Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Ég styð 62. grein stjórnarskrárinnar

um að evangelíska kirkjan sé ríkiskirkja Íslands. Þetta mega þeir sem ætla að kjósa til Stjórnlagaþings vita.

Ástæður mínar eru þær að landsmenn eru að miklum meirihluta einhuga um að hafa kristni í landinu og ég tel að kirkjan njóti stuðnings yfirgnæfandi meirihluta landsmanna. Kröfur háværs minnihluta um aðskilnað ríkis og kirkju tek ég ekki undir. Ekki síst af þjóðernisástæðum, þar sem ég er ekki í hópi trúaðra.

Ég virði kirkjuna og vil að kirkjan njóti sannmælis. Ég sé ekki ástæðu til að lasta skóginn þó fundist hafi laufblað fölnað eitt eða tvö. Kirkjan hefur í heild gefist betur en illa. Mér myndi finnast lítil ástæða fyrir þessa þjóð eða mig sjálfan að halda jól ef kirkjan sæi ekki um hátíðarsvipinn.

Jarðarfarir eru vel komnar í höndum presta. Ég held að Guðsorð skaði engann sem það heyrir og ég held líka að það geri meirihluta þjóðarinnar gott. Ég er þeirrar skoðunar að íslensk þjóð sé kristin þjóð og vilji vera það.

Ég er líka í Sjálfstæðisflokknum og hef aldrei skammast mín fyrir það.

Ég er algerlega á móti Evrópusambandsaðild vegna þess að ég tel Íslendinga búa í svo ríku landi að lífskjör þeirra geti ekki annað en lækkað með útjöfnun við fátækari þjóðir í Evrópu. Við munum verða að styrkja þá en ekki öfugt. Ég tel að við eigum nóga ómegð sjálfir Íslendingar þó við flytjum hana ekki inn. Ég tel Íslendinga vera meiri heimsborgara og fljótari til að tileinka sér nýjungar og framfarir en raunin hefur verið er með landlukta Miðevrópubúa.

Ég er ekkert sérlega ósáttur við Stjórnarskrána sem við höfum og tel hana hafa vel dugað. Undirrót ónánægju fólks með sjtórnarskrána er misvægi atkvæða um leið og misvægið er sjálft orsökin fyrir því að Alþingi hefur ekki leyst málið. Ég mun ekki sætta mig við misvægi atkvæða í Alþingiskosningum á landinu og mun aldrei sætta mig við annað en að reglan "einn maður-eitt atkvæði" sé samstofna lýðræðishugmyndinni sjálfri.

Ég hyggst ekki eyða fé í auglýsingar vegna framboðs til Sjórnlagaþings.Ég mun ekki erfa það við nokkurn mann vilji hann fremur kjósa aðra. Ég er bara valkostur sem frambjóðandi númer 5097.


Trúin á framtíð landsins

undir forystu Sólkóngsins birtist í því að 88-92 % allra fyrirtækja landsins ætla ekki að fjárfesta á næsta ári.

Hvernig skyldi þetta ríma við skattheimtuturna fjárlaga norrænu velferðarstjórnarinnar sem byggja á hagvexti?

Eru landsmenn blindir að sjá ekki hvernig þessi ríkisstjórn er að keyra landið niður á botninn.

Er ekki rétt að minnast orða ráðherrans "You aint seen nuthin yet"


Eftiráspekin

réðí ríkjum á fundi FVH í gær ef marka má frásögn Fréttablaðsins af fundinum fyrir okkur fjarstadda. Verðbólgumarkmið Seðlabankans voru rædd í ljósi sögunnar. Fyrir lesandann hljómaði þetta einhvernveginn svona:

Seðlabankinn hækkaði stöðugt vexti eftir þeirri hugmynd að þannig ynnu menn gegn verðbólgu.

Fyrsta spurning er af hverju verðbólga?

Almenningur hafði of mikil fjárráð. Af hverju ? Það var nóg framboð af lánsfé á lágum vöxtum. Erlendu fé sem bankarnir mokuðu inn í landið. Seðlabankinn hreyfði hvorki hönd né fót til að stöðva innflæðið eða þá hindra að það færi í umferð. Launþegar sáu sér leik á borði og skrúfuðu upp launataxta sína og miðuðu gjarnan við dagsgengi og lífskjör erlendis. Evrópureglurnar snjóuðu inn erlendu vinnuafli til að auka á þensluna. 

Útlendingar sáu sér leik á borði að fá háa vexti og gáfu út jöklabréf í því trausti að þeir gætu alltaf komist út aftur af því að landið væri í EES og hérumbil í Evrópusambandinu með stöðugum innflutningi á reglugerðum þaðan. Þetta jók peningamagnið í umferð, verðbólgan fór vaxandi, Seðlabankinn hækkaði vexti og vandamálið jókst auðvitað. 100 % íbúðalán voru í boði og almenningur fjárfesti því fyrir lánsfé eingöngu. Bankarnir buðu verðtryggð innlánskjör með raunvöxtum ofaná. Allir gátu sparað en fáir gerðu það nema lögþvingað í gegnum lífeyrissjóðina sem gátu fjármagnað eyðslu ríkissjóðs banka og útrásarvíkinga.

Nú talar  formaður hagsmunasamtaka í útvarpið rétt í þessu og segir að verðtryggingin sé meinið, og vexti af lánsfé þurfi að lækka. Ekki minnist hann á hvað eigi að gera við sparnað sem er þó forsenda lánsfjár. Það eru bara lántakendur í þessu landi og hann heimtar afslátt og lága vexti handa þeim. Ekki orð um hvaðan lánsféið eigi að koma. 10.700 heimili eru á hausnum og það verður að bjarga þeim þó að það sem þau keyptu hafi verið keypt of dýrt í skuld á fölsku gengi sem Seðlabankinn hafði útbúið.

Verðbólgumarkmiðin og aðgerðir Seðlabankans virkuðu þveröfugt við það sem ráðstafanirnar áttu að leysa. Ef hann hefði haft vextina svipaða og annarsstaðar sætum við ekki uppi með alla þessa vitleysu eftir kollsteypuna því dollarinn hefði farið upp jafnt og þétt  strax í byrjun áratugarins. Verðbólgan hefði vaxið en kollsteypa í skyndilegu 100 % gengisfalli hefði ekki orðið, engin jöklabréf hefðu komið til og útrásarvikningar og bankastjórar þeirra hefðu ekki getað rústað  landinu eins gersamlega og þeir gerðu.

En stífudansinn við gullkálfinn gerði fólkinu svíma sem aftur greiddi götuna fyrir glæframennina eins og gert var með stofnfjárbrellunni í BYR. Sem í eftiráspeki getur ekki verið annað en vellukkað samsæri fjársvikafla sem voru búnir að ná völdum í Glitni og BYR en það er önnur saga þar sem almenningur grætur en bófarnir hlæja í útlöndum.

Nú sitjum við og grátum ofan í grautardiskinn. Allir eftiráspakir sem væri í lagi í sjálfu sér. Nema að nú fara leikararnir uppá svið og segja okkur að þeir ætli að endurtaka leikinn.

Sitjandi á sviðinu tilkynna hinir spöku að vextir Seðlabanka  eigi áfram háir til að vinna gegn verðbólgu. Það er eins og Baldur og Konni séu mættir nema né er Steingrímur J.  í hlutverki Baldurs og Már Seðlabankastjóri í hlutverki Konna. Már segir að við eigum ekki um neitt annað að velja en að hafa gjaldeyrishöft um ókomin ár, annars verði sveiflur. Og Steingrímur nikkar og samsinnir og tekur undir með Konna.

 Nema við tökum upp evru segja þeir allir eða fastbindum gengið án þess að tiltaka hvert verði skiptigengið. Svo sé það heldur ekki í boði og því verði höftin áfram. Og Evrópusambandið sé ekki alveg komið segja þeir báðir og brosa hringinn. Ekki af því að hann vilji það ekki frekar en Illugi sem situr til hliðar og klappar fyrir þeim félögum.

Svo hver er nðurstaðan fyrir mér? Þetta land er sokkið, Lífskjör almennings rísa ekki aftur fyrr en þessir leikendur eru farnir af sviðinu. Vandamál landsins leysast ekki með hagfræði þeirra sem upprunnin er í austurvegi.  Endurreisinin verður sársaukafull og tekur langan tíma. En það verður að byrja rétt.  Etfiráspekin leysir ekki vanda úrvinnslunar eða framtíðarinnar.  Lágir vextir, jafnvel núll eða mínus eru sjálfsagðir við núverandi aðstæður og verðbólga þarf að verða í hjöðnuninni sem hér er að taka völdin.

En verðtrygging innlána og útlána er nauðsynleg. En vegna höggsins verður að flytja vandann fram í framtíðina. Sem er alveg ótrúlegt að allir spekingarnir hafi ekki getað teiknað upp líkan af. En framtíðin kemur samt fyrr en nokkurn varir þó þeim Steingrími finnist þeir kannski vera eilífir og hinir miklu bjargvættir landsins.

Flottir fundir um eftiráspeki virðast engu hafa skilað til lausnar vandanum. Vandinn sjálfur er uppstilltur á sviðinu.  Pólitísk vatnaskil eru forsenda lausnarinnar.En tíminn er ekki kominn fyrir framtíðina. Þjóðin er ekki búin að sjá í gegnum þessa menn.

Þangað til ríkir hér öld eftiráspekinnar.


Sólkóngurinn

Lúðvik 14. hafði líklega meiri völd og réði stærra ríki en nokkur maður hefur gert í veraldarsögunni. Ekki varð hann sjálfur ofsæll af því og lá í stöðugum styrjöldum. En dýrðin hans var líka mikil. Fallegt og stórfenglegt er í Versölum þar sem andi hans svífur yfir vötnunum. Skuldadagarnir komu seinna.

