Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Sameinum alla ríkisbankana !

Ríkisbankarnir 4, BYR ,Landsbankinn, Arion og Íslandsbanki eru staddir í miðju verðsamsæri gegn almenningi. Þetta eru fyrirtæki í eigu sama aðila,  sem er íslenska ríkið, hverju öðru sem logið er að almenningi. Þessir blankar stunda auðvitað grímulaust verðsamráð sín á milli til að féfletta almenning með milligöngu Seðlabankans sem líka er í eigu ríkisins. Enda eru hagnaðartölurnar af ávöxtun peninga þeirra  í Seðlabankanum þvílíkar, að það hálfa væri nóg á sama tíma og þeir bjóða almenningi neikvæða vexti.  Þessar stofnanir eru ekki að gera neitt fyrir atvinnulíf landsmanna nema að senda út gíróseðla og millifæra greiðslur. Allt of dýrt kerfi utan um lítið verkefni.

Þessu verður að linna með því að reka skilanefndirnar heim og láta þær hætta sjálftöku sinni á fjármunum. Láta Alþingi skipa nýjar stjórn í sameinaðan banka eftir opið framboðsferli fólks með óflekkað mannorð og hreina ferilskrá.

Ríkisbankarnir 4 eru óvinir almennings þar sem þeir eru samhæft einokunarverkfæri í hendi stjórnvalda, sem gera út á varnarlausan almenning undir grímulausri verkstjórn Seðlabankans sem ákveður vaxtastigið og gengisfölsunina í þágu útgerðarinnar.   Samkeppni er nánast engin í fjármálastarfsemi landsins,  þar sem MP-banki hefur ekki náð trúnaðartrausti  almennings vegna spillingarumræðu sem honum tengist. En eins og er er hann samt geðfelldastur af hinum ógeðfelldustu.

Bankakerfið íslenska er mörgum sinnum ofmannað og útibú alltof mörg. Hér eru 3 menn að vinna hvert bankastarf í USA miðað við fólksfjölda.

Eflum einkarekna banka. Stofnum nýja sparisjóði.  Burt með spillinguna.Byrjum á því að sameina alla ríkisbankana í einn svo fólk sé ekki blekkt til þess að trúa því að samkeppni ríki á fjármálamarkaði. 


Þeir sem búa í glerhúsi...

Upp komst um miklar styrkveitingar frá bönkunum og útrásarvíkingum  til Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lét skila styrkjunum til síns flokks. Ekki var ég ýkja hrifinn af þeirri ráðstöfun með tilliti til erfiðrar kassastöðu flokksins. Svo auðvitað sérstaklega þegar Samfylkingin kemst upp með að skila öngu af fé frá sömu aðilum. 

Það þótti mikil ósvinna þegar Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins  greiddi sjálfum sér arð úr félagi sínu Nesveri þegar félagið var með neikvætt eigið fé. Ásbjörn sá sig um hönd og greiðslan var bakfærð.  En þegar Blaðamaður Íslands, Jóhann Hauksson,  úthlutar sér 2.425.000 úr félagi sínu Orðmynd ehf.  með neikvæðu eigin fé uppá 353.103 árið 2007, þá gilda væntanlega önnur siðferðislögmál.

Jóhann Hauksson er einn þeirra blaðamanna sem eru í sérstakri krossferð gegn spillingu Sjálfstæðisflokksins. Þessi öfl róa öllum árum að því að hrekja formanninn Bjarna Benediktsson úr embætti með ásökun um spillingu og reyna að tengja hann við hverskyns mál  sem geta vakið efasemdir hjá auðtrúa fólki um heiðarleika hans. Má segja að þessi aðsókn  hafi orðið kveikjan að sumarlandsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem formaður spurði fundinn beint hvort hann nyti trausts flokksmanna. Svar fundarins var yfirgnæfandi já. 

Niðurstaða fundarins snérist svo ekki meira um þetta atriði  sérstaklega. Heldur um það að Sjálfstæðisflokkurinn skipaði sér nú svo til einhuga í sveit andstæðinga Evrópusambandsaðildar.  Krafðist þess að aðildarviðræðum yrði hætt. Það var áreiðanlega niðurstaða sem einhverjum af húsbændum Jóhanns Haukssonar er líklega ekki mikið að skapi.  

Jóhann Hauksson var með útvarpsþátt á Sögustöðinni og fór þar mikinn gegn Sjálfstæðisflokknum og spillingu hans. Nú upplýsir Arnþrúður útvarpsstjóri að Baugur hafi borgað þennan þátt að öllu leyti. Líka laun Jóhanns Haukssonar þáttastjórnanda á Útvarpi Sögu !  Hún telur líka að Jóhann hafi verið kostaður inni á DV með þessum hætti.

Satt að segja er ég hálfpartinn skúffaður yfir þessu vegna   Útvarps Sögu og Arnþrúðar, að hafa tekið þátt í svona pukurstarfsemi með Baugi. Útvarp Saga þrumar daglega gegn öllu sem miður fer og fólkið hlustar. Varla kostar nokkur hann Eirík Stefánsson í sinni krossferð gegn kvótakerfinu?   Ekki trúi ég að nokkur vilji kosta Hrafnaþingið hjá Ingva Hrafni á ÍNN  þó hann segi stundum óþyrmilega satt.  Líklega vildu  einhverjir fremur borga fyrir að fá að skrúfa niður í þættinum þó ég sé auðvitað alls ekki í þeim hópi.

Þetta er þess vegna algerlega nýtt fyrir mér, að hægt sé að kaupa sér landsþekkta blaðamenn til að skrifa eða tala fyrir og um sig hrós í fjölmiðla án þess að nokkur viti um tengsl þeirra við kostunarmanninn. Menn tóku sumir að sér að yrkja erfiljóð í gamla daga og tókst sumum dável þó ekki þætti fínt.    En það skiptir auðvitað máli í svona starfsemi að menn ráði sér þá hæfa aðila. Jóhanni tókst að vinna til titilsins Blaðamaður Íslands í þessu starfi sínu og er það allrar athygli vert.

En þarf maður virkilega að hafa vara á sér í framtíðinni  hver kostar hvern?  Þarf ég að velta fyrir mér hvort einhver kosti uppáhaldsblaðamenn mína þær Kolbrúnu Bergþórs og  Agnesi Bragadóttur?  Reyndi ekki Baugur að fá að kosta einn forsætisráðherra með þrjú hundruð milljónum?   Enginn hefur hinsvegar boðist til að kosta mig til að skrifa á bloggið mitt, enda hef ég líklega ekki næga hæfileika til að skrifa sem flinkur blaðamaður eins og Jóhann  Hauksson.

Auðvitað vegast menn á í pólitíkinni. Slúðurblöð gera út á afhjúpanir og uppljóstranir og reyna að finna beinagrindur inn í skápum hjá fyrirmönnum.  Aðrir reyna að vera málefnalegir og forðast fremur skítkast í persónur. 

En þeir sem búa í glerhúsum gera stundum betur í því að fara varlega í það að að henda grjóti í aðra.

 

 


Verður ekki Icesave afgreitt í leiðinni ?

Ef Svavarssamningurinn hefði verið samþykktur á sínum tíma, væru vextirnir til Breta og Hollendinga hugsanlega orðnir 60 milljarðar króna. Meira en tvöhundraðþúsundkall í skuld á hvern mann í landinu. Áður en byrjað er að borga niður skuldina. 

Er það ekki skilyrði af hálfu Evrópusambandsins að gengið sé frá þessu lítilræði við Breta og Hollendinga áður en Össur fær aðgangspakkann afhentan þarna úti í Brüssel?  Skyldi hann vera ekki vera nestaður að heiman til þess?

Hin meinta Icesave-skuld er sögð geta jafnvel numið 1000 milljörðum króna. Skyldi það vera stórmál í augum krata og VG þegar jafnmikið mál er í húfi eins og Evrópusambandsaðild Íslands? Nenna þau Steingrímur og Jóhanna nokkuð að hanga lengi yfir þessu Icesave?  

Gengur Össur ekki bara frá þessu Icesave  í leiðinni?


Stefnufastur Steingrímur

"Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðurkenndi í svari til norska fréttavefjarins ABC Nyheter í vikunni að ekki væri gert ráð fyrir ríkisábyrgð á bankainnistæðum í umræddri tilskipun. Íslendingum bæri eftir sem áður að endurgreiða innistæðueigendum innan sambandsins á þeim forsendum m.a. að ekki hefði verið staðið rétt að innleiðingu tilskipunarinnar."

 "Ég er alveg viss um það að það komu aldrei neinar athugasemdir af hálfu nokkurs aðila um innleiðinguna á þessu hérna,« segir Finnur. Undir þetta tekur Benedikt Árnason, fyrrum skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, sem hafði umsjón með innleiðingu tilskipunarinnar. "

Þetta kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart. Ég sé ekki að þetta breyti stöðunni í neinum grundvallaratriðum,« sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, en vildi ekki tjá sig frekar um málið."

Sem sagt, þá vill Steingrímur  væntanlega enn einn þann kost að efna Svavarssamninginn ? Var ekki svo mikil vá fyrir dyrum Íslands um áramótin 2008, að það var ekki hægt að ímynda sér hana ef ekki yrði gengið frá málinu í snatri? 

Það breytir þá engu þó að við þurfum ekki að borga Icesave við nánari athugun?Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvaða afstöðu Steingrímur tekur þegar Evrópusambandið gerir það að skilyrði fyrir aðild Íslands, að gengið verði frá Icesave.

Steingrímur er greinilega stefnufastur formaður síns flokks.


"Tussufínt"

"Tussufínt.

Það er spurning hvernig við prjónum þetta....

....vill ólmur fá að skúbba einhverju fyrir fundinn og sé ég ákveðið tækifæri í því að láta það eftir honum. Þannig getum við sett fókusinn á eitthvað eitt atriði sem við viljum að fjölmiðlar séu fókuseraðir á þegar þeir mæta á fundinn. Hér er tillaga að texta sem við getum sent honum:..."

Þessar tiilvitnanir eru úr skeyti frá Elíasi Jóni Guðmundssyni, aðstoðarmanni ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem um þessar mundir vinnur einhuga að því að koma Íslandi í Evrópusambandið.

Hann gefur innsýn inní þann þankagang sem víða er að finna meðal embættismanna, hvort eð heldur er innan Evrópusambandsins, eða hér á Íslandi.  Keyra ofan í heimskan lýðinn nógu fast það sem maður vill að hann meðtaki. Kjóendur eru jú bara fífl sem flækjast fyrir að mati þessara manna.

Hvernig halda menn að fari hér á landi, þegar hingað streyma milljarðar frá Evrópusambandinu, hugsanlega með millilendingu í sjóðum Samfylkingarinnar, og renna þaðan til þessa að hlaða allar byssur Baugsmiðlanna í áróðursstríðinu um skoðanir Íslendinga á inngöngunni.

Er að búast við að Sjálfstæðisflokkurinn geti veitt mikla mótspyrnu? Er hann ekki  búinn að skila öllu sínu styrkjafé til baka meðan Samfylkingin skilaði ekki krónu af svipaðri upphæð? Er að búast við að litli Davíð á litla Morgunblaðinu vinni orrustuna gegn ofurefli milljarðanna frá Evrópusambandinu. Þetta skal í ykkur eins og Lissabonsáttmálinn ofan í Írana. Þið skuluð sjá hvað ykkur er fyrir bestu. Enda sagði dr.Göbbels heitinn að endutæki maður lygina nógu oft fyrir fólki þá yrði hún að sannleika.

Þetta verður því "Tussufínt" þegar nógu mikil smurolía er sett í gangverkið.


Góði Gnarr !

Ég lenti í því að reyna að finna salerni handa þýskri konu í vissu ástandi sem kallaðist sprengur á fínu máli  þegar við vorum strákar.  Ég fékk upplýsingar um það inni í Hallgrímskirkjunni, sem er fjölsótt af slíkum túristum, að klósett væru einungis við trjálínuna hinumegin, engin væru opin í guðshúsinu hvað sem í boði væri.

 Við hlupum konan og ég að trjánum en fundum ekkert, lokað í iðnskólanum og neyðin mikil. Sáum ekki salernin sem eiga að vera á horninu. 

Þetta leystist í rútunni sem sumar eru með klósett áður en í óefni kom.

Geturðu nú ekki gert tvennt smálegt fyrir túrismann í borginni góði Gnarr:

1. Setja skilti á torgið fyrir framan Hallgrímskirkju sem vísa á almenningssalernið sem maðurinn sagði að væri þarna einhversstaðar bak við tréin.

2.Láta selja frímerki  í sjoppunni í Perlunni og taka þar við frímerktum póstkortum af túristum í póstkassa.

Ef þú gerir þetta elsku kallinn, þá er ég alveg til í að bíða eitthvað eftir fría handklæðinu í Sundlaugunum og jafnvel ísbirninum líka, enda alltof gott veður núna í borginni þinni fyrir ísbirni. Ég vil með þessari  auðsýndu fórnfýsi leggja mitt af mörkum til að byggja upp túrismann í Reykjavík og þar með til vinsælda þinna sem besti borgarstjórinn.

Gætirðu ekki reddað þessu góði Gnarr?


Ofvaxið bankakerfi

Á Íslandi eru eitthvað um 5000 bankastarfsmenn að veita þjónustu í eitthvað 150 útibúum. Í Bandaríkjunum voru bankastarfsmenn um 1.8 milljón árið 2004 og störfuðu í tæplega 88 þúsund útibúum. 

Bandaríkjamenn eru þúsund sinnum fleiri en Íslendingar og halda úti stærsta her veraldar með lægri sköttum á einstaklinga og vörur og þjónustu en við Íslendingar. Bankar þeirra eru með margfalt fé á við Íslendinga.

 Það er einfalt að deila í þessar bandarísku tölur með þúsund til þess að sjá að að það er eitthvað rotið í Danaveldi eins og Hamlet hefði orðað það. Bankastarfsmenn á Íslandi eru nærri pí (22/7)sinnum of margir og útibúin eru helmingi of mörg ef maður mætti nota gömlu góðu "miðað við fólksfjölda" regluna. Bætum skilanefndunum, fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum ofan á þessar tölur og dæmið batnar ekki.

Hver er þörfin á öllu þessu ofvaxna bankakerfi sem flest er á framfæri ríkisins? 


Ertu ekki bara dóni Össur ?

Ef ég væri boðinn í samkvæmi hjá hinni miklu greifafjölskyldu van der ES,  sem hefði með yfirlýsingu ákveðið að vilja taka við vináttu minni, þá veit ég ekki hvort ég hefði treyst mér til að mæta ef í blöðum dagsins stæði stóru letri: Helvítið hann  Halldór kærir sig ekki hót um neinn vinskap við þessa miklu fjölskyldu van der ES.  Hann er álgerlega fráhverfur samneyti við hana vegna þess að hann telur hana bara vera að blekkja sig til að ná ættaróðali hans af honum, gera hann háðan sér með fégjöfum, koma á hann helsi sem hann gæti aldrei losnað úr. Vinskapnum muni fylgja fleiri vandamál en hann hafi sjálfur. Fjölskyldan vilji bara gera hann lendan mann sinn til að styrkja sjálfa sig með eignum kallsins. Hann viti fullvel að konungsgarður sé rúmur inngöngu en þröngur útgöngu sem fyrr. Því sé hann fullur tortryggni og enginn viðhlæjandi.

Össur Skarphéðinsson  er í Brüssel í þeim erindagjörðum núna að flaðra upp um Evrópusambandið, sem nú hefur ákveðið að taka við fleðulátum ríkisstjórnar Steingríms J. og Jóhönnu varðandi umsókn um aðild að Evrópusambandinu.  Þessu fagna þeir Össur og Þorsteinn Pálsson nú í borðsölum Brüssel.  

Össuri klígjar ekki hið minnsta við þessu,  þó að innan við fjórðungur þjóðarinnar styðji hann í þessu máli. Ekki einu sinni þó að hann megi vita að gestgjafarnir þekkja þessa stöðu mála ekki síður en hann sjálfur. Hann er í hlutverki götustráksins sem er tekinn við bjölluat í Brüssel en er boðið innfyrir uppá límonaði. Enda var hann lklega ófær um að hlaupa í tíma þar sem Steingrímur bíður eftir honum heima með reiddan vöndinn.

Mér finnst þessi fulltrúi Íslands verða sér til minnkunar í þessu hlutverki. Kann hann virkilega ekki  að skammast sín?

Var það þá bara rétt sem einn maður sagði við hann yfir þvert borð einu sinni í beinni útsendingu: " Þú ert bara dóni Össur !" 


mbl.is Samþykktu að hefja viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að í Finnlandi?

 Virðisauki vara og þjónustu í Finnlandi fellur 8 prósent síðasta ár.GDP, eða virðisauki vara og þjónustu varð EUR 171 milljarður síðasta ár. Virðisauki minnkaði í nær öllum greinum 2009.Framleiðsla minnkaði mest í framleiðslu og verslun þar sem virðisaukinn féll um fimmtung. Afköst vinnuaflsins féllu í öllu hagkerfinu um 3.5 prósent á síðasta ári.

Sérstaklega hrundi útflutningur og fjárfestingar.Útflutningur féll um 20 % og innflutningur um 18 % í fyrsta sinn á 10 árum. Einkaneysla minnkaði um 1.9 % en opinber eyðsla jókst um 1.2%.

Þetta má lesa á vef finnsku hagstofunnar.

http://stat.fi/tilastokirjasto/index_en.html

Þarna horfum við á enn eitt evruríkið læsast inni í hinu gullna búri sameiginlegrar myntar með Stór-Þýzkalandi. Þó Finnar standi okkur miklu framar í iðnvæðingu allri, þá fer svona fyrir þeim í því marglofaða jafnréttisbandalagi, þar sem Össur Skarphéðinsson vermir bekki þessa dagana ásamt Þorsteini Pálssyni til að undirbúa inngöngu Íslands. En Þorsteinn Pálsson vakti þjóðarathygli á Útvarpi Sögu þegar hann lýsti þeirri skoðun sinni að ekkert ætti að vera að hlaupa eftir skoðanakönnunum þegar slíkt hagsmunamál eins og innganga í Evrópusambandið væri í undirbúningi

Ég velti því fyrir mér, ef Finnar standast ekki evruna frekar en Grikkir, Spánverjar og Írar, hvernig ætlar þá Samfylkingin  að sannfæra mig um að Íslendingar, með sína alkunnu verkalýðspólitík, hljóti að ráða við þessa mynt ?

Ég fæ engin svör við þessu  nema almenns eðlis, við Íslendingar verðum að taka þátt í samfélagi þjóða og svo framvegis, ég sé bara svo óþroskaður að skilja þetta ekki. Samt standa nærri 100 þjóðir utan Evrópusambandsins.

En Finnar eiga volduga nágranna. Sérstaklega  geta Svíar velgt þeim undir uggum. Af hverju? Svarið liggur í sænsku krónunni, sem sveigir sig framhjá evrunni og undirbýður skandínavisku bræðraþjóðina Finna. Svíar kvarta heldur ekki yfir því að hafa ekki tekið upp evruna heldur haldið í sína gömlu krónu.

Hér heyrast bara upphrópanir um að krónan sé ónýt og við verðum að fá alvöru pening eins og evru. En meira fáum við ekki að heyra frá þessu upplýsta stjórnmálafli Samfylkingunni. Ekki skortir hana þó fjölmiðlaaðganginn.

Það er eitthvað rotið í Danaveldi sagði Hamlet. Það er líka eitthvað að í Finnlandi.


Allt í plati?

Í grein í Mbl. lýsti Magnús Thoroddsen skoðun sinni á erlendum lánum og vöxtum af þeim.Ég leyfi mér að grípa niður í greininni(leturbreytingar eru mínar): 

 ...“1) Ég veit ekki til þess, að fram hafi farið marktæk könnun á því, hvort meirihluti lögfræðinga sé mér sammála um það, hvernig fara skuli um ákvörðun vaxtanna eftir að Hæstiréttur Íslands kvað upp sína dóma hinn 16. júní sl. þess efnis, að gengistrygging lána miðað við erlenda gjaldmiðla væri ólögleg. Hins vegar þykir mér ekki ósennilegt, að svo sé. 

  2)Ég þekki engan lögfræðing, hvorki íslenzkan né erlendan, er sé þeirrar skoðunar, »að rétt svar við öllum lögfræðilegum álitaefnum sé að finna í lögum og öðrum skrifuðum réttarheimildum«. Það er enginn mannlegur máttur, sem getur sett allt í lög um öll hin blæbrigðaríku og breytilegu tilvik í mannlegu samfélagi, hvað þá er varðar framtíðartilvik. Til þess er mannlífið allt of flókið og síbreytilegt frá einum tíma til annars. Þetta er laganemum rækilega bent á þegar í upphafi laganámsins, í hinni svokölluðu almennu lögfræði.  

 3)Samkvæmt 72. gr. Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33, 17. júní 1944, með síðari breytingum, skulu dómendur í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Með orðinu »lögunum« er fyrst og fremst átt við sett lög, réttarvenjur og fordæmi. Þegar ekki er fyrir að fara slíkum lögum, þá verða dómarar að dæma samkvæmt »eðli máls« eins og það kallast í lögfræðinni, en það merkir að dæma beri á þann veg, er dómara sýnist sannast og réttast og í sem beztu samræmi við grundvallarreglur réttarskipunarinnar. Í engilsaxneskum rétti kallast þessi lagatúlkun »Law of Equity«, sem er frekari lagaþróun frá »Common law«. Í skandinavískum rétti er þetta nefnt að dæma: »Efter Sagens Natur«.   

4)Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem í daglegu tali eru nefnd samningalögin, eru að stofni til frá árinu 1936, nr. 7. Lög þessi eru samnorræn. Þau hafa tvívegis verið aukin og endurbætt. Í hið fyrra sinnið varð það með lögum nr. 11/1986. Þá var með 36. gr. veitt lagaheimild til að breyta samningi.  Grein þessi hljóðar svo: » Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig (sbr. þó 36. gr. c). Hið sama á við um aðra löggerninga.«  

Varðandi túlkun á þessu lagaákvæði segir svo í 2. mgr. 36. greinarinnar: »Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika, sem síðar komu til.«  Hið síðara sinnið, er samningalögin voru aukin og endurbætt, var með lögum nr. 14/1995 eftir að Ísland gerðist aðili að EES-samningnum. Með þeirri lagabreytingu var réttarstaða neytenda aukin til muna.  Ef við lítum svo á, að gengistryggingardómar Hæstaréttar frá 16. júní sl. séu »atvik, sem síðar komu til« , þá segir í 2. mgr. 36. gr. c, að eigi skuli taka tillit til þeirra, »neytanda í óhag.« Verði vextirnir í gengistryggðu lánasamningunum hækkaðir frá því sem umsamið var, yrði það »neytanda í óhag«. Þess vegna er vaxtahækkun óheimil  

Með því að dæma gengistryggingarákvæðið ólöglegt, hefir samningnum verið vikið til hliðar að hluta í skilningi 36. gr. samningalaganna. Þrátt fyrir það er samningurinn efnanlegur að öðru leyti og því getur neytandi, skv. 36. gr. c, 2. mgr., krafist þess, að lánssamningurinn »gildi að öðru leyti án breytinga«, svo sem þar er mælt fyrir um.  Þegar lagaákvæði eru jafn skýr og ótvíræð, eins og ákvæði 36. gr. samningalaganna eru, sem og sjálfur tilgangur laganna, verða dómendur að dæma samkvæmt því. Ég verð því að hryggja minn unga, lærða andmælanda með því að segja honum, að þá getur dómari hvorki dæmt samkvæmt »eðli máls« né »efnahagshagsrökum hagfræðinnar«. Gerði hann það, væri hann að brjóta gegn stjórnarskránni......“  

....“6)Í grein sinni spyr höfundur: Þurfa dómarar að hafa dómgreind? Mér finnst spurningin kjánaleg! En svarið er einfalt. Það er já. Orðið dómgreind er fallegt orð í íslenzku máli og það er sjálflýsandi, eins og svo mörg orð á okkar fögru tungu. Vitanlega þarf dómari að kunna góð skil á íslenzkum rétti, bæði hvað varðar fræði og framkvæmd. En það er ekki nóg. Góður dómari verður að hafa góða dómgreind, vita og finna, hvað er sannast og réttast í hverju máli og »helzt að lögum«, og dæma samkvæmt því.“ 

 

Þar sem mér finnst Magnús segja það beinum orðum, að ekki megi dómari dæma öðruvísi en eftir lögum, þá varð ég nokkuð undrandi á á dómi héraðsdóms um vextina á erlendum lánum. Með tilliti til þess hversu ráðherrar ríkisstjórnarinnar fögnuðu dómnum, þá sýndist mér þeir fagna því að dómurinn hafi tekið tillit til óska þeirra og skoðana varðandi málið og hagsmuni ríkissjóðs sem eigenda flestrar fjármálastarfsemi í landinu. Verður vart annað séð þegar niðurstaða dómsins er skoðuð:

 

....„Eins og áður er komið fram, verður að líta svo á að aðilar hafi ætlað sér að tengja samninginn ákveðinni verðvísitölu sem í þessu tilviki var gengisvísitala. Vegna þessa byggir stefnandi fyrstu varakröfu sína á því að miða beri við að samningsfjárhæð sé verðtryggð og beri verðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að stefnda stóðu til boða lán frá stefnanda með þrenns konar kjörum, þ.e. óverðtryggð, verðtryggð og gengistryggð. Ekki verður fullyrt um hvort stefndi hefði kosið að taka verðtryggt lán eða óverðtryggt. Þykir því með vísan til grunnraka samningaréttarins um sanngirni, sem og til neytendasjónarmiða, sem m.a. koma fram í 36. gr. c laga nr. 7/1936, að skýra þann vafa stefnda í hag og miða við þau samningskjör sem eru honum hagfelldari. Er óumdeilt að samningskjör miðað við verðtryggt lán eru stefnda óhagfelldari en þau kjör sem miðast við óverðtryggt lán. Af því leiðir að hafna ber fyrstu varakröfu stefnanda. Þá verður ekki séð að þriðja varakrafa stefnanda um Reibor vexti eigi sér stoð í samningi aðila og verður því heldur ekki á hana fallist.

 

Að öllu framanrituðu virtu er það niðurstaða dómsins að við úrlausn málsins verði að líta til ákvæða 4. gr., sbr. 3. gr., vaxtalaga nr. 38/2001 og reikna vexti af umræddu láni til samræmis við þá vexti, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga. Verður því fallist á fjórðu varakröfu stefnanda. ...“

 

Mér finnst dómarinn líta svo á að lánveitandinn sé orðinn að neytanda eftir c. lið 36.gr. og því sé ekki dæmt honum í óhag af sanngirnissjónarmiðum.

Eru þá aðilar að lánssamningi  því orðnir tveir neytendur jafn réttháir og bera sömu ábyrgð?

Má þá ekki víkja samningnum til hliðar af fleiri ástæðum en ákvæðum um gengistryggingu og vaxta. Til dæmis að samningurinn skoðist aldrei hafa verið gerður vegna formgalla?

Til dæmis að allt sé flutt til baka á byrjunarreit og sanngirnin ein skuli ríkja? Allt hafi í raun verið í plati?  


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband