Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Málgagnið mikla !

Ekki á ríkisstjórnin beittari brand en blaðið sem kennir sig við Fréttir.

Á síðum þess þenja sig dag eftir dag hinir digrustu pennar um ágæti þess að ganga í ESB. Ef það er ekki Þorvaldur Gylfason, þá er það Þorsteinn Pálsson. Ef það er ekki Eiríkur Bergmann þá eru það einhverjir leiðarahöfundarnir,eins og til dæmis Jón Sigurðsson, hundadagakóngur Framsóknarflokksins, sem stunda þrætubókarlist um dýrð Íslands, dásemd þjóðarinnar og drjúga kosti þess að vera smáþjóð, allt  til þess að komast að þeirri kolþverstæðu, að þjóðinni sé þessvegna best borgið í ESB. Þegar þetta er barið dag eftir dag geta börnin farið að trúa.

Látum það vera þó að þessi steypa sé hrærð þarna nótt og dag, Samfylkingunni og þýjum hennar í VG til dýrðar. En mér finnst það hinsvegar ekki sniðugt, að skattgreiðendur Íslands, nauðugir viljugir, séu neyddir til að borga fyrir þetta. Standa undir kostnaði við það, að þessu blaði sé troðið innum bréfalúgur landsins, hvort sem maður vill eða ekki. Á sama tíma sem það heyrist að eigendurnir ætli ekki að borga af lánum sem á útgáfunni hvíla.  Að taprekstur á þessum Baugsnepli sé í boði ríkisbankanna, er hinsvegar ekki sú þjóðarnauðsyn að mati margra sem réttlæti það.

Fjölmiðlaveldi Baugs, í boði Forseta vors og Davíðsfælni Jóns Ásgeirs,  á að borga skuldir sínar rétt eins og Björgólfar. Það er ekkert í þjóðarhag sem krefst þess að útgáfunni sé haldið áfram með aurum íslenzku ekkjunnar eða einstæðu móðurinnar. Mér finnast engin rök standa til þess að eyða skógum jarðar með þessum hætti.

Þetta mikla málgagn ESB-ríkistjórnar Rauðgrana og Samfylkingarinnar má missa sig mín vegna. Ég vil ekki borga með áframhaldandi tilvist þess. Farið hefur fé betra.


"Þegar þú ert dauður"

Gamli komminn Jón Baldvin Hannibalsson skrifar eina f langlokum sínum í Baugstíðindi dagsins.Ég reyndi að koma auga á hvaða Jón væri  að fara. Sérstaklega af því, að á velmektarárum sínum þóttist Jón vera frjálslyndur hagfræðingur sem tryði á markaðsbúskap. Þó ég myndi vel eftir kommanum Jóni í MR, þá trúði ég því lengi að hann hefði vitkast með árunum. Hvað hefur síðar gerst veit ég ekki, þar sem ég er löngu hættur að trúa því að Jón eða flokkur hans færi mér neitt nýtilegt. Þvert á móti hef ég fátt nema kárínur hlotið af flokki hans í bráð og lengd.

Hvernig hugsar Jón núna? Tökum dæmi:“ Hin alþjóðlega fjármálakreppa átti uppruna sinn í Bandaríkjunum.Hún er bein afleiðing af þeirri hugmyndafræði sem bjó að baki efnahagsstefnu Bush-stjórnarinnar. Þessi stefna hefur verið kennd við blinda markaðshyggju (e. market fundamentalism). Hún lýsti sér í oftrú á getu markaðarins til að leysa öll vandamál og hins vegar á vantrú á getu lýðræðislega kjörins ríkisvalds til að hafa mótandi áhrif á efnahagsstefnuna. “

Þeir sem hafa einhverja nasajón af Bandaríkjunum  vita sem er þetta er grunntónninn í bandarísku samfélagi. Hefur ekkert með þessa kreppu frekar en þær fyrri að gera.  Bush fann þetta ekki upp. Hún hefur verið við lýði í hundruð ára. En Bandaríkin vita að frelsi fylgir ábyrgð og þeir sem brjóta traustið fá að gjalda þess með hörku.

Hann heldur áfram með málsgreinina:“ Þetta þýddi í verki  hömlulausa einkavæðingaráráttu, afnám reglusetningar og eftirlits með starfsemi fjármálamarkaða, áhættufíkn og ofvöxt fjármálakerfisins og skattaívilnanir til fjármagnseigenda, en allt þetta ýtti undir sívaxandi ójöfnuð og félagslegt óréttlæti með þeim þjóðum, þar sem þessi stefna var ráðandi. “

 

Jón  ætlar að  lýsa Bandaríkjunum þarna en ekki Íslandi en það slær útí fyrir honum og hann fer að yfirfæra þetta á aðrar þjóðir enda er hann löngu komin útfyrir bandarískan veruleika þegar þarna er komið sögu. Hvar er einkavæðingarárátta í Bandaríkjunum sem voru einkavædd fyrir ? Ég held að það sé langt þangað til að Íslendingar taki óreiðumenn sína sömu tökum og Bandaríkin taka sína. Þar er beitt hörku við glæpamenn. Hér félagslegum úrræðum frekar en fangavist.

 

 Svo kemur gamli komminn  fram á sviðið og hefur nú engu gleymt frá því MR : “Auðklíkurnar, sem settu Ísland á hausinn á sex árum, athöfnuðu sig í pólitísku skjóli Sjálfstæðisflokksins. Forysta Sjálfstæðisflokksins var undir sterkum áhrifum amerískrar nýfrjálshyggju og deildi auk þess andúð á Evrópusambandinu með hinum bresku arftökum Thatcher. Eftir á að hyggja virðast þær hafa starfað samkvæmt formúlunni um "að besta leiðin til að ræna banka sé að eiga banka".   

Svaka er þetta sniðugt og fyndið.Hvað veit Jón eiginlega um Sjálfstæðisflokkinn ? Hvenær hefur hann komið þar inn fyrir dyr ? 

Síðan hvenær eru Finnur Ingólfsson, Ólafur  Ólafsson,Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Björgólfur Thor Björgólfsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Pálmi Haraldsson, Gunnlaugur Sigmundsson, Bakkavararbræður, Wernerssynir, Wessmann sfrv.í sérstöku skjóli Sjálfstæðisflokksins ?  Ef Jón hefði setið landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði hann ekki séð þessa menn þar.

Miklu fremur hefur flokkur Jóns þegið sitt lifibrauð af Baugsfjölskyldunni . Þó að Jón sjálfur hafi komist á framfæri íslenzka ríkisins fyrir góðmennsku Sjálfstæðisflokksins og Davíðs Oddsonar sem gerð hann að sendiherra þegar þeir gátu ekki lengur haft hann í Samfylkingunni. Væri þetta einhver málsmetandi maður en ekki  pópúlistinn  Jón Baldvin   sem talaði, hefði ég talið þetta móðgun við þá 1700 fulltrúia sem sátu á síðasta landsfundi flokksins.

 Jón heldur áfram:“Klíkuveldið birtist m.a. í því að sumir af bankastjórunum voru í pólitísku fóstbræðralagi við forstöðumann fjármálaeftirlitsins, þar sem þeir ólust upp í pólitískum ungliðasamtökum Sjálfstæðisflokksins við Háskóla Íslands. Kerfinu er m.ö.o. falið að rannsaka sjálft sig. Það er ekki trúverðugt. Það hefur orðið alger trúnaðarbrestur milli almennings í landinu og stjórnmálaforystunnar."

 Ég man nú varla eftir öðrum bankastjórum á landsfundi en Pétri Sæm og  Höskuldi Ólafssyni, Fáir  útrásarbankastjórar vermdu þar bekkina eftir því sem ég man best.Jónas Jónsson kom sem sannleiksleitandi ungur maður og varð ekki verri af.

Svo kemur rúsínan:“Kerfið virkar ekki. Þjóðfélagssáttmálinn er rofinn.”

Með öðrum orðum: Markaðshagkerfið virkar ekki. Þjóðfélagið er hrunið. Þjóðfélagssáttmálinn er rofinn !

Hvað á að taka við ? Norrænn Sósíalismi, kommúnismi á rauðu ljósi eins og það hét hjá þeim fóstbræðrum ?

Sáttmálinn er rofin þegar glæpamenn ganga lausir og öllum er sama, Þar er ég sammala Jóni Baldvin .

“Sérstakarn ráðstafanir verði gerðar til að tryggja Íslandi eðlilegan aðgang að erlendu fjármagni í uppbyggingarstarfi”

Samfylkingin ætlar að byggja upp norrænt velferðarkerfi á Íslandi. Það á greinilega að gera með aðkomnu fjármagni= lánsfé. Önnur uppbygging er ekki í augsýn í boðuðu stóriðjustoppi ríkisstjórnarflokkanna. Það þarf engin lán í framkvæmdir þegar engar framkvæmdir er á döfinni. Þeir vilja bara slá lán til að eyða. Alveg eins og allar vinstristjórnir á undan þessari.

Þeir krefjast lána og meiri lána í gjaldeyrissjóði Seðlabankans. Þeir segjast ekki ætla að eyða þeim heldur bara að eiga þá í varasjóði.

Ekki trúi ég þeim. Aukin velferð kostar meiri peninga en Ísland á til. Við getum ekki borgað núverandi velferð þó að við hagræðum og spörum sem er sífellt á dagskrá en tekst aldrei.  Kratíska kerfið islenzka er hrunið.  Sérstaklega  algerlega í grunn ef Jón ætlar að borga Icesave til að þjónkast ESB sem hann dýrkar ofar öllu. Þaðan á hans hjálpræði og islenskra bitlingakrata að koma. Við hin eigum bara að borga meira. Sigurður Líndal skrifar í sama blað nýlega og áréttar að lagastoðina vanti fyrir því að okkur beri nokkur skylda til að borga Icesave. Skuldir óreiðumanna, sem við berum ekki ábyrgð á. Hver segir að við verðum bara að borga ? Það eru til aðrar leiðir.Hví skyldi ekki vera  hægt að bjóða ESB bara byrginn ? Fá heldur lánalínu til Kína og Rússlands?  Bara segja við borgum ekki nema það sem okkur hentar og við getum. Og hananú!Eru  þessir vinur okkar í ESB ákveðnir í að vera það ekki nema við fremjum sjálfsmorð fyrir þá fyrst ?

“Það skal ég gera  þegar þú ert dauður” sagði Gizur jarl við Þórð Andrésson þegar hann bað hann fyrirgefningar á banatilræðum sínum við jarlinn og þegar Gisur  úrskurðaði að hann skyldi högginn fyrir. Er hjálp og samhugur bræðraþjóðanna til Íslendinga, nema Færeyinga,  bundin einu litlu skilyrði ? 

 Íslendingur; við fyrirgefum þér af  öllu hjarta:

"Þegar þú ert dauður "

Hringekja Þorvaldar Gylfasonar.

Þorvaldur Gylfason skrifar enn í Baugstíðindin í dag. Skemmtilega og fróðlega grein eins og hans er von og vísa. .

Prófessor Þorvaldur hefur áður lagt mikla áherslu á það að Ísland gangi í ESB.

Í þessari grein rekur hann það í glöggu yfirliti, hversvegna smáþjóðum hafi fjölgað og að þeim vegni yfirleitt alls ekki verr en stærri þjóðum og oftast mun betur.  

"Sumir kenna smæð Íslands um bankahrunið og efast um getu Íslendinga til að standa á eigin fótum sem frjálst og fullvalda ríki. Ég er á öðru máli. Af öllum ríkjum heims, rösklega 200 talsins, eru um 100 minni en Ísland að flatarmáli, og hin 100 eru stærri. Á mælikvarða mannfjöldans er Ísland samt klárlega smáland, en þó ekki dvergríki. Um 40 lönd eru fámennari en Ísland. Það er álitlegur hópur. Helmingur allra ríkja er fámennari en Danmörk með röskar fimm milljónir manna. Heimurinn er nú safn smáríkja, því að smálöndin eru mörg og stórveldin fá. ESB er smáríkjasamband."

Enn segir dr.Þorvaldur:

"Mannfæðin er mesta félagsböl Íslendinga, sagði Einar Benediktsson skáld. Hann og aðrir lögðu til, að Íslendingar flyttu inn erlent vinnuafl í stórum stíl til að stækka landið. Þeir eygðu enga leið til að bjóða Íslendingum viðunandi lífskjör til langs tíma litið nema með því að fjölga þeim nóg til að ná því, sem eðlisfræðingar kalla "krítískan massa". Þennan krítíska fólksmassa töldu þeir liggja langt yfir 100.000, sem var íbúafjöldi landsins 1925. Í Aþenu til forna bjuggu 200.000 manns og vegnaði vel. Feneyjar og Flórens blómstruðu á miðöldum með 115.000 og 70.000 íbúa, en þær voru að vísu í alfaraleið ólíkt Íslandi og gátu bætt sér upp mannfæðina með miklum viðskiptum við önnur svæði."

Þorvaldur spyr enn: 

"Hvers vegna er Evrópa ekki eitt land? Það stafar af því, að fólk er ólíkt og hefur ólíkar hugmyndir, óskir og þarfir. Þess vegna eru lönd heimsins mörg og misstór. Krafan um batnandi lífskjör í skjóli hagkvæms stórrekstrar knýr að sínu leyti á um sameiningu og samruna."...... "Kýpur og Máritíus eru fámenn eyríki, þar sem ólíkir kynþættir búa saman og efnahagurinn hefur blómstrað."

Enn skrifar Prófessorinn: 

"Reynslan sýnir, að smáþjóðum vegnar í efnahagslegu tilliti engu síður en stórþjóðum á heildina litið og stundum betur að því tilskildu, að smálöndin bæti sér upp óhagræði smæðarinnar með miklum viðskiptum við önnur lönd. "

Svo kemur niðurstaðan úr athugun á gengi smáþjóða í heiminum: 

"Íslendingar tóku rétta ákvörðun í sjálfstæðismálinu á sínum tíma. Engin efnahagsáföll munu nokkurn tímann raska þeirri niðurstöðu. Mannfæð þarf ekki að standa í vegi fyrir skilvirku fullveldi, hagvexti og velferð, sé vel á málum haldið, þótt færa megi rök að því, líkt og Einar Benediktsson gerði, að fleira fólk myndi lyfta landinu. "

Þorvaldur Gylfason vill ganga í ESB. Hann telur Ísland hafa gert rétt með því að verða sjálfstætt ríki. Hann telur að smáþjóðum geti vegnað vel með mikilli milliríkjaverslun eins og Ísland hefur.  Ísland sé alveg nógu stórt til að geta staðið á eigin fótum.

Hversvegna er niðurstaða prófessorsins:

"Aðild að ESB stefnir að stækkun Íslands."

Hvort var þá réttara að gerast sjálfstæð þjóð eða flytja inn erlent vinnuafl ? Eða gerðum við ekki hvorutveggja ? Tæknilega geta komið hingað milljón A-Evrópubúar á morgun vegna Schengen samningsins.  Hverju á ég að trúa ?

Eða er prófessorinn bara að skemmta sér  í hringekju ESB ?


Af tæknilegum ástæðum !

Þegar Sovétmenn byrjuðu að setja upp skammdrægar eldflaugar á Kúbu árið 1962 varð John F. Kennedy að taka einhverja stærstu ákvörðun, sem nokkur maður hefur tekið. Að segja við Kruschev:  Hingað og ekki lengra. Bandaríkin eru tilbúin að leggja á sig hvaða harðræði sem er, færa hvaða fórn sem er,  ef þið ekki farið burt með árásarflaugar ykkar frá Kúbu.

 

Ég var staddur í Þýzkalandi þennan dag 22.október 1962,  þegar heimurinn allur stóð á öndinni. Annaðhvort létu Sovétmenn undan eða kjarnorkustríð myndi  hefjast. Fólk var sem lamað. Enginn vissi hvað framundan væri. Heimsendir gat verið í nánd.

 

Hvað þarf til að lýðræðisþjóð sýni slíka  hroðalega einbeitingu?  Hvað er í veði ?

 

Brennuvargarnir eru fluttir inn í húsið og Bidermann telur betra að láta undan svo lengi sem það gengur.  En hversu lengi gengur það ?  Hvenær er nóg komið ?

 

Bandaríkin áttu um það að velja að verða undir Sovétmönnum , verða að hlýða þeirra boðum og bönnum  á heimsvísu undir ógn um tortímingu frá Kúbu, sem þeir myndu ekki geta svarað. Gætu ekki varið þegna sína. Gætu þar með ekki varið þjóðfélagið í landi sínu. Herforingjarnir kröfðust heimildar til skyndiatlögu. Kennedy vildi setja á hafnbann fyrst og reyna nauðasamninga.

 

Bandaríkjamenn ákváðu að semja ekki við brennuvargana um áframhald vistarinnar í húsi Bidermanns.  Það féll í hlut Johns F.Kennedy að færa fram þau skilaboð fram við Sovétmenn. Sjálfsagt hafa verið margir Bandaríkjamenn sem voru ekki á sama máli og ríkisstjórnin þennan dag. En svona varð þetta.

 

Einhverntíman er nóg komið og menn verða að vera reiðubúnir að færa allar fórnir, þola allar hörmungar til þess að geta lifað í sátt við sjálfa sig og framtíð þjóðarinnar. Það er sjálfsagt enginn, sem vill þurfa að taka svo stórar ákvarðanir sem voru teknar  í Kúbudeilunni. En samningar voru gerðir, Kúbuflaugarnar voru fluttar á brott og flaugarnr í Tyrklandi fóru líka svo lítið bar á.

 

Það vill sjálfsagt enginn þurfa að taka ákvarðanir sem skipta sköpum fyrir alla manns framtíð og afkomenda í marga ættliði. En þeir tíma kunna að koma að ekki verður undan litið. Ekki verður lengur litið til stundarhags og þæginda. Menn hafa frá mismiklu að hverfa í veraldlegum gæðum úr þessum heimi. An arfur þjóðar er allra sameign án tillits til efnahags. Honum getur enginn einn maður ráðstafað sér í hag eða hugsjóna sinna. Ekki heldur minnihlutahópar.

 Þessvegna spyr ég mig hvort lýðræðiskerfi Íslands sé með þeim hætti, að það geti tekist á við hlutverk sitt ? Mér er til efs að svo sé. Tæknilega tel ég að kerfið sé í sjálfu sér of sundurþykkt.    

Mín skoðun er orðin sú, að við þurfum við að breyta stjórnkerfi okkar og stjórnarskrá með  bandaríska fyrirmynd í huga. Forseti okkar og þjóðhöfðingi verði æðsti embættismaður landsins, kjörinn af meirihluta landsmanna að franskri fyrirmynd. Hann myndi ríkisstjórnina og fái víðtæk völd sem varða þjóðaröryggi og frelsi þjóðarinnar.

 

Þannig held ég að Íslendingum muni betur farnast en raun ber vitni, þegar litið er yfir sögu lýðveldisins. 

Í öllum aðsteðjandi vanda þurfum við á þeirri staðfestu að halda, sem okkur tekst svo báglega ekki að finna við núverandi aðstæður.

 

Af tæknilegum ástæðum !   


Kjaftur á keilunni !

Ég hef yfirleitt gaman að lesa það sem hún Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar. Meira segja það sem hún skrifaði í Mogggann um  helgina.

Þar tekur hún Sjálfstæðisflokkinn á hné sér. Rassskellir 1600 fulltrúa á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, mig með, fyrir að deila ekki skoðunum hennar og meðkrata, á nauðsyn þess að ganga í Evrópusambandið. Við séum lummó einangrunarsinnar og eigum að breyta því strax ef flokkurinn eigi yfirleitt að lifa. Og aumingja formaðurinn okkar, hann er ekki beysinn og veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Hún Kolbrún getur sagt okkur til, hún hefur formúluna að því sem Sjálfstæðisflokknum er fyrir bestu. Alþjóðahyggju, ESB og væntanlega fleiri innflyjendur. Við vorum ágætir að samþykkja NATÓ á sínum tíma en síðan ekki söguna meir. Við erum bara orðnir einhver tegund af Framsóknarsveitakommum ef ég skil hana rétt. 

Ég upplifði þennan landsfund þannig, að svona 95 % fulltrúanna væru á móti því að sækja um aðild að ESB. Við vildum láta þjóðina greiða atkvæðum um aðildarumsókn. Séra Þórir og Benedikt Jóhannesson eru eiginlega þeir einu  sem höfðu við orð að ganga á dyr vegna þessa. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur líklega verið með þeim í anda  og Þorgerður varaformaður flokksins ekki heldur verið búin að átta sig á því hvað starfinu fylgir. Og auðvitað er Dr.Villi staðfastur með sínum vinnuveitendum. En meðaljónarnir eins og ég og Hrafn Gunnlaugsson, við vöðum víst í villu og svíma. Það er víst vitleysa að trúa á landið og þjóðina frekar en Brüsselskt krataveldi.

Mikið var annars slæmt að Kolbrún skyldi ekki vera á landsfundinum.  Þá hefði þetta litið allt öðru vísi út. Það hlýtur að bráðvanta  fleiri kratakellingar í þennan flokk ef hann á eiga lífsvon og losna úr heimóttarskapnum og komast inní nútímann. Ég vona bara að Kolbrún geti sagt formanninum hvað hann á að gera í Icesave málinu, hann veit það víst ekki sjálfur frekar en annað eftir því sem mér skilst á Kolbrúnu.

Það er víst  kjaftur á keilunni segja þeir!

 


Jákvæðar fréttir frá Íslandi ?

Steingrímur J. fór mikinn í Kastljósinu í kvöld. Sagði ekkert annað að gera með Icesave en að skrifa undir það sem Svavar Gestsson hefði samið um fyrir okkur. Það þýddi ekkert að ströggla meira.

Þegar ég hugsa til loka gamla stríðsins og hvernig Þjóðverjar voru neyddir til að horfa á Frakka reka 300.000 þýzkar kýr yfir til Frakklands frá sveltandi þýzkum ungabörnum, vegna þess að Þjóðverjar  höfðu sverð neyddir til að skrifa undir Versalasamningana, þá fer ég að skilja Steingrím.  Þessi heimska Bandamanna kostaði margan manninn hausinn síðar,  því að Hitler þurfti bara þessa samninga og svik Júðanna og kratanna við Þýzkaland í stríðinu, til að tala sig til þeirra valda sem verða hans fimmtán árum síðar. Ef maður hefur það nógu einfalt þá skilur fólkð það á endanum, það vissi karlinn manna best.

Steingrímur er í þeirri stöðu, að horfa á það, hvað gerist ef hér stoppar allt innflæði gjaldeyris. Einangrun landsins pólitískt verður alger. Evrópubandalagsumsóknin er í hættu. Norrænt samstarf er  í hættu. Stjórnin getur ekki haldið áfram á skattlagningar og eyðslufylleríi sínu til þess að skapa hér norrænt velferðarkerfi, rekið fyrir lánsfé frá AGS auðvitað.

En allt er þetta smámál hjá því sem við blasir ef allt stoppar hér innanlands. Engin bankastarfsemi verður í landinu næstu árin. Atvinnuleysið tvöfaldast ef ekki þrefaldast. Ekkert fé verður til að borga rekstur ríkisins, atvinnuleysistryggingar, kaup lögreglunnar,kennara, lækna. Enginn gjaldeyrir kemur inn til landsins þó að vöruskiptajöfnuður sé í 25 % af brúttó.  Við blasir alger upplausn og niðurbrot samfélagsins sem fáir geta ímyndað sér á þessari stundu hvernig myndi út líta. Því miður hverfur hættan af þessu ekki með undirritun Icesave þó að ríkisstarfsmenn fái frekar launin sín greidd eftir hana.

Icesave eru Versalasamningar Íslands. Það hefur Eva Joly gert heiminum grein fyrir. Við Íslendingar skrifum  undir þá með Hávamál í huga; Fagurt skalt mæla, en flátt hyggja, gjalda lausung við lygi....... Gizur sór Sturlu eiða til höfuðs sér á Apavatni og sagðist aldrei myndu mæla til hans öfugt orð- ódrukkinn.  Getum við nokkuð annað en gengið frá málinu einhvernvegin ? Skrifað undir eins og Þjóðverjar 1918 og Gizur sjö öldum fyrr ? Frekur er hver til fjörsins. Er ekki betra að lifa núna og drepast ekki fyrr en eftir sjö ár ?

Við Íslendingar eignumst ef til vill þá  leiðtoga á næstu árum sem geta  leitt þjóðina útúr því helvíti sem bíður hennar vegna þessara samninga. Leiðtoga sem munu ekki gleyma atburðum dagsins og "vinarþeli" þjóðanna í kring. Ég hugsa að þeir muni ekki halda áfram í Schengen eða ganga í ESB.

Óhugnaðurinn framundan er gríðarlegur, þó svo að við skrifum undir.  Það er barnaskapur af  Steingrími að halda að frá Íslandi berist jákvæðar fréttir á næstunni.  Allt atvinnulíf landsmanna er í rúst.  Ekkert starfhæft bankakerfi er í landinu og er ekki í augsýn, hvað sem Steingrímur heldur. Gjaldeyrishöft verða hér áfram um langt skeið. Skattlagning fer í hæstu hæðir. Þúsundir unga fólksins flýr land og ætlar ekki að taka þátt í endurgreiðslunni vegna Icesave. Austurevrópubúar flæða inn í staðinn því þeirra helvíti er mörgum sinnum verra. Þeir eru þegar farnir að stífla þjónustu og aðgerðir fyrir Íslendinga á Landspítalanum og kosta okkur hundruð milljóna á ári.

Það  getur verið kaldur og dimmur vetur í aðsigi, vetur með pólitískan óróa og   uppþot, götubardaga, hungur og upplausn sem Ísland hefur aldrei upplifað.

Það er langt í jákvæðar fréttir frá Íslandi. 


Helmingaskiptin og Þorvaldur Gylfason.

Þorvaldur Gylfason skrifar óvenjuskemmtilega grein í Fréttablaðið í dag. Þar er margt gaman að lesa. Hinsvegar slær útí fyrir honum að vanda þegar hann byrjar hatursherferðina gegn Sjálfstæðisflokknum og kennir honum um allt illt.  Síðan  rifjar hann upp helmingaskipti hans og Framsóknarflokksins í tíð haftanna. Margt er þar sagt sem ég mótmæli ekki enda stóðu flestir venjulegir menn utan valdablakkanna, fjölskyldnanna fjórtán og kolkrabbans.

Ég man þessa tíma þegar allir bankar voru lokaðir nema fyrir þeim sem höfðu réttu tengslin. SÍS fékk allt í ríkisbönkunum, en fjölmennara íhaldið átti undir högg að sækja og voru líka kallaðir gróðapungar, blóðsugur og landssölumenn á móti félagslegra réttlætisfyrirtækja samvinnumanna Framsóknarflokksins. Þess vegna fóru þeir Íhaldsmenn að stofna aðra banka, Verzlunar-og Iðnaðarbankann.  En það var alltaf vandamálið að vextir dugðu aldrei fyrir verðbólgunni og því brann allt fé upp. Það var ekki fyrr en með verðtryggingunni, að til varð íslenzk króna sem varð besti gjaldmiðil í heimi til að eiga og spara. Lán urðu ekkert meiri lán en áður, heldur ólán eins og þau eru yfirleitt.

Hinsvegar trúir hálf þjóðin því ennþá að það leysist allt með lánum til þessa að eyða strax en borga síðar. Hrunið varð svona slæmt að hér komust til valda menn sem ekki höfðu neina bankahefð að byggja á, t.d. eins og er um bankaættir í Sviss. Okkar hrunabankamenn voru bara í besta falli fífl ef þeir voru bara ekki hreinir krimmar.

En þetta voru aldrei helmingaskipti Þorvaldur. Þú gleymir þriðja aflinu!

Kratar lögðu undir sig stjórnsýsluna, opinber störf. Tryggingastofnun Ríkisins áttu þeir og eiga enn. Sendiráð og embætti voru þeirra. Bitlingakratar voru alþekkt fyrirbæri í þjóðlífinu. Í  valdastöðum létu þeir börn sín ferðast um á diplomatapössum, og ótal dæmi eru um hverskyns hyglun þessa fólks, veizluhöld og ljúft líf á kostnað almennings. Þeir fóru líka i fjármálastarfsemi með vinstri krötum og hálfkommum, byggðu Alþýðuhúsið og Alþýðubrauðgerðina, þá urðu nú fljótlega sumir jafnari en aðrir og stálu úr kössunum. Svo kom Alþýðubankinn, sama sagan þar, sumir urðu svo mikið jafnari en aðrir meðal sannra jafnaðarmanna og allt fór á hausinn.

Nú er lokið valdaferli gömlu helmingaskiptaflokkanna sem Þorvaldur kallar svo. Nú hefst blómatími Kratanna. Stóri vinningurinn er ESB og hin nýja landssala. Allir þeir opinberu bitlingar sem þangað verður að sækja. Forréttindi þeirra til allra opinberra starfa í kringum þetta, verða fljótlega ljós. Nýir ríkisbankar og haftabúskapur kallar líka á nýja gósentíma kratismans.

Gleymdu ekki helmingnum af sögunni Þorvaldur minn! Helmingaskiptin voru ekki til helminga heldur 2/3! 1/3 fenguð þið kommarnir og kratarnir !


Af hverju fóru þeir í fýlu ?

"Erlendu kröfuhafarnir" fóru i fýlu þegar valdir menn í skilanefndunum voru reknir úr þeim. Svo sögðu allir Baugsmiðlarnir okkur að minnsta kosti.

Af hverju fóru þeir í fýlu ? Af hverju voru akkúrat þessir skilanefndarmenn svona góðir að það var bara allt ónýtt þegar þeir voru reknir ?

Getur verið að þeir sem segjast vera erlendir kröfuhafar séu í raun gömlu stjórarnir og lánasukkararnir  sem eru búnir að kaupa upp erlendar kröfur á Kaupþing, sem ég átti með öðrum . fyrir  svona  hálft prósent eða svo af nafnvirði. Þeir ætla þannig að eignast Kaupþing  sjálfir aftur með dyggri aðstoð ríkisstjórnar Steingríms og Jóhönnu. Ég og hinir eiga auðvitað að að éta það sem úti frýs. Enda eigum við hvorki hugmyndaflug né kapital eftir til þess að gíra okkur í svona dæmi.

"Erlendir kröfuhafar", fóru þeir  í opinbera fýlu af því að meðspilararnir í skilanefndunum voru reknir ? Eða þurfti að þrengja hópinn ?

Þetta er svona það sem heyrist  meðal almennings. En það er auðvitað ekkert að marka það sem hún Gróa á Leiti segir frekar en fyrri daginn.

En af hverju fóru þeir í fýlu ?


Lögbann á óþægilegar fréttir !

On Fri, Jul 31, 2009 at 02:54:03PM +0100, ??rarinn ?orgeirsson wrote:
> Dear Sirs

> It has come to our urgent attention that on the following link:
>http://wikileaks.org/wiki/Financial_collapse:_Confidential_exposure_analysis_of_205_companies_each_owing_above_%E2%82%AC45M_to_Icelandic_bank_Kaupthing%2C_26_Sep_2008
> certain information has been submitted on  www.wikileaks.org     
 
> These are highly sensitive confidential information from Kaupthings
> bank hf. loan book regarding the bank?s  clients subject to bank
> secrecy in Iceland.

> Any public disclosure or distribution of these information is
> strictly forbidden and subject to penalty and imprisonment according
> to Icelandic law.
>  > ................................
>>  Respectfully > ??rarinn ?orgeirsson > Senior Director, Attorney at Law > Forst??uma?ur
> Kaupting Bank hf.
> thorarinn.thorgeirsson@kaupthing.com

Á  www.wikileak.com má sjá fréttir sem Kaupþingsmenn  fengu Sýslumanninn í Reykjavík til að leggja lögbann á Ríkisútvarpið svo það fjallaði ekki um þetta mál. Auðvitað þurfti ekki að gera neitt til þess að Baugsmiðlarnir þegðu um málið.

Ofangreint er hótunarbréf Kaupþings til Wikileak.com vegna málsins. En þar koma fram upplýsingar um lánaveitingar til útrásarvíkinganna á síðustu lánafundum í Kaupþingi fyrir hrunið. Margt var vitað um hverjir fengu lánin en þó ekki allt. Núna leyfa þeir sér að gala um bankaleynd,bankaleynd og heimta og fá sett lögann á RUV til þess að almenningur fái ekki vitneskju um myrkraverkin.

Ríkisútvarpið er líklega sá eini miðill sem útrásarvíkingarnir hafa ekki á einn eða annan hátt haft stjórn á. Þetta færir mönnum enn eina sönnun þess hver þörf var á Fjölmiðlalögunum hans Davíðs á sínum tíma. En þá tókst útrásarvíkingunum  og gistivini þeirra og þotufarþega Ólafi Ragnari Grímssyni,  að hindra það að almenningur gæti tryggilega fengið aðrar en valdar fréttir. Ein af röksemdafærslunum þá var að þjóðin ætti RUV saman.

Ég var einn þeirra sem reyndi að fá réttlæti  fullnægt í stjórn BYR nú á dögunum. Á aðalfundi þar í vor  réði úrslitum til stjórnarkjörs ólöglegt umboð frá Luxemburg. Hefði það verið tekið frá hefði A-listinn fengið 3 menn en B-listinn 2 en ekki öfugt eins og valdablökkin í BYR úrskurðaði sér í hag og hindraði þannig að skuggaleg viðskipti fyrri stjórnarmanna og sparisjóðsstjóra við BYR kæmu uppá yfirborðið.  Við leituðum fyrst til Fjármálaeftirlitsins og Lögreglunnar um upptöku málsins. Lögreglan vísaði þessu frá en FME virti okkur ekki viðlits. Við leituðum þá til Sýslumannsins í Reykjavík um lögbann á setu 3.manns B-lista í stjórn BYR en hann hafnaði því. Við blasti að við litlu hluthafarnir hefðum orðið að leggja milljón í tryggingu fyrir gerðinni ef hún hefði fengist en B-listinn krafðist 10 milljarða tryggingar af okkur á móti. Þá sér maður hvað þeir töldu í húfi vera fyrir sig að réttlætið fengi ekki framgang.  Sýslumaður úrskurðaði auðvitað gegn okkur litlu köllunum.

Nú stendur hinsvegar ekki á lögbanni hjá Sýslumanni í Reykjavík þegar alvöru kallar eiga í hlut. Hver skyldi upphæð tryggingarinnar hafa verið  í þessu tilviki ? Skyldi FME nokkuð hafa fjallað um þetta mál ? .

Þessi tíðindi færa okkur litlu köllunum enn heim sannindi þess hvernig kerfið á Íslandi vinnur.Eykur okkur trú og traust á yfirvöldunum og réttvísi þeirra.

" Guð blessi forseta vorn og ríkisstjórn(svo kemur punktur). Ísland lifi ! " 

Lögbann á óþægilegar fréttir er síðasta snjallræðið.

Er ekki athugandi næst að loka landinu svo að aðrir en valdir menn geti ekki farið úr landi ? Það er ófært að þúsundir þræla stingi af. Hverjir eiga þá að borga Icesave ? 

 


The National Bank of Iceland !

Stjórnmálamenn okkar almennt eru meiri fífl en gengur og gerist. Til að mynda þegar þeir seldu Landsbanka Íslands, The National Bank of Iceland  til vina sinna með nafninu sem bendir beinlínis til þjóðarskuldbindingar.. Af hverju seldu þeir bara ekki nafnið Iceland einhverjum öðrum  vinum sínum ?Iceland Inc.;  Subdivision of Baugur Group ?

Þetta hefur komið okkur grimmilega í koll. Frændi minn Ágúst H. Bjarnason; agbjarn.blog.is,(sjá tengil á bloggvini) segir sögu á sinni bloggsíðu sem vert er að staldra við. Þar stendur meðal annars um kynni Ágústar af hollenzkum vinum sínum:

"Í ljós kom að þau höfðu alla tíð staðið í þeirri meiningu að íslenska ríkið stæði að baki Icesave, þetta hefði jú verið sjálfur Landsbankinn = The National Bank of Iceland. Gamalgróinn banki stofnaður árið 1885.    "Safe and secure", eins og stendur í auglýsingunni hér að ofan.

Ég sagði þeim í fáeinum orðum frá því hvernig í pottinn væri búið. Sagði þeim frá einkavæðingu bankanna árið 2003, eigendum bankanna og hvernig þeir hefðu gengið í sjóði bankanna og lánað sér og vildarvinum skefjalaust gegn ónýtum veðum. Sagði þeim frá því hvernig þessir sömu menn hefðu stofnað fjölmörg fyrirtæki hér á landi og erlendis, meðal   annars í skattaskjólum. Sagði frá krosstengdri eignaaðild. Sagði þeim frá því að um 30 þekktir Íslendingar ættu nánast alla sök á fjármálahruninu á Íslandi.

Þetta ágæta vel menntaða fólk kom af fjöllum.   Þessa hlið málsins hafði það aldrei heyrt um.Það stóð greinilega enn í þeirri trú að íslenska ríkið , og þar með íslenska þjóðin, ætti sök á Icesave hörmungunum. Nú vissu þau betur, en hvað um alla hina? Vita milljónir Hollendinga og Breta nokkuð um bakgrunn málsins? :"

Okkar heimsku stjórnvöld hafa auðvitað ekkert gert í að skýra þessi mál fyrir umheiminum. Að Björgólfur og Sigurjón Digri séu ekki íslenzka ríkið,- hafi ekki haft umboð frá mér né þér til að flagga með þjóðfánanum og þessu stóra nafni, flekklausu í meira en hindrað ár.  

Gyða frænka, ef þú lest þetta, geturðu ekki skrifað í Volkskranten eða hvað það heitir og bent þeim á þetta?

The National Bank of Iceland , est.1885 er ekki þjóðbanki Íslendinga heldur banki glæpamanna með íslenzku ríkisfangi.

Eva Joly vann fyrir kaupinu sínu í dag með að skýra málið fyrir umheiminum.Hún kom mér á óvart því ég hélt að hún væri bara lukkuriddari að flysja okkur. Ég virði þetta við hana og breyti um skoðun og álit á henni. Ég bið hana afsökunar á því að hafa talað niður til hennar.

Íslands óhamingju verður allt að vopni um þessa daga.  Búsáhaldabyltingin færði okkur þessa stjórn sem við núna sitjum uppi með. " Múgurinn er alltaf óupplýstur, heimskur og  grimmur" sagði Pálmi Hannesson  rektor í mér minnisverðri skammarræðu á sal við okkur menntskælinga þegar við höfðum gert í buxurnar með ólátum í miðborginni fyrir hálfri öld.   

Úrræðaleysið og gæfuleysið fellur að síðum. Nafnið "The National Bank of Iceland"  bendlar okkur öll við Icesave, sem eru okkur óviðkomandi  fjárglæfrar.

Við eigum ekki sem þjóð að seljast í ánauð vegna glæpaverka mannanna frá Rússlandi og leiguþýja þeirra og afglapa okkar eigin ráðamanna, sem seldu arfleifð þjóðarinnar fyrir baunadisk. 

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband