Leita í fréttum mbl.is

Innistæðutryggingar EU

eru að taka gildi í árslok 2010.   DGS heitir kerfið og er kynnt 12.júlí 2010. Samkvæmt því ætla öll Evrópusambandsríkin að setja upp sameiginlegt tryggingakerfi fyrir því að fari einhver banki á hausinn þá borgi allir allt að hundraðþúsund evrum á sparifjáreiganda.

Röksemdir eru tilgreindar í inngangi frumvarpsins(EAn COMMISSION Bussels,12.7.2010COM(2010)268 final2010/0207(COD):

"No bank, whether sound or ailing, holds enough liquid funds to redeem all or a significantshare of its deposits on the spot. This is why banks are susceptible to the risk of bank runs ifdepositors believe that their deposits are not safe and try to withdraw them all at the sametime. This can seriously affect the whole economy. If, despite the high level of prudentialsupervision, a bank has to be closed, the relevant Deposit Guarantee Scheme (DGS)reimburses depositors up to a certain ceiling (the ‘coverage level’), thereby meetingdepositors’ needs. DGSs also save depositors from having to participate in lengthy insolvencyproceedings, which usually lead to insolvency dividends that represent only a fraction of the

original claim...."

Hugsunin er sú að áhættu af hruni eins banka meðlímaríkjanna verði dreift yfir alla banka svipað og í Bandaríkjunum.

Þegar Bretar og Hollendingar er aðilar að þessari hugsun í orði og borði, skýtur þá ekki skökku við að þeir geti krafist þess að minnsta þjóðin á EES svæðinu eigi að ábyrgjast hrun einkabanka síns með öllum þjóðarverðmætum sínum? 

 Það má segja að það verði of seint fyrir núverandi ríkisstjórn að gera kröfur eftir þessu kerfi þegar Alþingi verður búið að ganga frá málinu í þeim óskapa asa sem nú virðist á málinu.  En hversvegna skyldum við ekki ræða þessu mál aftur í ljósi þeirrar þróunar sem er að verða innan EU á grundvelli DGS?  

Af hverju eigum við að bera alla ábyrgð einir þegar við erum á EES svæðinu en er ógnað núna með því að við eigum að fara fyrir Evrópudómstólinn til að þola dóm hans vegna Icesave? Við getum ekki vísað málinu til íslensks dómstóls vegna EES. Hvar er samvinnuhugsjónin sem við gerðumst aðilar að þegar við gengum þar inn? Ættum við hugsanlega að hugleiða að segja okkur úr þessu samstarfi og afgreiða Icesave-málið í ljósi þess?

 Hvað liggur svona á að Sjálfstæðisflokkurinn setur nú líf sitt undir að keyra þetta mál í gegnum Alþingi? 

Hversvegna?  

 


Þjóðaratkvæði

virðist vera eina skynsamlega leiðin  núna í Icesave málinu. Umheimurinn þarf að vita hver afstaða Íslendinga er gagnvart kröfunum sem að þjóðinni beinast. Ekki spyrja að flokkadráttum.

Líklega er það ómaksins vert fyrir þingflokk Sjálfstæðismanna,  að vinna að því að málið fari á ný fyrir þjóðina. Það er alls ekki víst að það dugi öllum hæstvirtum þingmönnum flokksins til framhaldslífs en það er allavega  tilraun.

Eftir stendur að flokksmenn munu hugsanlega spyrja sig hvort þeir þingmenn sem að málinu stóðu hafi nægilegan flokksþroska og landsfundarminni til að fara með umboð flokksins til lengri tíma. Slíkt leiðir auðvitað aðeins tíminn í ljós og framtíðaratburðirnir sem öllum stjórnmálum ráða.

 En öldurnar hafa risið hátt og ekki heiglum hent að stíga þær án þess að kikna í hnjáliðum.

Þjóðaratkvæði virðist vera sú sjóveikispilla sem flokkurinn gæti nú gripið til.


2.Minnihluti fjárlaganefndar

 

Ég hef reynt  að lesa mig í gegn um álit 2. minnihluta Sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd. Eftirtalin atriði dró ég saman  sem aðalatriði mér til skilningsauka: ( Mín innskot eru í svigum)

 

"Frá upphafi Icesave-deilunnar hefur 2. minni hluti talið að engin lögmæt greiðsluskylda hvíli á ríkissjóði Íslands fyrir því að greiða svokallaða Icesave-skuld og því beri ríkissjóði enginn skylda til að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingum einkafyrirtækisins Landsbanki Íslands hf.....

..... Þá hafa Íslendingar ekki viðurkennt að þeim beri lagaleg skylda til að veita ríkisábyrgð á lágmarkstryggingu á innstæðum Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. Hvergi kemur fram í umþrættri innstæðutilskipun Evrópusambandsins 94/19/EB að gert sé ráð fyrir því að ríkisábyrgð gildi um lágmarkstryggingar. Þá er einnig ljóst að tilskipun ESB um innstæðutryggingar var aldrei ætlað að gilda um kerfishrun eins og varð á Íslandi í október 2008. .....

(Ísland stóð hörmulega eitt og yfirgefið um miðjan nóvember 2008. Öll spjót svokallaðra vinaþjóða, utan Færeyinga,  beindust að landinu og  Bandaríkjamenn hrærðu hvorki hönd né fót.)

......Þrátt fyrir að engin skylda stæði til þess gáfu stjórnvöld hér á landi út pólitíska yfirlýsingu á fundi í Brussel 14. nóvember 2008 um að Ísland mundi greiða lágmarkstryggingu vegna Icesave-reikninganna sem þá nam 20.887 evrum inn á hvern reikning. ...

(Er þetta ekki gert við sömu aðstæður og Gizur Þorvaldsson var í þegar hann vann Sturlu Sighvatssyni  eiða á Apavatni?  Var eitthvað val ?  Er þessi óheppilega  yfirlýsing  ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins við þær aðstæður marktæk? Tók ekki þjóðin hana til baka í þjóðaratkvæðagreiðslu vorið 2010 og með málshöfðun Alþingis á hendur Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra? )

Inn í hana kom eftirfarandi ákvæði 15. nóvember 2008: „Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar."

(Eftir þetta kom félagi Svavar heim "með glæsilega niðurstöðu" fyrir Steingrím J. Málið var tekið upp aftur þegar jafnvel viðsemjendunum ofbauð.)

.... . Verði það hins vegar niðurstaða dómstóla (sem enginn virðist geta bent á með vissu  hverjir verða! (INNSKOT HÖF))að ákvæði neyðarlaganna um forgang innstæðna við búskipti haldi ekki hefði það áhrif langt út fyrir þetta svokallaða Icesave-mál þar sem búið er að greiða út úr búum Kaupþings og Glitnis allar innstæður sem forgangskröfur.....

.....Brussel-viðmiðin voru grundvöllur að pólitískri lausn Icesave-málsins og fólu m.a. í sér að fullt tillit skuli tekið til hinna fordæmislausu aðstæðna Íslands og að tryggt sé að Íslendingar geti endurreist fjármála- og efnahagskerfi sitt. Þá fela Brussel-viðmiðin það í sér að Evrópusambandið skuli vera aðili að lausn málsins. Sambandið hefur hins vegar aldrei komið að borðinu í öllu samningsferlinu....

 

                       Niðurstaða þingflokks Sjálfstæðismanna.

  .....Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi lagt á það áherslu að leitað yrði pólitískrar lausnar á þessu máli....

.... Án þjóðaratkvæðagreiðslunnar í upphafi árs 2010 sætum við Íslendingar nú uppi með óviðráðanlega skuldastöðu sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var tilbúin til að leggja á þjóðina.....

.... Eftir höfnun afarkostanna í þjóðaratkvæðagreiðslu 2010 var vilji þingflokks Sjálfstæðisflokksins enn sá að leiða málið til lykta með samningum...

....Eins og fram kom hér að framan er það mat sérfræðinga að líklegt sé ef ekki verður samið að Bretar og Hollendingar muni halda uppi andófi gegn Íslendingum sem gæti leitt til tjóns fyrir íslenska ríkið...."

                   Hugleiðingarmínar að loknum lestri:

 

Eru  samþykktir  Landsfundur Sjálfstæðisflokksins  ekki bindandi fyrir þingflokk?

Var ekki þjóðin að segja sig frá fyrri  yfirlýsingum þáverandi stjórnvalda í atkvæðagreiðslunni 2010?Er ekki  Alþingi búið  að höfða mál fyrir Landsdómi á hendur þáverandi  forsætisráðherra vegna yfirlýsinga eða skorts á yfirlýsingum  ?

Af hverju vill þingflokkur Sjálfstæðisflokkurinn núna taka forystu í lausn Icesave málsins ?

Hversvegna þarf að ljúka Icesave málið núna?

Eykur þetta fylgi Sjálfstæðisflokksins?

Hver verða áhrifin á Sjálfstæðisflokkinn   ef þessu máli yrði skotið öðru sinni til þjóðarinnar og yrði hafnað?

Hefur þetta frumkvæði Sjálfstæðismanna áhrif á gengi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur ?

Er samningurinn endanlegur? Höfum við með samningunum lokað ámögulega  málshöfðun á Breta vegna áhrifa hryðjuverkalaganna á Singer&Friedlander og Heritable bankana?

Höfum við afsalað okkur rétti til að verja okkur fyrir íslenskum dómstólum vegna málsins ? 


Þórshamarinn

rann upp fyrir mér allt í einu þegar ég var að horfa á mynd af fornum kastvopnum frá Kongó. Mér fannst ég heyra nafnið Chonga eða eitthvað svoleiðis, sem er nú notað um sumt kvenfólk. Nafnið  líktist allavega hljóðinu sem kom þegar þessu áhaldi var kastað. En hvað var þetta.

Jú vopnið var óhuggulegur fjögra arma kross, svona hálfur metri í þvermál, úr einu smíðastálstykki, þar sem krossinn  vinkilbeygðist  í úthamrað hnífsblað.sem stefna hornrétt á krossarmana. Þórshamar eða hakakross fyrir okkur norðurslóðamenn.

 Þegar þetta var komið í hendurnar á kastaranum rann upp fyrir manni hversu hrikalegt vopn þetta er. Svo hrikalegt að einn kóngur í Kongó lét banna það sem gereyðingarvopn. Því ef það hittir í skjaldarbrún þá snýst það yfir og fer á bakvið skjöldinn með hrikalegum afleiðingum fyrir þann sem á skildinum heldur. Vopnið spinnur um öxul sinn og er því gýróskópiskt stöðugt á flugi eftir beinni braut. Það virtist hvína grimmilega í því á fluginu í myndinni á History Channel.  Og svo lendir það með flughraðanum og snúningshraðanum til viðbótar. Wham, það er betra að vera ekki fyrir.

Ah-ha, hugsaði ég. Þarna er líklega skýringin á þeirri helgi sem á þessu merki hefur verið í mannkynssögunni. Ógnin sem af því stafar. Ég hef aldrei séð neitt talað um þetta form nema sem trúartákn og helgimynd né spáð í það frekar til hvers það væri. Nú finnst mér  þetta skiljanlegra.

 Þetta kastvopnshlutverk kom mér algerlega á óvart. Þórshamarinn er þá líklega upprunalega kastvopn úr málmi.. Eiginlega meira  hræðilegt en krossinn sjálfur sem kristnir menn hafa í hávegum því þetta er útrýmingarvopn en ekki pyndingartæki.   Hitler sjálfur virðist ekki gera sér grein fyrir hvað merkið táknar þegar hann teiknar nasistamerkið. Eimskipamenn velja það líklega sem tákn úr goðafræðinni og setja í merki sitt án þess að skilja hvað það merkir.

Til eru fjölblaða kasthnífar en á þeim sem ég hef séð snúa oddarnir út. Þórshamarinn virðist mun öflugri til illra verka heldur en slíkir kasthnífar vegna snúningsins og blaðstefnunnar. Spjót  gæti virst leikfang miðað við þetta vopn.  

Veit einhver meira um þetta?   


Friðkaup

í anda Chamberlains dettur manni í hug við tíðindi af þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem vilja semja við Breta og Hollendinga um greiðslu Icesave lll. Er þetta það sem þjóðin vill?

Ég tel að Sigmundur Davíð hafi gert manna skynsamlegastu  greiningu á málinu í Mbl.í dag. Ég vil hvetja alla til að lesa þessa grein Sigmundar Davíðs. Hjá mér rak hún endahnút á hringsnúninga þá sem ég hef verið þjakaður af eftir praktískuræðu Tryggva Þórs hér á dögunum í Kópavogi. Þar sagði Truggvi samt að hann ætlaði að láta þjóðina ráða fyrir sig.

Er einhver skynsamleg ástæða til þess núna að rjúka til að semja við Breta og Hollendinga? Er einhver nauðsyn á að klára þetta mál á Alþingi núna? Eru ekki við mörg brýnni mál að fást? 

Væri það pólitískt sterkt af Sjálfstæðisflokknum að fara núna að styðja Icesave lll?   Vill þjóðin  samninga um þetta mál, þegar þokukenndur afsláttur er sagður í boði?  Getur þjóð sem á ekki 4 milljarða handa dauðveikum sjúklingum sínum á  Landspítalanum átt  47-300 milljarða í greiðslur vegna Icesave lll? Ber einhver nauðsyn til að klára málið núna?  

Það er ef til vill skiljanlegt að hæstvirtur  fjármálaráðherra vilji semja. Hann vildi líka semja um Icesave l.  Núna sér hann hugsanlega fram á það að geta opnað ríkisstjórninni fleiri lánalínur? Eiga Sjálfstæðismenn endilega að hjálpa ríkisstjórninni til þess?  En eru ný erlend lán  það sem þessi þjóð þarfnast mest?Getur þjóðin ekki timabundið fengið lán hjá lífeyrissjóðum sínum?  Munu ekki koma glufur í lánamúra breska Heimsveldisins með tímanaum? 

"Við ætlum ekki að greiða erlendar skuldir óreiðumanna," sagði kallinn. Var það ekki rétt? Verðum við ekki einhvern tímann að hafa kjark til að standa í lappirnar?  Getum við ekki höfðað skaðabótamál á hendur Bretum fyrir hryðjuverk þeirra á Singer & Friedlander og Heritable bönkunum ? Stærri upphæðir en þau 10%  sem andstæðingarnir eru að bjóða núna gegn því að hætta öllum deilum? Heyrði ég Bucheit nokkurn tímann segja að okkur bæri skylda til að borga?

Er skynsamlegt að viðurkenna skyldu til greiðslu vaxta með því að semja núna? Ber okkur skylda til að greiða fyrir athafnir fjárglæframanna í útlöndum? Var  Landsbankinn  einhver heiðarlegur banki á ábyrgð allara Íslendinga?  Hvernig eru fjársvikafyrirtæki skilgreind? Hvar byrjar ábyrgð mín og þín á athöfnum allra íslenskra glæpamanna í fortíð, nútíð og framtíð?

Verða friðkaup núna vegna erlendra skulda óreiðumanna líkleg til að verða gott pólitísktveganesti fyrir Sjálfstæðisflokkinn inn í framtíðina?  

Vill þjóðin núna  kaupa sér frið af stórveldunum fyrir  lánadisk? 


Hagkerfi dauðans

er það sem Íslendingar búa við um þessar mundir. Að verðbólga mælist lítil er ekki kynlegt í þjóðfélagi þar sem svo til engin fjárfesting á sér stað. Þjóðfélagi þar sem  ríkisbankar eru fullir af iðjulausum peningum, þjóðfélagi þar enginn treystir öðrum og í þjóðfélagi þar sem þegnarnir treysta stjórnvöldum alls ekki til að ráða við vandann fremur en Egyptar virðast treysta Múbarak 

Litlir hópar í útflutningsgreinum landsins, sem ganga vel í skjóli gjaldeyrishafta,  brýna nú busana og ætla sér skyndilausnir. Sigur þeirra með verkföllum mun svo auka enn á vanda þjóðfélagsins og koma verðbólgunni aftur á stað án þess að fjárfesting eða aukið traust muni fylgja kjararýrnun þeirra sem minna mega sín. 

Við þessar aðstæður berast boð frá Mávi Seðlabankastjóra um að nú séu stýrivextir ekki að þvælast fyrir neinum og Seðlabankinn skipti nú yfir í moll úr dúr.  Auðvitað, hvaða máli skipta stýrivextir í köfnuðu hagkerfi þar sem 7000 manns nettó úr hópi hinna bestu hefur flutt úr landi á tveimur árum ? Þessi landflótti gefur ríkisstjórninni og þjóðlygurum eins og Steingrími J. tækifæri til þess að halda því fram að atvinnuleysi hafi minnkað og landið sé að rísa.

Brottflutningurinn hefur hinsvegar aukið á eymd þeirra sem hvergi komast og rýrir þjóðarframleiðsluna verulega. Þannig mun þetta halda áfram meðan þessi ríkisstjórn ráðleysis og regluverks situr og keyrir Íslendinga dýpra ofan í for Sovéthagfræðinnar sem byggir á ríkisvæðingu alls sem andann dregur og er því  hagkerfi dauðans eins og allir ættu að vita núorðið.

 


Hvað um borgarstjórann?

Í Fréttablaðinu stendur: 

"Fyrir borgarstjórnarkosningar í fyrra sagði Jón Gnarr, frambjóðandi Besta flokksins og núverandi borgarstjóri, að aspir yllu skemmdum og að flokkurinn vildi fækka þeim í miðbænum og planta fallegri trjám í staðinn. "Að auki er mörgum illa við aspir og finnst þær einfaldlega ljótar og engin prýði af þeim," sagði Jón Gnarr í apríl 2010.

Hvaða spakmæli eiga nú best við ? Hvað finnst mörgum um borgarstjórann? Að maður tali nú ekki um Svandísi sjálfa?


Hver trúir bönkunum?

þegar Arion banki auglýsir að hann skuli sjá um lífeyririnn þinn. Man enginn Ólaf Ólafsson, Hreiðar Már, Sigurð Einarsson, Al Thani, Exista og Bakkabræður? Lifir allt þetta lið ekki í sús og dús eins og ekkert hafi í skorist?

Íslandsbanki auglýsir að hann taki við aleigunni þinni líka, alveg eins og Arion. Man enginn Sjóð 9, Jón Ásgeir, Hannes Smárason, Pálma í Fons, Lárus Welding, Bjarna Ármannsson? Fljúgið með Iceland Express?

Er ekki traustið farið og kemur ekki aftur? Sér almenningur annað en að spillingin sé á fullu í ríkisbönkunum Aríon Banka, Landsbanka og Íslandsbanka?. Sést nokkuð annað  en verið sé að afhenda gömlu glæpamönnunum fyrri veldi sín aftur? Vitum við nokkuð hverjum verið er að selja hitt og þetta? Stóreignir skipta um hendur án þess að nokkur viti nokkuð fyrr en eftir á?   Allt sveipað hjúpi leynimakks og lyga ríkisstjórnarinnar  um það að hún stjórni engu í bönkunum heldur einhverjir erlendir kröfuhafar. Hverjir séu að kaupa Sjóvá ? Kemur ekki viðskiptanefnd Alþingis við? Allt leyndó hjá Mávi Seðla og Steingrími J.?

Og svo Sparisjóður Keflavíkur og Geirmundur- Herre Gud! Ætlar ekki  Steingrímur J. að sletta þangað 16 milljörðum meðan Landspítalinn lokar á norrænu velferðarstjórnina? Og svo allar skilanefndirnar í öllum ríkisbönkunum sem taka tuttuguþúsund á tímann alla daga til eilífðarnóns? Er ekki bara komin ný spilling á gömlum belgjum?  Hin nýja stétt Nomenklatúrunnar? Nafnlaust og andlitslaust fólk?

Trúum við nokkru sem þetta lið segir?  Veit nokkur hverju verður logið næst ? Hverjir muni næst setja skeinipappír handa lífeyrisþegunum í næsta sjóð 9 ?  Hvaða skrautfjaðrir sem þá verða keyptar til að ginna sakleysingjana eins og Glitnir gerði?  Er ekki margt sama fólkið þar ennþá?

Verður bankakúltúr nokkurntímann  til á Íslandi þegar glæpamennirnir eru búnir að sanna sig og sýna með fyrirliggjandi hætti? Hversu marga áratugi mun þurfa? Geta siðlausir íslenskir strákabjálfar úr viðskiptadeildum  með hvítt um hálsinn nokkurn tímann  unnið sig upp á stig ræktaðra bankafjölskyldna eins og tíðkast erlendis? Kemur einhver auga á það? 

Mun einhver  trúa auglýsingum frá íslenskum bönkum framar?

 


Ætli þetta sé ekki nógu fínt

fyrir okkar fanga?

"Nýtt fangelsi á Reyðarfirði?

Vinnubúðirnar á Reyðarfirði. Mynd: Ístak
Hluti af vinnubúðunum á Reyðarfirði. Mynd: Ístak.
Hægt væri að eyða öllum biðlistum eftir fangelsisplássi á nokkrum vikum með því að breyta hluta af vinnubúðum í Reyðarfirði. Hugmyndin var kynnt ráðuneytinu fyrir ári.

Í búðunum mætti hýsa 3-500 fanga þar sem lágmarksöryggis yrði gætt. Fangelsi landsins eru yfirfull, en yfir 300 dæmdir menn bíða þess að geta afplánað.  Þeir sem í venjulegu árferði yrði stungið inn fyrir að borga ekki sektir ganga líka lausir."

Á almenningur engan rétt í því að dæmdir menn valsi ekki um óáreittir eins og ekkert hafi í skorist?
Ætli svona verkamannahíbýli séu ekki nógu fín fyrir þetta lið?

Slagorð

eru það sem mér finnst mest einkenna það sem frá forsætisráðherra vorum kemur.

Þjóðin vill fá sitt stjórnlagaþing segir hún og röddin skelfur af tilfinningahita. Hún virðist heltekin af sannfæringu fyrir því að þjóðin þrái þetta þing umfram allt annað. Það er eins og hún neiti tilvist skoðanakannana sem segja að aðeins 7 % þjóðarinnar telur það vera forgangsmál að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá. Ef marka má undirtektir háskólaliðsins í Fréttablaðinu þá er það líka andsetið af svipuðum hugmyndum um mikilvægi stjórnarskrár fyrir endurreisn landsins.

En fólkið í skoðanakönnunum, sem er líklega eitthvað allt annað en þjóðin hennar Jóhönnu, setur atvinnumálin og skuldavandamál heimilanna í yfirgnæfandi forgang fyrir stjórnarskrá.  Ekki einhver eignarhaldsmál yfir fiskimiðunum þar sem óveiddir þorskar synda með verðmiða á sér sem nemur fjórföldu raunverulegu verðmæti þeirra. Og allt getur víst eins getur verið að verðmiðinn sé á þýsku eða Eurospeak eftir því sem Kristinn Pétursson, sá glöggi maður, spurði um í Silfrinu á sunnudag. Það sé hugsanlega búið að selja auðlindina úr landi af bönkunum sem hafa búið til risavaxna loftbólu úr kvótanum sem þeir hafa keypt af nýtingaraðilunum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins skrifar afbragðs góða grein í Morgunblaðið í dag. Þar brýtur  hann mörg slagorð ríkisstjórnarinnar  á bak aftur og sýnir í einföldu máli hversu barnalegar þau eru ef ekki hrein vitleysa sem enga skynsamlega skoðun stenst. Nú munu væntanlega vinstriraddirnar fara að skjálfa í stíl Jóhönnu og fara að úthúða íhaldinu sem verði að axla ábyrgð á hruninu með því að steinþegja til að trufla ekki uppbygginguna. En það virtist því miður það það helsta sem  vesalings vinstridrengurinn sem sat við hlið Þorgerðar Katrínar í Silfrinu virtist hafa til málanna að  leggja.

Þorgerður Katrín flutti mál sitt skörulega svo allir gátu skilið sem heyra vilja. Blaðamaður Íslands óx ekki mikið í áliti hjá mér fyrir órökstudd slagorð um aðskiljanlegar ónáttúrur Sjálfstæðisflokksins og þá stofnun flokksins sem er kölluð Hæstiréttur. Um margt virðast ályktanir hans um eðli Sjálfstæðisflokksins vera ámóta og sagan af  blinda manninum sem átti leið fram hjá ostakjallaranum, sér ekki það sem er til sýnis en dregur rangar ályktanir af því sem hann sér ekki.

Seinni blaðamaðurinn Magnús var kærkomin hvíld frá  Jóhanni ofurblaðamanni og margt fannst mér  skarplega athugað hjá honum um hvernig þjóðfélagið gengur á innantómum slagorðum daginn út og inn.  Það er eignlega óhjákvæmilegt að maður minnist orða Árna Magnússonar um þrætubókaráráttu Íslendinga þegar maður horfir á svona hefðbundinn Silfursþátt . Þetta einkenni virðist ekki hafa elst af fólkinu sem virðist margt trúa því að slagorðþulur leysi vandann sem við er að fást. 

ÍsIendingar eru fastir í hrikalegri kreppu bæði efnahagslegri og hugarfarslegri. Líklega mun henni ekki slota fyrr en aflandsgengi krónunnar fer að nálgast innlenda gerfigengið hjá Mávi Seðla.  Líklega eru einhver ár í að það gerist svo ég komi sjálfur með eitt slagorð til umræðunnar.

 

 


Styrjöld við múslímaríkin

færist líklega nær en margir halda. Talibanar eða skoðanabræður þeirra eru í framrás í múslímaheiminum. Atburðirnir í Túnis og Egyptalandi eru byrjunin á framþróun sem ekki verður séð fyrir endann á. Friðurinn við Íran hangir þegar á bláþræði. Saudi Arabía og Sameinuðu Furstadæmin mun ekki skipta svo auðveldlega um stjórnendur án afskipta Vesturlanda. Vesturlönd munu ekki geta sætt sig við að lifa undir hugmyndafræði ofbeldisdýrkandi strangtrúarmanna. Því mun okkur alveg eins brátt ljúgast friðurinn.

Íslendingar hafa til þessa fremur hagnast efnalega á styrjöldum og þess vegna þurfa þeir ekki að leggja á sig sérstakar byrðar vegna  hugmyndafræðinnar á bak við  Evrópusambandið.  Þó má ekki gleyma því að þoldum manntjón  hlutfallslega á við sumar styrjaldarþjóðir þó að margt annað hafi orðið okkur jákvætt.

 Auðvitað má endalaust leika sér að tölum og spurningum um hvað-ef.  En hvernig stöndum við ef skyndilega verður ekki lengur framboð á olíu?  Hvernig róum við til fiskjar þá? Þurfum bara við Íslendingar ekkert að hugsa? Hvað-Ef?

Við erum þátttakendur í NATÓ og munum varla sitja hjá í komandi átökum. Þau koma fyrr en síðar svo mikið er víst. Og hvar eru þau líklegust? Hvenær?


Ef Davíð Oddsson

hefði komið á fund nefndar Alþingis og svarað með þeim hætti sem nefndarmenn fengu að heyra frá Mávi Guðmundssyni, hvað skyldi Skúli Helgason hafa sagt ?

Nú stendur í Mogga: 
"Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, vildi litlu svara um söluferli Sjóvár þegar hann mætti á fund viðskiptanefndar Alþingis í gær. Bar Már við trúnaði í flestum þeim spurningum sem nefndarmenn beindu til hans..."

 

 

"Sigurður Kári Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, sem á sæti í viðskiptanefnd, segir að fundinum í gær megi líkja við hálfgerða leiksýningu. »Þarna voru engar upplýsingar veittar sem máli skipta....
... Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, á einnig sæti í nefndinni: »Af hálfu seðlabankastjóra fóru fyrstu 40 mínútur fundarins í það að upplýsa fundarmenn um þagnarskyldu Seðlabankans,« segir hún. »Már sagði að ferlið yrði opið og gagnsætt þegar yfir lyki. Persónulega þykir mér mikilvægt að svona söluferli séu opin og gagnsæ meðan á þeim stendur. Þessi fundur var súrrealískur,« segir Margrét....

 

 

»Það er alveg klárt að SF1 uppfyllir ekki skilyrði um fjárhagslegan styrk sem lagt var upp með. Síðan virðist ekki vera skýrt hvenær Már Guðmundsson talar sem seðlabankastjóri, og hvenær hann talar sem stjórnarmaður Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. Við fengum að vita á fundinum að Ríkisendurskoðun mun kanna þetta ofan í kjölinn,« segir Guðlaugur Þór Þórðarson...

 

....Skúli Helgason, einn fulltrúa Samfylkingarinnar í viðskiptanefnd, segir aðra sögu: »Þetta var mjög gagnlegur fundur og upplýsandi. Við fengum bæði upplýsingar frá Seðlabankanum og kaupendahópnum sem sagði sig frá söluferlinu í nóvember. Ég tel að fulltrúar Seðlabankans hafi fært sannfærandi rök fyrir því að tilboðið í Sjóvá, sem nú liggur á borðinu, sé vel viðunandi fyrir skattborgara.«
Divina Comedia var þekkt leikrit á sínum tíma. Ef til vill ættum við að lesa það til að skilja þjóðfélagið nú til dags? 
Nema að nú sé flest annað úrelt sem við áður kunnum nema kjörorðin " Helv.... f.... f.... Eða þá bara F... y..!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 3421213

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband