Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

Misst af strætó-enn einu sinni

þegar enn eitt ferðamannasumarið fer í vaskinn vegna ömurlegs ráðleysis Alþingis. Milljón ferðamenn fá að traðka landið niður við Gullfoss og Geysi til dæmis án þess að ferðaþjónustan leggi neitt nema smáaura til efnahagslífsins.

Karen Elísabet Halldórsdóttir tekur þetta mál fyrir í ágætri grein í Mogga í dag. Hún rekur þar sögu ræfildómsins á skiljanlegu máli, hvernig stjórnvöld láta stjórnast af upphrópunum hagsmunaaðila. Grípum niður í greininni:(bloggarinn er á feitletursstönginni)

"..... Af því að við erum frekar hrifin af því að hafa öll eggin í sömu körfunni þá má núna finna stjórnlausa heimagistingu í hverju húsi, allir eru orðnir „gædar“ og sérfræðingar um landið þvert og endilangt og ferðamannaþjónustan blómstrar sem aldrei fyrr, meira segja sú sem gefin er upp til skatts.

..... En ferðamaðurinn er sannarlega búinn að átta sig á því með mögulega en vonandi ekki óafturkræfum slæmum afleiðingum fyrir náttúruna. Vandræðagangur okkar lýsir sér helst í því að ekki er hægt að ákveða einfalda gjaldtöku af túristanum til þess að vernda landið og stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða. Keppnin um að fá sem flesta ferðamenn yfirgnæfir áköll þess efnis að stíga verður varlega niður til móður jarðar.

Eftir töluverðar greiningar og skýrslur var lagt fram gistináttagjald, því var mikið mótmælt en að lokum samþykkt ca 100 kall á nótt. Komugjöld hafa verið rædd, það var víst ómögulegt, hætt við það. Náttúrupassinn lagður til, það var víst ómögulegt, hætt við það. Svo kom einhver undarleg umræða um bílastæðagjöld, sem er í raun allt önnur umræða og ætti að ræða aukreitis við gjöld til uppbyggingar og verndunar á náttúrunni. Niðurstaðan var að setja þetta bara á fjárlög í fyrra og láta skattgreiðendur borga þetta. Ferðamaðurinn, þeir sem selja ferðir og nýta sér ókeypis inngöngu á niðurtroðnar náttúrperlurnar græða því helst á því.

Svo var stofnuð Stjórnstöð ferðamála til að skera á hnútinn og þau leiðindi sem fylgja opinberri ákvörðunartöku á Íslandi. Ákvörðunartöku sem einkennist af upphrópunum hagsmunaaðila, fólks sem neitar að borga annaðhvort komugjöld eða náttúrpassa til að skoða það sem „þjóðin“ á sjálf. Pólitískir popúlistar reyndu að segjast eiga Geysi og hálendið og þar af leiðandi mætti ekki rukka neinn eða neitt. Sjoppan á Geysi er enn sem komið er eini aðilinn sem hagnast á ferðamönnum á svæðinu og ber engar skyldur til uppbyggingar eða verndunar. Við getum bara vonað að Stjórnstöðin skili glæsilegri niðurstöðu áður en það verður of seint. Áður en við dettum úr tísku, áður en við höfum byggt of mörg hótel, áður en búið er að skíta í hvert horn vegna aðstöðuleysis, áður en of margir slasast eða deyja vegna óviðeigandi öryggiskrafna, áður en hér verður ekkert sjá nema myndir af því þegar náttúran naut vafans.

Það rífur í hjartað að sjá hversu erfitt er að komast að niðurstöðu í þessu máli. Náttúrupassinn var fín hugmynd ef fólk hefði gefið sér tvær mínútur til umhugsunar. Nútímaleg og hefði skilað miklum tekjum til ríkissjóðs sem hefði strax getað hafið uppbyggingu á vegum og aðstöðu til ferðamennsku. Komugjöld eru líka góð hugmynd og hefðu ekki skaðað neinn, einföld í afgreiðslu en af því að fólki, sem þarf að ferðast frá heimalandinu og til baka, fannst ósanngjarnt að borga þetta þá var því miður hætt við. Gistináttagjöld eru líka góð hugmynd en duga skammt óbreytt til að mæta kostnaði við að taka á móti milljón ferðamönnum oftar en einu sinni.

Neikvæð og hávær umræða í samfélaginu um gjaldtöku vegna uppbyggingar ferðamannastaða hefur því að mínu mati gert að verkum að ágætistillögum, s.s. náttúrupassa og komugjöldum, er frekar hent út af borðinu heldur en að þær séu slípaðar og mótaðar áfram.

Við höfum misst okkur í magnvæðingu ferðamanna og tapað sjón á því hvað það er sem ferðamenn vilja hingað sækja. Þeir vilja sjá og hitta hinn sjálfumglaða og sérstaka Íslending sem tekur vel á móti fólki, er stoltur af þjóð sinni, landi og frumkrafti. Þeir vilja finna lyktina af einstakri náttúrunni sem er víðfeðm og ósnert. Að lokum vilja þeir upplifa fá- mennið og kyrrðina. Það stefnir í að við getum bara selt það einu sinni, þar sem magnvæðingin og hraðinn er að verða okkur ofviða og enn eitt sumarið fer forgörðum."

Hér er gripið á vandanum sem við er að etja. Endemis ræfildómur Alþingis sem vegna leti og aumingjaskapar þingmanna leggur alla byrðina á sláturdýrin þeirra, okkur skattgreiðendur landsins. Ferðamaðurinn borgar ekkert og þjónustuaðilarnir borga ekki einu sinni aðgang að klósettum verslunarkjarnans í Hveragerði, þegar 15 rútur með fullfermi stoppa á planinu og biðröðin á kvennaklósettið nær næstum út á þjóðveg meðan kallarnir míga bak við húsið í stað þess að missa það í buxurnar.

Vitleysan ríður ekki við einteyming hjá Íslendingum frekar en fyrri daginn. Við misstum af strætó enn einu sinni enn.


Stundum fletti ég Fréttablaðinu

aðallega á fimmtudögum til að lesa Þorvald Gylfason. Mest til að þess að koma mér í hæfilegt stríðsskap fyrir daginn.

Ekki bregst doktorinn í dag að skrifa um gagnsleysingjana, sem hann telur að Grímur Thomsen hafi verið. Maðurinn sem hann langafi skrifaði svo um í Reykjavíkina sína:

" Harmafregn!  

Grímur Thomsen reið niður um ís á Bessastaðatjörn í gærkveldi og drukknaði

-ekki."Hann hefur varla verið alveg gagnslaus hann Grímur úr því að hann varð fyrir þessu frá honum Jóni Ólafssyni.

En þá er spurning um  gagnsemi prófessors doktors Þorvaldar Gylfasonar. Hvernig er hún mæld?

Hann hefur eytt miklu bleki í það að krefjast þess að Íslendingar taki  upp stjórnarskrá sem hann samdi sjálfur.Meira en hundraðblaðsíðna skrímsli þar sem margt rekur sig á annars horn og er auðvitað algerlega ónothæft. Í nærri hverri einustu Fréttablaðsgrein fer hann með þá þulu að 83 % kjósenda hafi samþykkt þessa stjórnarskrá hans sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Hann fer létt með að sneiða hjá því að atkvæðagreiðslan var ógild af Hæstarétti auk þess sem þáttökuleysið og áhugaleysi kjósenda takmarkaðist við fjölda hörðustu komma og krata sem var álíka og sæmileg skoðanakönnun fremur en eitthvað úrtak íslenskra kjósenda. En prófessorinn hrærir þessa sömu steypu flesta fimmtudaga og fær drjúgan skilding fyrir frá Baugsveldinu gamla sem hefur lengi framfært vinstrið efnis-og hugsjónalega.

Burtséð frá þessu þá má Þorvaldur alveg eiga það að hann getur verið bæði fróður, gagnslegur og skemmtilegur um menn og málefni þegar stjórnarskrárþráhyggjunni sleppir.

Svo eru margar auglýsingar í Fréttablaðinu sem vert er að fylgjast með. En varla nokkurn tímann eru einhver skrif í því sem maður les sér til bata. Það er helst hann doktor Þorvaldur á fimmtudögum sem kryddar tilveruna hjá Samfylkingunni sem annars á ósköp bágt á síðum málgagnsins Fréttablaðsins þar sem forystan er mest hætt að nenna að skrifa um pólitík  hvað þá meira.


Mogginn erfiður í dag

vegna urmuls af allskyns ágætum og jafnvel úrvals greinum.

Gamall flokksbróðir minn og uppalningur, hann Helgi Helgason, skrifar góða grein um Útlendingalögin. Helgi hefur síðan á þessum ungu dögum okkar verið formaður í fleiri nýjum stjórnmálasamtökum en ég kann að nefna. Nú fer hann fyrir Þjóðfylkingunni sem mér líst að mörgu leyti vel á fyrir málefnaval.

Helgi mótmælir því að að  það sé nokkur þverpólitísk sátt um þessi Útlendingalög þeirra litföróttu gæðinga Proppés  og Unnar Brár. Helgi spyr í lok greinar sinnar eftir að hann veltir fyrir sér örlögum Hermanns Ólasonar öryrkja, sem er fleygt út af Arnarholti því það þarf pláss fyrir hælisleitendur sem fá lágmarksframfærslu og húsnæði hjá ríkinu sem íslenski öryrkinn Hermann fær ekki:

"...Hvar er nú „góða“ fólkið sem strengdi þess heit að taka alla heimsins flóttamenn inn á heimili sitt? Hvar er nú „kæra Eygló“?

Ætlar „góða“ fólkið að horfa uppá vesalings íslamistana á Arnarholti í óreglu? Ætlar það ekki að taka þá inn á heimili sín? Ég ætla ekki að spyrja hvort það ætli ekki líka að taka Íslendinginn sem mun lenda á götunni innan skamms eða konuna sem er á götunni upp á sína arma. Ég þykist nokkuð viss um að það dettur því ekki í hug að gera."

Snöfurlega mælt Helgi minn, þú hefur ekki tapað niður því sem við lærðum hjá íhaldinu í gamla daga að gjöra rétt en þola eigi órétt. 

Og eins og þetta væri ekki ærið, þá skrifar kollegi Loftur Altice yfirgripsmikla og fræðilega grein um Alavitana sem hann nefnir Alaverja. Þar kennir margra grasa. M.a. :

"...Núverandi konungur í Katar er „Tamim bin Hamad Al Thani“, sem er sonur drottningarinnar „Mozah bint Nasser Al Missned“, einnar af þremur eiginkonum fyrrverandi konungs. Það má þykja athyglisvert að albróðir núverandi konungs er „Mohammed bin Hamad bin Khalifa Al Thani“ sem þekktur er fyrir að taka þátt í svindli Ólafs Ólafssonar í Samskipum, með hlutabréf í Kaupþingi..."

Og enn segir: 

"..Arabarnir í Katar aðhyllast súnní- íslam, eins og frændur þeirra í Sádí- Arabíu. Það eina sem umheimurinn veit um Katar er að þar er starfrækt sjónvarpsstöðin Al-Jazeera, í eigu Al- Þani-ættarinnar, eins og allt annað í landinu. Viðurkennt er að stöðin er starfrækt til að útvarpa áróðri sem Al-Þani-ættin telur þóknanlegan. Líklega hefur Al-Jazeera yfir 500 millj- ónir áhorfenda í fjölmörgum ríkjum og eru þeir flestir súnní-múslimar."

Og enn segir frá boðskap Al-Jazera:

"... Stjórnandi þáttanna nefnist Faisal Al-Kassim og er sýrlenskur Drúsi að uppruna, en hefur ánetjast súnní-íslam og þykir aröbunum það merki um mátt Allah.

Þann 8. maí 2015 var í þættinum umfjöllun sem vakið hefur hneykslun og reiði margra utan arabaheimsins. Þátturinn fjallaði um spurninguna: „Ættum við að drepa alla Alaverja?“

Í upphafi þáttar, sagði stjórnandinn frá könnun sem hann hafði látið gera á meðal áhorfenda stöðvarinnar. Greindi hann frá, að 96,2% þátttakenda hefðu svarað spurningunni játandi. Sjálfur tók hann sterklega undir það sjónarmið, að sjálfsagt væri að fremja þjóðarmorð á Alaverjum. Gestina greindi á. Þáttinn er hægt að skoða á Netinu: (https://www.youtube.com/ watch?v=ULtNYSUqYHw)."

Að hugsa sér að Íslendingar skuli liggja hundflatir fyrir innflutningi svona lýðs og heimta skoðana-og athafnafrelsi fyrir það. Samkvæmt Útlendingalögum eer það refsilaust að ljúga til um persónu sína, falsa pappíra eða eða blekkja yfirvöld. Allt þetta minnkar ekki möguleika á passalausri landvist í Íslandi. 

Já það er stundum erfitt að lesa allan Moggann.

 


Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti prófkjör

í Suðvesturkjördæmi sem fari fram á bilinu frá 27.ágúst til 10. september n.k.

Bjarni Benediktsson sagði flýtingu kosninganna hafa orðið ofaná í þingflokknum eftir umræður með eða á móti. Flokkurinn væri búinn að koma svo mörgu til leiðar á kjörtímabilinu að vígstaðan myndi varla breytast til batnaðar þó lengra liði.

Kaupmáttur fólksins hefði aldrei verið meiri en hann er núna frá því að mælingar hófust og hefur vaxið svo undrahratt að vart verður framhald á svo örum vexti. Það hefði verið hlegið að Sjálfstæðisflokknum þegar hann sagðist ætla að lækka skatta og loka fjárlagagatinu. Samt hefði flokkurinn gert þetta. Slitabúin væru í uppgjöri, skuldaleiðréttingin hefði verið framkvæmd og stór skref í afnámi gjaldeyrishafta væru á næsta leyti.

Málefnastaða flokksins væri gríðarlega sterk. Við þessar aðstæður væri  ótrúlegt að horfa á Gylfa Arnbjörnsson og ASÍ vera í fýlu og hafa allt á hornum sér í stað þess að gleðjast fyrir hönd sinna skjólstæðinga.

 

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn getur framkvæmt þetta að að velja framboðslista á lýðræðislegan hátt þá væri auðvelt að mæta andstæðingi sem hefur ekki einu sinni haldið stofnfund, hvað þá sýnt fram á nema einhver hundrað nöfn stuðningsmanna og fáir vissu með vissu  fyrir hvað flokkurinn yfirleitt stæði. Hvernig ætlar þessi flokkur að sýna fram á lýðræðisleg vinnubrögð á borð við Sjálfstæðisflokkinn? Hvernig ætlar hann að keppa? Enda væru skoðanakannanir að sýna hvert straumurinn lægi.

Sjálfstæðisflokkurinn í kjördæmi formanns síns velur sér frambjóðendur á lýðræðislegan hátt. Hann er reiðubúinn að mæta hverjum sem er á málefnalegum grunni eftir prófkjör í haust. 


Tillaga um viðreisn

Alþýðuflokksins sem gerði þjóðinni gagn á viðreisnarárunum með Gylfa Þ. og Emil í forystunni. En varla neitt allar götur síðan eftir meðhöndlunina hjá Gröndal, Jóhönnu, Össuri og Árna Páli.

Óli Björn skrifar í Morgunblaðið í dag og minnist gamla Alþýðuflokksins. Hann segir m.a. :

"....Fyrr á þessu ári var því fagnað að öld er liðin frá því að Alþýðuflokkurinn var stofnaður. Gamli flokkurinn er enn til með sömu kennitölu og áður (420169-5829). Varla er hægt að færa krötum sem nú eru landlausir, betri afmælisgjöf en að bjóða fram að nýju í komandi alþingiskosningum. Fylgi Alþýðuflokksins verð- ur varla lakara en Samfylkingarinnar, líklega töluvert meira.

Fyrir aðra flokka er endurreistur Alþýðuflokkur ólíkt geðslegri til samstarfs en sundurtætt Samfylkingin þjökuð af undirmálum og innanflokksvígum."

Viðreisn hans Benedikts auglýsir stofnfund í vikunni. Er nú ekki úr vegi að breyta því nafni í Viðreisn-Alþýðuflokkurinn og fá gömlu kennitöluna. Benedikt er upplagt efni í Eðal-Krata svo að þarna ætti ekki að ganga hnífurinn á milli.

Viðreisn getur svo fundið verkefni síðar þegar eitthvað þarf að reisa við. En svo er bara ekki um þessar mundir þar sem Bjarni er langt kominn með það verkefni í rólegheitunum.


Blessuð lúpínan

er yfirskrift greinar eftir Árna Matthíasson í Morgunblaðið dagsins.

Af því að vinstri menn lesa aldrei Mogga og fordæma því blaðið í ræðu og riti, þá hygg ég að það sé vel til fallið að vekja athygli á þessari grein Árna af tveimur ástæðum. Sú fyrri er að hún sannar að Árni er hvergi nærri alvitlaus eins og sumir halda stundum. Sú seinni er að lúpínuhatur er mun útbreiddara hjá vinstri mönnum en hægri mönnum af hverju sem það nú stafar.

En Árni skrifar:(bloggari feitletrar)

"Þó að enn sé víða kalt í veðri er vorið komið, eða svo finnst mér í það minnsta þegar ég hjóla í vinnuna á morgnana; grænar grasflatir vitna um það, fuglar kvaka og syngja, flugur sveima, golfurum fjölgar í Vetrarmýri og gróskumiklir lúpínubrúskar stinga sér upp úr mölinni.

Ég hef áður getið um það á þessum stað hve mikla virðingu ég ber fyrir lúpínunni sem hefur reynst okkur Íslendingum vel í að bæta fyrir þau spellvirki sem við höfum unnið á landinu, því ekki er bara að hún færir mela og grjótholt í grænan grjóskukjól, heldur leggst síðan yfir blá slikja með gróskuangan. Þar sem áður þrifust illa kyrkingslegar kræklur og fátt annað verður til fjölmennt samfélag smádýra og fugla og síðan er lúpínan hefur lokið hlutverki sínu, hörfar hún hæversk og skilur eftir sig frjósaman jarðveg þar sem áður var urð og grjót.

Nú skil ég þá sem unna urð og grjóti, víst hafa gróðurvana víðerni yfir sér þokka, hörkulegan og kaldranalegan, og þegar litið er yfir örfoka land færist maður aðeins nær forfeðrunum, enda er auðnin þeirra verk (með dyggilegum stuðningi Litlu ísaldar reyndar). Flestir held ég kjósi þó heldur gróðurlendi en ógrónar minjar og þar hefur lúpínan reynst okkur betur en engin og lagt okkur lið við að endurvinna tapað gróðurlendi, að bæta fyrir syndir fyrri tíma. Eins og ég nefndi þá sé ég það á leiðinni upp í Hádegismóa hvernig lúpínan hefur breytt landslaginu smám saman, í stað þess að hafa fyrir augum grýttan móa þá leggst gróðurbreiða yfir ása og hæðir – sjá til að mynda Hnoðraholtið, sem var lítið augnayndi en er nú gróðurvin (sem verður víst lagt undir götur, hús og snyrtilegar grasflatir á næstu árum).

Í Heiðmörkinni, þar sem ég hef eytt óteljandi stundum á liðnum áratugum, hefur líka gefist færi á að fylgjast með lúpínunni og hvernig hún hefur breytt næringarsnauðu landi í skóglendi og síðan hörfað með tímanum og lagt mjúkt og frjósamt jarðvegslag yfir melinn harða.

Eftir tæpa viku hyggjast Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd, Sjá, leggja upp í leiðangur gegn lúpínu í Reykjanesfólkvangi. Á Fésbókarsíðu samtakanna kemur fram að þau stefni að því að halda Stapagötu, þjóðleiðinni milli Voga og Njarðvíkur, opinni, en þar sem enginn, eða nánast enginn, fer þessa leið lengur þá hverfur hún undir lúpínu smám saman. Sjá-félagar hafa miklar áhyggjur af því hvernig lúpínan kemur sér fyrir þar sem ekkert annað þrífst og eins og hendi sé veifað er allt orðið grænt sem áður var grátt og svart.

Óteljandi hafa líka gert atlögu að lúpínunni á undanförnum árum. Allar slíkar tilraunir eru þó dæmdar til að mistakast – héðan af mun mönnum varla takast að koma í veg fyrir það að lúpínan græði landið. Sem betur fer."

Nú líkaði mér heldur betur við Árna. Sumir neita að trúa því að lúpínan flytji bústaði sína þegar hún hefur lokið ætlunarverki sínu. Árni sér þetta gerast.  Ég er eindreginn fylgismaður þess að lúpínan verði útnefnd þjóðarblóm Íslendinga. Árni ætti hugsanlega ekki að vera frábitinn því að nýbúi hljóti þann titil, að minnsta kosti ásamt holtasóleynni.


Guðmundur Franklín

tekur hressilega til orða á Facebook. Guðmundur er ekki í framboði í pólitík af einhverjum tæknilegum ástæðum. Það er því alveg vi hæfi að hlusta á hann í kosningabaráttunni um Forsetaembættið:

Guðmundur Franklín Jónsson segir:

" Merkilegt hvað "Latte froðan" í 101 er orðin súr eftir þessa helgi. Ekkert má segja um draumaframbjóðanda þeirra og RÚV.

Það rignir yfir mig skömmum og svívirðingum fyrir að dirfast að styðja Davíð Oddsson, þetta segir mér bara eitt og það er að "góða fólkið" er skíthrætt við besta og reyndasta kostinn, Davíð Oddsson, að hann vinni forsetakosningarnar.

Ég hef alltaf tekið upp hanskann fyrir "underdogs" og geri það aftur núna. Davíð er þekkt stærð, en Guðni er það ekki og það sem ég veit um Guðna Th. er eftirfarandi:

A) Guðni Th. vill koll­varpa Stórnarskránni með Pírötum.
B) Guðni Th. barð­ist fyr­ir samþykki Ices­a­ve samn­ing­anna.
C) Guðni Th. vildi ganga í Evr­ópu­sam­bandið.
D) Guðni Th. talar landið niður og segir að þorska­stríðið hafi ekki verið hetju­dáð held­ur þjóðsaga.
E) Guðni Th. er vinstri sinnaður sagnfræðingur með draumsýn á söguna."

Guðmundur Franklín hefur eindregnar skoðanir.


Snúum út úr

öllu sem Davíð gerir eða segir. Það er mottóið hjá vinstri pressunni.

Davíð fær eftirlaun. Þá dragast þau frá kaupinu sem hann annars fengi sem Forseti. Þannig er sparnaðurinn reiknaður niður í helming þess sem hann raunverulega er. Þetta skiptir altso eiginlega engu máli -eða þannig?

Lygi og blekking. Davíð er núna fyrst að taka eftirlaun í fríi frá Mogga. Ef hann verður Forseti heldur hann áfram á eftirlaununum aðeins. Hann tekur ekki Forsetalaunin. Hvað sparast?

Er það ekki morgunljóst að næði hann kjöri borgar ríkið honum aðeins þessi eftirlaun af því að hann ætlar ekki að taka Forsetalaunin.  Næði hann ekki kjöri, þá gegnir einhver annar Forsetaembættinu fyrir Forsetakaupið. Er það ekki munurinn? Eitt Forsetakaup. Ekkert Forsetakaup mínus eftirlaun eins og fréttafölsunardeildirnar reyna að búa til. Davíð fer aftur á Mogga,- engin eftirlaun. Forseti er á Forsetalaunum.

Reynt er að snúa öllu á haus til að gera djöful úr Davíð. Það eru ær og kýr fjölmiðlanna sem eru vinstri-hlutdrægir á Íslandi.

Snúa út úr öllu jákvæðu þegar Davíð Oddsson á í hlut og ljúga og blekkja.


Þrjú Grönd!

er eiginlega sú sögn sem mér dettur í hug eftir þær viðtökur sem síðasta saklausa bloggið mitt fékk um Davíð sem trompaði út.

Athugasemda teljarinn sprakk í þeirri kostulegustu umræðu um keisarans skegg. Allskyns gáfufólk bókstaflega springur í loft upp yfir þessu útspili Davíðs. Menn greinir á um hvort Davíð geti þetta,hvort hann megi þetta,  hvort hann verði ekki að taka við laununum. Hann megi eða megi ekki svo hugsanlega gefa þau í eitthvert Guðsþakkafélag?

Ég er nú nokkuð viss um að Davíð líti ekki þannig á málið að hann eigi sjálfur að útdeila fé sem hann hefur sparað ríkinu. Ég held að hann telji það vera ríkisins sjálfs, það er Alþingis, að ráðstafa því fé sem hann annars hefði fengið.

Hvað haldið þið að myndi gerast ef Davíð Forseti myndi biðja Alþingi að setja lög um að hann skuli vera launalaus Forseti? Væri það ekki í þjóðarþágu að þiggja slíkt? Hverjir skyldu greiða atkvæði á móti því frumvarpi? Og ef að Alþingi samþykkti lög um að hann skyldi samt sem áður hirða sín laun, gæti hann þá ekki neitað að staðfesta lögin? Væri þá nokkuð annað eftir fyrir Alþingi að draga lögin til baka eða að þeim sé vísað í dóm þjóðarinnar? Hvar halda menn að þetta bíó myndi enda? Skyldi einhver ekki brosa út í annað á Bessatöðum þann daginn?

Stendur ekki háttvirtur kjósandinn frammi fyrir því að spara par hundrað milljónir með því að kjósa Davíð bara í launakostnað plús svo allt prumpið og prjálið í risnu og ferðalögum sem embættið mun kosta í höndunum á einhverjum öðrum?  Hvað vill háttvirtur kjósandinn að sé gert við skattpeninginn hans? Er honum slétt sama?  

Myndi óákveðinn kjósandi ekki spekulera í því hvort hann vill heldur gratís Forseta heldur en einhvern annann sem kostar helling? Sér í lagi ef þeir væru báðir líklegir til að leysa það viðunandi af hendi?

Býður einhver betur? Hefur ekki Davíð sagt þrjú Grönd í spilinu við Guðna um Forsetaembættið?

 

 

 


Davíð trompar

með því að segjast ekki ætla að taka laun fyrir að vera Forseti. Hann láti sér nægja eftirlaunin sem hann fær fyrir ævistarfið í stjórnmálum. Einhver 40 % af Forsetalaunum.

Hvað á maður að segja við þessu? Hvað munu rægjendur Davíðs segja? Ég er eiginlega mát. Þetta er svo einstakt. Að einhver vilji vinna verk fyrir þjóðina ókeypis. Ég er svo gersamlega klumsa.

En vegir Davíðs eru órannsakanlegir eins og áður. Hann er engum líkur hvað sem menn segja.Hann sér yfirleitt vinkla á málum sem engir aðrir sjá. Jafnvel ekki ég!

Davíð hefur trompað rækilega út.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 3418132

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband