og hef skilað inn löglegu framboði. Ég tel mig ekkert hæfari til þess að vera þar en aðrir frambjóðendur. Ef menn telja að ég geti orðið að liði þá er ég reiðubúinn til þess að reyna.
Ef einhver hefur áhuga á að kynnast skoðunum mínum umfram það sem hann veit þegar, þá er erftirfarandi samantekt mín í boði:
Fyrsta spurning sem fulltrúi á Stjórnlagaþingi þarf að svara er um það, hvort hann telji að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hafi gefist svo illa frá stofnun lýðveldsisins að menn telji að saga þjóðarinar hefði orðið önnur og betri ef stjórnarskáin hefði verið öðruvísi. Ég tel að stjórnarskráin íslenska hafi í meginatriðum dugað þjóðinn vel þó ýmsa agnúa megi af henni sníða.Telji menn að stjórnskipan lýðveldisins þurfi verulegra endurbóta við, þá verður henni breytt eftir tveimur meginlínum :- Gera áherslubreytingar á núverandi stjórnskipun sem grundvallast á Alþingi og Forseta Íslands með málskotsrétti þannig að þjóðin fái við unað.
- Gera grundvallarbreytingar á stjórnskipuninni sem færir hana í átt til franskrar eða bandarískrar fyrirmyndar þar sem Forsetinn sé jafnframt stjórnmálaleiðtogi hennar.
Fyrirfram tel ég að þjóðin sé hlynntari leið 1. þó ég sjálfur teldi leið 2. að mörgu leyti koma til greina.Svar mitt við fyrstu spurningu er bæði já og nei. Núverandi stjórnarskrá er gagnmerk og þrautprófuð að stofni til í áranna rás, bæði hérlendis og erlendis. Hana má alls ekki fordæma fyrirfram.
Fulltrúalýðræði er heppilegasta stjórnarformið
Ég tel að málum þjóðarinnar sé best stýrt með lýðræðislegu fulltrúakjöri til löggjafarþings. Sem flestum málum eigi að ráða þar til lykta. Mér finnst að Forseti lýðveldisins eigi að geta krafist þess að Alþingi að samþykki umdeild lög með auknum meirihluta í stað einfalds. Eftir sem áður gæti Forsetinn vísað málinu í dóm þjóðarinnar ef hann teldi nauðsyn til bera.Þjóðaratkvæðagreiðslur tel ég að eigi ekki að fara fram nema í mestu deilumálum að mati Forsetans eða þá Alþingis sem líka getur ákveðið slíka atkvæðagreiðslu.
Kosningar til Alþingis
Alþingismenn eru nú kosnir eftir kjördæmum. Mikill munur er á vægi atkvæða eftir búsetu manna sem getur ekki talist lýðræðislegt. Jafnað hefur verið á milli stjórnmálaflokka yfir landið þess í stað. Engin sátt er um um þessa skipan mála utan Alþingis. Það er mjög mikilvægt í mínum huga að allir þegnar landsins séu jafnir fyrir lögunum og hafi sama atkvæðisrétt.Tillögur eru uppi um að gera landið að einu kjördæmi. Aðrar eru um það að mörk kjördæma séu flutt til þannig að jöfnuður náist. Báðar þessar tillögur gæti ég stutt ef megninmarkmiðinu væri náð sem er jafn atkvæðisréttur manna án tillits til búsetu.
Kosningar til sveitarstjórna
Í sveitarstjórnarkosningum er vægi atkvæða jafnt. Alþingi fer nú með meirihluta ráðstöfunar skattfjár. Þetta tel ég óæskilegt og vísa til nágrannalanda hvað þetta varðar. Vægi sveitarstjórna er minna á Íslandi en æskilegt er.Ég tel að best sé fyrir íbúa hvers byggðarlag að ráða sem mestu um sameiginleg mál sín án afskipta Alþingis. Ég teldi að meiri sátt yrði um það, að sveitarfélögum yrðir falin yfirstjórn sem flestra þeirra mála sem fram fara innan vébanda þeirra.
Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Eftirfarandi upptalning er það sem mér finnst vera meginatriði í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Listinn er ekki endanlegur af minni hálfu og til umræðu.Á vettvangi Sveitarstjórna eiga að vera :
- Barna og fjölskyldumál og leikskólar
- Grunn-og framhaldsskólar
- Íslenskukennsla fyrir innflytjendur
- Félagsmál og fjölskyldumál
- Bókasöfn
- Málefni fatlaðra
- Umönnun aldraðra
- Heilbrigðis og umhverfismál
- Neyðarþjónusta og björgunarstörf
- Skipulagsmál og byggingar
- Frárennslis-og sorpmál,vatnsöflun
- Neyðarþjónusta,almannavarnir
- Sameiginleg umferðarmál með ríkinu
- Félagsleg húsnæðismál
Það sem sveitarfélög mega annast til viðbótar:- Tómstundastarf
- Bygging félagsíbúða
- Orkuöflun
- Heilbrigðismál
- Atvinnumiðlun
- Atvinnuþróun
- Menningarstarfsemi
- Alþjóðleg vinabæjartengsli
Sveitarstjórnir leggja á útsvar og fasteignagjöld að tilteknu hámarki sem Alþingi ákveður.Þeim er einnig heimilt í neyðartilvikum að auka við þær álögur ef aukinn meirihluti íbúa samþykkir það samkvæmt heimild Alþingis. Verkefni Alþingis eru:
- Löggjöf
- Skattamál og innheimta
- Gerð námskráa fyrir landið
- Skipting skattfjár milli sveitarfélaga og ríkis.
· Yfirstjórn Tryggingamála· Yfirstjórn Heilbrigðismála.· Rekstur og bygging Landspítala og annarra slíkra stofnana.· Yfirstjórn orkumála, auðlinda og rannsókna.· Yfirstjórn fjarskipta· Yfirstjórn þjóðvegakerfis landsins· Yfirstjórn hafnamála· Yfirstjórn Háskóla· Yfirstjórn Landhelgis-og öryggismála· Ríkislögregla og Fangelsi· Yfirstjórn Innflytjendamála· Samningar við erlend ríki og utanríkisþjónusta· Varðveisla sameiginlegra verðmæta alþjóðar· Rekstur Seðlabanka, Peningamál, Fjármálaeftirlit, Hagstofa· Stjórnsýslueftirlit með ríkisstjórn· Val forsætisráðherra ef hann er ekki þjóðkjörinn.· Skipun dómara og æðstu embættismanna alríkisins· Ákvörðun þjóðaratkvæðagreiðsla Ég tel æskilegra að sveitarfélög myndu ráðstafa stærri hluta af opinberu fé en nú er. Þetta myndi gefa aftur möguleika á fækkun Alþingismanna og samdrætti í stjórnsýslu ríkisins. Stjórnsýsla færðist nær fólkinu með þessum hætti.
Starfsemi stjórnmálaflokka
Ég tel að stjórnmálaflokkar séu nauðsynlegar stofnanir í þjóðfélaginu. Ég tel að enginn einn maður geti verið með heildstæða lausn á öllum vandamálum samfélagsins. Þaðan af síður getur einn maður náð árangri í framfaramálum án fjöldafylgis í lýðræðisþjóðfélagi. Það gera menn með því að vera í félagsskap manna sem eru svipaðra skoðana. Saman geta þeir náð fram nýtilegri niðurstöðu. Óheppilegt er að stjórnmálaflokkar séu margir og spurning er um hvort þröskuldurinn í 31 .gr. stjórnarskrárinnar sé of lágur. Varðandi starfsemi sjjórnmálaflokka á ríkið að veita stjórnmálaflokkum nauðsynlegt starfsfé og þeim þá bannað að afla sér annars fjár með framlögum eða þeir eiga að vera algerlega án opinbers fjárstuðnings.
Stjórnmálastarf
Meginsjónarmið mín í stjórnmálastarfi eru:
- Kosningar til Alþingis og sveitarstjórna skulu vera byggðar á framboðslistum.
- Ekki er rétt að menn kjósi fulltrúa nema af einu framboði.
- Kjósendur geti lýðræðislega breytt sætum á lista.
- Alþingi kjósi öll alríkisembætti nema Forsetaembættið.
- Framkvæmdavald , löggjafarvald og dómsvald sé aðskilið
- Vægi atkvæða til Alþingiskosninga sé jafnt .
- Sveitarfélögum sé falin forsjá flestra þeirra mála sem fram fara í þeirra umdæmi.
Jafn atkvæðisréttur er grundvallaratriði
Í mínum huga er lýðræði eina stjórnskipunin sem á rétt á sér. Ríkisstjórn skal jafnan njóta trausts Alþingis. Stjórnarskrá verður að gæta hagsmuna minnihluta. Ákvæði núverandi stjórnarskrár varðandi réttindi þegnanna tel ég vera fullnægjandi í flestum atriðum.Það má jafna atkvæðisrétt manna með því að gera landið að einu kjördæmi. Slíkt væri skilvirkast að mínu mati og þyrfti aldrei leiðréttinga við vegna búferlaflutninga. Aukið vægi sveitarfélaga í útdeilingu skattfjár minnkar áhyggjur kjósenda af héraðssjónarmiðum á Alþingi. Einmenningskjördæmi tel ég ekki ráðleg þar sem þau minnka áhrif minnihluta og eru því ekki æskileg.Mörk kjördæma og þingmannatölu má flytja til að jafna atkvæðavægi en eru erfið í framkvæmd og endurskoðun.Ekki tel ég ráðlegt að kjósa fólk úr mismunandi flokkum í sömu kosningum. Ég tel að slíkt myndi verða til tjóns af ringulreið.
Embætti forseta Íslands
Embætti forseta Íslands sem þjóðhöfðingja myndi breytast grundvallarlega ef forsætisráðherra landsins yrði jafnframt forseti og kosinn í tveimur eða fleiri umferðum til fjögurra ára. Forsetinn hefði meirihluta á bak við sig og óskorað umboð þjóðarinnar til að leiða ríkisstjórn. Forsetinn myndi skipa ráðherra að eigin vali.Þingmenn séu ekki jafnframt ráðherrar. AlÞingi skal samþykkja ráðherraskipun þegar þeir eru tilnefndir af kjörnum forseta eða forsætisráðherra. Þjóðkjörinn forseti getur neitað að staðfesta lög og fara þau þá aftur í þingumræðu og þurfa þau þá aukinn meirihluta (2/3 hluta atkvæða) til að öðlast gildi. Forseti getur vísað lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu ef hann telur mikið við liggja.Alþingi getur efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu með auknum meirihluta.
Mínar helstu stjórnmálaskoðanir eru:
Ég hef lengst af fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum. Þó er nokkrar greinir með mér og flokknum svo sem um auðlindamál.
Ég tel að mörg ákvæði í núverandi stjórnarskrá eigi þar heima áfram.
Ég er fremur andvígur hugmyndum um fjölmenningu og tel þær gefast illa. Ég tel að enginn eigi að verða íslenskur ríkisborgari án þess að tala þokkalega íslensku og að hann semji sig að íslenskum háttum, lögum og siðvenjum þjóðarinnar. Enginn megi ganga grímuklæddur á almannafæri, hvorki á trúarlegum forsendum né öðrum.
Ég tel ekki ástæðu til að afnema 61 grein núverandistjórnarskrár þjóðkirkju á Íslandi þar sem meirihluti landsmanna aðhyllist hana. Sömuleiðis styð ég Ríkisútvarp að norrænni fyrirmynd, ríkiseign-og rekstur á fjarskiptaneti landsmanna, Landsvirkjun, Landhelgismálum og rekstur Flugstjórnarsvæðis.
Ég er andvígur ofurvaldi verkalýðsfélaga til vinnustöðvana og tel að því eigi að setja þröngar skorður.
Ég er andvígur Evrópusambandsaðild og tel margt sem þaðan hefur komið hafa verið til óþurftar og aukins kostnaðar í stað lækkunar.
Ég tel að Auðlindir Íslands eiga að vera órjúfanleg og óframseljanleg eign íslensku þjóðarinnar.
Þeim sem vilja kynnast skoðunum mínum nánar bendi ég á þetta blogg og fjölmargar blaðagreinar sem ég hef skrifað í áranna rás.