Mér finnst að Íslendingar eigi nú sinn sólkóng. Hann ber nafnið Steingrímur Sigfússon. Enginn Íslendingur hefur haft meiri völd í sínum höndum en þessi maður síðan Þórður Kakali leið. Ekki er ofmælt að hver maður í landinu verði að sitja og standa eftir hans boði. Heil þjóð er undir hans stjórn. Allt fjármálakerfi landsins, lýtur hans valdboði. Hann talar sjálfur um fjármálastofnanir landsins eins og þær eigi sér sjálfstætt líf. En með þessu blekkir hann lýðinn því hann fer með beint skipunarvald yfir þeim. Það sem kallast fjármálakerfi Íslands er ríkisrekið af þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á. Tugir stærstu fyrirtækja landsins eru líka í umsjá hans og hans manna og Seðlabankinn sömuleiðis. Steingrímur stjórnar gengi krónunnar og gjaldeyrisreglum sem verða hérlendis næstu mörg ár.

Öllu þessu hefur hann náð með því að leyfa hópi fólks að stefna Íslendingum inn í Evrópusambandsaðild. Sem svo líklega verður til einskis þannig að góð kaup hefur hann gert.

Sólkóngurinn þarf ekki sjórnmálaflokk á bak við sig fremur en Loðvík fjórtándi. Hann hafði Colbert en Steingrímur hefur Svavar Gestsson. Smávegis kurr í bændum er þaggaður niður og þeir falla fram sem öreigar í auðmýkt eftir eina heimsókn á útnesið.

Steingrímur fyrsti er sólkóngur Íslands.


Vopnahlésdagurinn

í stóra stríðinu er runninn upp og var afmælið kl 11 mínútur yfir ellefu. Nærri fjörtíumilljónir hermanna höfðu þá særst, týnst eða fallið(10milljónir) í átökunum beint auk einhverra milljóna óbreyttra borgara. Drepsóttin mikla, spánska veikin, sem var með á orrustuvöllunum á síðasta stríðsárinu, drap líklega 100 milljónir til viðbótar um allan heim til 1920. Sem þá var um 3 % alls mannkyns. 3 % íslensku þjóðarinnar geta menn séð fyrir sér sem þrjátíu dauðsföll á dag í heilt ár.

Friðarsamningarnir í Versölum 1919 tókust ekki betur en það að þeir greiddu Adolf Hitler leiðina til valda og fjöldafylgis við hefndarhugsunina sem fékk útrás í einni heimstyrjöldinni. Í því stríði féllu meira en helmingi fleiri hermenn en í því fyrra, og þeim mun fleiri borgarar þannig að á áttunda tug milljóna týndi lífi.

Bæði þessi stríð leiddu til örrar framþróunar tækni og framleiðslugetu sem mannkynið býr að í dag. Og víst væri margt öðru vísi ef þau hefðu ekki komið til. Mannkynið hefur meira en tvöfaldast (6.880.853.407 kl 12.54 í dag) síðan í fyrri heimstyrjöld og vex enn. Tæknin heldur lífinu í þessum fjölda. Ef lífskjör geta ekki vaxið meira þá þarf mannkyni að fækka hvernig sem á það er litið. Fremur finnast manni drepsóttir og hungur líklegri til þess verks en styrjaldir eins og tölurnar sýna.

Hvort aðrir slíkir atburðir sem heimstyrjaldirnar verði á jörðinni innan tíðar er erfitt að spá um. En víst er að stór hluti mannkyns vill heldur berjast við þá sem það telur óvini sína heldur en láta í minni pokann og semja. Líklegra en ekki er því að stórar styrjaldir muni verða eftir því sem fleiri brjálæðingar komast yfir kjarnorkuvopn en áður. Trúarbrjálæði sem blandað er saman við óupplýsta afstöðu fjölda fólks vill beinlínis fara með hernaði á hendur þeim sem þeir telja villutrúarmenn án þess að hafa vit til að meta áhættuna. Stór hluti mannkyns er og vill beinlínis vera á þessu miðaldastigi og er því ekki á leið þaðan. Eitthvað getur því brostið í heiminum fyrr en varir þó að skipulögð vígvæðing sjáist ekki eins og var fyrir báðar heimstyrjaldirnar.

Allavega er hollt að hugsa til þessara nýliðnu atburða sem heimstyrjöldin fyrr var. Mannskepnan sjálf hefur ekkert breyst og mannlíf eins og við þekkjum það sáralítið. Borgarlífið í London er ekki mikið breytt til dæmis ef maður les bókina hans Cecil Lewis, Sagittaríus Rísandi. Kóngar hafa fallið og átrúnaðargoð steypst, Landamæri hafa hnikast til. Lífskjör víða um heim hafa batnað en versnað annarsstaðar.

Hvernig verðu útlits 11.nóvember árið 2210? Sá dagur nálgast óðfluga.

Quo vadis?


Samfylkingin í trássi við lögin


Tóku gildi 6. júní 1978. Breytt með l. 10/1983 (tóku gildi 25. mars 1983) og l. 162/2006 (tóku gildi 1. jan. 2007).

1. gr. …1) Þá er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu.
1)L. 162/2006, 13. gr.
2. gr. Lög þessi taka til stjórnmálaflokka og félagasamtaka þeirra, svo og til hvers konar stofnana, sem starfa á þeirra vegum, beint eða óbeint, þ. á m. blaða, og einnig til blaða og tímarita, sem út eru gefin á vegum einstaklinga eða félagasamtaka.
3. gr. Bann það, sem felst í 1. gr. þessara laga, nær til hvers konar stuðnings, sem metinn verður til fjár, þ. á m. til greiðslu launa starfsmanna eða gjafa í formi vörusendinga.
4. gr. Erlendir aðilar teljast í lögum þessum sérhverjar stofnanir eða einstaklingar, sem hafa erlent ríkisfang, hvort sem þeir eru búsettir hér á landi eða ekki.
5. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum …1)
Fjármagn, sem af hendi er látið í trássi við lög þessi, skal gert upptækt og rennur til ríkissjóðs.
1)L. 10/1983, 74. gr.

Samfylkingin er að taka á móti einni miljón Evra í sambandi við stofnun áróðusskrifstofu EU. sem er að opna hérna í míðbænum með stóru starfsliði. Einu stjórnmálaöflin sem styðja inngönguna í EU eru Samfylkingin og Fréttablaðið. Allavega beint en ekki óbeint eins og Vinstri Grænir.

Þetta eru einu aðilarnir sem njóta þessara nýju krafta. Evrópubandalagsöflin í landinu fá þannig beinan fjárhagslegan styrk fyrir áróður sinn í trássi við ofangreind lög landsins.

það er ekki sama Jón eða séra Jón. Hafa menn ekki verið að hnýta í Gissur Þorvaldsson fyrir að ganga erinda konungs? Varla hefur hann gert það ókeypis.

Hvað skyldi annars felast í hugtakinu landráð?


Já, ég er í framboði til Stjórnlagaþings

og hef skilað inn löglegu framboði. Ég tel mig ekkert hæfari til þess að vera þar en aðrir frambjóðendur. Ef menn telja að ég geti orðið að liði þá er ég reiðubúinn til þess að reyna. 

Ef einhver hefur áhuga á að kynnast skoðunum mínum umfram það sem hann veit þegar, þá er erftirfarandi samantekt mín í boði:

Fyrsta spurning sem  fulltrúi á Stjórnlagaþingi þarf að svara er um það, hvort hann telji að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hafi gefist svo illa frá stofnun lýðveldsisins að  menn telji að saga þjóðarinar hefði  orðið önnur og betri ef stjórnarskáin hefði verið   öðruvísi. Ég tel að stjórnarskráin íslenska hafi í meginatriðum dugað þjóðinn vel þó ýmsa agnúa megi af henni sníða.Telji menn að stjórnskipan lýðveldisins þurfi verulegra endurbóta við, þá verður henni   breytt  eftir tveimur meginlínum :
  1. Gera áherslubreytingar á núverandi stjórnskipun sem grundvallast á Alþingi og Forseta Íslands með málskotsrétti þannig að þjóðin fái við unað.
  2. Gera grundvallarbreytingar á stjórnskipuninni sem færir hana í átt til franskrar eða bandarískrar  fyrirmyndar þar sem Forsetinn sé jafnframt stjórnmálaleiðtogi hennar.

 Fyrirfram tel ég að þjóðin sé hlynntari leið 1. þó ég sjálfur teldi leið 2. að mörgu leyti koma til greina.Svar mitt við fyrstu spurningu er bæði já og nei. Núverandi stjórnarskrá er gagnmerk og þrautprófuð að stofni til í áranna rás, bæði hérlendis og erlendis. Hana má alls ekki fordæma fyrirfram.

Fulltrúalýðræði er heppilegasta  stjórnarformið

Ég tel að málum þjóðarinnar sé best stýrt með lýðræðislegu fulltrúakjöri til löggjafarþings. Sem flestum málum eigi að ráða þar til lykta. Mér finnst að Forseti lýðveldisins eigi að geta krafist  þess að Alþingi að samþykki umdeild lög með auknum meirihluta í stað einfalds.  Eftir sem áður gæti Forsetinn vísað málinu í dóm þjóðarinnar ef hann teldi nauðsyn til bera.Þjóðaratkvæðagreiðslur tel ég að eigi ekki að fara fram nema í mestu deilumálum að mati Forsetans eða þá Alþingis sem líka getur ákveðið slíka atkvæðagreiðslu. 

Kosningar til Alþingis

Alþingismenn eru nú kosnir  eftir kjördæmum. Mikill munur er á vægi atkvæða eftir búsetu manna sem getur ekki talist lýðræðislegt.  Jafnað hefur verið  á milli stjórnmálaflokka yfir landið þess í stað. Engin sátt er um um þessa skipan mála utan Alþingis. Það er mjög mikilvægt í mínum huga að allir þegnar landsins séu jafnir fyrir lögunum og hafi sama atkvæðisrétt.Tillögur eru uppi um að gera landið að einu kjördæmi. Aðrar eru um það að mörk kjördæma séu flutt til þannig að jöfnuður náist. Báðar þessar tillögur gæti ég stutt ef megninmarkmiðinu  væri náð sem er jafn atkvæðisréttur manna án tillits til búsetu.

Kosningar til sveitarstjórna

Í sveitarstjórnarkosningum er vægi atkvæða jafnt. Alþingi fer nú með meirihluta ráðstöfunar skattfjár. Þetta tel ég óæskilegt og vísa til nágrannalanda hvað þetta varðar. Vægi sveitarstjórna  er minna á Íslandi en æskilegt er.Ég tel að best sé fyrir íbúa hvers byggðarlag að ráða sem mestu um sameiginleg mál sín án afskipta Alþingis. Ég teldi að meiri sátt yrði um það, að sveitarfélögum yrðir falin yfirstjórn sem flestra þeirra mála  sem fram fara innan vébanda þeirra.

   Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Eftirfarandi upptalning er það sem mér finnst vera meginatriði í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Listinn er ekki endanlegur af minni hálfu og til umræðu.Á vettvangi Sveitarstjórna  eiga að vera :

  • Barna og fjölskyldumál og leikskólar
  • Grunn-og framhaldsskólar
  • Íslenskukennsla fyrir innflytjendur
  • Félagsmál og fjölskyldumál
  • Bókasöfn
  • Málefni fatlaðra
  • Umönnun aldraðra
  • Heilbrigðis og umhverfismál
  • Neyðarþjónusta og björgunarstörf
  • Skipulagsmál og byggingar
  • Frárennslis-og sorpmál,vatnsöflun
  • Neyðarþjónusta,almannavarnir
  • Sameiginleg umferðarmál með ríkinu
  • Félagsleg húsnæðismál
Það sem sveitarfélög mega annast til viðbótar:
  • Tómstundastarf
  • Bygging félagsíbúða
  • Orkuöflun
  • Heilbrigðismál
  • Atvinnumiðlun
  • Atvinnuþróun
  • Menningarstarfsemi
  • Alþjóðleg vinabæjartengsli
 Sveitarstjórnir leggja á útsvar og fasteignagjöld að tilteknu hámarki sem Alþingi ákveður.Þeim er einnig heimilt í neyðartilvikum að auka við þær álögur ef aukinn meirihluti íbúa samþykkir það samkvæmt heimild Alþingis. Verkefni Alþingis eru:

  • Löggjöf
  • Skattamál og innheimta
  • Gerð námskráa fyrir landið
  • Skipting skattfjár milli sveitarfélaga og ríkis.

· Yfirstjórn Tryggingamála· Yfirstjórn Heilbrigðismála.· Rekstur og bygging Landspítala og annarra slíkra stofnana.· Yfirstjórn orkumála, auðlinda og rannsókna.· Yfirstjórn fjarskipta· Yfirstjórn þjóðvegakerfis landsins· Yfirstjórn hafnamála· Yfirstjórn Háskóla· Yfirstjórn Landhelgis-og öryggismála· Ríkislögregla og Fangelsi· Yfirstjórn Innflytjendamála· Samningar við erlend ríki og utanríkisþjónusta· Varðveisla sameiginlegra verðmæta alþjóðar· Rekstur Seðlabanka, Peningamál, Fjármálaeftirlit, Hagstofa· Stjórnsýslueftirlit með ríkisstjórn· Val forsætisráðherra ef hann er ekki þjóðkjörinn.· Skipun dómara og æðstu embættismanna alríkisins· Ákvörðun þjóðaratkvæðagreiðsla  Ég tel æskilegra að sveitarfélög myndu ráðstafa stærri hluta af opinberu fé en nú er. Þetta myndi gefa aftur möguleika á fækkun Alþingismanna og samdrætti í stjórnsýslu ríkisins. Stjórnsýsla færðist nær fólkinu með þessum hætti. 

Starfsemi stjórnmálaflokka

Ég tel að stjórnmálaflokkar séu nauðsynlegar stofnanir í þjóðfélaginu. Ég tel að enginn einn maður geti verið með heildstæða lausn á öllum vandamálum samfélagsins. Þaðan af síður getur einn maður náð árangri í framfaramálum án fjöldafylgis í lýðræðisþjóðfélagi. Það gera menn með því að vera í félagsskap manna sem eru svipaðra skoðana. Saman geta þeir náð fram nýtilegri niðurstöðu. Óheppilegt er að stjórnmálaflokkar séu margir og spurning er um hvort þröskuldurinn í 31 .gr. stjórnarskrárinnar sé of lágur. Varðandi starfsemi  sjjórnmálaflokka á ríkið að veita stjórnmálaflokkum nauðsynlegt starfsfé og þeim þá bannað að afla sér annars fjár með framlögum eða þeir eiga að vera algerlega án opinbers fjárstuðnings.

Stjórnmálastarf 

Meginsjónarmið mín í stjórnmálastarfi eru:

  • Kosningar  til Alþingis og sveitarstjórna skulu vera  byggðar á framboðslistum.
  •  Ekki er rétt að menn kjósi fulltrúa nema af einu framboði.
  • Kjósendur geti lýðræðislega breytt sætum á lista.
  • Alþingi kjósi  öll alríkisembætti nema Forsetaembættið.
  • Framkvæmdavald , löggjafarvald  og dómsvald sé aðskilið
  • Vægi atkvæða til Alþingiskosninga sé jafnt .
  • Sveitarfélögum sé falin forsjá flestra þeirra mála sem fram fara í þeirra umdæmi.

   

Jafn atkvæðisréttur er  grundvallaratriði

Í mínum huga er lýðræði eina stjórnskipunin sem á rétt á sér. Ríkisstjórn skal jafnan njóta trausts Alþingis.  Stjórnarskrá verður að gæta hagsmuna minnihluta. Ákvæði núverandi stjórnarskrár varðandi réttindi þegnanna tel ég vera fullnægjandi í flestum atriðum.Það  má jafna atkvæðisrétt manna  með því að gera landið að einu kjördæmi. Slíkt væri skilvirkast að mínu mati og þyrfti aldrei leiðréttinga við vegna búferlaflutninga.  Aukið vægi sveitarfélaga í útdeilingu skattfjár minnkar áhyggjur kjósenda af héraðssjónarmiðum á Alþingi.  Einmenningskjördæmi tel ég ekki ráðleg þar sem þau  minnka áhrif minnihluta og eru því ekki æskileg.Mörk kjördæma og þingmannatölu má flytja til að jafna atkvæðavægi en eru erfið í framkvæmd og endurskoðun.Ekki tel ég  ráðlegt að kjósa  fólk úr mismunandi flokkum í sömu kosningum. Ég tel að slíkt myndi verða til tjóns af ringulreið.

Embætti forseta Íslands

Embætti forseta Íslands sem þjóðhöfðingja  myndi breytast grundvallarlega  ef forsætisráðherra landsins yrði jafnframt forseti og kosinn í tveimur eða fleiri  umferðum til fjögurra ára. Forsetinn hefði meirihluta á bak við sig og óskorað umboð þjóðarinnar til að leiða ríkisstjórn. Forsetinn myndi skipa ráðherra að eigin vali.Þingmenn séu ekki jafnframt ráðherrar.  AlÞingi skal  samþykkja ráðherraskipun þegar  þeir eru tilnefndir af kjörnum forseta eða forsætisráðherra.  Þjóðkjörinn forseti  getur neitað  að staðfesta lög og fara þau þá aftur í þingumræðu og þurfa þau þá aukinn meirihluta (2/3 hluta atkvæða) til að öðlast gildi. Forseti  getur  vísað lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu ef hann telur mikið við  liggja.Alþingi getur efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu með auknum meirihluta. 

Mínar helstu stjórnmálaskoðanir eru:

Ég hef lengst af fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum. Þó er nokkrar greinir með mér og flokknum svo sem um auðlindamál.

Ég tel að mörg ákvæði í núverandi stjórnarskrá eigi þar heima áfram.

Ég er fremur andvígur hugmyndum um fjölmenningu og tel þær gefast illa. Ég tel  að enginn eigi að verða íslenskur ríkisborgari án þess að tala þokkalega íslensku og að hann semji sig að íslenskum háttum, lögum og siðvenjum þjóðarinnar. Enginn megi ganga grímuklæddur á almannafæri, hvorki á trúarlegum forsendum né öðrum.

Ég tel ekki ástæðu til að afnema 61 grein núverandistjórnarskrár  þjóðkirkju á Íslandi þar sem meirihluti landsmanna aðhyllist hana.  Sömuleiðis styð ég Ríkisútvarp að norrænni fyrirmynd, ríkiseign-og rekstur á fjarskiptaneti landsmanna,  Landsvirkjun, Landhelgismálum og rekstur Flugstjórnarsvæðis.

  Ég er andvígur ofurvaldi verkalýðsfélaga til vinnustöðvana og tel að því eigi að setja þröngar skorður.  

Ég er andvígur Evrópusambandsaðild og tel margt sem þaðan hefur komið hafa verið til óþurftar og aukins kostnaðar í stað lækkunar.

Ég tel að Auðlindir Íslands eiga að vera órjúfanleg og óframseljanleg eign íslensku þjóðarinnar.

  Þeim sem vilja kynnast skoðunum mínum nánar bendi ég á þetta blogg og fjölmargar blaðagreinar sem ég hef skrifað í áranna rás. 


Svavar endurritar söguna

eins og var aðferð kommúnistanna í Kreml við að fegra sinn hlut eftirá. Þeir sendu út lausblöð sem menn settu í stað þeirra gömlu þegar hentugri útgáfa alfræðiorðabókarinnar sovésku hafði verið skrifuð.

Félagi Svavar skrifar í Fréttó í dag skammagrein um hvernig vinstrimenn láti alltaf fara með sig. Hann hinsvegar endurskrifar söguna sér og þeim í hag og hikar ekki við að beinlínis endurrita söguna eftir sínu höfði.

 ....". Álmálið átti að nota til að koma henni frá með því að stjórnarliðar Framsóknarflokksins stóðu að tillögu um að setja iðnaðarráðherrann af af því að hann væri ekki nógu stóriðjufús. Það tókst ekki, en eftir kosningarnar 1983 tók við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Framsóknarflokksins. Hún sat í heil fjögur ár og bjó til misvægi launa og lána, gaf vexti frjálsa og innleiddi kvótakerfið. Hún var svo endurnýjuð 1987 en hrundi 1988. Þá tók við ríkisstjórn sem kom á þjóðarsátt og hjó á vítahring verðbólgunnar. Hún fékk meirihluta í kosningum til að starfa áfram en Alþýðuflokkurinn kaus að koma Sjálfstæðisflokknum til valda á ný. Þau völd hafði hann í 18 ár....

Nú hefur vinstristjórn setið í 18 mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn langþreyttur á því að ráða engu, hvorki hjá ríkinu né borg. Hann er að tryllast af valdaleysi. Og hann lemur tunnur úti um allt þjóðfélagið. Hann reynir að gera bandalög inn í stjórnarflokkana eins og hann gerði líka 1958 og 1974. Hann notar andstöðuna við ESB einn daginn, annan er það Icesave sem Sjálfstæðisflokkurinn bjó til og er á móti því að leysa.Í þessum málum tekst honum að stíga í takt við einstaklinga í Vg. Og svo eru það stóriðjumálin. Þar stígur hann taktinn við tunnusláttinn með Samfylkingunni. Tilgangurinn er ekki sá að stöðva aðildarumsókn að ESB, ekki sá að koma í veg fyrir að samið verði um Icesave og ekki sá að tryggja byggingu álvera. Það síðastnefnda er ekki hægt af því að orkan er ekki til. Nei, tilgangurinn er sá einn að koma íhaldinu til valda á ný. Og það mun Sjálfstæðisflokknum takast ef honum auðnast áfram að heyra bergmál inni í stjórnarflokkum þegar hann lemur tunnurnar. En af langri sögu hafa vinstrimenn kannski lært að láta ekki rugla sig í ríminu; eða hvað?¨"

Þetta er eins og rödd að handan  úr kalkaðri gröf eða draugur kveði í haug sínum eins og í þjóðsögunum.  Kommarnir skrifuðu  söguna eins og maður vildi að hún hefði verið,  ekki eins og hún var.

Það var ekki ríkisstjórn Steingríms sem gerði þjóðarsáttina. Það voru þeir Einar Oddur og Guðmundur Jaki sem hana sömdu ásamt mönnum úr þeirra röðum. Stjórnin lufsaðist með á eftir og Ólafur Ragnar rauf nýgerða samninga sína við BHM til að greiða fyrir og má eiga það. En félagi  Svavar átti öngvan þátt í neinu sem henni viðkom. Hans hnefi var ávallt krepptur og vildi aldrei hlusta íhaldið, sem svo gerði hann að sendiherra til að losna við hann.   Hans hápúnktur í pólitík kom miklu seinna í Icesave samningunum.

En kommarnir vissu jafnvel og gamli Göbbels, að endurtaki maður lygina nógu oft þá fara einhverjir að trúa. Og er freistingin sú að reyna að endurskrifa söguna skrifa sér í hag í trausti þess að einhverjir trúi.


Jón Gnarr

kom á óvart í Kastljósi í kvöld. Hann var rólegur og yfirvegaður þó að spyrlan væri að reyna að fipa hann og rugla. Hann benti á það sem mótrök gegn því að hann væri ekki hæfur til að vera borgarstjóri að hann væri í rauninni mikilhæfur. Því hann hefði stofnað stjórnmálaflokk á mettíma sem hefði orðið stærsti flokkur í Borgarstjórn. Vildi einhver mótmæla því?

Hann var spurður hvort hann hefði gert nokkuð í borgarmálunum, hann væri ekki búinn með fjárhagsáætlun eftir 120 daga í embætti og hann væri að deila út verkum til annarra sem hann ætti að vinna. Jón spurði á móti hvort aðgerðir hans í Orkuveitunni væru ekkert?  Ég er ábyrgur fyrir framkvæmdum sagði Jón, því það er ég sem skrifa undir.

 Vandinn hefði verið meiri en sagt hefði verið. Það þyrfti að loka 4.5 milljarðs gati í fjárhagsáætlun sem væri verið að vinna að. Með útsvarshækkun meðal annars. Hann sagðist ekkert skammast sín fyrir að leita til sérfræðinga og tók dæmi um það þegar hann var spurður um hvort hann ætlaði að flytja flugvöllinn. Hann svaraði þá að hann hefði aldrei flutt flugvöll og þekkti engan sem hefði reynslu af því. Hann yrði því að athuga málið áður en til þess kæmi.

Ég verð að segja, að mér finnst óþarfi að ráðast á þennan mann eins og fréttamenn hafa gert. Jón er öðruvísi en þessir stöðluðu sjálfbirgingslegu monthanar í pólitík, sem þykjast hafa ráð undir rifi hverju og buna nógu mörg orð útúr sér á mínútu.  En eru síðan oftlega bara venjulegir bjánar þegar til stykkisins kemur.  Jón er bara svona og þykist ekkert vera merkilegur eða meiri en hann er.  Segist meira að segja vera meingallaður sem er nýlunda af stjórnmálamanni að viðurkenna svo algengan atvinnusjúkdóm. 

Ég held að hann Jón Gnarr sé ekkert á förum úr pólitíkinni. Hann á eftir að sýna á sér óvæntar hliðar. Er það eitthvað  víst að hann gefist eitthvað verr í Orkuveitunni  en til dæmis Alfreð Þorsteinsson ?

Jón Gnarr er ekkert Narr. Leið hans getur bara legið upp á við.


Kjarnorkukonur

voru í Útvarpi Sögu núna áðan, Borghildur Maack, Sigríður og María held ég þær hafi heitið. Þær eru frá samtökum sem heita BÓT. Markmið þeirra samtaka er að þau verði óþörf sem fyrst. En þangað til vilja þær vinna BÓT á fátæktinni á Íslandi sem þær segja ægilega um þessar mundir.

Fátækt hafi alltaf verið til í landinu en nú standi yfir hamfarir í fátækt. Þær fundu ekki rétta orðið en mér fannst þær meina það, að hreina örbirgð sé að finna meðal okkar smæstu bræðra og systra.  Þær sögðu dæmi af gamalli konu sem borðar hrísgrjón með tómatsósu annan daginn og spaghetti með sojasósu hinn daginn til þess að draga fram lífið. Ég er sannfærður um að þær segja þetta satt.

Þær ræddu um biðraðirnar eftir matargjöfunum sem mörgum eru þungbærar. Þær höfðu einfalda lausn á því. Útgáfu debetkorta sem fólkið fengi. Slíkt gáfað kerfi getur stýrt og skráð betur en nokkuð annað.  Mótbárur sem þær heyrðu væru þær helstar að fólkið sjálft myndi ekki fá þann afslátt sem fjölskylduhjálpin fengi.

Auðvitað er þetta manneskjulegri leið. Auðvitað getur fjölskylduhjálpin samið við verzlun um afslátt sem rynni til útgefandans gegn því að fá viðskiptin. Súllenberger og Jón Helgi myndu áreiðanlega vera til viðtals þó svo að Arijón banki yrði það ekki.Og þetta sparar líka afgreiðslukostnað og allt umstangið við að reka hjálparstöðina.

Þær röktu líka það fáránlega kerfi sem er í gangi hjá "Skerðingastofnun Ríkisins" sem þær nefndu svo, Hvernig bætur eru skertar ef bóta-eða lífeyrisþegi sýnir minnstu peninga einhversstaðar frá. Við þetta vinnur legíó af liði alla daga við að reikna út í kerfi sem er orðið svo flókið að enginn skilur það lengur.  í hlutverki Nasareddíns þegar hann var að skipta milli manna? 

Er það ekki líka svo að við erum farin að eyða alltof miklu við að leysa einföld mál. Það kostar bara meira að skerða hjá hinum snauða heldur en að láta hann í friði með einhverjar krónur sem hann getur harkað út. Getur einhver sannað þetta eða hrakið?

Þetta eru kjarnorkukonur sem þarna töluðu. Innblásnar hugsjónakonur.Svona fólk á að hlusta á og við hin ættum að reyna að styrkja þær í þeirra viðleitni.  Það er dýpkandi kreppa og versnandi ástand hjá fjölda fólks. Gleymum því ekki þó að lítið heyrist í þessu fólki.

Þetta samfélag getur ekki verið þekkt fyrir það að fólk svelti og veiklist af næringarskorti.

Vinnum að úrbótum með slíkum kjarnorkukonum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband