Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Handritin heim og meira sement!

var hrópað á stúdentafundum í gamla daga. Við vorum ungir og vildum lyfta þjóðinni upp úr hjólförunum.

Gerðum við það?

Ég veit það eiginlega ekki. Það var önnur kynslóð en mín  sem gerði áætlunina um Sementsverksmiðjuna. Sú kynslóð endurheimti líka handritin. "Værsgod, Flatöbogen" sagði foringinn sem frægt er orðið. Það var líka sama kynslóð sem gerði áætlanirnar um Áburðarverksmiðjuna. Mín kynslóð vann við að byggja þetta og  notuðum framleiðsluna. Og mín kynslóð með hjálp þar næstu kynslóðar kenndri við  bréfaguttanna, við eyðilögðum báðar þessar verksmiðjur. Svo nú framleiða Íslendingar hvorki áburð né sement heldur flytja allt inn fyrir gjaldeyri og tala um hvað eigi að gera við orkuna ef útlendingar vilji ekki byggja álver? 

Það er talað um fæðuöryggi. En hvorki  áburðar-né sementsöryggi? Sem þó er býsna nátengt ef maður hugsar um það.

Ég fagna því sem gamaldags Íslendingur, og því ekki tækur í Samfylkinguna,  að Framsóknarmenn  hafa nú lagt fram frumvarp um nýja áburðarverksmiðju. Ég hefði viljað að Sjálfstæðismenn hefðu þá  látið sig örlög Sementsverksmiðjunnar á Akranesi einhverju varða. Verksmiðjan er þarna enn þá, höfnin og hvað eina.  Hvað þarf til að endurreisa hana veit ég ekki. Ég veit það bara að hún framleiddi góða vöru síðast. Af hverju ekki aftur? Hvorutveggja áburður og sement er orkufrekur iðnaður.

Er ekki augljóst að þjóðin þarfnast bæði sements-og áburðaröryggis alveg eins og þess að Íslendingar verði ekki svo útþynntir af hælisleitendum og öðrum innflutningi óþjóða að þeir hætti að geta lesið handritin. 


Ekki brást Helgi Seljan

væntingum mínum um almenn andstyggilegheit í þráspurningum sínum til Bjarna Benediktssonar um hvort hann vildi ekki játa á sig svik þegar þjóðaratkvæðagreiðsla getur greinilega ekki farið fram með neinum vitrænum hætti um framhald aðlögunarviðræðna við Evrópusambandið.

Bjarni reyndi án sýnilegs árangurs að skýra það fyrir Helga sem máli skiptir, að það er annað að standa í aðildarviðræðum núna sem þjóð þegar skipt hefur verið um þingmeirihluta og ríkisstjórn. Þegar skipt hefur verið algerlega um stefnu gagnvart inngöngu í Evrópusambandið.

 Helgi gat ekki séð neinn mun á þessum breyttu pólitísku aðstæðum. Líklega hefur hann ekki velt því fyrir sér hvort líklegt væri að  Þorsteinn Pálsson myndi leiða framhald aðildarviðræðnanna eða til dæmis að Vigdís Hauksdóttir eða Unnur Brá kæmu í hans stað? Skyldi Helgi virkilega telja að allt myndi vera óbreytt frá tilhögun fyrri ríkisstjórnar í viðræðunum? Að Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon myndu fara fyrir sendinefndinni?

Bjarni Benediktsson rifjaði upp að í  byrjun aðildarviðræðnanna sagði Steingrímur J. Sigfússon að þeim skyldi slitið þegar í stað ef í ljós kæmi að ekki næðist samkomulag um landbúnaðar og sjávarútvegskaflana. Fyrri utanríkisráðherra og samninganefnd hans tókst í 4 ár að komast hjá því að opna þessa kafla heldur aðeins að tala um aukatriði sem ekki var ágreiningur um.  En áminnstu málin sem skipta öllu voru látin í friði meðan hótað var refsiaaðgerðum vegna makrílsins samtímis samningaviðræðum. Nú kalla þeir hinir sömu þessa ríkisstjórn verklausa fyrir ársafmælið.

Hefur Helgi Seljan velt því fyrir sér hvað myndi gerast, ef ný sendinefnd færi til Brussel núna skipuð fólki sem ekki lægi á þeirri skoðun ríkisstjórnar Íslands og þeirrar þjóðar sem kaus hana og Alþingis að Ísland ætlaði sér ekki inn í þetta Evrópusmband? Slík hefði niðurstaða kosninganna verið? Eða lítur Helgi Seljan svo á að þær kosningar hafi ekki verið marktækar? Það sé meira virði að pexa og þráspyrja Bjarna í pólitískum tilgangi um hvort hann vilji ekki játa á sig svik eins og Þorsteinn Pálsson kallar stöðvun viðræðnanna heldur en að hugleiða tilgang frekari fjármunabrennslu sendinefnda  í Brussel?

Það er svo óhugnanlegt að hlusta á mann á kassa á Akureyri í fréttum RÚV lýsa því að hann voni að einhverjir skoðanabræður hansr séu núna væntanlega að hreinsa út úr Alþingishúsinu í Reykjavík  í þeim töðuðu orðum sínum.  Varðar ekki svona hryðjuverkatal við lög?

Það er hinsvegar algerlega í stíl við málflutninginn um svik við þjóðina að efna ekki til þjóðaratkvæðis um framhald aðildarviðræðna sem myndu þá útiloka aðild að Evrópusambandinu þar sem nýtt erindisbréf viðræðunefndar myndi einkennast af vilja þeirra og stefnu sem nú eru með umboð þjóðarinnar. Hvernig yrði viðmót Brusselmanna við það tækifæri?

Það er staðan í þessu máli, hvort sem Helgi Seljan eða aðrir ámóta vilja skilja það eður ei, að það er ríkisstjórn í þessu landi sem ekki vill ganga í ESB. Það er Alþingi í þessu landi sem ekki vill ganga í ESB. Það er þjóð í þessu landi sem ekki vill ganga í ESB. Þetta fólk mun ekki senda Þorstein Pálsson, Vilhjálm Bjarnason, Össur Skarphéðinsson  eða aðra Evrópusinna til Brussel til að halda áfram aðildarviðræðum. 

Helga Seljan bregst þar bæði dómgreindin og bogalistin. 


Hinn nýi löggæslustíll?

birtist í frásögn frænda míns dr.Ágústs fv.menntaskólakennara og grasafræðings: 

"Frásögn Ágústs H. Bjarnasonar:

Reykjavík, 24. febrúar 2014

Eg var að aka klukkan rétt rúmlega átta að morgni s.l. sunnudags 23. febrúar norð-vestur Laugaveg. Eg var rétt kominn yfir gatnamót Laugavegar og Kringlumýrarbrautar, þegar lögreglubifreið með blikkandi ljós var fyrir aftan mig. Eg gaf stefnumerki og ók inn á hliðarskot stuttu síðar og nam þar staðar. Eftir stutta bið sté eg út úr bílnum og þá kom umræddur maður askvaðandi og sagði mér að setjast inn í bíl, því að eg ætti ekki að fara út úr honum fyrr en þeir kæmu að.

Hann hafði engan frekari formála en sagði: Ertu fullur, sýndu mér ökuskírteinið.

Nei, sagði eg, en eg get ekki nálgast skírteinið nema stíga út, þar sem það er í þröngum buxnavasa.

Þá sté eg út aftur.

Varstu að drekka í nótt?

Síðan sagði hann eitthvað, sem eg heyrði ekki og hváði. Ertu heyrnasljór?

Eg er kannski ekki með alveg fulla heyrn (sem reyndar er satt) og heyri illa í þvoglumæltum mönnum.

Eg rétti honum ökuskírteinið.

Þú varst að drekka í nótt, sagði hann.

Hvers konar fullyrðing er þetta, eg er allsgáður.

Svaraðu spurningunni.

Eg þarf ekkert að svara þessari spurningu, því að eg er allsgáður, og var reyndar að gera allt annað í gær. Og þá greip hann fram í fyrir mér.

Þér ber skylda til að svara spurningum lögreglunnar. Vertu ekki með þvælu.

Það er ekkert tilefni til að svara rakalausum aðdróttunum, enda er eg allsgáður.

Þú ert með útúrsnúninga, við förum með þig niður á stöð og þú verður sviptur ökuréttindum. Þú varst að drekka í nótt.

Hvers konar þvæla er þetta, sagði eg þá.

 

Í þessu þreif hann í jakka minn og ýtti mér í átt að lögreglubílnum. Settist eg inn í bílinn og stóð umræddur maður fyrir utan. Síðan fékk eg að blása eftir tvær tilraunir, því að í fyrstu ýtti hann mælinum í höku og í annað sinn hélt hann því fram, að eg blési ekki rétt. Niðurstaða mælingar var að lokum 0.

 

Þá fór eg að segja hinum manninum nákvæmlega, hvað eg hafði verið að gera kvöldið áður. Sá maður bauð af sér góðan þokka. En þá greip hinn fram í og sagði að eg ætti ekki vera að þvæla og koma mér út.

 

Þegar eg gekk í burtu spurði eg hann að nafni, en hann gaf aðeins upp númer, sem hann sagði 0621.

Að svo mæltu hvarf eg á braut.

 

Eg vil að það komi skýrt fram, að umræddur maður sýndi óeðlilega hegðun, lá við að hann öskraði og greip sýknt og heilagt fram í fyrir mér, svo að eg fékk tæplega að ljúka við neina setningu. Framkoman var fyrir neðan allt velsæmi, hroki, oflátungsháttur og hreinn dónaskapur.

 

Hefði hann boðið mér að blása strax, hefði málið verið úr sögunni. En hann fór fram með dylgjum, órökstuddum fullyrðingum og heimskulegum spurningum. Það er von, að manni blöskri.

 

Þá leikur mér forvitni á að vita, hvers vegna þeir stoppuðu mig. Þá er eg beið á ljósum á horni Laugavegar og Kringlumýrarbrautar, þustu þeir í norðurátt. Þeir hafa því ekki séð neitt til aksturslags, sem gaf þeim vísbendingu um, að ölvaður maður væri á ferð.

 

Með kveðju

Ágúst H. Bjarnason

agusthbj@gmail.com "

 

Svona til viðbótar hef ég alltaf haldið að Gústi hafi alla tíð verið alger bindindismaður og því ólíkur mér og fleiri frændum okkar. 

En ég hef enga ástæðu til að rengja hann Gústa frænda. Það er þá illt ef fleiri svona eintök eins og þessi 0621 prýða lögregluliðið sem ég hef alla tíð stutt til góðra verka og raunar aldrei átt nema bestu samskipti við.  Fólk á að geta treyst lögreglunni sinni til að kunna mannasiði.


Ekki var nú mikil aðsókn

á Austurvöll við herlúðra fylgisflokka Evrópusambandsins Samfylkingarinnar og VG ef marka má vefmyndavél Mílu sem ég sé á netinu.

Mér skilst að minnst tvær undirskriftasafnanir séu í gangi á vegum sömu flokka gegn því að hætta aðildarviðræðunum.  Nú í þessu talar Evrópusambandssinninn Steingrímur J. Sigfússon. Að vanda kemur ekki eitt einasta efnisatriði fram heldur hendir hann ónotum í utanríkisráðherra á sinn venjulega upphafna hátt. Hvað erindi hann á í ræðustólinn í þetta sinn skil ég ekki. Svo kemur Svandís og spyr til hvers þetta allt sé? Þetta sé leikrít sem hún skilur ekki? Þetta eru ekki ný tíðindi fyrir mig.

En málið er það, að ég er algerlega á móti því að hafa þjóðaratkvæði um Evrópumál með sveitarstjórnarmálum. Ef fólk vill greiða atkvæði um inngöngu í ESB þá tel ég nauðsynlegt að slíkt stórmál fá algerlega sjálfstæða kosningu. Einhver tiltölulega fámennur gargfundur  á Austurvelli á ekki að trufla störf Alþingis þannig að Píratar hlaupi upp til handa og fóta og flytji vanhugsaðar tillögur um að trufla komandi sveitarstjórnarkosningar.

Viltu ganga í ESB?

Því á fólk að svara áður en en það heimtar aðildarviðræður. Þær hljóta að koma á eftir grundvallaratriðinu. Kemur ekki hænan á undan egginu? 


Vilhjálmur Bjarnason veldur mér vonbrigðum

með því að tilkynna að hann ætli að ganga gegn flokki sínum á Alþingi.

Reyndir stjórnmálamenn hafa lengi viðhaft þá aðferð að geti einstakir fulltrúar ekki fylgt flokknum sínum vegna sérstakar sannfæringar í einhverju máli hafa þeir vikið sæti og kallað inn varamann til þess að taka ekki þann kaleik.

Með því að fara þá leið sem Vilhjálmur Bjarnason hefur nú valið  safna menn ekki að sér stuðningsmönnum til stjórnmálalegrar framtíðar. Vilhjálmur Bjarnason veldur mér sem fótgönguliða Sjálfstæðisflokksins vonbrigðum með þessu framferði sínu.

Ég hef lengi verið stuðningmaður Vilhjálms þar til núna.  Ég mun þó reyna að skrifa þetta á stjórnmálalegt reynsluleysi þingmannsins sem enn er hægt að laga.


Af hverju er haldið áfram?

með þá tuggu að Bjarni Benediktsson hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda  áfram aðildarviðræðum? Benedikt Jóhannesson heldur þessu fram á Sprengisandi í dag og ber við sérstakri tillitsemi við Bjarna. 

Það skiptir engu máli hvað einhverjir, jafnvel þingmenn og formenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt einhvern tímann sem sína skoðun. Þeir geta ekki lofað meiru en Landsfundur leyfir. Þeir verða allir að beygja sig undir samþykktir Landsfundar. Hún liggur fyrir í því  að flokkurinn vill slíta viðræðunum.

Benedikt lætur að því liggja að að við séum að hafna viðskiptafrelsi og því að taka okkur stöðu meðal vestrænna lýðræðisþjóða, afsala okkur möguleika á evru,  með því að vilja ekki ganga í ESB. Þetta er auðvitað fjarri lagi. Við búum við verslunarfrelsi. Norðmenn selja fisk inn á sama markað og við og greiða sömu tolla. ESB er tollabandalag. Það myndi hugsanlega breyta málinu með fiskinn ef Norðmenn greiddu ekki sömu gjöld og við.

Íslenskur landbúnaður myndi lenda í vandamálum ef við færum að flytja inn Buffalo-osta í stórum stíl sem hafa hugsanlega verið niðurgreiddir í ESB. Það er ekki allt ómögulegt hér á landi samt þó að við göngum ekki í þetta þrönga bandalag 27 ríkja meðan það eru hundrað ríki sem ekki eru í þessu bandalagi.

Benedikt segist vantreysta íslenskum stjórnmálamönnum og treystir því Brussel-apparatinu betur en okkar fólki. Það er þó allavega fróm yfirlýsing hjá Benedikt að hann vill afsala Íslendingum forræði sinna mála af því að hann treystir Brussel betur. Er þarna ekki kratisminn kominn í sinni tærustu birtingarmynd þó að Benedikt þykist vera Sjálfstæðismaður í hinu orðinu.

Benedikt er tíðrætt um að Sjálfstæðisflokkurinn sé fylgislaus meðal ungs fólks. En hann gleymir því að þetta er bara ástandið í Reykjavík. Allt í kring um Reykjavík er flokkurinn mjög uppi. Benedikt ætti þá að líta í eigin barm og skoða hvaða þátt hann á sjálfur í fylgisleysinu með þessari síbylju sinni gegn stefnu flokksins í Evrópumálunum. Heiðrún Lind  Marteinsdóttir löghmaður stendur sig með mikilli prýði í að verja flokkinn gegn ásókn Benedikts og Sigurjóns M. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki óvini meðan hann slíka talsmenn eins og Benedikt.

Við Íslendingar þurfum bara viðskiptafrelsið aftur eins og  það var á Davíðstímanum. Þá máttu allir versla í þeirri mynt sem þeir sjálfir ákváðu, eiga hvaða gjaldeyri sem þeir vildu og íslenska verðtryggða krónan var eign sem allir gátu treyst sem sterkasta gjaldmiðli í heimi. Einhver ljóshærður unglingur sem ég náði ekki nafninu á býsnaðist yfir því í þætti hjá Gísla Marteini að krónan okkar hefði rýrnað svo og svo mikið síðan eitthvað. Veit hann ekki að allr gjaldmiðlar rýrna árlega um verðbólgu landsins? Hvað er eftir af dollaranum frá 1940?  Mér sagt að það séu ekki nema nokkur cent. Verðtryggða íslenska krónan er ekki þessum annmörkum háð. Verðtryggð innistæða rýrnar ekki frekar en verðtryggt lán. En það má ekki ræða um jafnræði milli verðtryggðra skulda og verðtryggðra eigna án þess að krónuníðingarnir reki upp ramakvein.

Benedikt ræðir um litla framleiðni á Íslandi og tekur bankakerfið sem dæmi. Þetta er rétt, það þarf að bæta margt á Íslandi. En það er alveg hægt án þess að ganga í ESB og ofurselja sig erlendu valdi eins og Benedikt vill í hinu orðinu. Íslendingar og Sjálfstæðisflokkurinn hafa sem betur fer yfirleitt meiri trú á landinu og þjóðinni en Benedikt þessi og JÁ-hópurinn hans.

Ég vil alveg halda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er :

1. Viltu ganga i ESB?

Ef þjóðin segir já, þá tökum við upp aðildarviðræðurnar þegar ný ríkisstjórn verður kosin í samræmi við það.

En höldum ekki áfram þessari síbylju um að ípakkakíkingar færi okkur einhvern nýjan sannleika í aðlögunarferlinu.


Landsfundur ræður

en ekki eitthvað sem einstakir þingmenn segja einhven tímann.

Það er vanþekking að halda því fram að eitthvað sem Bjarni Benediktsson hefur sagt einhvern tímann  vegi þyngra í stjórnmálum heldur en Landsfundarsamþykktir. Eftir þeim ber forystu flokksins að fara sé þess nokkur kostur.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins  hefur ákveðið að hætta aðildarviðræðum og taka þær ekki upp að nýju nema að undangengnu þjóðaratkvæði, Landsfundur ræður stefnu flokksins. Líka í afstöðunni til ESB.


Svona var ályktun Landsfundar:

" Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."
Hvernig getur þingsályktun um að hætta aðildarviðræðum verið svik eða Golubelgingur? 


"Golubelgdur málflutningur"

er dómur Þorsteins Pálssonar þegar utanríkisráðherra kynnir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slíta aðlögunarviðræðum við ESB. 

Að hans mati er utanríkisráðherra okkar ekki merkilegur pappír að dirfast að lýsa sérstöðu hins íslenska stórveldis við það að  mægjast við fátækt fólk í Evrópu undir hatti ESB. En það er nefnilega nákvæmlega það sem myndi gerast við inngönguna. Við venjulegir yrðum að borga meira en við fengjum til baka.

 En Þorsteinn virðist ekki eða vill ekki gefa upp að hann skilji að viðskipti manna standa hvorki né falla vegna einhverra reiknieininga. Ef þau eru báðum aðilum hagkvæm er hægt að gera viðskipti í öðru en gíslatöku með byssum eða hryðjuverkum. 

Þorsteinn segir meðal annars svo:

........"Ein alvarlegasta staðreyndin sem dregin er fram í McKinsey-skýrslunni er sú að framleiðni í þjóðarbúskapnum er langt fyrir neðan það sem gerist í helstu viðskiptaríkjunum. Reyndar kemur þar fram að framleiðni hér er nánast á plani við Grikkland. Aðeins sjávarútvegurinn stóðst alþjóðlegan samanburð í þessum efnum.


Óþarfi er að minna á að framleiðni atvinnufyrirtækjanna er það sem úrslitum ræður í viðleitninni til að halda laununum sambærilegum við það sem best gerist. Það er eitthvað mikið að þegar utanríkisráðherra landsins sér ekki þennan vanda eftir lestur McKinsey-skýrslunnar.

Við getum ekki dregið mikið fleiri tonn af fiski úr sjó. Gríðarleg tækifæri bíða aftur á móti til að gera meiri verðmæti úr sjávarfanginu. En til þess þarf gjaldgenga mynt og opnari aðgang að mörkuðum. Það er eitthvað mikið að þegar utanríkisráðherra sér ekki að hér eru hindranir í vegi.

Málum er svo komið að íslensk sprotafyrirtæki verða annaðhvort að selja hugmyndir sínar úr landi eða flytja sjálf úr landi um leið og þau eignast viðskiptavini. Ástæðan er sú að Ísland á ekki gjaldgenga mynt. Það er eitthvað mikið að þegar þessi alvarlega staða er hulin augum utanríkisráðherra landsins.

Á Írlandi hefur framlag útflutnings til hagvaxtar verið jákvætt eftir hrun. Hér hefur það verið neikvætt. Hagspár benda til að hagvöxtur næstu ár byggist á einkaneyslu en ekki sköpun verðmæta. Það er eitthvað mikið að þegar augu utanríkisráðherra eru lokuð fyrir þessum veruleika...."

 

 

 Eru ekki allur útflutningur okkar keyptur fyrir erlendan gjaldeyri? Sem er skipt í íslenskar krónur til að borga laun á Íslandi. Skipt í bandaríkjadali til að borga starfsmönnum laun í USA, canadadollara vegna notkunar í því landi, sterlingspund vegna útgjalda í Bretlandi. Hefur Þorsteinn ekki heyrt getið um Forex markaðinn í heiminum þar sem veltan nemur 6 trilljónum dollara á dag, fimm daga vikunnar?  Þar er bara verið að skipta gjaldmiðlum  heimsins. Allir geta tekið þátt á þessum markaði og reynt að græða fyrir sig. Sem eru 95% líkur á að mistakist.

 Það skiptir engu máli hver reiknieiningin er sem notuð er til að reikna dæmi. Allt bullið um ónýtan gjaldmiðil er út í hött. Krónan er alveg gjaldgeng við frelsi. Það var gjaldeyrisfrelsi fyrir hrun á Íslandi. Allir máttu eiga þann gjaldeyri sem þeir vildu. Voru margir að sánka að sér dollurum þá?Bankarnir borguðu helst enga vexti á innlenda gjaldeyrisreikninga. Verðtryggð íslensk króna bar raunvexti og var þá sterkasta mynt í heimi.

Hvernig stendur á þessari síbylju um ónýta krónu sem við neyddumst til að fjötra eins og Fenrisúlf vegna tiltekta íslenskra glæpamanna á erlendri grund? Við þjáumst í höftum en ekki vogunarsjóðirnir sem nota íslenska starfskrafta við að pína okkur endalaust. Af hverju tökum við ekki á þessum helvítum?

Það er ömurlegt að verða vitni að slíku skilningsleysi hjá manni sem áreiðanlega vill eins vel og Þorsteinn Pálsson. Íslensk úrvinnsla fiskafurða stendur þegar ofar öllu öðru sem þekkist i heiminum. Sama í hvað mynt er reiknað. Non plus ultra. Það er almennt minni vinnuharka á Íslandi en annarsstaðar hvert sem litið er. Minni afköst á mann. Kaupið er víst líka svo lágt að getur varla verið sanngjarnt að menn vinni mikið fyrir þá hungurlús.

Ég vildi óska að Þorsteinn Pálsson hugsaði sig um aftur hvað þær setningar varðar sem feitletraðar eru hér að ofan. Og ekki finnst mér hann stækka mikið með orðbragðinu sem er í fyrirsögninni en sleppum því.


"What is negotiated?


The conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and enforcement of all current EU rules (the "acquis").

These rules are divided into 35 different policy fields (chapters), such as transport, energy, environment, etc., each of which is negotiated separately.

They are not negotiable:

  • candidates essentially agree on how and when to adopt and implement them.
  • the EU obtains guarantees on the date and effectiveness of each candidate's measures to do this.

Other issues discussed:

  • financial arrangements (such as how much the new member is likely to pay into and receive from the EU budget (in the form of transfers)
  • transitional arrangements – sometimes certain rules are phased in gradually, to give the new member or existing members time to adapt."
 
Þetta stendur á heimasíðu ESB. FEITLETRAР
 
Samt finnast þeir Íslendingar enn sem halda því fram í alvöru að því að virðist að þarna sé um einhvern pakka sem hægt sé að kíkja í og fá breytt hvað varðar Ísland. Fyrir þetta er sjálfstæði Íslands aukatriði.
 
The Indepence of Iceland  can be negotiated . 

    Næsta síða »

    Höfundur

    Halldór Jónsson
    Halldór Jónsson

    verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

    -ekki góður í neinu af þessu-

    Heimsóknir

    Flettingar

    • Í dag (22.12.): 1
    • Sl. sólarhring: 8
    • Sl. viku: 29
    • Frá upphafi: 3419866

    Annað

    • Innlit í dag: 1
    • Innlit sl. viku: 26
    • Gestir í dag: 1
    • IP-tölur í dag: 1

    Uppfært á 3 mín. fresti.
    Skýringar

    Eldri færslur

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband