Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Hvaða Sjálfstæðisflokk studdi ég?

á landsfundi spyr ég mig þegar svona yfirlýsingar frá varaformanni mínum koma fram? "Ólöf segir að það sé ekki þörf á að gera breytingar, þ.e. að málið fari í hendur utanríkisráðherra. Hún bendir á að það hafi verið sæmileg ró í kringum Icesave-málið að undanförnu. Jafnvel þeir sem hafi haft mestar áhyggjur af stöðu málsins, séu nokkuð rólegir yfir því hvernig Árni Páll hafi tekið á því. „Það virðist vera skoðun margra að það þurfi að flytja fyrirsvar málsins, eða það sé í raun og veru komið til utanríkisráðherrans, út af stjórnskipulegri stöðu þess ráðuneytis,“ segir Ólöf. „Árni Páll hefur gert þetta vel. Það má segja sem svo að hann hafi áunnið sér víðtækt traust,“ segir hún og bætir við að með þessu sé ekki verið að kasta rýrð á nokkurn mann. Menn spyrji einfaldlega hvers vegna eigi að gera breytingar nú. „Nú tekur næsti fasi við [í Icesave-málinu]. Við vissum alltaf að þetta gæti gerst, það kemur engum á óvart að þessi staða sé uppi. Það var í því ljósi sem þessi bókun var lögð fram,“ segir hún. Icesave verði í höndum Árna Páls.

 

Í hvaða flokki er ég eiginlega? Þorgerður Katrín lofsyngur Steingrím J. fyrir að hafa náð niður halla á ríkissjóði. Ólöf Nordal lofsyngur Árna Pál fyrir Icesave. Er ég í pólitík eða hvað? Árni Páll gerir ekkert vel í mínum huga. Hann er ekki talsmaður minn og verður ekki frekar en Steingrímur Sigússon verður mitt átrúnaðargoð'. Hann er og verður svarinn andstæðingur sannra Sjálfstæðismanna. Svo einfalt er það. Ef við þyrftum að umbera hann eina stund verður það ekki með gleði í hjarta. Nema tilgangur Ólafar sé að etja þeim saman Árna Páli og Össuri?

 

 Í næstu kosningum óska ég þess að allt sem þessi ríkisstjórn hefur gert í skemmdarverkum á Stjórnaráði Íslands og uppstokkun ráðuneyta, allar aðgerðir í skattlagningu í hverju sem er, og raunar hvað annað sem er, verði ónýtt og afnumið af nýju þingi. Ég er í stjórnarandstöðu og það gildir og ég vil afmá öll spor þessarar ríkisstjórnar og gerðir hennar allar sem fyrst. Því að þessi stjórn hefur ekkert gert sem hefur verið mér til gagns og það sem ég sé ekki þjóðinni heldur. Hún er og verður í mínum augum hreinræktuð afturhaldsstjórn kommúnista og Evrópusinna. Hún er ekki samsett úr mínu fólki og þess flokks sem ég hélt að ég væri í.

 

 

Í hvaða Sjálfstæðisflokki er ég eiginlega staddur? Er ég í stjórn eða stjórnarandstöðu? "Sá sem ekki er með mér er á móti mér" sagði Napoleon. Það hélt ég að væri  mín afstaða í Sjálfstæðisflokknum meðan hann er í núverandi stöðu. En það er ekki að marka mig auðvitað, ég er kannski staddur í einhverjum samræðustjórnmálaflokki frekar en Sjálfstæðisflokki.


Jóla-hvað?

sögðu þeir Glámur og Skrámur á jólaplötunni hér um árið.

Er þetta Jóla-jóla ekki orðið nokkuð útþvælt? Það dynur Jóla-gargið á öllum rásum jólaljósvakanna. Sungnar eru jólaperlur á borð við, "þegar jólin skella á" og ámóta gullkorn sem rata hugsanlega í heimsbókmenntirnar. Jólin er hátíð kaupmennskunnar og víxlaranna og annað eins og endurkoma sólar eða eitthvað kristilegt víkur í skuggann.

Jólabjórinn er sagður ómissandi, 48 % söluaukning, feykilega jólaglöggt fólk veltist um á götum Lundúna er okkur sýnt í sjánvarpinu. Segir ekki Bretinn, ekki gráta oní bjórinn þinn. Hvað þá jólabjórinn þinn? Svo fá menn sér kannski spólu með Jólaklámi, og svo verða æsispennandi Jólamorð og Jólalöggur á dagskrá sjónvarpsins á aðfangadagskvöld eins og oft hefur verið hefur raunin á þegar biskup er búinn að tala.

Jóla-jóla, jóla hvað sagði Skrámur?


Allir nema þeir

sem drógu 500 milljónirnar frá í bókhaldi Húsasmiðjunnar eiga að borga.

"Gengið verður frá kaupum dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma A/S á Húsasmiðjunni í byrjun þessarar viku samkvæmt samkomulagi sem tekist hefur milli Bygma og Framtakssjóðs Íslands, sem á Húsasmiðjuna, að því er heimildir Fréttablaðsins herma. Viðræður um kaupin voru langt komnar þegar Ríkisskattstjóri tilkynnti eigendum Húsasmiðjunnar um 500 milljóna króna endurálagningu skatta á félagið. Endurálagningin er til komin vegna þess að fyrri eigendur Húsasmiðjunnar nýttu vaxtagreiðslur af lánum, sem notuð voru til að kaupa fyrirtækið, til frádráttar frá skatti.Ríkisskattstjóri telur óheimilt að nota slík lán til skattafrádráttar, en Húsasmiðjan hefur mótmælt endurálagningunni.Forsvarsmenn Bygma og Framtakssjóðsins náðu í síðustu viku samkomulagi um hvernig tekið verði á endurálagningunni verði hún að veruleika, og verður í kjölfarið hægt að ganga frá kaupunum."

Svo segir í Fréttablaðinu:

"Ástæðu endurálagningarinnar má rekja til þess þegar félag í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar keypti Húsasmiðjuna sumarið 2002 ásamt Baugi Group, fjárfestingafélagi í meirihlutaeigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu. Kaupin fóru fram í gegnum nýstofnað félag sem fékk nafnið Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar ehf. Árni og Hallbjörn áttu

55% hlut í félaginu en Baugur 45%. Kaupverðið á Húsasmiðjunni var um 5,3 milljarðar króna og var að langmestu leyti tekið að láni. Í byrjun árs 2004 var Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar síðan sameinað rekstrarfyrirtækinu Húsasmiðjan hf. Í samrunaáætlun kom fram að "við sameininguna renna allar eignir, skuldir og skuldbindingar Eignarhaldsfélags Húsasmiðjunnar ehf. inn í Húsasmiðjuna hf.". Því voru lánin sem eigendahópurinn tók árið 2002 nú orðin lán Húsasmiðjunnar. Við það hækkuðu skuldir Húsasmiðjunnar um 4,3 milljarða króna.

Snemma árs 2005 seldu Árni og Hallbjörn síðan eignarhluta sinn í Húsasmiðjunni til nýstofnaðs félags í eigu Baugs, Saxbygg og Fjárfestingafélagsins Primus, sem var í eigu Hannesar Smárasonar. Það félag fékk sama nafn og félagið, sem áður hafði verið rennt saman við Húsasmiðjuna, Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar ehf.

Síðan var sami leikurinn leikinn aftur. Í mars 2006 var Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar og dótturfélög þess sameinuð Húsasmiðjunni hf. með öllum eignum og skuldum. Sameiningin miðaði við 1. júní 2005. Við það hækkuðu skuldir Húsasmiðjunnar um 2,8 milljarða króna. Samtals hækkuðu skuldir fyrirtækisins því um 7,1 milljarð króna vegna skuldsettra yfirtakna fyrrum eigenda. Landsbankinn breytti samtals 11,2 milljörðum króna af skuldum Húsasmiðjunnar í nýtt hlutafé áður en bankinn seldi fyrirtækið til Framtakssjóðsins. Skuldir Húsasmiðjunnar í dag eftir þær niðurfærslur eru rúmlega 2,5 milljarðar króna."

Ragnar Önundarson hefur gert þessu máli rækilega skil í mörgum blaðagreinum. Réttarríkið Ísland getur ekkert gert. Þeir bara sleppa með þetta. Nú er Aríon banki búinn að rétta þeim HAGA á silfurfati. Og þetta er bara allt í lagi. Fær enginn klígju?

Nú er þetta orðið vandamál Húsasmiðjunnar og Skattstofunnar en ekki Árna og Hallbjörns sem stofnuðu skuldina. Þeir eru uppteknir við að hjálpa okkur að kaupa inn á góðu verði í Bónus. Jón Ásgeir á ekki HAGA lengur. Hann vonaði að nýir eigendur myndu fara vel með gömlu konuna. Hann þarf ekki að efast um það að þeir strjúki beljuna vel svo að hún mjólki þeim vel. Vanir menn.

Allir nema þeir eiga að borga skattinn.


Lurður

er orð sem lýsir Íslendingum. Geðlurður eiginlega enn betur.

Lurður láta allt yfir sig ganga og yppta öxlum. Nýjasta dæmið er salan á Högum. Þar er búið að afhenda fyrirtæki til einstaklinga sem allir sem nenna að lesa geta vitað hvernig náðu til sín stjarnfræðilegum upphæðum úr bankakerfinu.

Ragnar Önundarson hefur skrifað fyrir blindum augum lurðanna um þessi mál og gerir enn. Hann bendir á að 23.gr.tilskipunar ESB nr.77/91 hefur verið margbrotin. En þegar það hentar lurðum túlka þær þessar tilskipanir að eigin geðþótta."Starfsfólk og kröfuhafar hinna féflettu félaga voru með þessu skilin eftir á köldum klaka, þrátt fyrir skýr ákvæði laga um að stjórn hlutafélags skuli gæta hags félagsins sjálfs og þar með allra þeirra sem eiga hagsmuni í því. Íslensk stjórnvöld horfðu aðgerðalaus á stórfelld lögbrot og það olli þjóðinni hrikalegu tjóni. Aðgerðaleysið varir enn."

Lurðurnar horfa á hvernig lurður leyfa völdu fólki að sópa til sín stórfé í hlutafjárútboði. Lurðurnar horfa á hvernig Lífeyrissjóðum er nú beitt til að taka þátt í framhaldi af gömlum bankasnúningunum til að hækka sýndarverð á hlutafé. Ragnar segir:"Sérstök hætta steðjar að einmitt nú þar sem lífeyrissjóðir eiga fáa ávöxtunarkosti, þátttaka þeirra í útboði á Högum sýnir það."

Úr því að eigandinn heitir ekki lengur Jón Ásgeir þá er sjálfsagt að lurðurnar versli áfram í Bónus. Framtakssjóður lurðanna sér um þeirra mál.

Lurðunum getur ekki verið meira sama.


Hvað er Þorgerður Katrín!

að samsinna Oddnýju um árangur Steingríms í ríkisfjármálum á Sprengisandi. Hann sé búinn að minnka ríkissjóðshallann úr 120 milljörðum í 20.

Er þetta einhver kúnst? Bara hækka skatta og skera niður í heibrigðisþjónustunni? Hvað er þingkonan mín Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að fara með því að tala um þetta sem árangur og spor á réttri leið? Það blasir við hvernig þetta er fengið? 6300 manns farnir af atvinnuleysisbótum með því að flytja úr landi? Er þetta árangur? Draga saman allar framkvæmdir? Er það árangur fyrir Ísland? Öllum framkvæmdum slegið á frest? Engin atvinna? Er þetta árangur í ríkisfjármálum? Stórhækkanir á öllum gjöldum um áramótin? Er þetta árangur Steingríms? Eyðsla á séreignarsparnaði? Er það árangur?

Ég vil ekki hafa svona málflutning hjá þér Þorgerður Katrín. Stattu þig í að koma kommúnistanum Steingrími J. Sigfússyni burt úr ríkisstjórn. Þá næst árangur fyrir Ísland en ekki fyrr Þorgerður Katrín!


Alþingismaðurinn Björn Valur Gíslason

er ekki allur sem hann er séður. Svona í ljósi þess hvernig hann greiddi atkvæði með lögsókn á hendur Geirs Haarde þá er ekki úr vegi að taka eftir því hvernig hann kom fram við nákomið fjölskyldufólk. Sigtryggur Valur Jónsson segir svo í bréfi til Björns:

" Þú hefur þann „heiður að bera“ að hús okkar hjóna var boðið upp og stóð fimm manna fjölskylda á götunni eftir þann leik. Uppáskrift lánsins sem þú tókst til að fjármagna útgerð þína, Björn Valur Gíslason ehf, varð að okkar óláni. Láninu átti að aflétta síðar af húsi okkar hjóna, en lán þetta var aldrei flutt og því fór sem fór.

Svar þitt við okkur var einfalt: Það verða allir að bera ábyrgð á því sem þeir gera. Þess má geta, fyrir lesendur bréfs þessa, að BVG og kona mín eru systkinabörn. Eitt enn, af mörgu, sem setja má í snilldarpakka þinn, og það er hvernig þér tókst að fá lán langt umfram eignir. Er þetta kannski kunnuglegt í dag, BVG?"

Þegar þessi saga er skoðað í samhengi við réttlætistilfinningu þessa þingmanns sem leiddi til þess að hann taldi nauðsynlegt að stefna Geir Haarde fyrir Landsdóm, þá sér maður að í ríki föðurins eru margar vistarverur.

Það er ekki ónýtt fyrir kjósendur Vinstri Hreyfingarinnar-Græns framboðs að eiga völ á svona göfugmenni eins og Björn Valur Gíslason er til að auka virðingu Alþingis.


Steingrímur á slóðum Búkharíns

með pólitískar ofsóknir á hendur andstæðingum sínum.

Í fersku minni er aðför Steingríms J. Sigfússonar að Geir H. Haarde sem hann kom fyrir Landsdóm með "sorg í hjarta" eins og hann sagði.

Steingrímur bruggaði annað pólitískt launráð að kvöldlagi á kontór sínum. Hann greiddi Gunnari Birgissyni einskonar pólitískt rothögg með því að reka alla stjórn og framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Kópavogsbæjar úr embætti og kæra þá fyrir lögbrot. Svo var rannsóknin auðvitað dregin á langinn þar sem allir sáu að markmiðinu var náð. En auðvitað halda svona mál áfram í fyllingu tímans. Sá tími er kominn með útgáfu ákæru saksóknara á þetta fólk.

Afleiðingarnar urðu þær meðal annars að Gunnar Birgisson var flæmdur úr stóli bæjarstjóra, framkvæmdastjórinn þoldi "Berufsverbot" að hætti A-þýskra kommúnista og fékk hvergi vinnu og grunnur var lagður að ósigri farsæls meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs í kosningum, sem hafði leitt bæinn í mikilli uppbyggingu frá árinu 1990.

Hver var sökin? Jú, á tímum sem allir bankar voru í uppnámi og greiddu enga vexti, þá tóku þessir "sakamenn" ákvörðun um að láta laust fé Lífeyrissjóðsins renna sem lán til Bæjarsjóðs Kópavogs, sem ber óskipta ábyrgð á þessum sama Lífeyrissjóði. Hreinlega á hann og stjórnar. Lífeyrissjóðurinn fékk hæstu vexti frá Bæjarsjóði sem koma lífeyrissþegum beint til góða. Þjóðnýttu bankarnir hans Steingríms fengu ekki neitt. En allir þeir störfuðu, ásamt BYR og SpKef á löglausan hátt með CAD hlutfall langt undir lögbundnu lágmarki. Þetta voru líka neyðartímar með neyðarlög í gildi hjá þjóð í neyð. Neyðartímar krefjast neyðarráðstafana segir Steingrímur við þau önnur tækifæri þegar honum hentar sjálfum.

Þessar lánveitingar voru heimilar að 10 % marki en ákærðu fóru meðvitað yfir þetta með þegjandi samþykki FME. Sem núna auðvitað kannast ekki við neitt. Engu var stolið, enginn skaðaðist en gamlir starfsmenn Kópavogs högnuðust. Þetta þoldi ekki kommúnistinn í ráðuneytinu og rak rýtinginn í þessa pólitísku andstæðinga sem hann náði til. Sjálfsagt með " sorg í hjarta" og krókódílstárin trillandi niður vangana.

Nú er enn reynt að sverta þetta vammlausa fólk. krefjast þess að Ómar og Gunnar hypji sig úr bæjarstjórn. Þetta er auðvitað pólitískur búhnykkur fyrir Guðríði Arnardóttur ef fókusinn færist frá hefndarráðstöfunum hennar á hendur Sjálfstæðisflokknum, en hún lætur um þessar mundir bæjarsjóð kosta heilagt stríð sitt gegn flokknum á fleiri en einn veg. Það síðasta er að eyða á annaðhundrað milljónum í það að flytja Héraðskjalasafn Kópavogs úr hvergi nærri fullnýttu leiguhúsnæði í eigu Sjálfstæðisflokksins að Hamraborg 1 sem kostar einhverjar 5 milljónir á ári í húsaleigu í risavaxið húsnæði sem keypt er í þessum tilgangi.

Nú skal unnið dag og nótt á bæjarins kostnað til að klekkja á íhaldinu sem verður að finna sér aðra leigjendur. En þessi leiga var boðin út á sínum tíma og var íhaldið lægstbjóðandi. Við slíkt verður auðvitað ekki unað af barnakennaranum úr Garðabæ. Og helst er auðvitað best að losna við andóf Gunnars í bæjarstjórn með því að reka hann þaðan ef kostur er.

Nú vantar Steingrím bara þjóðskáld til að syngja stjórnarathöfnum sínum lof og prís eins og Stalín forðum við aftöku Búkharíns.


Þetta eru mútur !

og spilling sagði maðurinn í spjallþætti RÚV sem ég datt inní áðan. Hann og einhverjir fleiri vinstri menn voru að tala um ágæti þess að hafa Geir Haarde fyrir Landsdómi. Hann hefði tekið við framlögum til Sjálfstæðisflokksins frá landsbankanum uppá 60 milljónir held ég hann hafi sagt og viðurkennt það. Svona menn ættu heima fyrir rétti skildist mér.

Framlög til stjórnmálaflokka voru þá lögleg. Hinsvegar var auðvitað ekki í þessum þætti minnst á svipuð framlög sem Samfylkingin tók við án þess að lenda fyrir Landsdómi.

Nú er búið að setja lög sem dæma stjórnmálaflokka á ríkisframfæri. Sjálfstæðisflokkurinn lét undan öfundarkommunum í þessu máli sem aldrei skyldi verið hafa. Flokkar eiga að vera myndaðir af fólkinu og kostaðir af fólkinu og engum öðrum en flokksmönnum á að koma það við frekar en fjármál saunaklúbba, saumaklúbba og annarra selskaba fólksins.Skattstofur ættu enga aðkomu að hafa þar að.

Ef einhver vill styðja stjórnmálaflokk þá gerir hann það án þess að fá eitthvað sérstakt fyrir annað en hugsanlega að afstýra öðru verra. Hver vildi ekki borga eitthvað til þess að vera laus við núverandi ríkisstjórn og hjálpa með því öðrum flokkum til að berjast við hana? Hvað má meta tjónið af Steingrími til margra fiska?

Það er hakkað á Geir Haarde útaf Sjálfstæðisflokknum af andstæðingum hans á þingi og í fréttamiðlunum sem þeir stýra. Það lagar ekkert þó að við nennum ekki alltaf að hrópa: Þið líka! Þeir gleyma alltaf sjálfum sér og sínu fólki skipulega í miðlun rangupplýsinga og reyna að sverta Sjálfstæðisflokkinn og alla sem honum tengjast. En þetta gengur ekki endalaust, fólkið blekkist ekki allt, alltaf.

Auðvitað er fúlt fyrir Geir kallinn að standa í þessu fyrir Landsdómi í fáránlegu pólitísku ofsóknarmáli kommanna á hendur honum sem minna á Búkharín og réttarhöldin gegn honum og aftöku hans sem Kiljan lofsöng. Þeir í RÚV sögðu málið alvarlegt og engu nema aukatriðum hefði verið vísað frá.

Ég hefði viljað sjá málið klárað og úrskurðað frekar en að fá Alþingi til að skammast sín og fá tækifæri til að eyða málinu. Skömm Alþingis má ekki gleymast og nöfnum þeirra þingmanna sem úrslitum réðu verður að halda á loft þó ekki nema til þess að tryggja það að þeir verði ekki endurkosnir.

En auðvitað er það Geir sem er þolandinn en ekki ég. Hagsmunir hans hlóta að ráða.

En þetta voru ekki mútur í mínum huga heldur stjórnmálastarf á vegum fólksins.


Dorrit !

áfram á Bessastöðum ef ég fæ að ráða.

Þessi  demantaprinsessa vann minn hug og hjarta þegar hún gekk óhrædd á móti Austurvallarindjánunum þegar öldurnar risu hvað hæst.  Þá sást sköllóttur skuggi skjótast að baki þingmannanna og koma sér í skjól inn um bakdyr Alþingis. Eru leiðtogar ekki greinilega annaðhvort fæddir þannig eða eru það ekki?. 

Í annað sinn gekk þessi kona hnarreist að mótmælendum og fór yfir girðinguna til múgsins án þess að skeyta hið minnsta um upphefð sína og tign, hvað þá öryggi lífs og lima.

Ég vil að þessi kona verði áfram húsfreyja á Bessastöðum. Hún gerði mig að stórasta Íslendingnum við þessi tækifæri.  Hún þarf auðvitað að hafa Ólaf Ragnar með sér til þess að þetta megi verða.

Að Dorrit fari á Bessastaði 2012 er minn pólitíski vilji um þessar mundir.

Þó það kosti það að margir þurfa að kjósa Ólaf Ragnar sem Forseta. Gleymum því ekki hvað hann gerði fyrir okkur í Icesave og stóð í fæturnar gegn Mökkurkálfum Alþingis.

Hann er líka maðurinn hennar Dorritar.


Hæpinn hagvöxtur

er sá sem ríkisstjórnin boðar. Samtök Atvinnulífsins fara yfir hvað raunverulega liggur að baki þeim sýndarbata sem ríkisstjórnin byggir málflutning sinn á:

"Hagvöxtur var 3,7% á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 7. desember. Þessar tölur birtust nokkrum dögum eftir að Hagstofan kynnti áætlun um 2,4% hagvöxt á árinu öllu, sem var 24. nóvember. Ætla mætti því að þessar nýju ársfjórðungstölur hefðu legið fyrir þegar áætlunin var birt og þar af leiðandi felist engar viðbótar upplýsingar í þessum nýjustu tölum. Þær hafa þó orðið einhverjum tilefni til þeirrar túlkunar um að verulegur viðsnúningur til hins betra hafi orðið í atvinnulífinu. Það er því miður ekki rétt. Hagvöxtur ársins skýrist af því að einkaneysla eykst að stórum hluta af  tímabundnum ástæðum og sérstakur búhnykkur vegna makrílveiða vegur þungt í aukningu útflutnings. 

Skýring á hagvexti fyrstu níu mánaðanna liggur einkum í tvennu, þ.e. aukinni einkaneyslu og auknum útflutningi. Einkaneyslan eykst um 43 milljarða króna á þessu tímabili, eða um 7,5% að nafnvirði og 4,4% að raunvirði þegar verðbólgan hefur verið dregin frá. Að flestra mati er hér að stórum hluta um tímabundna aukningu að ræða þar sem þættir á borð við eingreiðslur kjarasamninga, útgreiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar, sérstakar og tímabundnar vaxtaniðurgreiðslur og vaxtaendurgreiðslur Landsbankans vega þungt í aukinni kaupgetu heimilanna á árinu.  Þessi mikla neysluaukning mun því ganga til baka að hluta og hafa samsvarandi neikvæð áhrif á hagvöxt á næstunni.

 Útflutningur jókst um 69 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins, um 3,2% að raunvirði, og innflutningur um annað eins, eða 68 milljarða króna, um 3,6% að raunvirði, þannig að enginn bati kom frá utanríkisviðskiptunum. Af aukningu útflutningsins má rekja rúmlega 13 milljarða króna til útflutnings makríls en ef aukinna makrílveiða hefði ekki notið við hefði aukning útflutnings verið rúmlega 1% að raunvirði en ekki rúmlega 3%. Hagvöxturinn hefði orðið 2,5% en ekki 3,7%.

 Tilefnislítlil gleði yfir nýbirtum ársfjórðungstölum Hagstofunnar ætti ekki að beina sjónum manna frá meginvanda íslensks þjóðarbúskapar, sem er allt of litlar fjárfestingar. Í heild námu þær 12,7% af landsframleiðslu á fyrstu níu mánuðum ársins og fjárfestingar atvinnuveganna námu 8,4% af landsframleiðslu.  Slíkt fjárfestingarstig er of lágt til að skapa varanlegan vöxt og fjölga störfum svo nokkru nemi. Fjárfestingar atvinnuveganna námu 103 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 15 milljarða króna frá sama tímabili 2010. Sundurliðun þessara fjárfestinga eftir atvinnugreinum liggur ekki fyrir en við blasir að stækkunin í Straumsvík og bygging Búðarhálsvirkjunar duga einar og sér til að skýra þá aukningu. ..."

Það var stundum sagt að það væri skammgóður vermir að pissa í skó sinn.  Það er því hæpinn málflutningur hjá ríkisstjórninni að byggja tal sitt um batnandi þjóðarhag á aukinni einkaneyslu og peningaprentun í stað sparnaðar, auknum makrílveiðum sem enginn veit hvort kemur aftur, lækkuðum atvinnuleysisútgjöldum af því 7 mann fari úr landi á degi hverjum og  furstalegum  tekjum  lögfræðistofa af skilanefndarstörfum og starfsemi tengdri almennri ógæfu landsmanna, nefndafargani og allskyns samráðsstarfsemi, utanlandssiglingum opinberra starfsmanna, sem ekki er að framleiða eitt né neitt verðmæti. Alveg eins og að árekstrar og slys í umferðinni geta mælst sem hagvöxtur. 

Sé landflótti ígildi hagvaxtar, þá er þessi ríkisstjórn á blússandi siglingu. Hagvöxtur ríkisstjórnarinnar er hæpin fullyrðing.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband