er Óla Birni Kárasyni þingmanni að yrkisefni í Morgunblaðinu í dag. Það er helst að skilja að þingmanninum ofbjóði þessi þróun mála í stað "auðstjórnar almennings" sem samflokksmaðurinn Eykon barðist fyrir á sinni tíð. Allavega gerir Sjálfstæðisflokkur þeirra tveggja ekki nokkurn skapaðan hlut í þessum málum nema steinþegja og virðist helst fagna stórauknu innflæði fjár í sjóðina sem nú er veruleiki.
Óli Björn segir:
"Íslensku lífeyrissjóðirnir eru því mjög stórir þátttakendur á innlendum skulda- og hlutabréfamarkaði og er ábyrgð þeirra mikil gagnvart atvinnulífinu og stöðugleika á innlendum fjármálamarkaði.
Skilaboðin sem koma fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins [FME] eru skýr og ekki tilefnislaus. Eignir lífeyrissjóðanna hafa orðið stöðugt fyrirferðameiri á innlendum fjármálamarkaði á undanförnum árum eða um 75% af heild.
Á síðustu árum hefur vægi skráðra innlendra hlutabréfa í eignasafni lífeyrissjóðanna aukist verulega. FME telur að bein og óbein hlutdeild sjóðanna, í gegnum sjóði og félög, nemi nálægt 45%. Margt bendir til að um vanmat sé að ræða. Í áðurnefndri ársskýrslu kemur fram að lífeyrissjóðirnir hafi aukið við fjárfestingar í innlendum fjármálagerningum til fjármögnunar á samlagshlutafélögum og öðrum félögum vegna meðal annars fasteignaverkefna af ýmsu tagi og flokkast þau sem önnur verðbréf.
Fjarlægð og gildismat
Fátt bendir til annars en að umsvif lífeyrissjóðanna á íslenskum fjármálamarkaði aukist enn frekar á komandi árum, jafnvel þótt þeir beini fjármunum í ríkara mæli í erlendar eignir, sem er skynsamlegt.
Á síðasta ári nam nettó innflæði í lífeyrissjóðina um 60 milljörðum króna (iðgjöld ásamt aukaframlögum að frádregnum útgreiddum lífeyri). Iðgjöld hækka í skrefum í 15,5% og því mun nettóinnflæði í sjóðina aukast um 20-30 milljarða á ári, samkvæmt mati FME.
Líkt og kom fram í grein minni í liðinni viku hefur hlutdeild íslenskra heimila í skráðum félögum ekki verið minni í að minnsta kosti 15 ár eða aðeins um 4% af markaðsvirði.
Þegar farið er yfir hluthafalista skráðra hlutafélaga vekur athygli (og áhyggjur) að einstaklingar og fjárfestingafélög í eigu þeirra, eru lítið áberandi í hópi stærstu hluthafa.
Engu er líkara en að einkaaðilar forðist að fjárfesta í skráðum félögum. Fjarlægðin milli raunverulegra eigenda og stjórnenda viðkomandi fyrirtækja verður meiri og tengslin veikari.
Aðhaldið að stjórnendum verður kannski ekki minna en það verður með öðrum hætti og sagan sýnir að gildismatið sem fylgt er í rekstri mótast mjög af þeirri fjarlægð sem er á milli raunverulegra eigenda (þeirra sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta) og stjórnar og stjórnenda fyrirtækja.
Eftir því sem fjarlægðin er meiri er erfiðara fyrir raunverulega eigendur að hafa áhrif á störf og stefnu fyrirtækisins. Þetta segir sig sjálft.
Smásala í höndum lífeyrissjóða
Um það verður ekki deilt að stjórnendum lífeyrissjóðanna var mikill vandi á höndum eftir fjármálakreppuna. Sú skylda hvílir á þeirra herðum að ávaxta fjármuni sjóðanna og fram til þess að fjármagnshöftum var aflétt var ekki um auðugan garð að gresja. Innlendir fjármálagjörningar voru það sem bauðst. Það var óhjákvæmilegt að lífeyrissjóðirnir yrðu virkir þátttakendur í kaupum á skráðum hlutabréfum og raunar nauðsynlegt til að renna stoðum undir hlutabréfamarkaðinn að nýju.
Vandinn sem hefur hins vegar skapast er að lífeyrissjóðirnir eru allt um lykjandi og ráðandi hluthafar í fyrirtækjum sem eru keppinautar. Þetta á til dæmis við um smásöluverslun.
Þrjú fyrirtæki á smásölumarkaði eru skráð í Kauphöllinni; N1, Hagar og Skeljungur. Meirihluti hlutafjár þessara þriggja fyrirtækja er í eigu lífeyrissjóðanna með beinum eða óbeinum hætti. (Nýherji er skráð hlutafélag sem er að hluta á neytendamarkaði en er þó fyrst og síðast upplýsingafyrirtæki, með starfsemi hér á landi og í öðrum löndum).
Sjö af tíu stærstu hluthöfum N1 eru lífeyrissjóðir og eiga alls a.m.k. 53,4% hlutafjár en auk þeirra eru bankar, verðbréfasjóðir og einn erlendur fjárfestingarsjóður meðal 20 stærstu eigenda N1 og eiga þeir alls 82,3%. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafinn og Gildi er annar stærsti. Alls eiga þessir tveir sjóðir 22,5% hlutafjár.
Nýlega var greint frá því að N1 hefði gert samning um kaup á Festi, sem rekur meðal annars Krónuna, Intersport, Elko og Kjarval. Gert er ráð fyrir að kaupin gangi í gegn á næsta ári, en Samkeppniseftirlitið á eftir að gefa sitt samþykki. Með beinum eða óbeinum hætti er Festi í meirihlutaeigu lífeyrissjóða, en þó eru einkafjárfestar þar einnig stórir.
Hluthafar í Festi fá hlutabréf í N1 og ljóst er að hlutur lífeyrissjóðanna verður síst minni þegar upp verður staðið. Sjö af tíu stærstu hluthöfum Haga eru lífeyrissjóðir og þar er Gildi stærstur. Lífeyrissjóður verslunarmanna kemur þar á eftir. Samtals eiga þessir tveir sjóðir liðlega 23% hlutafjár.
Það sem vekur óneitanlega athygli er að þessir tveir sjóðir eru jafnframt tveir af stærstu hluthöfum í N1, sem eftir kaupin á Festi, er einn helsti keppinautur Haga, sem aftur reka Bónus, Hagkaup, og fleiri verslanir. Hagar hafa gert kaupsamning um kaup á Lyfju og Olís, með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Samkeppni og samtvinnað eignarhald
N1 og Hagar eru (eða verða) keppinautar jafnt á sviði bensínstöðva, matvöru og á fleiri sviðum smásölu. Þessa vegna er það eftirtektarvert að nokkrir lífeyrissjóðir eiga hluti í báðum þessum fyrirtækjum; Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Stapi, LSR (A og B deild), Birta og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda. Í N1 eiga þessir sjóðir alls liðlega 47% með beinum hætti og í Högum tæp 50%.
Sú spurning er því áleitin hvaða áhrif þetta sameiginlega eignarhald hefur á samkeppnismarkaði, ekki síst þegar og ef kaup N1 á Festi og kaup Haga á Lyfju og Olís ganga formlega í gegn.
Fyrir neytendur sem flestir eru síðan í raun eigendur að þessum fyrirtækjum í gegnum lífeyrissjóði er það a.m.k. áhyggjuefni hvernig sameiginlegt eignarhald á tveimur af stærstu fyrirtækjum á neytendamarkaði getur haft neikvæð áhrif á samkeppni. Og ekki bætir úr skák þegar horft er til þriðja fyrirtækisins Skeljungs. Beinn eignarhlutur lífeyrissjóðanna í Skeljungi er liðlega 38% en stærsti hluthafinn er samlagshlutafélagið SÍA II, sem er aftur að meirihluta í eigu lífeyrissjóða.
Í maí síðastliðnum var tilkynnt að Skeljungur hefði í hyggju að kaupa Basko ehf. sem meðal annars á og rekur 10-11 og Icelandverslanirnar, kaffihús undir merkjum Dunkin Donuts. Horn III framtakssjóður sem er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða á 80% hlutafjár í Basko, en Skeljungur greiðir kaupverðið með eigin hlutabréfum.
Þannig mun eignarhald lífeyrissjóðanna á Skeljungi þéttast og aukast, þegar kaupin ganga í gegn. Þeir sex lífeyrissjóðir sem eiga hluti bæði í N1 og Högum, eru með beinan eignarhlut í Skeljungi tæp 25%.
Með rökum er því hægt að halda því fram að lífeyrissjóðirnir ráði eða geti ráðið stefnu stærstu fyrirtækja á mikilvægu sviði smásölu ekki síst matvöru og eldsneytis.
Það er umhugsunarvert að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gert athugasemd við samtvinnað eignarhald lífeyrissjóðanna á mikilvægum neytendamarkaði eða vakið athygli á þeim hættum sem því kunni að vera samfara. Eins og vikið verður að í komandi viku er staðan litlu skárri á öðrum samkeppnismörkuðum, ef litið er til skráðra hlutafélaga."
Hverskyns þjóðfélag er hér að myndast? Hvort er þetta í ætt við auðstjórn almennings eða sósíalisma andskotans?
Sagt hefur verið að eiga sé að ráða. Lífeyrissjóðunum ráða allskyns menn sem í besta falli hafa ekki eigendur fjárins að baki sér. Pólitískir dindlar fara með mest allt fjármagn landsmanna og bráðum enn meiri hluta en nokkru sinni fyrr.
Þessir nokkur hundruð manns eyða grímulaust 10-20 milljörðum í sjálfa sig og stjórn sína úr sjóðunum, sem sagt er þó að launþegar eigi. Þetta er eiginlega fé án hirðis samkvæmt skilgreiningu Péturs heitins Blöndal.
Hvaða pólitíska forystu ætlar Sjálfstæðisflokkur Óla Björns og Eyjólfs Konráðs að veita í þessum málum? Ætlar hann að horfa á þessa þróun vaxa og stækka ár frá ári? Er ekki í boði að breyta þessu sjóðakerfi og einfalda stýringuna? Er við hæfi að lífeyrissjóðir eigi yfirleitt hlutabréf í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði? Eiga þeir ekki fremur að eiga skuldabréf fyrirtækja? Þarf nema einn mann til að stjórna skuldabréfakaupum?
Lífeyrissjóðamálið er greinilega orðið stórvandamál og daglega vaxandi. Það er líka farið að misbjóða réttlætistilfinningu almennings. Sjóðirnir koma ekki að lausn vandamála þjóðfélagsins eins og byggingu hjúkrunarrýma, Landspítala eða löggæslu eða landamæraeftirliti. Þessi mál standa æpandi föst vegna fjárskorts meðan sjóðirnir kaupa sér frekar stjórnarsetur í einokunarfyrirtækjum sem óhjákvæmilega rýra kjör almennings samkvæmt kenningum Adams Smiths.
Engu líkara er en að stjórnmálamenn loki augunum fyrir þeirri breytingu á þjóðfélagsgerðinni sem er að eiga sér stað með skipulagðri einokun og samþjöppun á kostnað eigenda fjárins sem er allur almenningur. Mistókst ekki tilraun bolsévikka 1918 til að breyta öllu eignarhaldi almennings í ríkiseinokun? Þarf að reyna það aftur á Íslandi á 21.öld?
Ætlar Óli Björn bara að horfa á Lífeyrissjóðamálið?