Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Hverja á ekki að kjósa í prófkjöri á laugardag.

Íprófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík á laugardaginn ríður á að kjósa flugvallarandstæðinga frá.

Eftirfarandi spurningar og svör voru send til frambjóðenda í prófkjöri kjöri Sjálfstæðisflokksins á laugardag af Alfhildi Nielsen formanni fasteignaeigendafélgs á Reykjavíkurflugvelli. 

Þá liggur alveg ljóst fyrir hverjir vilja loka Reykjavíkurflugvelli og hverjir ekki nema þeir sem svara ekki.  Allavega er valið skýrt hvað varðar spurninguna hvort kjósa eigi Þorbjörgu Helgu í 1. sæti eða ekki. Það er morgunljóst að allt flugáhugafólk á að kjósa aðra en hana. Það er einnig vitað að Hildur Sverrisdóttir er flugvallarandstæðingur og sömuleið Áslaug María Friðriksdóttir. Enginn flugvallarvinur má greiða þeim atkvæði.

 

 

Svona eru spurningarnar:
 

„Sæl verið þið kæru frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

 

Flestir umbjóðenda minna eiga geymslur fyrir flugvélar sínar í Fluggörðum. Reikna ég með að milli 300 og 400 manns eigi flugskýli eða hlut í flugskýli á svæðinu.  Byggingar hófust þar 1978, fyrir 35 árum, og hefur Byggingarfulltrúi Reykjavíkur veitt byggingarleyfi fyrir öllum byggingunum.  Byggingar í Fluggörðum eru rúmlega 7000 fm og af þeim eru greidd öll gjöld og skattar á atvinnuhúsnæðistaxta.  Þarna er staðsett meðal annars, Hið Íslenska Flugsögufélag,  Flugskólinn Geirfugl ehf, Verkfræðistofa Kristjáns Árnasonar flugvélahönnuðar og flugvélasmiðs, Flugsmíð, Félag Íslenskra Einkaflugmanna og fjölmargir flugklúbbar auk nokkurra fyrirtækja sem sjá um viðhald flugvéla.

 


Í framhaldi af því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, Innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, Borgarstjóri í Reykjavík, undirrituðu samkomulag hinn 25. október síðastliðinn um að einka- og kennsluflugi (venjulega er talað um almannaflug eða General Aviation) skuli úthýst af Reykjavíkurflugvelli 2016 og því fundinn annar staður, þá langar mig að spyrja ykkur fyrir hönd umbjóðenda minna, sem eru eigendur einkabygginga á Reykjavíkurflugvelli, um afstöðu ykkar til málsins:

 

1.       Ert þú sammála því sem þarna var um samið?

2.       Telur þú réttlætanlegt að ríki og borg leggi í milljarða kostnað vegna þessa?

 

Væntanleg svör ykkar mun ég senda umbjóðendum mínum 12 – 13. nóvember n.k. og mun hvetja þá til að áframsenda til sem flestra vina sinna. 

Þér er ennfremur velkomið að bæta við yfirlýsingu um afstöðu þína til Reykjavíkurflugvallar, sem yrði þá einnig send umbjóðendum mínum.“ 

Svörin eða ekki svör koma hér:

 

 

"Aron Ólafsson 

Flugvöllurinn á ekki að fara neitt, og það þarf að tryggja framtíðs hans í Vatnsmýri svo eðlileg uppbygging geti átt sér stað og hægt sé að tryggja aðstöðu þeirra sem hlut eiga að.

 

  

Björn Gíslason

Hefur ekki svarað

 

Björn Jón Bragason

1. Nei. Ég er algjörlega ósammála samkomulaginu og vil að almannaflugið verið áfram á Reykjavíkurflugvelli.2. Nei, engan veginn. Sú mikla óvissa sem ríkt hefur um Reykjavíkuflugvöll hefur hamlað allri uppbyggingu flugs og flugtengdrar starfsemi á vellinum. Gríðarleg tækifæri hafa því farið forgörðum fyrir reykvískt atvinnulíf. Við eigum mikið af vel menntuðu fólki í flugi og flugtengdum greinum og möguleikarnir þar af leiðandi miklir. Í ljósi þess að svæðið austan vallarins hefur verið skert mikið með byggingu Háskólans í Reykjavík tel ég brýnt að fluggarðarnir verði festir í sessi og í mínum huga ekki kemur til greina að borgaryfirvöld geri eignir manna þar upptækar, líkt og hótað hefur verið.  Festum flugvöllinn í sessi í Vatnsmýri til hagsbóta fyrir reykvískt atvinnulíf og samgöngur.

 

Börkur Gunnarsson

Ég er ánægður með flugvöllinn þarsem hann er.Ég hef aftur á móti hvorki kynnt mér aðalskipulagið né þetta samkomulag þannig að ég áskil mér rétt til að skipta um skoðun fyrir næsta prófkjör að fjórum árum liðnum ef landsfundarályktanir eða oddvitinn vísa í þá átt, en á þessu kjörtímabili verður hann á þessum stað og í minni þökk.Ég legg líka áherslu á samheldni listans og hef hugsað mér að styðja oddvitann, hver sem hann verður, með ráð og dáð. Einsog staðan er í dag virðist Júlíus Vífill ætla að ná oddvitasætinu og skoðun hans á flugvallarmálinu er öllum kunn.

 

 

Halldór Halldórsson

eftir n niðurstöðu sem er engin niðurstaða og endalaus leit að flugvallarstæði sem ekki hefur fundist).

Ég tel að svarið við fyrri spurningunni svari spurningu nr. 2. Ég vil þó taka það fram að ef algjör sátt næðist um nýtt flugvallarstæði (sem mér þykir ólíklegt að finnist) þá verður að finna fjármagn til þess að byggja nýjan flugvöll. Í þeirri forgangsröðun sem nauðsynlegt er að vinna eftir um þessar mundir og næstu árin (heilbrigðismál o.fl. í forgang) þá verður ekkert fjármagn á lausu til að byggja nýjan flugvöll næstu árin.

Hér fjalla ég um flugvöllinn og skipulagsmál:https://www.facebook.com/halldorifyrstasaetid Einnig þetta úr stefnuskrá: Mikilvægi höfuðborgarinnar okkar allra

Mikilvægt er að rækta hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborg allra landsmanna. Alþjóðleg borg óteljandi tækifæra fyrir fólk og fyrirtæki. Halldór telur nauðsynlegt að borgin haldi sinni stöðu sem samgöngumiðstöð með innanlandsflugvöll. Ekki hefur fundist annar staður fyrir flugvöllinn og því þarf að skapa festu og öryggi um núverandi staðsetningu.

 

Herdís Anna Þorvaldsdóttir

Svar við 1 = Nei

Svar við 2 = Nei

 

Hildur Sverrisdóttir

Hefur ekki svarað (henni finnst „ofboðslega mikilvægt“ að þétta byggð)

 

Júlíus Vífill Ingvarsson

Hefur ekki svarað

Kjartan Magnússon

Hefur ekki svarað, en sendi fyrirspurn um málið.

(Ég vil bæta því hér við að Júlíus Vífill og Kjartan Magnússon eru eindregnir flugvallarvinir báðir og standa fyllilega undir trausti) 

Kristinn Karl Brynjarsson

Ég er einlægur stuðningsmaður þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég er því alls ekki fylgjandi því að fjármunum verði eytt í það að uppfylla svokallað samkomulag um flugvöllinn. Fjármunum er betur varið til uppbyggingar á flugvellinum og alls kyns starfssemi tengdri flugrekstri. Má þar nefna byggingu nýrrar samgöngumiðstöðvar við flugvöllinn, er þjóni innanlandsfluginu ásamt samgöngum til og frá borginni og innan hennar. Reykjavíkurborg er höfuðborg allra landsmanna og þar á aðalmiðstöð samgangna á landinu að vera.

 

Lára Óskarsdóttir

það er afdráttarlaus skoðun mín að það eigi að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni og koma honum í það horf sem nútíma flugvelli ber. Kennsla og annað sem fylgir fluginu skal einnig vera innan svæðisins. Það má skoða ýmsa þætti eins og lengja austur vestur brautina lengra út í Skerjafjörð sem myndi draga úr umferð á brautinni sem tekur við lendingum véla sem fara yfir miðbæinn. Ég er með ráðgjafa í þessum málum, sem og öðrum, og hef ég myndað mínar skoðanir út frá hans tækniþekkingu á málinu. Ég tel mig málaefnalega í samvinnu en ég er baráttumanneskja þar sem ég veit að ég er að vinna að góðum málstað. Það tel ég mig vera að gera í þessu máli. Ekki bara fyrir borgarbúa heldur samfélagið í heild. Við sem erum kosin til borgarstjórnar berum ríkari ábyrgð á samfélaglegum málum en aðra sveitarstjórnir þar sem við vinnum að málum höfuðborgar.

Margrét Friðriksdóttir  

1. Ég er ekki beint sammála, því mér finnst eingöngu verið að teygja á lopanum með þessari frestun, ég tel flugvöllinn í Vatnsmýrinni eiga framtíð fyrir sér þar, en samt í öflugri mynd, stækka þarf flugstöðina og auka um eina flugbraut, þetta tel ég þjóna hagsmunum ekki bara borgarbúa heldur einnig landsbyggðinni allri, mikil leit hefur verið gerð að ákjósanlegri stað, hann hefur ekki fundist enn, útkoman er einfaldlega sú að það er ekki til betri staður fyrir flugvöllinn, þær hugmyndir sem upp hafa komið myndi lengja ferð sjúklings allt að 45. mín, það getur verið lífs spursmál og ætti að vera engum þóknanlegt, ég segi semsagt öflugri flugvöll í Vatnsmýrinni!

 

2. Ég tel þennan kostnað á þessum forsendum ekki réttlætanlegan og mér fyndist að betur væri farið með þetta fé í að betrumbæta flugvöllinn í átt að nútíma kröfum, eins og ég tala um í fyrra svari mínu.

Marta Guðjónsdóttir

Svarið við 1. spurningunni er: Nei ég er ekki sammála því sem þarna var samið um.

Svarið við 2. spurningu er: Nei ég tel það ekki réttlætanlegt .

 Ég er f ylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur verði rekinn til frambúðar í Vatnsmýri eins og nú, með þrjár flugbrautir, fyrir áætlunarflug, sjúkraflug, almannaflug, einka- og kennsluflug og fái heimild til framkvæmda sem tryggja þjónustu við farþega og flugöryggi?

Ólafur Kr. Guðmundsson (4.sæti)

Heil og sæl ágæta flugfólk...

Hér með svara ég spurningum ykkar sem ég fékk í gær.

1. Ert þú sammála því sem þarna var um samið? Svar mitt við þessu er NEI.

Það er búið að hringla með þetta mál alltof lengi og kominn tími til að svara, þannig að uppbygging og aðstaða á Reykjavíkurflugvelli verði tryggð til frambúðar. Einkaflugið þarf aðstöðu í borginni eins og hvert annað tómstundamál, svo ekki sé talað um þá atvinnustarfsemi sem kringum flugið er.

2. Telur þú réttlætanlegt að ríki og borg leggi í milljarða kostnað vegna þessa? Svar mitt við þessari spurningu er líka NEI. Ástæða þess er vegna þess, að mikil fjárfesting liggur nú þegar í Reykjavíkurflugvelli og fráleitt að kasta því frá sér. Þar að auki hefur hvorki ríkið né Reykjavíkurborg ráð á því að leggja í kostnað á þessu sviði og fjármunum mun betur varið í annað.

Með bestu kveðjum og þökk fyrir að koma þessum punktum á framfæri.

 

Rafn Steingrímsson

Hefur ekki svarað

 

Sigurjón Arnórsson

Ég er fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur verði rekinn til frambúðar í Vatnsmýri eins og nú, með þrjár flugbrautir, fyrir áætlunarflug, sjúkraflug, almannaflug, einka- og kennsluflug og að þeir fái heimild til framkvæmda sem tryggja fullnægjandi þjónustu við farþega og flugöryggi.

Viðar Guðjohnsen

Ég er fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur verði rekinn til frambúðar í Vatnsmýri eins og nú, með þrjár flugbrautir, fyrir áætlunarflug, sjúkraflug, almannaflug, einka- og kennsluflug og fái auknar heimildir til framkvæmda sem tryggja þjónustu við farþega og flugöryggi.

Þess að auki tel ég að það þurfi að gera langtíma samninga við alla hagsmunaaðila um þetta mál og festa flugvöllinn í sessi, í Vatnsmýrinni, í eitt skiptið fyrir öll enda ótækt að halda mönnum í  heljargreipum ár eftir ár. Hvað varðar þetta samkomulag sem þú nefndir (um að einka- og kennsluflugi skuli úthýst af Reykjavíkurflugvelli 2016 og að milljörðum af skattfé skuli eytt í að finna nýtt flugstæði) þá er ég því augljóslega ósammála.

 

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

 

1. Ég er ánægð með samkomulag ríkis og borgar um að finna sátt í málinu með því að skoða ítrarlega allar hliðar málsins, m.a. nýjan stað um einka- og kennsluflug. Ég treysti því að ákvarðanir verði eknar í meiri sátt og með ítarlegri rýningu með þessari leið.

2. Ég get ekki svarað um hvort fjárfestingar séu réttlætanlegar eða ekki þegar ég hef ekki ítarlegar forsendur málsins hjá mér. Ég treysti að ríki - og borg muni aldrei leggja til neinar stórar upphæðir í breytingar nema sátt náist um framtíðarskipulag svæðisins.

Örn Þórðarson

ég þekki því miður ekki þennan samning í þaula. Er hægt að finna hann á netinu?  Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að vera flugvöllur í Reykjavík, sem sinni innanlandsflugi og annarri flugþjónustu sem æskileg er í nálægð við þéttbýli. Og gegni öryggishlutverki. Ég er á móti því að opinberir aðilar fari illa með almannafé. Reyndar er ég á móti því almennt að illa sé farið með fé. 

 

Þá hafa menn það. Þorbjörg Helga er á móti flugvellinum. Kjósum hana ekki.

Mér finnst vanta svör frá Áslaugu Maríu Friðriksdóttur. En hún hefur ekki vilja afskaffa Aðalskipulag Gnarrsins og Dags B. Ekki kjósa hana. Hildur sverrisdóttir er taglhnýtingur Gnarrsins og hrósar honum í hástert fyrir afrek sín. 

 

Rafn Steingrímsson og Björn Gíslason hafa ekki svarað með afstöðu til flugvallarins og gjalda þá fyrir það. Þeir verða ekki kosnir.

Dugum vel flugvallarvinir og rekum það fólkaf höndum okkar sem vill ekki flugvöllinn áfram í Vatnsmýri. 


Reykjavik gerir eitthvað í því

og hættir við að hækka gjaldskrár.

Hvað ætlar ríkisstjórnin nú að gera í bensínhækkuninni um áramótin?

Nú bíð ég eftir útspili úr því að DayBee í Reykjavík gerir eitthvað í verðbólgunni.

 


Það skal í ykkur samt

nýja Aðalskipulagið fyrir Reykjavík. Ég las fundargerðina þar sem tilkynnt var að um 200 athugasemdir og bókanir hefðu borist.  Ég sá að mín athugasemd hafði ekki verið tekin með. Sjálfsagt er ég úreltur þar eins og hjá Tæknideild Kópavogs þar sem ég má, vegna aldurs, ekki  einu sinni eiga í fyrirtæki sem vill bjóða í hönnunarverk á þeim bæ þó það megi borga gjöld til jafns við aðra. 

Frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins lýsa nú hver um annan þveran fylgi við flugvöllinn í Vatnsmýri. Nema borgarstjóraefnið hans Ingva Hrafns og ÍNN hún Þorbjörg Helga og stalla hennar Áslaug María og svo borgarstjóraframbjóðandinn Hildur Sverrisdóttir.  Hinir 17 vilja flestir að skipulagið lagi sig að flugvellinum.

En bókunin endar svona:

"Málið kynnt" 

Ætli niðurstaðan liggi ekki þegar fyrir? Það skal í ykkur samt. 

 

 


"Hægri-öfgamenn" í fréttum RÚV

klukkan tíu í kvöld, birtust myndir af LePen og Wilders sem ríkismiðillinn marg stagast á því að séu hægri-öfgmenn í stjórnmálum. Birtar eru myndir af reiðu fólki fyrir utan sem slæst við lögreglu í tilefni fundar þeirra tveggja um samvinnu.  Þau hafa sameinast um framboð til Evrópuþingsins. Þau hafa sameiginlegar skoðanir á innflutningi múslíma og fleiri hópa til ríkja Evrópusambandsins og vilja takmarka sérréttindi þeirra og Islams í Evrópu.

Af hverju eru þessar skoðanir "hægri-öfgamennska"? Af hverju eru þessar skoðanir ekki þóknanlegar á RÚV?

Ég deili mörgum sjónarmiðum með þessu fólki. Mér er alveg sama þó ég sé kallaður nasisti, fasisti og rasisti. Það breytir ekki skoðunum mínum sem þjóðernissinna.  Ég er ekki alþjóðasinni í neinum kratískum skilningi, sem er alveg sama um hvaða fólk byggir Ísland eða hvernig það hegðar sér. Ég vil halda í þjóðerni okkar og þó þetta frekar lítið blandaðan kynstofn, tungumálið, varðveita þjóðlegan bókmenntaarf okkar og sögu, kristni og kirkju í landinu þó lítt kirkjurækinn sé kannski sjálfur. 

Allt bara af því að mér þykir vænt um landið og þjóðina sem ég hef þekkt.Mér líkar sem sagt vel við fólkið í landinu þó mér finnist það stundum vitlausara en ég.  Ég vil ekki innflytjendaplágu á Íslandi að evrópskri fyrirmynd sem fer fyrir brjóstið á LePen og Wilders.  Ég vil þessvegna ekki Schengen, ég vil ekki Evrópusambandsaðild, ég vil ekki EES.

Ég á mér draum eins og Marteinn Lúther King, að verða frjáls maður aftur í frjálsu landi þar sem ég bý núna sem ófrjáls í gjaldeyrishafti í einhverju kerfi sem var prakkað inn á okkur af kratismanum og kallaðist fjórfrelsi og leiddi í ófarir. En það hefur nú verið afnumið af krötunum sjálfum og hjálparkokka þeirra úr hópi gömlu kommúnistanna. Og ekki varð þeim ekki mikið fyrir því að afskaffa það sem þeir áður boðuðu sem evangelíum fyrir komandi aðild að Evrópusambandinu. Líklega lifi ég það ekki frekar en Lúther að sjá mína drauma rætast. En ég læt mig samt dreyma áfram því enginn vill hafa mín ráð í neinu sem máli skiptir.

Mér sama þó ég sé kallaður heimskur vitlaus og elliær.  Mér finnst þetta samt.  Ég vil ekki selja kónginum Grímsey. Ég vil ekki selja Kínverjum Grímsstaði, ég vil ekki selja útlendingum íslenskar jarðir, fiskinn í sjónum eða orkulindirnar. "Ég vil elska mitt land, ég vil efla þess hag"...

Ég er sjálfsagt "hægri-öfgamaður" í skilningi RÚV af því að mér líkar vel við þau LePen og Wilders. Þau eru hugrökk og hætta lífinu á hverjum degi fyrir skoðanir sínar. Slíkt fólk er ekki"hægra-öfgafólk " heldur hetjur í mínum augum. 

 

 

 


Hvimleiðar frásagnir

hellast yfir mann alla daga af  því hvað stjórnarandstaðan segir um þetta eða hitt.

Þeir sem hana skipa  þrástagast í þinginu  um aukaatriði og RÚV er stútfullt af frásögnum af því hvað þeir segja. Stjórnarsinnar  sem eru að moka flórinn eftir þetta fólk úr fyrra ríkisstjórnarliði fá minni athygli ríkisfjölmiðlisins.  Mikið lifandis er mér persónulega sama hvað Steingrímur J. og Össur Skarphéðinsson eru að bulla um þetta eða hitt. Mig varðar bara ekkert um það sem þeir segja vegna þess að fyrir mér er það áhrifalaust snakk og meiri líkur en minni að þeir hafi rangt fyrir sér eins og allt síðasta kjörtímabil.

Ég bíð eins og fleiri eftir að ríkisstjórnin noti meirihlutann á Alþingi til að afgreiða nauðsynleg mál og moki flórinn. Þar dugar ekkert hálfkák. Nú eru komnar fram tillögur hagræðingarhópsins og þá finnst mér að eigi að drífa í að framkvæma þetta en ekki vera að eyða tímanum í að hlusta á eða pexa við þessa kóna  og aðra jafn áhrifa-og tilgangslausa.

Það er hreinlega hvimleitt að hlusta á þessar sífelldu frásagnir af pexi og bulli.


Á ekki að stöðva vitleysuna

með bensínblöndunina um áramótin?

Mun hún nokkuð gera annað en undirstrika þýlyndi Íslendinga við yfirgang ESB og hella olíu á eld verðbólgunnar í landinu  sem er alveg  ærin? Á það virkilega að vea framlag ríkisins til komandi kjarasamninga að hækka bensín að óþörfu um áramótin? Jafnvel litla Lichtenstein gaf þessu langt nef og komst upp með það. 

Þurfum við alltaf að vera kaþólskari en páfinn? Eigum við ekki að reyna að standa í lappirnar og stðva vitleysuna? 

 


Á Sprengisandi

með Sigurjóni M. Egilssyni á Bylgjunni kenndi ýmsra grasa. Fyrir þá sem misstu af þeim þætti geta hlustað á hann á vefsíðunni  Bylgjan.is .

Ekki fannst mér uppbyggilegt  að hlusta á Svandísi Svavarsdóttir þrástagast á því að ríkisstjórnin sýni spilin. Ásmundur Daðason hélt því fram á móti að meira skpti að til verka væri vandað og mál væru vel undirbúin. Á morgun koma tillögur hagræðingarhópsins í ljós samkvæmt því sem Ásmundur Daði sagði.

Síðan komu frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðismanna, Halldór Halldórsson, Hildur Sverrisdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson og veittu  innsýn í sín áherslumál.

Afgerandi var að Hildur Sverrisdóttir styður Aðalskipulagstillöguna þar sem Reykjavíkurflugvelli er útrýmt.Hún vill ekki vill vill ekki snúa aðalskipulaginu á hvolf eins og hún orðaði það.  Hún hrósar Jóni Gnarr fyrir mörg góð mál. Hún er reiðubúin að starfa með öðrum að góðum málum segir hún.  Þá var hún búin að segja nóg fyrir mig. Hún styður ekki Reykjavíkurflugvöll.  Í heild fannst mér ekki  mikið á hennar málflutningi að byggja, fannst hann frekar barnalegur af alvöruframbjóðanda að vera og mér fannst hreint út á stundum að hún væri í skökkum flokki.  Skyldu margir sjá í henni leiðtogaefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík? Það efa ég stórlega.

Júlísu Vífll  lögmaður og borgarfulltrúi til margra ára sýndi mikla þekkingu sína á borgarmálum. Hann benti á að ofuráhersla á þéttingu byggðar leiddi til þess að barnafjölskyldur flýðu borgina unnvörpum. Hann tók dæmi  úr Skugghverfinu þar sem engin börn fyrirfinndust. Hann vill gefa fólki kost á að byggja í úthverfunum auk þess að þétta megi byggð líka á ýmsum stöðum. Hann lagði áherslu á að Reykjavíkurborg hefði safnað skuldum á yfirstandandi kjörtímabili. Skuldaaukningin væri 115 % og rekstrarhalli  hefði verið á hverju ári. Á valdatíma Sjálfstæðisflokksins var ávallt skilað afgangi. Nú síðast hefðu gjaldskrár verið hækkaðar um 40 % á meðan laun hefðu hækkað 17 % frá 2010 umfram neysluvísitölu.

Júlíus vildi fá meiri tíma til að ræða Aðalskipulagstillöguna en fékk ekki og taldi hana ekki í  tengslum við borgarbúa, hvað þá vilja  70.000 undirskrifta.   Það væru heldur ekki  tengsli við borgarbúa þegar 94 % foreldra í Grafarvogi mótmæltu sameingu í skólamálum og það væri ekki einu sini hlustað á þá en málin keyrð í gegn. Aukin útgjöld ungra fjölskyldna með gjaldskrárhækkunum valda því að þær flytja burt, Gylfi Arnbjörnsson hefði líka sagt þær vera galin aðferð til að hafa áhrif á kjarasamninga, Reykvíkingar væru  ekki lengur leiðandi afl í slíkum samningum því hér  vantaði leiðtoga fyrir borgarbúa.

Aðeins 4 % vilja búa á þéttingarsvæðnum sem Aðalskipulagið boðar segir Júlíus að  skoðanakannanir sýni.  Það mætti bæði þétta byggð en  fara samhliða í aðra uppbyggingu fyrir barnafólk í úthverfum  Reykjavíkur. Það væri staðreynd að meðan Reykvíkingum hefði fjölgað um 6% þá hefði fjölgað í nágranna sveitarfélögunum um 26 %. Í þéttingarreitina færi miðaldra fólk í góðum efnum enda sagði henn engin börn að finna við þéttinguna við Skúlagötu, Við ættum ekki að leggja  svona mikla áherslu á að byggja yfir miðaldra fólk í góðum efnum, Unga barnafólkið ætti að vera forgangsverkefni,

Halldór Halldórsson er gamalreyndur sveitarstjórnarmaður, þaulmenntaður í sviðskiptafræðum og  MBA. Hann vildi gefa gaum að  umferðarmálum í einni  heild og vildi  gera umferðarmódel, Hann vildi skoða að leggja Suðurgötu yfir á Áftanes, Hann styður flugvöllinn eindregið og taldi að þéttingaráformin yrðu að endurskoða í samhengi við það. Hann vill ekki neyða fólk af einkabílunum yfir á hjólhesta eða í strætóa.

Reykjavík virtist ekki vera að njóta hagkvæmni stærðar sveitarfélagsins umfram margfalt fámennari sveitarfélög. Halldór benti á að Borgin hefur hærra hlutfall af starfsfólki en önnur sveitafélög og launakostnaður hennar væri 2-3 % yfir landsmeðaltalinu svo merkilegt sem það væri. 1%  væri 730 milljónir króna. Hann sagði að ekki þyrfti endilega að grípa til uppsagna. Virðingu yrði ávallt að bera fyrir  fólki sem ávallt væri á bak við tölurnar. En alltaf væru hreyfingar á starfsmönnum sem mætti grípa sem möguleika til hagræðingar,Betri tengsl við kjósendur gætu leitt til þess að Sjálfstæðisflokkurinn gæti náð hreinum meirihluta, eins og víða er í kring um Reykjavík. Hann var bjartsýnn fyrir sína hönd og flokksins.

Júlíus taldi prófkjör langbestu leiðina til að velja á listann og tók Halldór undir það og hann væri sjálfurá leiðinni í sitt þriðja prófkjör.

Það er nokkuð ljóst að val kjósenda stendur á milli Júlíusar Vífils og Halldórs Halldórssonar um leiðtogasætið á lista Sjálfstæðismanna í prófkjörinu á laugardaginn kemur. Aðrir frambjóðendur virðast ekki eiga það sem til þarf  í það sæti komnir af  Sprengisandi.

 


Fræknir frambjóðendur

í prófkjöri Sjalfstæðismanna til Borgarstjórnar í Reykjavík komu í félagsheimili flugmanna á Reykjavíkurflugvelli á laugardagsmorgni.

Kjartan Magnússon lýsti reynslu sinni af sambýli við flugvöllinn frá blautu barnsbeini. Hann áætlaði að 1 % af vinnuafli borgarinnar, 65000 manns, væri beinlínis starfandi á flugvellinum. Hann sagðist ekki sem stjórnmálamaður geta látið sem að þetta skipti ekki máli. Undir þetta tóku meðframbjóðendur hans  Lára Óskarsdóttir og Björn Jón Bragason. Nokkrum vikum áður höfðu frambjóðendurnir Júlíus Vífill Ingvarsson og Marta Guðjónsdóttir komið á þennan sama stað og lýrst eindregnum stuðningi við Reykjavíkurflugvöll.

Fram kom á fundinum að flugmenn og flugrekendur á Reykjavíkurflugvelli væru mjög óánægðir með það tómarúm sem vellinum væri haldið í. Þar mætti ekkert gera, ekkert byggja né enga framtíð eiga vegna þessara sífelldu vangaveltna um að flugvöllurinn færi kannski. Fasteigna eigendur yrðu sjálfir að kosta vatns- og fráveitulagnir frá eignum sínum þó að þeir væru skattlagðir að fullu með vatns-og horæsagjöldum án þess að fá hvorugt til sín lagt sem aðrir borgarbúar. Þó hefðu Fluggarðar verið reistir með fullu leyfi borgaryfirvalda fyrir meira en 30 árum. Nú skrifaði lögfræðingur Reykjavíkur þessu fólki bréf og tilkynnti þeim að eignirnar skuli fjarlægðar bótalaust.  

Síðasta uppákoma um frestun á niðurlagningu N-S brautar hefði engan vanda leyst, aðeins framlengt þetta hægfara dauðastríð. Gera ætti kennslu-og almannaflug útlægt af vellinum með atbeina innanríkisráðherra. Fluggarðar væru þar með dauðadæmdir fyrst allra mannvirkja þar sem þeir stæðu á landareign Reykjavíkurborgar. Flugvöllurinn hefði verið staðsettur af löglegri Borgarstjórn í Reykjavík á útmánuðum 1939 og Bretar hefði aðeins lagt völlinn samkvæmt því löglega  skipulagi sem nú ætti að ómerkja.

Einn fundarmanna benti á að þversögn væri fólgin í talinu um verðmæti byggingarlands á vellinum og umhverfi hans þegar deiliskipulögin sóuðu landinu undir gríðarlega fláka af bílastæðum í stað þess að setja þau undir byggðina eins og á háskólasvæðunum.

Íbúðir á flugvellinum myndu verða mjög dýrar væru byggðir bílakjallarar undir öll hús og fermetrinn myndi fara yfir 700.000 kr.,  eins og hann væri nú boðinn til kaups á núverandi þéttingarsvæðunum. Þessar íbúðir yrðu ekki keyptar af barnafólki. Allir frambjóðendur töluðu um að ungt barnafólk hefði líka flúið borgina á undanförnum árum til nágrannabæjanna. Þeir sögðu þetta ekki ætti  að vera stefna Borgaryfirvalda í skipulagsmálum.

Fundarmenn óskuðu fræknum frambjóðendum allra heilla í baráttunni og hvöttu þá til að taka höndum saman við aðra frambjóðendur sem vildu Reykjavíkurflugvelli vel. 


Reykjavíkurbréf

Morgunblaðsins á morgun er með því besta sem ég hef lesið lengi um stjórnmál. Þar heldur maður á penna sem sem þekkir málin út og inn af eigin reynslu.

 

Það er varla hægt að stytta það í tilvitnun minni, þar sem að þennan pistil lesa sumir sem vilja ekki lesa Mogga af einhverjum ástæðum. Ég læt því eftir mér að setja það allt hérna en feitletra það sem mér finnst eftirtektarverðast:

 

 

Reykjavíkurbréfið ber vegna samlíkingarinnar sem höfundur notar, yfirskriftina:

 

„Langflottasta færibandið í hljómsveitabransanum“

  

Svo kemur textinn þar sem ég sleppi millifyrirsögnum.

 

„Það hefur hent margan þingforseta Alþingis að lesa í þinglok af forsetastóli tölur, sem starfsmenn þess hafa fengið honum, til vitnis um árangur í störfum þess. Þannig hafi þinginu til að mynda tekist að gera miklu meira en hundrað lagafrumvörp að lögum og samþykkt tugi af þingsályktunartillögum að auki. Vel má vera að hann Jón og hún Gunna hafi hlustað á fréttir af afrekinu og kannski óviljandi kinkað kolli í viðurkenningarskyni.

 

En »framleiðsla« Alþingis lýtur þó ekki sama lögmáli og færiböndin í fiskvinnsluhúsi eða þau sem dósir og flöskur bruggaranna fara um, uns þau enda í flutningabílunum fyrir utan hús. Fiskurinn kemur beinhreinsaður og í bitum af böndunum og er góður og hollur þegar hann hafnar á diski neytandans á lokasprettinum. Sama má segja um bjórinn, sem er gleðigjafi að auki, sé hans neytt í hófi, eins og flest annað gott.

 

En hvað um lögin sem fljúga af færiböndum Alþingis, næstum eitt fyrir hvern virkan starfsdag þess, ár eftir ár? Má ekki segja sömu söguna af þeim? Ekki endilega. Raunar í fæstum tilvikum. Enda er sjaldnast nokkurt gæðaeftirlit með þeirri framleiðslu.

 

Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti var lengi þingmaður áður en hann varð forseti Bandaríkjanna. Hann hefur verið útskúfaður í samtímasögunni fyrir að hafa hlerað samtöl 0,0000001 prómill af þeim fjölda sem friðarverðlaunahafi grínistanna í norsku nóbelsnefndinni, Obama forseti, hefur látið gera. Verst fór þó Nixon karlinn út úr því að hafa hlerað sjálfan sig í Hvíta húsinu. Kannski er Obama á hinn bóginn hinn eini sem hann hefur sleppt að láta hlera. Nixon á að hafa sagt eitthvað á þessa leið um lagasetningu: »Þeir sem hafa séð pyslur verða til hjá kjötgerðarmönnum og þeir sem hafa séð lög verða til í þjóðþinginu hafa svipaða tiltrú á þeim afurðum.“

 

 Sennilega er þarna fremur hallað á pylsurnar en hitt, því þar er þó framleiðandinn undirlagður í heilbrigðis- og gæðaeftirliti. Sennilega hefur einn af eftirmönnum Nixons, Bill Clinton, einnmitt þóst vita að pylsugerðin stæði lagasmíðunum mun framar, ef marka má velþóknun forsetans fyrrverandi á pylsunum hjá Bæjarins bestu.

 

 

En fyrir fáeinum dögum vorum við, almennir kjósendur, minntir á þetta viðtekna viðhorf, sem nefnt var í byrjun bréfsins. Þá fóru þingmenn upp, utan dagskrár, allir í röð og kvörtuðu ákaft yfir því að ekkert væri á þeirri sömu dagskrá, sem þeir voru að fara utan við. Það væri í senn merki um aðgerðarleysi, skipulagsleysi og afleita verkstjórn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Slíkar aðfinnslur minna óvart á allt aðra hlið á ásjónu þingsins. Því síðustu árin hefur verið mjög í tísku hjá innanbúðarmönnum þar og sjálfskipuðum álitsgjöfum að kvarta yfir »foringjaræði,« »ráðherraræði« og hvernig framkvæmdavaldið umgengist þingið eins og ómerkilega afgreiðslustofnun fyrir sig og fleira af þeim toga.

 

 

Þarna hafði sem sagt skapast upplagt tækifæri fyrir almenna þingmenn til að láta til sín taka í friði fyrir framkvæmdavaldsfrekju og ráðherraræði og þá datt þeim ekki annað þarfara í hug, en að skammast yfir því, að ekki hefði verið mokað misgóðu og misfersku efni á færibandið og saka í leiðinni ríkisstjórnina um aðgerðarleysi og ónýta verkstjórn.

 

Þess háttar kvartanir gengju vel upp ef um væri að ræða fólk sem fengist eingöngu við það sem færibandið færði þeim, væri á afkastatengdu launakerfi og hefði ríka hagsmuni af því að verkstjórnin væri í lagi og aldrei væri gloppa á færibandinu. Lítill vafi er á að það er fagnaðarefni fyrir almenning rúlli færiband þingsins flesta daga tómt eða tómlegt um þinghúsið.

 

 

Þau lög, sem þingið hefur ungað út síðustu árin, koma flest úr leiðigjörnustu lagaframleiðslu sem þekkist, sunnan úr Brussel. Og það er verst varðveitta leyndarmál á Íslandi, að það sem þaðan kemur er gert að lögum á Íslandi, eins og þýðingarmikill hraðpóstur sé á ferðinni í hvert sinn og þau lög bera með sér, að þeir sem senda þau á færiband þingsins, þeir sem fletta þeim í fáeinar mínútur í nefnd og þeir sem samþykkja þessar afurðir svo samhljóða í þinginu, hafa ekki lesið þær.

 

Þessu neita fáir þingmenn, nema þeir allra óheiðarlegustu og skýring þeirra er einföld. »Við getum ekki breytt neinu í sendingunum frá Brussel. Það er ekki gert ráð fyrir því.« Þetta segja þeir, þótt þeir hafi þann kost og þá skyldu að hafna slíkum frumvarpssendingum með sama hætti og öðrum frumvörpum sem þeir eru ósáttir við. Ef kosturinn væri aðeins einn í tilvikum sendinga tilskipana frá Brussel, byggðum á EES-samningunum, þá hefði sá samningur gengið þvert gegn stjórnarskrá landsins. Því að óbreyttri stjórnarskrá er óheimilt að afsala lagasetningarvaldi þingsins annað, rétt eins og dómsvaldinu.

 

 

Stundum er á það bent að ráðuneytin hafi fjölda manna á sínum snærum í Brussel til að gæta hagsmuna Íslands við tilskipunarvinnuna þar á frumstigi. Það verður að segja það eins og er að af slíkum er minna en ekkert gagn. Það var rétt hjá frú Thatcher að slíkir sendifulltrúar líta furðu fljótt á sig sem »innfædda« í Brussel og taka að halda að hlutverk þeirra sé að gæta hagsmuna búrókratana gagnvart eigin þjóð.

 

Helsta verkefni þeirra og oft það eina, ef eftirmiðdagsboð eru talin frá, er því gjarnan það, að hotta á sína eigin heimamenn, stjórnkerfið og þingið að innleiða sérhverja tilskipun eins og skot, en auðvitað ekki fyrr en eftir sjálfstæða athugun, sem sérhver blindur kettlingur gæti verið stoltur af.

 

Óskiljanlegt er að núverandi ríkisstjórn skuli ekki hafa skoðað úrslit síðustu kosninga og vilja kjósendanna þegar hún leit svo á að í Evrópumálum bæri að stýra eins og bílstjóri sem teldi heppilegast að langferðabíllinn til Ísafjarðar færi Krýsuvíkurleiðina og svo austur eftir og hringinn, af því að einn áttavilltur farþegi af 50 væri í rútunni, þætti felast í því mest sanngirni og fáránleikanum þeim hefði ekki verið andmælt á kosningafundi í Sandgerði. Sú óvænta uppákoma hefði breytt niðurstöðu landsfunda flokkanna.

 

En ekki batnaði það þegar talsmenn ríkisstjórnarinnar bættu því við að í öllum þeim niðurskurði sem yrði að framkvæma í landinu væru þeir ákveðnir í að fjölga (!) í hópi íslenskra innfæddra í Brussel, til að styrkja kórinn sem hrópaði yfir hafið til að hotta á innleiðingu tilskipana.

 

Sjálfsagt er það líka eitthvert yfirskilvitlegt tillit til þessa framantalda farþega, sem fékk að ráða ferðinni austur um land og áleiðis til Ísafjarðar. Hver skyldi hann vera, þessi maður?

 

 

Þingmönnum þykir flestum þeir vera illa haldnir í launum. Séu þau kjör borin við það sem tíðkast í nálægum löndum er það vafalaust rétt mat. En þar sem þingmenn teljast nærri helmingi betur settir kjaralega en meðaljóninn í landinu og eins og traustið á þinginu mælist núna, er ekki líklegt að neitt rætist úr þessum þætti á kjörtímabilinu.

 

Hitt er hins vegar rétt og satt að búið er að lengja viðveru þingmanna í þinghúsinu mikið síðustu árin. Það er þó eingöngu gert út frá sjónarmiði færibandsins, en ekki með heill og hamingju þjóðarinnar í huga og því síður heilbrigð tengsl fulltrúa hennar við umbjóðendur þingmanna. Ekki hefur hin meinta aukningu á viðveru og væntanlega vinnuskyldu aukið traust á þingheimi. Öðru nær.

 

 

Vera má að nú sé rétti tíminn til að snúa af þeirri braut sem mörkuð var fyrir hálfri öld eða svo, að þingmenn skyldu verða atvinnuþingmenn og alls ekki gegna jafnframt í öðrum störfum. Vafalítið er að sú breyting studdist við margvísleg rök sem engin ástæða er að gera lítið úr.

 

 En reynslan síðan hefur borið önnur og síst veigaminni rök á borð. Tenging þings við þjóð hefur sjaldan verið losaralegri en nú er orðið. Þingmenn verða svo lafhræddir um afkomu sína og sinna þegar kosningar nálgast að það hefur slæm áhrif á framgöngu þeirra og heilindi í þinginu.

 

Enginn getur gleymt því hvernig nokkrir þingmenn í fleirum en einum flokki höguðu sér á síðasta þingi, þegar ein versta ríkisstjórn þingsögunnar hékk áfram, engum til gagns, án stuðnings þings eða þjóðar, því þeir vildu framlengja eigin framfærslu með því að láta ríkisstjórnina dingla áfram verklausa og umboðslausa, þegar síst skyldi.

 

Nýlega upplýsti Össur Skarphéðinsson að honum og nokkrum samþingsmönnum og flokksbræðrum hans, sem höfðu verið taldir standa framarlega, hefði verið þetta þvert um geð, en ekki hafst að.

 

 

Í borgarstjórn Reykjavíkur hefur þróunin orðið sú að jafnvel borgarfulltrúar hafa allir breyst í atvinnumenn og munur á flokkum í ráðhúsinu hefur nánast þurrkast út, þótt hann sé enn mikill utanhúss. Hatur á bílum og ökumönnum þeirra, andstyggð á vel hirtu umhverfi, á landsbyggðinni og mikilvægum flugsamgöngum virðist helst hafa dugað til að stofna þennan borgarstjórnarflokk allra flokka.

 

Hann ætti helst að sjá sóma sinn í að bjóða sig fram í einu lagi undir hatti Hofsvallagötunnar, svo aðrir fengju svigrúm til að gefa kost á sér til að gæta hagsmuna venjulegra Reykvíkinga.

Fyrir mörgum mánuðum voru embættismenn látnir taka á sig fíflaganginn við Hofsvallagötuna og taka sérstaklega fram að hvorki borgarstjórinn né borgarfulltrúarnir hefðu vitað eitt né neitt um það sem þar fór fram, jafnvel þótt þeir byggju í næsta húsi.

 

Það er sérlega illa gert að láta ekki borgarstjórann vita þegar álitlegur fíflagangur er í boði, því í slíkum efnum hefur hann þó aldrei brugðist. En þótt þessi ævintýralega yfirlýsing hafi verið gefin fyrir mörgum mánuðum hefur ekkert gerst í óreiðunni á Hofsvallagötu og enginn borgarfulltrúi borgarstjórnarflokksins hefur sagt múkk eða gert neitt, frá Jóni Gnarr og upp úr. Hvernig skyldi standa á því?

Þarna er tekið á staðreyndum málsins af slíkri yfirsýn og þekkingu að þeim sem fyrir verða hlýtur að svíða undan.  Það verðu hinsvegar fróðlegt hvort viðkomandi mótmæla eða reyna að bjarga sér á þögninni. Sem ég held að þeim væri lang ráðlegast því að það sem þarna er sagt er sannleikurinn umbúðalaus.

Á hverjum degi berast fréttir af því hvernig tilskipanir frá Brussel þrengja valmöguleika íslensks almennings. Nú síðast með bílareglugerðum sem útiloka bandaríska vöru.

Og er hreint ekki einsdæmi sem til dæmis Sullenberger kaupmaður í Kosti má berjast við á hverjum degi. Brussel vill stjórna því líka að við étum ekki bandarískan mat.

Það er óskiljanlegt hvernig ráðamenn okkar keyra okkur áfram í vitleysunni dag eftir dag. Það er líka óskiljanlegt hvernig vitibornum mönnum dettur í hug að það bæti hag okkar að ganga í þetta vanskapaða burokratabandalag.

Það er aðeins skiljanleg afstaða þeirra sem þann flokk fylla, að okkar stjórnmál hafi brugðist svo hrapallega að enginn kostur sé betri en að fela Brussel forsjá okkar mála.  Það má segja að Össur Skarphéðinsson og Árni Páll geri sér þá stöðu ljósa enda er þeim nærtækast að líta í eigin barm þegar kemur að umræðum um framsal Íslands til StórÞýzkalands sem nefnist öðru nafni ESB.

Reykjavíkurbréfið er allrar athygli vert finnst mér að minnsta kosti.  


Skýr rödd frambjóðanda

prófkjörs Sjálfstæðismanna í Reykjavík heyrist í Morgunblaðinu í dag. Björn Jón Bragason skrifar afdráttarlausa grein um það hvernig hann sér framtíð flugvallar í Vatnsmýri. Það er óvenjulegt að frambjóðandi tali með svo afgerandi hætti sem Björn Jón gerir.

 "Fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar og stærsta flugrekanda á Reykjavíkurflugvelli skrifuðu 25. október síðastliðinn undir samkomulag um að fresta því í níu ár að leggja af norður-suðurbraut Reykjavíkurflugvallar, en samkvæmt fyrirliggjandi aðalskipulagsdrögum stóð til að þeirri braut yrði lokað árið 2016. Þá var ákveðið enn fremur að skipaður yrði starfshópur til að finna »varanlegt stæði fyrir flugvöllinn á höfuðborgarsvæðinu« eins og það er orðað.

 Þeir sem heykjast á að taka erfiðar ákvarðanir eiga það til að fresta þeim von úr viti. Það að fresta raunverulegri ákvörðun um framtíðarstaðsetningu flugvallarins er í reynd aðför að þeirri margþættu starfsemi sem þar er að finna. Ákvörðun um að skipa starfshóp um staðarval nýs vallar hljómar sem lýðskrum, enda allir flugvallarkostir á höfuðborgarsvæðinu verið þaulkannaðir. Hið eina nýja sem gæti komið út úr slíkri athugun er hærri verðmiði - fleiri milljarðatugir en fyrr.

 Í samkomulaginu er gert ráð fyrir því að aðstöðu fyrir almannaflug, einka- og kennsluflug, verði fundinn staður annars staðar en á Reykjavíkurflugvelli. Það er með hreinum ólíkindum að stjórnmálamenn láti sér detta í að leggja milljarða í byggingu og rekstur sérstaks kennsluflugvallar með stjórnuðu loftrými á sama tíma og Reykjavíkurflugvöllur er í fullum rekstri. Nýlegar fréttir af neyðarástandi í heilbrigðisþjónustu ættu að vera mönnum nægt tilefni til að hverfa frá öllum fyrirætlunum um sérstakan kennsluflugvöll.

 Sú óvissa sem ríkt hefur um Reykjavíkurflugvöll um langt árabil hamlar frekari uppbyggingu starfsemi þar, en ljóst er að sóknarfærin eru mikil, til að mynda í ljósi stóraukinna umsvifa á Grænlandi. Hljóðmengun af vellinum þyrfti ekki að aukast að ráði með auknum umsvifum enda nýjustu vélar mjög hljóðlátar, til að mynda hin nýja Airbus þota Færeyinga sem er hljóðlátari í aðflugi en Fokkerar Flugfélags Íslands.

Hér á landi er gríðarleg þekking til staðar á flugi og flugtengdum greinum og tækifærin mikil á næstu árum og áratugum. Reykvíkingar mega ekki að láta þessi tækifæri sér úr greipum ganga. Það skal vera eitt fyrsta verkefni nýrrar borgarstjórnar að rifta þessu gervisamkomulagi og festa völlinn í sessi í Vatnsmýri, til hagsbóta fyrir reykvískt atvinnulíf og samgöngur."

Hér er sagður sannleikurinn um skrípaleik flugvallarandstæðinganna.  Seinni uppákoman virðist hafa verið hönnuð með það fyrir augum að reyna að dreifa athygli kjósenda frá fjandskap sumra áberandi fyrrum og núverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins eins og Hönnu Birnu sjálfrar, Þorbjargar Helgu Vigfússdóttur, Áslaugar Friðriksdóttur sem eru á öndverðum meiði við og á móti vallarvinum eins og Júlíusi Vífli, Kjartani Magnússyni og Mörtu Guðjónsdóttur. Beinlínis reynt að slá ryki í kjósendum vegna komandi prófkjörs Sjálfsyæðisflokksin í Reykjavík.

Þessi ungi maður Björn Jón Bragason sem nú kveður sér hljóðs bætist í hóp þeirra síðartöldu ásamt Halldór Hallddórssyni sem er nýr frambjóðandi, sem styðja flugvöllinn í Vatnsmýrinni ásamt 70.000 öðrum Íslendingum. Hann vill hreinlega rifta þessu gervisamkomulagi sem þarna var gert á svo ómerkilegan hátt sem hugsast getur.

Merkilegt að ríkisstjórnin sem skipuð er af flokkum sem báðir töluðu afdráttarlaust um áframhald flugvallar í Vatnmýri skuli líða einum ráðherra að ganga þvert á stjórnarsáttmálann eins og Hanna Birna gerir og það sem er enn merkilegra er að Sigmundur Davíð skuli sjálfur hafa verið viðstaddur og samþykkt þetta með þessu fólki. Sé einhver dulinn pólitískur gambítur fólginn í þessu, þá kem ég ekki auga á hann og þarf að fá hann útskýrðan áður en ég segi amen. 

Vallarvinir verða nú  að sameinast að vinna gegn flugvallarandstæðingum hvar sem þeir finnast á öllum vígstöðum sem þeir geta.

Styðjum þá frambjóðendur sem vilja standa vörð um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni og á Skildinganesmelum.  Látum þá tala skýrri röddu.

 


 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband