Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Verðhækkanir

virðast æða áfram án þess að fréttist af viðleitni leiðtoganna til að reyna að halda aftur af fólki. Verðhækkanir leiða til verðbólgu?  Verðbólga hækkar skuldirnar hvað sem áformum Framsóknar um skuldaaðlögun líður. Hún virðist feig áður en hún byrjar. Allt fer í sjálft sig vegna þess að þjóðin tekur sig ekki saman í andlitinu og slær skjaldborg um krónuna sína.

Einokunin í landbúnaðargeiranum hækkar vörurnar purkunarlaust bara svo að hún hafi það áram ágætt. Einhverjir þvæla um forsjá í næringarfræði sem afsökun.  Gjaldskrárhækkanir hjá sveitarfélögum og orkufyrirtækjum miða við það sama. Að hækka fyrir sig því neytandinn kemst ekkert annað.

Voru ekki verðstöðvanir settar á á fyrri velmektardögum Famsóknar? Voru ekki búnar til leiftursóknir gegn verðbólgu áður menn fundu upp þjóðarsáttina?    Nú á bara allt að hækka eftir smag og behag hvaða einokunarfursta sem er. Aríonbanki keyrir upp kaupið hjá sér meðan Spítalarnir eru að verða stopp. Hver skyldi borga hækkunina á endanum?

Allir mega hækka hjá sér. Allir nema launþegar í ASÍ auðvitað. "Læknirarnir" streyma úr landi nema kaupið verði hækkað og læknadeildin efld.   Bensínið og brennivínið á að hækka um áramót  bara si sona. Enginn getur stöðvað það og auðvitað alls ekki ríkisstjórnin.  Allir grenja yfir of lágum töxtum. Aldraðir og öryrkjar sjá fram á bjartari tíð eða hvað?

Allt fer hinsvegar í steik ef hækka á kaupið hjá ASÍ.  Fyrir það  verður refsað með vaxtahækkun Más í Seðlabankanum. Skilur enginn hversu betra væri fyrir fólkið að slá skjaldborg um krónuna sína?  Þykir engum vænt um hana?  Vilja bara fá hana að láni og borga lánið með verðbólgu óverðtryggt. Afnemum verðtrygginguna á lánunum gargar Pétur á Sögu og allir taka undir um áframhald dellunnar.Hvað skyldi fólkið gera ef hér væri evra? Hvað skyldu stjórnvöld gera þá ef það væri ekki hægt að semja um meiri erðbólgu? Af hverju vilja menn þá ekki taka lán í erlendum gjaldmiðli?

Er enginn sem vill ræða leiðir til að keyra verð og taxta niður með samræmdu átaki? Fækka verðbólgukrónum í stað þess að fjölga þeim? Gera nýja þjóðasátt?

Þessi þjóð virðist gersamlega heillum horfin og forystulaus þegar kemur að grunnspurningum um stjórnun efnahagsmála. Í stað þess að forsætisráðherra  tali við þjóðina á hverjum degi um leiðir til þess að ýta vitleysunni niður, þá er bara gefið í. Fleiri kostnaðaraukandi dellumál tekin upp frá ESB  sem möppudýrin senda niður á Alþingi til stimplunar sem lög. Öll skynsemi virðist  útlæg og allt anar áfram í samræmdri vitleysunni.

Er okkur  Íslendingum yfirleitt  viðbjargandi?  Erum við yfirleitt  þjóð? Erum við ekki frekar laustengt  bandalag sérhagsmunahópa?  Flytjum inn vandmál af hinum og þessum þjóðernum og setjum á sósíalinn hjá okkr. Byggjum lúxusfangelsi með sérbýlum meðan Frakkar hafa sumstaðar 9 fanga í 11 m2 klefum.

Eru Þjóðverjar svona hugsandi? Virðist allt þetta fólk virkilega  halda að nægilegar verðhækkanir hjá hverjum fyrir sig leysi allan vanda?

 

 

 


Fríkeypis

sagði hún dóttir mín þegar hún var lítil þegar eitthvað var sagt ókeypis.

Milton Friedman sagði okkur að það væri enginn ókeypis hádegisverður til, þó að ekki væri rukkað strax. Það borga þá bara einhverjir aðrir en þeir sem éta. Stefán Ólafsson spurði Friedmann í sjónvarpinu hvort honum fyndist ekki óeðlilegt að selja inn á fyrirlestur sinn í stað þess að hafa það ókeypis eins og í Háskólanum.  Friedmann útskýrði þetta fyrir Stefáni á eftirminnilegan hátt sem margir skildu. Ýmislegt bendir til þess að Stefán óLafsson  ekki hafi skilið  þetta jafnvel ekki enn í dag ef marka má ýmis skrif hans síðan.

Eins er þetta með jarðgangnagerð. Í dag eru tvenns konar göng á Íslandi. Veggjaldagöng og fríkeypisgöng. Hin síðarnefndu eru til dæmis Vestfjarðagöng, Héðinsfjarðargöng og  Almannaskarðsgöng. Nú er verið að grafa Norfjarðargöng sem eiga að vera fríkeypis meðan Vaðlaheiðargöng eiga að bera veggjald. Fríkeypis þýðir bara að einhver annar borgar en sá sem notar.

Ég var á fundi Sjálfstæðismanna í morgun.  Þar sagði einn vinur minn að það ætti fyrst að grafa frá Seyðisfirði til  næsta fjarðar(hvað sem hann heitir) og svo áfram áður en grafið væri undir Fjarðarheiði. Ég mótmælti þessum hugsunarhætti  og sagði að það ætti að grafa þessi göng öll strax í dag. Bankarnir væru stútfullir af peningum og nógar lúkur og vélar væru án vinnu á landinu. Það þyrfti bara að breyta hugsunarhættinum. Umferðin um göngin á að borga fyrir að fara í gegnum göng. Helst öll göng svo að jafnréttis sé gætt. Ekki bara umferðin í Reykjavík eða annarsstaðar.

Af hverju á að vera fríkeypis í Héðinsfjarðargöng, Vestfjarðagöng  og Norfjarðargöng meðan það kostar í Hvalfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng?

Vantar okkur ekki betri samgöngur? Vantar okkur ekki vinnu? Er þjóð mín svo miklu ríkari en þjóð Dariosar Persakóngs að hún hafi efni á slæmum samgöngum?  

Hvað er að þessari þjóð og þeim landsbyggðarþingmönnum sem komu þessu svona fyrir? Hvað er að þessum núverandi þingmönnum? Er allt helfrosið í höfuðsvörðum þeirra?

Gröfum fleiri jarðgöng strax og höfum gjaldtöku.  Örfáar krónur á bílinn gera gæfumuninn í því að fá göng strax en ekki eftir 30 ár. Hversu mikinn hagvöxt munu þessi göng ekki færa okkur á þrjatíu árum?

Það er ekkert fríkeypis, hvort sem eru niðurgreiðslur á menningu eða heilbrigðisþjónustu  þó sumir haldi því fram.

 


Raunhæfari fjárhagsáætlanir

hjá sveitarfélögum virðast loksins vera að verða veruleiki.

Hér áður fyrr fór rosalega í taugarnar á mér hvernig sveitarstjórnir gerðu fjárhagsáætlanir aðeins til að sprengja þær og gera svokallaðar endurskoðaðar fjárhagsáætlanir á haustin eftir að búið var að láta undan allskyns þrýstingi. Þar með varð sú fyrri ómerkt plagg sem í raun hefði verið óþarfi að gera þar sem enginn ætlaði að standa við hana.

Ármann Kr.  Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs kynnti fjárhagsáætlun fyrir 2014 fyrir Kópavog á fundi í Sjálfstæðishúsinu á laugardaginn var. Hann kynnti líka þá nýju hugsun sem kemur af því að nú er búið að banna endurskoðaðar fjárhagsáætlanir með lögum. Nú er fjárhagsáætlun skipt upp í ramma utan um hvert svið þegar hún er gerð. Nú kemur einhver starfsmaður af sviðinu og segir að hann verði að fá meiri mannskap eða aura vegna einhvers sérstaks. Þá er sagt við hann, að það hljóti að vera  eitthvað sem er minna áríðandi að hans sjálfs mati inni í rammanum. Hann megi alveg draga það út og setja þetta nýja í staðinn meðan kostnaðurinn vex ekki.

Einfalt en virkar. Nú standast fjárhagsáætlanir í megin atriðum. Allir vita hvernig þær eru þegar þær eru gerðar. Allir vita af römmunum og þannig verður allt auðveldara.

Erindi Ármanns var vel tekið á fjölmennum fundinum og margs var spurt. Fólk skildi held ég almennt að nú er full alvara með fjárhagsáætlunum. Jafnvel núna á kosningaári er ekki gert ráð fyrir neinu framkvæmdafylleríii hjá Kópavogi eins og oft hefur verið við slík tækifæri. Það virðist vera unnið kerfisbundið að því að lækka skuldir bæjarins og allar líkur eru til að það takist.

Laugardagsfundir hjá Sjálfstæðismönnum í Kópavogi eru klukkan 10 á hverjum laugardagsmorgni. Þar er skotið saman í kaffi og kruðerí og alltaf eru fróðlegar umræður og erindi á dagskrá.  Ég hvet alla Sjálfstæðismenn að koma og taka þátt sem húsrúm leyfir. Það sér enginn eftir þeim tíma. 

Eftir að fylgjast með fjárhagsáætlunum í aldarfjórðung finnst mér rofa af nýjum degi í vinnubrögðum bæjarstjórnarmanna.

Ég held að fjárhagsáætlanir verði raunhæfari hér eftir en hingað til. 


"Galin aðgerð" !

 er sú fyrirætlan möppudýra Evrópubandalagssinna að hækka eldsneytisverð á Íslendingumum um næstu áramót vegna tilskipunar ESB um að blanda innfluttum lifrænum efnum saman við eldsneytið sem gerir það miklu dýrara.

Þessi þjónkun við tilskipanir ESB, sem okkur ber engin nauður til að framkvæma.  er sú gjöf til verðtryggingarpíndra heimila og  þrautpíndra láglaunahópa, sem þeir þurfa síst á að halda.

Um þessar fyrirætlanir má nota orð forseta Alþýðumsabandsins sem hljóða svo í leiðara Morgunblaðsins í dag:

" Og Gylfi Arnbjörnsson sagði í tilefni af fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum borgarinnar:

»Mér finnst það vera algerlega galin aðgerð að hér verði einhver friður á vinnumarkaði og borgin ætli að hækka leikskólagjöld á einstæða foreldra og öryrkja og barnafjölskyldur, í upphæðum, sem væntanlega myndi ekki duga sú launahækkun sem þeir hafa verið að leggja til að við ættum að samþykkja. Mér finnst þetta vera einmitt dæmi um það sem ég nefni (að) það verða allir að fara leiðina.«

Og Gylfi heldur áfram að sögn Morgunblaðsins:

  »affarasælast gæti verið að auka stöðugleika, létta vaxtabyrði og breyta skattheimtunni«.Undir slík sjónarmið er auðvelt að taka og enginn gerir það ákafar en reynslan og sagan. "

Og Morgunblaðið bætir við:

"Og það er auðvitað sanngjörn krafa hjá forseta ASÍ að komið verði í veg fyrir að stórir aðilar, sem hafa mikil áhrif á kjör almennings á útgjaldahliðinni, sleppi fram af sér beislinu. Það er svo sannarlega ekki hlutverk höfuðborgar landsins að hleypa illu blóði í kjarasamninga á byrjunarstigi. En hitt er jafn augljóst að verði aðalsamningagerð ekki nema til 6 mánaða eða litlu lengur eru ekki efni til mikilla afskipta ríkisvalds af slíkri samningagerð."


Ætlar ríkisstjórnin virkilega að leggja það til málanna, stöðugleika og lífsbaráttu þjóðarinnar,  að hækka hér eldsneytisverð að óþörfu um komandi áramót?

Heggur þá sá sem hlífa skyldi.

Þetta verður "galin aðgerð" eins og á stendur og var þó ærið fyrir.


Náttúrupassinn

er eitthvað sem ég ekki skil.

Mér skilst að hann verði einskonar nefskattur eins og útvarpsgjaldið sem leggst á alla og fyrirtæki líka og átti að renna til  RÚV. Sem hann gerir svo auðvitað ekki og rennur í ríkissjóðshítina í staðinn. Alveg eins og bensínskatturinn átti að fara til vegagerðar en má segja að renni beint í niðurgreiðslur til landbúnaðarins í staðinn. Verður ekki sama með Náttúrupassann?  Pólitíkusar  veita honum þangaðí kjördæmin sín  sem þeim hentar?

Það gengur flott hjá strákunum að selja inn á Kerið í Grímsnesi. Allir borga glaðir 2 evrur eða 3 dollara. Það fer að líða að endurbótum á umhverfinu þar. Það er mikil traffík líka í október er mér sagt.

Nú ætla þeir að fara að selja inn á Geysissvæðið. Ríkið er á móti því út af fyrirhuguðum Náttúrupassa. Á að bíða eftir því? Endurbætur á svæðinu eru löngu tímabærar.

Og ég held að það eigi að setja borholu í Geysi, eins og gert var við Strokk á sínum tíma, til að hressa uppá þann gamla sem er steinhættur  að geta gosið vegna vatnsleysis. Það yrði aldeilis  gott fyrir túrismann að geta boðið aukalega upp á alvöru Geysisgos.

Það á að selja inn á hvern stað fyrir sig. Þá borga menn fyrir það sem þeir eru að skoða. En ekki að greiða fyrir einhverja staði sem enginn vill skoða með einhverjum Náttúrupassa. 

 

 


Stór-Þýzkaland

er kallað Evrópubandalagið öðru nafni.

Það er alveg sama hvernig maður lítur á Þýskaland, það vill bara vera stórt. Ekki endilega eins stórt og USA eða Kína. Ekonomische Grossmacht  mit Wohlstand für alle Deutsche. 

Ef maður flýgur yfir landið að næturþeli þá er það svipað og að fljúga yfir New York svæðið. Eitt samfellt ljósahaf. Munurinn á Þýskalandi og Ameríku er hinsvegar landrýmið. Þýzkarinn á aðeins þetta ljósahaf, allar þessar verksmðjur og velsæld á miklu minna svæði en Kanarnir. Þetta er einskonar risastór mauraþúfa þar sem unnið er sleitulaust og án teljandi truflana af hugsunum um eitthvað annað en að græða meira í dag en í gær. Þetta ríki knýr áfram ESB og sukkið þar. Þeir gera allt sem þeim er yfirleitt sagt. Meira að segja að borga fyrir letingjana í suðrinu og froskana vestanmegin þó þeir tauti í skegg sér.Froskarnir eru gagnlegir til þess að skaffa rafmagn sem þeir búa purkunarlaust til með kjarnorku sem Þjóðverjar gera ekki af því að þeir eru opinberlega svo grænir . En allir vita hvað raunveruleikinn í þeim efnum er. Það sem er gott fyrir Þýzkaland mengar ekki.

Það eru margir sem eru ekki mikið hrifnir af Þjóðverjum almennt. Þó ég dáist að þeim á vissan hátt þá hef ég alltaf vissa fyrirvara á þeim. Finnst þeir margir vera smáborgarar upp til hópa sem ég skil aldrei til fulls.Margir benda á Hitler sem dæmi um illsku kynstofnsins. Um hann vita Þjóðverjar nútímans ekkert mikið og vilja skiljanlega ekki vita. Skólatextarnir eru mjög fátæklegir um hans regeringtíð og valdatöku.Þeir vilja sem minnt um hann tala, kannski skiljanlega af því að það er búið að nugga þeim svo upp úr þessu öllu.

Menn af öðrum þjóðum segja að svona skepnuskapur gat aðeins gerst í Þýzklandi Hitlers sérstaklega. En ég held að allir einstaklingar geti orðið að skepnum við vissar aðstæður. Hitler tókst sitt glæpaverk vegna svakalegrar málafylgju, hávaða og góðum samstarfsmönnum og gersamlegrar fyrirlitningar á þýskum alþýðmönnum og kjósendum. Honum tókst ekki ætlunarverk sitt vegna þess hversu heimskur og óupplýstur hann var um heiminn.

Þýzkarar  eru svo þægir við kanslara sína að undrum sætir. Ef þú ert orðinn kanslari þá ertu alltað því Guð í þeirra augum. "Yfirvöldunum þóknast þú"  sungum við mörlandar einu sinni líka. Því kanslarinn segir alltaf Deutschland Deutschland über alles, über alles auf der Welt og það dugar venjulegum vel uppöldum þýzkara. Hann elskar sitt land ofar öllu, sínar evrur, sína þjóð.  Þeir elskuðu Friðrik mikla sama hversu mikið blóð hans regeringstíð hafði kostað. Hann var þeirra Friðrik sem myndi aldrei svíkja. Þeir flykktust út á göturnar til að fá að standa þögulir með hattana í höndunum þegar gamli Friðrik reið fetið í tóbaksblettuðum og snjáðum úniformi sínum til Potsdam að heimsækja elliæra töntu sína og drekka með henni te og éta kremkex á hverjum sunnudegi eftir hádegi. En hún átti víst ekki aðra að.

Þannig er þetta í enn dag. Það er bara evran eða markið sem skiptir þýskarann máli.Allt annað er krúsidúll eins og Iacocca hefur eftir kallinum í GM. Og það er kanslarinn sem á að vernda þá og peningana frá öllu illu.

Almennt menntunarleysi venjulega þýskarans, alþýðumannsins og kjósandans,  veldur því að hann dregur allt aðrar ályktanir af umheiminum en við. Yfirvöldunum þóknast þú .. sérstaklega þegar það kemur við pyngju annarra.

En þetta þýzka fólk er almennt gott fólk, vinnusamt, ærlegt og hjartahreint. Kannski er það frekt fyrir sig og sína og kröfuhart við þá. En það er líka kröfuhart við sig sjálft. Það hefur sjálfsstjórn. Þar skilur á milli þeirra og okkar. Sjálfstjórn þjóðar.  Við Íslendingar erum ekki þjóð í þeim skilningi heldur hrærigrautur hagsmunahópa og sérvitringa sem hafa takmarkaða samkennd með næsta manni. Áberandi skort á samábyrgð í gjaldtöku og gjaldfrekju. Það er þar sem skilur á milli þýzkarans og flestra annarra þjóða.

Stór-Þýzkaland ræður Evrópu. Eki bara núna heldur allar götur síðan  Napóleon beið sinn ósigur við Leipzig. Þessi landlukta meginlandsþjóð ber ægishjálm yfir allar þjóðirnar í ESB. Like it or not. Þeir munu stjórna áfram.

Mér finnst það makalaust hversu margir Íslendingar halda að okkar litla og lausgyrta þjóð geti haft sömu mynt og Stór-Þýzkaland.   


"Sá sem býst við sanngirni

á ekki að vera í pólitík". Þetta voru spakleg ummæli hjá Óla Birni Kárasyni í Hrafnaþingi á ÍNN rétt áðan.

Þetta var eftir að umræðan hafði snúist um nauðsyn þess að Sjálfstæðisflokkurinn  yrði leiðandi afl í Borginni og myndi stjórna henni af ábyrgð og festu eins og var í gamla daga. Allt er þetta auðvitað nú gott og blessað og háleitt markmið. Það var líka talað með nostalgíu um þá gömlu góðu daga þegar fólk hélt tryggð við sitt tryggingafélag og kaus sinn flokk. En slíkir tímar eru liðnir sagði Gulli og það réttilega. Fólk er ekki fast í farinu sínu eins og var í gamla daga.

En þarna var Borgarstjóraefni Ingva Hrafns, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir,  að tala um nauðsyn samvinnu fólks í Borgarstjórn. Af öllum frambjóðendum til prófkjörsins þá er hún þarna ein frambjóðenda í stjörnuhlutverki þátt eftir þátt.  Hvað veldur því vali Ingva Hrafns að Þorbjörg Helga  höfð alltaf á Hrafnaþingi eins og aðrir frambjóðendur i prófkjöri séu ekki til? 16 talsins.  Er ekki svarið bara Haganlegt?

Þorbjörg Helga er stjórnmálamaður sem staðið hefur fyrir meiri klofningi í röðum Sjálfstæðimanna en margir aðrir. Verið ófeimin að yfirgefa oddvita sinn og ganga til óvinanna. Gengið gegn vilja meirihluta Reykvíkinga með því að fylgja Aðalskipulagi Jóns Gnarrs og Dags Bé sem miðar að því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Bandamaður  Hönnu Birnu sem nú er komin í ráðuneyti í ríkisstjórn sem hefur gert með sér sjórnarsáttmála. Var hún sérstaklega formannsholl síðasta vor? Þá sagði Friðrik Friðriksson af sér.

Nú tekur Hanna Birna nýja stefnu í málum sem búið var að innsigla í stjórnarsáttmála um málefni Reykjavíkurflugvallar og skrifar undir nýjan samning um sundrung og ósamlyndi næstu árin með því að kyssa á skipulagsvönd Jóns Gnarrs og sýna með því 70.000 undirskriftum puttann. Fórnar einkaflugi og kennsluflugi blákalt og skipar Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi ráðherra í vinstristjórninni sem leið, til að leita að flugvallarstæði í fjórða sinn.  Kýs nokkur svona Sjálfstæðisflokk?

Óli Björn var búinn að benda á það Sjálfstæðisflokkurinn yrði að tala einni röddu í Borgarmálefnum. Er útlit fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn muni gera það?  Engu svaraði Þorbjörg þar um. Flokkur sem getur ekki ákveðið sig um Vatnsmýrina og fyrirséð er að margir frambjóðendur í prófkjöri ætla ekki að tala einni röddu þar.  

Dettur Þorbjörgu Helgu í hug að hún geti farið fram í kosningar með þetta mál óuppgert? Nær flokkurinn árangri þannig? Verða menn líka ekki að hafa unnið sér traust sem  flokksmenn með störfum sínum áður en þeir hljóta endurkjör?  Hefur  Sjálfstæðisflokkurinn í Borgarstjórn gert það með margar skoðanir í einstökum málum undanfarin kjörtímabil? Hver er þáttur Sjálfstæðisborgarfulltrúanna í velgengni Besta flokksins að undanförnu? Enginn?

Eru  kosningarnar ekki bara fyrirfram tapaðar ef kjósendur hafa tapað trausti? Trausti á að menn eigi eftir að sýna hvort eitthvað búi í þeim?  Á það bara að ráða valinu hversu hinir flokkarnir séu hræðilegir? Sem þeir eru svo að auðvitað, að ekki ætti nokkrum manni að detta í hug að kjósa þá.  Því Gulli sagði réttilega að flestir Íslendingar væru sjálfstæðismenn í hjarta sínu. Flokkurinn næði bara ekki til þeirra. Og það er verkurinn. Skortur á einlægni.

Detti kjósendum Sjálfstæðisflokksin í hug að velja fólk á listann sem sýnt hefur og sannað að þeað getur ekki starfað saman að einni stefnu, þá er til lítils að gera sér væntingar um að kjósendur muni sýna flokknum traust og veita honum brautargengi. Ef flokkurinn ætlar ekkki að segja kjósendum fyrirfram hvaða stefnu hann hefur í skipulagsmálum, lóðamálum eða öðrum málaflokkum, þá getur hann sparað sér þetta prófkjörsbrölt. Ef framboðssveitin verður fyrirfram dæmd úr leik vegna fyrri afreka þá verða menn ekki trúverðugir þegar þeir segjast ætla að skipta um skoðun. Gísli Marteinn hætti þegar hann sá að honum yrði ekki trúað til sinnaskipta þó svo hann yrði að gera svo til að eiga möguleika.  Hann er maður að meiri í mínum augum eftir. Stefnufastur og lét sannfæringu sína ráða yfir framavonum í pólitík. Það má taka ofan fyrir slíkum mönnum því þeir eru ekki of margir.

Spyrjið frambjóðendur Sjálfstæðisflokkinn fyrst að því hvað þeir ætli að gera í málefnum flugvallarins og Vatnsmýrarbyggðar?  Það verður að fá hrein og klár svör fyrir hvað frambjóðandi stendur. Það er ekki hægt að kaupa kjósendur með sjónvarpsþáttum þar sem falleg bros, föt og hárgreiðsla og einhverjar almennar umræður eiga að leysa grunnpólitíkina af hólmi.

Það verður  nefnilega engin sanngirni sýnd í kjörklefanum ef fólk ekki trúir því að frambjóðendur séu hreinir og beinir flokksmenn sem fylgja stefnu flokksins. Og stefnan verður að vera skýr og klár eins og Gísli Marteinn gerði sér ljóst. Þorbjörg Helga verður ekki Borgarstjóri Ingva Hrafns án þess að tala skýrt. 

Ég held að ég nenni ekki að horfa á fleiri Hrafnaþing í bili. Ingvi Hrafn er búinn að ganga fram af mér  með síðustu þáttum sem eru teknir upp í gegnum trekt frá Florida og sýna goðið mitt hann Ingva Hrafn alltof  líkan Kermit froski til að mér finnist það skemmtilegt.  Enda hlýtur þeim að fækka sem nenna að mæta í svona framboðsþætti sem ekki ná því að teljast umræðuþættir. Fyrri gestaráðherrar eru líka farnir nema Gulli. Finnst mér enda lítið leggjast fyrir kappann að taka þátt í svona framboðsþáttum.

Og er ég þá  bara ekki  nokkuð sanngjarn?  


« Fyrri síða

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 72
  • Frá upphafi: 3418334

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 68
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband