Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Framlenging píslanna !

 

Tryggvi Þór Herbertsson var gestur á fjölmennum fundi Sjálfstæðismanna í Kópavogi nú í dag. Tryggvi fór yfir stöðu mála í þjóðfélaginu og horfur á komandi ári.

Margt kom fram í máli Tryggva um áhrif stórfelldra fyrirhugaðra skattahækkana ríkisstjórnarinnar á þjóðarbúskapinn á komandi ári. Tryggvi taldi einboðið að þær fyrirætlanir  myndu hafa mikil áhrif í þá átt að lengja leið þjóðarinnar út úr þeim öldudal sem hún er í.

Tryggvi nefndi sem dæmi, að ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra að tefja fyrir álveri á Bakka, sem Alcoa ætlaði að byggja eftir sömu teikningum og með sömu vinnubúðum og notaðar voru við fyrra álverið hefðu leitt til þess að fyrirtækið byggði álver í Saudi Arabíu sem er knúið af jarðgasi í stað vistvænnar orku Íslands. Álverið þar losaði 500.000 tonn af CO2 árlega. Til viðbótar losaði orkuverið önnur 500.000 tonn þannig að nettó framlag Þórunnar Sveinbjarnardóttur til umhverfismál heimsins væru aukaleg hálfmilljón tonna af gróðurhúsalofti. (Fundarmenn reiknuðu hver fyrir sig í hljóði hvað tjón Íslands væri orðið af þessum eina ráðherra til viðbótar.)

Tryggvi rakti skattlagningaráform ríkisstjórnarinnar. Í fjárlögunum væri gert ráð fyrir 1 krónu skatti á hvert kílówatt í landinu. Þessi áform hefðu þegar orðið til þess, að Alcoa hefði slegið  áformaða bræðslukerjaverksmiðju útaf borðinu . En sú stálsmíði hefði getað fært Íslendingum um  sjötíu störf beint auk öðru eins í afleiddum störfum. Tryggvi benti á hversu varhugavert sé að þrengja að atvinnulífinu með aukinni skattheimtu á tímum atvinnuleysis eins og nú. Sjálfstæðismenn væru búnir að leggja fram beinar tillögur um aðrar leiðir sem yrðu farsælla að fara en að herða skattheimtu á fyrirtæki og heimilin í landinu. Skattheimtu sem myndi virka þveröfugt við ætluð áhrif.

Tryggvi fór yfir skuldastöðu Íslands , sem kom fundargestum þægilega á óvart. Út hefur verið gefið að Íslendingar skuldi 310 % af vergri landsframleiðslu, VF, erlendis.Af þessu hefði ríkisstjórnin  þungar áhyggjur og fleiri aðilar.En væri þetta svona ?

Fyrirtækið Actavis skuldar Deutsche Bank 70 af þessum 310 %.Þetta fyrirtæki er komið í eigu bankans og kemur ríkisskuldum Íslands ekkert við.

40 af þessum 310% eru erlendar skuldir íslenzkra eignarhaldsfélaga, sem eru skuldheimtumönnum tapaðar þar sem félögin geta ekki borgað. Kemur Íslandi ekkert við.

Álverin skulda 30-40 af þessum 310 %. Ekki eru þetta erlendar skuldir Íslendinga.

30 eru skuldir íslenzkra einkafyrirtækja, ekki ríkisins.

Gjaldeyrislán ríkisins væru með peningalegar eignir á móti, menn ættu innistæðu á tékkareikningi fyrir stórum hluta lánanna.

Þegar allt væri talið næmu  nettóskuldir íslenzka ríkisins  ekki nema um  einni VF, sem væri með því besta sem þekktist.

Tryggvi rifjaði upp orð Geirs Haarde þegar hann sagði að leið Íslands útúr kreppunni væri að framleiða,framleiða og framleiða. Það væri sú leið sem fara ætti. 10 % bensínhækkanir, 30 % hækkun tekjuskatta, breikkun skattstofns hækkun virðisaukaskatts þýddi  bara hækkun, fyrst  á lægri flokkana eins og matvælin, osfrv.

Tryggvi sagði tillögur um flatan niðurskurð vera billega leið stjórnmálamanna til þess að koma sér hjá því að taka á vandamálum. Menn yrðu að segja hvað þeir vildu og gera það.

Tryggvi var einlægur í því að skýra frá störfum sínum sem efnahagsrágjafi ríkisstjórnar Geirs Haarde. Hann sagðist ánægður með hvernig tiltókst með að halda greiðslumiðlunarkerfinu og starfsemi yfirtekinna bankanna gangandi. Hann dró ekki dul á hversvegna hann hætti störfum skyndilega. Hann sagðist hafa óttast dómínó-áhrif af yfirtöku Glitnis á bankakerfið og vildi fara öðruvísi að því máli. Á hann var ekki hlustað og hann sagði af sér. Eftirleikinn þekkja allir.

Tryggvi lauk lofsorði á dugnað Steingríms J. Sigfússonar við að axla þær byrðar sem á hann eru lagðar. Hann sagði Steingrím ekki vera mesta vandamálið í stjórnmálum um þessar mundir....

Hér lætur  lætur bloggari niður falla frásögnina af þessum ágæta fundi sjálfstæðismanna.Hann vonar að hann verði ekki ásakaður um trúnaðarbrot og verði rekinn úr flokknum fyrir að miðla upplýsingum í óleyfi.  En honum finnst að þetta þurfi að ræða og að skýr hugsun Tryggva þurfi að koma fram.

Hann fullyrðir því að út af fundinum fór hann með bjartari trú á möguleika Íslands til að bjargast út úr erfiðleikunum.l Hversu löng þrautaganga þjóðarinnar  verður ræðst að mestu leyti af því hvernig við sjálf berum okkur til.

Því miður trúi ég því sjálfur, að leið skattahækkana og alltof mikils samdráttar í ríkisútgjöldum muni lengja þessa leið. Íslenzka krónan veitir okkur tækifæri til þess að leysa tímabundin vandamál með seðlaprentun og verðbólgu. Það gætum við ekki með annarri mynt.  Það er engin lausn í því að segja upp opinberum starfsmönnum á þessum tímum til að setja þá á atvinnuleysisbætur ef þeir geta ekki flutt úr landi. Það er ekki hægt að loka spítölum við núverandi aðstæður í heilbrigðismálum. Það er hinsvegar hægt að loka sendiráðum og hætta margri annarri vitleysu. En ekkert afgerandi sem dugar við þessar skelfilegu aðstæður sem við erum núna í.

 Lausnin sé í því fólgin núna er að reka ríkissjóð með halla eins og Ronald Reagan gerði, enda af íslenzkum ættum, meðan við erum að koma atvinnulífinu á lappirnar til þess að framleiða, framleiða og framleiða. Við eigum núna að stórauka fiskveiðiheimildir, við eigum að að hraða orkuframkvæmdum og einhverri stóriðju til dæmis í Straumsvík og Helguvík meðan við hugsum okkur um hvað við gerum á Bakka.

Það versta sem við gerum er að fara leið kratanna og kommúnistanna með að drepa allt athafnalíf og heimili niður með aukinni skattheimtu og samdrætti.

Skattastefna ríkisstjórnarinnar framlengir píslir vorar !


Varðhundar kerfisins !

Fyrir dóm Hæstaréttar í Vilhjálmsmálinu hefði ég tekið veðmáli á grundvelli fyrirsagnarinnar. Ríkið á Glitni. Hæstiréttur lætur ekki skaða ríkið því hann er, að því að Vilmundur heitinn Gylfason sagði, varðhundur kerfisins.

Þú nærð aldrei rétti þínum gegn ríkinu sem einstaklingur.  Þannig var það í tíð dönsku einvaldskónganna. Þannig er það enn hjá þjóð með stjórnarskrá úr hendi þeirra kónga.

Varðhundar kerfisins. Voff,voff!


Þjóðlygar kommatittanna.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur reynt allt hvað af tekur að bregða fæti fyrir uppbyggingu landsins í orkuframkvæmdum. Til þess hefur hún fengið í lið með sér fólk úr ýmsum áttum sem er tilbúið að gefa misvísandi upplýsingar til þess að rugla fólk í ríminu.Beitt þjóðlygum í þessu skyni.

Einn af þessum fræðingum kom nýlega fram með þá kenningu að orkan væri nánast á þrotum.

Það er því fagnaðarefni að fá grein eftir forðasérfræðing HS Orku hf í Baugstíðindum í dag. Ómar Sigurðsson segir:

" Sigmundur Einarsson skrifar grein um "Hinar miklu orkulindir Íslands" á vefritið Smuguna. Greinin er um margt ágæt í umræðunni um orkumál, en niðurstaða hennar er sú helst að ekki verði næga raforku að hafa eftir að virkjað hefur verið fyrir álver á Bakka og í Helguvík. Í síðari greininni "Orkudraumar á teikniborði Norðuráls" á sama stað fer Sigmundur meira út í að munnhöggvast vegna pistilsins "Yfirdrifin orka fyrir Helguvík" á heimasíðu Norðuráls. Sammerkt báðum greinum hans er að hann dregur mjög úr mati á mögulegri nýtingu jarðhitasvæða á Reykjanesskaga. Ekki hefur hann nein gögn því til stuðnings eða rök til að gera það heldur lætur þar meira eigin tilfinningu ráða. Þannig minnkar hann rafafl þeirra svæða um minnst 400 MWe, sem leiðir hann síðan að fyrrgreindri ályktun....

Ef skoðaðir eru þeir virkjunarkostir sem hann kýs að sleppa eða minnkar mat þeirra sem fyrir eru eftir eigin tilfinningu, þá er þar fyrst að nefna stækkun Reykjanesvirkjunar. Stækkun Reykjanesvirkjunar um allt að 100 MWe hefur þegar farið gegnum mat á umhverfisáhrifum og umsókn um virkjanaleyfi hefur verið lögð inn. Þar telur Sigmundur að virkjunarleyfi fáist ekki því niðurdráttur í jarðhitakerfinu sé talinn mikill af Orkustofnun, samanber tilvitnun í umhverfismatsskýrslu. Því er til að svara að þó að niðurdráttur hafi orðið sneggri í jarðhitakerfi Reykjaness en víðast í öðrum jarðhitakerfum á Íslandi er hann ennþá minni en t.d. í Svartsengi og meira en tvöfalt minni en þekkist í rekstri jarðhitakerfa erlendis. Líkanreikningar benda jafnframt til að eftir stækkun virkjunarinnar verði niðurdráttur þar vel innan ásættanlegra viðmiða og því engin ástæða að fella þennan virkjunarkost út sem orkuöflunarkost.

Í öðru lagi lækkar Sigmundur mat Rammaáætlunar fyrir Trölladyngju-Krýsuvíkursvæðið úr um 480 MWe í 160 MWe eða niður í 1/3 af mati Rammaáætlunar. Aftur hefur hann engin gögn til þess önnur en að honum finnist það eðlilegt. Mat Rammaáætlunar er hins vegar byggt á viðurkenndum aðferðum fyrir svæði þar sem takmörkuð gögn eru tiltæk. Þar er beitt svonefndri rúmmálsaðferð sem er viðurkennd aðferð til að gera fyrsta mat fyrir lítið þekkt jarðhitasvæði. Þar til frekari gögn liggja fyrir um Trölladyngju-Krýsuvíkursvæðið eru ekki fyrir hendi rök til að breyta þessu mati....

 

Á ágætum opnum fundi Samorku, sem haldinn var 21. október sl. um sjálfbæra nýtingu jarðhitans (sjá samorka.is) kom fram í erindi Ólafs Flóvenz, forstjóra ÍSOR, að jarðhitamat frá 1985 áætlaði að innan gosbeltisins væri til staðar varmaorka í efstu 3 km jarðskorpunnar sem gæti samsvarað rafafli yfir 36.000 MWe í 50 ár. Um 5-6% af flatarmáli gosbeltisins eru á Reykjanesskaga og aflgeta hans gæti þannig verið yfir 1.900 MWe í 50 ár. Ef bætt væri við varmaorkunni á 3-5 km dýpi myndi aflgetan á Reykjanesskaga meir en tvöfaldast og fara yfir 4.000 MWe. Á Reykjanesskaga og að Þingvallavatni er nú þegar virkjað rafafl í jarðhita rúm 500 MWe eða um fjórðungur þess sem áætlað er að megi vinna á skaganum innan 3 km dýpis og aðeins um 12% þess sem áætlað er að vinna megi niður á 5 km dýpi. Þá má nefna að í umhverfismat hafa þegar farið væntanlegir virkjanakostir á þessu svæði fyrir um 400 MWe.

Er það innantómur draumur að hægt sé að vinna þennan varmaforða á næstu árum? Vantar tækni til þess? Svarið er nei, tæknina vantar ekki. Við núverandi jarðhitavirkjanir eru boraðar vinnsluholur niður á allt að 3 km dýpi. Erlendis er algengt að bora holur niður á 5 km dýpi og hafa íslensk fyrirtæki tekið þátt í þannig borun. Þannig hafa fyrirtækin aflað sér reynslu og þekkingar sem slík borun krefst. Tæknin er þekkt og tækjabúnaðurinn til, en hann þyrfti að flytja til landsins. Talið er að lekt jarðlaga minnki með auknu dýpi vegna meiri samþjöppunar jarðlaganna. Því er ólíklegra að hitta á eins gjöfular vatnsæðar og nú eru nýttar því dýpra sem er farið. Hins vegar þarf það ekki að hamla nýtingu. Til er tækni til að brjóta berg á svo miklu dýpi og mynda þannig þá nauðsynlegu lekt sem flutningsmiðill varmaorkunnar þarf. Þó að þessi tækni (e. Engineered Geothermal Systems) sé enn talin í þróun, eins og reyndar öll tækni, þá er hún reynd og hefur sannað notagildi sitt. Það má t.d. benda á þannig "manngerð" jarðhitakerfi í Ástralíu. Til að beita þessari tækni hérlendis þarf lítið annað en að flytja inn tækjabúnaðinn til þess. Þetta er því ekki draumur.

Rannsóknarboranir eru nauðsynlegar til að meta nánar afl, nýtingarhæfni og hagkvæmni nýtingar orkulinda, en þær eru oft settar í þung og tímafrek leyfisveitinga-, umsagna- og skipulagsferli. Það eru því frekar tafir eða aðrar hömlur á rannsóknarborunum sem geta valdið því að ætlaðir virkjunarkostir séu ekki tiltækir þegar markaður verður fyrir hendi til að nýta þá. Rangt er að halda því fram að orkulindir séu ekki nægar eða að áhugi orkufyrirtækja á varfærinni nýtingu þeirra sé ekki fyrir hendi."

Það er nauðsynlegt að láta ekki villa sér sýn í því baráttumáli þjóðarinnar, að hún verður að nýta sér allar þær auðlindir sem í boði eru til þess að vinna þjóðina útúr þeirri kreppu sem hún nú er í. Svandís Svavarsdóttir er þegar búin að fremja mikil skemmdarverk á þeirri leið með frestun Suðurlínu, dreifingu rangupplýsinga um orkuforða landsins og afsal losunarkvóta Íslands til ESB. Því fyrr sem hennar embættistíð lýkur því betra fyrir þjóðina.

Trúum ekki þjóðlygum kommatittanna.


Hver lánaði Jötni ?

 Frétt í Morgunblaðinu:
"Milljarðar í súginn vegna lána til Jötuns Holding Í eigu Baugs Group og Fons Fékk 17 milljarða lán til að kaupa hlut í Glitni."
Enginn veit hver lánaði Jötni 23 milljarða.
Kemur þjóðinni þetta kannski ekki við ? Það eru vist aðalgaurarnir sem eiga í hlut. Þeir auðvitað  uppteknir að reka sín fyrirtæki, Jón Ásgeir með Bónus og Pálmi með Icelandic Express að þeir mega ekki vera að því. Nýbúnir að enn meiri lán hjá ríkisbönkunum.
Svo er auðvitað bankaleynd yfir öllu saman.

Góðar kökur hjá Jónínu Ben.!

Jónína Ben, sú kjarnakona, skrifar góða grein í Morgunblaðið sem vert er að staldra við. Hún ræðir beint um það sem Davíð Oddsson var búinn að átta sig á þegar hann barðist fyrir fjölmiðlafrumvarpinu sem gekk útá það að hefta aðgengi peningafurstanna að því að mata almenning á rangupplýsingum og lygum sem þeir gerðu og hafa gert síðan. En þeir eyðilögðu málið sjálfir með aðstoð forsetans fræga sem fólkið er nú óðum að sjá í gegn um.

Grípum niður í grein Jónínu: 

....."Áróðursmeistarar græðgisaflanna spinna í fjölmiðlum sem aldrei fyrr. Þeir skálda sögur og atburði um óvinveitta, leggja fólki til hugsanir og ásetning, ástmenn og sjúkdóma. Þannig er almenningur mataður í fjölmiðlum þeirra undir friðhelgisfána Samfylkingarinnar og forsetans sem og þess arms Sjálfstæðisflokksins sem missti glóruna. Flest skrifin eru tómar lygar og blekkingar.

....Já, það nýtur enn friðhelgi spunameistara íslenska gjaldþrotsins. Það skiptir máli hver borgar útrásar-sagnfræðingum þjóðarinnar launin.

Eitt er að flestir hafa nú loksins áttað sig á drullukökunni sem hér var bökuð, hitt er alvarlegra; þeir sem gerðu siðlausa menn að þjóðhetjum og dýrðlingum í fjölmiðlum (valdið á Íslandi í 10 ár) eru enn að skrifa söguna. Nú á launum hjá ríkinu. Ímyndar- og áróðursómenni sem mjálmuðu í fangi uppblásinna óreiðumanna, pappírsgæjanna, níddu okkur niður sem vildum vara við augljósum glæpnum.

Allir áttu að vilja sneið af köku Jóns Ásgeirs. Þeir sem það vildu ekki, þrátt fyrir boð um 300.000.000 kr. með sneiðinni, voru óvinir þjóðarinnar, lögðu drenginn í einelti, vildu sjá til þess að fjölmiðlar hans stjórnuðu ekki umræðunni um 70% flestra fyrirtækja í landinu sem nú sést að var stjórnað af 6-8 mönnum. Fyrirtækja sem allir bankarnir voru búnir að veðsetja sig fyrir. Í hans heilaga nafni. Aldrei er skrifað um þá sem hönnuðu íslensku glæpasöguna. Nei, þeir eru enn að í skjóli Samfylkingarinnar..."

Þetta er skarplega athugað hjá Jónínu og því miður er að svo, að útrásarvíkingarnir sigla enn seglum þöndum. Pálmi í Fons stjórnar enn og heldur Iceland Express þrátt fyrir milljarða gjaldþrot. Jón Ásgeir mokar út milljörðum úr nýju bönkunum og heldur Högum, öllu veldi Hagkaupa og Bónusar, útúr gjaldþroti Baugs, sem hann var áður búinn að ræna og rupla þegar hann keypti það af almennum hluthöfum með þeirra eigin peningum og milljarðalögfræðingahjörðinni tókst að ónýta málið fyrir saksóknaranum og fá Jón sýknaðan af þjófnaðinum.

Og Samfylkingin heldur verndarhendi yfir þessu öllu vegna þess að hún er á spenanum hjá þessum öflum. Hún sér til þess að leyndin og pukrið í nýju ríkisbönkunum heldur áfram og peningum þjóðarinnar er enn mokað í sama liðið og áður var mikilvirkast. Og allir hafa þeir það ágætt í útlöndum, Hannes, Sigurður, Heiðar Már, Jón Ásgeir,Bjöggarnir, meðan almenningur axlar byrðarnar og verður að loka Landspítalanum og herða sultarólarnar.

Jónína fellur hinsvegar í þá gryfju að gera Sjálfstæðisflokkinn ábyrgan fyrir framferði einstakra flokksmanna.Það sem ég vil að hún  hugleiði betur er það, að stjórnmálaflokkur getur ekki kollektívt verið dæmdur í útlegð fyrir axarsköft forystumanns eða flokksmanna á einhverjum tíma. Það hefur ekkert að gera með hugsjónagrundvöll flokksins sem er miklu eldri en einstakur maður á hverjum tíma. Menn ganga í flokk á grundvelli hugsjónanna og kjósa þá menn til forystu sem þeir treysta best til að vinna hugsjónunum framgang. Ef þeir klikka einhversstaðar geldur flokkurinn þess í kosningum og slátrar þá venjulega forystumönnunum sjálfur. Jónína og aðrir mega ekki falla í þá gildru að útskúfa Sjálfstæðisflokknum fyrir einstök mistök einstakar manna, sem er jafnvel búið að setja frá. Flokkurinn er stærri en hvaða flokksmaður sem er. Ég kannast ekki við neinn sérstakan græðgisarm í Sjálfstæðisflokknum þó að margir flokksmenn séu vissulega gráðugri en aðrir.

Þetta voru í heildina góðar kökur hjá Jónínu Ben.! Já með glassúr !

 


Lán í óláni fyrir Háskólann !

Lengi hef  ég ekki lesið  annað eins forardíki vitlausra og vondra hugsana frá einum manni en Nirði P. Njarðvík í grein sem birtist  í Baugstíðindum í dag. En það rit sem er gert út fyrir fé skattborgaranna, og er aðalvettvangurinn fyrir skítkast í allt sem Sjálfstæðisflokknum tengist. Grein Njarðar  trónir auðvitað þar á miðopnu þar sem sérstakir gæðingar Bónusveldisins og Samfylkingarinnar fá einir að skrifa.

Hann gerir tvo af helstu stjórnmálaflokkum þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, ábyrga fyrir öllu sem í þeirra stjórnartíð gerðist með þessum orðum:  

...“ verða nú vitni að framgöngu tveggja forystumanna stjórnarandstöðunnar,þeirra Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanna mestu spillingarflokkanna - þótt þeir hafi ekki ráðið persónulega fyrri tíð. En þeir hafa tekið við forystu og þar með ábyrgð þessara stjórnmálaflokka. „....

Er þessi maður með öllum mjalla ?

Ber ég sem flokksmaður í Sjálfstæðisflokknum ábyrgð á öllu sem gerst hefur í hans stjórnartíð ? Er það mér að kenna hvernig þessi fjöldahreyfing hefur ráðið ráðum sínum og hverjir hafa verið kjörnir þar til forystu?  Hef ég verið flokksmaður í spillingarflokki alla ævina þegar ég hélt að ég væri í heiðarlegum stjórnmálaflokki sem ætlaði að gæta sjálfstæðis þjóðarinnar fyrst og fremst og „vinna í innanlandsmálum að þjóðlegri og víðsýnni umbótastefnu á grundvelli atvinnufrelsis og einstaklingsfrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum „?

 Nú kemur þessi maður fram og segir að ég sé bara fífl, sem hafi með spillingu minni valdið hruninu. Væntanlega beri þá ábyrgð á falli Lehmansbræðra, alþjóðlegri lánsfjárkreppu, Icesave ‚ Jóni Ásgeiri, Tenghuiz, Kaupthingi  og þar fram eftir götunum.

Fyrir mörgum árum var maður uppi í Þýskalandi sem hét Adolf Hitler. Hann steig ekki í vitið en hafði hæfileika til að láta dæluna ganga svo að menn trúðu stundum heimskuvaðlinum. Hans aðalkenning var að Júðar væru í heild sinni óalandi og óferjandi og skyldu því verða drepnir. Allir ! Hafði ekkert með að gera hvernig þessi eða hinn var innréttaður. Það var nóg að vera fæddur Júði og í gasklefann með hann.

Einhver kann að halda  að tími svona fífla væri liðinn með almennri upplýsingu. En það er greinilega ekki.

Hugsið ykkur ! Prófessor Emeritus !

Það er þó lán í óláni  fyrir Háskólann.  

 


Reginn enn !

 Framkvæmdastjóri Regins kom á skjáínn og var galvaskur að hann myndi ná inn milljarði af peningunum mínum aftur sem hann ætlar að byggja með  bíó fyrir Árna Samúelsson.

Vill hann ekki gera svo vel að leggja áætlunina á borðið.

1. Í hverju stendur húsið núna?

2. Hvað verður húsaleigan hjá Árna ?

3. Hver er kaupandinn að húsinu og hvert er söluverðið og kjörin ?

4. Hvernig rökstyður hann bíóskort í Grafarvogi ?

5. Hversu margir bíógestir verða þarna árlega ?

 

Ég, sem eigandi fjárins á kröfu á svörum herra forstjóri Regins.


Hársbreiddir ?

Ísland stendur ekki margar hársbreiddir frá valdatöku alræðisafla í þjóoðfélaginu. Þetta er ef til vill miklu nær en maður gerir sér grein fyrir daglega.

Tökum dæmi um 2500 spurningalistann sem Evrópusambandið sendi Íslendingum. Listinn var á ESB-ensku, sem aðeins sérfróðir menn eru sagðir skilja. Ríkisstjórnin sagðist ekki vilja eyða peningum í að þýða hann né kynna fyrir almenningi eða Alþingi.  Utanríkisráðuneytið sagði að svör yrðu undirbúin í samráði við fjölmarga aðila, svo sem Bændasamtökin, sem einna mestra hagsmuna eiga að gæta varðandi ESB. Ekkert nema óverulegt af þessu var þó gert og þá í orði fremur en á borði eins og lesa má í Bændablaðinu til dæmis. Á sama tíma var máli vísað frá íslenzkum dómi vegna þess að málskjölin voru á ensku.

Það er því búið að beita rangfærslum og svikum af hálfu ríkisstjórnarinnar um ferlið sem Evrópusambandsaðildin átti að fara eftir. Það er lagt upp með stórmál og blekkingum beitt af hálfu utanríkisráðherra til að leyna þjóðina hvað er að gerast. Tími Cloak and Dagger pólitíkur er upprunninn hér á Íslandi.   

Utanríkisráðherrann bjó til fyrir hönd ríkisstjórnarinnar 8500 blaðsíður með svörum á ensku við þessum spurningum og lét út ganga að þetta væru bara lýsingar á íslenzkum veruleika í samræmi við álit fjölda aðila. Óverulega var leitað til bændasamtakanna eins og áður sagði, sem eiga mest undir því að fara ekki í ESB.  Enga veruleikalýsingu er því frá þeim samtökum því að finna í þessu mikla ritverki. Ég hef heyrt að sama gildi um verkalýðshreyfinguna og samtök sjávarútvegsins. Ekkert eða lítið samráð hafi verið haft við gerð svaranna.

Hinsvegar er því lýst, og þá sem veruleikastaðreynd, í svörunum að Ísland styðji heilshugar sameiginlega varnarstefnu Evrópusambandsins. Sem innifelur meðal annars mögulega herskyldu Íslendinga og kostun hervarna í þágu bandalagsins eins og er að finna í Lissabonsáttmálanum. Þetta eru svör sem ýmsir velmeinandi fylgendur aðildarviðræðna eins og það var þá kallað, ættu að átta sig á. Mér dettur í hug sérstaklega vinur minn sr. Þórir Stephensen, sem er einna vandaðastur manna. 

Svörunum í heild, né heldur eða spurningunum hefur ekki verið almennt dreift. Heldur er búið að afgreiða málið af hálfu Íslands af utanríkisráðherranum og senda svörin til ESB. Án almennrar umræðu á Alþingi eða í þjóðlífinu ! Ætli Joachim von Ribbentrop hefði farið nokkuð öðruvísi að ef svo hefði borið undir ?

Það er byrjað að ræða aðild við Evrópusambandið um inngöngu Íslendinga til þess að kanna afstöðu Íslendinga til inngöngu eins og það heitir. Nú er okkur auðvitað sagt að það eigi að bera málið undir þjóðina þegar öll gögn málsins liggi fyrir. En er það víst að svo verði gert ?

Er ekki hugsanlegt að Svavar Gestsson verði sendur á vettvang og kvitti undir inngönguna? Verður ekki búið að svara svo mörgum hlutum, samþykkja svo margt af paragröffum og tilskipunum að við okkur verði sagt af ríkisstjórninni: Þetta er gerður hlutur, þið getið ekki farið að hræra í þessu núna því þá verður svo margt annað í uppnámi ! Þið megið greða atkvæði um þetta eða hitt atriðið en aðalatriðinu verður ekki breytt ? Man þá einhver eftir Icesave og þeim svívirðilegu aðferðum sem kommúnistarnir beittu í því máli ?

Alveg eins og nú er með AGS og afgreiðslu Icesave.Það má engu breyta því það tefur fyrir inngönguferlinu í ESB ?  Verðum við ekki búin að undirgangast öll ákvæðin um hermálin, viðskiptin, auðlindastjórnunina, þannig að það verður bara að samþykkja ? 

Hlustið bara ekki á Sjálfstæðisflokkinn æpir Steingrímur í þinginu . Var ekki einu sinni einhver sem æpti í sífellu  Juden,Juden ?

Ef nú bættist við "tæknitruflun" á Internetinu þannig að bloggheimar lokist ? Ef nú bættist við  lokun á Morgunblaðinu vegna skulda við ríkisbankana ? Ef nú yrðir endurskipulagning á RÚV ?  Yrði þá ekki ríkisstýrð umræða um ágæti ESB aðildar ein eftir ? Hvað svo ?

Yrðir þá ekki búið að keyra okkur inn á hlaðið hjá ESB í Brüssel eins og lömb til slátrunar ? Yrði ekki lýðræðið bara fokið veg allrar veraldar vegna þess að kratarnir telja að meiri hagsmunir verði að víkja fyrir meiri í viðkvæmum viðræðum við AGS og ESB ?  Alveg eins og í Icesave málinu sem má ekki ræða lengur vegna truflandi áhrifa þess á ESB ferlið.

Skiptir nokkuð annað máli fyrir Samfylkinguna en aðildin að ESB ? Kemur einhver auga á önnur baráttumál ? Verður ekki inngangan í ESB að  hafa algeran forgang og þannig skal öllu öðru til kostað ? VG fær að dingla með gegn því að fá tækifæri að koma í veg fyrir allar virkjanir og stóriðju ? Og Steingrímur fær auðvitað að vera ráðherra áfram og halda áfram krossferð sinni gegn Sjálfstæðisflokknum ?

Erum við svo margar hársbreiddir frá sigri ofbeldisaflanna og ósigri lýðræðisins?


Sagittarius RÍSANDI !

Mig langar að kynna fyrir ykkur efni bókar sem ég hef þýtt og sett á markað. Mynd af kápunni er hér á síðunni. Bókin fæst í bókabúðum og kostar 4.390. Að sjálfsögðu er ég tilbúinn að sendast með bókina ef einhver vill það og má þá gefa það upp í athugasemdum með þessari færslu.

Mér fannst þessi bók áhrifamikil og þeir fáu sem hafa lesið hana ennþá eru því yfirleitt sammála. Enda er bókin löngu heimsfræg og væri það ekki ef hún stæði ekki undir því.

Hún heitir Sagittarius Rising á ensku og vísar í stjörnukort höfundarins. Mér þótti rétt að láta nafnið á bogmanninum halda sér til tengingar við frumgerðina. Ef maður googlar Cevil A. Lewis þá geta menn séð mynd af drengnum þegar hann fer í stríðið. Myndin sem er í bókinni er tekin þremur eða fjórum árum seinna og sýnir fullorðinn og breyttan mann sem við er að búast.

Mér fannst athyglisverðast við bókina hversu Lewis tekst að færa lesandann aftur í tímann og gera heiminn eins og hann var þá ljóslifandi. Það er nefnilega miklu styttra síðan að þessir atburðir gerðust en maður gerir sér grein fyrir. Eftir styrjöldina fór H1N2 um heiminn og tók fleiri en en styrjöldin gerði. Núna fer frændinn H1N1 um heiminn og ein stökkbreyting vírussins getur breytt honum í þann fyrri. Heimurinn er því hættulegur eins og hann hefur alltaf verið. 

Þetta verður víst ekkert gróðabrall hjá mér en ég vona þó að nægilega mörg eintök seljist til að borga prentið. Meira væri auðvitað hvatning til að halda áfram í þýðingum á flugbókum og útgáfu. Eitthvað verðu maður að gera annað en að blogga úr því að byggingariðnaðurinn er steindauður og verður það lengi enn. En sagt ég vona að enginn verði svikinn af Cecil Lewis og frásögnum hans.

Aftan á bókinni er þessi texti:

" Æskudraumar Lewis voru um flug. Hann laug til um aldur og sótti um inngöngu í Royal Flying Corps 1915. Hann fór einflug eftir einnar og hálfrar klukkustundar kennslu og sendur yfir til Frakklands 1916 með 13 klukkustunda flugreynslu. Lífslíkur flugmannsnýliða í Frakklandi voru þá 3 vikur. Nærri 10 milljónir hermanna féllu í Styrjöldinni Miklu 1914-1918 og 7 miljónir óbreyttra borgara til viðbótar.

Lewis tekst með góðra manna hjálp að afla sér frekari flugreynslu og verða að flugmanni, áður en hann er sendur í orrustur. Hann lifir af hætturnar, sem voru ekki minni af flugvélunum sjálfum en byssukúlunum. Hann flýgur stríðið á enda og oft í fremstu víglínu. Lewis elskar flugið sjálft og það er honum uppspretta fegurðar og lífsfyllingar. Hann sér í bólstraskýinu glitrandi hallir og ókunn lönd með dölum og giljum, hann sér fegurð himinsins og foldarinnar fyrir neðan úr margra mílna hæð, þaðan sem stríðið er ekki lengur sýnilegt. Hann gleðst yfir valmúanum, blómstrandi úr sprengigígunum, sem þekja sviðna eyðimörk orrustuvallanna í Flanders og lævirkjanum, sem flýgur óvænt upp og syngur skerandi yfir drynjandi fallbyssudunurnar.

Lýsingar Lewis eru svo ljóslifandi á köflum, að lesandanum finnst hann kominn til þessara tíma sjálfur. Hann skynjar það tryllta afl, sem beitt er í stríðsrekstrinum., getur heyrt fyrir sér til hundrað flugvélahreyfla og vélbyssuskothríðar í hringleikahúsi Richthofens, fallbyssugnýinn sem heyrist frá Frakklandi til Englands á kyrrum kvöldum, séð fyrir sér leitarljósin á næturhimninum yfir myrkvaðri London og gul eiturgasskýin yfir skotgröfunum, skynjað lyktina af útblæstri hreyflanna, angan blómanna og gróðursins við Somme. Og skilið það og undrast hversu lítið mannlífið sjálft hefur breyst frá tíma frásagnarinnar.

Þegar þessi bók var skrifuð 1936 var skapað sígilt bókmenntaverk. Hún er talin ein besta minningabók úr hernaðarflugi allra tíma. Bókin hefur aldrei verið úr prentun síðan þá. Kvikmyndin ‘Aces High’ var byggð á henni 1976. Georg Bernard Shaw lýsti Lewis þannig: ‘Þessi prins meðal flugmanna átti heillandi líf í öllum skilningi; Hann er hugsuður, herra orðanna og hérumbil ljóðskáld.’

Lewis hlaut Óskarsverðlaunin 1938 fyrir kvikmyndahandrit sitt að Pygmalion(My fair Lady), sem byggt er á samnefndu verki Shaw. Lewis var einn af stofnendum BBC 1922 og fyrirlesari þar fram yfir nírætt. Hann gekk aftur í RAF 1940 og flaug fyrir gamla kóng sinn alla seinni heimsstyrjöldina, alls fimmtíu og þremur flugvélategundum í meira en þúsund flugstundir en það er önnur saga.

Þetta er bók fyrir karlmenn á þroskaaldri, bók um hetjudáðir, hrylling, vináttu, fegurð, rómantík. Og lýsingar Lewis á fluginu sjálfu eru einstakalega sannar.

Þessi bók lætur engann ósnortinn enda fjallar hún fremur um lífið en ekki dauðann. Lewis segir: ‘Lifðu hátíðarlega, höfðinglega, hættulega,-öryggið aftast!’  "

Ég vona að bloggarar fyrirgefi mér að auglýsa bókina svona hérna, en Mogginn var svo elskulegur að leyfa þetta.

Ég sný mér svo aftur að því að rífa kjaft um pólitík eins og venjulega.


Verjum Ísland !

Ef við reynum að skyggnast í gegnum moldviðrið í kringum Icesave vekja nokkur atriði athygli.

Ríkisstjórnin er að skrifa undir ríkisábyrgð vegna innistæðutrygginga í Englandi og Hollandi. Viðurkennir þær sem núverandi skuld Íslands, sem eigi að bera 250 milljarða í vexti til 2016 og greiðast að fullu. Til þess ætlar ríkisstjórnin að undirgangast skuldbindingar Íslands í erlendum gjaldmiðlum með  um 5.5 %  gengistryggðum vöxtum.

Ríkisstjórnin ber því við, að ríkisstjórn Geirs Haarde hafi lýst því yfir að Íslendingar  bæru ábyrgð á þessum skuldbindingum. Þær yfirlýsingar séu forsendan fyrir þeim samningum sem nú liggja fyrir Alþingi. Þetta sé því arfur ríkissjórnar Sjálfstæðisflokksins, og sá flokkur beri því alla ábyrgð á því hvernig komið sé.

En er þetta allt svona ?

Í fyrsta lagi er ekki við því að búast, að neinn forystumaður þjóðar  sem liggur á hnjánum og leitar eftir aðstoð heimsins til þjóðar í nauðum, sendi frá sér annað en auðmjúkar yfirlýsingar um góðan vilja þjóðarinnar að gera gott úr málinu. En núna, ári seinna, verðum við að átta okkur á því Íslendingar, að þessar yfirlýsingar hnigu að því að Íslendingar myndu gera sitt besta við að leita að viðunandi niðurstöðu í málinu. Þær skuldbundu ekki Alþingi sem eitt hefur fjárveitingavaldið.  Þetta varð  að gera þá til þess að reyna að slæva þá elda sem loguðu um allan heim. 

Þetta höfum við Íslendingar reynt að gera allar götur síðan.  Við höfum leitað samninga á samninga ofan en ekki haft árangur sem erfiði. Okkur eru aðeins boðnir afarkostir og engir aðrir. Því miður hafa samningamenn okkar verið teygðir alltof langt af viðsemjendunum í að játa sakir á okkur umfram það sem efni standa til. Síðasta útgáfa samninganna er óásættanleg vegna þess að mögulegar dómsniðurstöður, útlendra dómstóla, eiga ekki að hafa áhrif á greiðslurskyldu landsins.Þetta er óásættanlegt fyrir Íslands hönd.

Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir við hrunið, að innlendar innistæður Íslendinga í íslenskum bönkum væru tryggðar. Þetta varð að gera til að forða áhlaupi á bankana innanlands. Það tókst og ríkið þurfti ekki að greiða miklar fjárhæðir vegna þessa.

Á grundvelli jafnræðisreglu krefjast útlendingarnir sama fyrir sitt fólk vegna Icesave innistæðna í sínum löndum. Slík tilvik eru hinsvegar samkvæmt tilskipun EES afgreidd með stofnun sérstaks tryggingasjóðs innistæðna á Íslandi. Þessi sjóður starfar samkvæmt íslenzkum lögum og er í íslenzkum krónum. Það er beinlínis bannað skv. Evrópuréttinum að þessi sjóður sé með ríkisábyrgð og því er ríkisábyrgð á skuldum hans utan þess sem hægt er að krefjast. Allur ríkisábyrgðarkafli Icesave samninganna er því í frjálsu boði íslenzka ríkisins. Greiðslur úr tómum sjóði verða það líka.

Neiti Íslendingar núna, að fullgilda Icesave samningana, myndu kröfuríkin væntanlega höfða innheimtumál ef ekkert annað væri í boði. Íslendingar myndu í versta falli væru þeir lögsóttir fyrir brot á jafnræðisreglum, þurfa að greiða lágmarksinnistæðutryggingar úr þessum sjóði til einstaklinga sem áttu inneignir í Icesave. Þeir þyrftu engar bætur að greiða til félaga sem ættu slíkar innistæður í Icesave, þar sem um slíkar innistæður gilda reglurnar ekki. Málssókn gegn sjóðnum myndi fara fram á Íslandi. Allar bætur úr sjóðnum yrðu greiddar í íslenzkum krónum í íslenzkum bankaseðlum.

Engir vextir yrðu greiddir ofaná tryggingargreiðsluna þar sem vátrygging bætir aðeins tjón en ekki afleitt tjón svo sem vaxtatap. Engar vaxtagreiðslur eiga því að koma til.

Það er því höfuðatriði fyrir framtíð þessarar þjóðar, að Alþingi felli Icesave samninginn sem þar liggur fyrir og tilkynni Bretum og Hollendingum að Íslendingar muni aðeins greiða samkvæmt framansagðri skyldu úr tryggingasjóði innistæðna.

Væntanlega þýða þær málalyktir, að engin Evrópuþjóð né heldur Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn muni veita nein lán til Íslands. Við þessu verður að búast og leita annarra leiða til fjármögnunar. Engin ástæða er til að örvænta um að slíkar lausnir finnist ekki. Hættan af þeim Icesave-samningi sem nú liggur fyrir er hinsvegar mun meiri fyrir alla framtíð þjóðarinnar og næstu kynslóðir Íslendinga.

Þjóðin á því allt sitt undir því að Alþingi haldi sameinað á málstað Íslands í þessu stærsta hagsmunamáli í Íslandssögunni. Máli sem á sér ekkert fordæmi hvað stærð og afleiðingar fyrir eina þjóð snertir síðan Versalasamningunum var neytt upp á hina sigruðu þýsku þjóð 1918.  Slíka nauðung má aldrei endurtaka gagnvart neinni þjóð.

Gefumst því ekki upp fyrir Íslands hönd ! Allir Alþingismenn eru þingmenn Íslands en ekki annarrra ríkja !

Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér !

Verjum Ísland !

 

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband