..."Menn segja nú þegar lífeyrissjóðir ætla að fjármagna risaframkvæmd Landspítalans í sunnanverðum Þingholtum að það sé of seint að huga að nýju staðarvali fyrir húsaflæmið. En það er ekki of seint: umferðarmannvirki sem standa neðan við byggingarsvæðið eru tekin að sanna sig og raunin er sú að þau valda ekki þeirri umferð sem þar fer um, nýja Hringbrautin endar í tveimur þungum flöskuhálsum, bæði við Öskjuhlíðarháls og við gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar með tilheyrandi töfum, mengun og kostnaði. Fyrirsjáanlegt er að leggja verður í gríðarlegan kostnað við að grafa Miklubrautina niður í jörð og kemst hún þar varla fyrir. Svokallaður Hliðarfótur gerir fátt meira en bæta aðgang að stórum vinnustöðum og umferðarmiðstöð undir Öskjuhlíð og á sér enga útleið suðureftir nema enn verði lagt í jarðgöng. Staðarval nýrra mannvirkja fyrir Landspítalann kallar á uppbyggingu mikilla umferðarmannvirkja með stjarnfræðilegum kostnaði fyrir borgarbúa og raunar landsmenn alla: göng undir Miklatún, Öskjuhlíð og Kársnes. Eldri möguleikar fyrir Landspítalann voru Fossvogur og Vífilsstaðir: Fossvogssvæðið er farið og Vífilsstaðir því einir eftir.".....(leturbreytingar mínar)
..."Helsta röksemdin fyrir byggingu nýrra stórbygginga neðan við gamla spítalasvæðið er að þar séu fyrir byggingar sem nýta má áfram: menn eru einmitt að huga að nýjum byggingum vegna þess að rekstrarkostnaður í hinum eldri er óþægilega hár. Þá á eftir að endurnýja þær frá grunni með miklum tilkostnaði til annarra nota. Það eru því veik rök fyrir viðbótarmagni nútímahúsnæðis skammt þar frá. Nálægð við Háskóla er líka nefnd til: bílastæðaflæmið við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík svarar þeirri röksemd: gera menn sér virkilega vonir um að þeir sem koma á bílum á þessa tvo staði fari fótgangandi í tíma í kennslusjúkrahúsinu?...."(leturbreytingar mínar)
Í ljósi þeirrar staðreyndar, að yfirgnæfandi meirihluti fólks vill hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, þá er sú ráðstöfun enn furðulegri að þrengja sífellt að honum og stefna æ fleiri bílum inn á þetta úthverfi höfuðborgarsvæðisins. Það er þegar búið að taka of margar misráðnar ákvarðanir sem Páll Baldvin lýsir.
Það er ef til vill ekki of seint að endurskoða þetta staðarval?.