Tilgangurinn kemur skýrt fram í svari borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar við bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og sjálfsagt er að benda á hann hér. Í bókun Besta flokks og Samfylkingar segir að tillagan marki tímamót »að því leyti að með henni er horfið frá bílmiðuðu skipulagi borgarinnar og tekið upp skipulag sem setur manneskjuna í öndvegi«.
Þessi framsetning, að bílar borgarbúa séu með einhverjum hætti andstæðir hagsmunum þessara sömu borgarbúa og valdi þeim ama og óþægindum og þess vegna verði að þrengja að bílunum í skipulagi borgarinnar, er vitaskuld fráleit. Bílar aka ekki mannlausir um götur borgarinnar heldur eru þeir ferðamáti sem fólk hér á Íslandi hefur af ýmsum og skiljanlegum ástæðum valið sér. Þessi andúð á einkabílnum er grunnstefið í aðalskipulagstillögunni og út frá þeirri andúð er hún unnin. Það að aðalskipulagstillaga höfuðborgarinnar snúist um svo sérstök sjónarmið er verulegt áhyggjuefni og þess vegna er mikilvægt að tillagan fáist rædd og að borgarbúar fái tækifæri til að kynna sér hana og taka til umfjöllunar.
Þá segir í bókuninni að í samgöngumálum borgarinnar sé byggt á samningi ríkis og borgar um að horfið verði frá framkvæmdum við samgöngumannvirki næstu tíu árin. Mislægum gatnamótum, vegstokkum og öðru sem eldra aðalskipulag hafði gert ráð fyrir til að liðka fyrir umferð sé fækkað verulega í nýja skipulaginu. Í bókuninni segir að skipulagshöfundar beinlínis leggist gegn samgöngumannvirkjum í Reykjavík, sem kemur út af fyrir sig ekki á óvart miðað við afstöðu þeirra til bifreiða og þeirra sem þær eiga og nota.
Þá er bent á að aðalskipulagstillagan byggist á því »að flugvöllurinn fari og uppbygging muni hefjast á flugvallarsvæðinu eftir þrjú ár«. Þetta sé óraunsætt, enda sé flutningur flugstarfseminnar ekki einkamál borgarinnar.
Fjandskapurinn við Reykjavíkurflugvöll er annað meginstef aðalskipulagstillögunnar og tengist hinu aðalstefinu, andúðinni á einkabílnum. Hvoru tveggja er stefnt gegn hagsmunum og vilja borgarbúa, sem þurfa að komast leiðar sinnar um greiðfærar götur og hafa ítrekað sýnt að þeir vilja hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er.