Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Afnám verðtryggingar

er það sem ég mun beita mér fyrir segir forsætisráðherran Jóhanna Sigurðardóttir.

En má ég spyrja svona á rönd? Hvernig verður fólki gert kleyft að spara?

Hvernig á fólk að fara að því að geyma aurana sína án þess að verðbólgan éti þá? Hvernig á fólkið að leggja fyrir til elliáranna?

Ég hélt alltaf að Jóhanna væri verndarengill þessa fólks sem ekki græðir á afskriftum og niðurfærslum? Hún hugsaði ekki bara um að þeir sem taka lán þurfi ekki að borga þau til baka? Hún myndi líka hugsa um það hvaðan lánsfé framtíðarinnar á að koma?

Hún myndi ekki hugsa bara um annan þáttinn, sem er afnám verðtryggingar á skuldir?


Eigendavandamál Iceland Express

koma enn á ný upp þegar nýr forstjóri Iceland Express hættir eftir 10 daga starf vegna samskiptaörðugleika við stjórn félagsins.

Mönnum er í minni þegar Vilhjálmur Bjarnason afþakkaði flugmiða með þessu flugfélagi á grundvelli þess hver ætti það. Slík staðfesta er ekki öllum gefin og játa ég að ég hef flogið með félaginu þó ég deili oftar en ekki skoðunum með Vilhjálmi. Almenningur virðist líka fljúga með félaginu þrátt fyrir eigandann þó ég hafi nú einsett mér að fylgja héreftir fordæmi vinar míns Vilhjálms meðan núverandi eigandaástand varir hjá félaginu.

En flugrekstur er þess eðlis að það má ekki vera efi um siðferðisstigið að baki félaginu. Samviskusemi, heiðarleiki og reglufesta er alger forsenda þess að flugfélag starfi. Enginn má efast í hjarta sínu um að þessi atriði séu allstaðar fyrir hendi í rekstri og æðstu stjórn flugfélags.

Iceland Express er hinsvegar með eigandavandamál á bakinu sem hamlar trúverðugleika starfseminnar.Félaginu er nauðsynlegt að skipta um eiganda til þess að fólk geti litið það réttu auga sem því er bráðnauðsynlegt sem eini sameppnisaðilinn í stórflugi á markaðnum. Félagið verður að verða félag fólksins en vera laust við að vera þjakað af ferilmálum eiganda síns.


Laugardagskvíðinn

þjakar Ólínu Þorvarðardóttur mikið þessa dagana.

Það er vissulega ekki gott að lögreglan skuli ekki geta verið viðstödd til að verja Ólínu og ríkisstjórnarliðið fyrir hugsanlegum fagnaðarlátum stuðningsmanna á Austurvelli.Margsannað er að svona fagnaðarsamkundur geta farið úr böndum og þeir sem hyllinnar njóta þurft að koma sér í skjól fyrir aðdáendum sínum.

Mörgum er i fersku minni þingsetningin í fyrra. Þá gekk frú Dorrit Mussajef hnarreist næst aðdáendahópnum úr kirkjunni að Alþingishúsinu, og deplaði ekki auga þó einhverjir götustrákar væru með ólæti. Menn sáu svo útundan sér einhvern lítinn kall skjótast í hnipri á bak við hina kirkjugestina og hverfa sem örskot innum bakdyr þinghússins og komast þannig hjá fagnaðarlátum stuðningsmanna sinna.Snarráðir menn eru allstaðar í uppáhaldi fyrir vaskleik sinn.

Ætti Ólína ekki bara að biðja hana frú Dorrit að leiða sig þessa erfiðu metra úr kirkjunni? Hinir vinsælustu geta bara tekið þetta á sprettinum bakvið yfir götuna í Alþingishúsið. Ef einhverjir stuðningsmenn nenna þá að mæta svona snemma á laugardegi. Þeir Sjálfstæðismenn sem eru á venjulegum laugardagsfundum í Kópavogi akkúrat á þessum tíma, geta auðvitað ekki komið til að klappa fyrir sínum mönnum. Þeir eeru hugsanlega ekki hrifnir af því að vera með þingsetninguna á þessum tíma en svo verður víst að vera.En stjórnarliðarnir í Kópavogi eru ekki með neina fundi á laugardögum og geta því mætt til að brjóta upp hversdagsleikann hjá sér.
Vonandi verður Ólína með hýrri há og laus úr þessum laugardagskvíða.Hvað er svo sem líka að óttast þegar ástmegir þjóðarinnar fara að bæna sig áður en þeir ganga til sinna vinsælu verka. Frú Dorrit og Herra Ólafur eru jú með þeim og þau heiðurshjónin eru sannarlega fólk fólksins sem það vill að verði áfram á Bessatöðum.

Engan laugadagskvíða Ólína, þú sem ert bæði fögur og fótfrá og kyndilberi hinna fjölmörgu kjósenda þinna.


Hvað vill kaffibrúsakarlinn ?

 

hann Howard Schultz gera í ríkisfjármálum Bandaríkjanna? En stöðugt vaxandi vonbrigði eru með frammistöðu stjórnmálamanna í því landi. Orðin sem bandarískur almenningur notar gefa ekki neitt eftir þeim boðskap sem hér heyrist frá Íslendingum.

Hann Howard segir frá bréfi sem hann sendi nýlega út til 100 efstu stjórnenda stórfyrirtækja í Bandaríkjunum. Honum finnst hinir kjörnu leiðtogar úr báðum flokkum hafa brugðist í því að þjóna landinu. Þeir séu uppteknir af eiginhagsmunapoti og hrossakaupum en gleymi fólkinu. Hvað vill hann gera?

 Jú,  hann hvetur fyrirtækin til þess að hætta fjárstuðningi við stjórnmálaflokkana tvo og frambjóðendur þeirra þangað til að þeir sýni af sér ábyrgð og geri bragarbót. Þannig muni styrkveitendurnir skrúfa fyrir peningana sem hinir sói og spilli undir sviknum loforðum.

 Gefum Howard orðið:

"Hvernig ég vil laga hlutina til:

 Ég hef nýlega sannfært meira en 100 efstu stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins  að skrifa undir tveggja þátta yfirlýsingu.

Í fyrsta lagi er það, að þeir  muni ekki leggja  pólitísk framlög í sjóðistjórnmálaflokkanna  þeirra þar til að örugg, langtíma, og þverpólitísk  áætlun um ríkisskuldir og tekjur  og fjárhagslegt öryggi hefur verið gerð. Áætlun sem fjallar bæði réttindi og tekjur.

 Í öðru lagi, þá skuldbindi þeir sig sjálfir til að halda áfram  fjárfestingum til að fjölga störfum fyrir fólkið.

Hvers vegna vildi ég snúa mér til aðgerða? Vegna þess, eins og svo margir Bandaríkjamenn, að ég er fjúkandi vondur.  Fjórum milljörðum dollara var varið í  forsetakosningarnar 2008. Nú er áætlað að 5,5 milljörðum verði varið til  forsetakosninganna 2012.  Á meðan fólkið er atvinnulaust, efnahagsástandið heldur áfram að versna og ekkert er verið að gera í því  í Washington.

Þetta er ekki lengur forystu-kreppa. Þetta er neyðarástand. Sá skortur á samvinnu og ábyrgðarleysi meðal kjörinna fulltrúa í dag, og það, að þeir hafa sett flokkshagsmuni framar hagsmunum fólksins, er hroðalegur og svívirðilegur. Hugsum okkur  bara um hvað allir þessir kosningapeningar hefðu getað gert fyrir menntakerfið, fyrir félagsmálin sem stjórnmálamenn okkar mynda sig sífellt til að skera meira og meira niður?

Hugsum okkur bara um hvernig hagsmunapotið um smáatriði í sölum og göngum þingsins hefur verðfellt  orðspor Ameríku um allan heim?

 Þetta gæti vel verið verið sú forysta sem við hefðum mátt við að búast. En þetta er ekki forysta sem við eigum  skilið.

Þetta var  boðskapur minn í bréfinu  og hann hefur snert taug. Ég hef heyrt frá mörg þúsund Bandaríkjamanna sem ég hef aldrei hitt, sem tjá mér stuðning og þakklæti. Skoðanabræður mínir í  fyrirtækjunum  hafa skuldbundið sig til að gera hvað við getum til að skapa fleiri  störf, alveg án tillits til þess hvað er að eiga sér stað í Washington . Að minnsta  kosti,getum við unnið þannig gegn skemmdunum sem drembnir leiðtogar okkar eru að gera þarna fyrir innan Beltway( í Washington).

Með öðrum orðum, við þurfum að hverfa á brautir trúnaðartrausts sem  hverfa af brautum  ótta-og öryggisleysis sem nú þjakar land okkar."

Þarna hafa menn það. Hann neitar að leyfa pólitíkusunum að komast lengur upp með lygar og svik og aðgerðaleysi og ábyrgðarleysi sem einkennt hefur ríkisrekstur Bandaríkjanna nú um langt árabil.  Hann hótar einfaldlega aðl taka af þeim peningana sem þeir kúga af fyritækjunum. Öfugt við Ísland, þar sem ríkissjóður er látinn borga í auknum mæli starfsemi stjórnmáaflokka en hlutur einstaklinga og fyrirtækja rýrnar.Hverfur ekki hvatinn til að standa sig með þessu fyrirkomulagi? Illu heilli lét Sjálfstæðisflokkurinn draga sig inná þessar brautir af kommaflokkunum, sem ekki gátu aflað neins fjár útá stefnuskrár sínar eða afrek. Sjálfstæðisflokkinn studdu flokksmenn fjárhagslega í gegnum styrktarmannakerfið og flokksmenn beittu áhrifum sínum til að láta fyrirtækin auglýsa og styrkja flokkinn.

Howard vill hætta að borga fyrir svikna vöru í bandarískum stjórnmálum. Halda stjórnmálamönnum til ábyrgðar og orðheldni með því að borga ekki fyrir svik eða stefnuleysi.

Hvaða augum skyldi hann líta á Steingrím J. Sigfússon? Leiðtoga stjórnmálaflokks  sem hefur svikið hvert einasta kosningaloforð sem hann hefur nokkru snni gefið sjálfur eða sem flokkur? Eða Jóhönnu Sigurðardóttir, sem virðist ekki sjá hvað er að gerast í kringum hana. Stjórnmálamenn sem ekki skynja neyð fólksins og virðast undrast það mest að fólkið skuli ekki bara borða kökur ef það vantar brauð?

Howard þessi er forstjóri stærsta kaffibrúsa þeirra vestanhafs, Starbucks. Greinilega kaffibrúsakall í krapinu.


Við borgum ekki erlendar skuldir óreiðumanna !

sem kallast Icesave. Nú reynir á staðfestuna og við segjum blákalt:

Við borgum ekki erlendar skuldir óreiðumanna.

Bretar og Hollendingar  skipa dóminn sjálfir með einhverjum ráðum.  Auðvitað dæma þeir okkur seka og til að borga þeim ítrustu kröfur.

Við segjum hinsvegar nei. Við leggjum allt undir, við látum frekar reka okkur úr EES(enda líklega ekki fært okkur neitt nema vandræði og vitleysu þegar allt er talið), NATO, SÞ, Hvalveiðiráðinu og hvaða klabbi sem er og Bretar og Bandaríkjamenn stjórna. Látum Frakka og Þjóðverja taka afstöðu gegn okkur ef þeir þora. Og þær skandínavísku vinaþjóðirnar sem vilja. En Færeyingar munu ekki bregðast oikkur og varla Kína né Pútín heldur.

Samfylkingin og VG lyppast auðvitað niður og væntanlega ýmsir þingmenn aðrir sem vildu samþykkja Icesave lll. Þeir segja auðvitað núna, við sögðum ykkur þetta!

Nú hjóla Tjallarnir og Tréskórnir  í okkur. Sannir Íslendingar taka nú á móti með Ólaf Ragnar og Davíð sem talsmenn.

Við borgum ekki erlendar skuldir óreiðumanna ! 

 


Árás Íslands

og meðreiðarsveina þess á Lýbíu gengur á fullu án teljandi afskipta né ályktana Alþingis Íslendinga. Gaddafi kallinn verst hetjulega með sínum mönnum. En skiljanlega hallar á hann fyrir yfirburða herstyrk Íslands og bandamanna þeirra í Evrópusambandinu og tapar því unnu stríði sínu.Manni er sem maður heyri Egil Skallagrímsson kveða vð raust í haugi sínum, slíkur er okkar hetjuskapur við erlenda herkónga og ribbalda.

Hvað bíður Lýbíumanna eftir að við höfum rústað Gaddafi og stolið olíunni af honum? Var einhver önnur lógísk skýring á hernaði okkar þar suðurfrá önnur en olía? Alveg eins og þegar við réðumst á hann kollega minn og jafnaldra, Saddam Hússein, ekki einu sinni heldur aftur.Nú erum við Íslendingar búnir að láta hann Saddam bíta í gras fyrir sameinuðum herstyrk okkar og viljugra vina okkar. Við erum búnir að tryggja flæði olíunnar frá Írak um langa framtíð og sýna Írönum í leiðinni hvað bíður þeirra ef þeir makka ekki rétt eins og Mossadek reyndi einu sinni og fékk til tevatnsins hjá okkurá Vesturlöndum.

En sögur fara af því, að þessum þjóðum sem við erum að dusta til í nafni lýðræðisástar gangi illa með democrazyið okkar.Bæði í Íran og Afghanistan þer sem Talíbanastláturtíðin hefur gengið með afbrigðum illa og þeir eru því sífellt að færa sig uppá skaftið. Nú eru allar horfur á því að þeirra verði ríkið von bráðar þegar við förum heim þaðan. Og í stað lýðræðis og takmörkunar trúarofstækis talíbana komi andhverfa þess. Þó er samt tryggt betra heróinframboð á Vesturlöndum til lengri tíma, sem er þó áþreifanlegur árangur af herhlaupinu okkar. Því hvað eiga fátækir bændur í fjöllum Tora-Bora að gera annað en rækta það sem markaðurinn vill?

Hvað gefur í rauninni skeð hjá þessum þjóðum eftir hernað okkar? Hafa þær höndlað Herrann eins og Jón Kadett í Hernum sínum?

Jú Saddam er farinn, sem var hreint ekki alvondur ef menn vilja kynna sér það. Í stað styrkarar stjórnar, þar sem hann færði þjóð sinni margvíslegar framfarir í menntun og heilsugæslu meðal annars, mun líklega taka við stjórn vígamanna og óeirðaseggja.Þeir bara bíða eftir því að við förum af svæðinu.

Sama verður uppi á teningnum í Lýbíu. Framfarirnar sem urðu undir traustri stjórn Gaddafís offursta hverfa sem dögg fyrir sólu og upplausn og agaleysið tekur völdin. Langvinn borgarstyrjöld blasir við í þessum löndum þangað til að nýir einvaldar, jafnokar þeirra fyrri, birtast sem geta friðað löndin aftur. Annað stjórnarfar en menntað einveldi virðist bara ekki henta í löndum múslíma eins og dæmin sanna.

Gaddafi og Saddam voru í sjálfu sér alveg eins vond-góðir og Fidel Kastró á Kúbu. Menn sem komu með framfarir til landslýðsins í formi menntunar, heilbrigðisþjónustu og friðar. Kaldrifjaðir morðingjar auðvitað þegar þess þurfti með en létu fólk yfirleitt í friði meðan það þagði og hlýddi. Við höfum bara ekki ráðist á Kastró af því hann á enga olíu þannig að þangað er ekkert að sækja og lýðræðisástin aðeins upptekin annarsstaðar . En hann er ekkert öðruvísi pappír en hinir skálkarnir þannig lagað.Blóðugur upp að öxlum eins og þeir, góður vinum sínum en röggsamur við illþýði og ófriðarmenn.

Kúbverjar búa við frið og fátækt, sem lætur þó heldur undan síga með aukinni ferðamannagengd. En þjóðir Lýbíu, Íraks og Afghanistan eiga langt í land með að fá rólegan nætursvefn Kúbverja. Þeirra bíða rán og rupl vígamanna og stríðsherra um leið og við drögum herstyrk okkar til baka.
Vesturlönd hafa með samstilltu átaki séð til þess að margir enn munu snýta rauðu í fjandmannaríkjum þeirra áður en friður kemst þar á.

Árásarríkið Ísland hefur ekki atuðlað að hækkun meðalaldurs í þessum löndum hvað sem öðrum árangri líður.


Bretinn ekki auðsóttur

þó að Steingrímur bjóði upp á það sem grunn fyrir málsókn að íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir einhverju óskilgreindu tjóni. Slíkt mál er ekki hægt að sækja í skaðabótamálum sem ganga ekki út á almennt kjaftæði.

En það er hinsvegar lokun bankanna, Heritable og Singer og Friedlander eða hvað þeir hétu, sem eru afmarkaðar stærðir. Sömuleiðis allar kyrrsetningar peningalegra eigna í Englandsbanka, vaxtalausar að ég hef heyrt. Vaxtakostnaður neyðarlána frá AGS. Álag ríkisskulda vegna lækkun matsflokka. Afmörkuð mál sem góða lögfræðinga þarf til að formúlera og færustu bankamenn til að finna.

Þar gætu þeir gömlu bankastgjórarnir kannski orðið hjálplegir að finna efni. Best væri að Bretar sæju að sér og byðu uppá samkomulag utan réttar fyrir þá svívirðu sem þeir gerðu okkur. En það þýðir varla að senda þau Jóhönnu og Steingrím með félaga Svavari þangað í þeim erindum held ég. Líklega verður þetta að bíða betri tíma og annarra fulltrúa úr Stjórnarráðinu..

En það er betra að að fara að safna sakarefnum í tíma því Bretinn er aldrei auðsóttur.


Upphlaup og offors

eru einkenni forsætisráðherra þegar kemur að stjórnarathöfnum.

Hún rauk til að sagði að hér vantaði stjórnarskrá öðru fremur.Hún reyndi að fá slíkt frumvarp fram með flumbrugangi. Hún datt á andlitið í forina, gerði allt vitlaust sem hægt var að gera og afleiðingin er sú að allt bröltið verður að engu haft.Nær enginn hefur áhuga á að lesa frumvarpið hvað þá meira.

Hún eyðilagði septemberþingið með því að truntast á frumvarpi um nokkuð einræðisleg völd til hennar að laga ráðuneytin að sínum sérþörfum og stórauka kostnað við rekstur þeirra.Þau eru nú búin að virka nægilega vel í áratugi svo ekki virtist liggja á þessu.En hún skal setja sín spor í söguna og því skal öllu til tjaldað.

Hún lagði ofuráherslu á að framlengja gjaldeyrishöftin og tókst það að hluta. Grunnurinn er þá lagður að áframhaldi kreppu og hagvaxtarleysi það sem eftir lifir hennar valdatíð. En hagvöxtur er neikvæður öll hennar ár á valdastóli og hvergi sést bjarma fyrir betri tíð því útilokað er að hagvöxtur náist á næsta ári.

Nú kemur hún næst með fjárlagafrumvarp sem verður sjálfsagt álíka ómarktækt og það síðasta, þar sem hallinn jókst um helming frá áætlun. Næsta frumvarp verður sjálfsagt í sama stíl, uppfullt af óskhyggju útfrá forsendum sem ekki eru til.

Evrópusambandsaðildin er sett ofar öllu. Sambandið sjálft er hinsvegar búið að setja skák á okkur með landbúnaðarskilyrðunum. Eiginlega eru viðræðurnar sigldar í strand en það mun Jóhanna aldrei viðurkenna heldur böðlast áfram á sinni hátt án tillits við alla synsemi eða þjóðarhag.

Stjórnin hennar er rúin trausti. Fjörbrot hennar eru hinsvegar allt of langdregin og lítil verður frægð þeirra Þráins Bertelssonar og Guðmundar Steingrímssonar af því að láta smala sér í slíka kattatilveru.

Það er ekki bjart framundan þó nóg verði um upphlaup og offorsþegar skynsemina vantar.


Getnaðarmálaráðuneytið?

er hugsanlega lausin sem leitað hefur verið að?

Maður hefur haldið að getnaður og barnsmeðganga væri málefni sem einstaklingar hefðu séð um frekar óskipulagt þessa og komið þjóðinni á þann stað sem hún er nú stödd á? Barnsmeðganga konu höfum við haldið til þessa að væri hennar nokkuð einkamál? Getur hún ekki farið í fóstureyðingu nokkuð að eigin vali? hefur hún ekki nokkuð með fæðinguna að gera? Getur hún ekki gefið annarri konu barnið?

Hefði maður ekki freistast til að álykta að staðgöngumæðrun væri einkamál tveggja kvenna, hugsanlega með aðkomu sæðisgjafa að einhverju leyti? Nei, ekki aldeilis er það svo. Alþingi Íslendinga vill hafa hér aðkomu? Skyndilega eru ótal siðferðismál uppi á löggjafarsamkundunni þegar kemur að málefnum slíkra barna.

Ef nú á að fara að skoða þessi þýðingarmiklu fjölgunarmál á löggjafarþinginu, er þá ekki rétt að fara að taka þetta föstum tökum? Verður ekki að fara að vanda meira til verka? Láta ekki mannfjölgunarmálefnin vera svona algerlega stjórnlaus? Gera ekki hitt og þetta í málflokknum án nauðsynlegra leyfa sem hugsanlega má veita eftir innlögn umsóknar eða útdrætti? Verður ekki að vanda til mannfjölgunarmála þjóðarinnar?

Er ekki sérstakt getnaðarmálaráðuneyti best til þessa fallið að afgreiða slík mál?


Á bara að þegja?

Steingrímur J?

Í Mogga sér maður að Guðlaugur Þór hefur beðið fjármálaráðherra um mat á tjóninu sem varð þegar Gordon Brown beitti okkur hryðjuverkalögum:

"Tjón fyrirtækja vegna hryðjuverkalaganna sem Bretar beittu gegn Ísland haustið 2008 er metið á um 5,2 milljarða króna. Langmestan hluta þess tjóns má rekja til niðurfelldra gjaldfresta.
Þetta kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra um mat á áhrifum af beitingu Breta á hryðjuverkalögunum og lögð var fram á Alþingi fyrir stundu. Það var Guðlaugur Þór Þórðarson og fleiri þingmenn sem fóru fram á skýrsluna...."

Flest bendir þó til þess að óbeint tjón af hryðjuverkalögunum sé mun hærra og líklegt sé að laskað orðspor íslensks efnahagslífs, og þar með íslenskra fyrirtækja, hafi langmest tjón í för með sér...."

Er ekki hægt að formúlera kröfu á þetta fólk? Eigum við bara að borga þeim vexti og skaðabætur?

Á bara að þegja?


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 3419709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband