Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Krónan mun rísa úr öskustó.

Evran er ekki það gersemi sem margir halda. Ef ekki bara Gylfaginning ?  

 

Lesin inn: 29.3.2010

Ég var að lesa hugleiðingar Gunnars Rögnvaldssonar í þunglyndi mínu yfir því hvað engum blogglesanda finnst neitt athugavert við ræðu Gylfa Magnússonar ráðherra  á ársfundi Seðlabankans um það, hversu ómögulegt væri fyrir Íslendinga að hafa eigin gjaldmiðil áfram.

 

Gunnar birtir á sínum síðum línurit yfir hagsögu Írlands eftir að þeir tóku upp evruna. Ég leyfi mér að endurbirta það hér til að vekja athygli á þeim staðreyndum sem við blasa. Í stuttu máli virðist landsframleiðsla dragast miklu meira saman á Írlandi en til dæmis á Íslandi. Atvinnuleysi fer vaxandi.  

 

Maður þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þess að muna eftir því að menn töluðu um írska undrið. Eftir umbætur í skattamálum streymdu fyrirtæki til Írlands og uppgangur landsins var öfundarefni víða um heim. Allt er þetta breytt. Írar tóku upp evruna með þeim afleiðingum að þar er nú allt í kaldakoli. Enginn hefur lausn á því hvað gera skuli. Vegna þess að það er ekki hægt að fella gengið þegar búið er að taka upp evruna. Það er ekki hægt pólitískt að gefa út tilskipun um að öll laun skuli lækka um tiltekinn  hundraðshluta en allt innflutningsverðlag skuli hækka um annan hundraðshluta. Þetta gerist í gengisfellingu hjá þjóðfélögum sem eru búin að spila rassinn út buxunum með kauphækkunum sem engin innistæða er fyrir. Þjóðfélög sem kasta sér út í kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. Allt samgróið sögu hinnar íslensku þjóðar.

 

Núna eru menn sem óðast að gleyma því hvað var gert í þjóðarsáttinni 1990. Þá talaði Einar Oddur svo skýrt mál fyrir þjóðinni, að örmagna fólkið skildi nauðsyn þess að reyna nýjar leiðir eftir að hinar hefðbundnu höfðu brugðust.  Einar hafði áður sannfært forystumenin verkalýðshreyfingarinnar eins og Guðmund Jaka og forystumenn vinnuveitenda um að ganga skynseminni á hönd. Jafnvel Ólafur Ragnar dró samninga við BHM til baka vegna skriðþunga þungavigtarmannanna og  vinstristjórn Steingríms Hermannssonar glúpnaði fyrir Oddinum. Nú hljómar því miður ekki rödd  Einars Odds lengur á þjóðmálasviðinu. menn koma ekki í manns stað í öllum tilvikum.  Nú halda margir menn ræður hástöfum og bjóða allsherjarlausnir án þess að gæta að grunninum sem Einar Oddur skýrði aftur og aftur fyrir mönnum þangað til að þeir sáu ljósið.

 

Sem er að tekjur verða að hrökkva fyrir gjöldum.  Einar Oddur sagði í raun ekkert annað við þjóðina. Hann hafði aðeins þennan einstaka sannfæringarkraft sem dugði til þess að fólkið trúði honum.Ég tel Einar Odd hafa verið einn af mestu mönnum síðustu aldar, slíkan ljóma finnst mér leggja frá hans störfum í Vinnuveitendasambandinu við gerð þjóðarsáttar. Nú eru váboðar framundan og kröfugerðir um kauphækkanir einstakra stétta um tugi prósenta fram komnar. Nú vantar rödd Einars Odds sárlega til þess að útskýra fyrir þjóðinni hvernig hófstilling muni færa viðkomandi meiri kjarabætur fyrr heldur en verkföll og verðbólga. Undir slíkri forystu myndi þjóðin verða árum fyrr að ná vopnum sínum heldur en nú horfir.

 

Mér finnst langur vegur frá því að Gylfi Magnússon  hafi þennan sannfæringarkraft þegar hann boðar Íslendingum upptöku evru. Hann getur heldur ekki bent á önnur lönd sem dæmi um hvernig þetta reynist. Er þá furða þó að ég efist um boðaðar Evrópuráðagerðir og finni ekki sannleikann í boðskap bandalagssinnanna?

Hvaða rök liggja til þess að línurit fyrir evruvætt Ísland muni líta öðruvísi út en línuritið um Írland hér að ofan? Svo eru líka Spánn og Grikkland.  Evrutengt Lettland hefur hrunið mest allra ríkja. Danmörk heldur sjó ennþá en hversu lengi?. Hvenær gefst Þýskaland upp á að draga evruvagninn?   

Nei, ég held að krónan sé okkar leið upp úr öldudalnum. En dalbotninn er langur og lengist eftir því sem Vinstri Grænum  í misskilningi sínum á eðli þjóðfélaga  tekst að koma í veg fyrir allar leiðir Íslendinga til hagvaxtar og atvinnu í landinu.  Þegar erlend fjárfesting streymir til landsins á ný og vinnufúsar hendur leggjast á plóginn mun íslenska krónan blómstra á ný. Við verðum hinsvegar að gæta hennar vel og leggja rækt við hana. Hún mun fljótt svara góðu atlæti og rísa úr öskustó. 


Ekki eitt einasta orð...

   

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra, krati sem enginn Íslendingur hefur kosið til eins eða neins,  hélt ræðu á ársfundi Seðlabankans. Ég hef nú aldrei fallið í stafi frammi fyrir þeim hátíðleika sem þessi stofnun hefur sveipað sig í frá dögum Jóhannesar Nordal, sem hóf sjálfan sig hátt yfir aðra dauðlega á hátíðlegum gengisfellingardögum sínum þar. Það er áfram haldið áfram að leika árlega farsa um fagnaðarerindi bankans með álíka hátíðleika og tíðkast í Péturskirkjunnni við páfakjör. En þessi Seðlabanki okkar  er í besta falli  fallítt eftir hrunið og er rekinn á prentvélum einum. Lof og dýrð sé fimmþúsundkallinum sem við tilbiðjum sem ekkert stendur á bak við nema það að við viðurkennum þennan marglita pappír.

  

Gylfi sagði meðal annars:

  

  

„Í mínum huga leikur enginn vafi á því að mjög erfitt verður að byggja upp skilvirkt fjármálakerfi hérlendis án þess að það fái traustari grunn til að byggja á en íslensku krónuna.“...

  Hvað er þessi maður að segja ? Hann sér greinilega  enga framtíð fyrir Ísland utan Evrópusambandsins.Ekkert líf nema píslir utan þess ?  Þetta er maður sem eins og Samfylkingin öll vill selja frelsi og sjálfstæði Íslendinga fæddra sem ófæddra landsins fyrir yfirþjóðlegt vald.  Jafnvel þó að hann hafi Grikkland og hörmungasögu þess þess fyrir augunum. Þrátt fyrir Írland, Lettland og Finnland. Manni sundlar við að gera sér ljóst að svona hugsanagangur ráði ríkjum í fjármálakerfi landsins til langframa.  Hvar var þessi maður árin fyrir hrun ?  Þá gátu menn átt og notað alla gjaldmiðla heimsins eins og þeir vildi. Þá ríkti hér bjartsýni og Samfylkingin lofaði útrásarvíkinga öðrum hærra nema ef forsetinn væri þar fremri. Nú eru Íslendingar múraðir inni í svartnætti sovésks hagkerfis Gylfa Magnússonar og Steingríms J. Sigfússonar. Meðan þeir ráða ríkjum hér sé ég enga von til þess að Íslendingar komist uppúr öldudalnum. Enga !  

 „ Reynum við það þá munu Íslendingar fyrirsjáanlega búa áfram við óstöðugra verðlag, meiri gengissveiflur og hærri vexti, bæði raunvexti og nafnvexti, en viðskiptalönd okkar. Þá munum við jafnframt áfram ein landa í okkar heimshluta búa við tvískiptan gjaldmiðil, verðtryggðar og óverðtryggðar krónur. Kostir sveigjanleikans sem sjálfstæð mynt gefur vega ekki þungt á móti þessu. Jafnvel þótt við sættum okkur við bankakerfi sem verður lítið og að verulegu leyti einangrað frá bankakerfum nágrannalandanna, líkt og hið íslenska var lengst af, þá fylgja því miklir ókostir að byggja það á óstöðugri mynt. ....“  

Skyldu þessar yfirlýsingar  hafa valdið brosviprum einhverra í Seðlabankanum ?  Væri ekki æskilegra að um  varðveislu fjár og lánskjör milli manna ríkti frjálsræði.  Það skilja stjórnlyndismenn ekki.  Miðstýring alls og höft hafa lengst af verið helstu viðfangsefni þessa banka. Þessi banki hefur eftar en ekki  verið með vitlaust termóstat sem reyndi  að lækka hitann á Íslandi  með því að kalla á meiri straum frá útlöndum  eins og hann gerði fyrir hrunið. Jók vandann í stað þess að minnka hann. Sama má segja um vaxtaákvarðanir bankans frá flestum tímu. Þær hafa verið settar á of seint og því verið tilraun til fortíðarstýringar fremur en framtíðar. Hafi nokkur stofnun brugðist þjóðinni hrapallega í ferlinu fyrir hrunið þá var það Seðlabanki Íslands. Nú veldur hann  þjóðinni tjóni með haftapólitík og þjónkun við sovéthagfræðina sem hér ríkir. En nú er honum að vísu meiri vandi á höndum en oft áður.  

 „Annars vegar gegndi bankinn og starfsfólk hans lykilhlutverki við að halda greiðslumiðlun landsmanna, bæði erlendri og innlendri, virkri þótt fjármálakerfið hryndi. Það tókst með ótrúlegu átaki. Hins vegar var fyrir ári síðan unnin afar mikilvæg rannsókn á skuldastöðu íslenskra heimila á vegum Seðlabankans. Slík vinna skiptir sköpum í vinnunni við að taka á þeim vanda. Ég veit ekki til þess að sambærileg rannsókn hafi verið unnin áður í neinu landi.“.. 

 Hvaða  afrek var unnið ?  Var ekki  bara haldið áfram að færa bókhaldið undir nýrri yfirstjórn hinnar nýju auðstéttar í skilanefndunum ? Ég kem ekki auga á neitt afrek í þessu sambandi en er kannski of vitlaus. Ég hélt að menn hefðu  bara unnið vinnuna sína áfram. Og var eitthvað þessu þessum ráðherra, sem enginn hefur kosið eða óskað eftir að sitji í hærri valdastöðu heldur en að kenna afstæð fræði uppi í háskóla, að þakka?  Hvað er hann svo  eiginlega að vilja  tala um stjórnmálalega ábyrgð sína ?  

„Dæmi sem þessi sýna hve miklum mannauði bankinn býr að. Með öflugri forystu getur sú sveit gegnt lykilhlutverki í endurreisn íslenska fjármálakerfisins. Ég hef enga ástæðu til annars en að ætla að það gangi eftir. Þá verður vissulega ástæða til að horfa björtum augum til næstu hálfrar aldar í lífi Seðlabanka Íslands. „

 

Til hvers verður Seðlabanki Íslands ef hér verður tekin upp evra ? Evrudreifingaraðili fyrir Seðlabanka Evrópu? Skýrslugerðarastofnun ? Verður hann bara ekki sameinaður Hagstofunni ?

 

Ég fann því miður ekki  eitt einasta orð sem höfðaði til mín sem raunverulegt viti í allri ræðu viðskiptaráðherrans á ársfundi Seðlabankans. En auðvitað er ég bara svona vitlaus að trúa á það að frjáls viðskipti en ekki einræði, planökonómí, og höft séu undirstaða framfara.


Dýr myndi Hafliði allur !

Eftirfarandi pistill birtist í VOGUM nýlega. Þetta var skrifað úti á Florida í skyndingu eftir beiðni ritstjórans og af fingrum fram án allra uppflettuinga í tölur Seðlabankans og Hagstofu, heldur algerlega af kaffibollainnsæi í tímaskorti. En mér þykir gaman að því að niðurstaðan er all sekki ólík því sem ASÍ er núna að reikna sem tjón af stjórnarsetu VG. Fyrir þá sem ekki lesa stórblaðið VOGA læt ég það flakka:

"Annar stjórnarflokkurinn, Vinstri Grænir, hefur lýst því yfir að þeir telji hagvöxt á Íslandi ónauðsynlegan. Þjóðin geti búið við það sem hún hefur. Meira þurfi ekki. Þetta er erfitt að útskýra fyrir þeim 17-20.000 manns sem eru án atvinnu um þessar mundir.Þessu fólki þarf að borga atvinnuleysisbætur sem nema hugsanlega  20-30 milljörðum á ári. Án hagvaxtar skapast ekki störf fyrir þetta fólk. Það er mjög ólíklegt að hið opinbera muni fjölga hjá sér störfum sem þessu nemur þrátt fyrir aukina skattheimtu á hendur þeim sem enn starfa, fyrirtækjum sem einstaklingum.  Ég ætla að leika mér hérna af fingrum fram með áætlaðar tölur, sem ég tek fram að eru gróf skot og áreiðanlega má finna snögga bletti á í þjóðhagsskýrslum. En hvað sem því líður er ég ekki viss um að raunveruleikinn sé svo ýkja fjærri niðurstöðunum.

 Ef við áætluðum að  4000 manns hafi verið án starfa árið 2008 fyrir hrun, þá gætum við áætlað að um 13-15.000 manns í dag séu ekki að vinna núna sem voru að vinna þá og myndu vera að vinna núna ef atvinnu væri að hafa.  Launatekjur þessa fólks hefðu þá hugsanlega geta numið 30-50 milljörðum sem hefðu komið í stað atvinnuleysisbótanna sem áður voru nefndar. Árlegur heildarskaði gæti því verið að nálgast 70 -80 milljarðana. Ef þjóðarframleiðslan hefði verið  áætluð 1400 milljarðar fyrir hrunið gæti þessi mismunur  nálgast 5 % tapaðs hagvaxtar.  Maður getur því séð fyrir sér hvað hagvöxtur þýðir. Hvert prósent getur  þá þýtt  líklega 10 milljarða í auknum launatekjum fólks. Og svo  til viðbótar stórum minni ríkisútgjöld vegna minni atvinnuleysisbóta. Þetta er auðvitað mun áhrifameira en þessar tölur segja vegna margfeldisáhrifanna sem allt atvinnulíf hefur í för með sér.  

Vilja ekki allir fá þá tíma aftur sem hér ríktu fyrir hrun? Gjaldeyrisfrelsi, fjármagnsfrelsi, þjóðfélagið barmafullt af bjartsýni og störf fyrir allar vinnufúsar  hendur? Vissulega fór eitt og annað úrskeiðis á þessum tímum og hefði betur mátt fara.  En í dag dugar skammt að æpa pólitísk vígorð eins og hið fræga “helvítis fokking fokk” yfir ástandinu sem nú ríkir. Þetta ástand vill enginn hafa til lengdar.  Og þó ýmsir stjórnmálamenn tali í síbylju eins og heimshrunið hafi allt verið Sjálfstæðisflokknum að kenna, þá dugar það fólkinu ekki til lengdar. En því miður er þetta ástand neikvæðninnar ekki að láta undan síga á Íslandi meðan núverandi stjórnarstefna neikvæðs hagvaxtar ríkir í landinu.

Þegar allar framfarir virðast  tafðar með skipulögum hætti og hvergi örlar á hvatningu frá leiðtogum landsins heldur sífellt svartagallsraus og hótanir um Ragnarök framundan ef ekki sé látið að þeirra vilja. Það er auðvitað lítt skiljanlegt flestu venjulegu fólki að heill stjórnmálaflokkur telji þjóðarbúið ekki hafa þörf fyrir hagvöxt. Eitthvað annað geti komið hans í stað í þjóðarbúskapnum án þess að á það sé bent sérstaklega.   En mánuðirnir líða svona áfram án þess að nokkuð komi í staðinn og vandinn vex.   Það er búið að flæma erlenda fjárfesta frá landinu  með ákvörðunum um aukin umhverfismöt á virkjunum og línum, tafir á ákvörðunum, deilum um allt milli himins og jarðar,  sem nota má til að fresta og tefja fyrir öllu sem gæti leitt til hagvaxtar í landinu. Þetta hefur allt grafið undan trúverðugleika landsins útá við, sem átti þegar undir högg að sækja. Það eru þegar eitt ár liðið í minni hagvexti vegna aðgerðaleysis stjórnvalda og líklega munu eitt eða tvö ár bætast við svo sem horfir.  Vinstri Grænum er þó  ekki einum um að kenna þegar yfir allt sviðið er litið.

Samfylkingin, sem helst virðist hafa verið mjög lengi utan stjórnar þegar rætt er um tímann fyrir hrunið, virðist eiga það eina áhugamál  eftir að Öryggisráðsframboðinu lauk, að eiga aðildarviðræður við Evrópubandalagið sem nú standa yfir við misjafnan fögnuð þjóðarinnar. Engar hagvaxtartillögur hafa komið frá þeim flokki heldur. Efnhagslíf Íslendinga er með þeim hætti, að það hefur mikla möguleika á að ná sér mun fyrr útúr kreppunni en annarsstaðar gerist. En til þess þarf að halda betur á spilunum og nýta þær auðlindir sem landið býr yfir. 

Hver dagur sem líður við þetta ástand aðgerðaleysis verður að viku, hver vika verður að mánuði, og mánuðir að árum. Það eru núna liðnir meira en 18 mánuður frá hruninu og atvinnulíf landsmanna  hefur stöðugt dregist saman. Æ fleiri fyrirtæki lenda í þroti og eru yfirtekin af ríkisbönkunum þó þau séu svo afhent fyrri stjórnendum aftur með afskrifuðum lánum. Skuldavandi heimilanna er hinsvegar óbreyttur, æ fleiri fjölskyldur sjá ekki fram úr erfiðleiknunum og fógetar eru hvarvetna á ferð. Í hvað hefur þá tíminn frá hruninu farið ? Svari hver sem vill.  

200 milljóna tapaður hagvöxtur á hvern einasta dag sem líður í þessum limbódvala  ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. er reiknistærð sem maður getur velt fyrir sér. Þetta eru til dæmis tveir milljarðar á tíu dögum. 

Hversu dýr getur  Hafliði  enn orðið ?     "

 

Kvótafyrningin og þjóðin.

Ég var á vönduðum fyrirlestri hjá Jóni Gunnarssyni alþingismanni þar sem hann fjallaði um kvótann og boðaða fyrningu ríkisstjórnarinnar um 5 % árlega. Fundurinn var haldinn í Sjálfstæðishúsinu í Kópavogi og var fjölsóttur. Mér skildist að Jón myndi fara vítt um land með þetta erindi og tel ég það vel í alla staði ef menn vilja ræða kosti og galla málefnalega og án þeirrar uppivöðslu og alhæfinga sem mörgum er svo hætt við  að grípa til þegar kvótakerfið kemur á dagskrá.

Jón birti sem dæmi um kvótaþróun frá 1984 til þessa dags  yfirlit um kvótasögu Þórunnar Sveinsdóttur frá Vestmannaeyjum. Í upphafi fékk skipið úthlutað ca.400 tonnum af þorski 1984 við setningu kvótalaganna. Á fyrsta ári var sá kvóti rýrður um einhver 170 tonn. Í dag á skipið einhver 1200 tonn af þorski og heilmikið af öðrum tegundum eins og til dæmis skötuselnum. 95 % af heildarkvótanum hefur útgerðin keypt af öðrum. Skuldar sjálfsagt bönkum fúlgur vegna þessa. En fyrri vinstri stjórn "okkar framsóknarmanna" og m.a. Steingríms J. Sigfússonar og annarra kommúnista 1989 leyfði veðsetningu aflaheimildanna til þess að hjálpa útgerðinni að hagræða. Nú eru þetta bankaskuldir með veði í öllum eigum útgerðarinnar. Jón taldi að skuldastaða útgerðarinnar væri minni en margra annarra atvinnuvega og kom það mörgum á óvart.

Jón sýndi tölur sem sýndu að skipum hefði fækkað um helming frá því að kvótinn komst á. Jafnfram hefði rekstur sjávarútvegsins, sem stæði undir allt að fjórðungi landsframleiðslunnar þegar allt væri talið, orðinn sá besti í heimi og önnur lönd horfðu til Íslands sem fyrirmyndar um veiðistjórnun. Nú væri ríkisstjórnin að boða að innkalla 5 % af kvótanum árlega og taka hann allan til sín á 20 árum. Þetta á að gerast bótalaust. Nú vissu allir að það væri síðustu prósentin sem skiptu sköpum í öllum rekstri. Það stæðist því ekki að halda því fram að 5 % væru svo lítið að það skipti engu máli. Á tuttugu árum færi allur kvótinn frá útgerðinni en skuldirnar vegna kaupanna sætu eftir.

Svona væri ekki hægt að fara fram og fráleitt að fullyrða að veiðar á skötuselnum skiptu engu máli í þessu sambandi. Auðlindin væri eign þjóðarinnar, um það væri ekki deilt. Hvernig ætti að nýta hana taldi Jón vera auðsætt að það yrði best gert af þeim sem til þess hefðu tæki og reynslu. Sjávarútvegurinn greiddi auðlindagjald og yrðu breytingar á fyrirkomulagi að gerast með víðtækri sátt en ekki með 5 % árlegri fyrningarstefnu ríkisstjórnarinnar.

Fróðlegar umræður urðu að loknum fyrirlestri Jóns. Einn ræðumanna benti á að skötuselur væri flökkustofn og engan veginn íslenskur. Útbreiðsla hans við Ísland hefði breyst í seinni tíð. En ef breyting yrði til baka sagðist hann ekki vera í vafa um að Hafró myndi kenna um ofveiði eins og endranær þegar breytingar yrðu í sjónum. Fundurinn leystist því miður upp í stjórnlaust rifrildi utan úr sal þannig að málefnaleg umræða leið fyrir.

Mér þótti fyrirlestur Jóns hinn fróðlegasti í alla staði. En mín skoðun er sú að á fundum um svona stórt mál og tilfinningaþrungið, verði að vera ákveðin fundarstjórn, þar sem menn megi aðeins koma með skriflegar fyrirspurnir til frummælanda sem þeir mega lesa í pontu en ræðuhöld upptendraðra manna um einkaskoðanir sínar verði þá teknar á öðrum fundi sem þeir geta þá boðað til. Fyrirlestur Jóns var ágætur, vel undirbyggður  og fræðandi og slíku erindi er ekki við hæfi að svara með slagorðum heldur rökum sem verða að vera undirbúin og byggjast á staðreyndum.  En það eru auðvitað fá mál sem eru eins umdeild og "gjafakvótakerfið" svokallaða, þar sem þeir tala oft hæst sem eru búnir að selja sinn kvóta og vilja byrja uppá nýtt. Það er hinsvegar bráðnauðsynlegt að fólk almennt fari að velta fiskveiðistjórnuninni fyrir sér og með hvaða hætti megi skapa meiri sátt um hana.

Undirritaður hefur talið að auðlindagjaldið hefði verið sú sáttargjörð sem menn hefðu getað sætt sig við. Nýliðun í greininni verður allaf erfið, hefur alltaf verið erfið en ekki ómöguleg.  En þeir prédikarar sem hæst láta komast ekki frá fyrstu úthlutuninni, sem þeir telja ránsfeng hinna fáu. En var hægt að byrja kerfið einhvernvegin öðruvísi?  Það er greinilega ófær leið í sjávarútvegi, að hafa einskonar Landsútgerð sem nytji fiskimiðin eins og Landsvirkjun vatnsorkuauðlindirnar og Hitaveitur jarðvarmann. Það er hægt að segja allir mega veiða eins mikið og þeir geta á sem skemmstum tíma. Fjölgum skipum sem allra mest og veiðum aflamagnið á einum degi þar sem allir eigi jafnan aðgang. Eða hafa skipulagið eins og það er.

Skipin koma sumstaðar inn á mánudagsmorgni með 200 tonn af tiltekinni tegund og ekki ugga af neinu öðru. Vinnslan gengur eftir klukku og enginn hefur séð neitt frákast eða þannig lagað. Frystiskipin ganga með fjórföldum afköstum frá því sem áður var. Samherji hefur keypt upp mestan kvóta Breta og víða  gengur vel í sjávarútvegi nema hjá þeim útgerðum sem voru í verðbréfabraskinu með útrásarvíkingunum. Hefur nokkur velt fyrir sér af hverju þeir Bónusfeðgar voru ekki búnir að leggja undir sig útgerðina líka ? Þótti þeim hún vera of áhættusamur bransi?

Sá sem þetta ritar hætti við að taka til máls vegna upplausnarinnar á fundinum. En hann hefði þó viljað benda á tvennt:

1. Ef taka á kvóta af einhverjum sem hefur keypt hann á markaði og gera hann upptækann  til ríkisvaldsins, þá hljóta að koma fullar bætur fyrir samkvæmt stjórnarskrá. Ríkinu ætti þá að vera í lófa lagið að taka við veðskuldum vegna þessa og létta af gerðarþolum.

2. Hverjir eiga að kaupa kvótann sem losnar?

Undirritaður er ekki í vafa um það, að þegnar Efnahagsbandalagsins myndu ásælast að kaupa hann hvað sem svo liði einhverjum gervigirðingum.  Er það ekki einmitt í samræmi við pólitíska stefnu þeirra sem standa að þessari 5 % árlegu fyrningarleið að svo verði ?  Sjávarútvegurinn á hvort sem er að falla undir lögsögu Efnahagsbandalagsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna þegar í Bandalagið kemur.

 Er 5% x 20 ára fyrningin þá ekki í samræmi við boðaða stefnu Samfylkingarinnar ? Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópubandalagsins og sjávarútvegsmálum Íslendinga stjórnað í samræmi við hana ? 

Kvótafyrningin og Samfylkingin.

Eru þetta ekki kvistar á sama meiði pólitísks framsals sjálfstæðis landsins til Brüssel ?

Er það þetta sem þjóðin vill ?   

 

   


Á Helvegi

Þjóðin stefnir ótrauð áfram norður og niður. Eina efnahagslega lífsvonin héldu menn lengi að væri  að reyna að halda stöðugleika í þjóðarsáttarstíl með því halda launum óbreyttum til að ná verðbólgunni niður og þarmeð genginu upp til lífskjarabóta. Seðlabankastjóri telur nú gengishækkun ólíklega.

Flugumferðarstjórar riðu á vaðið og svo komu flugvirkjar á eftir. Síðan koma allir hinir, lögreflan,ljósmæður,kennarar. Allt hefur þetta fólk dregist afturúr. Kauphækkun um 15-20 % fyrir alla þýðir verðbólgu sem nemur líklega  40 % á fyrsta ári  .Síðan koma leiðréttingar á leiðréttingu ofan. Dollarinn fer í 250 kall innan tveggja ára. Það er líklega tuttugu ára óðaverðbólga framundan. Samtök atvinnulífsins hafa sagt sig frá stöðugleikahugmyndum. Þeir hafa vígbúist og búast til samninga um stórfelldar launahækkanir í haust þegar verkföllin skella á . Nú er enginn Einar Oddur eða Guðmundur Jaki til að tala með röddum skynseminnar.

Þjóðin gengur hnarreist og glöð fram Helveginn sem hún þekkir svo mæta vel frá vinstristjórninni 1971.

Spennandi tímar framundan á Helvegi við lúðrablástur hagvaxtarsleysis VG.  


Hvalreki ríkisstjórnarinar.

Mikill hvalreki fyrir ríkisstjórnina er þetta eldgos á Fimmvörðuhálsi. Skyndilega er ekkert verið að spyrja ríkisstjórnina að neinu, ekkert þrasað um Icesave eða skjaldborgina um heimilin, tjón þjóðarinnar vegna  stóriðjustoppsins, stöðugleikasáttmálans í skötulíkinu, ESB viðræðurnar eða hvaða vonbrigði sem er. Allt er núna á lygnum sjó af því að fjölmiðlar tala bara um eldgosið. Mikið hlýtur ríkisstjórnin að vera hvíldinni fegin.

Eldgosið er sannkallaður hvalreki fyrir ríkisstjórnina.


Gott hjá Ragnheiði Elínu.

Ragnheiður Elín tekur myndarlega undir gagnrýni okkar á hindranir kommúnista í því að vinna að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Grípum niður í grein Ragnheiðar:

 

" VIKUNNI bárust jákvæð tíðindi af enn einu atvinnuþróunarverkefninu sem er í undirbúningi á gamla varnarsvæðinu á Ásbrú í Reykjanesbæ. Verkefni sem unnið hefur verið að um margra mánaða skeið í nánum tengslum við stjórnvöld í landinu og sveitarstjórnir á svæðinu og hefur í för með sér mikilvæga erlenda fjárfestingu og 150-200 tæknistörf á svæði sem glímir við stórfellt atvinnuleysi.

 

Fyrirtækið E.C.A. hyggst byggja upp heimastöð hér á landi fyrir óvopnaðar flugvélar sem munu þjónusta hinar ýmsu aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins, varnarbandalags sem við Íslendingar höfum verið aðilar að í yfir 60 ár. Varnarbandalags sem stendur fyrir reglulegum æfingum innan aðildarríkja sinna, m.a. á Íslandi, til þess að tryggja öryggi borgara sinna og frið og stöðugleika í álfunni.

 

....Þjónusta fyrirtækisins felst m.a. í því að leigja viðkomandi þjóðum flugvélar til heræfinga. Engar heræfingar munu fara fram á Íslandi á vegum fyrirtækisins, en öll viðhalds- og tækniþjónusta þess er fyrirhuguð hér á landi. Hugmyndin er sem sagt sú að setja upp viðhaldsstöð þar sem íslenskir flugvirkjar, hugbúnaðarsérfræðingar, verkfræðingar og skrifstofufólk af ýmsu tagi munu vinna við að þjónusta óvopnaðar þotur, reka flughermi sem notaður er til að þjálfa flugmenn og svo mætti lengi telja.

 

En það ekki var að sökum að spyrja, Vinstri grænir (reyndar fyrir utan VG á Suðurnesjum) og hluti Samfylkingarinnar fóru algerlega af hjörunum og lýstu undir eins megnri vanþóknun sinni á þessari starfsemi. Ímynd landsins væri að veði og þetta væri algerlega af síðustu sort. »Ég gef ekkert fyrir þau rök að þetta sé í nafni atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Við hljótum að setja einhver siðferðismörk um þá atvinnustarfsemi sem hér fer fram,« var haft eftir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í Fréttablaðinu.

 

»Siðferðismörk« segir þingmaðurinn ábúðarfullur. Má ég þá spyrja hvar þau mörk byrja og hvar þau enda? Má íslenskt fyrirtæki eins og Arctic Trucks, sem hefur sérhæft sig í að breyta jeppabifreiðum, taka að sér að breyta bílum sem e.t.v. eru notaðir í hernaði? Er það innan siðferðismarka þingmannsins? Má íslenskt flugfélag kaupa flugvélar af Boeing-fyrirtækinu sem sannarlega framleiðir líka flugvélar sem notaðar eru í hernaði? Getur þingmaðurinn yfirleitt flogið í Boeing-flugvélum - ferðast hún ekki sjálfkrafa yfir siðferðismörkin þá? Hvað með fiskinn okkar góða sem við flytjum út, getum við verið algerlega viss um að hans sé aldrei neytt í mötuneytum einhverra herja NATO-ríkjanna? Eigum við ekki til öryggis að banna útflutning á fiski af siðferðilegum ástæðum?

 

Nei, auðvitað hefur þetta ekkert með siðferðismörk að gera heldur er þarna verið að setja nýtt met í pólitískri hræsni. Og ég gef ekkert fyrir það. Ég gef hins vegar mikið fyrir rökin fyrir því að við megum aldrei sætta okkur við atvinnuleysi. Við eigum að setja okkur þau siðferðismörk að gera allt sem við getum til þess að tryggja öllum vinnufúsum höndum atvinnu. Fyrir hönd Suðurnesjamanna bið ég þessa ríkisstjórn í allri vinsemd að hætta að standa gegn atvinnutækifærum á svæðinu - við höfum líka okkar mörk og þið eruð komin yfir þau!"

Nú stendur yfir verkfall flugvirkja. Þeir heimta 15 % kauphækkun við þær dýpstu atvinnuhörmungar sem yfir þessa þjóð hafa riðið. Hversvegna eiga flugvirkjar fremur að fá 15 % kauphækkun en til dæmis ljósmæðu, kennarar, ræstitæknar á spítölunum ? Af því að þeir treysta sér til þess að sækja þetta fram með ofbeldi.

Nú er í boði að fá aukin atvinnutækifæri fyrir flugvirkja á Keflavík eins og Ragnheiður fjallar um í greininni. Þá talar Steinunn Valdís um siðferðismörk. En er verkfall flugvirkja þá siðlegt athæfi gegn þjóð í vanda? Eða ríkir gamla sjónarmiðið: "Hvað varðar mig um þjóðarhag?" Við eerum ekki þjóð heldur hagsmunaklíkur.

Nú horfir þjóðin til Steinunnar Valdísar til að taka á atvinnumálum þjóðarinnar og verja þjóðarhag.

Vill hún leggja til 15 % kauphækkun á allar stéttir þjóðfélagsins ? Og þá engin verkföll?

Ragnheiður Elín á þakkir skyldar fyrir að minna svona á tvískinnunginn sem ávallt veður uppi hjá kommatittunum. Meðan þeir eru við völd og áhrif verðu ekkert nema afturför í atvinnumálum þjóðarinnar. Burt með þessa ríkisstjórn og kjósum uppá nýtt. Þessi stefna skattlagningar og eyðslu er helstefna sem dregur mátt úr þjóðinni.

Takk fyrir þessa grein Ragnheiður Elín.



 


Hvað segir Loftur Altice?

Loftur Altice Þorsteinsson skrifar skynsamlega grein í Morgunblaðið um Icesave í dag. Mig langar að undirstrika hvernig hann skilgreinir innistæðustryggingasjóðina í Bretlandi og Hollandi. Mér er ekki grunlaust um að það sé verið að blanda saman ríkissjóði Íslands og þeim sjóðum sem eeru í hlutverki innistæðutryggjenda. Loftur segir m.a.:

......"Í samræmi við fyrirmæli Evrópusambandsins eru starfandi innistæðutryggingasjóðir í Bretlandi og Hollandi. Icesave-útibú Landsbankans greiddu full iðgjöld til þessara sjóða, eins og aðrir bankar í þessum löndum. Innistæðueigendur í Icesave-útibúunum nutu því fullra innistæðutrygginga, sem merkir sömu lágmarkstryggingar og þeir hefðu fengið hjá öðrum bönkum. Í Bretlandi nefnist tryggingasjóðurinn FSCS (Financial Sevices Compensation Scheme) og lágmarksbætur til hvers einstaklings (ekki reiknings) eru £50.000. Í Hollandi nefnist tryggingasjóðurinn DNB (De Nederlandsche Bank) sem er seðlabanki Hollands og lágmarksbætur til hvers einstaklings eru 100.000.Í báðum tilvikum eru upphæðirnar langt umfram þær 20.887 sem Evrópusambandið hafði ákveðið sem lágmarkstryggingu og Tilskipun 94/19/EB er því uppfyllt með þessum tryggingum. Þess má geta að Icesave-kröfur Bretlands og Hollands virðast vera nálægt 10% af hreinum eignum tryggingasjóðanna.

 

 

Greiðslu iðgjalda til trygginga-sjóðanna í Bretlandi og Hollandi er hagað með örlítið öðru móti en hér á landi. Hérlendis er gert ráð fyrir greiðslu peninga að loknu hverju rekstrarári, en í Bretlandi og Hollandi fer greiðslan fram i formi skuldabréfa, sem innheimt eru þegar tryggingasjóðirnir hafa þörf fyrir fjármagn. Bankarnir eru því með iðgjöldin í sínum rekstri og ef engin áföll verða greiðast iðgjöldin aldrei. Þegar greiðslufall varð hjá Icesave-útibúunum bar tryggingasjóðunum að greiða út tryggingarnar og það var gert í samræmi við lög og reglur.

 

 

Til að fjármagna greiðslurnar voru fengin lán hjá seðlabönkum landanna. Jafnframt var hafin innheimta á skuldabréfum í eigu sjóðanna og stendur hún yfir. Þegar innheimt hefur verið frá bönkunum fá seðlabankarnir sína fjármuni til baka með vöxtum. Tryggingabætur vegna Icesave-útibúanna koma því á endanum frá starfandi bönkum í Bretlandi og Hollandi. Staðan er því sú, að ríkisstjórn Íslands hefur gert samning við ríkisstjórnir nýlenduveldanna um að greiða fúlgur fjár inn í ríkissjóði þessara landa. Haft er að yfirskyni að þetta séu bætur til innistæðu-eigenda í Icesave-útibúum Landsbankans. Ekkert getur verið fjær sannleikanum, því að starfandi bankar í Bretlandi og Hollandi eru nú þegar byrjaðir að greiða tryggingasjóðunum þær bætur sem þeir greiddu. Bankarnir eru að greiða tryggingasjóðunum gömul iðgjöld, sem nú koma til innheimtu. Fullkomnir forsendubrestir eru því á Icesave-samningunum og bara af þessari ástæðu einni er nauðsynlegt að Alþingi afnemi lögin 96/2009 samstundis. Jafnframt verður ríkisstjórnin að gefa yfirlýsingu um að Icesave-samningarnir hafi verið gerðir á röngum forsendum. Icesave-deilan er í raun einn stór misskilningur og þjóðarheiður krefst þess að íslensk stjórnvöld geri umheiminum grein fyrir þessari stöðu. "


 

Er Steingrimur okkar og margir fleiri ekki haldnir  einhverri meinloku varðandi Icesave ? Þetta sé bara allsekki svona að íslenska ríkið sé í ábyrgð.

Ég held að það sé rétt að hlusta grannt á Loft Altice og spyrja sig hvort hans rök eigi ekki erindi inn í málið ?.


Þvert nei er Vinstri Gunnfáninn !

"Tilkynning frá E.C.A.

Ýmsar rangfærslur hafa verið settar fram um fyrirtækið E.C.A. í fjölmiðlum síðustu daga. Reynt hefur verið að slá ryki í augu fólks og gera fyrirtækið tortryggilegt með gífuryrðum og háðsglósum. Því vill E.C.A. koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:
• E.C.A .er ekki hernaðarfyrirtæki í beinum skilningi þess orðs. E.C.A. er þjónustufyrirtæki og verktaki sem þjónustar ýmsar aðildarþjóðir NATO.
• E.C.A. er skráð fyrirtæki sem þarf að fara eftir ströngustu reglum Evrópusambandsins.
• Stofnað hefur verið E.C.A. Program Iceland ehf.
• Allar staðhæfingar um hernaðarbrölt fyrirtækisins eru úr lausu lofti gripnar og vísar E.C.A. þeim á bug.
• Mikil undirbúningsvinna hefur verið í gangi til að kanna möguleika á að E.C.A. Program Ltd (European Combined Aircraft) geti starfrækt heimastöð á flugvallarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
• Ef verkefnið nær fram að ganga er um að ræða mikla lyftistöng fyrir svæðið og landið í heild.
• Húsnæðisþörf fyrirtækisins er í fyrsta áfanga er um 12.600m² og fyrirhuga aðilar að byggja nýtt flugskýli. Fjárfesting upp á 3-3,5 milljarða króna.
• Um er að ræða 150-200 tæknistörf.
• E.C.A. mun byggja starfsemi sína hér á landi á heimastöð fyrir óvopnaðar flugvélar sem munu þjónusta hinar ýmsu aðildarþjóðir NATO.
• Útseld þjónusta E.C.A. mun öll fara fram í öðrum löndum en öll viðhalds- og tækniþjónusta er fyrirhuguð á Íslandi.
• Ef verkefnið gengur eftir er um að ræða friðsamlega heimastöð E.C.A. í landi sem hefur uppá að bjóða vel menntað starfsfólk, góða aðstöðu og bestu mögulegu staðsetninguna.
E.C.A. mun halda blaðamannafund þegar nær dregur og koma á framfæri frekari upplýsingum."

Svar VG er þvert nei.

Hversu miklu tjóni á þetta fornaldarapparat sem kallast VG eftir að valda þjóðinni til viðbótar ? Þeir eru á móti því að fá fé inní landið. Þeir eru á móti stóriðju. Þeir eru á móti hagvexti. Þeir eru á móti atvinnutækifærum.

Þeir eru bara á móti öllu. Þvert nei er  Vinstri Gunnfáninn !

 

 

 


Hversvegna þegja Sjálfstæðismenn ?

Á Ejunni er kjördæmamálið tekið upp:

 "Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi þess efnis að gera landið allt að einu kjördæmi í kosningum. Telja þeir sem að frumvarpinu standa tími til kominn að vægi atkvæða verði jafnað en hingað til hefur vægi landsbyggðarfólks verið ívið meira en vægi fólks á þéttbýlli svæðum suðvestanlands.

Að frumvarpinu standa alls nítján þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki og er Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingu, fyrsti flutningsmaður þess.

Forvitni Eyjunnar var vakin á hvers vegna Sjálfstæðismenn væru þeir einu sem ekki koma að frumvarpinu en öllum formönnum flokka á þingi var send tilkynning um málið og beiðni um stuðning. Eitthvað hefur það skolast til því þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem Eyjan ræddi við komu af fjöllum aðspurðir.

Segir í frumvarpinu að grundvallaratriði sé að gera landið að einu kjördæmi og þannig leggja að jöfnu öll atkvæði kosningabærra í landinu hvar sem þeir búa. Er gengið svo langt að segja að um hreint og beint mannréttindamál sé að ræða. Þykir þó ljóst að vanda beri mjög til verka enda kalli slíkt á breytingar á stjórnarskrá landsins og ekki megi kasta til hendinni við undirbúning. Gefa þurfi sér góðan tíma og hann sé fyrir hendi nú á vordögum að mati flutningsmanna."

 Ég heimta svör frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hversvegna landið get ekki verið eitt kjördæmi ef þeir geti ekki skaffað jafnan atkvæðisrétt á annan hátt? Ég nenni ekki að elta þingmenn sem geta ekki svarað hreint út. Þetta er grundvallarmál fyrir mig og marga sem ég þekki.

Svarið þið Sjálfstæðismenn!


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 3420141

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband