Leita í fréttum mbl.is

Hefur Elizabeth Warren plan?

gegn þessu?

" Nýjust tölur af bandarískum vinnumarkaði benda til að í aprílmánuði hafi verið 7.449 milljón lausar stöður hjá fyrirtækjum vestanhafs, þegar leiðrétt hefur verið fyrir ástíðabundnar sveiflur.

Framboð af lausum störfum stóð n.v. í stað á milli mánaða en fjöldi fólks í atvinnuleit dróst saman og fór úr rúmum 6,2 milljónum í mars niður í röskar 5,8 milljónir í apríl, að því er atvinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá á mánudag.

Voru því samtals um 1,625 milljónir fleiri starfa í boði en fólk í atvinnuleit og segir Reuters að munurinn á framboði og eftirspurn vinnuafls hafi ekki verið meiri síðan mælingar hófust.

Starfsmannavelta í apríl mældist 2,3% og hefur haldist nær óbreytt í ellefu mánuði. Þykir þetta nokkuð hátt hlutfall, í sögulegu tilliti, en þó í samræmi við þá hegðun sem vænta má þegar aðstæður á vinnumarkaði eru launþegum í hag. "

Styrmir Gunnarsson er nýbúinn að mæra elízabetu þessa sem hafi svör við öllu.

Nú skrifar Styrmir svo:

"Það eru svartar spár um framvindu efnahagsmála á heimsbyggðinni í fréttamiðlum beggja vegna Atlantshafs um þessar mundir. Kannski eru hinir sérfróðu ákveðnir í að láta ekki standa sig að því aftur að hafa mislesið allar vísbendingar um fjármálakreppuna haustið 2008 en óneitanlega færa þeir sterk rök fyrir sínu máli.

Skuldsetning þriðja heims ríkja, minnkandi framleiðsla í Kína, alvarleg efnahagsvandamál Ítalíu, vandi evrusvæðisins, peningaprentun, viðskiptastríð og svo mætti lengi telja.

Eitt einkennir flestar efnahagskreppur 20. aldarinnar á Íslandi. Þær hafa orðið til vegna áhrifa frá umheiminum, minnkandi eftirspurn eftir fiski, lækkandi fiskverð, og eitt af því sem stuðlaði að bankahruninu 2008 var auðveldur aðgangur að gífurlegu lánsfé á lágum vöxtum. Auðvitað komu svo innlendir þættir til sögunnar líka.

En að sjálfsögðu átti aflabrestur hlut að máli eins og ítrekað hvarf síldarinnar

Um þessa svartsýni úti í heimi er lítið talað hér í tengslum við spádóma um þróun næstu ára. Og hagsmunaaðilar "tala" frekar "niður" spádóma um neikvæða framvindu framundan.

Þetta er varasamt.

Við eigum að hafa lært af reynslunni. "

Sem sagt er útlitð svart hjá Styrmi Gunnarssyni í efnahagsmálum heimnsins.

Tölurnar frá Trump segja hinsvegar nokkuð aðra sögu. Þar er uppgangurinn vandamál.

 

Elízabeth Warren, Ari Trausti,  Dagur B. Eggertsson og Kratar um allan heim hafa sígilt plan gegn þessu:

Skattleggja og eyða.

Það er óbrigðult efnahagsráð hins alþjóðlega krateríis?

Eða hvaða svör telur Styrmir Gunnarsson demokratann Elizabeth Warren hafa gegn  uppgangi undir stjórn Repúblikana?


Ömurlegt yfirklór

utanríkisráðherra er í Fréttablaði dagsins.

Þar segir hann:

"Brátt verða fjögur ár liðin frá því að stjórnvöld í Rússlandi settu innflutningsbann á íslenska matvöru út af þátttöku í afmörkuðum þvingunaraðgerðum vegna Úkraínudeilunnar og brota á alþjóðalögum sem skipta okkur miklu.

Bannið hafði í för með sér mikinn samdrátt á útflutningi til Rússlands enda mun umfangsmeira en aðgerðirnar sem Ísland tekur þátt í.

Stundum er sagt að þegar einar dyr lokist opnist aðrar. Þannig hafa ný markaðstækifæri opnast í Rússlandi, ekki síst vegna sívaxandi fjárfestinga Rússa í landbúnaði og sjávarútvegi – meðal annars vegna þess að lokað var fyrir innflutning á vestrænum matvælum!

Það er ánægjulegt að tækifærin eru á sviði nýsköpunar og hátækni, atvinnuvega sem íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að byggja upp til framtíðar.

Íslensk þekkingarfyrirtæki sem framleiða búnað fyrir matvælavinnslu og fiskveiðar hasla sér nú völl í Rússlandi. Nú þegar hafa nokkur gert eða eru við það að ganga frá milljarðasamningum um sölu á tækni og búnaði til nýrra skipa eða vinnslu í landi.

Tækifæri eru líka á sviði landbúnaðar. Þótt íslensk mjólk komi reyndar hvergi nærri hófu íslenskir aðilar nýverið í gegnum samstarfssamning við rússnesk mjólkurbú skyrframleiðslu eftir íslenskri uppskrift.

Til marks um gagnkvæman áhuga á viðskiptum þjóðanna má svo nefna að nýverið fóru annars vegar fram stofnfundur Rússnesks-íslensks viðskiptaráðs og hins vegar fundur Íslandsstofu með rússneskum og íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Rússneskt flugfélag býður nú upp á beint flug á milli landanna yfir sumarmánuðina. Síðast en ekki síst skiptir miklu að þótt íslensk og rússnesk stjórnvöld greini á um ýmislegt fara samskiptin batnandi.

Forsetar landanna hittust fyrr á árinu og í maí, þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu, átti ég fund með utanríkisráðherra Rússlands, þar sem gott samstarf á vettvangi norðurslóða var undirstrikað.

Í dag – á þjóðhátíðardegi Rússlands – er því gott að muna að þrátt fyrir allt eiga Rússland og Ísland langa sögu góðra samskipta á mörgum sviðum, ekki síst milliríkjaviðskipta. Að þessu sambandi vil ég áfram hlúa."(leturbreytingar bloggara)

Ef Guðlaugur Þór vildi hlúa að milliríkjaviðskiptum við Rússland  myndi hann hætta taglhnýtingsbanni ESB á viðskipti við Rússland.

Þýzkaland Merkels er dæmi um algera fyrirlitningu á tilskipuninni um refsiaðgerðir vegna löglegrar yfirtöku Rússlands á ´Krímsskaga sem er Rússneskt land að einu og öllu.

"vegna Úkraínudeilunnar og brota á alþjóðalögum sem skipta okkur miklu. " segir ráðherrann. Skiptir Íslendinga nákvæmlega engu að mínu mati enda innanríkismál Rússlands.

Því versla Þjóðverjar og Rússar núna saman sem aldrei fyrr meðan Íslendingar skaða sjálfa sig um milljarða vegna atbeina íslenska utanríkisráðherrans. 

Viðskiptaþvinganir Íslands á Rússland eru til vansa og eiga að hætta strax.

 


Tíföld óánægja

er með Strætó en með almenningssamgöngur í London að því að Kolbrún Baldursdóttir Borgarfulltrúi upplýsir. Enda London mun þróaðri á því sviði en bílaborgin Reykjavík.

Umferðin hefur aukist um 5 % á höfuðborgarsvæðinu í síðasta mánuði. Ekkert af því með Strætó hvað sem þeir sögðu annað.

Hjálmar og Dagur berja hausnum við steininn og krefjast tuga milljarða í framkvæmdir við Borgarlínu og þrengja bílagötur þar sem þeir geta. Allt í stað þess að byggja mislæg gatnamót eins og í Orlando og annarsstaðar þar sem fólk með fullu viti ræður för í skipulagsmálum.  Seltjarnarnes hefur sagt sig frá Borgarlínu en ekki önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu enn sem komið er. 

Ömurlegt hlutskipti fyrir litlu ljótu flokkanna sem halda Degi og Hjálmari við völd að láta kaupa sig til fylgis við þessa stefnu. Þeir hyggja greinilega ekki á endurkjör.

Hvernig gætu þeir félagar búið í Breiðholti eða 102 með 5 manna nútíma fjölskyldu í íþróttum og heilsurækt, með 3 börn frá 8-14 ára með bæði hjón útivinnandi án þess að eiga 2 bíla? Hvernig ætla þeir að skipuleggja daginn? Á hvaða öld lifa þessir menn?

Hversu mikið geta þessir ómenntuðu skipulagskumpánar eyðilagt fyrir Borgarbúum áður en þeim verður komið frá völdum er ekki fyrirséð.

En skaðinn er mikill, skeður og ókominn, og tíföld óánægja með almenningssamgöngur miðað við aðra borg segir sina sögu þegar menn eins og þeir krefjast þess að vatnið renni upp í móti?


Skammtímalausnir

virðast vera á borðinu í sorpmálum höfuðborgarsvæðisins ef marka má grein Bryndísar Haraldsdóttu í Morgunblaðinu: Hún segir:

"Á næsta ári stóð til að hætta urðun í Álfsnesi, þar sem allt sorp frá höfuðborgarsvæðinu hefur verið urðað síðastliðin tæplega 30 ár.

Ekki hefur fundist nýr urðunarstaður og málið er í algjörum hnút.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér samkomulag að urðun skyldi hætt árið 2020 en engin önnur staðsetning hefur fundist, það vill nefnilega engin ruslahauginn í sinn bakgarð. Staðsetningin á Álfsnesi hefur um langt skeið truflað Mosfellinga vegna sjón- og lyktarmengunar frá svæðinu, en frá 1991 hefur allt sorp frá höfuðborgarsvæðinu verið flutt til Álfsness og liggja þar nú um 2,8 milljón tonn af sorpi í jörðu.

Þrátt fyrir áhyggjur af sorpmálum framtíðarinnar eru jákvæð teikn á lofti. Loksins hillir undir langþráða gas og jarðgerðarstöð á Álfsnesi, sem mun draga verulega úr urðun enda mun allur lífrænn úrgangur fara í gegnum stöðina.

Afurðir stöðvarinnar eru metangas, sem leysir annað og óumhverfisvænna eldsneyti af hólmi, og jarðvegsbætir sem nýta má við landgræðslu.

Gas- og jarðgerðarstöðin er stórt skref í rétta átt, en við þurfum áfram að urða það sorp sem ekki fer í jarðgerðarstöðina, í endurvinnslu eða brennslu.

Bregðast þarf við því ófremdarástandi sem ríkir í úrgangsmálum þjóðarinnar, enda er hér um að ræða í senn mikilvæga þjónustu við landsmenn, umhverfismál og loftlagsmál. Hingað til hafa sorpmál verið á forræði sveitarfélaga, en nú er lag að horfa til aðkomu ríkisvaldsins að málaflokknum.

Við þurfum að skoða til hlítar hvort fýsilegt sé að ríkisvaldið taki málaflokkinn yfir, þar sem horft er til nýsköpunar og einkaframtaksins til að tryggja að lausnirnar séu umhverfisvænar. Heildstæða nálgun þarf þar sem gas- og jarðgerðarstöðin í Álfsnesi getur þjónað stærra svæði en höfuðborgarsvæðinu.

Finna þarf urðunarstað hið fyrsta fyrir það sem þó þarf að fara í urðun eins og nauðsynlegt er að tryggja aðgengi að brennslustöð.

Dýrar lausnir á borð við fullkomna brennslustöð og gas og jarðgerðastöð verða aldrei margar á Íslandi og því nauðsynlegt að horfa til lausna fyrir landið allt."

Það er algerlega fáránlegt að leita að nýjum urðunarstöðum fyrir sorp. Það er líka fáránlegt að vera að gæla við svona skammtímalausnir eins og moltu-og gasgerð við urðun.

Eina lausnin er að vinna orkuna úr sorpinu eins og Danir gera og leysa málið. Ekkert er of dýrt þegar þetta mál er á dagskrá því að við verðum að leysa það.

Tæknin er fyrir hendi og við eigum að drífa okkur í þetta ekki seinna en strax.

Skammtímalausnir eiga hér ekki við.


Bullur brýna busana

og hóta að gera skrúfu til að kúga fé út úr samfélaginu.

Flugumferðarstjórar eru algerlega menntaðir af samfélaginu og fá laun í náminu. Þeir hlaupa svo saman í stéttarfélag og taka samfélagið í gíslingu.

Þetta fólk á engan rétt á því að mynda stéttarfélag með verkfallsrétti. Árás slíkra aðila á þjóðfélagið á ekki að líða.

Löggjafinn  á að taka á þessari endurteknu bulluhegðun Félags Flugumferðarstjóra og banna stéttarfélagsstarfsemi þess.


Kratískur háttur Styrmis Gunnarssonar

er til sýnis þegar hann skrifar eftirfarandi:

 

"Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum, sem býður sig fram til forsetaframboðs í næstu forsetakosningum þar í landi, er með athyglisverðari stjórnmálamönnum, sem fram hafa komið vestan hafs á síðari árum.

Nú sker hún sig úr frambjóðandahópi demókrata vegna þess að hún leggur fram útfærðar tillögur um úrlausn einstakra samfélagsvandamála. "Ég hef plan", segir hún á fundum og þær málefnahugmyndir, sem hún hefur lagt fram til þessa virðast ná til kjósenda.

Þetta er athyglisvert á tímum, þegar allt annað en málefni virðist ríkjandi í þjóðfélagsumræðum, hvort sem er í Bandaríkjunum eða annars staðar á Vesturlöndum, þar sem almannatengla-pólitíkin virðist ráðandi og er þá átt við að mestu skipti, að "búa til" rétta "ímynd" af frambjóðanda en minna hvað hann hefur að segja.

Það verður í þessu ljósi spennandi að fylgjast með því hvernig Elizabeth Warren reiðir af í kosningabaráttunni vestan hafs. Þessa stundina er hún á uppleið. "

Donald J. Trump hafði plan. Og það sem meira er að hann er að framkvæma ín plön. Og er að takast margt.

Þessi sjötuga kona á enga möguleika gegn Donald J. Trump eins og nú horfir.  Hún hefur gert pópúlíska tilraun til þess að telja sig Indíána-ættar með umdeildum árangri og Trump uppnefndi hana Pocha-Hontas fyrir vikið og bauð að borga eina milljón til góðgerðamála ef hún gæti sannað sitt mál með upprunann. 

Hún er fyrrum lagaprófessor en hefur ekki doktorerað sem er svolítið furðulegt með langan akademiskan feril að baki. 

Kjósendur vita hvað þeir hafa í Trump og eru ekki á þeim buxum að gera einhverjar tilraunir að kratískum hætti Styrmis Gunnarssonar. 


Khalifa Haftar

sækir að stjórn Sameinuðu Þjóðanna í Tripoli og nýtur til þess stuðnings Saudi Arabíu konungsins, Egypta, Frakka og líklega Trump á bak við tjöldin. 

Þessi bandaríski ríkisborgari hefur útnefnt sjálfan sig Marskálk yfir Líbýuher, hefur áratuga reynslu í hernaði og manndrápum. Hann er fyrrum liðsmaður Gaddafi sem hann svo lét drepa 2011 með aðstoð Hillary Clinton.Hann er með heilan her á bak við sig þannig að hann er til alls vís.

Hann er líklega á leið til valda í olíuríkasta ríki Afríku sem getur komið með 3 milljónir fata inn á markaðinn ef ógnarfriður næst  og stjórna honum  ef honum tekst að ná stjórn á landinu og ná því úr klóm Sameinuðu Þjóðanna sem ekki hafa getað leyst þar nokkurn skapaðan hlut en gert  heldur ill verra.

Þetta  með útilokun olíu frá Íran er líklegt til að breyta miklu fyrir Evrópu hvað olíuverð snertir og er líklegt að Brent-olían muni hækka í 74$ eða um eins 15 %.

Þessi Khalífi Haftar er  líklegur til að hafa veruleg áhrif á okkar lífskjör hér í Evrópu, því enn er allt kolefnisbullið og kjaftæðið um orkuskiptin meiningarlaust hér á Íslandi nema í höfði íslenska umhverfisráðaherrans sem enginn kaus en sem trúir á mátt Asberger-heilkennisins og Grétu Thurmann til leiðsagnar í lífi sínu og þekkingarleit í umhverfismálum. Við eigu allt okkar undir olíuverðinu hvort sem okkur líkar betur eða verr og Khalifa Haftar er gerandi á sviðinu.

 


Í fílabeinsturninum

er sagt að þeir sitji sem allt vita betur en aðrir.

Ef maður væri almennur flokksmaður í stjórnmálaflokki sem fengi svona gusu yfir sig frá grunnmúruðum grasrótarflokksmanni myndu ekki læðast að manni smá-áhyggjur?

Þegar Gunnar Rögnvaldsson skrifar svo frá Borgarfirði:

 

"Eftir stendur að engin rök nema "bara" standa með ríkisstjórninni í orkupakkamálinu. Bara hefur þó líka náð að breytast í fyrirvara sem eru varabarafarsi. Og umræður í eldhúsi urðu að umræðum í slökkvihúsi, þar sem enginn þorði að taka til máls, enda um ekkert að tala af hálfu ráðherraliðsins, nema bara.

Vesalingaveldið í Valhöll þumbast við á meðan allir vita að þar fer bara til vara.

Eftir stendur aðför ríkisstjórnarflokkanna að íslensku þjóðinni, eigum hennar og réttindum, sem ríkisstjórn þeirra reynir að gera að utanþingsmáli, með því að umbylta orkusúrefni þjóðarinnar í vörupakka handa óligörkum til að braska með, á hinum svo kallaða "innri-markaði" Evrópusambandsins, sem eftir 25 ára aðild Íslands að -gegnum EES- leggur enn tolla á íslenskar sjávarafurðir. Þar með liggja jafnvel sjálfar forsendur EES-samningsins í rúst.

Hve lengi menn halda að þeir geti setið á háum launum og skvett "bara" framan í íslensku þjóðina, fer eftir birgðum heimskunnar á baravaralager Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Bara-flokkanna þriggja sem allir sem einn voru á móti sjálfum sér eins og þeir eru orðnir núna; sem ókjörnir embættismenn ESB á Íslandi.

Miðflokkurinn einn stendur í lappirnar - og stendur fast."

Hefði maður ekki áhyggjur af neinu á neðri hæðunum í fílabeinsturninum?

 


Er fjölgun hælisleitenda?

og flóttamanna það eina sem alger samhljómur er um á Alþingi Íslendinga?

Algerlega óháð þeirri þróun sem átti sér stað í kosningunum Danmörku þar sem allir flokkar vildu harðari stefnu í innflytjendamálum, þá fjölgum við þessu fólki sem mest við megum.

Harðsnúinn lögfræðingaher, eins og Samfylkingarþingkonan Helga Vala Helgadóttir er dæmi um, lifir af því að treina hérvistir allra sem hingað koma sem mest hann má.

Stórfréttir eru á mörgum síðum  með myndum af Palestínuflóttamönnum sem lýsa því dansandi og hástöfum hversu gott sé að vera komnir hingað og hversu allt sé hér dásamlegt og fríkeypis. Dettur engum blaðamönnum í hug að þetta kunni að berast til annarra landa og bæta við aðstreymið?

Er sú pólitíska stefna að fjölga sem allra mest flóttamönnum og hælisleitendum sem hingað stefna það mál sem hvað mestur samhljómur er um á Alþingi Íslendinga án þess að kosið hafi verið um það sérstaklega á Landsfundum flokkanna?

 

 


Er eitthvað í gangi?

í stjórnmálum landsins?

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins er ekki uppfullt af hrósi á forystu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn virðist ætla að keyra í gegn óvinsæl mál gersamlega án tillits til almennra flokksmanna.

Framsóknarflokkurinn sýnir þess merki að hann er ekki að fylgja þeirri harðlínustefnu hvað sem tautar og raular heldur viðrar aðrar skoðanir.Sigurður Ingi formaður gefur tvíbentar yfirlýsingar um hvað flokkurinn muni gera í ýmsum málum. 

"Það sem hefur verið kallað eftir af þjóðinni er að íslenskir stjórnmálamenn standi vörð um íslenskar orkuauðlindir og það fyrirkomulag sem hefur ríkt hér sem felst einna helst í því að orkufyrirtækin eru að langstærstum hluta í samfélagslegri eigu.

Það hefur einnig verið mjög skýrt ákall um að erlendir aðilar geti ekki gert stórinnkaup á íslensku landi. Þar er sýn okkar skýr.

Það er ekki í boði að stóreignamenn og braskarar geti vaðið um héruð og keypt upp jarðir og réttindi þeim tengd. Hvorki innlendir né erlendir, hvort sem þeir eru innan EES-svæðis eða utan. Að því er unnið hörðum höndum að styrkja lagaumhverfi í kringum jarðir,“ sagði hann.

Sigurður Ingi sagði áhyggjur vegna þriðja orkupakkans snúa frekar að íslenskri pólitík og EES-samningurinn og ESB komi þar hvergi nærri. Þá sagði hann Framsóknarflokkinn hafa unnið hörðum höndum að því að tryggja hagsmuni Íslands, m.a. með því að sækja yfirlýsingar frá ESB og sameiginlegu EES-nefndinni.

Eru allir skýrir á hvaða samstaða ríkir innan rískisstjórnarinnar í orkupakkamálinu?

V.G. virðist vera traustur samstarfsaðili  Sjálfstæðisflokksins í öllum málum ef ekki reiðubúið að ganga enn lengra í óvinsældum eins og í Þungunarrofsmálum og Evróputilskipanadýrkun.

Enda sagði Katrín Jakobsdóttir í 90 ára afmælisfagnaðnum að Bjarni Bendiktsson væri traustasti samstarfsmaður sem hún hefði nokkru sinni átt. Og skilji nú hver með sínu nefi.

 

En Reykjavíkurbréfið Morgunblaðsins í dag hljóðar svo:

"Það gerðist ekki mikið á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins og reyndar var engu líkara en að afmælið brysti óvænt á og það þrátt fyrir óvænta heiðursgesti, formann VG, formann Framsóknarflokksins, þá sömu sem vildu draga fyrrverandi formann flokksins, Geir H. Haarde, fyrir Landsdóm í þeim yfirlýsta tilgangi að koma honum á bak við lás og slá.

Af hverju fámenni?

Fyrsti heiðursgestur flokksins var nýbúinn að lýsa því yfir að hún vildi að sett yrðu lög sem heimiluðu konum að ákveða að farga ófæddu barni sínu allt þar til komið væri að fæðingu þess eftir 9 mánaða meðgöngu. Það er enginn vafi á því að væru almennir sjálfstæðismenn spurðir um þessa draumsýn formanns VG þætti yfirgnæfandi meirihluta þeirra þetta fjarstæðukennd afstaða ef ekki beinlínis óhugguleg.

Þá mun varaformaður Samfylkingar einnig hafa verið í hópi útvalinna heiðursgesta. Samfylkingarforystan kallar barn sem kona gengur með „frumuklasa“ allt að fæðingu eins og fram hefur komið. Varla er hægt að kenna vali á heiðursgestum í þessu afmæli um það hversu illa samkundan var sótt, þótt vorsólin blíða léti sitt ekki eftir liggja og einhverjir hoppukastalar til taks.

En af hverju þurfti að læðast með veggjum með þetta afmæli? Það er vissulega megn óánægja í flokknum og þá ekki síst meðal kjósenda hans og hugsanlegra kjósenda með óskiljanlega framgöngu flokksins í orkupakkamálinu, þar sem hiklaust er byggt á blekkingum, sem raunar eru fjarri því að vera lofsverðar. Það hefur birst í fjölda aðsendra greina í blaðinu, sem eru hófstilltar og málefnalegar:

Grein Jóns

Grein Jóns Hjaltasonar var óvænt, hárbeitt og hitti beint í mark. Jón talar í grein sinni beint til forystu Sjálfstæðisflokksins er hann segir: „Nú um stundir sýnist mér sem flokksforystunni þyki helst við hæfi að hnýta í þann formann sem verið hefur þjóðinni og flokknum drýgstur og bestur. Mér stendur stuggur af ykkur því ég hefi þungar áhyggjur af flokknum. Ég hef rætt við hundruð félagsmanna sem hugnast ekki ferðalag ykkar og hyggjast ekki slást í þá för. Ég stikla aðeins á stóru er ég nefni nokkur atriði sem eru núverandi forystu til vansa, svo vægt sé til orða tekið. Þið hafið nánast ekkert gert til að tálga niður þá ofurskatta sem Steingrímur lagði á þjóðina því „það varð hér hrun“. Þið hafið ekkert gert til að afnema hinn þrepaskipta tekjuskatt þeirra Steingríms og Jóhönnu þótt við hefðum áður verið með skattkerfi sem aðrar þjóðir öfunduðu okkur af. Þið dragið óendanlega lappirnar með að lækka tryggingagjaldið. Þið réðuð Má Guðmundsson sem seðlabankastjóra, ekki einu sinni heldur tvisvar. Þið svikust undan merkjum með því að samþykkja Icesave. Þið hafið þrátt fyrir langa stjórnarsetu heykst á að afturkalla ESB-umsóknina. Þið hyggist gegn vilja flokksins og meirihluta þjóðarinnar troða inn á okkur orkupökkum framtíðarinnar. Þið takið fullan þátt í stimpilpúðaafgreiðslu alþingis á öllu sem frá ESB kemur. Ekki er annað að sjá en ætlun ykkar sé að troða okkur þar inn bakdyramegin, þvert á vilja flokks og þjóðar. Þið gerið ekkert til að slá á þá gerræðislegu hugmynd að færa Reykjavíkurflugvöll. Þið gerið heldur ekkert til að hamla brautargengi hinnar fáránlegu Borgarlínu. Þið gerið ekkert til að koma böndum á borgina sem á örfáum árum hækkar fasteignagjöld um tæp 50% auk þess að vera með útsvarið uppi í rjáfri Þið styðjið nánast takmarkalausar fóstureyðingar og kallið það „að móta framtíðina“. Þið gerið ekkert til að koma böndum á fjársóun og fáránleika í heilbrigðisráðuneytinu. Þið gerið ekkert til að koma a.m.k. einhverju skikki á opingáttarflæði hælisleitenda. Þið köstuðuð fyrir róða eina ráðherranum sem sýnt hefur staðfestu, þor og dug. Þið hafið tekið ríkan þátt í að þenja út ríkisbáknið og hítina þá, þrátt fyrir allt önnur fyrirheit. Enginn flokkur annar hefur verið lengur og oftar við völd undanfarna áratugi. Það hefur ekki verið skortur á tækifærum til að efna eitthvað af loforðunum um að minnka fitulagið á bákninu. Þið takið fullan þátt í að reka kaupfélag í Leifsstöð þrátt fyrir gömlu góðu heitin um einkarekstur og einstaklingsframtak. Þið berið mesta ábyrgð allra flokka á RÚV en hafið hvorki kjark né döngun til að kveða niður þá ósvinnu sem þar ríður húsum. Þið eruð um þessar mundir með áætlun um að afnema millifæranleg skattþrep milli hjóna þótt fjölskyldan og velferð hennar hafi frá upphafi verið eitt grunnstefja flokksins. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri farsælla að þið færuð frá flokknum en að flokkurinn fari frá ykkur.“

Símtalið

Það hringdi pýðilegur áskrifandi, en það má segja um þá alla, daginn sem grein Jóns birtist. Hún bað um samtal við þann sem þetta ritar. „Hvað finnst þér um grein Jóns í morgun?“ „Meira máli skiptir hvað þér þykir,“ sagði ritstjórinn. „Mér finnst hún hrikaleg.“ „Og hvað þykir þér hrikalegast við hana?“ „Hún er svo sönn. Hrikalega sönn. Og það sem enn lakara var að ég sem fylgist ekkert mjög vel með gat í sjónhendingu bætt fjölda atriða við þennan lista.“

Miðað við samræmdar árásir sem leyna sér ekki og spunameistarar halda utan um og Jón nefnir í upphafi sinnar greinar er rétt að taka fram að ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekkert heyrt um stefnu eða rökstuðning þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Morgunblaðið er borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.

Allt lá fyrir

Hvað orkupakkamálið varðar gat enginn ætlað annað. Landsfundur flokksins hafði lagt línuna: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

 

Nú reyna menn með einkar aumu og satt best að segja algjörlega óboðlegu yfirklóri, langt fyrir neðan sína virðingu, að láta eins og almennt hjal, sem verið hefur í almennum yfirlýsingum fundarins og einskis getið við afgreiðslu þess hafi eytt fyrrnefndri ákvörðun með göldrum.

Þessir klaufalegu kollhnísar hófust þó ekki fyrr en á lokametrunum. En sjálfstæðismenn töldu ekki ástæðu til að óttast.

Landsfundarákvörðunin lá fyrir og sjálfur formaður flokksins hafði í áheyrn alþjóðar úr ræðustól Alþingis tekið af öll tvímæli vorið 2018 og aldrei gefið til kynna að hann myndi snúast í sams konar hring og hann gerði í Icesave forðum, svo flokksmenn undruðust og horfðu hryggir á.

Bjarni Benediktsson sagði: „Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? […] Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra? […]

Hérna erum við með kristaltært dæmi um það, raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál.“

Hver hottar á?

Ári síðar öllum að óvörum lagðist hann svo þvert á sín sjónarmið og Sjálfstæðisflokksins án þess að geta um hvað hefði hrakið hann frá afstöðu sem hafði verið óbreytt í heilt ár! Allan þann tíma hafði Morgunblaðið ástæðu til að vera í góðri trú. Ekki einn einasti þingmaður hefur gert sér ferð á ritstjórnarskrifstofur blaðsins þar sem þeim hefði verið tekið opnum örmum og fengið kaffi og kruðerí.

Góður þingmaður flokksins á Vesturlandi fór ásamt ráðherranum, sem einnig er þingmaður þar. Þar fóru fram málefnalegar umræður, en af nokkrum þunga. Enginn fundarmanna tók undir sjónarmið ráðherrans eða þingmannsins! Vonandi hafa þeir gert þingflokknum grein fyrir umræðunum.

Dinglað með dómstólana

En í Bretlandi hafði Boris Johnson fengið stefnu fyrir að hafa ekki sagt satt um tiltekið atriði í þjóðaratkvæðinu fyrir allmörgum árum. Áfrýjunardómstóll henti þeim málatilbúnaði út en sagði þó að jafnan væri reynt að hafa sanngjarnt svigrúm fyrir einstaklinga til að leita atbeina dómstóla.

Eftir þessa niðurstöðu var sagt að lukkan væri Johnson hliðholl. Það var skrítin kenning. Hefði Johnson verið dreginn fyrir dómara fyrir að vera ónákvæmur í pólitískum áróðri fyrir kosningar, eins og allir hinir, þá hlyti sú spurning að vakna: En hvað um embættismennina?

Allir vita hvernig Seðlabankinn hagaði sér í baráttunni um Icesave. Hann snerist jafnan og hatrammlega gegn almenningi. Og síðar kom á daginn að ekki var fótur fyrir hrakspám hans og hótunum.

Og hvað með alla launuðu fræðimennina í háskólunum sem hafa ríkulegri skyldur en frambjóðendur sem eru ekki með próf upp á að geta sagt satt um slík atriði. Tugum ef ekki hundruðum saman tóku þeir þátt í ósvífnum áróðri stjórnvalda. Ekki af því að þeir standa almennt með stjórnvöldum. Þetta var allt saman flokkslegur áróður manna sem var veifað af „hlutleysi og fræðimennsku“.

Hótanir forstjóra Landsvirkjunar um að ekki yrði hægt að virkja án samþykktar Icesave? Í ljós kom að það voru hrein ósannindi. Hvað gerði stjórn fyrirtækisins?

Hvað gerði ráðherrann sem er æðsta stjórnvald þess? Ekkert. Og allir vita hvers vegna.

Kanadíski seðlabankastjórinn í Englandsbanka hefði staðið illa ef stjórnmálamanninum Boris hefði verið þvælt fyrir dómstóla. Nú eru liðin mörg ár síðan hann fullyrti af sannfæringarkrafti að Bretar myndu skjálfa fátækir og aumir frá fyrsta degi, samþykktu þeir Brexit. Ekki reyndist glóra í því. Og BBC sem var lítið betra en „RÚV“ hér heima? Það hefur ekki mátt vera að því að biðjast afsökunar. Og „RÚV“ er svo upptekið við að ganga erinda samfylkingarflokkanna, Viðreisnar og fyrirmyndarinnar, að það getur ekki beðist afsökunar fyrr enn suðurheimskautið hefur bráðnað."

Og hver er nú fyrirsjáanleg framtíð ríkisstjórnarinnar ef atkvæðagreiðslan um O3 fer nú fram? 

Mun formaður Sjálfstæðisflokksins  boða til Landsfundar flokksins? 

Eða eru kosningar í vændum þar sem eitthvað er í gangi?


Nýyrði Jóns Ólafssonar

ritstjóra og Alþingismanns er mörg fleiri og fjölbreyttari en maður hafði hugmynd um.

Ingvar Gíslason minntist þessa í ræðu á Alþingi 19.apríl 1970.

"

 Árið 1886, eða fyrir nærfellt 84 árum, sama árið og Sigurður Nordal fæddist norður í Vatnsdal, kom út bók á vegum Hins íslenzka þjóðvinafélags, sem nefndist Um frelsið, eftir John Stuart Mill í þýðingu ungs blaðaritstjóra og alþm., Jóns Ólafssonar.

Þessi bók fjallaði um efni, sem varla hafði verið rætt né ritað um á Íslandi, áður en bókin kom út.

Í bókinni sjálfri segir, með orðum þýðandans, að hún fjalli „um þegnfrelsi eða félagsfrelsi, um eðli og takmörk þess valds, sem mannfélagið hefur rétt til að hafa yfir einstaklingum.“

Bókin er ekki ýkja stór, hún er um 230 bls. í mjög litlu broti. Ókunnugum kynni því að virðast, að það hefði verið tiltölulega létt verk og auðunnið fyrir sæmilega ritfæran mann að snara henni á móðurmál sitt.

Jón Ólafsson var ritfær í bezta lagi og kunni vel ensku, og íslenzku kunni hann flestum betur um sína daga.

En þýðingin á bók Stuarts Mills var ekkert áhlaupaverk. Þýðandinn rak sig óþyrmilega á þá staðreynd, að ekki eru á Íslandi til orð um allt, sem er hugsað á jörðu, svo að farið sé gáleysislega með vísupart eftir frægan höfund og honum öfugt snúið.

Reynsla Jóns Ólafssonar varð því sú, sýnist mér, að hann varð að smíða að meðaltali u. þ. b. eitt nýyrði á hverri síðu, áður en hann fékk lokið bókinni.

Flest þessara orða mun Jón hafa búið til sjálfur, önnur sótti hann í fornt mál og yngdi upp merkingu þeirra, og sum hefur hann án efa lært af samtímamönnum sínum.

En samkv. orðaskrá um nýyrði og óvenjuleg orð aftast í bókinni eru nýyrði hátt á þriðja hundrað. Það er fróðlegt að lesa þessa nýyrðaskrá eftir 84 ár.

Að sönnu hafa mörg nýyrðanna ekki fest rætur í málinu, og sum hljóma ankannalega í eyrum okkar nú á tímum, en það hlýtur þó að vekja meiri athygli, hversu mikill fjöldi nýgervinga Jóns Ólafssonar hefur lifað, svo að orðin eru nú á hvers manns vörum.

Til gamans skal ég lofa ykkur að heyra á milli 30–40 orð, valin af handahófi, sem er að finna í nýyrðaskránni aftan við þýðingu Jóns Ólafssonar á bókinni Um frelsið eftir John Stuart Mill. Öll þessi orð voru óþekkt eða mjög fágæt fyrir 85 árum, en öll eru þau okkur munntöm nú og vekja enga eftirtekt. Ég skal lofa ykkur að heyra þessi orð:

Afbrigðilegur, bandalag, dómgreind,

eldmóður, félagslund, fjölbreytni,

fjölhæfi, fjölhæfni, formælandi,

þ. e. talsmaður,

frumkvæði, frumlegur, frumleiki,

hugðarefni, hugnæmur, íhlutun,

jákvæður, neikvæður, misbeita,

ófremdarástand, ofstækismaður, raunhæfur,

raunvísindi, réttmætur, rétttrúaður,

rétttrúnaður, rökleiðsla, rökræða,

samkeppni, sérlyndi, siðmenning,

skilgreina, smásálarskapur,

sem er þýðing á enska orðasambandinu lowness of mind,

stjórnmálamaður,

umburðarleysi, uppeldisáhrif, valdhafi,

vanmeta, viðfangsefni, víðtækur,

 

þröngsýnn eða narrow-minded.

Þetta voru nýyrði eða fágæt orð fyrir u. þ. b. 85 árum, en nú eru þau lifandi mál í hvers manns munni. Ég tók þetta sem dæmi um áhrif góðra þýðinga á verndun tungunnar og það, hversu þær geta auðgað hana af orðum og hugtökum.

Góðir þýðendur eru landnámsmenn og frumherjar í ríki móðurmálsins. Það væri fróðlegt og gagnlegt að geta vitnað meira til Skírnisgreinar Sigurðar Nordals frá 1919 máli því til stuðnings, sem hér er til umr.

 Ógerningur er að hafa þá ritgerð alla yfir, vegna þess hversu löng hún er og ákaflega ítarleg. Í upphafi ritgerðar sinnar varpar Sigurður Nordal fram þessari spurningu: „Hvað er það í menningu okkar, sem Íslendingi verður minnisstæðast, þegar hann hugsar til hennar handan um haf?“

Höfundur svarar sjálfum sér með þessum orðum: „Íslenzk alþýðumenntun.“ Og hann bætir við: „Íslenzk alþýðumenntun er gömul, og íslenzk alþýða er næm á menntandi áhrif.“

Og ennfremur segir Sigurður Nordal: „Íslenzk alþýðumenntun byggist á sjálfsmenntun.“ Af þessu dregur Sigurður þá ályktun, að nauðsyn beri til að auðvelda íslenzkum almenningi leið að hinum tiltækustu þekkingarmiðlum.

„Hver eru helztu meðöl sjálfsmenntunar og annarrar menntunar?" spyr Sigurður Nordal, og hann svarar sér sjálfur: „Það eru bækurnar.“ Mig langar að mega lesa stuttan kafla orðrétt úr ritgerð Sigurðar Nordals, með leyfi hæstv. forseta:

„Í bókunum finnur maðurinn heim, sem er óendanlega auðugri en það brot af lífinu, sem hann á kost á að kynnast. Í þessum heimi á hann kost á að fá fangið fullt af dýrustu gersemum mannsandans. Vísindamaðurinn gefur honum þekkingu sina, vísindaaðferðir og hugsanir, skáldið drauma sína, lífsspeki og dýrustu tilfinningar. Hann getur ferðazt með landkönnuðinum, setið til borðs með vitringunum, kannað djúp rúms og tíma.

Ekkert er fjarstæðara en að líta á bækur og líf sem andstæður,“ segir Sigurður Nordal. „Bækur eru líf, niðursoðið líf, safinn úr lífinu, reynsla og hugsanir forfeðra okkar og samtímamanna. Hverrar menntunar, sem við leitum, rekumst við alls staðar á bækurnar sem greiðustu leiðina að henni.“

Þannig skrifaði Sigurður Nordal fyrir rúmum 50 árum. Sigurður Nordal lagði í þessari ritgerð höfuðáherzlu á, hversu alþýðumenntun væri á háu stigi á Íslandi og hversu almenningur hér væri fróðleiksfús og næmur á menntandi áhrif.

Hann benti einnig á nauðsyn þess, að stuðlað yrði sem lengst að viðhaldi íslenzkrar alþýðumenntunar og þar með sjálfsmenntunar. Hann segir, að sér væri það ljúf hugsun, ef á Íslendinga framtíðarinnar mætti líta sem fyrirmyndarþjóð í jöfnuði menntunar og manngildis.

Og hver er sá, sem ekki vill taka undir þessi orð Sigurðar Nordals? Það kann að vera, að ýmsum þyki hann leggja mikið upp úr sjálfsmenntuninni. Einkum mætti okkur e. t. v. finnast það, sem þykjumst skilja gildi skólagöngu og skólanáms og viljum efla skólastarfið í landinu.

En okkur er áreiðanlega hollara að fara hér með nokkurri gát í samanburði. Án minnsta efa hefur sjálfsmenntunin jafnmikið gildi nú og hún hafði fyrrum. En hitt ætti mönnum að vera ljósara nú en mörgum var áður fyrr, að einhliða og einhæf menntun og þá ekki síður sjálfsmenntun en önnur getur reynzt tvíeggjað sverð. Hún getur jafnvel snúizt í andhverfu sína, ef menn lifa lengi á mjög einhæfu andlegu fóðri.

Því miður er svo háttað þekkingarmiðlun á Íslandi nú og hefur lengi verið, að hætta er á, að þekkingarsvið Íslendinga verði í þrengra lagi, a. m. k. þrengra en það þyrfti að vera.

Sigurður Nordal impraði raunar á þessu í margívitnaðri grein sinni í Skírni, svo að þetta er ekki nein sérstök speki frá mér eða hv. 1. þm. Vestf. Það, sem Sigurður taldi fyrir meira en 50 árum, að væri ábótavant öðru fremur í bókmennta- og fræðiviðleitni Íslendinga, var skortur þýðinga á erlendum úrvalsbókum. Þetta er jafnsatt nú eins og það var fyrir hálfri öld.

Eins og segir í grg. fyrir þessu frv., þá orkar menningargildi þýðinga hér á landi mjög tvímælis, og á því sviði fer yfirleitt meira fyrir magni en gæðum. Þýðingar eru vanræktur þáttur í bókmenntum Íslendinga. Þær eru tilviljanakenndar, einhæfar og fáskrúðugar og oft beinlínis skaðlegar máli og menningu í stað þess að vera því til styrktar og eflingar. Á þessu sviði er mikill akur óplægður, mikið verk óunnið. Sú er von flm., að framkvæmd þeirrar hugmyndar, sem hér er hreyft, verði til þess að örva útgáfu erlendra öndvegisrita í vönduðum þýðingum, enda ber til þess ærna menningarlega nauðsyn.

Þrátt fyrir almennari málakunnáttu nú en áður, eru ekki líkur til þess, að hún endist öllum til þess að notfæra sér erlend fræðirit um sérgreind og torskilin efni, og kemur þar margt til, m. a. það, að venjulegt tungumálanám í skólum er takmörkum bundið að efni og orðaforða.

Öllum þorra manna er miklu aðgengilegra þrátt fyrir skólalærdóminn að lesa bækur á móðurmáli sínu en erlendum tungum, ekki sízt þegar um er að ræða vandlesnar bækur um framandi og torskilin efni.

Herra forseti. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir ástæðum þessa máls og mun láta máli mínu lokið. Ég teldi mjög mikils vert, að þetta mál gæti náð fram að ganga, þótt nokkuð sé liðið á þingtímann. Málið er ekki umfangsmikið og ekki vandasamt í meðförum. Hins vegar er hér um mikið menningarmál að ræða, sem ég vona, að Alþ. og ríkisstj. gefi gaum, svo sem maklegt er.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn."

Þessi tilvitnuðu orð Ingvars Gíslasonar fyrir hálfri öld síðan eru í fullu gildi enn í dag.

Jóni þessum, langafa mínum,  ofbauð orðbragð Alþingismanna sem kölluðu hvorn annan óhikað fífl og þaðan af verra úr ræðustóli Alþingis. Hann fékk því til leiðar komið að auka virðingu þingsins með því að þingmenn yrðu kurteisari í tali. Og var hann þó ekki talinn neinn engill sjálfur í orðfæri á prenti.

Hann fékk því til leiðar komið að þeir ávörpuðu hvorn annan "hæstvirtur" osfrv. Maður getur rifjað þetta upp þegar sumir ganga um þingsalinn eins og tötrughypjur á sokkaleistunum  með flakandi í hálsinn eða labba um á malbiksjakkanum eins og þeir væru að koma beint úr framkvæmdunum hjá Degi B.

Aðrir þingmenn eru nú margir með slifsi en óttalega er lítil reisn yfir þeim afkáraþingmönnum úr litlu flokkunum og yfirleitt þeim mun minni sem þeir eru lengra til vinstri.

Þingkonurnar  eru margar minna áberandi fyrir afkáraskap en karlarnir en manni finnst nú að virðing Alþingis myndi ekki minnka við að þetta lið nennti að klæða sig sæmilega þó að innihaldið í höfðum þeirra  myndi sjálfsagt ekki breytast mikið við það án þess að hægt sé að útiloka að slík snyrtimennska  hefði áhrif til sjálfsvirðingar. En þeir eru nú sjálfir að kvarta yfir skorti á virðingu í þeirra garð og einhversstaðar mætti byrja.

Erlendis, til dæmis á Bandaríkjaþingi, eru menn yfirleitt vel til fara og Trump er alltaf með slifsi til dæmis og flestir aðrir, Macron og fleiri en Corbyn auðvitað eins og útburður um hálsinn  enda vinstri maður.

En nýyrðasmíði er verk sem aldrei lýkur. Íslenskan hefur ótal möguleika fyrir orðhaga menn. Ég reyndi einu sinni sjálfur að smíða eitt: "Réttholda." Með því vildi ég lýsa mannveru sem væri hvorki of feit eða of horuð. En ekki veit ég um framhald þessa.

Vonandi megi íslenzkan lifa um aldir undir vökulum augum manna eins og Ingvars Gíslasonar, Sigurðar Nordal og Jóns Ólafssonar.

 


Fyrirvarar um tilgangsleysi

virðast yfirgnæfa mat á kostum samþykkta?

Arnar  Þór Jónsson dómari hefur þetta að segja um fyrirvara Alþingis í ketinnflutningi og um orkumarkað Evrópu.

„Með þriðja orkupakk­an­um verður ekki bet­ur séð en að við séum að játa okk­ur und­ir það og festa það í sessi að raf­orka, eins og hver önn­ur vara, flæði óheft á milli landa. Frjálsa flæðið á vör­um er fyr­ir hendi, skil­grein­ing á raf­orku sem vöru er fyr­ir hendi, en með þriðja orkupakk­an­um kem­ur reglu­verk sem fjall­ar sér­stak­lega um teng­ing­ar á milli landa.“

Þetta seg­ir Arn­ar Þór Jóns­son, dóm­ari við Héraðsdóm Reykja­vík­ur og fyrr­ver­andi dós­ent við laga­deild Há­skól­ans í Reykja­vík, í sam­tali við mbl.is. Þannig sé inn­gang­ur til­skip­un­ar 2009/​72/​EC, sem er hluti af þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins, skýr hvað þetta varðar sem og mark­mið og skuld­bind­ing­ar ríkja sem und­ir­gang­ist hana.

„Gegn­um­gang­andi í text­an­um er áhersla á að ríki skuld­bindi sig til að ryðja úr vegi hindr­un­um í þessu sam­bandi.  Mark­miðið er sömu­leiðis krist­al­tært, það er að auka sam­keppni á þessu sviði milli landa. Komi til þess að Alþingi maldi á síðari stig­um í mó­inn munu ráðamenn í Brus­sel spyrja sömu spurn­ing­ar og ég spyr nú: Til hvers voru Íslend­ing­ar eig­in­lega að samþykkja þriðja orkupakk­ann ef þeir vilja síðan ekki flytja raf­orku til annarra landa?“ seg­ir Arn­ar Þór enn­frem­ur.

Smáríki var­ist að verða að leik­sopp­um

Mikl­ar breyt­ing­ar hafa átt sér stað á EES-sam­starf­inu á þeim 25 árum sem Ísland hafi verið aðili að því, seg­ir Arn­ar Þór. Lýðræðis­leg vinnu­brögð hafi þannig til að mynda vikið fyr­ir val­boði ofan frá. „Dóm­stól­ar og eft­ir­lits­stofn­an­ir taka ákv­arðan­irn­ar og stýra ferl­inu, en ekki kjós­end­ur og lýðræðis­lega kjör­in lög­gjaf­arþing. Þetta þarf að ræða heiðarlega, sér­stak­lega út frá hags­mun­um smáþjóða í alþjóðlegu sam­starfi. Hér er runn­inn upp nýr veru­leiki sem ég tel að við þurf­um að vera vel vak­andi gagn­vart sé okk­ur á annað borð um­hugað um full­veldi Íslands og efna­hags­legt sjálf­stæði.“

Þannig verði smáríki að var­ast það á tím­um alþjóðavæðing­ar að verða ekki gerð að leik­sopp­um. Það fel­ist í því að gjalda beri var­hug við íhlut­un valda­mik­illa stofn­ana, sjóða og ríkja­banda­laga á ís­lenskt laga­setn­ing­ar­vald. Hvað þriðja orkupakk­ann varðar seg­ir Arn­ar Þór þannig hægðarleik að höfða samn­ings­brota­mál gegn Íslandi og „hnekkja fyr­ir­vör­um stjórn­valda, því fjór­frelsi EES-samn­ings­ins er æðra sér­stök­um fyr­ir­vör­um. Sér­stak­lega þegar litið er til þess hvert meg­in­mark­mið um­ræddr­ar til­skip­un­ar er eins og ég hef áður nefnt.“

Fyr­ir­var­ar vegna hráa kjöts­ins gagns­laus­ir

Þegar hér er komið sögu bend­ir Arn­ar Þór á að Íslend­ing­ar hafi verið með mjög góð rök í mál­flutn­ingi sín­um gegn inn­flutn­ingi á hráu kjöti, meðal ann­ars vegna ein­angraðrar legu lands­ins líkt og í orkupakka­mál­inu, en þau hafi hins veg­ar komið að engu haldi. „Við vor­um með skýra fyr­ir­vara varðandi land­búnað við gerð EES-samn­ings­ins en stönd­um svo frammi fyr­ir inn­flutn­ingi á hráu kjöti er­lend­is frá.“ Vís­ar hann þar til ein­hliða fyr­ir­vara rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna þriðja orkupakk­ans þess efn­is að sá hluti lög­gjaf­ar­inn­ar sem fjall­ar um raf­teng­ing­ar á milli landa verði inn­leidd­ur en gildis­töku hans frestað.

Tek­ur Arn­ar Þór und­ir með þeim Stefáni Má Stef­áns­syni, pró­fess­or við laga­deild Há­skóla Íslands, og Friðrik Árna Friðriks­syni Hirst lands­rétt­ar­lög­manni að lög­fræðilega rétta leiðin í mál­inu með hliðsjón af EES-samn­ingn­um sé að Alþingi hafni því að samþykkja þriðja orkupakk­ann með því að aflétta ekki stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara af lög­gjöf­inni og vísa þar með mál­inu aft­ur til sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar þar sem hægt væri óska eft­ir laga­lega bind­andi und­anþágum. Fyr­ir­vari rík­is­stjórn­ar­inn­ar ætti sér hins veg­ar enga slíka stoð í samn­ingn­um.

Vilji ís­lenska þjóðin samþykkja þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins sé það ákvörðun henn­ar seg­ir Arn­ar Þór enn­frem­ur. En sú ákvörðun eigi að vera tek­in af Íslend­ing­um sjálf­um að und­an­geng­inni vit­rænni umræðu en ekki í Brus­sel eða af EFTA-dóm­stóln­um. „Þess vegna tel ég rétt að málið fái meðgöngu­tíma og að við lát­um tím­ann hjálpa okk­ur við að melta það.“

Ægi­vald er­lendra skriff­inna sama og frjáls­lyndi?

„Það þarf að ná umræðunni upp úr lág­kúru eins og þeirri að þeir sem styðji samþykkt þriðja orkupakk­ans séu frjáls­lynd­ir en hinir for­pokaðir. Þar fyr­ir utan má spyrja hvað sé svona frjáls­lynt við það að vilja játa sig und­ir vald er­lendra skriff­inna og standa gegn sjálfs­ákvörðun­ar­rétti þjóða? Er það að sama skapi frjáls­lynt að vilja lúta hags­mun­um er­lendra stór­fyr­ir­tækja? Geng­ur ekki frjáls­lyndi ein­mitt út á að virða sjálfs­ákvörðun­ar­rétt annarra í lengstu lög?“ spyr Arn­ar Þór.

Hversvegna er maður að skrifa undir samþykki þegar maður tekur fram að maður muni ekki endilega standa við það?

Lofaði ekki Gizur Sturlu Sighvatssyni  því á Apavatni að mæla aldrei öfugt orð til hans ÓDRUKKINN? Var það ekki fyrirvari svipaðs eðlis og nú er mest með látið?

Hverjir eru kostirnir fyrir Ísland að innleiða O3 og þá næstu pakka? Eru fyrirvararnir kostirnir eða samþykktin tilgangslaus?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 3421193

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband