjóðin fáa framtíðarmöguleika án þess að fá að vera þar með sem þjóð meðal þjóða. Jafnvel svona 2 % áhrif á fiskveiðistefnuna  eru honum nægileg ástæða fyrir takmarkalausu fullveldisframsali og upptöku Lissabon-sáttmálans sem stjórnarskrá Íslands.

Þó hefur Steingrímur gengið sýnu lengst í sínu sjálfshóli þegar hann lýsir því hvenig hann barðist einn síns liðs og jafnvel matarlaus við forynjurnar. En nefnir lítt að auðvitað var þjóðin sem vann sig út úr vandanum og er enn að.  Miklu frekar þrátt fyrir hann sjálfan  en vegna hans.

Saga fyrri ríkisstjórnar er raunar samfelld saga sem er best að gleyma sem fyrst, hvort sem það er  Icesave eitt tvö og þrjú. stjórnarskrármálið, auðlindaaskatturinn, veiðigjaldið, Sjóvá-björgunin, Saga-Capital, Verðbréfastofan, Landsbankinn, SpKef, BYR, Landsbankinn og framsalið á Arajóni og Íslandsbanka. Steingrímur ræðir ekki einu sinni hvað honum finnst um nýlegar ráðstafanir forsvarsmanna Landsbankans og Sjóvár á fjármunum ríkisins í fyrirtækjunum til vildarfólks út í bæ. 

Þjóðin þarf á bjartsýnni forystu að halda við þessi áramót. Sigmundur Davíð hefur slegið nýjan tón sem vert er að taka eftir.


Áramótin

runnu framhjá með svipuðum hætti. Mér fannst ég sjá minni rakettusölu í því að sprengingum fyrir hálftólf hafði fækkað frá því sem maður á að venjast. En skothríðin frá kl 11:45 til 12.12 var ósvikin og síst minni.

Vonandi stendur fjárhagur björgunarsveitanna okkar samt með blóma á þessu ári því ekki erum við hætt að týnast. Spurning er hvort ekki þarf að hugsa fyrir leitar-og björgunarskatti um leið og aðgangur er seldur erlendum ferðamönnum að náttúru landsins á nýju ári.

Ég veit ekki hvort ég á að hafa skoðun á áramótaskaupinu þar sem bókstaflega ekkert af því situr eftir. Kannski er þetta svo nýmóðins húmor að það er ekki vona að svona forngripir eins og ég geti skilið hann. Ætla samt að spila þetta upp aftur einhverntímann ef ég gæti hafa misst af einhverju vegna fattleysis.

En fortíðin skiptir ekki miklu máli. Það er framtíðin sem er mikilvægust. Hvernig verður hún? Hvernig vildi eg að hún verði?

Ég er sammála Einari Kristni sem ég er að hlusta á í útvarpinu núna, að minna hafi miðað í byggðamálum en hann hefði viljað. Mér finnst allt of hægt miða í samgöngubótum eins og jarðgangnagerð. Vegna þess að við höfum ekki þá hugsun að samgöngumannvirki skuli afla tekna til sín sjálf. Ef veggjöld  væru ávallt reiknuð með þegar í samgöngubætur á landi skuli ráðist myndi landið rísa mun hraðar.  En þessi hugmyndafræði virðist ekki vera töm íslenskum hugsunarhætti sem til dæmis ráðstafar bensíngjaldinu að mestu til svæða sem liggja utan þeirra þéttbýlissvæða sem tekjunum skila.

Ég vildi sjá meiri áherslu lagða á alþjóðlegt samstarf um starfsemi á Grænlandi þar sem  gullkista Norðurslóða er. Ég held að þar liggi margir kostir sem ekki ná athygli í dag. Þjónustuiðnað við olíuiðnaðinn geta Íslendingar byggt upp eins og Færeyingar hafa gert án þess að þeir hafi  fundið dropa af olíu frekar en við. Kannski erum við að sjá fyrstu merkin í þessa veru með byggingu hins nýja skips Fáfnir Offshore sem Steingrímur Erlingsson fer fyrir. Að öllum líkindum er það skip aðeins það fyrsta af mörgum slíkum í eigu Íslendinga.

Sambankalánveitingar íslenskra banka til Havila skipafélagsins norska sem rekur eina þrjá tugi skipa í þessum geira eru ef til vill fyrstu merkin um að sú alþjóðlega sókn sé hafin. Per Sævik fyrrum stórþingsmaður er þar í forsvari. Merkilegur maður eins og Íslendingar kunna að meta sem mann sem hefst úr engu af sjálfum sér.

Það eru margir stórir aðilar í Noregi sem við þekkjum fæsta sem vert er að kynnast. Norðmenn eru svo langt á undan okkur í alþjóðlegri skipaútgerð að okkur er enginn annar kostur en að leita okkur leiðsagnar hjá þeim. Ég tel að Íslendinga geti beðið mörg tækifæri í alþjóðlegri útgerð ef eftir því er leitað. Samstarfs við aðila sem kunna og geta er ráðlegt að leita eftir fyrir þjóð í hafti.

Ég vildi sjá Íslendinga taka gjöld af ferðaþjónustunni, virðisaukakatt og innsköttun af rekstri rútubíla og gistinátta til þess að hætt verði að gefa þetta útlendingum í samkeppni við okkur sjálf.  Við þurfum að fjölga ferðamönnum sem eiga peninga heldur an að bjóða þessu blanka liði á stóru skipunum upp á afsláttarþjónustu sem ekki stendur undir því að þrífa klósettin í rútubílunum. Við þurfum að byggja upp salernisaðstöðu og fleiri þjónustugreinar í nánd við ferðamannastaði þar sem við erum á algeru steinaldarstigi.

Við þurfum að stíga næstu skref til virkjana sem allra fyrst. Reyna að fá samstarf við erlenda fjárfesta sem vilja greiða gott verð fyrir græna raforku. Úti í Grímsey er búið til rafmagn með díselolíu. Er ekki nógur vindur í þeirri eyju? Vindmyllur Landsvirkjunar virðast fara fram úr björtustu vonum það af er.

Við þurfum erlenda bankastarfsemi hér á landi sem vilja veita langtímalán í erlendum gjaldeyri á lægri vöxtum en tíðkast í samstilltri fjámálastarfsemi innlendra aðila og allir þekkja. 4100 bankastarfsmenn á Íslandi myndu samsvara 4 milljónum bankastarfsmanna í Bandaríkjunum sem þar finnast ekki. Ýmis annar tölulegur samanburður gæti vakið athygli á óhagkvæmni í íslenskum atvinnurekstri ef grannt væri skoðað.

Gríðarlegar framfarir í nýtingu sjávarafla hafa orðið í landinu og breytingar eru að eiga sér þar stað. Þetta verður augljóslega ekki skilið frá kvótakerfinu svo vel sé. Veiðigjöldin skila nú meira en á síðasta kjötímabili. Vonandi finnst leið til að sætta þjóðina við framþróun í stað byltinga sem geta étið börnin sín.

Krónan verður gjaldmiðill Íslendinga á þessu ári sem hinu síðasta. Krónan er vinur okkar allra. Við verðum hinsvegar að umgangast hana af virðingu og hlúa að henni betur en við höfum gert. Leiðin til þess er ráðið sem Ludwig Erhardt gaf löndum sínum: Hófstilling! Kunnið ykkur hóf! Sömu hugsun og Sólon færði löndum sínum fyrrum.

Það er einlæg von mín við þessi áramót, að landið fari nú að rísa. Fleiri störf verði til án þess að við förum að flytja tafarlaust inn útlendinga til að manna þau. Þjóðin nái sátt við sjálfa sig og skilji það að hófstilling núna mun færa meiri ávinning síðar heldur en vanstilling núna. Það virðist hafa verið tekið lítið skref í þessa átt með nýlegum kjarasamningum.  

Þá geta þessi áramót verið tímamót í raunverulegum skilningi.

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419714

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband