Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

Þrjár spurningar Ásmundar

Friðrikssonar um málefni hælisleitenda.

Þingmaðurinn spyr spurninga í Morgunblaðinu sem enginn þingmaður hefur fengist til að ræða upphátt að því að mér hefur fundist. Heldur sneiða allir hjá og rugla saman flóttamönnum, farandverkafólki, hælisleitendum,  rasisma og andúð á útlendingum.

Kostnaðurinn og það sem fylgir stjórnlausri fjölgun hælisleitenda fæst ekki ræddur nema sem eitthvað óhjákvæmilegt.

Ásmundur segir m.a.:

"...... Í þinginu erum við sífellt að takast á um hvert við beinum fjármagninu. Hvað fari í heilbrigðiskerfið, samgöngur eða menntamál.

En það má alls ekki bera saman kostnað við hælisleitendur og framlög til heilbrigðiskerfisins eða framfærslu eldri borgara og öryrkja.

Hvers vegna ekki?

Er ekki eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig farið er með opinbert fé? Er eðlilegt: Að hælisleitendur fái í mörgu betri framfærslu en eldri borgarar og öryrkjar?

Að hælisleitendur fá frítt húsnæði þegar eldri borgurum og fötluðum stendur það ekki til boða.

Að heimamenn búi á sama tíma í tjöldum vegna húsnæðiseklu? Að hælisleitendur fái ókeypis sálfræði-, læknis- og tannlækna- þjónustu þegar eldri borgurum og fötluðum stendur það ekki til boða?

Er réttlátt að verja sex þúsund milljónum til móttöku hælisleitenda þegar við neitum Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og í Vestmannaeyjum og Ísafirði um öruggari fæðingarþjónustu í heimabyggð sem samtals kostar um einn milljarð á ári?

Hvernig telur þú, lesandi góður, að fólkið í landinu vilji forgangsraða þessum fjármunum?

Það er mikil umræða um þetta á meðal almennings, en hún nær ekki upp á yfirborðið vegna þess að hún er þögguð niður.

Það er nauðsynlegt að komast að niðurstöðu í þessum efnum svo sátt skapist um þessi mál."

Manni hreinlega hnykkir við þegar einn þingmaður þorir að tala hreint út með þessum hætti. Á sama hátt hefði verið fróðlegt að Logi Már myndi svara þessum þremur spurningum Ásmundar?En 

En hvað vilja þeir íslenskir stjórnmálaflokkar sem standa yfirleitt undir nafni í málefnum hælisleitenda? 

Hvernig vill hver einasti frambjóðandi svara þessum þremur spurningum Ásmundar Friðrikssonar?

 


Bjarni sækir fram!

nú síðast á hörkufundi á Hvanneyri í frásögn Gunnars Rögnvaldssonar:

"

Bjarni Benediktsson, Haraldur Benediktsson, Óli Björn Kárason og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins komu á fund með okkur Sjálfstæðismönnum Borgarfjarðarsýslu og víðar, þriðjudagskvöldið 10. október. Var fundurinn svo ákafur og líflegur að þrír tímar entust varla. Þórdís Kolbrún ráðherra stýrði

Húsfyllir var, bændur, búamenn og íbúar fjölmenntu. Þetta var umræðufundur. Hann snérist um hugmyndavinnu Sjálfstæðismanna í byggða- og landbúnaðarstefnu undir slagorðinu Allt Ísland blómstri, ásamt aðhaldsglímubrögðum frá fræknum fálkum flokksins sem halda þingmönnum hans við efnið. Merki flokksins er enda íslenski fálkinn, en ekki rauð stjarna, fallin sigð og hamrar í haus

Þingmennirnir Haraldur bóndi hjér og Óli Björn að norðan, hafa um tíma verið að vinna að því að móta hugmyndir sem stutt geta undir framtíðarstefnu sem heitir Allt Ísland blómstri. Þar var margt gott fyrir Íslendinga og allar byggðir landsins. Góðar hugmyndir. Þetta starf þingmannanna hóst áður en Björt framtíð og Viðreisn hófu kapphlaupið úr eldhúsinu inn í kynlausa sjálfsmorðsstofuna þar sem á þær stökk fullur trúnaður með uppreisn frá miðju

Leist mér vel á flest en sagði þó að varanlegri hryggsúlu viss hvatakerfis þyrfti að skjóta undir, til að bera blómstrandi Ísland uppi í hvaða veðri sem er. Núna ríkir nefnilega góðviðri. Svo mun ekki alltaf verða og það vita allir. Þannig er það alltaf og verður alltaf. Það vissu Abraham, Jakob, Móses og Davíð af því að þeir voru allir fjárhirðar. Bjarni kom til að halda hjörð sinni saman. Hann veit að það er alltaf fyrsta boðorðið; að halda þjóðinni saman

Margir komu með sín daglegu vandamál og sögðu frá. Og sum þeirra eru hrein tilvistarvandamál. Við vitum öll að það er skandall að bændastéttin sé orðin lægst launaða stétt á Vesturlöndum og við vitum að svo mun einnig fara fyrir landbúnaði og ferðaþjónustu ef slíkri þróun verði ekki mætt með skynsemi áður en hún skýtur hér algerlega föstum rótum. Sú láglaunaþróun Vesturlanda í tveim greinum -annarri þeirra meira að segja grunnatvinnuvegi- má ekki ná að verða til hér eins og úti í hinum æ meira vesæla heimi lágra launa meðal þjóða sem hent hefur verið á fjóshaug hins heilaga líberalisma John Locke (krata-vinstri-ESB og víðar). Vandamál sauðfjárbænda þarf að stöðva strax, það var öllum ljóst. Strax!

Ljóst finnst mér að úr flokknum eru flestar stuttbuxur nú foknar og nálastrípuð jakkaföt að mestu farin úr tísku. Þetta er Sjálfstæðisflokkur með jarðsamband. Fálkaflokkurinn

Bjarni Benediktsson sagði ESB-reglugerða farganinu, sem veltur yfir allar byggðir Íslands, allsherjar stríði á hendur. Hann sagði að við ættum að vera hundrað sinnum harðari á því sviði, já harðari, og það væri hneyksli hvernig því fargani Evrópusambandsins er kyngt hér þegjandi og hljóðalaust. Skar hann upp mikið klapp og fögnuð við þá yfirlýsingu. Og hann sagði líka að það væri skandall að peningar vegna umhverfismála fari úr landinu okkar og endi á skrifborðum í fjarlægum skrifstofuveldum án þess að nokkuð kæmi út úr þeim. Ísland hefur ekki efni á að halda slíku batteríi skriffinna uppi, sagði hann

Bjarni vill einnig lækka tekjuskatt á launafólk, enda kominn tími til. Því ber að fagna. Þetta er rétti tíminn til slíkra kjarabóta án þess að brenna tún þjóðarinnar af með ofburði. Við erum fullvalda og frjáls þjóð en ekki nýlenda ESB. Við Íslendingar ráðum slíkum málum hér í okkar landi, svo lengi sem hjörðinni er haldið saman. Rífa vill hann líka stórgripapeninga út úr bankakerfinu og dreifa þeim yfir landið í innviði. Vegi og brýr, meðal annars. Bankakerfið er of féstórt miðað við stærð hagkerfisins, sagði hann - og þar á ríkið mikið fé

Kjötþúfan sem blásin var upp í fjall meðal þeirra sem fara hefðu átt frekar til óstarfa sinna í sendiráð í Mongólíu, samkvæmt fálkanum frækna hér að ofan, sagði Bjarni að væri fáránlegur málflutningur. Það er og hárrétt rétt hjá honum. Peningafjall bankanna er því það sem Bjarni vill minnka, en ekki kjötþúfuna sem ein verslun selur á ári, eins og hann benti á

Miklar umræður spunnust og líflegar. Bjarni formaður og fullveldissinni stækkar og stækkar og hann herðist og herðist, því meira sem mótlætið er. Það er mér orðið ljóst. Hann og flokkinn allan ætla ég því kjósa. Upp með fánann og fálkann og niður með ótíðindi

Þakka ég fyrir mig"

Þarna hefur verið talað tæpitungulaust.

Mér finnst að ræða mætti í fullri alvöru að afnema refsiaðgerðir Íslendinga gegn Rússlandi eftir fáránlegum kröfum Evrópusambandsins. Við höfum enga ástæðu til að elta þetta lengur, þetta er búið að valda okkur nægum skaða í makríl og kindakjötsímyndun.

Burt með refsiaðgerðirnar gegn Rússlandi  strax.

Bjarni má sækja þar fram líka.


Villi Bjarna

þingmaður grípur á máli sem lengi hefur þvælst fyrir mér. það er þessi síbylja um of háa vexti fyrir lántakendur. Það er aldrei minnst orði á sparandann í þjóðfélaginu eða hagsmuni hans. Hversu þýðingarmikið það sé að honum sé gefinn kostur á að verjast. Það er erfitt í aðstæðum þar sem fjármagnstekjur eru skattlagðar 39.6 %

Í hvert sinn sem málefni fyrirtækja eru rædd þá byrjar söngurinn um fjármagnskostnað. Ef meðalfyrirtæki þarf að fjármagna þriggja mánaða veltu sína þá er fjármagnskostnaður örfá prósent af heild. En jarmurinn er allur um þetta litla atriði en ekki önnur.

Ég hef aldrei geta skilið það af hverju bankar hafa (ólöglegt?) samráð sín á milli um að neita fólki um verðtryggingu til minna en þriggja ára bindingar. Af hverju má ekki verðtryggja til þriggja mánaða til dæmis án vaxta?

Vilhjálmur skrifar:

"Það eru talin alkunn sannindi að frelsi og sjálfstæði mannsins er fólgið í því að skulda ekki neinum neitt og vera á þann veg sjálfs sín ráðandi. Þetta er mikil einföldun á fjárhagslegu sjálfstæði því það er einnig hluti af frelsi að geta tekið að láni. Það er ætíð háð greiðslugetu hvers einstaklings og hverrar þjóðar hvað hann eða hún getur tekið að láni og takmarkað aðra möguleika sína eða byggt upp til framtíðar til að öðlast meira frelsi. Þannig er með ungt fólk, að það velur að taka lán þegar greiðslugeta er nokkur til að byggja sér framtíðarheimili. Það að byggja upp heimili skerðir frelsið um sinn en eykur framtíðaröryggi. Leigustefna eða séreignastefna er val um frelsi nú og þvingun síð- ar, eða öfugt. Því miður er það svo að þegar starfsævi lýkur lækka ráðstöfunartekjur svo mjög að gott er að leigugjöld og húsnæðsskuldir skuli vera frá. Þá á frelsið að hafa tekið við. Landsmenn eru flestir þeirrar skoðunar að þeir ásælast ekki annarra manna gróða og vilja ekki þurfa að bera annarra manna töp.

Hvernig tengist þetta almannatryggingum?

Þetta viðhorf tengist almannatryggingum sem byggjast á nokkrum stoðum: – Ein er lífeyrissjóðir. – Önnur er séreignasparnaður sem tengist launatekjum. – Sú þriðja er bætur frá Tryggingastofnun. – Enn önnur er frjáls sparnaður með arðstekjum og vaxtatekjum. – Að lokum er sparnaður, sem felst í eigin húsnæði. Sú kvöð er lögð á alla launþega að greiða hluta launa sinna í lífeyrissjóð til að greiða ellilífeyri og örorkulífeyri ef til þess kemur.

Frjáls sparnaður til að skapa frelsi

Umfram allt vill fólk frelsi til athafna. Jón Hreggviðsson sagði að sér væri sama hvort hann væri sekur eða saklaus; hann vildi að- eins hafa bátinn sinn í friði. Báturinn var hin frjálsi sparnaður Jóns. Gluggaumslög með innheimtubréfum eru merki um helsi. Sjálfstæðir menn fá varla sendibréf! Því miður er það svo að allir hvatar í þessu samfélagi, sér í lagi skattalegir, eru til að auka skuldsetningu og draga úr sparnaði. Raunar er það svo að slíkir hvatar leiða að lokum til erlendrar skuldsetningar, greiðsluhalla við útlönd og þeirra meina sem af slíkum halla leiða, sem eru gengisfellingar og kjaraskerðingar sem fylgja gengisfellingum. Þeir sem vilja draga úr peningalegum sparnaði eru landsölumenn. Öfugmælin eru þau að vaxtabætur hvetja til lántöku og fjáreignatekju-skattur dregur að öðru jöfnu úr peningalegum sparnaði. Sá er þetta ritar hefur lagt það í vana sinn að stofna sparireikninga fyrir nýfædd börn, sem hann telur að standi sér nærri, til að hægt sé að venja börn á sparnað frá fæðingu. Sum börn hafa átt fyrir reið- hjóli, bíl eða hluta af íbúð af þessu nurli sínu og ættingja sinna, fermingargjöfum og þúsundköllum af og til.

Annað afrek greinarhöfundar var að verðtryggja orlofsfé verkafólks í Vestmannaeyjum í 30-130% verðbólgu þegar Póstgíróstofa bauð 4% vexti. Það var mikil kjarabót á þeim tíma. Raunar er það umhugsunarvert hví ekki hefur tekist að koma því á að fólk geti stofnað húsnæðissparnaðarreikninga með skattalegum hvötum. Það verður þó að vera einhver trygging fyrir því að slíkur sparnaður haldi verðgildi sínu, en verði ekki afétinn af þeim sem taka skuldahvatningu.

Umræða um skattbreytingar

Nú um stund er nokkur umræða um skattbreytingar. Þeir sem best gengur á atkvæðaveiðum telja fjáreignatekjuskattinn gott andlag til að hækka. Það góða fólk virðist hafa sérlegan áhuga á að ná til fólks í Garðabæ. Nú er það svo að 20% fjáreignatekjuskattur af vöxtum og verð- bótum, eins og hann er nú, miðað við 2% raunávöxtun og 2% verð- bólgu, er 39,6% raunskattur. Sparnaður er aldrei hættulegur. Sparnaður er forsenda framfara og nýsköpunar. Í öllu tali um skattlagningu fjáreigna er hvatinn sá að gera útlendinga ríka. Auðvitað á markmiðið að vera að gera Íslendinga frjálsa. Önnur umræða er sú að með tekjuskattsbreytingum virðist eiga sérstaklega að hlífa almenningi. Þá er spurning um hina. Með því að skattleggja tekjur yfir 1,5 milljnum króna á mánuði næst í tvær sérlega hættulegar stéttir. Það eru læknar og sjómenn í Neskaupstað. Þeir eru vissulega tekjuháir! Læknar njóta engrar samúðar nema þegar fólk þarf á þeim að halda. En sjómenn njóta samúðar á sjómannadaginn. Er þetta ætlan VG/Alþýðubandalagsins? Verði þjóðinni að góðu!

Tími til tvö hundruð og einnar breytingar og endurskoðunar

Það eru um tvö hundruð skattbreytingar, sem leiðinlegasta ríkisstjórn allra tíma kom í gegn. Af þeim hefur ein runnið sitt skeið á enda. Þá eru eftir hundrað og níutíu breytingar sem þarf að taka til endurskoðunar og snúa ofan af. Þeim til viðbótar er skattlagning, sem síðasta ríkisstjórn kom í gegn með stuðningi stjórnarandstöðu en með andstöðu eins þingmanns. Það er skattur á skuldir banka en það eru lántakendur sem greiða þann skatt. Að auki er ástæða til að afnema svokallaðan sumarbústaðaskatt því hann er mjög óréttlátur og er í raun 20% eignarnám.

Af hverju þetta hjal um frjálsan sparnað?

Það er nefnilega þannig að almannatryggingakerfi sem hér hefur verið byggt upp greiðir einungis lágmarksbætur. Til þess að treysta það þurfa einstaklingar að byggja upp sinn viðbótarlífeyrissparnað og eiga frjálsan sparnað því til viðbótar. Til þess þarf að vera hvati en ekki að sparnaðurinn sé einungis skattandlag. Hinn frjálsi sparnaður byggir upp velferð allra í samfélaginu, ekki aðeins þeirra sem eiga, þótt þeir njóti síðar. Með þeirri aldursskiptingu sem er með þjóðinni geta bætur almannatrygginga aldrei orðið grundvöllur ellilífeyris. Frjáls sparnaður og hvatar hans geta einungis bætt úr vanda almannatrygginga og lífeyriskerfis.

Hvað sagði Guðbjartur?

Að lokum er rétt að minna á orð Guðbjarts í Sumarhúsum: Ég segi fyrir mig, maður fer á mis við lífið þángaðtil maður er orðinn sjálfstæður. Fólk sem ekki er sjálfstæðisfólk er ekki fólk. Frjálst fólk með frjálsri þjóð!"

Í okkar samfélagi heyrist ekki annað en jarmið um skaðsemi verðtryggingarinnar og of háa vexti handa skuldurum.

Hvort á líf manna að byggjast á skuldum eða á sparnaði?

Hér finnst mér talað svo heyrast ætti. 


Hvað er að okkur?

dettur mér í hug þegar ég keyri eftir Hringbrautinni í vestur í bæ í austur meðfram verkamannabústöðunum og styttunni af Héðni Valdimarssyni. Og svo fram hjá elliheimilinu Grund. Þetta  byggðu  menn nánast með berum lúkunum í kreppunni og peningaleysinu eftir 1930 af því að þetta vantaði.

Nú eru tímar vælukynslóðanna í peningaflóði  sem Dagur Bergþóruson er dæmigerður fulltrúi fyrir. Maður sem getur ekki neitt nema talað um hvað hann ætlar að byggja mikið einhvern tímann en gerir aldrei neitt.

Nú eru tímar unga fólksins sem gerir ekkert annað en væla um háa vexti og verðtryggingu og háan byggingakostnaðinn sem nemur 500.000 kr. á fermetra í sölu um leið og það keyrir framhjá smáíbúðahverfinu: það er sagt  að það sé hægt að byggja og flytja inn fyrir 200.000 kall á fermetra  ef menn bara nenni og hafi lóð til að byggja á. En þær eru auðvitað hvergi til fyrir einstaklinga.það er  miklu auðveldara að bara að heimta að ríkið geri eitthvað fyrir unga fólkið  sem annars fer úr landi þegar það er búið að læra.

Af hverju gerir fólk ekki neitt sjálft eins og það gerði í gamla daga? Hvað er að okkur?

 

 


Kjartan Örn Kjartansson

skrifar glögga greiningu á öfgatali vinstri manna og hvernig þeir smyrja gægri menn með ónefnum og upphrópunum.

Kjartan skrifar:

"Það er orðið erfitt að tjá sig eða að skilja sum orðin því endalaus vinstri áróðurinn hefur hertekið svo margt. Nýfrjálshyggja. Úr munni sósíalista er helst að skilja orðið sem lýsingu á einhvers konar ímynduðum óheftum kapítalisma, sem er auðvitað eitthvað sem er hvergi iðkað eða til en er samt notað óspart sem hnjóðsyrði einkum yfir þau sem virða sjálfstæði og frelsi einstaklingsins í réttarríkinu og hugnast síður „collectiveismi“ eða ofræði ríkisvaldsins og kommissara þess og við skulum muna að kommúnismi og einræði eru jú sitt hvor hliðin á sama peningi.

Félagshyggja/nýfélagshyggja.

Sósíalistar bjuggu til það orð til þess að reyna að gefa sem jákvæðasta mynd af stefnu þeirra og er tilraun til þess að milda atgeirsoddinn og á væntanlega að merkja eitthvert millistig valdboðsstefnunnar. Það breytir þó ekki eðli þeirra sem þannig hugsa því að þau eiga það sameiginlegt að vilja sem mest beygja fólk undir vilja sinn í gegnum ríkisvaldið sem þau vilja ein ráða yfir.Í vinstri stíl vil ég nota orðið nýfélagshyggja yfir það sem ég einnig kalla gjarnan í gamni og alvöru sósíalistískan demónkratisma.

Öfgahægrimenn/flokkar.

Áróð- ursvélar vinstrisins gnæfa yfir og sumir sjá eða lesa ekki annað og halda í grandvaraleysi að það sem þaðan kemur sé allt gott og gilt þótt dæmin sýni gjarnan allt annað og að fleiri en ein hlið sé á málunum þegar grannt er skoðað svo ekki sé talað um þegar staðreynir eru afbakaðar í pólitískum tilgangi. Samkvæmt þessum áróðri eru vinstri öfgamenn ekki til en öfgahægri er víst frjálsar skoðanir sem liðið fellir sig ekki við og eru öndverðar við rétthugsunina.

Þjóðernishyggja

er það kallað t.d. þegar um sjálfstæðisbaráttu undan ESB er að ræða. Ekki er gerður greinarmunur á þjóðernishyggju þ.e. nationalisma og þjóðhollustu þ.e. patriotisma þótt ólíkt sé. Svo ótrúlegt sem það er þá hefur vinstrið smekk til þess að líkja fólki við hrylling Adolfs sáluga þótt slíkir ásaki ekki á móti daður sumra við minningu og hugarfar Jósefs stálkarls hins grimma.

Popúlistar.

Það fólk sem vill öryggi einkaréttarins og koma böndum á útþenslu ríkisrekstrarins er einatt og furðulega uppnefnt popúlistar. Vinstrið, nýfélagshyggjufólkið, er í raun hinir einu sönnu popúlistar sem keppast um að yfirbjóða hver annan til þess að kaupa sér vinsældir og atkvæði og það er miður hversu margir kjósendur huga ekki að því hve ómerkilegt það er oft á tíðum því öll eru fyrirheitin auðvitað á kostnað annarra, einkum með ofursköttum á allt og alla, sem dregur auðvitað allan þrótt úr fólki og fyrirtækjum og er þó nóg af slíku fyrir. Lýðskrumið er t.d. krafan um allsherjar opna hátíðarmóttöku fyrir hvern þann sem óbeðinn kemur hingað og útnefnir sig hælisleitanda, ekki vegna áhuga á landi og þjóð og menningu hennar, heldur til þess eins að hafa það gott sjálfur. Er þá ýmsu borið við um brýna nauðsyn þess en minna talað um hugsanlegar óafturkræfar afleiðingar þessa sem aðrir eiga svo að bera. Líklega hugsar vinstrið sér gott til glóðarinnar að fá þetta gólk sem framtíðarkjósendur sína.

Frjálslyndi.

Einu sinni var orðið frjálslyndi jákvætt og m.a notað yfir víðsýni og umburðarlyndi. Nú er svo komið að liberalistar nútímans hafa eyðilagt orðið og hugtökin því tengd því að með öfgum þeirra eru orðin til eins konar ný trúarbrögð ofstopahyggjunnar og er orðið því næsta ónothæft í sinni upprunalegu mynd. Þannig má sem dæmi nefna að allt „religion“ er orðið slæmt nema þeirra eigin trúleysistrú og svo helst íslam sem er aldrei gagnrýnt þrátt fyrir allan sinn ofstopa og óhugnað. Í hinu kristna Íslandi má sem dæmi ekki lengur tala um frelsarann og gefa biblíur í skólum eða þá að borða svínakjöt því að vera kann að einhver múhammeðstrúar sé þar í bekk. Ekki hefur heyrst af því að fólk af gyðingaættum hafi nokkurn tímann haft uppi viðlíka kröfur þótt Gyðingum þyki svínakjöt varhugavert að eldgömlum sið og sjálfsagt smyrja þeir skynsamlega með sér nesti af virðingu við aðra. Hin nýja frjálslyndisstefna liberalistanna krefst þess að Íslendingar eigi nú að beygja sig undir útlenda plagsiði en ekki að innfluttir aðlagi sig að háttum okkar heimamanna. Slíkt er einnig stundum kennt við sjálfsögð mannréttindi og jafnrétti af hálfu þessa liðs sem slær sig þannig til riddara.

Rasismi

var hér áður fyrr notað um kynþáttahatur en er nú í áróðri vinstrisins óspart haft um þau sem vilja fara með gát í málefnum farandfólks og hælisleitenda. Sú skoð- un hefur auðvitað ekkert með kynætti manna að gera, heldur með gildum rökum að Ísland hafi eigin varkára skynsemisstjórn á þeim málum og taki m.a. mið af reynslu annarra þjóða. Eina opinbera málið sem ég man eftir þar sem kynþáttafordómar komu við sögu er þegar vinstri stjórn Reykjavíkurborgar vildi banna öll sam- og viðskipti við lýðræðisríkið Ísrael, en gyðingahatur og undirlægjuhátturinn við íslam hefðu einhvern tíma áður fyrr verið kennd við kynþáttahyggju. En það var ekki nefnt vegna þess hverjir áttu í hlut.

Hatur.

Þeir sem aðhyllast aðra stefnu en liberalistar og annað vinstra fólk verða óspart fyrir ljótum uppnefningum þótt slíkt lýsi að- eins hugarfari gerandanna sjálfra og að hatursorðræðan sé í einkanotkun hjá þeim sem ásaka aðra um eigin bresti. Ásakanir um einhvern meintan undirróður annarra lýsir undirróðurshugarfari þeirra sjálfra og leyndarhyggja þeirra lýsti sér vel í því þegar vinstri velferðarstjórnin setti lög um að skjöl er varða stjórnsýslu hennar skyldu geymd í yfir 100 ár svo seint kæmist upp um launráðin við landið. Þótt margur sé gleyminn þá þurfa þau sem misstu heimili sín og aleiguna í höndum VG og Samfylkingarinnar ekki frekari vitnanna við um lyndiseinkunnina.

Öfugmælin og óheilindin eru allsráðandi og einkenna málflutning vinstrisins. Allt er þeim pólitík og tilgangurinn helgar meðalið. Kjósendum tókst að hrinda af sér Icesave-okinu sem einmitt ýmsir þeir sem nú eru í forsvari nýfélagshyggjunnar stóðu að og sem vildu jafnframt afsala okkur sjálfræðisréttinum meira en þegar er orðið með EES.

Það er ennþá hægt að kjósa ekki fólk og flokka sem nota vald sitt með því í gerræðislegri hentistefnu að taka fram fyrir hendurnar á réttu stjórnvaldi og setja sérlög þegar þeim passar, s.s. um útsölu á íslenskum ríkisborgararétti til handa sérvöldum og beita börnum fyrir sig í óábyrgu lýðskrumi sínu. "

Kjartan á þakkir skildar fyrir að greina svo glögglega hvernig vinstrið stráir um sig skilgreiningum um illt eðli hægri manna sem þeir einir akilji. En þeir skilja bara ekki neitt í upphafinni sjálfsánægju sinni.


En þrælast Þorvaldur

á þvælunni um að þjóðin þrái stjórnarskrá hans heitar en nokkuð annað.

Merkilegt hvað Baugsveldið gamla endist til að borga þessum manni fyrir að hræra þess endalausu steypu um hið gersamlega ónýta, óritrýnda plagg og hrákasmíði sem hann talar um að þjóðin þrái svona heitt. 

Rangupplýsingar prófessorsins þar sem hann blandar alltaf saman þeim fjölda kjósenda og þeim sem tóku þátt i ólögmætri atkvæðagreiðslu mikils minnihluta kjósenda landsins eru líklega settar fram í þeirri skoðun dr. Göbbelsar að endurtaki maður lygina nógu oft þá verði hún að sannleika.

Mikil er því trú prófessors doktors Þorvaldar eins og trú doktor Göbbelsar var. Sá síðarnefndi  hafði það þó fram yfir doktor Þorvald að hann var sagður afburða skemmtilegur fyrirlesari í útvarp. 

Prófessor doktor Þorvaldur viðurkennir þó, að skynsamari hluti þjóðarinnar sé 19 % á móti þessum stjórnarskrárdrögum ásamt meirihluta embættismanna landsins. Það er þá ekki víst að öll nótt sé úti með það að Þorvaldi takist ætlunarverk sitt með að troða þessari endemisbleksteypu upp á grandalausa þjóðina, sem hefur líklega þegar alla þá stjórnarskrá sem hún þarf nokkru sinni á að halda Hún hefur enda dugað ágætlega frá 1944 þegar hún var samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta landsmanna sem var miklu stærri en sá sem Þorvaldur mun nokkru sinni sjá flykkjast um sérhverja kratíska dellu sem honum kann í hug að koma.

Samt þrælast Þorvaldur enn á stjórnarskrárbullinu sínu og staðreyndafölsunum.


Steindir fyrir stóriðju

sem blæs út koltvísýringi í Sjanghæ í Kína eru búnar til fyrir fé íslenskra skattgreiðenda upp á Hellisheiðareldfjalli í flottum græjum hugsanlega framleiddum í Kína. Kostnaðurinn er ótalinn en leggst bara ofan á framleiðslukostnað þeirra þriggja kílóvatta sem framleidd eru þar ókeypis fyrir hver eitt sem virkjun Dags B. Eggertssonar hjá OR og ON fær borgað hjá stóriðjunni.

Þessu lýsti yndisleg verkfræðistúlka fyrir okkur í fréttum. Koltvísýringur frá Sjanghæ verður að steinum ofan í eldgígnum og býður þess að svífa upp aftur í næsta gosi. Holuhraunsútblásturinn er löngu afgreiddur upp í himintunglin og við hann verður bætt með nýjum túristaeldgosum í fyllingu tímans. Kínverjar taka víst lítinn þátt í kolefnisbindingu sjálfir vegna annarra verkefna svo við Íslendingar tökum að okkur að leysa málin fyrir heiminn.

Við björgum veröldinni Íslendingar. Sé einhver ómenntaður barnakarl í Gana óánægður með stjórnarfarið þar er hann óðar kominn hingað þar sem við tökum við honum og hans ómegð af því að hann er svo verðmætur vinnukraftur í tækniþjóðfélaginu. Sömuleiðis er greinilega nægt framboð af  börnum og tannlausum mæðrum sem við getum bjargað af Rohingjaætt frá Mjanmar í Bangladess.Bara rétta út hendur.

Steindir fyrir stóriðjuna í Kína auðga Hellisheiðarvirkjun og börnin frá Bangladess leysa skort okkar á fæðingartíðni.


Store stygge Ulv

en ekki íslensk alþýða eiga að borga nýjar skattlagningar Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri Grænna ´i drottningarviðtali RÚV.

Þar komst hún upp með að svara aðeins í véfréttum hverjir ættu að fjármagna sjötíu mílljarða góðverkin sem hún ætlar að framkvæma á okkur eftir kosningar. Ekki var mjög eftir gengið af kurteisum spyrlunum smáatriðum í útfærslum en auðlegðarskattinn ættu bara einhverjir mökkríkir en ekki alþýða að borga að mé skildist. Og svo auðvitað sjávarútvegurinn að borga meira auðlindagjald sem  nú borgar of lítið af þeim tekjum sem ríkissjóður hefur afsalað sér það sem af er. Restin yrði tekin með forgangröðun og kerfisbreytingum án þess að farið væri út í þær í smáatriðum.

Ég skal viðurkenna að ég sofnaði vært undir brosmildri engilsásjónunni í þessari útlistun. Þannig getur þjóðin farið að því að trúa því sem að henni er rétt. Ríkistjórn undir forsæti Katrínar mun flytja í Stjórnarráðið með væntanlega Smára McCarthy sem utanríkisráðherra, Birgittu Jónsdóttur sem innanríkisráðherra, Sunnu Ævarsdóttur sem menntamálaráðherra, Steingrím Jóhann sem fjármálaráðherra og jafnvel svo ráðherra allra afgangsmála.

Pottþétt skjaldborgarstjórn sem mun slá velsæld  um alla alþýðu og  láta bara Store Stygge Ulv borga brúsann.


Eiga spyrlar RÚV að vera sérvaldir?

eftir því hver á í hlut?

Ætti viðmælandi að fá að velja sér spyrla?

Hefði Bjarni Benediktsson valið fremur Ragnhildi Thorlacius og strákinn með henni sem spurðu hann í gærkveldi eða Vigdísi Önnu Hjaltadóttur og hinn strákinn með henni hefði hann mátt velja? Valdi Katrín Jakobsdóttir frekar þau sem spyrla fyrir sig en þá sem Bjarni fékk?

Fannst engum öðrum en mér spyrlarnir spyrja Bjarna að beinlínis röngum hlutum sem hann varð að leiðrétta sérstaklega? Fannst engum Ragnhildur vera óðamála og dónaleg, grípandi frammí og taka orðið af Bjarna? Tala yfir strákinn sem fékk lítt að komast að eftir að hann fór með fyrstu staðreyndavilluna?

Ég bíð eftir að sjá muninn á framkomu spyrlanna við Katrínu Jakobs í kvöld miðað við þá framkomu sem Bjarni varð að sæta.

Svona viðtöl eru til þess gerð að hafa áhrif á kjósendur. Það gefur þá auga leið að spurningar geta verið með ýmsum hætti.  Eiga frambjóðendur þá ekki að hafa eitthvað um það að segja hvaða spyrlar taki við þá viðtöl? 


Masokismi

held ég að þjái íslensku þjóðina þegar hún virðist ætla að kjósa VG og Katrínu Jakobsdóttir til að leiða sig til boðaðra sjálfspyndinga sinnar.

Óli Björn fer yfir það í Morgunblaðinu hvers megi vænta í ljósi fyrri reynslu af Katrínu og Steingrími Jóhanni á ráðherrastólum.

Óli Björn segir:

"Katrín Jakobsdóttir og Vinstri grænir eru á harðahlaupum undan eigin stefnu í skattamálum. Þetta kom vel í ljós í leiðtogaumræð um í Ríkissjónvarpinu síðastliðið sunnudagskvöld. Í maí var ljóst að VG vildi breyta fjármálaáætlun til næstu fimm ára og auka skattheimtu um alls 334 milljarða eða nær eina milljón á hvert mannsbarn.

Um leið var stefnan sett á að auka útgjöld ríkissjóðs um 295 milljarða. Í umræðum á þingi um fjármálaáætlun fór ekkert á milli mála. Vinstri grænir vildu stórhækka skatta og auka útgjöld gríðarlega. Í aðdraganda kosninga vill formaður Vinstri grænna sem minnst ræða um skattahugmyndir flokksins og gefur út þá yfirlýsingu að skattar verði ekki hækkaðir á almenning en það verði „hliðrað“ til í skattkerfinu.

Það er erfitt að fá útskýringar á því í hverju „hliðrunin“ er fólgin og hvernig eigi að afla aukinna skatttekna.

Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, varð lítið ágengt þegar hann gekk á eftir svörum. Hann benti á að Vinstri grænir vildu fara „í 53 milljarða tekjuráðstafanir á næsta ári sem myndu síðan vaxa upp í 75 milljarða á ári“. Þetta er álíka mikið og öll fyrirtækin á landinu borga á ári í tekjuskatt.

Svör Katrínar Jakobsdóttur gerðu lítið til að hjálpa kjósendum að átta sig hvernig sækja ætti auknar tekjur: „Já, já, við höfum auðvitað sett fram hugmyndir um það hvernig mætti afla þessara tekna með sanngjarnari hætti en gert er undir þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið, þannig að það leggist t.a.m. í gegnum gjöld á auðlindum, t.a.m. í gegnum hátekjuskatta eða einhverskonar stóreignaskatta – horfum bara á misskiptinguna í íslensku samfélagi – það eru hér ríkustu 10% sem eiga 2/3 af öllum eignum.

Við skulum líka átta okkur á því að við þurfum auðvitað að fara varlega, það er enginn að tala hér um að ráð- ast í einhverja gríðarlega þenslu í ríkisfjármálum. Við erum að tala um það að horfa til lengri tíma.“

Í ljósi sögunnar

Fyrst formaður Vinstri grænna vill ekki eða getur ekki gefið kjósendum skýra mynd af því hvað felst í áformum flokksins í skattamálum er aðeins ein leið til: Að leita aftur til sögunnar.

Árið 2008 var tekjuskattsprósentan 22,75% og meðalútsvar 12,97%. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna – „norræna velferðarstjórnin“ 2009-2013 – kollvarpaði kerfinu, hækkaði skattprósentur og tók upp þrjú þrep. Árið 2013 var skattprósentan í staðgreiðslu eftirfarandi:

22,90% af tekjum 0 – 241.475 kr. + 14,42% meðalútsvar: Alls 37,32%

25,80% af tekjum 241.476 – 739.509 kr. + 14,42% meðalútsvar: Alls 40,22%

31,80% af tekjum yfir 739.509 kr. + 14,42% meðalútsvar: Alls 46,22%

Þannig var tekjuskattskerfið gert flóknara og dýrara jafnt fyrir ríkissjóð sem skattgreiðendur. Launafólk með meðaltekjur var sérstaklega hart leikið.

Listinn er enn lengri

Ekki var það nægjanlegt fyrir vinstri stjórnina að hækka tekjuskatt:

Heimild til frádráttar iðgjalda frá tekjuskattsstofni vegna viðbótarlífeyrissparnaðar var lækkuð um helming; fór úr 4% í 2%.

Fjármagnstekjuskattur einstaklinga var hækkaður í áföngum árin 2010 og 2011, fyrst úr 10% í 18% og síðan í 20%.

Auðlegðarskattur lagður á árið 2009 og átti að vera til þriggja ára. Skatturinn var í upphafi 1,25% á eignir einstaklinga yfir 90 milljónir króna að frádregnum skuldum en 120 milljónir hjá hjónum/sambýlisfólki.

Auðlegðarskatturinn var framlengdur til ársloka 2014 og skatthlutfallið hækkað í 1,50%. Frímörk eigna voru lækkuð úr 90 milljónum í 75 milljónir hjá einstaklingum og úr 120 milljónum í 100 milljónir hjá hjónum. Nýtt þrep var innleitt þannig að á hreina eign einstaklings umfram 150 milljónir króna og hreina eign hjóna umfram 200 millj- ónir leggst 2% skattur.

Almenna virðisaukaskattþrepið var hækkað úr 24,5% í 25,5%. Olíugjald var hækkað um 1,65 krónur á lítra og bensíngjald hækkað um 2,5 krónur.

Bifreiðagjöld voru hækkuð um 0,85 krónur fyrir hvert kíló af eigin þyngd bifreiðar allt að 1.000 kíló og um 1,15 krónur á hvert kíló af eigin þyngd bifreiðar umfram það að 3.000 kg og um 2,82 kr. af hverju byrjuðu tonni af eigin þyngd bifreið ar umfram 3.000 kg.

Hlutfall erfðafjárskatts hækkaði úr 5% í 10% auk hækkunar á frí- eignamörkum.

Auðvitað er ofangreindur listi ekki tæmandi og ógetið skattahækkana á fyrirtæki. Listinn gefur hins vegar góða innsýn í það við hverju er að búast ef vinstri stjórn tekur við völdum að loknum kosningum.

Ekki mun standa á Samfylkingunni að tryggja framgang skattahækkana. Píratar verða örugglega tilbúnir enda líta þeir á heimili og fyrirtæki sem „hlaðborð“ fyrir ríkissjóð.

Hægt en örugglega

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn frá 2013 og frá þeim tíma hafa verið tekin markviss skref í átt að lægri sköttum. En verkefninu er langt í frá lokið og enn er eftir að lagfæra margt í skattkerfinu sem vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eyðilagði með nær 200 lagabreytingum.

Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir, skattar á launafólk einnig og innleiddur marg- þrepa tekjuskattur sem verst fór með millistéttina.

Tryggingagjaldið var hækkað í 7% og loks í 8,65%. Eldra fólk varð sérstaklega fyrir barðinu á því þegar lagður var á auðlegðarskattur – eignaupptökuskattur – þar sem einstaklingar urðu að sæta því að greiða jafnvel hærri skatta en nam tekjum.

Auðlegðarskatturinn lagðist einnig þungt á sjálfstæða atvinnurekendur sem neyddust til að ganga verulega á eigið fé eða stofna til skulda til að standa undir skattgreiðslum.

Forystumenn stjórnmálaflokka eru kannski ekki tilbúnir til að leggja öll spilin á borðið. Þeir koma sér undan því að svara óþægilegum spurningum, líkt og formaður Vinstri grænna síðastliðinn sunnudag um skatta.

Sagan kennir hins vegar hvar kjósendur hafa Vinstri græna líkt og sagan sýnir hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að hófsemdar sé gætt í opinberum álögum. Það er vissulega hægt að gagnrýna okkur í Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa ekki gengið rösklegar til verka, en gert hefur verið, við að létta álögum af einstaklingum og fyrirtækjum.

En margt hefur verið gert:

Neðra þrep tekjuskatts einstaklinga var lækkað. Milliþrep tekjuskatts var afnumið.

Almenn vörugjöld voru felld niður.

Efra þrep virðisaukaskatts lækkaði úr 25,5% í 24%.

Tollar felldir niður af flestum vörum.

Tryggingagjald lækkað úr 7,69% í 6,85%.

Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa tengdra nýsköpun gefinn.

Skattleysi séreignarsparnaðar vegna íbúðakaupa.

Þak á kostnað sjúklinga með greiðsluþátttökukerfi.

Þegar litið er til reynslunnar eru þeir valkostir sem kjósendur standa frammi fyrir skýrir. Öllum er ljóst að skattar og álögur hækka ef ríkisstjórn vinstri flokkanna tekur við völdum að loknum kosningum.

Eina fyrirstaðan er Sjálfstæðisflokkurinn. "

Ekki skortir Katrínu bandamenn í skattlagningarstefnu. Svo mælir Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar:

" „Samneyslan skapar flestumlandsmönnum frelsi. Hún tryggir stærstum hluta almennings áhyggjulítið og innihaldsríkt líf. Við gætum þó með sanngjarnara skattkerfi gert enn betur. Hægt væri að tryggja öllum betri skólagöngu, ódýrari heilbrigðisþjónustu, áhyggjulaust ævikvöld og margvísleg önnur lífsgæði.

[…] Því fullyrði ég […]:

Skattgreiðslur eru skynsamlegasta fjárfesting langflestra Íslendinga á ævinni. Í samneyslunni birtist það fallegasta í mannlífinu; samkennd og samhjálp. […] Við þurfum líka fóður fyrir andann. Því verða stjórnvöld líka að hafa metnað fyrir hönd íþrótta, menningar og lista. Ekki líta á þær sem einhvern lúxusvarning eða afgangsstærð.“

 

Að öllu þessu athuguðu og fylgi landsmanna við nýja vinstri stjórn þá sé eg enga skýringu aðra en að landsmenn séu eins og gamli sorry Gráni í kvæði Megasar sem leitaði jafnan þangað sem hann var kvaldastur.

Illar náttúrur ættmenna Bjarna Benediktssonar,hans sjálfs og umræðan um Panamaskjöl og samúð með æruuppreisn barnaníðinga skipta þjóðina mklu meira máli en aukin skattheimta sem er bara tóm sæla samkvæmt formanni Samfylkingar. það er samneyslan sem skiptir unga fólkið og kvenþjóðina svona miklu máli að allt annað yfirskyggir.

Ég hefði freistast til að kalla þetta Masókimsa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 3419716

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband