Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Díll?

Jón Þórisson arkitekt skrifar grein í Baugstíðindi í dag sem fékk mig til að staldra við.Jón rekur það fyrir mér að það sé verið að selja HS með leigurétti á orkugjafanum til 65 ára. Ég hef ekki spáð mikið í það, hvort máli skipti hvort kaupandinn sé Evrópukrati eða komi annarsstaðar frá. En mér finnst ástæða til að staðnæmast ögn við röksemdir Jóns fyrir því að þetta sé einhver sveitamannasala.

Grípum niður í grein Jóns arkitekts:

... "Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem úrskurðaði árið 2008 að OR mætti ekki eiga meirihluta í HS Orku?" Hvaða óskeikula apparat er þetta Samkeppniseftirlit? Hver á það eiginlega og hver rekur það?  Hvaðan kom því apparati sú viska á sinni tíð að það væri í lagi að Bónus og Hagkaup sameinuðust? Eigum við eftir það að trúa öllu sem þaðan kemur?

Auðvitað átti OR að eiga í HS Orku, sjálfsagt mál. Af hverju eiga orkulindir og dreifing ekki vera í þjóðareign eins og Áfengisverslunin? Við höfum ekkert með fíflarí að gera eins og sundurlimun Rarik í Orkusöluna til þess að fjölga forstjórajeppum að evrókratískri fyrirmynd. En þar skilaði sú fáránlega  stjórnunarlega umbylting neytandanum mér bara hækkuðu orkuverði.

 ."Magma keypti nýverið 30 ára nýtingarrétt á jarðavarmaorku í Nevada í Bandaríkjunum. Svo virðist sem Magma borgi þar helmingi hærra verð pr. megawatt en hér.Nýtingarsamingurinn í Nevada er til 30 ára en hér fær Magma samning til 65 ára með mögulegri framlengingu í önnur 65 ára. Það eru 130 ár!!..."
"Með kaupunum á HS Orku færi Magma í hendurnar fyrirtæki sem rekið er með hagnaði og á 20 milljónir dollara í varasjóði. Nevada er fyrirtæki sem byggja þurfti frá grunni og hafði engan hagnað eða varasjóð....".

.... "Fjármögnun Magma er með þeim hætti að uþb 70% kaupverðsins er fjármagnaður með innlendu kúluláni, hluti kaupverðsins er greiddur með bréfum í fyrirtækinu sjálfu og hluti er greiddur með aflandskrónum.Lánið til Magma er á 1,5% vöxtum. Sjálfur veitir Ross Beaty lán til Magma á 8% vöxtum.

 Í Icesave samningunum var okkur sagt að útilokað væri að fá lán á lægri vöxtum en 5,5%- á lánum sem þó voru með ríkisábyrgð. Er þetta ekki of gott til að vera satt? Fyrir Magma, ekki fyrir Ísland?Lánið til Magma er með veði í bréfunum sjálfum....".. .

."Ef Magma verður gjaldþrota þurfum við, að því er virðist, að sækja rétt okkar, ekki til Magma í Kanada, heldur dótturfyrirtækisins í Svíþjóð sem á engar aðrar eignir....

"Samandregin meginatriði  hjá Jóni Þórissyni:

"1. Kaupverðið lánað innanlands
2. Með veði í bréfunum sjálfum
3. Með engum eða óverulegum vöxtum
4. Öðrum kaupendum hafnað án viðræðna5. Kaupandinn hefur enga þekkingu á rekstrinum sem hann er að kaupa
6. Kaupandinn getur ekki fengið lán í banka og þess vegna verður seljandinn að lána honum...".

... "Í þessu sambandi má benda á að birtir hafa verið útreikningar sem sýna tap Orkuveitu Reykjavíkur vegna sölu HS Orku til Magma Energy. Um er að ræða útreikninga Birgis Gíslasonar sem birtir voru m.a. á bloggi Láru Hönnu og víðar, Þar kemur fram að heildartap OR vegna sölunnar sé rúmir 9 milljarðar. Þessir útreikningar hafa ekki verið hraktir...."

..."Samkvæmt fréttum í fjölmiðlum bauð a.m.k eitt annað fyrirtæki í hlutina í HS Orku en ekki hefur verið upplýst hvaða fyrirtæki um var að ræða ..."

... "Þá bendum við umboðsmanni á að haft er eftir sendiherra Bretlands á Íslandi að hann hafi komið upplýsingum um áhugasama breska kaupendur á framfæri við íslensk stjórnvöld, en þessir aðilar hafi aldrei fengið nein viðbrögð..."

... "Þetta er vondur díll, samningurinn er of langur, hann skilar sáralitlum peningum inn í landið. Hann byggir á loforðum Ross Beaty, svona einsog þegar Samherji keypti Gugguna á Ísafirði og lofaði að hún færi aldrei. Það leið ekki nema ár. Og þá var hún farin. Orkufyrirtækin hafa verið byggð upp af almannafé og skilað góðum hagnaði fram á síðustu ár - við þurfum að halda þessum auðlindum í opinberri eigu og hirða hagnaðinn sjálf...

... "Við teljum þetta mál varða hagsmuni þjóðarinnar allrar og við viljum hvetja alla til þess að skrifa undir áskorun okkar til stjórnvalda um að stöðva söluna til Magma og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðar stefnu okkar í orkumálum...."

Svei mér þá ef mér finnst ekki bankasöluskítalykt af þessu öllu saman. Hvar er  erlenda féið? Er það bara fengið innanlands hjá okkur sjálfum eins og þegar Bjöggi keypti bankann?  Mér finnst þessi samantekt hjá Jóni vekja upp spurningar um það, hvort þarna sé ekki hreinlega um vondan díl að ræða, svona í stíl  Steingríms J. og félaga Svavars, þar sem menn hafi ekki nennt að hanga lengur yfir þessu?

Erum við bara algerir sveitamenn í kaupstaðarferð?

Álfheiður afrekskona!

Svona stendur í Mogga:
"Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir að í frekari niðurskurði í heilbrigðisþjónustu þurfi að horfa til endurskipulagningar kerfisins í heild sinni. »Innlagnargjöld verða ekki tekin upp,« segir ráðherra.

Í nýrri starfsemisskýrslu Landspítalans fyrir fyrri helming ársins má sjá að mjög hefur dregið úr komum á legudeildir. »Víða um heim er verið að efla göngudeildir, heimaþjónustu og dagdeildir og minnka legur og innlagnir. Að sumu leyti flýtir þessi niðurskurður eitthvað þessari þróun en hann er samt sem áður ekki tilefnið. Starfsfólk Landspítalans hefur sýnt mikinn metnað og tryggt að öryggi sjúklinga sé óskert þrátt fyrir þennan mikla fjárhagslega niðurskurð,« segir Álfheiður.

Hún segir að áætluðum 5% niðurskurði í heilbrigðiskerfinu hafi ekki enn verið deilt niður. »Við þurfum að endurskipuleggja í þjónustunni til að ná þessum niðurskurði. Það er ekki í boði að skera niður flatt. "

Mikil lifandis mannvitsbrekka hlýtur þessi kona að vera. Að maður spyrji ekki um rekstrarreynslu hennar úr fiskeldinu í Hvalfirði. Hún sér fram á það að það sé hægt að hagræða öllu starfi í heilbrigðiskerfinu upp á nýtt þannig að allt verði jafngott og áður fyrir minni pening.

Ég velti fyrir mér hverskonar fólk hafi unnið þarna fyrr í þessu heilbrigðiskerfi, sem margbúið var að hægræða svo emjað var hástöfum áður en þessi Álfheiður kom til ? Tómir amatörar sem gerðu allt vitlaust af því það var svo vitlaust að hafa ekki verksvit? Eða þá þessir sjúklingar sem voru að leggjast inn af því að þeir föttuðu ekki að ganga á deildirnar? Geta allir ekki gengið eftir sinni jafngóðu þjónustu sem áður?

Bráðavaktin er víst búin að hagræða svo mögum læknum útaf að það er margra  tíma bið eftir að fá plástur. Eru nokkur takmörk fyrir því hvað svona mannvitsbrekka eins og Álfheiður sem ráðherra í ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu getur skorið niður af stórauknu skattfé ? Af hverju bara 5 % ? Getur hún ekki upphugsað svona 3 % í viðbót? Væri það ekki  50 % aukning í hagræðingu? Getur hún ekki hagrætt sjálfri sér til þess?

Hversu lengi er hægt að hagræða og spara í grunnþörfum samfélagsins? Er hvergi sá punktur að allri vitleysu hefur verið útrýmt og bara skynsemi nýtur við? Er ekki rosalegt að vita til þess hversu allir hafa verið vitlausir áður en þessi kona kom?

Álfheiður er áreiðanlega afrekskona umfram aðra þá amatöra sem setið hafa á stólum heilbrigðisráðherra lýðveldisins til þessa.. Ætti hún ekki að ganga í sérstökum búningi með tjald á öxlunum og S-merki framan á sér?

 


Erum við með eða ekki?

Merkilegt hvernig velmeinandi menn sem tekið hafa Evrópusambandstrúna, eru einbeittir í því að engar hernaðarlegar skuldbindingar fyrir Íslendinga fylgi aðild. Við eigum allt að fá í einhverjum sérsamningum við sambandið, sem gera okkur stikkfrí í ótal málum eins og hermálum og fiskveiðum.  Samt eigum við að hafa Rómarsáttmálann sem okkar stjórnarskrá eins og bandalagsþjóðir okkar sem kveður á um allt annað.

Greinarnar nr. 27 og 28 í Lissabon-sáttmálanum liggja á borðinu. Þær segja ótvírætt að koma skuli á fót Evrópuher. Þá leggur Lissabon-sáttmálinn einnig línurnar að þróun sameiginlegrar varnarmálastefnu fyrir Evrópusambandið. Af hverju vilja talsmenn aðildar horfa framhjá þessu?

Frakkar vilja að sambandið geri út flugvélamóðurskip og að sambandið skuli halda úti einum stærsta her í heimi.   Erum við eitthvað á móti því? Viljum við heldur vaxandi herstyrk múslímaríkjanna? Erum við ekki ánægð með að Frakkar og Bretar skuli vera kjarnorkuveldi? Við verðum hluti af óvígum her sem getur boðið óvinum byrginn. Af hverju viljum við ekkert vita af þessu?

Hversvegna er lagt svona mikið kapp á það að halda því fram að þessar og aðrar reglur ESB eigi ekki við okkur Íslendinga sem nýja meðlimi? Af hverju ættum við  að skorast undan þátttöku í her Evrópusambandsins? Ætlum við ekki að vera fullgildir meðlimir í þessu eftirsótta sambandi?  Er okkur þá vandara um en öðrum að leggja okkar af mörkum eins og hinir?  Eða ætlum við bara að vera á framfæri hinna þjóðanna?  Er mikil reisn yfir því?

Ég vildi gjarnan að sambandssinnar útskýrðu það  fyrir mér hversvegna Ísland á að byggja aðild sína á sífelldum undanþágum og sérstöðu? Ekki taka þátt í sameiginlegri fiskveiðistjórnun, ekki taka þátt í hernum, fá undanþágur fyrir landbúnað okkar og svo framvegis? Af hverju við eigum ekki að taka þátt í störfum sambandsins af fullri einurð eða láta það eiga sig að öðrum kosti?

 Hversvegna erum við að ganga í bandalag með öðrum þjóðum ef réttindin eiga bara að vera á annan veginn en skyldurnar á undanþágu?  Vill einhver af bræðraþjóðunum eiga slíka bandamenn sem okkur? 

 Auðvitað eigum við ekki fé fyrir mörgum fallbyssum en yrðum við ekki að sýna samhug okkar í verki?  Væri ekki annað lítilmannlegt? Og svo er þetta með allar undanþágurnar sem við eigum að fá í aðildarviðræðunum, sem eiga að sýna hvað verður í pakkanum handa aumingja Íslandi. Þessi afsláttur sem stuðningsmenn aðildarviðræðnanna eru svo yfir sig spenntir að fá að sjá og þeir telja að muni skipta sköpum um afstöðu Íslendinga til sambandsins. 

Hversu lengi ætlar Ísland að vera á undanþágum?  Ætlum við annars að að vera með heilshugar eða ekki? 

Hversu lengi eiga væntanlegir sérsamningar við Íslendinga að gilda? Í einhvern ásættanlegan aðlögunartíma eða jafnlengi og Rómarsáttmálinn ?

Ætlum við að vera með eða ekki?


Tveir gegn kreppunni !

Svona skrifaði ég í maí 2009.

"Ég hitti þá áðan, tvo unga menn í kreppunni. Þeir sögðu báðir að kreppan fyrir þeim  væri mest hugarástand.  Þeir ætluðu bara að gera eitthvað í því.

Annar er smiður og ætlar að smíða sumarhús fyrir hinn sem er rafvirki. Þeir ætla að hafa skiptivinnu þannig að atvinnnulítill  smiðurinn smíðar núna en á inni rafvirkjun hjá hinum. Ég gamli kallinn fæ að teikna eitthvað fyrir þá sem ég fæ einhvern tímann eitthvað gott fyrir.   Annars hef ég hvort sem er ekkert að teikna og það er mun skárra að gera eitthvað en ekki neitt.

Þarna fara þeir að framleiða verðmæti,  sem ekki yrðu til annars. Þeir treysta hvor öðrum. Þeir eru að vísu frændur og vinir, en aðferð þeirra er hin sama og ég hef verið að reyna að útskýra þegar ég hef talað um kreppuvíxilinn, sem enginn vill skilja.   Án traustsins til hvors annars og áræðis þessara ungu manna væri ekki verið að smíða neitt sumarhús.  Þótt rafvirkjaverkefnið sé  ekki allt í augsýn ennþá,  þá  trúa þeir því að það komi í kjölfarið.   Auðvitað verður erfitt að ná sér í efnið því hvergi fæst lán í banka. En þeir láta svoleiðis krepputal ekki á sig fá. Það reddast segja þeir.

Hvað er ekki hægt að gera um land allt á þennan hátt ? Segja kreppunni stríð á hendur eins og þessir ungu menn gera. 

Ég trúi því, að það sé hægt að gera margt til að brjótast útúr þeirri  kreppu hugarfarsins, sem hér ríkir.  Til þess þarf bjartsýnt ungt fólk, sem lætur  ekki kveða sig í kútinn með  væli og voli.  Þrátt fyrir það, að helsti   boðskapur gömlu og gráu stjórnarmyndunarleiðtoganna sé meiri skattlagning á minnkandi atvinnutekjur, þá er til fólk í landinu sem lætur ekki deigan síga.

Það er þetta unga fólk sem mun reisa við þjóðarhaginn. Ekki kommúnistarnir  í Stjórnarráðinu, kjaftaskarnir á þinginu  eða kerfiskurfarnir  í ríkisbönkunum sem bara rukka. 

Það eru svona  kraftmiklir Íslendingur, - Bjartur í Sumarhúsum-,  sem láta ekki bugast þótt móti blási, sem gefa þessari þjóð  von um betri tíð með blóm í haga.  "

 

Þetta var sem sagt í maí 2009. Mikið er búið að jarma síðan og raunatölur ríkisstjórnarinnar ræpst yfir þjóðina á rúmhelgum dögum.   Auðvitað hafa þeir báðir strákarnir verið að vinna allt sem boðist hefur og hafa haft heppnina með verkefni á skrapmarkaðnum. Þeir hafa styrkt hvorn annan í ýmsum verkefnum og gengið vel.

   PITTUR

Núna í júlí 2010 þá er kofinn hjá frændunum  kominn upp hvað sem kreppunni og jarminu í Steingrími líður. Það þarf ekki að taka það fram, að þeir eru hvorugir kjósendur hans né Jóhönnu heldur heiðbláir íhaldsmenn báðir. Báðir á móti ESB og vilja ekki sjá neitt annað en sjálfstætt Ísland. Trúa á sjálfa sig og landið eru ekki á leið til Noregs.

Það er svona fólk sem mun rífa þetta land upp úr öskustónni. Bændurnir undir Eyjafjöllum sem heyja ofan á öskunni, sprotafyrirtækin, sjósóknarar eins og Kristinn Pétursson frá Bakkafirði, sem 57ára lemur sjóinn fyrir norðan einsamall á hraðfiskibát og rífur sig upp, hugvitsmenn um allt land.  Þetta er í rauninni kreppuvíxlakerfið sem ég talaði um en fæstir skildu þá þó Hjalmar Schacht hefði skilið það.

 

Fólkið bjargar sér hvert með öðru, styrkir hvert annað og hlustar ekki á þessa stöðugu kreppusteypu úr krötunum og kommunum. Það er svona fólk sem við þurfum að fá í Stjórnarráðið í stað þessa væluliðs sem allt ætlar að drepa með AGS, EBE og samdráttar-og niðurskurðar-og Icesavekjaftæðinu.

Leiðin liggur upp en ekki niður! 



Hagar

Guðmundir Andri skrifar í Fréttablaðið um Bónusveldið. Þar sem Guðmundur kemur inná skoðanir sem ég hef lengi reynt að setja fram án þess að nokkur taki undir, þá vil ég taka undir með honum. Guðmundur segir m.a.:"Óskiljanlegt er að leyft skyldi á sínum tíma að sameina Bónus og Hagkaup í eitt allsherjareinokunarfyrirtæki. Enn óskiljanlegra er að yfirvöld skyldu heimila innlimun 10/11 búðanna í þetta veldi. Samkeppni var markvisst útrýmt á matvörumarkaðnum eftir að hafa ríkt í nokkur ár, milli Bónusbúðanna og Haugkaups.Eins og við vitum er frjáls samkeppni óbærilegt ástand fyrir kaupmenn. Enginn hagnast á frjálsri samkeppni nema kannski almenningur - og hverjum er ekki sama um hann?

Við tók þykjustusamkeppni sem við þekkjum svo vel hjá olíufélögum og símafyrirtækjum þessa lands; Öskjuhlíðarsamkeppni. Og um árabil höfum við búið við samkomulag um að þessi búð sé alltaf með krónu ódýrara en hin búðin um leið og þess hefur verið vandlega gætt að halda matvöruverðinu nægjanlega uppi til að hægt sé að greiða sómasamlegan arð. Fyrir arðinn af því að selja Íslendingum mat virtist á tímabili hægt að kaupa heilu og hálfu heimsborgirnar. Seinna kom að vísu í ljós að til stóð að kaupa heiminn út á krít en það breytir því ekki að gróðinn af því að selja Íslendingum gulrætur og paprikur, pillur, kóka kóla, og seinna hlutabréf í genunum í sjálfum sér, fyllti á tímabili unga menn - sem allir voru vinir - slíkri ofsatrú á sjálfum sér að þeir héldu að þeir kynnu fleiri klæki en nokkur annar kaupsýslumaður í heiminum. Það reyndist ekki svo...."

...."Fólk kaus Bónus unnvörpum með buddunum. Þeir Bónus-feðgar fengu mikið frá íslensku þjóðinni - þeim var trúað fyrir miklu. Þeir keyptu sér snekkjur og hurfu inn í tilbúinn heim...."

...."

Sú eyða sem Bónus-feðgar höfðu fundið - var vandlega fyllt. Bónus-feðgarnir glúrnu sáu til þess að engir viðlíka hugkvæmir og þeir kæmust inn á markaðinn til að keppa við þá. Sjálfir voru þeir á snekkjunum sínum. Og það fór sem fór."

 Ég held að Guðmundur hafi hitt naglann á höfuðið í þetta sinn.


Áfall !

Ég var að hlusta á hann Ögmund Jónasson á Útvarpi Sögu að tala við Arnþrúði og Pétur.

 Ögmundur lýsti sinni afstöðu til Evrópusambandsins á þann veg að ég hefði varla geta lýst minni eigin afstöðu jafn vel, því auðvitað er Ögmundur betur máli farinn og áheyrilegur.  Ögmundur vildi líta til heimsins alls, Ameríku, Suðurameríku, Asíu eins og Evrópu en ekki  múra landið okkar inni í einverju sambandi þar sem við hefðum ekki neitt um okkar ytri mál að segja.  Við hefðum núna rödd í samfélagi þjóða en myndum öðlast minna vægi í stóru sambandi. Ég var við að fá áfall af hrifningu yfir þessu öllu þegar ég svo minntist þess að Ögmundur styður og hefur setið í ríkisstjórn sem er í aðildarviðræðum við þetta sama samband. Þetta er hinn óbærilegi léttleiki tilverunnar. Og þó. Eins og Guðmundur Einarsson sagði stundum: "Nothing happens by chance" (Ekkert er tilviljunin ein.)

Svo heyrði ég tveimur tímum síðar,  að maður hringir í Pétur og lýsir þá alla öfgamenn sem eru á móti  Evrópusambandsaðild. Þetta séu allt fólk sem hafi ekki kynnt sér málin en séu með fordóma. Ég dáðist að því hvernig Pétur tók á þessum kalli. Spurði hann hvort hann teldi sig,Pétur, til öfgamanna? Sussu nei, það eru hinir allir sagði kallinn. Evrópusambandið væri manngæskan ein og hjálpaði öllum. Ég hugsaði nú til Bruno á bálkestinum þegar þessi maður skellti á Pétur eftir að hafa orðið rökþrota með allar hástemmdu klissíurnar, sem hann hafði lært greinilega  utanað án þess að kryfja þær til mergjar eins og Pétur var fljótur að gera.

Í öllu þessu tali um nýjan gjaldmiðil af því að krónan alltaf lækki og lækki og sé þess vegna ónýt og þar frameftir götunum, þá fór ég að hugsa um verkfallsboðun slökkviliðsmanna og flugumferðarstjóranna. Þeir ætla að skammta sér hærri laun, sem ég, atvinnuleysinginn og skertur lífeyrsiþeginn, á að borga. Af hverju ?

Flugumferðarstjórar eru með lög á sér til að forða þeim frá því eins og hverjum öðrum óvitum með eldspýtur, að leggja flugumferðarstjórn Íslendinga, sem færir landinu ómældar tekjur, í rúst. Við kenndum þessu fólki það sem það kann á kostnað heildarinnar og veittum þeim starfsréttindi í nafni heildarinnar. Allt í einu eiga þeir lögvarðar kröfur á heildina um að fá peninga að eigin vali eða við skulum hafa verra af. Ljósmæður eru líka menntaðar á sama hátt og gera síðan kröfur á samfélagið fyrir að hafa lært til þessara verka.  Kennarar gengu í skólana okkar og fengu stöður í samræmi við það. Nú skuldar samfélagið þeim allt í einu stórfé?  Allt í nafni einhvers samningsfrelsis og heilags neyðarréttar verkafólks? Svo gengur maður inn á sjúkrahúsin og horfir á þá engla sem þar starfa að líkna sjúkum. Hefur þetta fólk nóg laun? Manni skilst að við höfum ekki ráð á störfum þeirra. Er þá ekki fangaráð að loka bara deildunum til að fækka á launaskránni ? Þá hlýtur sjúklingum líka að fækka  eða ?

Hver er neyðarréttur aldraðra, sjúkra  og öryrkja? Hver er réttur samfélagsins gegn árásum á heildina? Svíar þurftu að svar þessu 1909 í stóra verkfallinu sem breytti þjóðfélaginu varanlega.

Hver er neyðarréttur gjaldmiðilsins ?

Ef gjaldiðillinn er evra, þá er aðeins eitt svar ef ríkið getur ekki borgað. Atvinnuleysi, aflögð störf og jafnvel gjaldþrot ríkisins ef hallinn er látinn óáreittur nógu lengi.  Hvað er að gerast í Grikklandi  núna?Hversvegna er allt þetta atvinnuleysi á Spáni? Hversvegna segir Stieglitz að flatur niðurskurður geti eyðilagt þjóðfélög ?  Getum við ekki lofað krónuna fyrir eitthvað?

Ef gjaldmiðilinn er krónan okkar þá hefur verið samið eftir einhverja verkfallaskrautsýningu sem stendur í einar 3 vikur ef vel tekst til.  Þá verður að semja svo börnin komist í skólann eða bátarnir á sjó.  Síðan er gengið fellt þar sem það verður að prenta krónur til að borga verkfallsmönnum. Sem byrja svo að safna í verkfallssjóði til þess að nota í næstu atlögu að samfélaginu. Það er spurning hversu langt þjóðernistilfinng Íslendinga nær? Inn að buddunni eða til hjartans?

Líklega sér Ögmundur það,  að það gengur aldrei að vera með Evru eða dollar og ætla að reka þá verkalýðsstefnu sem hann er uppalinn í. Ég hel að margir þeir sem mest tala um ónýtan gjaldmiðil Íslendinga hafi ekki hugsað dæmið til enda.   Á árunum 1989 -2007  var dalurinn að þvælast um það að kosta um 60 kallinn .( Hann myndi líklega fara þangað aftur núna ef ekki væri ógn jöklabréfanna.)  Hvorki dollarinn né krónan voru ónýtir gjaldmiðlar þennan uppgangstíma. Á þessum árum kom inn þjóðarsáttin þar sem uppgefnir verkalýðsforingjar og atvinnurekendur á 100 % verðbólgu sameinuðust um að reyna leið skynseminnar. Afleiðingin varð mesta góðæri sögunnar á Íslandi og óðaverðbólgan hvarf. Verðtryggingin gerði löng húsnæðislán möguleg fyrir alla og menn gátu sparað á bækur, nokkuð sem áður var óþekkt.  Banksterarnir sprengdu þetta svo allt upp í sinni atlögu að samfélaginu.   

Núna er helst talað um að þær  afleiðingar af slappleika stjórnmálaforystunnar gegn uppgangi einstakra fjárglæfra-og glæpamanna sem við nú súpum seyðið af, hafi verið endimörk einhverrar nýfrjálshyggju og stjórnmálaflokks tengdri henni. Ef ekki bara einhvers fjórflokks sem hljóti að víkja fyrir einhverjum hreyfingum og bestu flokkum. Allt tekur þetta einhvern tíma en mun jafna sig áður en varir. Jón Gnarr getur jafnvel komist til meiri  stjórnmálaþroska á þessum tíma. Þolinmæðin þrautin vinnur allar. 

Nú hafa margir gamlir kommar  vitkast með aldrinum og farnir að velta fyrir sér skynseminni í kjarabaráttunni að maður grípur sig í að verða sammála þeim.  Aðrir þykjast auðvitað  ekkert hafa lært og berja hausnum við steininn.  Það er eiginlega það eina jákvæða við þessa "norrænu velferðarstjórn" krata og komma sem nú situr, að hún  kemst upp með það að banna verkföll við þær alvarlegu ástæður sem nú ríkja í landinu. Fólkið sér nauðsynina á að hafa vopnahlé og vinna sig útúr vandanum.  Hætt er við að eitthvað meira heyrðist ef íhaldið þyrfti  að standa í því að setja lög á flugumferðarstjóra eða aðra litla þrýstihópa.

Það varð mér nokkuð áfall að heyra Ögmund tala af skynsemi og yfirvegun hafandi hlustað á hann svona mörg ár.  Auðvitað veit maður innst inni að enginn er alslæmur þó menn tali stundum í þá átt. Okkur Íslendingum er líka nokkur vorkunn. Við eigum svo skamma félagslega þroskasögu að baki. Svíar gengu í gegnum verkföll og ringulreið 1905-1911 þegar þjóðfélagið logaði stafna á milli og leiddi til endurmats á hvað mönnum gæti leyfst í kjarabaráttunni og hvað ekki. Saga Svíþjóðar á árunum frá þeim aldamótum til fyrri heimstyrjaldar er lærdómsrík um mistök og erfiðleika og það hvernig stjórnmálabaráttan leiddi til þess að vöxtur samvinnuhreyfingarinnar varð að nýju stjórnmálaafli sem jafnfætis kapítalismanum leiddi til framfara og bættra lífskjara allra Svía og það komst á friður í landinu. Þetta eiga Íslendingar að mestu eftir ólært. Okkar fólk er svo fljótt að gleyma hvað tókst og hvað ekki tókst. Ef til vill er sjálfri sögukennslunni í skólunum okkar áfátt. 

Ég held ég myndi fagna fleiri svona áföllum.


Dregur úr landflótta!

Árið 2009 urðu mestu flutningar Íslendinga frá landinu umfram aðflutta síðan 1887. Þá fluttu frá landinu 2466 einstaklingar með íslenzkt ríkisfang. Flestir eru á aldrinum 15-50 ára, mest á bilinu milli 20-30 ára. 4.835 manns fluttu alls frá landinu alls þetta ár.

Á fyrsta ársfjórðungi fluttu 430 Íslendingar frá landinu umfram aðflutta. Og á 2 ársfjórðungi fluttu 160 íslenzkir ríkisborgarar frá landinu umfram aðflutta.

Íslenska sumarið heldur í fólkið að einhverju leyti.  Þegar  nær 14.000 manns eru án atvinnu og brottflutt fólk leggst við þá sést að það lætur nærri að í áttina að störfum  í boði á vinnumarkaði hafi fækkað 15-20.000  í landinu á tímanum frá 2008 miðað við að um 1-2000 manns hafi verið atvinnulaust þá.

Ríkisstjórnin sefur þess vegna vært og hefur ekki áhyggjur því ríkisútgjöldin hafa minnkað sem hugsanlega má rekja til brottflutningsins að einhverju leyti. Vöruskiptajöfnuðurinn er líka hagstæður um 4 milljónir dollara á dag hvern þannig að ég er viss um að Steingrímur heldur að hér sé góðæri. Þau eru líka búin að afreka svo mikið að eigin sögn að það er bara allt í keyinu. Makríll í höfninni í Keflavík og rígaþorskur í einhverri höfninni fyrir vestan. Fiskur sem er ekki til hjá Hafró þannig að engu þarf að breyta í kvótanum.

Allavega hefur hægt á landflóttanum á 2. ársfjórðungi. 5000 manns létta líka á framfærslukostnaði ríkisins.  


Íslenzkt framtak ?

Ég var með þýzkum túristum nú rétt áðan. Þeir spurðu mikið um hvað unglingar væru að gera á graseyjum og blómagörðum við veginn. Þeir voru mjög undrandi og ánægðir að heyra að bæjarfélögin stæðu fyrir unglingavinnu yfir sumarleyfismánuðina af viðblasandi ástæðum. Það var greinilegt að áhugi þeirra var vakinn. Einhverjir virtust þekkja til einhvers svipaðs.

En það er ástæða fyrir bæjarfélögin að leggja rækt við unglingavinnuna og efla hana á alla lund. Hún hefur forvarnargildi og er líka mannbætandi og svo eru mörg störf unnin sem annars yrðu ekki gerð.

Er þetta íslenzka framtak ekki eiithvað til að vera stolt af?


Lúpínan enn

„Menn hafa leikið Ísland grátt með taumlausu skógarhöggi fyrst og síðan með því að beita einhverri mest óseðjandi skepnu jarðarinnar, sauðkindinni, hömlulaust á viðkvæmt land. Reynslan hefur sýnt að um leið og land er friðað fyrir ágangi sauðfjár og traðki hrossa tekur það við sér og fínleg gróðurþekjan myndast....“Þessa fullyrðingu er að finna í afbragðsvel skrifaðri grein Guðmundar Andra Thorssonar í Baugstíðindum í dag. Enn segir Guðmundur:....“að lúpínan útrýmdi á stórum svæðum til að mynda berjalynginu sem gefur okkur berin sem glatt hafa góm íslenskra barna í mörg hundruð ár.“

Ég veit ekki hvort Guðmundur Andri þekkir til á Haukadalsheiði þar sem voru kölluð „Skerslin“. En þar hefur ekki verið beit í  hálfa öld. Þar hélt áfram að fjúka af 2 metra þykkur jarðvegur og eftir var grjótmelur þar sem ekki myndaðist nein fínleg gróðurþekja að marki. Jón bóndi á Laug sem var náttúrugreindur maður taldi að landið myndi gróa upp með tímanum þegar allt væri af því fokið. Ekki gerðum okkur neina grein fyrir þeim tíma sem þetta tæki og ekki sáum við það gerast á þeim 60 árum sem okkar augu hafa séð og muna.

Það var farið að reyna að stinga niður börðin og setja heyrúllur í sárin og virtist það gefa góðan árangur við að stöðva fokið. Síðan fór lúpína að vaxa á grjótinu og nú er þarna víða grænt. Þetta má sjá á www.agbjarn.blog.isÉg hef nú í áratugi stundað berjatínslu þarna neðar í sömu sveit , mest bláber, á  svæði utan í grýttum holtum. Þar eru þykkar lyngbreiður að mosanum sem klæðir svo grjótin. Í næsta nágrenni er lúpína búin að vera í 40 ár  í gróðurlausum flögum og urð. Hún hefur haldið sig þar og síðan hefur sprottið upp birki og víðir. Berjalandið hefur ekki orðið fyrir ágangi lúpínunnar á þessum stað. Enda myndi ég ekki læra mig um slíkt. Mér sýnist lúpínan heldur ekki læra sig neitt um að leggja gróið land undir sig og víða er komið graslendi þar sem lúpínan var einráð áður.

Eigum við ekki að leggja af svona ofsatrú á þetta eða hitt. Þetta getur allt farið saman án þess að umhverfisráðherra eða rithöfundar þurfi að fá harðlífi vegna þessa.

Lúpínan og lyngið  mun lifa okkur öll hvað sem við segjum í dag.

Gengistryggðu lánin

Ég hef eins og aðrir átt erfitt með að fóta mig á hvað dómur Hæstaréttar um gengistryggðu lánin þýðir.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka ruku auðvitað til og komu með leiðbeiningar um það hvernig ætti að breyta niðurstöðum dómsins lánveitendum í hag en lántakendum í óhag. Héldu þeir sanngirnismálum fram og svo hlutfallslegum sanngirnismálum. Í fyrsta lagi væri ósanngjarnt að lánveitandinn bæri skaðann af því að fá ekki gengishagnaðinn. Síðan héldu þeir því fram að annars græddi sá sem hefði verið með erlent lán meðan annar með innlent verðtryggt lán græddi ekki.

Ég hef spurt marga hvort dæma beri eftir almennum sanngirnissjónarmiðum ef lög segi annað. Ég heyri ekki annað en dómarar skuli dæma eftir lögum. Því fannst mér fengur að grein Magnúsar Thoroddsen frv.hæstaréttardómara í Mbl.í gær til að upplýsa minn ólögfróða haus.

Ef ég dreg saman niðurstöðurnar úr greininni fæ ég eftirtalda punkta:

1.Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem í daglegu tali eru nefnd samningalögin, eru að stofni til frá árinu 1936, nr. 7. Þau eru samnorræn að stofni. 

2.. Þau hafa tvívegis verið aukin og endurbætt. Í hið fyrra sinnið varð það með lögum nr. 11/1986.Þá var með 36. gr. veitt lagaheimild til að breyta samningi. Grein þessi hljóðar svo: » Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig (sbr. þó 36. gr. c).

3.Varðandi túlkun á þessu lagaákvæði segir svo í 2. mgr. 36. greinarinnar: »Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika, sem síðar komu til.«

4.Hið síðara sinnið, er samningalögin voru aukin og endurbætt, var með lögum nr. 14/1995 eftir að Ísland gerðist aðili að EES-samningnum. Með þeirri lagabreytingu var réttarstaða neytenda aukin til muna.

5.Með því að dæma gengistryggingarákvæðið ólöglegt, hefir samningnum verið vikið til hliðar að hluta í skilningi 36. gr. samningalaganna.

6.Þrátt fyrir það er samningurinn efnanlegur að öðru leyti og því getur neytandi, skv. 36. gr. c, 2. mgr., krafist þess, að lánssamningurinn »gildi að öðru leyti án breytinga«, svo sem þar er mælt fyrir um.

7.Þegar lagaákvæði eru jafn skýr og ótvíræð, eins og ákvæði 36. gr. samningalaganna eru, sem og sjálfur tilgangur laganna, verða dómendur að dæma samkvæmt því.

8.Ef við lítum svo á, að gengistryggingardómar Hæstaréttar frá 16. júní sl. séu »atvik, sem síðar komu til« , þá segir í 2. mgr. 36. gr. c, að eigi skuli taka tillit til þeirra, »neytanda í óhag.« Verði vextirnir í gengistryggðu lánasamningunum hækkaðir frá því sem umsamið var, yrði það »neytanda í óhag«. Þess vegna er vaxtahækkun óheimil.

Mér finnist þessi röksemdafærsla Magnúsar Thoroddsen mjög skýr.  Mig myndi því undra ef ríkisstjórn og Seðlabanki geta komið með leiðbeiningar til fjármálafyrirtækja sem veiti þeim aðrar heimildir.

Auðvitað má deila um sanngirni. Aðilar voru flestir sammála þegar samningar voru gerðir. Vegna verðbólgustefnu Seðlabankans(einn aðalhöfundur núverandi seðlabankastjóri) voru innlendir vextir miklu hærri en þeir sem bankarnir buðu á nú ólöglegum erlendum lánum. Ríkið skóp þessar aðstæður á lánamarkaði með inngripum sem nú liggja ljóst fyrir að voru hagstjórnarlega áhrifalaus.

Í öllum þessum vangaveltum  finnst mér þó vera nauðsyn á að spyrja,; Af hverju féll gengið? Gerði annarhvor málsaðilinn eitthvað til að skaða forsendur samningsins?

Svarið er nefnilega já.

Bankarnir allir gerðu skipulega aðför að gjaldeyrisvarasjóðnum þegar framboð á erlendu lánsfé dróst saman. Með skipulögðum uppkaupum á gjaldeyrismarkaði, sem lántakandinn hafði engin tök á, þá felldu þeir gengið 2007-2008.

Lántakandinn getur haldið því fram, að þeir hafi haft augljósan hag af gengisfallinu gagnvart honum, þar sem krónufjöldi lánsins hefði aukist. Bankarnir gera upp íslenskum krónum. Því voru þeir að bæta eigin hag með því að láta viðskiptavini sína greiða meira.

Í fyrsta lagi getur lántakinn litið svo á, að með þessu hafi bankarnir gert samsæri gegn gjaldmiðlinum, sem er sama og samsæri gegn þjóðríkinu og samsæri til þess að skaða hann persónulega.Í öðru lagi hafi bankarnir brotið samkeppnislög með ólögmætu samráði.

Þetta hvorutveggja getur hugsanlega talist  ólöglegt athæfi, "conspiracy against the public", sem olli lántakanda beinum skaða. Hann getur því leitað réttar síns fyrir dómstólum til greiðslu skaðabóta og refsinga yfir hinum seku, færi svo að vaxtahækkun yrði dæmd lögleg.

Allar fjármálastofnarnir eru gjaldþrota eftir að hafa verið undir stjórn manna sem eru grunaðir um stórfelld fjársvik. Nýir ríkisbankar hafa verið reistir á rústum hinna föllnu. Þeir hafa keypt allar innheimtanlegar kröfur úr rústunum á hrakvirði, nefndar eru tölur um minna en hálfvirði. Afföllin hafa ekki verið færð yfir höfuðstól. Bankarnir eiga því sannarlega efni til þess að hlíta dómnum. 

Ríkisstjórn hins norræna velferðarríkis og gegnsæis  ætlaði því að ráðast að þegnum sínum á tvennan hátt. Fyrst að blóðmjólka þá með því að láta þá bera gengisfallið að fullu. Eftir dóm hæstaréttar reynir  ríkisstjórnin til viðbótar að hækka vexti skuldabréfanna að eigin geðþótta í þágu banka sinna.

Ríkisstjórnin reynir nú enn að ráðast gegn hæstaréttardómnum með því að láta dómstóla dæma um hækkun vaxta á gengistryggðu lánunum.  Á meðan þess er beðið rukka bankarnir af öllum mætti og keyra fólk í þrot og uppboð innan við hrundar skjaldborgir um heimilin.

Ríkisstjórnin grætur greinilega hæstaréttardóminn um gengistryggðu lánin.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband