Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

150 milljónir í kosningatrix

Dags B. Eggertssonar til þess að komast hjá því að þurfa að ræða málefni Reykjavíkurflugvallar.

Dagur skipaði svonefnda Rögnunefnd, fyrir síðustu kosningar. Nefndi átt að leita að því sem ekki hefur fundist við ítrekaða leit og endurtekna. Plássi fyrir nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Drap allar umræður um hryðjuverk sín við flugvöllinn með því að vísa sífellt til nefndarinnar og þegar við bættist fádæma slappelsi andstæðinganna var honum leikurinn léttari. 

Ég hef lengi undrast þögnina um störf nefndarinnar og þann mikla hægagang sem yfir henni er. Nú er skýringin fengin.

150 milljónir í greiðslur skýra hægaganginn. Auðvitað vilja menn fá sem mest fyrir sinn snúð.

Þögnina skýrir svo sú staðreynd að Dagur Bé skipaði sjálfan  sig í nefndina. Það gulltryggði að ekkert gæti komið bitastætt frá henni.

Ég hef undrast geðleysi þeirra sem sitja með bragðarefnum í nefndinni. En frekur er hver til fjörsins. 150 milljónir eru  ekki á hverju strái.


Innanmein samfélagsins

verða Óla Birni að umræðuefni í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir m.a.:

"verkföll og erfiðar kjaradeilur verða óhjákvæmilega til þess að athyglin beinist að innanmeinum sem hrjá íslenskan vinnumarkað sem og áhrifaleysi og vanmætti almennings. En kastljósið beinist ekki síður að þeim tvískinnungi sem verður til vegna eignarhalds stærstu fyrirtækja landsins..........

 

 

.........Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti almenni lífeyrissjóður landsins og hefur verið umsvifamikill í fjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Í lok liðins árs var bókfært verðmæti hlutabréfa í skráðum og óskráðum félögum um 97,5 milljarðar króna. Þetta jafngildir um 3,3 milljónum á hvern félagsmann.

 

....... Nú er svo komið að sameiginlega fara lífeyrissjóðir með ráðandi hlut í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins.

 

 

 

Lífeyrissjóðir eiga yfir 40% beinan eignarhlut í níu af fimmtán fyrirtækjum í kauphöll líkt og sést á meðfylgjandi mynd. Lífeyrissjóðirnir eiga einnig óbeina hluti í mörgum fyrirtækjum í gegnum hlutabréfasjóði og ekki síst framtakssjóði á vegum banka og verðbréfafyrirtækja. Greining Íslandsbanka taldi í nóvember á liðnu ári að lífeyrissjóðirnir ættu meirihluta - beint og óbeint í Icelandair, Högum og N1

.

 

En lífeyrissjóðirnir hafa einnig fjárfest í hlutabréfum óskráðra fyrirtækja. Beint og óbeint eiga þeir meirihluta í Kaupási sem rekur Krónuna, Nóatún og Kjarval. Þannig ráða sjóðirnir tveimur af stærstu verslunarkeðjum landsins sem hafa m.a. yfirburðastöðu á íslenskum matvörumarkaði.

 

Nær 40% hlutafjár Símans eru í eigu lífeyrissjóðanna og þar er Lífeyrissjóður verslunarmanna stærstur með 13,2% hlut. Arion banki er hins vegar stærsti einstaki hluthafinn með liðlega 38%. Lífeyrissjóðir og nokkur stéttarfélög eiga um 37% hlutafjár í Virðingu - verðbréfafyrirtæki sem m.a. rekur framtakssjóði. Í gegnum Framtakssjóð Íslands er Icelandic Group að fullu í eigu lífeyrissjóðanna sem og 38% hlutur í Invent Farma. Lífeyrissjóður verslunarmanna á tæplega 10% hlut í MP banka og Lífeyrissjóðurinn Stafir á 14,5% í Samkaupum hf. sem rekur samnefndar verslanir og Nettó. Þannig má lengi telja.

 

 

........Sameiginlega eru lífeyrissjóðirnir því áhrifamiklir í íslensku viðskiptalífi. Þeir geta haft veruleg áhrif á stefnu sem mörkuð er í atvinnulífinu og mótað launastefnu flestra stærstu fyrirtækja landsins sem síðan hefur óhjákvæmilega áhrif á flest önnur fyrirtæki.

 

 

.......Þannig er t.d. formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna fulltrúi VR. Með öðrum orðum: Forystumenn launamanna hafa öll tækifæri til að hafa áhrif á stefnu margra stærstu fyrirtækjanna - ekki síst launastefnu, jafnt þegar kemur að kjörum almennra starfsmanna eða launa og kaupauka æðstu stjórnenda. (Að ekki sé minnst á stjórnarlaun.)

 

VR hefur gert þá »kröfu að félagsmenn fái leiðréttingu á sínum kjörum til samræmis við aðra hópa í þjóðfélaginu«. Í tölvupósti til félagsmanna segir að kröfur félagsins séu »sanngjarnar og þær ógna ekki stöðugleikanum«. Rök annarra stéttarfélaga eru svipuð.

 

 

Vandinn er að stéttarfélögin sitja í raun beggja vegna borðsins; annars vegar sem launafólk og hins vegar sem fulltrúar eigenda íslenskra stórfyrirtækja í gegnum eignarhluti lífeyrissjóða.

 

Sé það eindregin skoðun forystumanna stéttarfélaganna að laun afgreiðslufólks í matvöruverslunum séu skammarlega lág (sem er rétt) en laun stjórnenda of há (sem endalaust er hægt að deila um), vaknar sú spurning af hverju þeir beita ekki áhrifum sínum innan lífeyrissjóðanna þannig að kjarastefnu fyrirtækjanna sé breytt. Lífeyrissjóðirnir eiga meirihluta í stærstu verslunarkeðjum landsins. Í stað þess að beita áhrifum sínum er boðað til verkfalls, meðal annars hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum í eigu einstaklinga sem margir greiða starfsmönnum sínum mun betri laun en fyrirtæki í eigu lífeyrissjóðanna.

 

Líklega liggur vandinn ekki síst í því hvernig staðið er að skipan stjórna lífeyrissjóðanna en umfjöllun um hana bíður betri tíma. Eitt er víst: Forystumenn stærstu stéttarfélaganna bera ekki minni ábyrgð á kjarastefnu margra stærstu fyrirtækja landsins, en atvinnurekendur sjálfir. Undan þeirri ábyrgð komast þeir ekki með verkföllum."

 

Mér flaug í hug hvort lífeyrissjóðir eigi ekki að tilnefna sem fulltrúa sína í stjórnir þá félagsmenn sem eru komnir á lífeyri og þar með eftirlaun? Eins og mig til dæmis? Ekki væri þá um það að ræða að sitja beggja vegna borðsins. Það mætti fylgja að laun yrðu ákveðin af umbjóðandanum. Þeir sem eru í fullu fjöri hafa önnur sjónarmið um laun og bónusa en þeir eldri. Og hugsanlega líka minni lífsreynslu.

Hugsanlega eru innanmein samfélasins ekki hvað síst fólgin í því að huga ekki að reynslu fyrri kynslóða?

 


Stórmerk grein um manneldi

birtist í Mbl. í dag eftir Pálma Stefánsson efnaverkfræðing.

Fyrir þá sem ekki lesa Mogga er greinin hér:

"Efnahvörf í vatni eru almennt háð hitastigi, magni hvarfefna og sýrustigi. Lífefnahvörf líkamans eiga sér stað við stöðugt hitastig með hjálp lífhvata. Efnaskiptin eru í hámarki við ákveðið sýrustig umhverfisins en líkaminn gerir allt sem hann getur til að halda stöðugu sýrustigi fyrir hin ýmsu lífefnahvörf í frumum líffæranna. Magn hvarfefna kemur úr fæðunni við meltingu hennar. Sé ekki neytt nægra steinefna og vítamína fyrir bæði stöðugt sýrustigsjafnvægi og næga hvata dugar lítt gnótt hvarfefna. Frávik á sýrustigum hefur því áhrif á alla líkamsstarfsemina. Aðeins eru þó fimm efni í lykilhlutverki hér: prótín og fosfór sem eru sýrumyndandi í líkamanum og svo basarnir kalíum, kalsíum og magnesíum.

 

Það eru nákvæmlega 100 ár síðan óvart var gerð stór og merkileg »manneldistilraun«. Þetta var í fyrri heimsstyrjöldinni og þýska herskipið Krónprins Vilhjálmur hafði verið samfleytt til sjós í 255 daga og hafði tekið mat og kol úr 14 enskum og frönskum flutningaskipum sem síðan var sökkt. Maturinn var m.a. ferskt nautakjöt, brauð úr hvítu hveiti, sætt kex og kökur, sykur, soðnar kartöflur, niðursoðið grænmeti og oleumsmjörlíki. Yfirmenn fengu það litla sem fannst af fersku grænmeti. Er skipið neyddist til að leita lands í Virginíu í BNA voru 110 sjóliðar af 500 rúmfastir en aðrir stóðu varla undir sjálfum sér vegna þróttleysis. Bæði læknar og aðrir veltu þessu síðan fyrir sér en komust að engri vitrænni niðurstöðu lengi vel. Þótti undarlegt að kalk hafði fallið út í liðamótum og þau bólgnað svo að menn gátu að lokum ekki staðið á fótunum auk fleiri einkenna. Það var þó næringarfræðingur sem kom öllum til heilsu á mislöngum tíma með því að gefa þeim aðallega ávaxta- og grænmetissafa, þ.e. nóg af vítamínum og steinefnum sem þeir höfðu farið á mis við og útiloka dýraprótín.

Í dag vitum við að öll áhöfnin varð ofsýrð af mat sínum sem hafði breytt sýrustigum líffæranna vegna skorts á bösum í matnum. Beinin höfðu farið að leysast upp og afleiðingarnar komu fljótt fram. Það sem er merkilegt við þetta er hvað þrótturinn var fljótur að þverra hjá ungum dátum á besta aldri á þessu sýrumyndandi fæði sem á þeim tíma þótti þó herramannsmatur enda yfrið nóg af hitaeiningum. Það var eimitt kjötið (prótínið og fosfórinn ) sem eyddi basamyndandi steinefnum og rústaði sýru- og basajafnvægi líkama þeirra. Þetta gerist enn hjá okkur í dag en þar sem við neytum líka ávaxta og grænmetis gerist þetta á löngum tíma.

Síðan þetta gerðist hefur mönnum tekist að finna leið til að reikna út frá fimm jónuðum efnum úr mat nokkurn veginn það magn sem ákveðin matvæli mynda af sýrum eða bösum í líkamanum mælt í rafeiningunni meq og gera töflur fyrir meq í 100 g matvöru til að auðvelda að setja saman matseðil með jafnt af sýru og bösum. Formúlan sem notuð er til að reikna þetta er svonefnt PRAL-gildi: grömm prótín x 0,49 + milligrömm (mg) fosfór x 0,037 - mg kalíum x 0,021 - mg kalsíum x 0,013 - mg magnesíum x 0,26 og er útkoman fjöldi meq úr 100 g matvöru. Þetta eru einmitt aðalefnin í hverri frumu í okkur og mynda sýru- og basajafnvægi í henni en flest lífefnahvörfin eiga sér stað í frumunum. Sé útkoma PRAL-formúlunnar neikvæð er varan basamyndandi en jákvæð sýrumyndandi. Af þessu sést að eitt prótíngramm sem myndar 0,49 meq af sýru og fosfórinn 0.037 meq hvert mg hafa mest áhrif á að sýra líffærin. Basarnir eru þrír og er kalíum með 0,021, kalsíum með 0,013 og svo magnesíum með 0,026 meq milligrammið. Fullorðnir þurfa daglega í fæðu 1,6 g kalíum, 280-350 g magnesíum og 800 g af kalsíum og jafnt af fosfór. Því reiknast mér til að 50 g prótíns á dag ætti að vera nægjanlegt fyrir flesta. Prótínríkar matvörur eins og egg, ostar, kjöt- og fiskvörur eru því með yfirgnæfandi sýrumyndandi prótín og svo fosfór. Það eru aftur á móti ávextir og grænmeti sem eru basísk. Olíur og feiti eru yfirleitt hlutlaus en kornmeti og þar með brauð er sýrumyndandi. Í fæðunni er brennisteinn, fosfór, klór og joð sem öll mynda sýrur sem eru eitur ein og sér og leysa upp vefina að lokum ef líkaminn fórnaði ekki bösum til að gera sýrurnar óvirkar og skola þeim síðan út í þvagi og með svita.

Og það er mjög auðvelt fyrir alla að fylgjast með sýrustigi þvagsins með pH-litarstrimlum yfir sólarhringinn en normalt sýrustig getur þó sveiflast milli 5,5 til 7,5, lægst að nóttu til. Önnur sýrugildi benda til ójafnvægis og oftast ofsýringar vegna ofáts prótíns (kjöt, fiskur, egg og brauð). Það vantar þá augljóslega meira af basamyndandi matvöru í fæðið sem yrði besta forvörnin til betri heilsu. Að lokum vil ég benda á ágæta »handbók« um sýru- og basajafnvægið sem selst hefur í 300.000 eintökum eftir dr. med. Eva-Maria Kraske og heitir á þýsku: Saeure-Basen-Balance, Schluessel zu mehr Wohlbefinden. Þá eru pH-Fix 4.5-10.0 litarstrimlar frá Macherey-Nagel með 100 stk. í pakka ágætir til mælinga vilji menn prófa. Hvort tveggja kostaði um 20 evrur í lyfjabúð í München."

Nú vantar okkur að vita hvar við fáum þessa strimla til að mæla sýrustig okkar. Er komin þarna skýringin á liðverkjunum sem hrjá marga og lætur þá éta massavís af rándýrum liðpillum. Sérlega ef hægt er að fá bót með aukinni grænmetisneyslu og minna próteini.

Pálmi hafi þakkir fyrir þessa stórmerku alþýðugrein um manneldi.


BHM verði ekki samningsaðili

um kaup og kjör í næstu samningum.

Þetta bandalag er svo ósamstætt og tilgangslaust að furðu gegnir að það skyldi nokkru sinni hafa fengið samningsrétt á vinnumarkaði.

Aðildarfélögin eru þessi:

 Fyrir hverja?                           
Fagfélag arkitekta
Fag- og stéttarfélag dýralækna
Stéttarfélag akademískra starfsmanna hjá HR
Stéttarfélag fréttamanna á RÚV
Fag- og stéttarfélag geislafræðinga
Stéttarfélag starfsmanna HÍ og tengdra stofnana
Stéttarfélag kennara eða sérfræðinga við HA
Stéttarfélag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins 
Stéttarfélag félagsvísindamanna
Fag- og stéttarfélag atvinnuhljómlistarmanna
Fag- og stéttarfélag leikara, dansara, söngvara og leikmynda- og búningahöfundadansara
Fagfélag listdansara
Stéttarfélag náttúrufræðinga, arkitekta eða tengdra greina á sviði raunvísinda
Fag- og stéttarfélag leikstjóra
Fag- og stéttarfélag lífeindafræðinga
Stéttarfélag prófessora við ríkisháskóla
Fag- og stéttarfélag sjúkraþjálfara
Fag- og stéttarfélag félagsráðgjafa
Stéttarfélag óháð starfsvettvangi eða háskólamenntun
Fag- og stéttarfélag iðjuþjálfa
Stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Fag- og stéttarfélag ljósmæðra
Fag- og stéttarfélag sálfræðinga
Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga
Stéttarfélag matvælafræða, næringarfræða eða skyldra greina
Stéttarfélag þeirra sem lokið hafa a.m.k. Bachelor gráðu í lögfræði
Fag- og stéttarfélag þroskaþjálfa

 

Það blasir nokkuð við að meirihluti félagsmanna eru að vinna opinber störf. Innan um eru einhverjir launþegar sem kalla sig stéttarfélög sem var einu sinni í tísku að stofna sem sérkjarafélög fyrir misskilda ríkisstarfsmenn. 

Með hálfu auga sést að félagsmenn eiga helst heima innan BSRB nema hugsanlega Arkitektafélag Íslands sem auðvitað á ekki heima í þessum félagsskap fremur en önnur sérfræðingafélög. Flestir einkakapítalistar og harkarar eins og Félag Vinnuvélaeigenda,  Verktakasamband Íslands eða Landssamband Útvegsmanna sem dæmi.

Þessi félagsvanskapningur hefur svo ítrekað orðið til vandræða á almennum vinnumarkaði í sambandi við kjaradeilur og stendur til dæmis núna þversum í vegi fyrir vitrænum viðræðum. Það er rétt að halda þessu félagi fyrir utan allar viðræður þar til allara síðast.

Vonandi gerir Ríkið sér grein fyrir því að þetta félag þarf að kaupa í burtu til að leiðrétta þau reginmistök sem gerð voru þegar því var hleypt  inn á vinnumarkaðinn.

Meðal annars þetta er það sem hafa verður í huga við allsherjar uppstokkun kjarafélaga sem þjóðinni er bráðanauðsyn á að fram fari eigi að vera hægt að reka hér nútíma þjóðfélag í stað núverandi goðasamfélags á vinnumarkaði með rætur í þjóðveldisöld. BHM á þar ekkert erindi.


Flýgur fiskistofa

til og frá í tilverunni.

Morgunblaðið lýsir ferðalögunum þannig:

"Níu mánuðum síðar er hún enn á ferð um götuna og vindur sér að henni ókunnugur og segir að fiskistofuákvörðun hafi verið breytt og nú skuli stofnunin flytja norður í áföngum. »Kannski fer neðsta hæðin fyrst,« sagði hann. »Það lá að,« sagði kerla, »enn flýgur fiskiflugan«.

Kerla sat heima hjá sér og kannaði í síðasta sinn hvort Síðasta lag fyrir fréttir, sem hún heyrði síðast fyrir fáeinum árum, hefði í raun verið síðasta lag fyrir fréttir og lenti hún því óviljandi í því að heyra hádegisfréttir.

 Þar sagði að nú hefði verið ákveðið að forstjóri Fiskistofu flytti einn til Akureyrar, en starfsmenn sem alls ekki vildu flytja mættu ráða því hvort þeir flyttu eða ekki. Ráðherra sagði þessa breyttu ákvörðun undirstrika óbreytta ákvörðun.

 

Kerling skildi það svo að það þýddi að starfsmenn í Hafnarfirði myndu jafnan skjótast norður og halda árshátíð fiskistofustjóra til samlætis. 

Það flýgur Fiskistofan,« sagði kerling, »ég sný ekki til baka með það«."

Ég held að þessi vandræðagangur með Fiskistofu, ESB viðræðurnar og svo líka með Náttúrupassann og Húsnæðisfrumvarpið sé ekki til að auka traust manna á ríkisstjórninni.

Mér finnst að fyrsta spurning með Fiskistofu væri sú, hvort að sú ráðstöfun að stofna til hennar hafi verið rétt? Voru ekki mun færri starfsmenn við gamla lagið? Má ekki endurskoða skipulagið?

Á að gefa útlendingum allt eftir með gjaldttöku á ferðamannastöðum enn eitt árið? Á ekki að gera neitt? 

Og hvað sem ESB líður, er ekkert bráðaðkallandi í húsnæðismálum landsmanna? Virkilega ekki þó fljúgi lítið Fiskistofa?


Burt með tollana!

segir Erlendur Björnsson í flokksráði Sjálfstæðisflokksins í grein í Mbl. í dag:

"Tollar hækka vöruverð til neytenda og fyrirtækja. Tollar skekkja verðmyndun í hagkerfinu, stuðla að röngum fjárfestingum og rýra hagvöxt. Tollar lækka ráðstöfunartekjur launþega. Tollar flytja hagnað af verslun úr landi og draga úr vöruúrvali neytenda. Tollar auka viðskiptakostnað atvinnulífsins. Tollar veikja útflutningsgreinar. Það eru engin efnahagsleg eða pólitísk rök fyrir því að leggja tolla á vörur, önnur en að gæta sérhagsmuna afar fárra fyrirtækja og einstaklinga á kostnað atvinnulífsins og alls þorra launþega.

 

Tekjur ríkisins af tollum og aðflutningsgjöldum, skv. fjárlögum 2015, eru áætlaðir 5,5 milljarðar króna, eða sem nemur 0,8% af heildartekjum ríkissjóðs. Væru allar vörur settar í 0% tollflokk og allir magntollar lagðir af, myndu tekjur ríkissjóðs minnka óverulega, en á móti myndi ríkið spara kostnað við tollheimtu, aðrir skattstofnar myndu styrkjast og kaupmáttur allra landsmanna eflast. 

Ríkisstjórnin ætti að stefna að afnámi alla tolla á innflutning frá og með 1. janúar 2016. Það mun kosta lítið, en styrkja efnahag og bæta lífskjör í landinu."

Hvað myndi sparast í skriffinnsku til viðbótar við það sem Erlendur lýsir? Tolleftirlit, vöruskoðun,þras og vesen?

Ég treysti því að fjármálaráðherra okkar skoði þessa tillögu. Það var ekkert smáræði sem það lyfti lífskjörunum þegar vörugjöldin á heimilistækjunum féllu niður.

Það myndi færa okkur enn eitt skref frá landlægri minnimáttarkennd séríslenskra aðstæðna að sjá tollana fara burt.


Stjórnarandstaðan óþörf?

að því að Helgi Rafn Pírati eða Óttar Proppé upplýsa á Sprengisandi? Þarna er sagt að þingforsetinn ráði öllu á þinginu en stjórnarandstaðan engu. Hún hafi engin önnur úrræði en málþóf og málalengingar til að tefja afgreiðslu þeirra mála sem ríkisstjórnin vilji koma fram. Eins og til dæmis þrætubókin um Rammaáætlunina og nú húsnæðisfrumvörp Eyglóar.

Þetta er auðvitað góð staðfesting á þeirri skoðun sem margir hafa, að tíma þingsins sé mestan part eytt í málæði sem engu skilar. Ríkisstjórnin kemur fram og hlýtur að koma fram þeim málum sem henni sýnast. Stjórnarandstaðan skiptir þannig engu máli nema í tímalengd ræðumennskunnar og fyrirspurna.

Myndi ekki þingið ekki afgreiða miklu fleiri gagnleg mál frá ríkisstjórninni ef stjórnarandstaðan væri bara aðgerðarlausari og hætti þessari sífelldu tímaeyðslu í allskyns mótþróa? Það hlýtur því að vera rétt að reyna að stytta þessar umræður allar en að ríkisstjórn hverju sinni klári mál sem fyrst?  Sem er auðvitað búið að kjósa til að afgreiða sín stefnumál og hún á að fá að koma þeim í gegn án truflunar nema þá frá Forsetanum sem stoppar þá mestu vitleysurnar.

Alveg sama þó Steingrímur J. haldi að hann skipti einhverju máli í sínum vífillengjum. Alþingi eigi að starfa sem færiband fyrir réttkjörna ríkisstjórn hverju sinni svo fyllstu skilvirkni sé gætt. Þá gætu þingmenn kannski fengið tíma til að lesa ESB lögin áður en þeir stimpla þau óséð eins og þeir og Steingrímur hafa venjulega gert.

Er ekki bara Þingið allt of hægvirkt fyrir nútímann? Séu gerðar vitleysur af meirihlutanum verður næsta kjörna þing að breyta því? Stjórnandstaðan á þingi sé bara óþörf í raun og veru til annars en að skemmta sjónvarpsáheyrendum? 

 


Samkeppnissektir

leggjast á hin og þessi fyrirtæki öðru hverju. Sá sem græðir á lögbrotum er ekki sá sem fyrir þeim verður heldur Ríkið.

Svo segir frétt í Mogga:

"Samkeppniseftirlitið lagði í gær 650 milljóna króna sekt á Norvik, móðurfélag Byko, vegna brota Byko á samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Eftirlitið telur að brot Byko hafi meðal annars falist í reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við gömlu Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu og fleira í því skyni að hækka verð eða vinna gegn verðlækkunum á grófvörum. Einnig hafi verið haft samráð um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum, hækka verð á mið- stöðvarofnum og að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (pallaefni) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð.

Þá hafi Byko gert sameiginlega tilraun með gömlu Húsasmiðjunni til þess að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Byko að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðinum.

Samkeppniseftirlitið segir brot Byko hafa verið framin af ásetningi. Þau hafi verið til þess fallin að valda húsbyggjendum og almenningi öllum umtalsverðu tjóni. Sektin sé lögð á móðurfélag Byko til þess að stuðla að því að brot af þessu tagi verði ekki framin innan þeirrar samstæðu sem Byko tilheyrir.

Byko telur með ólíkindum að stjórnvald líkt og Samkeppniseftirlitið taki ákvörðun sem er í beinni andstöðu við niðurstöðu dómstóla í fyrri málum. Í tilkynningu frá félaginu segir að slík ákvörðun geti vart verið lögmæt. Hefur fyrirtækið ákveðið að kæra ákvörðunina til áfrýjunarnefndar."

Ef ríkissjóður er sameiginlegur fyrir alla landsmenn, fá  þá ekki tjónvaldarnir til jafns við aðra af sektarféinu úr honum?

Hvað gerði Ríkið til að bæta tjón almennings vegna samráðsins? Getur Múrbúðin fengið sitt tjón bætt vegna niðurgreiddrar samkeppni af hálfu bankanna? Af hverju eru fyrirtæki gerð ábyrg fyrir brotum forstjóranna? Hafa fyrirtæki sjálfstæðan vilja eða lúta þau vilja stjórnandans.

Visa og Eurocard þurftu að borga milljónir vegna ákvarðana forstjóra sinna? Annar fékk stöðuhækkun til bankastjóra þrátt fyrir auðsýndan einbeittan brotavilja.En tjónþolarnir máttu éta það sem úti frýs þrátt fyrir samkeppnissektir.


Erlingur Garðar

Jónasson skrifar hressilega grein í Mbl. sem oft áður.

Hann segir:

"Hvað leiðir af öðru, vantraustið grasserar, þetta er hræðilegt og fjölmiðlar með Moggann minn í broddi fylkingar eru í djúpum skítamokstri dag eftir dag og ég sjálfur alltof oft. Hvar og hvenær skyldum við skrifbeitar og allir aðalleikarar leikhúss fáránleikans skynja að nú er komið nóg? Nú er virkilega komið nóg af fokking fokk, því lítið er gagn eða gaman af spjallinu þegar aukaatriðin eru aðalatriði, formið orðið að forsendu. Þetta heitir víst að smíða ónothæfan úlfalda úr mýflugu. En þurfum við endalausar svartnættisspár?

 

Já, það er bráðnauðsynlegt og er miklu verðmætara en áhyggjurnar hér að ofan sem eru byggðar á samviskubiti viðkvæmra sála hvers tíma og eru einstaklega léttbærar hörðnuðum sálum í nútímafjölmiðlun. Þetta kom fram hjá fyrrverandi ritstjóra Mbl. þegar hann staðhæfði m.a.: »Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt.«

 

Ljóðagerendum allra tíma hefur verið meginmál að vara við lífsháskanum.

 

Jarðsamband þeirra pólitísku hugsjóna sem helst hafa ráðið Íslandi var rifið upp með rótum að mati Matthíasar skálds og Morgunblaðsritstjóra með tilvísun til uppgjörs hans og skáldsins frá Kötlum við pólitíska bernsku þeirra í bók Matthíasar »Vígvöllur siðmenningar« sem sýnir að skáldið titrar milli steins og sleggju og þykir sárt að þurfa að yrkja nú sem Jóhannes úr Kötlum. Við eldri skiljum ekki t.d. að óreiða »hægri« stjórnvalda eigi að valda eignarnámi »vinstri« stjórnvalda í eignum okkar og skerðingu á áunnum bótarétti frá tryggingasjóðum eftir að okkar kynslóðir hafa skilað landinu ríku af alls konar gæðum og verkfærum til að viðhalda auði auðlinda til öryggis um alla framtíð.

 

»Svo að askurinn sjálfur verði aldrei tæmdur og fuglar geti sungið fyrir komandi kynslóðir,« eins og Matthías vildi.

 

Skammhleypt stjórnvöld slá enn upp skjaldborg um fjármálastofnanir, brask og svipað bruðl í opinbera bákninu sem áður. Með því að virkja okkur nytsama sakleysingjana fáum við gjaldstofna með nýjum gerðum jarðsambandslausra þjónustugjalda hugmyndalausra stjórnvalda, sveitarfélaga og banka. Þetta er rán og ekkert annað, of langt er seilst við að taka upp bankabónusa, sem var elexírinn í nýjasta hruninu.

 

Rúmlega 20 milljarða aukaskatti á lífeyrisþega frá 1. júlí 2009, álögðum af vinstri skjaldborginni, hefur t.d. enn ekki verið skilað þrátt fyrir að vera í eðli sínu skyldusparnaður en ekki skattur.

 

Ludvik Holberg kvað:

 

<ljóð>Með orðum vega yfirvöld,

 

en ekkert sjálfir megna.

 

Eitt er: um sjókort orða fjöld

 

Og annað: skipstjórn gegna.

 

Í blaða og funda gargansgríð

 

Menn geta fjölmargt sannað.

 

En til að stjórna landi og lýð

 

Þarf langtum meira og - annað. (Sennilega þýddi Hannes Hafstein)

 

Auðvitað eru púkarnir á fjósbitanum margir og vissulega er erfitt fyrir okkur að kveða fólin niður en það verður víst að leyfa þeim að vera þar og sennilega er það hagkvæmast, því ekki standa þeir undir þungum byrðum.

 

Við þökkum hins vegar forsjóninni fyrir að hafa átt djarfa frumkvöðla, og það að við byggjum Ísland, við búum við verðmæti og við eigum öryggi, en við tökum undir í herópi Einars Ben: Sé almúginn sínum foringjum framar, er festa hans vígsins síðasta hamar. Vaknaðu, reistu þig lýður míns lands. Við erum vöknuð...! er það ekki?

 

Frú Vigdís forseti sagði að 100 ár þyrfti til að afla sér borgaralegrar menningar en lærdómsferill okkar væri aðeins 67 ár og meðal ríkjandi meinsemda væri umræðuformið í pólitískri umræðu sem Kiljan kallaði þrætubók.

 

Þó virðist ástandið ekki betra í Danmörkinni minni samkvæmt nýjustu fréttum þaðan. Í umræðu um vantraust milli aldursflokka segir í danskri umræðu um þessar mundir: Það er ekki auðvelt að skapa sameiginlegan skilning á þeim verkefnum sem liggja fyrir dönsku samfélagi næstu 10 ár. Það er aftur og enn aukinn halli og þess háttar verkefni sem eru á næstu grösum, eins og allir vita.

 

Alvarlegast er að hin breytta samsetning af þegnum samfélagsins er að hinir öldruðu eru móðgaðir og sárir og afneita með öllu að vera byrði á samfélaginu. Og þeir yngri vilja ekki greiða eftirlaun öldruðum sem enn hafa vinnugetu og geta spilað golf. En þeir sömu ungu telja það rétt sinn að gefa sér langan tíma til að mennta sig, fara frá einni grein til annarrar í menntakerfinu eða fara kynningarferðir um heimsbyggðina, áður en þeir fara að taka þátt í framleiðslu verðmætra afurða heima fyrir, sem fjármagna samfélagsgæðin og rétta við hallann.

 

Þar sem það eru pólitískir þykjustuleikir stjórnmála sem mest og best telja hjá almenningi verður umræðan um velferðarmál samfélagsins drulluskítug. Borgurunum er sama um heilaga eiða eða annað, ef biðlistarnir eru bara stuttir.

 

Það virðist því ekki hægt að búa við pólitíska frasa lengur um heimóttarskap okkar á skerinu.

 

Já, frú Vigdís forseti, »kartöflurnar eru víst alls staðar soðnar í vatni« eins og þýska máltækið segir."

 

Ég fór óhjákvæmilega að velta fyrir mér hvað ég gerði ef Erlingur myndi berja saman stjórnmálaflokk til framboðs í öllum kjördæmum? Ópólitískan flokk sem sem hefði einungis þá stefnu að styðja mál sem auka hagvöxt þjóðarinnar og stöðva eða jafnvel endurheimta skerðingar til aldraðra?

Myndi ég kjósa hann? Myndi ég kjósa hann ef hann hætti að leggja fjármagnstekjuskatt á verðbætur af sparifé eins og hinir flokkarnir gera allir?

Setjum svo að þessi einfaldi flokkur næði 5-10 manns á þing? Gæti jafnvel náð fylgi af Pírötum? Hann gæti lent í aðstöðu til að segja skák? Þessi flokkur þekkir alla íslenska stjórnmálamenn og veit upp á hár hvaða karakter hver þeirra hefur. Þessi flokkur hefur nefnilega lengri reynslu en aðrir flokkar og lætur ekki fokka með sig.

Spurning um afl og úthald? Golfáhuga stjórnarformannsins í Félagi eldri Borgara sem ekki munu kemba hærurnar á Alþingi? 

 


Neyðarréttur

hins kúgaða verkalýðs er að gera skrúfu og valda aðilum sem ekki koma að deilunni sem mestu tjóni. Alveg óvart auðvitað, þeir eru bara á milli steinsins og sleggjunnar.

En er þetta allt einhliða? Þegar svínin og kjúklingarnir fá framhaldslíf af því að ekki er hægt að fullnægja einu eða öðru formasatriði og eigendur horfa fram á milljónatjón vegna beitingar þessa heilaga neyðarréttar, þá spyr maður sig um gagnkvæmni?

Ef maður ræðst á Klitschko og kýlir hann skapast líklega  enginn neyðarréttur? Það á sjálfsagt að vísa málinu til réttra yfirvalda, salfræðimeðferðar brotaþolans og eineltisfræðinga? Ef bara ekki til uppeldismáladeildar Samtakanna 78?  Ef það er ekki afgreitt með að hann hafi verið fullur greyið?

Ég velti fyrir mér hversvegna eigendurnir safni ekki liði og leggi til atlögu við valdendur tjónsins? Slátri og selji án stimpla hvað sem hver segir?.Komi með kerrukjöt á göturnar handa hungraðri alþýðu? Það verða hvort eð er öll mál látin niður falla eftir verkfallið samkvæmt fornri venju?

Ég man eftir því þegar Gvendur Jaki og Kiddi Finnboga voru að hella niður mjólk fyrir fólki við Geitháls, að það var að myndast bardagasveit niðri á Laugavegi 11 sem ætlaði að þeim verkfallsvörðum þegar verkfallið leystist skyndilega. Ef stofnast hefði fólkorrusta þá, hefði Dagsbrún þá viljað semja um allsherjar sakaruppgjöf eins og raunin varð í lok verkfalls?

Það sem ég er að velta fyrir mér hvort neyðarréttur þolenda verkfallsaðgerða er eitthvað ómerkilegri en neyðarréttur verkfallsmanna? Sumstaðar hafa menn heimild til að verja hendur sínar og eignir á grundvelli neyðarréttar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband