Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Menntun metin til launa

segja þeir hjá BHM.

Gott og vel. Hvað er menntun? Til hvers er hún notuð?


Á opinber starfsmaður með gamalt háskólapróf sem fær ekki annað starf en garðyrkju við opinbert skrúðhús að hafa meira kaup en ungur vinnuvélastjóri sem vinnur við hliðina á honum?

Hvað felur eiginlega þetta slagorð, menntun metin til launa, annars í sér?

Hversu hratt úreldist háskólamenntun? Má ekki gera ráð fyrir að tölvutækni hafi breytt ýmsu í störfum þeirra sem lærðu fyrir daga hennar? Sumt af sextugu fólki hefur meira að segja ekki lært að nota tölvur í starfi ennþá. Getur ekki tuttugu ára gamalt háskólapróf án stöðugs starfs við greinina ekki hugsanlega orðið býsna fornlegt?

Á miðaldra doktor í íslenskum rímum sem fær ekki starf við sína sérmenntun á samningi við íslenska ríkið að taka laun eftir launaflokkum allra doktora, lækna og annars sérhæfðs fólks?         

Hvað stjórnar því að fólk velur sér háskólagrein eða starfsgrein yfirleitt?  Ríkir ekki frelsi til þess? Hversvegna er Félagsmálabraut yfirfull meðan skortur er á raungreinafólki? Meiri fyrirhöfn? Hvernig getur maður krafist launa í samræmi við menntun sína og gráðu,fremur en hæfni til að inna starfið af hendi? Myndi formaður BHM leggja allt að jöfnu á skrifstofu félagsins?

Verkfræði til dæmis krefst sífelldrar eftirmenntunar eigi maður að fylgjast með. Áreiðanlega gildir sama um læknisfræði og lögfræði. Sá sem ekki fylgist með lendir útfyrir hliðarlínu þó hann sé kannski fljótari af stað í endurþjálfun.

Svo kemur einhver með snöggsoðnari menntun sem getur gert eitthvað sem lærðu mennirnir kunna en hafa ekki einokun á. Ef sá býðst til að vinna verkið ódýrara en háskólamaðurinn þá gildir það verð fyrir báða. Menntun er ekki metin til launa á samkeppnismarkaði.

Flugumferðarstjórn er grein sem ég held að menn læri  í starfsþjálfun hjá ríkinu. Þeir sem lært hafa fara í félag og verðleggja menntun sína sem söluvarning til ríkisins. Fjölda félagsmanna  er stýrt nákvæmlega af félagsmönnum og þeim sem þjálfunina veita. Menntun er þarna metin til launa en ekki endilega með góðu.

Líku máli gegnir um ljósmæður. Menntun er metin til launa þegar þær sækja fram í kjarabaráttu enn á ný eftir fyrri bráðnauðsynlegar leiðréttingar þá. Sérmenntun slíkra hjúkrunarfræðinga er metin til launa.

Mér finnst slagorðið á fána BHM ekki vera nein tæmandi lýsing á verðmæti söluvörunnar. Sá sem ræður sig í vinnu er að selja vinnu sína en ekki misjafnt fengna prófgráðu

Skulu söluvörunar sjálfar ekki frekar metnar til launa? 


Útspil

Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanns VR, um að gerður verði heildarkjarasamningur á vinnumarkaði er óvænt. Sé litið yfir stöðuna frá Eflingu niður til BHM virðist erfitt að hugsa sér að höggið verði á einhverja hnúta eftir hefðbundnum leiðum.

Tryggingargjaldið sem enn liggur með fullum þunga á atvinnulífinu vegna stórfellds atvinnuleysis á ekki lengur við. Ríkið þarf ekki á þessum peningum að halda til að fjármagna atvinnuleysisbætur. Þar er hægt að kreista út 3.5 % fyrir alla án þess að valdi þenslu.Eitthvað er hægt að pína út úr fyrirtækjunum og ríkinu án kollsteypu. Lækka útsvarið hjá sveitarfélögum um 0.5% er raunhæf tillaga til viðbótar. Einhver hækkun persónuafsláttar gæti þá komi til líka.Fækkun opinberra starfsmanna í stjórnsýslunni um 5 % á 2 árum er enn raunhæft markmið sem má leysa með ráðningabanni.

Fækkun ríkisstofnana er annað göfugt markmið. Lífeyrissjóðir leggi ríkinu vaxtalaust fé í ljósi inneignarinnar í sköttum til að lækka skuldir sínar og spara vexti.

En tuga prósenta kröfur vegna nýrra verðmiða á jafnvel þegar úrelta skólagöngu(eldri en 10 ára)félaga í BHM  er hvergi hægt að ansa.

Í samfellu við heildarkjarasamningar byggðum á jafnlaunahugmyndafræði Ólafíu er hugsanleg leið til að bjarga andliti verkalýðsforingjanna sem eru búnir að koma sér út í sjálfheldu sem þeir komast ekki út úr fremur en Hrafnkell Freysgoði á sinni tíð.

Ef hér skella á allsherjarverkföll og verksviptingar þá sýnist mér ráð að fá hingað tyrkneska herdeild til öryggisgæslu til fulltingis lögreglu.

Ólafía kom með útspil. Hver er í forhönd? 

 


Sókn og gagnsókn

eru hugtök í herfræðinni.Sumir segja að sókn sé besta vörnin. Aðrir segja eins og Glistrup lagði til, að hafa bara "Danmark overgiver sig" á símsvara í Forsvarsministeriet. Stinga sér til sunds þó ekkert sjái til lands eins og heilræði verðbólgupabba hljóðuðu eitt sinn.

Íslenskir vinnuveitendur eru líklega í ætt við Glistrup gamla. Dag eftir dag dynur áróðurinn frá Gunnari Steini og ámóta "leigubyssum"  hvernig sífelldar afleiðingar af þversku atvinnurekenda mynda aðstæður sem enda með því að sjúklingar næstum því deyja vegna mannvonsku þeirra? Hversu aðþrengdir launþegar séu og hafi dregist afturúr meðan stjórnamenn í Granda stundi sjálftökur á tugum prósenta úr 150 í 200 þúsund? Hvernig þessi ódó geti verið að neita þjáðum verkalýðnum í BHM um sanngjarnar launahækkanir þegar að líklega öll óflokkuð menntun hefur stigið svona skyndilega í verði?

Í þessu tilfelli er íslenska ríkisstjórnin sá aðili sem kröfurnar beinast helst að.Og hún er verri pólitískt séð en fyrri ríkisstjórn. Þeir sem taka út píslirnar eru sem fyrr auðvitað aumingjaliðið, við þeir gömlu, öryrkjar og sjúklingar, svo nemendur og börn. Ráðherrarnir sjálfir hafa það gott og Hanna Birna er kominn aftur á þimgið LSG sem hefur ekki mikið fjallað um  að það sé órói á vinnumarkaði. Það eru víst svaka vandræði í fasteignasölu  af því að þinglesningar eru stopp. Og bráðum ætla 67 þúsund manns að hafa generalprufu í allsherjarverkfalli. Þá fá menn aldeilis að sjá.

Ég hefði velt fyrir mér skilaboðunum sem Jón Loftsson sendi Hvamm-Sturlu eitt sinn. Þau hljóðuð einfaldlega að fyrir hvern mann sem Sturla léti drepa myndi Jón láta drepa tvo menn af Sturlu. Hvort hann Sturla væri ekki alveg eins til í að vera bara góður vinur sinn og senda honum Jóni Snorra son sinn í fóstur? 

Af hverju eiga bara launþegar að stjórna leiksýningunni í afkáraleikhúsinu? Af hverju er ekki hægt að boða verksviptingu í tvo daga fyrir hvern einn í verkfalli? Þurfum við ekki að fara að hætta þessu hálfkáki og horfast í augu við alvöruna. Láta það kosta sem þarf fyrir sjúklinga og gamlingja ef svo ber undir að þurfi að loka allri umönnun. Láta okkur skotspænina þjást almennilega alla en ekki bara eins og bara valdir hópar eigi núna að hálfþjást.

Þurfum við ekki að afgreiða kjaramál og vinnudeilur með nýjum lögum? Sýnist engum að gamla lagið stefni bara út á ófærur hvort eð heldur í sókn eða gagnsókn?                              


Bjarni góður

á Sprengisandi.

Bjarni hefur óneitanlega skýra sýn á hina stóru hlið yfirstandandi kjaraviðræðna. Hann rakti í skýru máli hversu gersamleg ósamstæðni er með kröfum hinna ýmsu hópa. Hvernig hver treður á öðrum án tillits til heildarinnar. Hann sagðist hafa heyrt kröfur um 100 % hækkun frá einstöku hópum sem gætu alls ekki gengið. 

Hann svaraði Sigurjóni eftirminnilega þegar Sigurjón ætlaði að fara að byrja kratasönginn um ónýtan gjaldmiðil Íslendinga. Bjarni sagði þá að þeir sem héldu það að þeir gætu hagað sér eins við annan gjaldamiðil og þeir gera við okkar gjaldmiðil og byðu krónunni kkar uppá, þeir færu villir vega sem myndi leiða umsvifalaust til stórfellds atvinnuleysis.

Hann sagði fyrirkomulag kjaramála vera úrelt sem líklega blasir við öllum. Það vantaði ramma utan um kjaraviðræður okkar.Ef hægt væri að halda uppi verkföllum í einni grein með styrkjum úr öðrum greinum væri eitthvað meiriháttar að.

Bjarni ræddi um afnám gjaldeyrishaftanna sem ríkisstjórnin stefndi að að leggja fyrir þingið sem fyrst. Þó að óvissan núna á vinnumarkaði hjálpaði ekki til með því máli.

Margt væri nú gott í umhverfi þjóðarinnar. Við værum ekki að flytja inn erlenda verðbólgu með olíuhækkunum og þess háttar. Útlitið á Íslandi hefði í víðum skilningi sjaldan verið eins gott og það væri núna.  Landsframleiðslan væri í hæstu hæðum, kaupmáttur hefur aldrei verið meiri en núna, verðbólgan hefur aldrei verið lægri í langan tíma. Vöruskipti væru í jafnvægi,ferðamannaiðnaður væri í mikilli sókn og margt þar í lagi.

Nú væri hinsvegar brothætt ástand í okkar þjóðfélagi sem gerði það að verkum að auðvelt væri að glutra niður því sem áunnist hefði. Það væri jafnvægi í sjávarútvegi og í veiðum úr stofnum okkar. Það gæti alls ekki gengið að hver gæti veitt að vild sinni úr þeim. Við værum að virkja orkuna. Við hefðum verið að byggja þetta núverandi góða ástand upp á áratugum. Mannauður okkar væri núna mikill til framtíðar og myndi mjög líklega beinast til tækni og þekkingar á mörgum sviðum. Við þyrftum að tengja betur saman skólana og rekstrarumhverfið.

Með skynsemi gætum við farið niður með vexti til lengri tíma. Gjaldeyrishöftin væru á útleið þó þau  færu kannski aldrei alveg. Það getur verið nauðsynlegt segir Bjarni að þjóðhagsvarúðarráðstafanir séu í gildi til að fyrirbyggja slys eins og ef farið væri aftur í erlenda gjaldeyrisinnlánasöfnun. Hvort slíkt séu höft eða varúðarráðstafanir?

Stöðugleikaskatturinn er ólíkur öðrum sköttum ekki tekjuöflunartæki, heldur til að gera okkur kleyft að við getum lyft höftum. Tekjurnar af honum eiga að jafna og  styðja við losun lamennra gjaldeyrishafta. Eiga þær reglur þá að ná jafnt yfir erlendar fjárfestingar Íslendinga vegna jafnræðis spyr þá Sigurjón? Nei segir Bjarni, segir svo ekki vera á þessari stundu. Hinsvegar verði ávallt að ríkja jafnræði og skulu öll viðmið verða athuguðuð í því sambandi.

Hver er vandinn? Hann er  að gengið og verðbólgan gætu farið af stað ef útstreymi gjaldeyris verður of ört. Slitabúin eru okkur vandamál og snjóhengjan er svo annar okkar vandi. Slitabúin eru búin að bagsa við sín mál í 7 ár án þess að þeim sé lokið. Nú verður að grípa inn. Við ætlum okkur að aftengja sprengjuna svo ekki verði hætta á hruni með afnámi haftanna. Þessvegna erum við að leggja mat á hættuna af slitabúunum.

Peningar eru kannski ekkert að fara segir Sigurjón og hefur eftir  Jón G.í London. Bjarni er ánægður með þetta op bendir á að margt sé svo jákvætt á Íslandi miðað við önnur lönd að það sé hreinlega ekki víst nema fjármagn leiti til landsins í stað þess að yfirgefa það. Það geta vissulega alveg verið líkur á að fjármagn leiti hingað frekar en öfugt 

Það eru engin lög um að vextir íslenskum  krónum eigi að vera háir. Þeir ráðast fyrst og fremst af okkur  sjálfum og okkar hegðun. Ef að allar launa hækkanir fara út um allt þá verður óhjákvæmilega vaxtahækkun og verðbólga. Ef af þessu leiddi 10 % hærri vextir hérlendis og meira atvinnuleysi, þá væri það í samræmi við sögu okkar.  Þá leið hafa Íslendingar alltaf valið og þá sögu og afleiðingar þekkjum við. Við þurfum að líka að tímasetja betur stórar  framkvæmdir segir Bjarni.

Sigurjón spurði hvort reynsluleysi ríkisstjórnarinnar sé um að kenna að koma ekki náttúrupassanum á.  Bjarni útilokaði það  í sjálfu sér ekki enda hefði enginn verið í ríkisstjórn fyrr. En yfirleitt kæmu ríkisstjórnir ekki öllu sínu fram.

Við þurfum þá hinsvegar að setja fé í framkvæmdir við náttúruperlur sem okkur tilheyra úr því að þetta kemur ekki til.

Gríðarleg fjölgun ferðamanna er að eiga sér stað. Náttúrupassanum var ætlað að leysa þetta og fjölga ferðamannastöðum. Verkefnin fara ekkert. Við yrðum að leggja úr ríkissjóði í staðina sem ríkið ber ábyrgð á. Flækjustig eru of mörg hjá okkur í mörgum málum. Besta útfærslan var náttúrupassinn svo við verðum að gera eitthvað annað ef við ekki viljum hann.

Verðtrygging er ekki með sama vægi eða sama málið hjá Bjarna og Sigmundi Davíð. Þeir hafa hinsvegar báðir skýra sýn á þau mál. Bjarni telur óraunhæft að útrýma verðtryggingunni alfarið. Hún hafi í mörgu reynst heilladrjúg.

Húsnæðismálin eiga ekki uppruna sinn í Framsóknarflokknum sagði Bjarni. Okkur vanti skýrari framtíðarsýn svo sem hvað varðar Íbúðalánasjóð og framtíð húsnæðislána. Við þurfum að taka afstöðu til Íbúðalánasjóðs, og  hvað getum við gert til að jafna bótakerfin í húsnæðismálum og leigumálum.

Samstarf ríkistjórnarflokkanna er jafngott og það hefur verið frá byrjun. Bjarni sgist ekki hafa minnstu áhyggjur af því. Ég hef ekki áhyggjur og ekkert vandamál með það segir Bjarni.

Spurður um Páll Jóhann og makrílinn, þá segir Bjarni slík mál auðvitað óþægileg þegar upp koma  en ekki einsdæmi. Þau yrðu leystþ  Óheppilegt spyr Sigurjón?  Bjarni svarar með því að áður en þetta mál komi upp hafi bændur veri á þingi lengi, líka sjómenn, líka skipstjórar og  útgerðarmenn. Þeir greiða hver um sig eitt atkvæð af 63. Alþingi er ekki venjuleg stjórnsýslustofnun. Alþingi er er spegill þjóðarinnar segir Bjarni.

Vaskurinn í ferðaþjónustu var settur af ykkur segir Sigurjón. Frændur þínir eru í Borgun og þetta er allt saman óþægilegt fyrir þig. Það er allt reynt í pólitík svarar Bjarni. Frændur mínir eru þarna  en ég fylgist ekki með hvað þeir eru að gera. Ég veit ekkert um atvinnulífið núna. Ég sleit öll tengsl við það og sagði mig úr öllum stjórnum fyrirtækja fyrir 7 árum. Ég valdi að vinna á mínu stjórnmálasviði. Ég hef ekkert að fela og ég er með hreint hjarta. Engir brestir eru í stjórnarsamstarfinu. Viltu bara ekki bera þetta saman við síðustu stjórn Sigurjón?.

Það er styrkur meirihluti  á þingi.Það var og er ásetningur okkar í ríkisstjórninni að gera aðgerðir sem bæta lífskjör í landinu. Þau verði betri í ár en árið áður. Hefur einhver könnun sýnt að við viljum ganga í ESB spyr Bjarni þegar Sigurjón ætlar að byrja með þjóðaatkvæðismálið og viðræðuslitin.  Þessi ríkisstjórn ætlar ekki í ESB, það liggur alveg fyri segir Bjarni að lokum. Og það er aðalmálið hvort þjóðin hefur vilja til að ganga í Evrópusmabandið.

Ef fólk ætti þess kost að hlusta betur á Bjarna og hans málflutning væri Sjálfstæðisflokkurinn ekki fastur í 25 % tölu til langframa.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hysja upp um sig í áróðursmálunum og trúboði sjálfstæðisstefnunnar. Það er til hreinnar skammar og hroðalegt fyrir okkur fótgönguliðanana að horfa upp á dugleysi Valhallar. Það er eins og neistann vanti elgerlega. Það þýðir ekkert að vinna bara 9-5 ef maður ætlar að veiða sálir.

Bjarni er nefnilega góður í því sem hann er að gera. Aðrir í flokknum eiga að sjá um áróðurinn og almannatengslin en standa sig bara ekki. Þessvegna er fylgið pikkfast í 25 % og Valhöll veðsett upp í rjáfur 


Ætlum við að klúðra því

að taka engar tekjur af ferðamönnum í ár? Virkilega? Finnst okkur þetta bara allt í lagi enn eina ferðina enn að geta ekki látið túristana einu sinni losa vatn sómasamlega við náttúruperlurnar? Hvað þá að ganga Laugaveginn í papírsfjúki.

Úr því að Náttúrupassinn verður ekki að lögum þá á ráðherrann að gefa út reglugerð um að erlendir ferðamenn greiði komugjald og að Íslendingar eigi að láta peninga í bauk þar sem stoppistaðir eru. Einfaldara getur það ekki verið.

Drífa í þessu Ragnheiður Elín. Gerum þetta eins og menn. Ekki klúðra mörghundruð milljónum þetta sumar sem náttúran kallar og hrópar á. 

 


Verkfallagróði

þjóðarinnar er orðinn mikill uppsafnaður. Launataxtar hafa hækkað um mörg þúsund prósent og kaupmáttur hefur aukist jafnt og þétt frá upphafi heimstyrjaldarinnar víst nokkuð í takti við aukningu þjóðarframleiðslu.

 

Það má dunda sér við að reikna út að mánaðar tekjumissir í verkfalli og 30 % taxtahækkun færir launþeganum ekki neitt fyrstu fjóra mánuðina eftir samninga eða svo.

Ríkið verður í kjölfarið að hækka skatta til að geta borgað nýja taxtann og svo að vinna upp minnkun landsframleiðslunnar um tólfta part til aðgeta borgað spítalana og skólana. Verðbólgan byrjar um leið og gengið fellur þannig að það vita allir að þetta gefur minna en núll til lengdar.

En heimskan er gjarnan notuð sem skiptimynt fyrir skynsemina sem segir að kaupmáttur lægstu launa hafi hækkað verulega síðustu tvö ár með sjálfvirku launaskriði. Kaupgjald stillir sig af á almennum markaði með framboði og eftirspurn. Þessvegna eru það aðeins opinberir starfsmenn sem eiga að standa í verkföllum því þeir eru að semja við sjálfa sig. Þessvegna gengur þeim svona illa og í raun þyrfti að taka þennan kaleik af þeim og fela markaðnum að leysa málin. Launin stíga þar til að einhver fæst  í þau en hníga ef biðraðir myndast.

En nú á líka að fara að greiða full laun í verkfalli og launahækkunina afturvirkt svo þetta er bara gaman. Íslendingar þola ekki við en einn mánuð í verkfalli sem er bara auka sumarfrí. Svo dreifum við þessu til að allt geti nú gengið fyrir sig, maður fái bjórinn sinn og brauð úr búðunum. Þetta er svona skemmtiskokk.

Í Svíþjóð var órói á vinnunmarkaði árin fyrir ágúst 1909 með tíðum árekstrum. Þá brast á allsherjarverkfall og verksvipting 800.000 manna. Þetta stóð í mánuð og endaði í miklum ósigri verkalýðshreyfingarinnar, réttindamissi, uppsögnum, gjaldþrotum og landflótta. Síðan hafa Svíar farið sér hægar í verkföllum og sagan um "stora strejken 1909"svífur enn yfir vötnunum. Vinnuveitendur hafa lock-out réttinn alveg eins og hinir hafa verkfallsréttinn en honum hefur aldrei verið beitt. En þá myndu menn kynnast ástandi sem ekki er vitað hvernig herlaus þjóð mndi bregðast við öðruvísi en með borgarastyrjöld. Svo þessi verkfallamál eru ekki bara grín eins og menn þekkja þau núna. Þau geta endað illa.

Það getur svo verið vandmeðfarið að reikna út verkfallagróðann.

 

 


Tölvuleikir

unga fólksins eru makalausir.

Ungur piltur er með svona leik í sjónvarpinu okkar hérna heima. Í honum getur maður farið í svaðalegan kappakstur við lögguna og reynt að sleppa með því að keyra niður alla sem eru á götunni, ljósastaurar kubbast og fólk á gangi splundrast þegar maður keyrir á það. Maður sem ökumaður hefur líka byssu og getur knallað niður þá sem eru fyrir manni og þeir liggja eftir í blóði sínu. Maður drepur fullt af löggum sem eru að skjóta á mann. Maður rænir bílum og skýtur ökumanninn umsvifalaust ef hann er með múður. Stundum er maður sjálfur drepinn af löggunni en þá er bara byrjað aftur.

Einn kafli í leiknum er að maður getur sem stjórnandi töffgæja með fuglshaus í grímubúningi labbað um með hníf og stungið niður vegfarendur sem maður hittir í mikilli þríviðargrafík í nútíma borg, einn takki og þeir liggja eftir í blóði sínu, stungnir í magann, meðan maður labbar áfram í leit að næsta vegfaranda og ber blóðugan hnífinn fyrir sér. Og sá fær sömu afgreiðslu.

Þetta er ekki fólk heldur teiknaðar fígúrur segir stráksi þegar ég býsnast. Ja mikið assgoti er þetta líkt raunveruleikanum segi ég og vel teiknað. Þessi leikur er bannaður í Ástralíu upplýsir pjakkur. Ja svei mér, ef þetta ætti ekki að vera bannað innan sextán segi ég. Hann gefur nú ekki mikið fyrir svona pempíugang.

Mér er um og ó. Ætli einhverjir unglingar geti ekki villst á þessu og því að fara í skólann og kála einhverjum raunverulega? Svei mér þá, ef ég skil þetta. Hann upplýsir að hægt sé alvega að una sér við svona leiki í átta tíma á dag með skólanum. Vita allir foreldrar útá hvað þessir leikir oft ganga? Ég er eiginlega viss um að skólarnir hafa ekki hugmynd um þetta tómstundastarf. Og áreiðanlega er ekkert kvikmyndaeftirlit að skoða þetta enda veit kannski enginn hvernig þetta kemur inn í landið eða hvað er selt í búðunum. 

En mikið svaka eru þessir tölvuleikir flottir og raunverulegir. Tölvutæknin er gríðarleg og gerir hlutina æsandi.

En hvað??

 


Vitrænar samræður

um húsnæðismál átti ég á fámennum en góðmennum fundi Sjálfstæðismanna fyrir hádegið.

Menn fóru þar að tala upp úr þurru um hvernig unga fólkið ætti erfitt með að standast þessi greiðslumöt núorðið. Jafnvel fólk á miðjum aldri sem er að skipta um húsnæði og stækka við sig lendir í hremmingum. Greiðslumetarinn tekur eignina sem fjölskyldan á fyrir á fasteignamati en nýju eignina á söluverði sem og auðvitað gengur ekki upp svo allt er í basli eða ekkert hægt. Ungt fólk á auðvitað enga möguleika á standast þetta mat frekar en við hefðum aldrei gert í gamla daga þegar þegar við skítblönk vorum að byrja og engir nema Framsóknarmenn fengu lán önnur en húsnæðislán sem allir þó fengu út á fokheldu. Það lán dugði fyrir þriðjungi af íbúðarverðinu. Þá fékk maður meira að segja fríar teikningar af öllu húsinu hjá Húsnæðismálastofnun.

Nú er eins og borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík til dæmis haldi að ungt fólk standist greiðslumat til að kaupa í nýbyggingum í Vatnsmýrinni á 5-700.000 kr/m2. Einhver fornaldareðla í stjórnmálum sem hét víst Sjálfstæðisflokkur og er víst sagður kominn í bráða útrýmingarhættu talaði þá oft um eign fyrir alla og nauðsyn séreignarstefnu í húsnæðismálum. Það er einhver smáflokkur með þessu nafni á Alþingi en hann minnist aldrei á neitt lengur um svona heimspeki svo vitað sé. Uppteknari við kvótamál og vínsölu í verslunum. Helst talar hann bara um vexti,verðtryggingu og svo vaxtabætur, bankabónusa, sölu á Landsvirkjun og Landsbanka svo og skort á leiguhúsnæði eða félagslegar lausnir í húsnæðismálum.

Umræðan er svo um heilaga verkfallsrétti opinberra starfsmanna sem flestir eru að verða ekki hvað síst fyrir hans tilstilli, í BHM eða ekki. Enginn prédikar lengur fyrir neinu af hinum gömlu gildum þessa gamla flokks nema kannski Óli Björn og líklega fyrir steindaufum eyrum því eini flokkurinn sem bætir við sig er Píratar og nú með sjálfan Bubba innanborðs. Enda allir fjölmiðlar nema einn andsnúnir öllu nem félagslegum lausnum.

Ég fór að rifja upp tímana þegar Smáíbúðahverfið var byggt án þess að hafa upplifað það sjálfur nema að maður hjálpaði stundum eldri vinnufélögum á kvöldin og um helgar.Það var til fullt af myndum inni í Steypustöð þegar ég kom þar þar sem voru myndir frá þessum tíma þar sem maður sá þjóðkunnug andlit vera að steypa á kvöldin hvort hjá öðru, kellingar með krakka halarófu á eftir sér að skafa timbur og skítugir frægir kallar eins og moldvörpur í grunnunum.

Ég hélt því fram að ef sveitarfélög myndu skaffa litlar lóðir, kannski 5-600 m2 undir frjálsar byggingaraðferðir án endilega algildrar hönnunar og brjálaðra einangrunargilda, ekki endilega steinsteyptra húsa, sem ekkert yrði borgað af fyrr en byggjandinn væri fluttur inn og farinn að borga útsvar, þá myndu einhverjir vilja fara að reyna að byggja sjálfir og gera það ódýrt.

Ég hélt því fram að ungt fólk myndi jafnvel  vilja fá svona þrjú til fjögur stykki af íbúðargámum til að setja á svona lóðir og flytja inn í þetta til þess að komast af Hótel Mömmu með sína fjölskyldudrauma. Af hverju má ekkert gera út fyrir kassann?

Af hverju þarf að byggja fallbyssuheld steinsteypt virki í búnkerstíl Adolfs Hitlers til þess að geta lifað fjölskyldulífi með börnum á hitaveitusvæði og í einföldu, rakalausu, heitu húsnæði með sjónvarpið sitt og alla geggjuðu tölvuleikina sem unga fólkið er heltekið af?  Kominn í einbýlisaðstöðu fyrir minna en 10 milljónir útlagt? 

Af hverju vill enginn sveitarstjórnamaður ekki einu sinni ræða neitt svona lengur? Bara úthluta verktökum fyrir 500.000 kr/m2 Dofra-hallir sem kosta kaupandann ævilangan þrældóm og skuldabasl eins og örlög okkar eldri urðu gjarnan?

Shanty-town geta verið bæði snyrtileg og full af vaxtalausri hamingju. Malbikaðar götur með gljáfægða bíla. Ekki bara drukkna í hugleiðingum í vaxtabótum, húsaeigubótum, félagsaðstoð, sérstakri heimilisuppbót og hvað þetta heitir nú allt í bótakerfunum. Af hverju er enginn sem vill ræða neitt annað en það sem er í boði núna? Þeir sem ekki fá bankabónusa með þaki  gætu haft áhuga á öðru en bara að flytja til Noregs eða bara burt af þessu óhamingjusama skeri eins og einn ungur maður mér nákominn orðaði það við mig.

Ég veit hvert menn geta farið og séð  hvernig Kaninn byggir yfir sitt fátæka fólk með sinni tækni. Þar erum við  að tala um 100,000 kr/m2. Það er hægt ef menn vilja reyna.

Allavega fannst mér ég um stund í morgun vera staddur í vitrænum umræðum um vandamál unga fólksins, ef það þá á annað borð sér lengur einhverja framtíð á þessu landi aðra en að kjósa Pírata. 

 

 


Pólitískt verkfall

BHM skýrist með kjöri hins nýja formanns. Sjálfur framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, er tekinn við formennsku í félaginu af Palla komma. Þannig er sama framkvæmdastjórn í báðum þessum samtökum og því væntanlega greiðar boðleiðir milli formannanna. 

Verkfallið gengur samkvænt björtustu vonum og baráttuandinn vex með hverju nýju áfalli á á spítölunum. Svona myndi þetta ekki vera ef Íslendingar væru í ESB og hefðu Evruna? Þá væru launin verðtryggð og rödd Íslands myndi heyrast alla leið til Þýskalands þar sem launin hafa ekki hækkað neitt í langan tíma vegna algers skorts á verkföllum. Fyrir misskilning þá halda menn það sumstaðar, að launahækkun í einu Evrulandi hafi ekki áhrif á það næsta. Þórunn yrði ekki í vandræðum með aðstoð Árna Páls að skýra það út fyrir þessu ósstéttarmeðvitaða fólki undir Brussel hvernig Ísland færi að með árlegar 10 % launaleiðréttingar sem yrðu nauðsynlegar vegna fallandi gengis Evrunnar? Hagfræði hinna vinnandi stétta kunna Íslendingar upp á hár.

Markmiðið er auðvitað í og með að kynda undir ríkisstjórninni eins hægt er auk þess að fá einhverjar verðbólguhækkanir í vasann sem auka efnahagsvandann.

Þannig virka pólitísk verkföll best.


Einkavæðum fangelsin

fangelsihér á landi. Við ráðum ekki við afplánunarvandann eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Mér  er sagt að í Bandaríkjunum sé mörg ef ekki flest fangelsi einkarekin. Fangelsi eru byggð samkvæmt staðli og aðrar framkvæmdir líka.

Þarna er nýr atvinnuvegur í boði á Íslandi.Ekki er vafi á að þetta munleiða til stórfelldrar lækkunar á kostnaði, sem er löngu farinn úr böndunum eins og þeir geta séð sem lynna sér teikningarnar af nýja fangelsinu á Hólmsheiði.  Með réttri flokkun fanga er ekki vafi á að fækka má verulega á þessum biðlistum sem nú við blasa og lækka kostnað.

(Meðfylgjandi mynd vill ekki koma inn vegna tæknilegra öðrugleika sem dundu yfir bloggið skyndilega og óvænt.)


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 3420141

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband