Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Bjarni brillérar

á Sprengisandi.

Við þurfum nýja þjóðarsátt til að byggja upp stöðugleika sagði hann. Við þurfum ekki flytja inn aga gjaldmiðils frá Evrópusambandinu. Við þurfum sjálf að ná tökum á okkar málum til lengri tíma. Atvinnuleysi 19 milljóna er það verð sem þeir greiða fyrir evruna  á Spáni, Írlandi og víðar.Okkur vantar þetta ekki. Okkur vantar stöðugleika í sjávarútvegi eins og á öðrum sviðum.

Sigurjón neitaði að skilja að samhengi væri á milli verðbólgu og verðtryggingar. Að sveigjanleiki gjaldmiðilsins okkar væri valdur að minna atvinnuleysi. Hann neitaði að skilja  samhengi milli vaxta og verðbólgu eins og flestir Íslendingar.  Hann kærði sig lítið um þá staðreynd að á Spáni er 55 % atvinnuleyisi ungs fólks en vildi þvæla Bjarna til að tala bara um verðtryggingu húsnæðislána hér á landi.

Sigurjón neitaði að skilja samhengi stöðugleika og verðtryggingar. Sjálfsagt þvert um hug sér því Sigurjón er skynsamur maður sem fyrirgefst þó hann vilji poppa upp þáttinn sinn.

Bjarni svaraði öllum spurning af yfirvegun. Hann bara brilléraði á Sprengisandi.

 


Hrunadansinn

er hafinn með danssporum á Landspítalanum þar sem hann Kjarafeykir er nú stiginn í boði Batta.

Formaður sjúkraliða upplýsir um 15% launamun kynjanna og það muni ekki lengi dragast að þeir fái              " leiðréttingar ".

Þeir umönnunarenglar sem manna spítalana og hjúkrunarheimilin eru óborganlegir í gæsku sinni. Svo gott er þetta fólk. Maður vildi allt gera fyrir þá þegar maður horfir á þá vinna störfin sín af kærleik og umhyggju. 

En hvernig getum við borgað þeim sem þeir eiga skilið? Jú, þeir sætta sig við að við prentum handa þeim marglitan pappír sem við köllum peninga. Alla vantar peninga. Líka mig og líka þig.

Við og englarnir sjálfsagt líka vitum að það sem kostar fimmkall núna kostar sjökall í haust. Sjökall núna kaupir ekki meira en tíkall gerir í haust. Þetta skildu þeir Einar Oddur og Guðmundur Jaki. Og Ólafur Ragnar líka þegar hann sveik hiklaust nýgerðan kjarasamning sem hann hafði skrifað undir til þess að þjóðarsáttin um krónuna næðist 1990. Nú eru þeir Einar farnir frá kjaraborðinu og enginn man hvað þeir gerðu.

Ef við vildum raunhæfar kjarabætur fyrir þetta fólk myndum við stöðva allar kauphækkanir og taxtahækkanir allstaðar. Binda bensínverðið fast og hækka gengið á krónunni. Því er hvort sem er handstýrt. Taka upp öflugt verðlagseftirlit sem úthrópar þá sem dirfast.

Kjör allra myndu batna raunverulega í stað þess að versna óhjákvæmilega sem afleiðing af þeim taxtahækkunum sem eiga sér stað á Landspítalanum.  Það vita allir hvað "taxtaleiðréttingar" og kynjajöfnun  kosta.

En það er alveg sama, við getum ekki lært af reynslunni og önum áfram í dansinn. Er það ekki furðulegt að einhverjum detti í hug að Íslendingar geti haft mynt sem þeir geti ekki prentað sjálfir?

Allir munu skaddast nema skilanefndirnar.

Hrunadansinn við krónuna er hafinn.   

 


"Svá er sagt

þá er Sturla frétti lát Þorbjargar, konu Páls prests, at hann leggst í rekkju,-og þat var honum mjök títt þá er hann var hugsjúkur. Menn fréttu at, hví þat gegndi.

      Hann svarar:"Ek hef nú þau tíðendi fregit, er mér þykkja áhugaverð."

     Menn svöruðu: "  Ekki hugðum vér, at þú myndir stríð um þat bera, þótt Þorbjörg væri önduð."

Sturla svarar: "  Annat ber ok til þess, at mér  eru eigi allhæg at,  því at ek virði svá sem aldri væri saklaust við sonu Páls ok Þorbjargar, meðan hon lifði. En nú samir eigi vel at veita þeim ágang, er hon er önduð." 

Svo fór eiginlega þegar Davíð hvarf úr borgarpólitíkinni að Ingibjörg Sólrún virtist missa alla baráttugleði. Mér fannst hún aldri ná flugi eftir það. Áður gat hún gusað á löngu innsoginu; " Eeeeeeeeeeeeeen Sjálfstæðismenn ! " og komið með ræðu sem lýstu hennar eigin undirmálum, eins og " hallalaus borgarsjóður" og  svo "undirliggjandi halli "  þegar sannleikurinn kom í ljós.  En þegar Davíð var farinn þá var eins og henni samdi eigi eins vel að veita þeim ágang.

Mér varð hugsað til Hvamm-Sturlu þegar ég horfði á beygðan og bukkaðan Steingrím Jóhann  ganga frá fámennum blaðamannafundi sínum þar sem hann tilkynnt uppgjöf sína. ...At nú myndi mér eigi sama að veita þeim ágang mér til skemmtunar þá er höfuðfjándinn er af sviðinu.

Svá kann at verða sagt að eigi verði eins léttvígt og fyrr þá slíkt andlát er fregit.

 

 


Bjarni Ben í Kópavogi

á þrumufundi með meira en 100 manns í Kópavogi nú fyrir hádegið.

Bjani byrjaði með miklu og góðu yfirliti yfir stjórnmálaástandið. Hann ræddi þann hugmyndafræðilega mun sem er á Sjálfstæðismönnum og stjórnlyndu flokkunum.  Þeir síðast nefndu vildu hækka skatta sem einu leiðina til að auka tekjur ríkisins til að standa undir aukinni velferð. Sjálfstæðsmenn vildu lækka skatta og fá auknar tekjur af auknum umsvifum í þjóðfélaginu og þar með breiðari skattstofnum. Þetta væri margsannað með innlendum og erlendum dæmum.

Hann vitnaði í finnskan stjórnmálamanna sem hér var fyrir skemmstu sem ráðlagði Íslendingum ekki að éta útsæðið. Finnar lækkuði skatta á artvinnulífið í sinni kreppu 1993 og enduðu með að þrefalda skatttekjurnar. Vinstri stjórnin hér hefði tvöfaldað fjármagnstekjukatt og flækt og aukið við skattkerfið sem hefði einfaldlega gert að verkum að erlend fyrirtæki sem gerðu upp á Íslandi hefðu hætt því og farið með tugmilljarðaviðskipti sín úr landi.

Sjálfstæðismenn vildu einfalda skattkerfið og  lækka skatta til að styrkja skattstofnana sem þeir vissu að myndu auka skatttekjurnar. Þeir vildu aukin umsvif og fjárfestingar í þjóðfélaginu. Ástæðan fyrir því að allt of lítil fjárfesting væri í þjóðfélaginu væri skattheimtan og einmitt þess vegna væri hagvöxtur lélegur. Tryggingagjaldið væri launaskattur sem ynni á móti því að fólk væri ráðið í vinnu. (En auknar atvinnuleysisbætur eru fjármagnaðar af hækkuðu tryggingjaldi innsk. höfundar).Sjálfstæðismenn ætluðu ekki að leyfa andstæðingunum að halda áfram að kenna flokknum um hrunið áfram. Þeir hefðu ekki farið með ráðuneyti bankamála né heldur félagsmála í stjórnunum á undan. Aðrir flokkar gætu ekki hlaupist frá sinni meðábyrgð.

Rammaáætlun hefði sett bestu virkjanakostina í biðflokk þvert á niðurstöður undirbúningsnefnda. Hér vantaði að tala kjark og bjartsýni í fólkið og auka því trú á landið.Sjálfstæðisflokkurinn væri með góða útkomu í skoðanakönnunum og nálægt sínu meðalfylgi eftir gríðarlegt afhroð 2009. En það mikla áfall hefði samt verið mun minna en stjórnarflokkarnir væru að horfa upp á núna í fylgishruni sínu.

Bjarni sagðist vera bjartsýnn á getu Sjálfstæðisflokkisin til að takast á við vandamálin framundan sem væru visssulega ærin. Mannvalið væri gott. Hann vildi ekki skipta á einum einasta frambjóðanda flokksins um land allt og neinum frambjóðanda hinna flokkanna, þó margt væri þar ágætra manna og kvenna. Sjálfstæðisflokkurinn er reiðubúinn að koma að málunum og hann hefur lausnirnar. Hann hefur trú á sjálfum sér og kemur hreint fram.

Bjarni fékk fjölda fyrirspurna að erindi sínun loknu og ekki allar þægilegar né hógværar. Hann svaraði af einurð öllum atriðum og vék sér hvergi undan. Einn pínulítill flokksmaður sagði við mig á eftir að það hefði vakið mesta athygli sína hversu vel Bjarni stóð sig í þessu þætti fundarins. Þar hefði  hann sýnt að hann  væri fyllilega fær um að leiða stjórnmálaflokk. Enda sagði einn fundarmanna að hann vildi ekki skipta á Bjarna og neinum öðrum flokksmanni til svo góðs málflutnings sem hann hefði þarna uppi.

Bjarni rakti afskipti sín af atvinnurekstri. Hann hefði nú 10 ára reynslu í stjórnmálum að baki sér og tvö ár í atvinnurekstri. Hann hefði ekkert að fela frá sínum árum í atvinnulífinu.Ekkert hefði verið afskrifað á þá aðila sem hann starfaði fyrir í N1 hvað þá Vafningi. Hann hefði aldrei átt í þessum félögum. 11 milljarðar hefðu tapast i hlutafé í N1 af hálfu þeirra  sem  sem hann starfaði fyrir þar(hann sagði ekki hverjir það voru en það mun hafa verið hans eigin fjölskylda að mestu leyti, innsk. höf..).

Hann sagðist margoft hafa haft öll skilyrði til að fara í meiðyrðamál vegna tilhæfulauss áburðar á sig í gegn um tíðina en ekki viljað gera það. Heilræði segði að maður ætti aldrei að fara í slagsmál við svín  vegna drullbaðsins sem fylgir því. En sá eini sem hefði unun af slíku baði væri svínið.  Fundarmenn spurði einskis fleira um þessi mál.

Bjarni sagði vandamálin með höftin væru þríþætt. Þrotabú bankanna og snjóhengjan, aflandskrónurnar  og erlendur skuldavandi stórra aðila. Allt þetta væri leysanlegt en tæki tíma. Íslendingar myndu verða með krónuna næstu árin , það væri engin leið til að skipta í annan gjaldmiðil við núverandi skuldastöðu sem væri hrikaleg. Við yrðum að horfast í augu við vandann af uppgjörum bankanna með einhverjum hætti og óhjákvæmilega myndu fylgja sviptingar.

Þó að ríkið hefði 50 milljarða afgang á fjárlögum hvert  næstu 10 ár og notaði að eingöngu til greiðslu skulda myndi það aðeins duga til að greiða þriðjung af skuldum þess. Svo stórt væri vandamálið. Þessi ríkisstjórn hefði rekið ríkið með halla hvert einasta ár og árið í ár yrði engin undantekning(Uppsafnaður halli norrænu velferðarstjórnarinnar er víst þegar 400 milljarðar, innskot höf.). Við yrðum að leita allra leiða til að finna hagskvæmustu lausnir í öllum okkar umsvifum.

Fyrirliggjandi Náttúrverndarlagafrumvarp yrði til vandamála. Forsjárhyggjan væri mikil. Nútíma tölvu-og gervihnattatækni gæti jafnvel verið látin drepa á bílum ef þeir færu útaf slóð, þannig að menn gætu orðið að hringja í umhverfisráðuneytið ef þeir vildu snúa við til að starta bílnum aftur! Stjórnarskrármálið væri í uppnámi enda allur málatilbúnaðurinn  gallaður frá upphafi. Viða mætti taka til í opinberum rekstri en jafnræði þyrfti að ríkja í samkeppninni þar sem ríkisfyrirtæki greiddu ekki virðisaukaskatt af skattskyldri starsemi sinni eins og þeim bæri að gera og þannig úilokuðust einkaðilar iðulega frá því að bjóða í verkframkvæmdir. Uppgjör Landsbankans væri fyrirsjáanlegt vandamál sem og öll bankamálin eftir ríkisstjórnina. 

Um afstöðuna til ESB var hann spurður um hvernig flokkurinn ætlaði að ná sáttum við þá flokksmenn sem vildu ganga í ESB. Bjarni svaraði því til að best væri að hafa atkvæðagreiðslu um málið á breiðum grunni. Þannig væri komið til móts við ólík sjónarmið. Hans skoðun væri að Íslendingum væri betur borgið utan ESB en innan og hann teldi að svo væri um fleiri. 

Fundurinn var fjörugur og fjölsóttur. Margt fleira bar á góma sem ég rek nú ekki lengur. Ég var sjálfur sannfærður um einlægni Bjarna og þrá hans eftir að vinna þjóðinni gagn. Hann sýndi líka og sannaði að hann hefur mikla yfirsýn yfir þjóðlífið enda talaði hann blaðalaust og studdist ekki við neina minnismiða eða hvíslara heldur talaði við fólkið beint og sannfærandi og rak hvergi í vörðurnar.

Slíkur var brilljans Bjarna Benediktssonar í Kópavogi í morgun að margir fóru út með von í brjósti sem var þar ekki áður.


Þór Saari-gjugg-í-borg!

það er komin vika frá því í dag eða á morgun og það ekki einu sinni heyrist frá þér nema til að skamma hana Þorgerði mína. Engin stjórnarskrá, ekki neitt?

Hvað dvelur tundurskeytaorminn langa ? Gjugg-í-borg Þór Saari!


Birgitta og Netið

er eitthvað sem maður leiðir hugann að eftir að Fréttatíminn kemur út í morgun með grein um hvorutveggja. Eftir þann lestur veltir maður fyrir sér hvaða fróðskap fólk þurfi að hafa til að bera til  að koma fyrir njósnatölvu inni í Alþingishúsinu?

Það búa kannski þar inni fleiri yfir duldum tölvuhæfileikum en  Birgitta. En hún er líka óvenjugóð enskumanneskja sem landsmenn heyrðu til dæmis í Icesave-rimmunni. En þá stóð hún sig afburða vel  í vörninni í erlendum ljósvaka-og netmiðlum.

Nú ætlar hún Birgitta að bjóða Sámi frænda í eina bröndótta um Wikileaks. Getur það nú ekki aldeilis haft áhrif í kosningunum á Íslandi ef Sámur reynir að flækja hana í neti sínu?


Vindmyllur þjóðarinnar við Búrfell

mala gull hverja mínútu núna eftir að sjálfur Steingrímur Jóhann taldi startið niður.

Þeir sem vilja fylgjast með geta smellt á þennan link og séð hvað þær eru að gera.

http://www.landsvirkjun.is/Rannsoknirogthroun/Throunarverkefni/Vindmyllur/Rauntimaupplysingar

 

Til hamingju með þetta kæru landar. Verum stolt af þessum glæsilegu mannvirkjum. Nú vil ég fá eina 6 MW næst.

 

 

  


Verðum við ekki að leita leiða?

til að leysa vandamálin á sjúkrahúsunum?

Við höfum ekki lengur ráð á að hafa svo háan standard af hjúkrunarfólki, sjúkraliðum  og læknum sem við höfum. Það gengur ekki að kvelja það svona í launum að það segi upp og fari til Norðurlandanna. Verða okkar sjúklingar ekki að sætta sig við minni þjónustu og verri vilji þeir ekki borga meira? Eiga þeir einhvern rétt á öllu þessu fíneríi?

Get ég ekki alveg eins endað mína daga verið á gamalmennahæli í Úsbeskistan af því að við höfum engin úrræði hérna? Á ég einhverja kröfu á íslenska ríkið fyrir þann lúxus sem gamla fólkið  hafði meðan við enn vorum bara blönk en þó stolt þjóð? Borgum við ekki  Hallgrími Helgasyni rithöfundi laun núna fyrir að skilgreina þjóðernið og fánann okkar uppá nýtt?

Verðum við ekki að flytja inn td.indverskt eða kínverskt heilbrigðisfólk sem við getum  fengið fyrir minni pening en okkar fólk. Fólk sem talar ensku og langflestir sjúklingar skilja nógu vel. Gangastúkur eru lengi búnar að vera af ýmsu þjóðerni á spítulunum. Notað þetta með dýrara fólkinum og náð að manna spítalana, að minnsta kosti meðan við erum að byggja ný hús sem allir vilja vinna í. Þurfum við ekki líka að kanna hvort við getum flutt út fleiri sjúklinga til dæmis á norræna samhjálp, eða fylla stórar flugvélar og fljúga með þá burt? Til Rúmeníu, Albanníu  eða annarra  fátækra ríki sem vilja annast þá fyrir verð sem við getum borgað?

Líklega hefðum við alveg eins átt að taka slaginn núna? Láta uppsagnirnar koma til framkvæmda til að sjá hvað vandamálið er stórt? Taka svo ákvarðanirnar í framhaldi af því?

Ég óttast að með nýju samningunum hafi verið sett í gang þróun sem enginn sér fyrir endann á. Þróunin sem nú er hafin getur auðveldlega stigmagnast og endað í nýju hruni og gjaldþroti ríkisins. Hér getur skollið á óðaverðbólga fyrr en varir? Eigum við einhverja kröfu á norrænt velferðarsamfélag úr því að enginn getur borgað? 

Verðum við ekki að gera eitthvað í þessari fátækt allri?  Verðum að leita leiða til þess næstbesta úr því að við höfum ekki ráð á því besta? 


Menningararfurinn á Skeiðunum

er vel varðveittur á Skeiðunum ef marka má deilur sem þar eru risnar.

Svo segir Eiríkur Þórkellsson í Vorsabæ l í Fréttabréfi Skeiða og-Gnúpverjahrepps:

" Í síðasta fréttabréfi  gerir Gunnar Örn fyrrverandi  oddviti grein  fyrir þeirri 
ávörðun sinni að vera á móti framkvæmdum í landi Vorsabæjar 1 og gerir lítið úr ákvörðunum  samstarfsfólks síns  í hreppsnefndinni. Hvort er verra, að kynna sér ekki málin og segja nei, eða slá málunum á frest?

Í pistli þessum vil ég varpa ljósi á það ferli sem sem hófst þegar til mín kom maður sem sagðist hafa áhuga á að flytja í sveitina með sína fjölskyldu. Hafði hann farið vítt um Suðurland en fengið einkum augastað á Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem þjónustan virtist góð hvað varðar skólana og sveitafélagið væri framalega í tækniþróun þar sem verið var að fara í framkvæmdir með lagningu ljósleiðara.

Komumst við að samkomulagi um að hann keypti af mér 40 hektara landspildu. Varð mér brátt ljóst að hann ætlaði ekki að vera kotbóndi út í sveit heldur byggja upp myndalegt býli og vera með starfsemi á jörðinni. Er hann mikill áhugamaður um vindmyllur og vill vera brautryðjandi á því sviði hér á landi. Á hann töluvert eigið fé eftir að hafa rekið útgerð erlendis og selt sinn hlut í henni fyrir nokkrum árum. Hluta af því fé ætlar hann að nota í uppbyggingu á framtíðar búgarði sínum og nýta vindorkuna í þá starfsemi sem hann ætlar sér að koma þar upp.

 Hef ég hrifist af þessum áformum hans og talið það verða til hagsældar fyrir sveitafélagið að fá framkvæmdamann í sveitarfélagið og ekki síst  að hann  vilji setjist hér að með sína fjölskyldu. Í júlí fór hann að kynna áform sín fyrir skipulagafulltrúanum og stjórnendum sveitarfélagsins. Honum var tjáð að stofna  þyrfti  iðnaðarlóð þar sem staðsetja ætti vindmyllurnar og áhrifasvæðið yrði 500 metrar í kringum lóðina samkvæmt skipulagslögum. Mikilvægt væri að kynna fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir næstu nágrönnum  og þá sérstaklega fyrir þeim sem ættu land sem yrði innan áhrifasvæðisins. Hef ég aðstoðað hann við að kynna áform hans fyrir nágrönnunum og tel ég að það hafi tekist vel.

Á fundi sveitarstjórnar í ágúst var ákveðið að auglýsa breytingar á skipulagi í landi Vorsabæjar1 samkvæmt skipulagslögum. Kom ein athugasemd frá 
eigendum tveggja sumarhúsa sem eru í 1,3 km fjarlægð frá fyrirhuguðu byggingasvæði vindmyllanna. Telja þau að þetta geti rýrt verðgildi eigna sinna.

Á 23 ha landspildu þeirra er 40 metra hátt háspennumastur í um  300 metra fjarlægð frá sumarhúsunum og kvöð á landspildunni þar sem Landsvirkjun hefur heimild til að fara yfir landið til að þjónusta mastrið. Því er hæpið að tvær vindmyllur í meira en eins kílómetra fjarlægð rýri verðgildi eigna þeirra frekar.

Á fundi sveitastjórnar í nóvember var ákveðið að fresta frekara auglýsingarferli varðandi breytingar á skipulagi í Vorsabæ  þar sem sveitastjórn sú, sem samþykkt hafði vindmyllur  rúmum mánuði áður á svæði sem er við náttúruperlur 22 sveitarfélagsins og framtíðar ferðamannaparadísar þess, virtist ekki vera nægjanlega upplýst um áhrif vindmylla á nánasta umhverfi.

Í framhaldi af þessari ákvörðun sveitastjórnar var þeim boðið á kynningarfund í Vorsabæ þar sem þau gátu kynnt sér frekar áform þau sem fyrirhuguð voru á jörðinni og tækni þá sem vindorka er og framtíðarmöguleika fyrir sveitafélagið. Öll þáðu þau boðið en Gunnar mætti ekki og boðaði ekki forföll. Hefur hann lítið viljað fræðast um þessi áform hjá framkvæmdaraðila.

Í framhaldi af þessum fundi var ákveðið að framkvæmdaraðili myndi útbúa myndir þar sem myllurnar sæjust frá nokkrum sjónarhornum í sveitinni. Síðan yrðu haldnir frekari kynningafundir í sveitinni. Var þetta gert og endað með kynningafundi í Brautarholti þar sem kom m.a. fulltrúi frá HS-orku sem ætlar að kaupa orkuna frá vindmyllunum og býður íbúum Skeiða og Gnúpverjahrepps 10% afslátt af orkuverði. Álítur HS-orka að vindorkan sé verðmæt í sitt orkuframboð og vil stuðla að því að þetta verkefni verði að veruleika. 

Á síðustu þremur mánuðum hefur hreppsnefndin flækt þessu máli í þá stöðu að stofna á svæðisnefnd með sveitafélögunum í kring sem á að ákveða heildarskipulag  hvað varðar vindmyllur á svæðinu og jafnvel að bíða eftir því að mörkuð verði stefna á landsvísu hvað varðar nýtingu vindorku.

Með þessu er verið að drepa fjárfestingaverkefni upp á fleiri hundruð milljónir hér í Skeiða og Gnúpverjahreppi. Það getur enginn einstaklingur beðið í fleiri ár með svona verkefni upp á von og óvon um hvort það verði samþykkt.

Kæru sveitungar. Eigum við að glutra niður svona fjárfestingartækifæri hér í 
sveit. Okkur sár vantar aukin umsvif  hér í sveit, með aukinni atvinnu og auknum tekjustofnum fyrir sveitarfélagið. Þarna er möguleiki að fá fjárfestingu upp á hundruð milljóna og fjölgun í sveitinni. Í framhaldinu mun skapast 1 til 2 störf  við eftirlit og umsjón með myllunum auk þess í að framhaldinu yrði einhver starfsemi sem mun nýta orkuna á staðnum.

 Framleiðsla orku úr vindi mun bæta ímynd sveitarinnar í augum útlendinga þar sem vindorka er álitin vistvæn. Markaðssetning ferðaþjónustufyrirtækja yrði auðveldari, auðveldara að fá vottanir og auka því forskot sveitarinnar í markaðssetningu afurða og þjónustu.

Hvað er svo neikvætt við að reisa tvær vindmyllur þar sem næsta íbúðarhús er nú í um 1,4 kílómetra fjarlægð (Vorsabær 1).  Þær yrðu í manngerðu vistkerfi þar sem þegar eru háspennumöstur og misfagrar byggingar.

Það er misjafnt hvað fólki finnst um útlit vindmylla, eins og er um öll mannanna verk. Tel ég að það verði mikill álitshnekkir fyrir sveitafélagið ef við höfnum þessum fjárfestingarkosti. "

Þarna sjá menn að tilfinningar ráða för í þessu máli í sveitarfélaginu Forsjárhyggjan er slík að landeigandi má ekki reisa vindmyllur á eigin landisem er flóðasvæði og má ekki nota nema til annrs en grasnytja. Allt vegna afskipta nágranna sem eru langt í burtu. Þeim er slétt sama um þennan nýja nágranna sinn er sparka hiklaust í hann svo hann pilli sig í burtu.

Forfeður þessa fólks sem þarna stjórnar riðu 1904 til Reykjavíkur að mótmæla símanum. Þeir sem þekkja til á Skeiðunum eru sumir sagðir undrast ekki að þarna búi fólk sem varðveitir menningararf bændastéttarinnar.


Vindmyllurnar

snúast við Ísakot. Ég fór að berja þær augum í kvöld. 

Það sem mér fannst fyrst merkilegast þegar ég kom keyrandi neðan úr Landssveit, að ég ætlaði aldrei að koma auga á þær. Fyrst sá eg tvö ljós í fjarskanum sem blikkuðu. Annað sást ekki í svona 3-5  km fjarlægð. Ég fór svo að geta mér til að þetta væru vindmyllurnar og blikkið kæmi þegar blöðin færu fyrir ljósin. Þegar ég kom nær í kannski 1-2 kílómetra fjarlægð sá ég  hreyfinguna og að þetta væru myllurnar. Svo nálgaðist ég meira og kom að Ísakoti og þá sýndust mér þær ekkert vera neitt stórar eða áberandi. Þar heyrði ég ekkert í þeim heldur þó að vindurinn stæði beint á mig í svona tvöhundrað metra fjarlægð.

Svo fór ég alveg að þeim og fór út úr bílnum. Það var hávaða rok. Ég  hlustaði en heyrði varla neitt í þeim. Tígulegar fannst mér þær og fallegar. Fylltist eiginlega lotningu við að horfa á þær vinna svona létt og fallega. Ég hvet ykkur til að fara inn á www.Enercon.de og sjáið hversu gríðarleg tækni er á bak við smíðina.

Ég fór að  velta því fyrir mér að þessar myllur eru bara 2 MW. Hundrað svona myllur dyttu fyrirhafnarlaust í víðáttuna þarna uppfrá. Þær myllur sem nú eru mest framleiddar gefa svona sjö sinnum meira afl þannig að 30 slíkar myllur framleiddu 200 MW eins og mig minnir að Búrfell l hafi verið.   Þær sæjust varla í landslaginu. En Þjórsá, Búrfellsstöð, Ísakot,  lónin og línurnar sjást svo sannarlega.

Fallvötnin okkar eru á ákveðnum stöðum. Vindurinn er hinsvegar allstaðar.

En vindurinn var þarna var sjálfur í dag  að gefa margfalt allt upprunalegt afl Búrfellsvirkjunar. Ég fór að reyna að gera mér grein fyrir öllu þessu afli  sem var á ferðinni en bara gat það ekki. Það hefði hvergi séð högg á vatni í afli hans þó þúsund, tíuþúsund eða hundraðþúsund myllur hefðu snúist þarna í dag. 

Ég skynjaði eiginlega fyrst hvaða reginafl er í vindunum þegar ég horfði á myllurnar snúast. Það er óendanlega miklu meira en alls vatnsfallsins og mannvirkjanna þarna í kring.   Með algerlega afturkræfum hætti beljar þetta afl sem ég stjórna ekki og get ekki stoppað.  Vindurinn hættir að blása þegar honum hentar og myllan stoppar. Maður skrúfar mylluna niður og degi seinna sjást engin ummerki á staðnum. Búrfellsvirkjun hefur svo sannarlega breytt öllu umhverfi virkjunarinnar frá því ég var strákur þarna á rjújpnaskítteríi. Hana skrúfar sem betur fer enginn niður. Þjóðin á hana núna skuldlaust eftir tæpa hálfa öld í rekstri. Ég man enn sönginn í kommunum þegar átti að byggja hana. Allt ómögulegt.

Þegar ég fór fyrst í sveit 7 ára gutti  þá fékk ég að vera bremsustjóri á vindmyllunni á bænum í Borgarfirðinum. Ef kom rok þá varð að stoppa hana. Þetta var bara rella á hlöðuþakinu sem hlóð batterí svo hægt var að hlusta á fréttirnar og hafa einhverjar ljóstýrur stundum. Þetta var samt mikil bylting í sveitunum frá olíuljósunum.Ég man að myllan hét Whittaker KARI og pabbi minn flutti þær inn og seldi um allar sveitir. Svo kom rafið næsta eða þarnæsta  sumar og þá breyttist allt í sveitunum. Mjaltavélar, súgþurrkun, birta og ylur.

Nú veit ég til þess, að einn maður vildi setja upp vindmyllur á eigin spýtur á Skeiðunum síðasta sumar. Hann er búinn að veltast með þetta milli Herodesar og Pílatusar í bráðum ár og fá núna eiginlega endanlegt afsvar. Vindmyllur þjóðarinnar upp við Ísakot kosta skattgreiðendur  600 milljónir. Voru hjúkrunarfræðingar spurðir um leyfi ? Þessi maður keypti sér land og ætlaði að kosta sínar vindmyllur sjálfur.  Búinn að kosta kynningar og skipulagstillögur úr eigin vasa eftir leibeiningum yfirvalda. Senda ótal erindi, halda ótal fundi. Nei takk!  Einn sumarbústaðaeigandi  harðneitar og hinir íbúarnir standa hjá. Engar vindmyllur á Skeiðin takk. Vantar heildstæða vindmylluáætlun fyrir landið í heild. Án þess að benda á hver eigi að framkvæma eða kosta.

Samt  segir aðalskipulag Skeiða-og Gnúpverjahrepps að stuðla skuli að orkuvinnslu í sveitarfélaginu. Blablabla.  Burt með þig og þinar hugmyndir eru kveðjur sveitarstjórnarmanna til þessarar einkaframkvæmdar í beislun vindorku. En þeir sjálfir virðast snúast í afstöðu sinni og afgreiðslum eins og vindhanar frá fundi til fundar. Búnir að gefa mörg fögur fyrirheit en snúast svo jafnan óvænt í aðra átt þegar á reynir.

Þúsundir vindmylla snúast nú um allan heim. Hreinasta orka sem til er. Þýskaland getur ekkert annað en sett upp fleiri vindmyllur því frú Merkel vill ekki Atomkraft. Frakkar setja upp Atom á landamærunum og selja henni þann straum sem Ruhr-héraðið vantar. Mannkynið allt kallar á meiri orku og hreina orku því Al Gore segir að annars hlýni í heiminum og allir virðast trúa honum. En svo eru orkumannvirkin svo ljót að það fæst ekki að byggja þau vegna sjónmengunar eins og það er kallað.

Við þessar aðstæður mun mér þykja merkilegt ef  Íslendingar ætla engar vindmyllur að leyfa hjá sér nema sem opinberir aðilar reisa.  Bara af því að einhverjum finnst að þær séu hugsanlega ljótari en háspennuturnarnir og línurnar sem eru helstu einkennistréin og laufið á flatlendinu á Skeiðunum. Var ekki kveðið: Lítilla landa, lítilla sæva, osfrv.

DonKíkóti barðist við vindmyllur á sinni tíð. Hafi riddarinn haft sigur þá hefur það varla verið á Skeiðunum 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 3418160

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband