Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2019

Hvað er svona merkilegt við það?

að veiða lax á stöng?

Er einhver lax í Blöndu eitthvað spes umfram lax í Tungufjóti í Bláskógabyggð? Öll þau hundruðþúsunda seiða sem búið er að sleppa þar án þess að nokkur viti hvaðan þau komu eru ekki endilega af einhverjum hreinræktuðum íslenskum stofnum. Hver er munurinn á norskum laxi og þessum sem við sum og þessi Rathcliffe segja að sé íslenskur? Er einhver sem getur fullyrt það vísindalega?

Af síðu Kollega Bjarna Jónssonar stel ég þessum texta:

"Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismaður, er öllum hnútum kunnugur um fiskeldið.  Hann skrifaði grein í Fréttablaðið 4. desember 2019 undir fyrirsögninni:

"Að spila lottó með sannleikann":

"Landssamband veiðifélaga berst gegn uppbyggingu á laxeldi í sjó.  Erlendir auðkýfingar hafa keypt laxveiðiréttindi og jarðir hér á landi og vinna leynt og ljóst gegn atvinnuuppbyggingunni.  Stjórnvöld hafa frá upphafi verið varkár gagnvart sjókvíaeldinu.  Laxeldið er aðeins leyft á afmörkuðum svæðum, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum.  Annars staðar er það bannað.  Það er gert til að vernda innlenda laxastofna fyrir mögulegri blöndun við eldisstofninn, sem er upprunalega norskur.  Uppbygging sjókvíaeldisins hefur að öllu leyti fylgt þessum ráðstöfunum."

 

 "Laxveiði í vestfirzkum ám er lítil og tekjur óverulegar.  Enda er það ástæða þess, að laxeldið var leyft á Vestfjörðum.  Tekjur af allri stangveiði í landinu eru aðeins

4,9 milljarðar króna á ári. 

Það er því ólíku saman að jafna framlagi þessara tveggja atvinnugreina til lífskjara íslenzku þjóðarinnar.  Nái Landssamband veiðifélaga markmiði sínu og kæfi í fæðingu laxeldi á Íslandi, verða afleiðingarnar alvarlegar, og almenningur fer á mis við mjög bætt lífskjör á næstu árum."

Landssamband veiðifélaga reisir andstöðu sína við laxeldið í sinni núverandi mynd á rangri áhættugreiningu.  Þar koma við sögu úrelt líkindi á stroki úr sjókvíunum og öfgakennd hugmynd um afleiðingarnar.  Í fyrsta lagi ná ekki allir stroklaxar upp í árnar; í öðru lagi tekst ekki alltaf hrygning hjá þeim og í þriðja lagi kemur náttúrulegt úrval í veg fyrir, að varanleg erfðablöndun eigi sér stað.  Þess vegna hefur hingað til engin merkjanleg erfðablöndun átt sér stað af völdum sjókvíaeldis hérlendis. 

Samanburður við Noreg er út í hött.  Norðmenn eru á hverjum tíma með um 1,0 Mt (milljón tonn) af eldislaxi í kvíum úti fyrir helztu laxveiðiám Noregs og voru um 40 ára skeið með mun veikari útbúnað, minna regluverk og slappara eftirlit en nú er við lýði.

"Rökin gegn laxeldinu eru veik.  Umhverfismengun er lítil.  Kolefnisspor er lágt.  Hvergi á Íslandi hafa laxastofnar spillzt eða eyðilagzt vegna blöndunar við eldislax.  Þrátt fyrir langvarandi markvissa blöndun innlendra stofna í fjölmörgum laxveiðiám um langt árabil á vegum veiðiréttarhafa, er ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af varanlegri erfðablöndun."

Í ljósi þessara upplýsinga, sem voru kunnar, að veiðiréttarhafar hafa staðið fyrir tilraunastarfsemi með erfðaeiginleika í íslenzkum laxveiðiám, virðast þeir vissulega kasta steinum úr glerhúsi, þegar þeir stunda áróður gegn laxeldi á afmörkuðum svæðum hérlendis í nafni hreinleika íslenzkra laxastofna.  Einhver mundi ávinna sér hræsnaraheitið af minna tilefni.  

