Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2019

Af stokkunum

er meirihlutinn í Reykjavík hlaupinn

Hilmar Þór Björnsson arkitekt skrifar svo um stokkahugmyndina í dag:

" Nú eru liðin tæp tvö ár síðan „fýsileikakönnun“ um Miklubraut í stokk var kynnt. Niðurstaðan var í stuttu máli sú að talið var skynsamlegt að gera þetta.

Ég áleit á þessum tíma að þetta væri svona hefðbundið kosningamál sem auðvelt væri að selja, en sveitarstjórnarkosningar stóðu þá fyrir dyrum. Þegar könnunin var kynnt sást strax að megináhersla var lögð á endanlega útkomu og hvað þetta yrði allt mun betra og skemmtilegra en núverandi ástand. Og það er vissulega rétt að allt umhverfið yrði mun manneskjulegra og skemmtilegra ef bílunum yrði sökkt niður í jörðina og maður þyrfti hvorki að sjá þá né heyra.

Fæstir bjuggust við að málið yrði tekið upp aftur eftir kosningar. En nú er þetta komið upp á borð og er inni í svokölluðum samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Á sínum tíma þegar þetta var kynnt veltu menn fyrir sér hvernig umferðinni yrði háttað á framkvæmdatímanum sem líklega verður 5-10 ár.

Það þyrfti að finna annan farveg fyrir þá tæplega 100 þúsund bíla á sólarhring sem fara um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Bústaðavegur og Snorrabraut yrðu einnig í uppnámi meðan byggður er stokkur við gatnamót þeirra samkvæmt fýsileikakönnuninni.

Framkvæmdin mun rýra verulega aðgengi að Landspítalanum, háskólasvæðinu og í reynd Vesturbænum, Seltjarnarnesi og miðborginni meðan á þessu stendur. Sama má segja um verslunarsvæði Kringlunnar sem um fimm milljónir manna sækja árlega. Manni virðist sem nánast öll umferð í Reykjavík verði undir meðan á framkvæmdum stendur.

Ekki var tekið á þessum umferðarmálum á framkvæmdatíma í fýsileikakönnuninni sem lögð var fram í febrúar 2018. En vonandi hefur það verið gert síðan og lausnir fundnar á þessu. Það væri gaman að sjá þær.

Til þess að átta sig á umfangi þessara framkvæmda má minna á að göngin verða samkvæmt fýsileikakönnuninni 1.750 metra löng frá svæðinu austan Kringlu og að Landspítalanum. Athafnasvæðið er alls um 23 hektarar sem er meira en allt Skuggahverfið norðan Hverfisgötu milli Snorrabrautar og Kalkofnsvegar.

Grafa þarf um 10 metra niður þar sem stokkurinn kemur og allnokkuð umhverfis hann auk graftrar vegna húsanna sem þarna á að byggja. Líklegt er að þarna sé hátt á aðra milljón rúmmetra af jarðvegi sem moka þarf upp og aka burt. Svo á að byggja öll húsin.

Samkvæmt fýsileikakönnuninni er áætlað að byggðir verði 206 þúsund fermetrar af nýbyggingum meðfram stokknum. Þar af eru 140 þúsund fermetrar ætlaðir íbúðabyggingum og 66 þúsund fyrir verslun og þjónustu.

Það er vert að minna á að á sjálfum Kringlureitnum er fyrirhugað að byggja um 160 þúsund fermetra nýs húsnæðis þar sem verða um 1.000 íbúðir. Þegar á heildina er litið er um að ræða tæplega 370 þúsund fermetra af nýbyggingum á svæðinu með um 2.400 íbúðum. Það er mjög mikið. Eitt og hálft Seltjarnarnes af nýbyggingum.

En hvernig eru þessi umferðarvandræði til komin? Hvað var það í borgarskipulaginu sem olli öllum þessum vandræðum sem nú á að leysa með þessum stokk?

Ég veit það ekki en tel víst að orsök þessara vandræða sé að leita í sjálfu borgarskipulaginu. Það er fullt tilefni til þess að rannsaka það.

Ég þekki enga 126 þúsund manna borg í víðri veröld sem hefur valið að byggja tæplega tveggja kílómetra jarðgöng til þess að greiða fyrir einkabílaumferð innanbæjar.

Getur verið að ákvarðanir um að safna saman öllum stærstu vinnustöðunum á nánast einn stað í miðborginni sé hluti vandans?

Hefur ekki verið fyrirsjáanlegt um langan tíma, að ef við stefnum öllum stærstu vinnustöðunum á einn stað þá fari umferðarmálin í hnút? Er þessi stokkahugmynd kannski talandi dæmi um hvað skipulag Reykjavíkur er vanreifað og ófaglegt?

Ef Landspítali – Háskólasjúkrahús, sem stefnir í að verða 7-8.000 manna vinnustaður með 20-30.000 ferðum til og frá daglega, Háskólinn í Reykjavík með 3.700 nemendum og nokkur hundruð starfsmönnum, og fleiri stórir vinnustaðir hefðu verið byggðir austar í borginni, t.d. við Elliðaárósa eða við Keldur, væri e.t.v. hægt að fresta þessari framkvæmd eða hætta við?

Er hugsanlegt að sjálf bærir borgarhlutar með allar daglegar nauðsynjar í göngufæri frá heimilunum mundu draga úr einkabílaumferð svo um munaði?

Og svo er líklegt að ef skilvirkar almenningssamgöngur hefðu verið skipulagsforsenda undanfarna áratugi væru þessi mál líklega í ágætu lagi og enginn stokkur á teikniborðinu. Og svo er það spurningin:

Vill einhver aka tæplega tveggja kílómetra löng, myrk og menguð göng, þegar aðrar leiðir, fallegri og skemmtilegri, eru í boði?"

Þarna er Hilmar með fingurna á púlsinum. Það er nákvæmlega þessi Kvosardýrkun sem hefur haft þau ömurlegu áhrif á umferðarskipulagið sem nú blasa við. Og það er haldið áfram á þeirri braut að reyna að troða sem mestri atvinnustarfsemi niður í átt að Kvosinni. Allsstaðar annarsstaðar væru menn búnir að átta sig á því Að Vesturbærinn og Kvosin eru orðnir að "Altstadt" sem hýsa aðallega gömul lítið eftirsótt íbúðahverfi og skemmtistaði. Atvinnustarfsemi fer þaðan og barnafólkið vill ekki búa í slíkum hverfum heldur.

Stokkhugmyndin er svo galin og dýr að það þarf meira en meðalóraunsæi til að ráðast í hana þegar við blasir að hægt er að leysa núverandi vandamál umferðarlega fyrir brot af þeim kostnaði sem þarna er til sögunnar kynntur.

Göngubrýr og mislæg gatnamót frá Grensásvegi að Suðurgötu, fjölgun akreina og breikkun Miklubrautar í stað nýgerðra þrenginga blasir við hverjum manni sem ekki situr í óráðsmeirihlutanum í borgarstjórn Reykjavík.     

Hilmar Þór á þakkir skildar fyrir að hleypa af stokkunum svo glöggri greiningu á fýsileika stokkhugmyndarinnar þannig að hver maður getur séð hversu gersamlega út í hött hún er. 


Þjóðarsjóður?

virðist vera gæluverkefni Bjarna Benediktssonar.

Hann vill að núlifandi Íslendingar skattleggi sig til að borga eitthvað sem næsta kynslóð þarf kannski óvænt að borga. Icesave lll eða eitthvað annað snjallræði eða skyndiáfall?

Af hverju eigum við núlifandi Íslendingar að fara að taka okkar peninga og leggja þá í banka til þess að einhverjir stjórnmálaskúmar framtíðarinnar sem við ekki þekkjum geti tekið þessa peninga til sín og ráðstafað í eitthvað sem við hvorki þekkjum, né höfum unnið til eða orsakað á nokkurn hátt?
 
Mér finnst þetta vera órökrétt hugsun. Hefur ekki hver kynslóð lifað í þessu landi sínu lífi og skilið verk sín, góð eða slæm, eftir fyrir næstu kynslóð til að erfa?
 
Skuldaði kynslóð Jón Sigurðssonar okkur Hrunverjum eitthvað siðferðislega þegar einhverjum  fannst mál að borga Icesave? Verða ekki Kúba norðursins eftir ískalt mat á greiðsluskyldunni?
 
Af hverju skuldum við núlifandi Íslendingar einhverjum ófæddum Íslendingum eða aðfluttum flóttamönnum seinna á öldinni fyrir þeirra asnaspörk eða síldarleysi sem dynur yfir 2080? Fáum við einhverja hlutdeild í þeirra hagsæld?
 
Landsvirkjun verður skuldlaus eftir 4 ár með eigið fé uppá 400 milljarða og hagnað uppá 60 milljarða. Skiljanlega klæjar ýmsa í puttana við þá tilhugsun.
 
Af hverju eigum við ekki að nota þetta fé til að bæta líf okkar kynslóðar sem höfum byggt upp Landsvirkjun? Laga vegina, spítalana, skólana?
 
Af hverju eigum við að afhenda þetta fé með fórnarkostnaði til einhverra fjármálasérfræðinga til að spila með erlendis?
 
Af hverju er ekki lífið einmitt núna en ekki í framtíðinni?
 
Vantar ekkert einmitt núna í dag?
 
Hrunið, Icesave og tap lífeyrissjóðanna erlendis er ekki gleymt. Fyrstu kannanir benda til þess að mikill meirihluti þjóðarinnar taki ekki undir hugmyndir Bjarna um Þjóðarsjóð.

 


Sandarar og Ólsarar

voru sagðir duglegir að rétta út hendur til hvors annars á böllum í gamla daga þegar þeir voru búnir að fá sér á kvistinn.

Mér duttu gamlar sögur í hug þegar ég sá stara eða svartþröst og venjulegan þröst fljúgast á eins og kolvitlausa fyrir utan gluggann hjá mér. Í blaðinu var verið að segja frá því að spörfuglarnir  væru jafnvel blindfullir af reyniberjaáti þessa dagana þar sem met uppskera af þeim væri.

Skyldu þessir tveir hafa verið eins og Sandarar og Ólsarar á góðri stund?


Eigandastefna

Fréttablaðsins fannst mér skyndilega blasa við mér þegar ég fór að fletta því ögn vendilegar en venjulega í morgun.

"Hlýnun jarðar mun leiða til aukinna sveiflna á fjármálamörkuðum. Það verður því æ erfiðara að safna í eftirlaunasjóði til að ráðstafa við starfslok. Þetta segir Sean Kidney, stofnandi og framkvæmdastjóri Climate Bond Initiative, í samtali við Fréttablaðið. Hann stýrir samtökum sem vinna að því að virkja skuldabréfamarkaði á heimsvísu í þágu umhverfismála. Fossar Markaðir gengu nýverið til liðs við þau og fengu Kidney til að ræða við forsætisráðherra, fjármálaráðherra og umhverfisráðherra Íslands á mánudag um græn skuldabréf..."

 

Leiðari Kolbrúnar Bergþórs er eins og við er að búast:

"...Það er þungbært að horfa á þjóð kalla sjálfviljuga yfir sig glundroða og upplausn og standa síðan eftir ringluð og ráðvillt. Einmitt þannig er komið fyrir bresku þjóðinni. Misvitrir stjórnmálamenn teymdu hana út í þjóðaratkvæðagreiðslu um veru í Evrópusambandinu. Í kosningabaráttunni var hver lygin á fætur annarri borin á borð fyrir kjósendur. Þeir sem lugu mest og höfðu hæst áttu ekki von á að úrslit kosninganna yrðu á þann veg að Bretar höfnuðu Evrópusambandinu. Það gerðu þeir og stór hluti þeirra er nú gripinn aðskilnaðarkvíða, og það ekki að ástæðulausu..."

".... Breska þjóðin var sjálfri sér verst og þarf nú að takast á við afleiðingarnar."

 

Þórdís Lóa formaður Borgarráðs úr Viðreisn  skrifar:

"...Að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu í sátt við samfélagið, m.a. með því að stefna að kolefnisjafnaðri ferðaþjónustu með minni neikvæðum umhverfisáhrifum, betur dreifðu álagi um borgina og með auknu samtali við íbúa..."

Ég las auðvitað Þorvald Gylfason til þess að venju að æsa mig upp.En hann kemur mér á óvart eins og stundum áður með að skrifa vel og fræðandi góða grein um hagfræði.

Svo kemur kollegi minn Ingólfur Hjörleifsson einbeitta grein um nauðsyn þess að loka álverinu í Straumsvík. Svo segir hann:

"...Brýn þörf er á lagabreytingum er varða sölu Landsvirkjunar á raforku þjóðarbúsins og tilkoma sæstrengs mun auka ábata og minnka áhættu orkuframleiðenda hérlendis.

Sala ၠraforku í gegnum sæstreng mun koma fram sem áhættudreifing fyrir Landsvirkjun þar sem selt er til nýrra aðila og undir öðrum skilmálum.

Frá árinu 2016 hafa verið birtar skýrslur (Landsvirkjun, Orkustofnun, atvinnuvegar- og nýsköpunarráðuneytið, Gamma), sem sýna árlega á fimmta tug milljarða króna í aukinni hagsæld þjóðarbúsins, sem tekjur til ríkisins vegna sölu á raforku gegnum sæstreng til Evrópu. Það munar um minna en 50 milljarða."

Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfó skrifar:

".. og skipuleggja nauðsynlegar samgöngubætur til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Þær fela m.a. í sér að gerð verði örugg göngu og hjólaleið við Strandveg/Víkurveg á milli Garðsstaða og Breiðavíkur, sett verði upp gönguljós og þrenging götu við Mosaveg og unnið verði að úrbótum á almenningssamgöngum í samvinnu við Strætó, með áherslu á fjölgun biðstöðva og tíðari ferðir..."

Tryggvi Felixson formaður Landverndar segir:

"....Framleiðsla rafmagns er nú þegar fimmfalt meiri en þarf til að mæta almennri eftirspurn. Þrátt fyrir það renna út sífellt fleiri rannsóknarleyfi fyrir virkjanir stórar sem smáar. Á sama tíma virðist sem þær stofnanir sem eiga að fylgja eftir lögum um vernd náttúru og víðerna vanti úrræði til að koma í veg fyrir frekari eyðileggingu á náttúru landsins."

Einar Benediktsson ambassador bregst ekki í trúskapnum við ESB.

Hann segir:

"...Vera kann að mesta lyftistöng fyrir íslenskuna og framtíð hennar hefði verið að hún væri opinbert mál í Evrópusambandinu. En sú staða er formlaga ætluð aðeins þjóðtungum aðildarríkja og ekki EFTA/EESlöndum. Það ætti þó ekki að vera til trafala, að einmitt á því sviði er þörf sérstakra ráðstafana til að tryggja þá gagnkvæmu evrópsku hagsmuni sem er varðveisla þjóðtungu Íslands."

Það þarf enginn að velkjast í vafa um hver ritstjórnarstefna Viðreisnareigandans sé, þar sem blaðið er massívt með loftslagshlýnun, reiðhjólum, andbílisma, andstóriðju og andvirkjunum og ESB.

 

 

 

 


Hver blæs mest?

út af CO2-fíkninefninu þeirra  Katrínar Jakobsdóttur og Grétu Thunberg? Flugið á ráðstefnurnar eða sunnudagsbíltúrinn á fjölskyldubílnum?

Boeing 757 brennir nálægt 5000 pundum á klukkustund. Hún er kannski með 150 farþega. 40 pund á farþega á klukkustund. 100 pund af CO2 á Katrínu eina á klukkustund. Bíll brennir kannski 4 pundum á klukkustund.(https://www.quora.com/How-much-fuel-does-a-Boeing-757-use-per-hour)

Miklu fleiri bílar eru ekki í akstri heldur en flugvélar í flugi af líftíma sínum.  Kæmi mér ekki á óvart að bílarnir eyði helmingi minna en flugvélarnar.

Það styður þetta að innflutningur á þotuflugeldsneyti til Íslands eru einhver 800.000 tonn meðan bíla-og bátaeldsneyti eru einhver 400.000 tonn. Þannig held ég að flugið blási minnst helmingi meira út en allir bílarnir gera.

Það liggur ekkert á að rafvæða bílaflotann. Jarðefnaeldsneyti er orkulind mannkyns og verður lengi enn. Kolefniskjaftæðið er líka bull frá upphafi til enda enda er CO2 byggingarefni lífsins á jörðinni og fæða gróðursins. Án þess deyjum við út.

Kjarnorkan er það sem koma skal sem orkugjafi mannkynsins þegar jarðefnaeldsneytinu sleppir.

 


Af hverju þjóðarsjóð?

fyrir okkur að borga í núna og um ókomin ár?

Allt fyrir það að við göngum í ESB eftir ókomin ár og Sambandið tekur við fiskimiðunum með þeim afleiðingum að tekjur 500.000 Íslendinga hrynja árið 2050 eftir til dæmis ofveiðar Spánverja?

Af hverju eigum við að neita okkur um innviðauppbyggingu til næstu ára til að borga fyrir stjórnmálaaðgerðir Samfylkingar og Viðreisnar eftir ókomin ár? Hvaða þátt átti ég í þeim sem fæ saklaus bara að borga en ekki njóta neinna bjargráða af skiljanlegum ástæðum?

Vegna þessarar rökvillu gengur þjóðarsjóðurinn ekki upp fyrir mér.


Hvar er Gústaf Adolf Skúlason?

Ég finn ekki bloggið hans í dag.

Er búið að loka á hann?


Valdimar varar við

hamförum í náttúrunni á Íslandi. Hann vísar til atburða sem gerðust á landinu á sögulegum tíma í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag.

Valdimar segir:

Ásetningur er eflaust góður hjá langflestum sem láta að sér kveða í baráttunni gegn ætlaðri hnattrænni hlýnun af mannavöldum. Hann kann samt að varða veginn til glötunar.

Ógæfulegt er að hlusta ekki á marga meðal fremstu vísindamanna heimsins sem hafna því alfarið að nokkur loftslagsvá sé í gangi eða í vændum. Meira en 500 slíkir víða um lönd sendu aðalritara SÞ bréf þess efnis 23. september sl.

Á sama tíma einblíndu nær allir fjölmiðlar heimsins á 16 ára sænskt stúlkubarn sem fékk enn og aftur áheyrn frammi fyrir öllum heiminum til að flytja sefasjúka heimsendaspá, sem enginn fótur er fyrir.

Heimspressan flytur ekki fréttir af málflutningi vísindamannanna nema í skötulíki heldur dynur áróður um hamfarahlýnun í síbylju á almenningi eins og endanlegur sannleikur.

Sefjunin er komin á slíkt stig að forsætisráðherra þjóðarinnar hvæsir á varaforseta Bandaríkjanna þegar hann bryddar upp á málum sem hann telur varða sameiginlega hagsmuni, að þeir skiptu engu máli, heldur sé stóri vandinn bráðnum jökla heimskautsins, og gefur til kynna að hans eigin stjórnvöld séu hluti vandans!

Vísindamennirnir vara eindregið við skaðlegum og óraunhæfum ásetningi um CO2-hlutlausan heim árið 2050. Þeir neita því að CO2 sé mengunarefni heldur nauðsyn öllu lífi á jörðinni. Ljóstillífun sé blessun og aukið CO2 náttúrunni gagnlegt. Þeir segja veðurfarsmódelin stórgölluð og nálgist ekki að vera nothæf sem stjórntæki. Þeir benda á að Litlu ísöld hafi lokið um miðja 19. öld og því sé tímabil hlýnunar eðlilegt. Hlýnun sé þó meira hægfara en hafi verið spáð.

Engar tölulegar upplýsingar styðja að hlýnun jarðar valdi auknum fellibyljum, flóðum og þurrkum, hvorki að fjölda né styrkleika, en fréttir í þá veru dynja í sífellu á almenningi. Minnkun á losun CO2 er hins vegar jafn skaðleg og hún er kostnaðarsöm.

Smá dæmi: Vindmyllur drepa fugla og skordýr. Pálmolíuekrur skaða fjölbreytileika regnskógarins. Alþjóðastjórnmálin eiga ekki að hindra að næg, örugg og ódýr orka sé fyrir hendi um heim allan. Sérstakur kafli er svo hvernig við erum að fara með börnin okkar með því að innræta þeim hræðslu og kvíða fyrir framtíðinni. Þeim er það ekki hollt veganesti.

Krampakennd miðstýrð þróun í samgöngumálum með miklum fjárútlátum við innviðabyggingu og innleiðingu rafmagnsbíla með mismunun miðað við aðra bíla í stað þess að leyfa eðlilega samkeppni um bestu lausnir er ógæfuleg.

Enginn neitar því að mengun er til skaða. Rétt væri að skoða nánar mengun af NOX, SOX og sóti frá dísilbílum, mengun vegna framleiðslu og eyðingar rafhlaðna hjá rafbílum og aukna svifryksmengun frá þeim vegna 60% meiri þyngdar en annarra sambærilegra bifreiða.

Eðlileg samkeppni á jafnræðisgrundvelli um bestu lausnir stýrir best þróun samgangna en ekki alræðiskennd miðstýring. Eyðilegging á fyrri fjárfestingum í framræstu mýrlendi eða dæling koltvísýrings niður í berglög til að binda CO2, sem er hrein firra og jafnvel til skaða ef þessir 500 vísindamenn hafa lög að mæla.

Íslensk stjórnmál ættu að horfa til íslenskra hagsmuna og þeirrar vár, sem er raunveruleg. Ísland er eitt eldfjallavirkasta land heimsins.

Rúmlega tvær aldir eru liðnar frá síðasta hamfaragosi, Skaftáreldum, sem lagði fimmta hluta þjóðarinnar í gröfina.

Mannskæðast var sprengigos í Öræfajökli á 1362 sem eyddi heilu héraði, fólki, fénaði og bæjum, en gosið í Eldgjá árið 934 var mesta gosið frá landnámi.

Spurningin er ekki hvort heldur hvenær og hvar næsta stórgos verður. Hvernig er Ísland búið undir næsta hamfaragos?

Kannski verður ekkert flug mögulegt í marga mánuði eins og hefði verið í Skaftáreldum. Vonlaust að fá skip vegna þess að aðrar þjóðir væru einnig í vanda vegna hamfaranna. Hvað með matvæli, eldsneyti, lyf, gjöreyddar byggðir, aðhlynningu þúsunda með alvarleg lungnavandamál vegna brennisteinsmengunar, fjölda látinna, hrun í landbúnaði, almennt efnahagshrun sem gerði hrunárin fyrir áratug að gósentíð í samanburðinum? Og kannski engrar hjálpar að vænta að utan því aðrir væru ekki aflögufærir.

Eða raunverulega ísöld um heim allan með þriggja kílómetra þykkum jökli yfir öllu landinu?

Þetta síðasttalda er næsta víst. Ekki hamfarahlýnun.

Hér er strengur á fréttatilkynningu vegna bréfs 500-menninganna: Meira: https://clintel.nl/wp-content/ uploads/2019/09/ED-brochureversieNWA4.pdf"

Þarna er skrifað af þekkingu og raunsæi um hvað getur dunið yfir í náttúru Íslands og annarra landa. Þessi skrif Valdimars Jóhannessonar eru þarft innlegg í þá vitstola  umræðu sem fram fer á öllum rásum um hluti sem fólk gleymir að skoða á rökrænan hátt.


Er Viðreisn valkostur

í stjórnmálum?

Enginn þarf að velkjast í vafa um það að Viðreisn er eins máls flokkur, algerlega hliðstæður við Samfylkinguna,  eftir að hafa lesið eftirfarandi grein Benedikts Guðföðurs í Morgunblaðinu í dag:

" Sjálfstæðisflokkurinn náði lágpunkti árið 2013 þegar landsfundur samþykkti ályktun um að Evrópusambandinu yrði gert að loka upplýsingaskrifstofu sinni hér á landi.

Aldrei áður hafði flokkurinn snúist gegn því að almenningur fengi greiðan aðgang að upplýsingum, enda var tjáningar- og skoðanafrelsi lengi vel samofið stefnu flokksins. Nú skyldi þekkingu, frjálslyndi og umburðarlyndi úthýst.

Dæmin frá Bretlandi og Bandaríkjunum sýna hve hættulegt það er þegar vanþekkingin tekur völdin og herjar á frelsið.

Skýrsla starfshóps utanríkisráðherra um EES-samninginn upplýsir hve mikilvæg aukaaðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið okkur undanfarinn aldarfjórðung. Þar kemur fram að með samningunum opnaðist frelsinu ný braut hér á landi. Breytingarnar hafa verið svo róttækar að vandséð er að það þjóni „nokkrum tilgangi að hverfa til veraldar sem var þegar breytingar eru jafnróttækar og hér er lýst“. Greinileg pilla til andstæðinga samstarfsins innan ríkisstjórnarflokkanna og í Miðflokknum.

Markmið hópsins var að draga fram staðreyndir og láta lesendur sjálfa gera upp hug sinn.

Rökrétt niðurstaða af lestri skýrslunnar er að líta á þann hag sem þjóðin hefur haft af aukaaðildinni og semja svo um fulla Evrópuaðild á jafnréttisgrunni.

Nýlegar deilur um orkupakkann svonefnda sýna hve mikilvægt er að vel upplýstir Íslendingar sitji við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar en þiggi ekki bara brauðmola sem af því hrynja.

Flokkur forsætisráðherra gekk til skamms tíma lengst íslenskra flokka í andstöðunni við þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi.

Því ber að fagna þegar ráðherrann lýsir nú ánægju með aukaaðildina að Evrópusambandinu sem hafi stuðlað að „velmegun, nýsköpun, samkeppnishæfni og almennri velsæld og gegni lykilhlutverki við að framfylgja ströngum kröfum í félagsmálum, neytendamálum og umhverfismálum“. Allt satt og rétt.

Í skýrslunni kemur fram að „stæðu Íslendingar utan lagasamstarfsins á EES-vettvangi og ætluðu að starfa í krafti heimasmíðaðra reglna yrði mikil hætta á einangrun, stöðnun og afturför í þjóðlífinu öllu. Á það einkum við á sviði efnahags- og atvinnulífs og þeim sviðum þar sem tæknivæðing hefur haft hvað mest áhrif“.

Þetta kallast á við orð Bjarna Benediktssonar eldri árið 1969: „Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því, að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu.“

Innan EES njóta Íslendingar hvorki aðildar að tollabandalagi og myntsamstarfi, né þátttöku í landbúnaðar-, byggða- og sjávarútvegsmálum.

Með fullri Evrópuaðild myndi landið eflast á þessum sviðum og frelsi aukast. Göngum því alla leið, þjóðinni til heilla."

Það er lítt skiljanlegt þegar Viðreisn heldur því fram að  víðsýni sé fólgin í því að gera náið stjórnunar og  tollabandalag við 27 þjóðir af 195 þjóðum sem standa fyrir utan þetta bandalag.

Er þetta í átt að viðskiptafrelsi og fullveldi þjóðar í heimsviðskiptum. Eða er þetta þröngsýni og vanmetakennd? Er þetta blinda á eðli ESB sem á í  öllum þessum vandræðum? Ætlar að stofna her með þátttöku allra aðildarríkjanna?

Er Viðreisn valkostur í stjórnmálum fyrir frjálshuga fólk eða fremur fyrir einangrunarhyggju og "menn afturhalds og úrtölu".


Stjórnarskrármálið

gýs upp hjá vinstra liðinu með nokkuð reglubundnum hætti.

Þegar ég las eftirsjá Guðmundar Steingrímssonar í Fréttablaðinu og horfði á myndina af Þorvaldi Gylfasyni í Salsa dansinum um í tilefni stjórnarskráruppkasts hans þá anda ég feginsamlega yfir því að þjóðin skuli hafa frelsast frá bullinu sem þessir menn sendu frá sér á þessum tíma. Langhund þar sem eitt og annað rak sig á annars horn og gæti síst af öllu verið grunnur að þjóðarsátt.

Engum meðalsnotrum mönnum gæti dottið í huga að það eigi að semja stjórnarskrá með þeim hætti að smala saman allskyns liði af götunni og fara að semja ritgerð í gagnfræðaskólastíl. Halda það að slík moðsuða  geti orðið grundvöllur þess að leysa af hólmi hina  þróuðu stjórnarskrá frá 1944 sem þjóðin samþykkti nær samhljóða. 

Ég er þakklátur fyrir að hafa sloppið frá þeim vinstri  bullukollum sem skiluðu þessu úrelta plaggi af sér fyrir sjö árum. Vonandi fer skrifum þessa skúffaða fólks yfir afdrifunum að linna, svo leiðigjarnar endurteknar staðreyndafalsanir þeirra um þjóðaratkvæðagreiðsluna eru.

Könnun meðal þjóðarinnar sýnir glöggt að fólk er ekki andvaka yfir stjórnarskrármálinu eins og þetta andsetta vinstra fólk sem Þorvaldur og Guðmundur eru bestu dæmin um.

Því sem áfátt kanna að vera í okkar stjórnarskrá mætti sjálfsagt breyta í  víðtæku samstarfi meðal þjóðarinnar en ekki bara eftir pípum Samfylkingarinnar og VG. En stjórnarskrá er eitthvað sem virðist ekki vera í forgangi í hugum fólks og því verður sjálfsagt langt í að eitthvað verði gert. Sem betur fer líklega.

Alla vega gæti ég trúað að takmörkuð eftirspurn sé  eftir leiðsögn vinstri spekinga á borð við þá Þorvald og Guðmund  í þessu stjórnarskrármáli þegar óleyst framfaramál bíða hvert sem augað eygir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 3417956

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband