Leita í fréttum mbl.is

Furðulegur fyrsti maí?

fannst mér þegar ég skoðaði listann yfir ræðumennina.

Þetta var áður baráttudagur verkalýðsins. Verkamanna og kvenna úr Dagsbrún og Framsýn sem höfðu lægstu launin. Alþýðuhetjur þrumuðu um þá byltingu sem þeir ætluðu að framkvæma fyrir þetta fólk. Sumir gleymdu þessu svo snarlega þegar þeir komust á þing eða í bankastjórnir. 

Núna þrumuðu talsmenn þeirra forréttindahópa sem voru kallaðir opinberir starfsmenn og allir öfunduðu. Æviráðnir í örugg skjól og verðtryggð eftirlaun sem öðrum ekki buðust. Svo kom uppmælingaaðallinn sem eitt sinn voru sakaðir um að raka til sín margföldum verkamannalaunum. Gamall formaður opinberra starfsmanna ríkis og bæja og hokinn af setu á Alþingi og í ráðherraembættum. Svo kom fulltrúi Öryrkjabandalagsins. Ég tók ekki eftir því hvort hommar og lesbíur ættu þarna fulltrúa eða aðrir svo göfugir minnihlutahópar. Lítið bar á Verslunarmönnum því þeir voru flestir að vinna þennan dag.

Gegn hverju er verið að tefla á svona baráttudegi? Er þetta ekki sama fólki og öllu ræður? Situr í stjórnum flestra fyrirtækja í gegnum lífeyrissjóðina? Sama fólkið sem sér til þess að þeir lægst launuðu semji fyrstir um svo til ekki neitt vegna félagslegrar ábyrgðar sinnar.  Svo komi flugstjórarnir og ámóta sérfræðingar á eftir,auk tuga sérhagsmunafélaga með stöðvunarvöld,  og sæki sínar kjarabætur með hetjulegri verkfallabaráttu.

Fram þjáðir menn í þúsund löndum. Alltaf gaman að heyra Nallan blásinn af lúðrasveit verkalýðsins fyrst maí. 

 


23.maður á lista Sjálfstæðisflokksins

Kristinn Karl Brynjarson lætur ekki deigann síga. Það er engu líkara að hinir 22 á listanum þjáist af ritstíflu og Kristinn verði einn ítrekað að kynna málin fyrir þeim kjósendum sem lesa Morgunblaðið.

Kristinn Karl er ritfær maður og skrifar athyglisverðar greinar um muninn á Sjálfstæðisflokknum og hinum flokkunum.

Í dag segir Kristinn Karl Brynjarsson:

"Sjálfstæðisflokkurinn vill, komist hann til valda, efla grunnþjónustuna og gera þá þætti hennar er snúa að persónulegum þörfum fólks enn notendavænni. Flokkurinn vill forgangsraða fjármunum í þágu grunnþjónustu og tryggja að í allri persónulegri grunnþjónustu, frá vöggu til grafar, muni fé fylgja þörf.

 

Flokkurinn vill að í rekstri borgarinnar verði augljós stærðarhagkvæmni hennar nýtt til hins ýtrasta og ávinningur af slíku komi fram í lækkun á útsvari og þjónustugjöldum borgarinnar. Jafnframt því sem hægt verður að stöðva stórfellda skuldasöfnun borgarinnar og greiða niður skuldir.

 

Flokkurinn vill auka frelsi foreldra barna á báðum skólastigum til að velja þann skóla er þeir telja börnum sínum fyrir bestu. Flokkurinn mun stuðla að og efla samráð og samstarf við foreldrasamtök grunn- og leikskóla. Ásamt því að stefna ákvarðanatöku í þeim málaflokki enn frekar í farveg faglegra vinnubragða og samráðs. Foreldrar eiga jú fullan rétt á því að vita hvar skóli barna þeirra stendur í samanburði við aðra skóla í borginni.

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að bætingu á öllum sviðum samgöngumála. Efla samgöngur út í úthverfin og á milli þeirra. Stuðla ber að stórauknu viðhaldi stofnbrauta og annarra gatna borgarinnar. Vinna þarf markvisst að auknu umferðarflæði. Til þess að hægt verði að stuðla að allsherjarbætingu á sviði samgöngumála í borginni þarf að taka upp samning um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem núverandi borgarstjórnarmeirihluti gerði við fyrri ríkisstjórn. Þó svo að greina megi aukinn áhuga fólks á breyttum samgönguvenjum, þá réttlætir sú breyting ekki þá kúvendingu sem í samningunum felst á kostnað umferðaröryggis í borginni. Fjölskyldubíllinn er og verður aðalsamgöngutæki borgarbúa um ókomin ár.

 

Það er einnig áríðandi að tryggja nægan tækjakost borgarinnar til snjómoksturs. Hvort sem það verður gert með kaupum á tækjum eða með verktakasamningum. Það er ekki boðlegt að embættismenn borgarinnar eða þá borgarfulltrúar afsaki ónógan snjómokstur með því að ekki hafi verið búist við öllum þessum snjó! Sinna verður grasslætti í borginni með þeim hætti að sómi verði að og hreinsun í borgarlandinu verður að verða betri. Það er trú okkar sjálfstæðismanna, að standi borgin sig vel í því sem að henni snýr við að halda borginni hreinni, þá muni einnig virðing borgarbúa og gesta borgarinnar fyrir umhverfi hennar aukast. Sjálfstæðisflokkurinn vill auka valmöguleika í sorphirðu og endurskoða 15 metra gjaldið. Enn fremur vill flokkurinn stuðla að veigamiklu átaki í viðhaldi á eigum borgarinnar.

 

Flugvöllurinn er í Vatnsmýri og verður þar um fyrirsjáanlega framtíð. Nefnd um staðarval er að störfum og mun skila af sér á þessu ári. Sjálfstæðisflokkurinn stendur fast á því að innanlandsflug fari ekki til Keflavíkur. Flokkurinn mun berjast gegn því að þrengt verði að núverandi starfsemi á flugvellinum uns endanleg niðurstaða varðandi flugvöllinn liggur fyrir. Við sjálfstæðisfólk í borginni teljum að virkja beri íbúalýðræðið miklu meira í stórum málum og munum berjast fyrir því að borgarbúar komi að endanlegri ákvarðanatöku um flugvöllinn í íbúakosningum.

 

Sjálfstæðisflokkurinn mun stuðla að því að borgin leggi sín lóð á vogarskálarnar við að lækka byggingarkostnað íbúða í borgarlandinu. Með því að tryggja nægt framboð lóða og með því að taka til endurskoðunar gjaldtöku og greiðsluform hinna ýmsu byrjunargjalda við húsbyggingar, eins og gatnagerðar-, holræsa- og tengigjöld.

 

Uppbygging og góð nýting borgarlandsins er nauðsynleg og skilar betri nýtingu á þeim umferðarmannvirkjum sem fjárfest hefur verið í. Þétting byggðar þarf að eiga sér stað um alla borg en við viljum byggja hvert hverfi upp fyrir sig til þess að mynda enn betri sjálfbær hverfi. Stuðla þarf að framboði fjölbreyttra húsagerða og búsetukosta á hverjum tíma, í þéttri byggð og í hefðbundnum íbúðahverfum. Markmiðið er fallegri borg, heilbrigði og sjálfbærni.

 

Við þéttingu byggðar þarf þó umfram allt að gæta að því að búsetuskilyrði þeirra sem við þéttingarreitina búa skerðist ekki. Tryggja þarf að nýjum íbúðum í rótgrónum hverfum borgarinnar fylgi næg bílastæði. Það eru engin skýr teikn á lofti um að fjöldi fjölskyldubíla borgarbúa eða annarra landsmanna minnki svo einhverju nemi næstu áratugi. Af þeim sökum þarf því að gera ráð fyrir því við þéttingu byggðar í rótgrónum hverfum, að umferð í þeim aukist í réttu hlutfalli við fjölgun íbúa í hverfinu. Sjálfstæðisflokkurinn vill klára uppbygginu Úlfarsárdals. Bæði með það fyrir augum að hraða auknu framboði lóða í borginni og að hægt verði að koma upp sjálfbærum þjónustueiningum borgarinnar í hverfinu."

 

Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr og hún skilur sig frá stefnum annarra flokka sem í framboði eru til borgarstjórnar.

Það er aðeins einn flokkur sem býður upp á dásamlega Reykjavík í vor "

Þarna er á ferðinni stjórnmálamaður sem getur  skilið kjarnann frá hisminu og sett málin fram svo lesendur skilji.

Það væri gaman ef hinir 22 frambjóðendurnir finndu einhverja hvöt hjá sér til að spjalla við kjósendur eins og 23. maður á listanum gerir svo ágætlega. 


Góð hugmynd um hælisleitendur

er sú að koma þeim fyrir í Arnarholti. Þó svo ég skilji ekki hversvegna er ekki þörf fyrir þessa glæsilegu aðstöðu lengur fyrir okkar minnstu bræður sem þá voru,(-er virkilega búið að lækna þá alla?-) þá eru þarna miklar byggingar þar sem fólk getur búið með reisn. Þá losnum við við þá áþján sem nágrannar Fit-hostels og fleiri verða fyrir vegna þessa fólks sem ráfar um meðan mál þess eru ekki afgreidd.

Mér var bent í gær á að það er ekki alveg eins einfalt að afgreiða mál hælisleitenda og margur heldur. Þeir koma nefnilega til landsins sem löglegir Schengen farþegar. Gefa sig svo upp eftir einhvern tíma með engin skilríki og gefa ekkert upp sem hægt er að rekja eftir. Gersamlegir huldumenn sem ekki er hægt að snerta. Varanlegt vandamál fyrir landið og miðin. Hóta svo að drepa sig ef við ekki mökkum rétt.

Af hverju allir eru ekki ljósmyndaðir sem koma til landsins eins og gert er í Orlando skil ég auðvitað ekki? Það er sjálfsagt í andstöðu við Schengen samninginn sem við erum fullir aðilar að þó í andstöðu sé við meirihluta þjóðarinnar því Björn Bjarnason og Halldór Ágrímsson eru með.

Það er góð hugmynd að girða svona hælisleitendur af í Arnarholti. 

 


Hvað er að þessu fólki?

sem aðhyllist hugsjónir B.Dags og S.Björns um borgarlíf?

Þeir félagar vilja helst enga bíla. Nú síðast á að leggja af 2/3 bílastæða við Frakkastíg. Hofsvallagatan er orðin einbreið og stífluð. Borgartúnið minna en einbreitt og stíflað. Miklubrautin stífluð, -setjum hana bara í stokk segja þeir.  Byggjum svo blokkir á flugvellinum fyrir hjólríðandi barnafólk sem á bara erindi niður í Kvos. Ráðum meira starfsfólk í félagsþjónustuna. Til þess  hækkuðum við  skatta um 400 þúsund á þessu kjörtímabili umfram það síðasta. Næsta kjörtímabil verður enn glæsilegra þegar Jón Gnarr er ekki að þvælast fyrir þeim B.Degi  borgarstjóra  og S.Birni.

Þegar ég er í Orlando í Flórídu á hverju ári þá duna þoturnar stanslaust yfir húsin á leið til lendingar á McCoy. Hávaðinn er þannig að maður getur ekki hlustað á spólu fyrir utan og verður að setja á stopp. Þetta gengur auðvitað yfir okkur Orlando búa sem sjálfsagður hlutur því þeir vita allir að á þessu lifir borgin og þeir líka. Samgöngum.

Upp í borginn er annar flugvöllur líka, Orlando Executive. Þar fer allt almannaflug fram yfir bænum og enginn amast við því.  Kaninn veit að samgöngur eru undirstaða efnahagslífsins og því dytti honum aldrei í hug að eldsneyti á bíla ætti að vera tekjustofn ríkis og bæja. Tollar og gjöld eru aðeins lagðir á umferð til að borga kostnað við mannvirkin eins veggjaldið í Hvalfjarðargöng. Hann hefði ekki lagt Vestfjarðagöng, Norfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng sem fríkeypisgöng. Þeir sem nota þeir borga.

Það er 19 milljónir manna sem búa  í Florídu. Það koma 35 milljónir túrista þangað á ári. Líklega stór hluti til Orlando. Í þessum túristafans eru aðeins 5 milljónir útlendingar. Evrópumenn hafa sem sagt ekki uppgötvað Florídu ennþá.

Fylkið ber líka  með sér lág laun, lágt verðlag og margt afturúr eins og er á stöðum sem velja sér að lifa aðallega á ferðamennsku.  En fyrir túristann er auðvitað paradís að lifa þarna og meira en helmingi ódýrara á mánuði en hér heima þrátt fyrir gengið. Whiskíið á 900 kall flaskan og bensínpotturinn á hundraðkall, föt á útsölu allt árið og matur kostar þriðjung ad íslensku verði. Nánast allt verð er íslenskt deilt með pí.

Ókeypis sólskin flesta daga.

Ég hugsa stundum þegar hávaðinn er sem mestur hvað margar milljónir dollara séu að færast til Orlando og fólksins þar með þessum flugvélum.  Hvað skyldu þeir S.Björn og B.Dagur hugsa ef þeir væru þarna? Loka flugvellinum? Hvað skiptir þá máli í borgarlífi? Kyrrðin eða lífið? Og með lífi aðeins hjólríðandi  mannlíf á fylleríi í búllugötum? Hversu mikinn auð gæti Reykjavíkurflugvöllur fært til Reykjavíkur ef hann væri skynsamlega nýttur?

Svo auglýsir Halldór Halddórsson oddviti Sjálfstæðismanna í Morgunblaðinu þessar einföldu staðreyndir:

„Lækkum skuldir og skatta“

Á hverri einustu klukkustund á þessu kjörímabili hafa skuldir

borgarsjóðs aukist um 625 þúsund krónur. Á kjörímabilinu

hefur 5 manna jölskylda borgað 403 þúsund krónum meira til

borgarinnar en á kjörímabilinu á undan.

Í hvað hafa þessir peningar farið?

Þjónustan hefur minnkað, margir skólar og skólalóðir eru í niður­

níðslu, velferðarkerfið er að springa, byggingar leka og borgin er

illa hirt. Reykjavík er eit af skuldsetustu sveitarfélögum landsins

og hefur borgarsjóður aukið skuldir sínar um 30% á sama tíma

og önnur sveitarfélög eru með 3% skuldaaukningu að meðaltali.

Reykjavík getur nýt stærðarhagkvæmni sína betur, borgarbúum

il góða, og það gerum við með ábyrgri fjármálastjórn.

AUKUM ÞJÓNUSTU OG LÆKKUM ÚTGJÖLD

Dásamlega Reykjavík

● Minnkum álögur á jölskyldur – lækkum skatta.

● Aukum tekjur borgarinnar.

● Gerum bókhaldið sýnilegt – setjum nóturnar á netið.

● Sinnum viðhaldi á eignum Reykjavíkurborgar. "

 

Kjósendur í Reykjavík sem vilja áfram þá stjórn sem tíðkast hefur á kjörtímabilinu með bruðli, ónauðsynlegum mannaráðningum og sífelldu áreiti við atvinnustarfsemi í borginni og skattahækkunum þeir kjósa B.Dag og S. Björn til áframhaldandi forystu. Þá  er allt þetta bull og vitleysa sem Halldór Halldórsson er að segja í blaðinu. Skyldi maðurinn vera svo gersamlega heillum horfinn að svo sé? Hann sjái eitthvað sem ekki sé þarna? Hann sjái bara ofsjónir? 

Við flugvallarvinir sjáum hinsvegar þann takmarkalausa illvilja gagnvart atvinnulífi landsmanna sem birst hefur í ofsóknum þessarra kumpána gegn  tilvist Reykjavíkurflugvallar þar sem þúsund m anns vinna.  Því miður hefur saklaust fólk og hrekklaust ekki áttað sig á skaðsemi stefnu þessara manna og ekki veitt þá mótspyyrnu sem skyldi. Nú hefur þetta Sjálfstæðisfólk horfið frá villu síns vegar og til dæmis greiddu þær Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir nú síðast báðar atkvæði gegn deiliskipulaginu sem hefði eyðilagt flugbraut NA-SW alveg gersamlega án tillits til þess hvað einhver Rögnu-nefnd sem er að störfum myndi segja um flugvallarmál.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur núna einhuga að baki Flugvellinum og ætlar að verja hann óskiptan.  Því hefur Framsóknarflokkurinn ásamt flugvallarvinum líka lofað með framboði sínu. Reykjavíkurflugvöllur á því einhverja von ef menn kjósa ekki ekki núverandi meirihlutaflokka í Borginni heldur hina skynsamari menn.

Þetta allt sem sýnir að Rögnu-nefndin var stofnuð einunglis í bekkingarskyni og gerir því gys að því starfi sem góðir og gegnir menn sem voru skipaðir í hana halda að þeir séu að vinna í alvöru og einhverjum tilgangi. Því miður verður niðurstaðan af starfi Rögnu-nefndarinnar að engu höfð því hún er löngu fengin hjá þessum kumpánum Degi B. og S.Birni:  Flugvöllurinn skal burt, það hafa þeir löngu ákveðið með samþykktum Aðal-og Deilskipulögum .

Það fólk sem enn hefur ekki  séð í gegn um málatilbúnað þessara kumpána kýs þá væntanlega áfram. Við því er ekkert að segja.

Maður getur þá bara andvarpað og spurt sig:

Hvað er að þessu fólki? 


Flugvallarfundir

voru haldnir í dag. Þar var ekki B.Dagur né S.Björn heldur þeir helstu vitmenn sem hægt er að finna um flugmál.

Fundur var boðaður í SES sem þýðir samtök eldri sjálfstæðismanna. Fundinn átti að halda  í Valhöll. En þessi samtök undir formennsku Halldórs Blöndal hittast þar á hverjum miðvikudegi kl 10:00 árdegis. Þarna koma einhverjir tveir tugir gamalla baráttujaxla og ráða ráðum sínum. Nú bar svo við að þeir auglýstu að Friðrik Pálsson hótelhaldari á Rangá og Arngrímur Jóhannsson kenndur við Atlanta myndu hefja umræðuna um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Nú brá svo við að fundarrýmið sprakk utanaf fundnum og varð Blöndal að hafa hraðar hendur á að dirka upp aðalsalinn til að taka við fjöldanum sem fyllti hann. Þetta sýnir að að Rreykjavíkurflugvöllur er ekki yfirgefinn illum örlögum og þeim banaráðum sem vinstra liðið í Borgarstjórninni er að brugga honum. 

Arngrímur og Leifur fluttu inngangserindi og svöruðu spurningum fundarmanna sem voru margvíslegar. Rauður þráður var að Rögnu-mefndin myndi ekki finna neina nýja staði undir flugvöll í Borgarlandinu. Enda búið að leita áratugum saman. Dagfinnur Stefánsson, Geysisflugmaðurinn gamli", sagði sína skoðun óhaggaða að gott flugvallarstæði væri á Álftanesi en hvergi annarsstaðar utan Vatnsmýrar.Hann hefði sjálfur rannsakað þetta og vissi þetta upp á hár. En þetta myndi kosta fé og hvar myndi þess von?

Fram kom á fundinum að meirihlutinn í Reykjavík hefði komið Rögnu-nefndinni á fót með slægð og undirferli í því skyni að segja kjósendum að flugvallarmálið væri ekki á dagskrá í kosningunum þar sem það væri í ákveðnum farvegi í þessari nefnd. Mikilvægt að fólk léti ekki blekkjast í áróðursmoldviðrinu sem er rétt að bresta á.

Enda koma á daginn í máli Leifs Magnússonar að lítið væri gert með svör eða ályktanir á bæ meirihlutans. Miklu heldur væri ekki hægt að rökræða við þetta fólk um flugmál því það hefði enga þekkingu fram að færa né hefði áhuga á vitrænum umræðum hér að lútandi og svöruðu í besta falli útúr með óskyldum klissíum.

Þessi lýsing passaði  beint við þann atburð þegar stórkaupmaður Jóhann J. Ólafsson,  3. maðurinn í samtökunum um betri byggð fór í pontu og hélt því fram að flugvallarmálið væri ekki kosningamál, það væri ekkert á dagskrá og vildi því tala um leikskóla eða þvílíkt í borginni. Hann var hálf-púaður niður hann Jóhann J. eftir þetta og fór því skipulega  úr ræðustólnum. Eftir stendur að fjöldi fundarmanna vildi ekki heyra annað en flugvallarmálið væri höfuðkosningamálið. Allar tilraunir meirihlutaflokkanna til að drepa því á dreif myndu renna út í sandinn.

Fram kom á fundinum að Reykjavíkurborg geti ekki sannað eignarhald sitt á landinu undir flugvellinum á nokkurn hátt hverju sem B.Dagur og S. Björn halda fram öðru. Borgin keypti einhverja fermetra  af Vatnsmýrarbletti 5 sem var erfðafesta Eggerts bónda í Viðey. Jón Kristjánsson seldi íþróttafélaginu Val sína erfðafestu á Hlíðarenda og þar er Valur enn sem eigandi.  Á öðru  þyrfti Borgarstjórn að sanna eignarrétt sin á og lögsögu yfir svæðinu, sem ekki er almennt viðurkennt þar sem íslenska ríkið fékk völlinn afhentan frá Bretum 1947 með öllu sem honum fylgdi. En Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins og þá ráðherra , veitti vellinum viðtöku fyrir hönd þjóðarinnar allrar.

Halldór Hallddórsson oddviti Sjálfstæðismanna koma á fundinn og sagði einhug nú ríkja í framboðsflokknum. Hildur Sverrisdóttir, Áslaug Friðriksdóttir og Marta Guðjónsdóttir hefðu allar greitt atkvæði gegn þeirri deiliskipulagstillögu sem nú ræðst gegn flugvellinum.  Um flugvallarmálið ríkti nú alger einhugur meðal framboðsfulltrúa til Borgarstjórnar í lok maí maí-mánaðar. Menn geta því treyst Sjálfstæðisflokknum til  nauðsynlegrar varðstöðu um Reykjavíkurflugvöll sem skildi Sjálfstæðisflokkinn frá öðrum framboðum sem ekki væru svo afdráttarlaus og einföld í sinni liðveislu við Reykjavíkurflugvöll. Var gerður góður rómur að máli Halldórs en ekki var laust við að fundarmenn drægju getu  flokksins til að kynningar vera takmarkaðann í besta falli. Enda kom afram í máli Halldórs að bæði svonefndir Baugsmiðlar og RÚV sniðganga Sjáflstæðisflokkinn á áberandi hátt.

Seinna um daginn fór bloggari á fund Framsóknarmanna á Reykjavíkurflugvelli þar sem þeir gerðu grein fyrir órofa samstöðu sinni við flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Þessi flokkur Framsóknarmanna er hið fríðasta lið og vel máli farið, Það var ekki hægt annað en senda þeim heillaóskir í tilefni dagsins þar sem þeir eru komnir með listann á hreint. En af einhverjum ástæðum lét honum miður að skrifa frásögnina við undirleik vindhörpunnar frekar en við vísitöluskrölt bankanna.

Þetta var ánægjulegur dagur að finna það að stuðningur við áframhaldandi tilvist Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni  er vaxandi og að svo margt gott og góðviljað fólk er komið í varnarsveitina. Vallarvinir eru ekki lengur einir á báti því málsmetandi fólk úr stjórnmálunum er komið til liðveislu.

Flugvallarfundirnir í dag eru vonandi aðeins forsmekkurinn af almennum stuðningi við Reykjavíkurflugvöll sem hefur svo  ótalmarga efnahagslega kosti fyrir Reykjavík sem höfuðborg Íslands. Völlurinn þekur aðeins 1.4 % af byggingarlandi Reykjavíkur. Því verður ekki trúað að hagræðing geti leyst þá eftirsjá sem sumir hafa á landinu undir vellinum. Þeim sömu er bent á að horfa á byggðakjarnana  á henni Florídu þar sem varla er til svo aumt þorp eða pláss að ekki sé þar flugvöllur. Samt eiga Bandaríkin þá dýrlegustu vegi sem nokkur staðar finnast og umgangast náttúruna með  slíkri varfærni að við gætum margt af þeim lært.      

Styðjum þau öfl í stjórnmálum sem bera  Reykjavíkurflugvöll fyrir brjósti en styðjum hin ekki. Og greinum milli lygi og sannleika.  Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá.                           


B.Dagur og S.Björn blekktu

með bandvitlausri gjöf þegar þeir settu svonefnda Rögnu-nefnd á stofn til að finna nýtt flugvallarstæði utan Vatnsmýrar. Auðvitað vissu þessir kumpánar upp á hár að slíkt er hvergi að finna.  B.Dagur settist sjálfur í samstarfshópinn og hefur að sögn haldið þar uppi innihaldslausu snakki út um móa og grundir til dæmis um hugsanleg önnur verðurskilyrði á Hólmsheiði en þegar er um vitað og annað álíka gáfulegt. Læknir í flugvélaleik sem talar og talar og blekkir og blekkir. Allavega hefur þeim tekist að nota nefndina sem pólitíska skiptimynt sem verður fleygt á haug strax eftir kosningar.

Tilgangur þeirra kumpána með nefndarskipaninni var aldrei annar en að drepa flugvallarmálinu á dreif svo að þeir hefðu frið fyrir því um kosningarnar. Það er raunalegt til þess að vita að grandvarir menn og gegnir létu þá prakka sig til að taka sæti í nefndinni sem þeim var talin trú um að myndi hafa alvarlegan tilgang.  Blessaðir mennirnir áttuðu sig bara ekki á því að hér er aðeins um undirmál og blekkingar þessara pólitísku kumpána að ræða. Þeir ætla sér ekkert með neinar niðurstöður að gera. Hverjar sem þær verða.

Þeir eru nefnilega ekki að leita að einu né neinu. Það er ekki þeirra stíll. Þessir kumpánar gera aldrei neitt annað en þeim sýnist sjálfum með rök eða tillögur sem þeim eru ekki þóknanaleg,  sbr. afstöðu þeirra til 70.000 undirskrifta eða hundruða mótmæla við Aðalskipulaginu, sem þeir neyddu í gegn um Borgarstjórn með atbeina nytsamra sakleysingja úr minnihlutanum.

Öll barátta Samfylkingarinnar í Borgarstjórn frá og með regeringtíð Ingibjargar Sólrúnar með Alfreð sem hækju er ein samfelld saga undirferlis, blekkinga  og óheilinda í pólitík þar sem svart verður hvítt og rekstrarafgangur sem breytist í rektrarhalla er bara undirliggjandi halli sem er allt annað en rekstrarhalli sem allir Samfylkingarmenn vita að er ekki rekstrarhalli eins og hjá Sjálfstæðismönnum. Og það var líka bara þá eins og hún útskýrði það.

Öll þeirra pólitík er þannig blekking og Pótemkintjöld til að breiða yfir aulaháttinn í rekstrinum sem blasir við hverjum sem vill sjá í yfirmönnun Borgarapparatsins.  Þeim tókst meistaralega allt kjörtímabilið að fela sig á bak við Gnarrinn  sem tók skóla-og gatnaþrengingaskellina með sínu barnslega brosi og hreinleika hjartans sem enginn getur reiðst. Mér finnst hinsvegar ljótt þegar svona pólitískir pörupiltar fara svona með góðhjartað fólk og grandvart eins og hann Jón Gnarr er svo sannarlega. Enda hefur Samfylkingin reynst öllum óhollur félagsskapur sem reynt hafa. Kratar  eru verstir sagði Tryggvi Ófeigsson og vissi hvað hann söng. 

Þeir frómu menn sem létu prakka sig til að taka sæti í Rögnu-nefndinni ættu að átta sig á því að þeir hafa verið misnotaðir sem peð í blekkingaleik B.Dags og S.Björns með flugvallarmálið til að halda því úr umræðunni yfir blákosningarnar.  Mér finnst að þeir væru menn að meiri að átta sig á þessu og segja sig úr þessari nefnd án tafar.  Ragna Árnadóttir, þaulvön griðkona og blómaskreyting úr Jóhönnustjórninni, getur sem best klárað þessa leit upp á eigin spýtur enda ekki um ókunn lönd að fara. Öll skipun Rögnu-nefndarinnar var nefnilega ekki gerð til annars en að afvegaleiða og blekkja kjósendur til að bæta pólitíska vígstöðu þessara áminnstu kumpána. 

Skiptir það ekki máli að maður átti sig á staðreyndum í hinu pólitíska spili þótt seint sé  þar sem þeir B.Dagur og S.Björn hafa hvort sem er gefið vísvitandi vitlaust? 


Vilja Reykvíkingar mosku?

á besta stað í borginni? 

Hefur einhver spurt að því hvort Reykvíkingar almennt vilji að framandi trúfélögum  séu gefnar þvílíkar gjafir af skattfé sem felast í gerningum Dags B. og Gnarrsins, að úthluta múslímum ókeypis lóð undir mosku á besta stað í bæjarlandinu?

Hefur einhver  spurt að því hversvegna álit Reykavíkinga á tilvist Reykjavíkurflugvallar  skipti sömu kumpána og þennan S.Björn Blöndal nákvæmlega engu máli þegar kemur að umræðu og framkvæmd Aðalskipulags sem er ekki samstaða um í Borgarstjórn? Öllum athugasemdum vísað út í hafsauga.  Hafa ekki fram að þessu Aðalskipulög yfirleitt verið afgreidd samhljóða í sveitarstjórnum? Er það bara í Reykjavík sem Aðalskipulag er afgreitt í algerum ófriði við íbúana?

Er Það ekki  miður að tök Dags B. og hans manna á fjölmiðlum Baugs og Ríkisins eru með þeim hætti að aðrar raddir en hans eigin heyrast þar varla?  Undirskriftalistar hafa nákvæmlega ekkert vægi í huga fólks eins og S.Björns Blöndal. Hann segist aðspurður ráða og þar við sitji.

Ég velti fyrir mér hver sé afstaða kristinnar þjóðar eins og Íslendinga til innrásar múslíma í landið okkar? Hvaða áhrif hefur sú þróun að 2.800 útlendingar flytja til landsins á sama tíma og 800 Íslendingar flýja land? 1 % breyting á samsetningu þjóðarinnar. Breytti það engu  þó að þetta yrði 10 %?

Vilja Reykvíkingar virkilega mosku miðsvæðis og engan flugvöll?


Hvernig í ósköpunum

hugsa Íslendingar sér að byggja upp framsækið þjóðfélag með vexti og viðgangi í ferðaþjónustu sem byggist á samgöngum eða hverri grein sem er með það fyrirkomulag í stéttarfélögum og vinnudeilum sem hér viðgengst? Hvernig í ósköpunum geta svona margir haldið því fram í alvöru að Íslendingar geti búið við "stöðugan" gjaldmiðil og meina þá til dæmis Evru í stað óstöðugrar krónu eins og þeir kalla það með þetta fyrirkomulag óbreytt? Hvernig geta "kjaraleiðréttingar" valinna forgangshópa  upp á tugi prósenta gengið upp án verðbólgu? Hvað þýðir verðbólga í Evruríki?

Mér er þetta hulið. En ég get ekki annað en rifjað það upp, að Bretland var í svipaðri stöðu og við Íslendingar núna fyrir tíma Margrétar Thatcher. Ég veit ekki lengur hvernig hún fór að því að breyta Bretlandi frá því að vera land stöðugra verkfalla sem lömuðu allt efnahagslíf Breta og voru búin að stöðva lífskjarabata í landinu til þess sem nú er, þegar Bretland skarar fram úr á svo mörgum sviðum?

Getur einhver útskýrt það fyrir mér hvernig Íslendingar geta samræmt þjóðhagsleg markmið sín við það að búa við marga tugi stéttarfélaga sem hvert um sig getur stöðvað eða lamað efnahagslíf þjóðarinnar langt út fyrir starfsumhverfi viðkomandi félags?  Er það ekki orðið aðkallandi verkefni að reyna að koma böndum á fyrirkomulag vinnudeilna og verkfalla? Eða finnst öllum þetta bara vera í lagi?

Hvernig í ósköpunum komumst við hjá því að taka á þessu? 


Burt með Gísla Martein

úr sjónvarpi allra landsmanna RÚV fram að kosningum.

Það er algerlega óásættanlegt hvernig Gísli Marteinn hampar meirihlutaflokkunum í Reykjavík með hverju sófaviðtalinu af öðru við þeirra fulltrúa en gersamalega sniðgengur frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins. Þeirra sjónarmið heyrast ekki. En hinsvegar raddir meirihlutaflokkanna í Borgarstjórn og  svo "evrópusinnaðara" Sjálfstæðismanna fá ágæta umfjöllun.

Hvernig væri að Gísli yrði hvíldur fram að kosningum í það minnsta. Hafi RÚV verið talið hlutdrægt í tíð síðustu ríkisstjórnar þá réttust metaskálarnar ekki með þessum Sunnudagsþáttum  Gísla Marteins sem nú virðist "hefna þess í héraði sem hallaðist á AlÞingi" með því að ganga svo í  björg Samfylkingarinnar sem raun ber vitni.

Burt með Gísla Martein úr RÚV fram að kosningum. 


Brjálæðislegur kostnaður

við rannsóknaskýrslur Alþingis er til umræðu á Sprengisandi Sigurjóns. Hvernig í veröldinni er hægt að réttlæta hátt í tvo milljarða fyrir einskis nýtar pappírshrúgur. Ég segi einskisnýtar því að enn hefur ekki verið dreginn minnsti lærdómur af hvorki fyrri skýrslunni né skýrslunni um sparisjóðina. 

En með sparisjóðina er sagt að vissir aðilar haf fengið of mikil lán og orðið kerfinu að falli. Þessir vissu aðilar eru fyrst og fremst Jón Ásgeir og Baugurinn í kring um hann. Ég sá þetta byrja að gerast þegar ég sá að Jóhanna Waagfjörð var komin í stjórn SPK fyrir Baug  og allt sem á eftir fór. Jón notaði svo Glitni til að ná út peningum hjá almenningi  sem átti að borga meira stofnfé inn svo hann gæti fengið meiri lán. Þá laug Glitnir  því að annara trygginga yrði ekki krafist en bréfanna sjálfra. En hann sagði auðvitað ekki að undirskriftin væri skuldbindandi. Hvíta-Birna og liðið sem við tók í hrægammabankanum Íslandsbanka guggnaði á að gera ekkjur og gamalemnni ásamt mér gjaldþrota með innheimtu.

  Hrunið kom í veg fyrir þetta trikk Jóns Ásgeirs, sem var þaulhugsað fantabragð og sýnir innrætið svo um munar.  Það er verið að hundelta lakæja Jóns Ásgeirs eins og ræfilinn hann Lalla Welding en sjálfur sleppur hann og heldur sig ríkmannlega.

Það er sá eini lærdómur sem ég sé koma til mín úr sparisjóðaskýrslunni. Allt búið, allir sloppnir nema Ragnar Z og Jón Þorsteinn, ekkert hægt að gera. Og allt verður endurtekið næst þegar tækifæri gefst.

Svei attan öllu þessu bixi. Álit mitt á Alþingi hefur ekki vaxið við þennan brjálæðislega kostnað fyrir ekki neitt.  


www.spotfn.com Beware!

Beware! If you want to know why, email h83046@gmail.com

er fyrirsögn sem fer væntanlega beint inn á Google.

Þannig er leitarvélin orðin verkfæri til að koma einkaskoðun á framfæri. Þetta er því tilraun mín til að hafa áhrif á heimsvísu. Nú fer ég bráðum á Google og gái hvort hún finni þessa síðu.


Áskorunarlista á Guðna

Ágústsson til að taka 1. sætið á lista Framsóknar í Reykjavíkurborg vantar strax!

Allir flugvallarsinnar munu flykkja sér um Guðna alveg án fordóma á Framsóknarflokknum. Hann hefur einn gefið afgerandi yfirlýsingu um að hann ætli að berjast fyrir Reykjavíkurflugvöll.

Er hægt að gera eitthvað strax?

Reykjavíkurflugvelli liggur lífið við! Guðni mun ekki bregðast ef fólk er ákveðið.

Söfnum undirskriftum á áskorunarlista almennings fyrir því að Guðni gefi kost á sér í Borgarmálin!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband