Ég hef eins og aðrir átt erfitt með að fóta mig á hvað dómur Hæstaréttar um gengistryggðu lánin þýðir.
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka ruku auðvitað til og komu með leiðbeiningar um það hvernig ætti að breyta niðurstöðum dómsins lánveitendum í hag en lántakendum í óhag. Héldu þeir sanngirnismálum fram og svo hlutfallslegum sanngirnismálum. Í fyrsta lagi væri ósanngjarnt að lánveitandinn bæri skaðann af því að fá ekki gengishagnaðinn. Síðan héldu þeir því fram að annars græddi sá sem hefði verið með erlent lán meðan annar með innlent verðtryggt lán græddi ekki.
Ég hef spurt marga hvort dæma beri eftir almennum sanngirnissjónarmiðum ef lög segi annað. Ég heyri ekki annað en dómarar skuli dæma eftir lögum. Því fannst mér fengur að grein Magnúsar Thoroddsen frv.hæstaréttardómara í Mbl.í gær til að upplýsa minn ólögfróða haus.
Ef ég dreg saman niðurstöðurnar úr greininni fæ ég eftirtalda punkta:
1.Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem í daglegu tali eru nefnd samningalögin, eru að stofni til frá árinu 1936, nr. 7. Þau eru samnorræn að stofni.
2.. Þau hafa tvívegis verið aukin og endurbætt. Í hið fyrra sinnið varð það með lögum nr. 11/1986.Þá var með 36. gr. veitt lagaheimild til að breyta samningi. Grein þessi hljóðar svo: » Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig (sbr. þó 36. gr. c).
3.Varðandi túlkun á þessu lagaákvæði segir svo í 2. mgr. 36. greinarinnar: »Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika, sem síðar komu til.« 4.Hið síðara sinnið, er samningalögin voru aukin og endurbætt, var með lögum nr. 14/1995 eftir að Ísland gerðist aðili að EES-samningnum. Með þeirri lagabreytingu var réttarstaða neytenda aukin til muna.
5.Með því að dæma gengistryggingarákvæðið ólöglegt, hefir samningnum verið vikið til hliðar að hluta í skilningi 36. gr. samningalaganna.
6.Þrátt fyrir það er samningurinn efnanlegur að öðru leyti og því getur neytandi, skv. 36. gr. c, 2. mgr., krafist þess, að lánssamningurinn »gildi að öðru leyti án breytinga«, svo sem þar er mælt fyrir um.
7.Þegar lagaákvæði eru jafn skýr og ótvíræð, eins og ákvæði 36. gr. samningalaganna eru, sem og sjálfur tilgangur laganna, verða dómendur að dæma samkvæmt því.
8.Ef við lítum svo á, að gengistryggingardómar Hæstaréttar frá 16. júní sl. séu »atvik, sem síðar komu til« , þá segir í 2. mgr. 36. gr. c, að eigi skuli taka tillit til þeirra, »neytanda í óhag.« Verði vextirnir í gengistryggðu lánasamningunum hækkaðir frá því sem umsamið var, yrði það »neytanda í óhag«. Þess vegna er vaxtahækkun óheimil.
Mér finnist þessi röksemdafærsla Magnúsar Thoroddsen mjög skýr. Mig myndi því undra ef ríkisstjórn og Seðlabanki geta komið með leiðbeiningar til fjármálafyrirtækja sem veiti þeim aðrar heimildir.
Auðvitað má deila um sanngirni. Aðilar voru flestir sammála þegar samningar voru gerðir. Vegna verðbólgustefnu Seðlabankans(einn aðalhöfundur núverandi seðlabankastjóri) voru innlendir vextir miklu hærri en þeir sem bankarnir buðu á nú ólöglegum erlendum lánum. Ríkið skóp þessar aðstæður á lánamarkaði með inngripum sem nú liggja ljóst fyrir að voru hagstjórnarlega áhrifalaus.
Í öllum þessum vangaveltum finnst mér þó vera nauðsyn á að spyrja,; Af hverju féll gengið? Gerði annarhvor málsaðilinn eitthvað til að skaða forsendur samningsins?
Svarið er nefnilega já.
Bankarnir allir gerðu skipulega aðför að gjaldeyrisvarasjóðnum þegar framboð á erlendu lánsfé dróst saman. Með skipulögðum uppkaupum á gjaldeyrismarkaði, sem lántakandinn hafði engin tök á, þá felldu þeir gengið 2007-2008.
Lántakandinn getur haldið því fram, að þeir hafi haft augljósan hag af gengisfallinu gagnvart honum, þar sem krónufjöldi lánsins hefði aukist. Bankarnir gera upp íslenskum krónum. Því voru þeir að bæta eigin hag með því að láta viðskiptavini sína greiða meira.
Í fyrsta lagi getur lántakinn litið svo á, að með þessu hafi bankarnir gert samsæri gegn gjaldmiðlinum, sem er sama og samsæri gegn þjóðríkinu og samsæri til þess að skaða hann persónulega.Í öðru lagi hafi bankarnir brotið samkeppnislög með ólögmætu samráði.
Þetta hvorutveggja getur hugsanlega talist ólöglegt athæfi, "conspiracy against the public", sem olli lántakanda beinum skaða. Hann getur því leitað réttar síns fyrir dómstólum til greiðslu skaðabóta og refsinga yfir hinum seku, færi svo að vaxtahækkun yrði dæmd lögleg.
Allar fjármálastofnarnir eru gjaldþrota eftir að hafa verið undir stjórn manna sem eru grunaðir um stórfelld fjársvik. Nýir ríkisbankar hafa verið reistir á rústum hinna föllnu. Þeir hafa keypt allar innheimtanlegar kröfur úr rústunum á hrakvirði, nefndar eru tölur um minna en hálfvirði. Afföllin hafa ekki verið færð yfir höfuðstól. Bankarnir eiga því sannarlega efni til þess að hlíta dómnum.
Ríkisstjórn hins norræna velferðarríkis og gegnsæis ætlaði því að ráðast að þegnum sínum á tvennan hátt. Fyrst að blóðmjólka þá með því að láta þá bera gengisfallið að fullu. Eftir dóm hæstaréttar reynir ríkisstjórnin til viðbótar að hækka vexti skuldabréfanna að eigin geðþótta í þágu banka sinna.
Ríkisstjórnin reynir nú enn að ráðast gegn hæstaréttardómnum með því að láta dómstóla dæma um hækkun vaxta á gengistryggðu lánunum. Á meðan þess er beðið rukka bankarnir af öllum mætti og keyra fólk í þrot og uppboð innan við hrundar skjaldborgir um heimilin.
Ríkisstjórnin grætur greinilega hæstaréttardóminn um gengistryggðu lánin.