"Blöndun milli eldisfiska og villtra á sér stað, en til þess að áhrifin leiði til varanlegra breytinga, þarf hún að vera mjög víðtæk og langvarandi.  Annars ganga áhrifin til baka tiltölulega fljótt fyrir tilstilli náttúruúrvalsins."

Erfðafræðin virðist ekki leika í höndum þeirra veiðiréttarhafa íslenzkra laxveiðiáa, sem harðast hafa gengið fram í gagnrýni sinni á laxeldi í sjókvíum.  Þeim væri sæmst að láta af árásum sínum og gera þess í stað hreint fyrir sínum dyrum um það, sem kalla má fikt þeirra með blöndun laxastofna í laxveiðiám landsins.  

Að lokum fylgir hér tilvitnun í grein Kristins H. Gunnarssonar um, að sífelldar vísanir veiðiréttarhafa til Noregs varðandi áhættuna hérlendis séu úr lausu lofti gripnar:

"Jón Helgi Björnsson vísar til laxeldis í Noregi og setur fram fullyrðingar um laxeldið þar.  Þar er ólíku saman að jafna.  Norskt laxeldi er um 100 sinnum umfangsmeira, og staðsetning eldiskvía þar er víða nálægt gjöfulum laxveiðiám.  Því er mun meiri hætta á varanlegri erfðablöndun í Noregi en á Íslandi.  Laxeldið er bannað á Íslandi nálægt öllum helztu laxveiðiám landsins.  Á Vestfjörðum er nánast engin laxveiði.  Það er ekki hægt að draga ályktanir af stöðu í Noregi og færa þær óbreyttar yfir á Ísland."

Ákvörðun Alþingis á sinni tíð um mjög miklar landfræðilegar takmarkanir á staðsetningu laxeldis í sjókvíum átti að þjóna sátt á milli hagsmunaaðila um þessa tiltölulega nýju atvinnugrein.  Öll þróun síðan þá hefur verið til minni áhættu við þessa starfsemi.  Það er mest að þakka nýjum fjárfestum í laxeldinu hérlendis, sem hafa mikla þekkingu til að bera bæði á starfseminni og markaðssetningunni. 

Þessi atvinnustarfsemi er hreinlega að umbylta samfélaginu á Vestfjörðum til hins betra og tryggja sess Vestfirðinga í nútímasamfélaginu. 

Svo sterkt er ekki hægt að kveða að orði um austfirzkt laxeldi, þar sem þar var sums staðar fyrir öflugt atvinnulíf, en laxeldið þar hefur þó þegar reynzt byggðum í vörn öflug kjölfesta.  

Þessi öfluga atvinnugrein, sem getur hæglega orðið ein af kjöfestu útflutningsatvinnugreinunum og að 20 árum liðnum skapað svipaðar útflutningstekjur og málmiðnaðurinn núna, sem stundum er kallaður orkukræfi iðnaðurinn. 

Grundvallarþörf beggja þessara greina er stöðugleiki.  Þær gera báðar miklar kröfur til raforkugæða, og þær, ásamt fólkinu, sem þar starfar, á sama rétt til raforkugæða og þau fyrirtæki og fólk, sem nú býr við beztu raforkugæðin á landinu.  Það á ekki að slá af þeim kröfum.  Þær eru bæði tæknilega og fjárhagslega raunhæfar.  Vönduð vinnubrögð eru allt, sem þarf.  Fúsk er aldrei fýsilegur kostur."

Hvað er svona merkilegt við 1 lax á móti milljón löxum af öðrum uppruna ef báðir seljast á svipuðu verði?

Hvað varð um Geirfuglinn? Eru ekki aðrir fuglar eftir?

Hvort vilja menn heldur, eina krónu eða milljón?

Er eitthvað merkilegt við það val?


Fyrirhyggjuleysi

er það sem Halldóri Agli skipstjóra er ofarlega í huga suður í höfum. Hann skrifar:

"

 Það hefur verið magnað, en um leið hálf sorglegt, að fylgjast með umræðunni um nýafstaðið stórviðri. Engu er líkara en að stór hluti þjóðarinnar átti sig ekki lengur á staðsetningu landsins og þeim veðurhamförum sem þeirri staðsetningu geta fylgt. Það er aldrei spurning um hvort, heldur hvenær stórviðri lík þeim sem nú er ný afstaðið, skella á. Þetta var alveg örugglega ekki síðasta fárviðrið á Íslandi, svo mikið er víst. Það munu koma önnur og jafnvel örugglega verri veður í framtíðinni. Þetta ætti allt fólk að vita, sem býr á Íslandi. Síðasta Básendaveðrið hefur enn ekki skollið á! 

 Vonandi tekst að koma á rafurmagni á Dalvík, með vélakrafti nýjasta varðskips okkar. Hinsvegar vekur furðu að þessi staða sem nú er uppi skuli ekki hafa verið tekin með í reikninginn við hönnun og smíði skipsins. Vel má vera að auðvelt sé að dæla rafurmagni frá borði, en það er hinsvegar til lítils, ef klóin á móti passar ekki.

 Reynsla undangenginna áratuga í veðurhamförum, svo sem snjóflóðunum miklu á Súðavík og Flateyri hefði átt að leiða til þess, að við ættum skip sem fljótlegt væri að sigla á viðkomandi hamfarastaði og tengja við rafurmagnskerfi viðkomandi staða.

 Ástæða þess að svo er ekki, er sennilega sú, að stjórnmálamenn og handhafar valdsins hafa verið svo uppteknir af öðru, því miður. Hvers vegna er arðurinn af Landsvirkjun t.a.m. ekki nýttur í uppbyggingu öruggara dreifikerfis rafurmagns, í stað þess að puðra þeim fjármunum út í tómið? 

 Hvort liggur meira á að moka ofan í skurði, eða tryggja tilveru og öryggi landsmanna, í öllum byggðum þessa lands? Er ekki kominn tími til að stjórnmálamenn láti af fyrirhyggjuleysi sínu og skammsýni? Halda flónin við Austurvöll að orkupakki 3,4,5 og allt það fjandans rugl sem því fylgir, muni auka afhendingaröryggi rafurmagns í framtíðinni? 

 Spyr sá sem ekkert veit.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan."

Það kemur í hugann þegar menn eru farnir að ræða um þjóðarsjóð til að leggja í í Asíu, hvort við séum að hugsa nægilega vel um okkar núverandi innviði? Erum við með gallaðri EES löggjöf að leggja hindranir fyrir uppbyggingu dreifikerfis raforku með því að ætla að taka arðinn af rafmagnsframleiðslunni og senda til útlanda meðan ekkert fé fæst í það fyrrnefnda?

Er fyrirhyggjuleysið afleiðing af eigin óþarfa lagaflækjum hvað varðar aðskilnað framleiðslu og dreifingar raforku?

 


Jólabækur

mínar að þessu sinni voru Stöngin út, saga Halldórs Einarssonar í Henson og Höpp og glöp, sjálfshól og svaðilfarir  Ólafs B. Schram. Við hjónin vorum á fundi í Kópavogi þar sem þessir menn sögðu frá sér og konan keypti handa mér bækurnar þrátt fyrir beiðni mína um að láta slíkt vera.

Ég er búinn með Henson og hafði mjög gaman af. Þetta er ótrúlegur orkubolti og hefur ekki verið að víla fyrir sér hlutina í gegn um lífið og yfirleitt ekki tekið nei fyrir svör þegar hefur fengið ótrúlegustu hugmyndirnar sem hann hefur fengið nóg af um dagana. Útlitið hefur sannarlega ekki alltaf verið bjart hjá honum en kjarkurinn hefur verið með eindæmum að bugast aldrei enda stór og mikill bolti og greinilega hraustmenni að upplagi.

Ekki vissi ég fyrir að hann væri sonur Einars í Björgun, heiðurs-og séntilmanns sem ég þekkti lengi og átti bát með honum Ástþóri Markússyni vinnufélaga mínum. Þeir voru á skaki en ég vissi aldrei hvort þeir veiddu eitthvað að gagni.En Ásti var ófeiminn við að uppnefna bát Ottós og bróður hans Svavars "Aflabrest" enda menn sjaldnast orðlausir í Steypustöðinni í gamla daga.

Henson hefur um margt lifað í mér ókunnum heimi þar sem er knattspyrnan. En margar persónurnar kannast maður við eins og til dæmis Hemma Gunn, þann mikla snilling sem ég kynntist mér til mikillar ánægju og fleiri þekkta höfðingja. Og Hemmi var auðvitað sá sem gaf bókinni nafn sem dæmigerðu fyrir lífshlaup Dóra sem var alltaf alveg við það að skora sigurmörkin afgerandi.

 

Bók Ólafs er öðruvísi, sett saman úr styttri myndum og er ég ekki búinn með hana alveg. Ólafur er hestmaður og segir vel frá því stússi svo og starfinu við leiðsögnina sem maður kannast við. En skemmtileg er hún það af er.

En ég vil þakka báðum þessum höfðingjum fyrir þessar jólabækur og mæli hiklaust með þeim til aflestrar fyrir alla.

 


Af hverju ekki það besta?

spurði Hyman Rickover aðmíráll Jimmy Carter sem ungan hermann þegar honum fannst hann ekki leggja sig nægilega fram. Carter gleymdi þessu aldrei.

forystxd Það er ekki vafi á því að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur höfuð og herðar yfir aðra forystumenn stjórnmálaflokka hvað hæfileika varðar. En það er mörgum flokksmönnum sem finnst hann fara of sparlega með þá. Hann eyði of litlum tíma í það að vera formaður í flokknum sínum og reka áróður fyrir hann en of mikinn tíma sem hann notar í ráðherrastörf fyrir land og lýð. Hann geti miklu betur í fyrra hlutverkinu.

Gunnar Karlsson gerir þessa mynd í Fréttablaðið. Aldeilis er tækni hans ótrúleg og mikið vildi ég vita eitthvað um það hvernig hann fer að þessari ótrúlegu listsköpun.

Ég kann auðvitað ekkert í pólitík og hef ekki hundsvit á því hvernig maður á að reka stjórnmálabaráttu. Ég man að menn hafa toppað of snemma í áróðri og það er ekki sama hvenær er byrjað. Kannski á Bjarni eftir að spila trompinu út og þá skömmumst við okkar sem þóttust eitthvað hafa að segja.

En hinsvegar hafði aðmírállinn rétt fyrir sér þegar hann spurði strákinn: "Af hverju ekki það besta?"

 


Til hvers erum við Sjálfstæðismenn?

að hanga í ríkisstjórn með þeim öflum sem Orkumálastjóri lýsir í jólaerindi sínu?

Það virðist ekki vera efst á blaði að stuðla að hagkvæmni eða framfarsókn heldur að reisa girðingar til að hindra þær.Hindra hagkvæmar læknisaðgerðir og gera nýjar virkjanir óframkvæmanlegar með þjóðgarðabulli umhverfisráðherrans sem enginn kaus.

Ég skora á lesendur að lesa erindi Orkumálastjóra  til að skilja á hvað leið Sjálfstæðisflokkurinn er með því að halda áfram eftirgjöfinni gagnvart vinstri öflunum. Þetta er ekki stefna sem ég sem Sjálfstæðismaður vil styðja,

En Orkumálastjóri sagði eftirfarandi í erindi sínu:

https://orkustofnun.is/orkustofnun/frettir/jolaerindi-orkumalastjora-2019

Það er fyrir mér háalvarlegt mál að láta umhverfisdraumórafólki  eftir að reisa girðingar gegn lífskjörum í landinu sem hindra framfarasókn þjóðarinnar. Slíka pólitík get ég ekki stutt ef hún hefur engan tilgang fyrir mér nema að útvega völdum hópi ráðherrastörf.

Ég vil ekki halda slíku stjórnarsamstarfi áfram á þeim forsendum einum og sé ekki tilgang í því fyrir okkur Sjálfstæðismenn.


Útiganga hrossa

er til skammar.

Ég fór um flóann í gær og sá fjölda hrossa á útigangi skjóllaus, vatnslaus og heylaus.

Óli Anton Bieltved á heiður skilið fyrir að skrifa um þessi mál og vekja athygli á lögbrotum hrossaeigenda.

Hann skrifar svo ´Mogga:

"....16. október 2014 undirritaði Sigurður Ingi, sjálfur bóndi og þá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, reglugerð nr. 910/2014.

Í henni segir m.a. í gr. 10: „Hross skulu hafa aðgang að fóðri a.m.k. tvisvar á sólarhring …“ og „óheimilt er að hafa hross án vatns lengur en 6 klst. og án fóðurs lengur en 14 klst.“.

Ennfremur: „Fóðrun skal hagað þannig að öll hross í hverjum hópi komist að fóðrinu samtímis.“

Í 18. gr. sömu reglugerðar segir um „útiganga“: „Hross sem ganga úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðri og vindum. Þar sem fullnægjandi náttúrulegt skjól, svo sem skjólbelti, klettar eða hæðir, eru ekki fyrir hendi skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem mynda skjól úr helstu áttum. Hver skjólveggur skal að lágmarki vera 2 metrar á hæð og svo langur að öll hross hjarðarinnar fái notið skjóls.“

Í lögum nr. 55/2013, sem framangreind reglugerð byggist á, segir svo í 1. gr. Markmið: „Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.“

Þessi lög og ofannefnd reglugerð mynda þann ramma, sem bændum ber að fylgja í sínu hrossa- og dýrahaldi. Þeir sem geta sagt við sjálfa sig: Ég reyndi eftir megni að fylgja þessum ramma, bæði í gegnum tíðina og nú, geta haft góða samvisku. Verið sáttir við sig og sitt. Hinir ekki."

Mér finnst að það eigi að draga þá drullusokka til ábyrgðar sem brjóta gegn þessum fyrirmælum. Lögbrotin blasa við hvar sem farið er um sveitirnar. Í stað þess er verið að vorkenna fólki sem hefur misst útigangshross sín úr harðrétti eins og gerðist í áhlaupinu.

Útiganga hrossa á skilyrðislaust að fylgja lögunum því annað er hreint dýraníð.


Fréttablaðið í pdf

er mér lífs ómögulegt að fá á skjáinn af vísir.is eða frettablaðð.is. Allskyns annað kjaftæði og önnur blöð sem mig varðar ekkert um en bara ekki blaðið sjálft eins og áður. Getur einhver leiðbeint mér?


Kerfisvandi

er það sem Hörður Kristjánsson ritstjóri Bændablaðsins greinir sem hluta af vandanum sem við er að fást í raforkukerfi landsmanna.

Hörður skrifar:

".... Annar angi þessa máls er að við innleiðingu á regluverki ESB um orkupakka 1 og 2 var skilið á milli framleiðslu og dreifingar á raforku. Engin knýjandi þörf var fyrir slíku á Íslandi.

Það leiddi hins vegar til þess að nú er arðsemi virkjana og orkudreifingarkerfis í algjörum forgangi þegar rætt er um innviðauppbyggingu. Almannahagsmunir skipta viðskiptakerfi ESB með raforku nær engu máli.

Orkupakki 3 styrkir enn frekar þessa markaðsþróun kerfisins sem er oft þvert á hagsmuni almennings. Þetta má berlega sjá í nýlegri skýrslu um jarðstrengi í flutningskerfi raforku. Þar er bent á þá ofuráherslu sem lögð er í að verja eignastofn og tekjumöguleika lagnakerfisins. Ástæðan er einföld.

Við aðskilnað raforkuframleiðslu og flutnings á raforku er ekki lengur mögulegt að nota arð af framleiðslunni til að byggja upp orkuflutningskerfið. Slíkt er túlkað sem styrkur sem raskar samkeppni á markaði. Þar af leiðir verður dreifikerfið vart byggt frekar upp á Íslandi nema það skili ásættanlegri arðsemi lagnafyrirtækja.

Það þýðir hækkun á gjaldskrá fyrir flutning raforku og þar með hækkun á orkureikningum landsmanna. Á sama tíma er Landsvirkjun, sem er í eigu almennra orkugreiðenda, að skila hátt í anna tug milljarða í arð. – Er virkilega einhver glóra í þessu fyrirkomulagi? "

Bloggari hefur lengi bent á það að aðskilnaðurinn milli framleiðslu og dreifingu raforku sem innleiddur var að kröfu EES myndi aðeins hafa kostnaðarauka í för með sér. Tvöföldun á skrifstofuhaldi, yfirstjórn og risnu.

Sem raunin varð á enda hefur verðið á kílóvattstundinni orðið dýrara fyrir neytandann við þessar aðgerðir á sama tíma sem orkufyrirtækin virðast kappkosta að gera gjaldskrárnar eins ógagnsæjar og mögulegt er þannig að neytandinn getur varla fengið samanburðahæfar tölur um orkuverð á Íslandi og í öðrum löndum.

Þetta er svo notað til að halda því fram að sorpbrennsla á Íslandi sé óþörf af því að við eigum nóg af heitu vatni og nóg af rafmagni og því sé óþarfi að vinna það úr sorpi. Því skuli haldið áfram laudauðnarstefnu urðunar og moltugerðar í stað brennslu.

En það er hinsvegar athyglisvert sem Hörður bendir á að kerfisbreytingin hafi beinlínis orðið til þess að dreifingaröryggið sitji á hakanum þar sem Landsvirkjun moki öllum hagnaði heildavinnslunnar til sín og ráðamenn séu nú með áætlanir uppi um það að flytja þann hagnað úr landi til ávöxtunar í Asíu.

Rafmagnsleysið í óveðrinu sé beinlínis afleiðing af orkupökkunum sem svelti dreifikerfið meðan fé landsmanna  sé mokað í aðrar áttir.

EES hefur því aðeins fært okkur kerfisvanda en ekki hagræðingu eins og ráðmenn héldu fram þegar þeir voru að pranga orkupökkunum inn á okkur og þeir ætla ótrauðir að halda áfram með undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

 


Frábær þáttur í RÚV

með stórsveit Reykjavíkur frá 2017 með GÓA og Hauki Grönvold var verið að sýna rétt í þessu.

Þetta getur RÚV ef það getur skilið sig um stund frá kommeríinu sem pirrar suma alveg óskaplega eins og dæmin og Davíð sanna.

Það er nefnilega margt frábært að finna hjá RÚV. Kannski tekst nýjum útvarpsstjóra að feta einhvern betri meðalveg en þeim fyrri þannig að þessum sífelldu upphlaupum linni og menn sættist frekar við apparatið.


En sennilega átta hvorki Samfylking né Viðreisn sig á því.

segir Styrmir Gunnarsson þegar hann veltir fyrir sér afleiðingum sigurs Borisar Johnson:

"Líklegt má telja að BREXIT  upphaf en ekki lokapunktur á grundvallarbreytingum í Evrópu."

Ef maður hugsar sér hvað einkenni stefnu þessara ofantöldu flokka þá lendir maður í vanda með skilning. Ástandið á Alþingi Íslendinga er eiginlega ekki í neinu samhengi við það sem er að gerast í heiminum.

Fyrirbrigðið Píratar er svo til viðbótar óskiljanlegt í hinu stóra samhengi og útilokað að sjá fyrir sér að Íslandi geti gagnast neitt sem frá því furðufólki kemur.Skrípalæti, fíflagangur, hatur og illvilji er það helsta sem ég hef auga á komið en mér kann auðvitað að yfirsjást eitthvað jákvætt.

En þeir sem hafa mest gaman af púsli geta dundað sér við að setja saman ríkisstjórn úr því brotasilfri sem nú er að finna á Alþingi. Sá sem getur sett saman starfhæfa einingu úr því væri snillingur því hvorki Samfylking né Viðreisn átta sig á því um hvað pólitík snýst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband