Stýrivaxtahækkun Seðlabankans upp á 1 prósent, upp í 3,75 prósent, veldur skuldugum heimilum búsifjum.
Heimilin eru með um 700 milljarða í óverðtryggðum húsnæðislánum á breytilegum vöxtum. Vaxtahækkunin í gær hækkar greiðslubyrði þeirra um sjö milljarða á ári. Fyrir ári voru stýrivextir 0,75 prósent. Þeir hafa hækkað um þrjú prósentustig á einu ári. Sú hækkun hækkar vaxtabyrði heimilanna um 21 milljarð á ári.
Hægt er að taka dæmi um tvær íslenskar fjölskyldur. Önnur skuldar 25 milljónir í húsnæðislán og hin 50 milljónir. Báðar fjölskyldurnar eru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum.
Gangi stýrivaxtahækkun Seðlabankans að fullu yfir í útlánavexti banka og lífeyrissjóða, eins og verður að telja mjög líklegt að verði, hækkar greiðslubyrði fjölskyldunnar sem skuldar 25 milljónir um 250 þúsund krónur á ári, eða ríflega 20.800 krónur á mánuði.
Sé húsnæðislánið 50 milljónir tvöfaldast þessar fjárhæðir, þannig að árleg greiðslubyrði hækkar um hálfa milljón og mánaðarleg um 41.666 krónur.
Frá því í maí í fyrra hefur greiðslubyrði húsnæðislána þessara fjölskyldna hækkað um 750 þúsund og 1,5 milljónir á ári. Mánaðarleg greiðslubyrði fjölskyldunnar með 25 milljón króna lán hefur hækkað um 62.500 krónur og sú sem skuldar 50 milljónir þarf nú að greiða 125 þúsund krónum meira í hverjum mánuði en áður en Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt í maí í fyrra.
Til samanburðar er vert að nefna að séu þessi lán til 25 ára er greiðslubyrði af höfuðstól lægra lánsins 83.333 krónur á mánuði en 166.667 krónur af hærra láninu.
Af þessu er ljóst að vaxtahækkanir Seðlabankans valda íslenskum heimilum miklum búsifjum, jafnvel svo miklum að hægt sé að tala um forsendubrest.
Einnig er ljóst að vaxtastefna Seðlabankans mun hafa mikil áhrif á kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningunum sem eru lausir í haust.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stýrivaxtahækkun Seðlabankans galna. Með henni hafi Seðlabankinn lagt línurnar fyrir kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum sem eru lausir í haust.
Þetta er í raun ekkert annað en skýr stríðsyfirlýsing Seðlabankans gagnvart launafólki í landinu. Bankinn stendur með bönkunum og fjármagninu gegn almenningi. Þetta fer að verða spurning um að mótmæla fyrir framan Seðlabankann, segir Ragnar Þór.
Við hljótum að miða kröfugerð okkar við endurheimt þess sem Seðlabankinn tekur með því að láta launafólk bera allar byrðar af baráttu hans við innflutta verðbólgu, segir Ragnar Þór.
Vilhjálmur Birgisson segir ljóst að aukinn fjármagnskostnaður fyrirtækja mun fara beint út í verðlag og þjónustu sem á endanum lendi á herðum neytenda.
Gott væri ef seðlabankastjóri gæti útskýrt á mannamáli hvernig kjarasamningar á almennum vinnumarkaði ógna ætíð stöðugleika í íslensku samfélagi þegar bara þessi stýrivaxtahækkun kostar fyrirtækin jafnmikið og að ganga frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði, segir Vilhjálmur."
Þeim lýtur að vera uppsigað við Seðlabanka Bandaríkjanna sem leyfði sér að hækka stýrivexti eins og Ásgeir um heilt prósent í gær.Sama máli gegndi um Englandsbanka.Þar voru vextir hækkaðir í 1 % sem er fjórða stýrivaxtahækkunin samfellt í röð á þeim bæ! Allt vegna verðbólguhættu.
Og allstaðar er verið að hækka stýrivexti vegna verðbólguáhlaupsins í heiminum.
Því eru þeir Ragnar Þór og Vilhjálmur Birgisson á móti.Vill einhver yfirhöfuð borga vesti?
Hvað vilja þeir gera?
Hvað vilja þeir að Bandaríkin geri?
Eða Bretland?
Eða Ásgeir?
Lækka stýrivexti?
Niðurgreiða vexti?
Þvílík séní eru þessir menn ávallt í efnahagaslögmálum.