Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Var mig að dreyma?

eða hvað. Í svefnrofunum heyri ég í útvarpinu að maður er að tala um nauðsyn þess að koma hagvexti af stað sem ekki bara byggist á úttekt séreignarsparnaðar og einkaneyslu í framhaldi af því svo og 20 milljarða vaxtaendurgreiðslu frá Landsbankanum til fyrirtækja. Það verði að koma einhverri fjárfestingu af stað í landinu, slá ekki á útrétta hendi Kínverjans heldur sansa manninn einhvernveginn, leigja honum Grímsstaði til 200 ára frekar en að bara segja nei, grafa Vaðlaheiðargöng og fæla ekki frá fjárfesta með því að leggja fram alvitlausar tillögur um kolefnisskatt. Bað menn svo að vera bjartsýna, þessu yrði öllu reddað bráðum, alveg eins og að Vinstri Grænir væru ekki til.eða þessi ríkisstjórn.

Ég hélt barasta að þarna væri kominn einhver maður sem mér hefði yfirsést á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins um daginn. Svo vel hljómaði hann í mínum eyrum. Hvernig gat þetta gerst? Svo kom svarið, þetta var þá bara hann Kristján Möller frá Siglufirði. Ég varð að klípa mig í handlegginn. " Þú ætlar þó ekki að fara að samþykkja eitthvað sem kemur frá Samfylkingarþingmanni? Hann skal sko ekki fá að stela okkar helstu stefnumálum þessi þrjótur!" Hann var líka rekinn úr ríkisstjórninni á sínum tíma. Sjálfsagt verið Steingrími til leiðinda með allskyns framfararöfl.

"Nei nei, burt með þessa ríkisstjórn ráðleysis og ringulreiðar. Kosningar strax!"æpti ég og hoppaði fram á gólf. "Aldrei að trúa neinu sem kemur frá þessu liði hversu vel sem það hljómar." "Það svíkur allt og meinar ekkert með því sem það segir og getur ekki neitt."

Og þó? Mig var kannski ekki alfarið að dreyma? Getur verið að til sé einhver skynsemi þrátt fyrir allt innan Samfylkingarinnar?


Þýðir nokkuð að röfla?

Í ársreikningi BYR fyrir starfsárið 2008 stendur þessi klausa:

 

Álit KPMG hf.

 

Það er álit okkar að samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu samstæðunnar á árinu 2008, fjárhagsstöðu hennar 31.

desember 2008 og breytingu á handbæru fé á árinu 2008, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið

staðfestir af Evrópusambandinu.

 

Reykjavík, 13. mars 2009

Álit KPMG hf.

Sigurður Jónsson

Ólafur Már Ólafsson

 

Þessir menn eru löggiltir endurskoðendur og þáðu 36 milljónir fyrir störf sín fyrir BYR sem var í eigu okkar stofnfjáreigenda.

 

Þá staðfestu þeir með undirritun sinni að fjárhagur BYR væri með eftirfarandi hætti:

 

Eignir 253.208.995

Skuldir 236.995.776

Eigið fé

 

Stofnfé  30.608.437

Varasjóður -14.395.218

Eigið fé samtals 16.213.219

  

Eigið fé í lok ársins nemur 16.213 millj. kr. Eiginfjárhlutfall sem reiknað er samkvæmt ákvæðum 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki er 8,3%.

 

Ársreikninginn má nálgast hér:

http://byr.is/upload/files/forsida/arsreikningur_31_12_2008_byr.pdf

Sigurður Jónsson svaraði aðspurður á aðalfundi BYR í apríl 2009 að allar skuldir og eignnir vær rétt skráðar og engar sérstakar duldar áhættur væru í reikningunum. Menn gætu treyst reikningunum að BYR væri við þá heilsu sem reikningarnir sýndu.

 

BYR var farinnn á hausinn áður en árið var liðið og var siðan yfirtekinn af fjármálaráðuneytinu án dóms og laga. Skipuð slitastjórn. Enginn veit hver er orðinn reikningurinn hjá Evu B. Hreinsdóttur og slitastjórninni (tugþúsundirkr/klt + vsk) fyrir slitastjórnina, hversu mikið tapið er orðið, hvað ríkið lagði fram, hvað  það fær í sinn hlut við að selja "nýja BYR " til erlendra kröfuhafa Íslandsbanka fyrir 6  milljarða. Er hann að græða eða tapa? 

 Hver ber ábyrgð í BYR málinu? Litla gula hænan segir ekki ég, Sigurður Jónsson segir ekki ég, Jón Þorsteinn stjórnarformaður segir ekki ég, allir segja ekki ég. Jón Ásgeir hefur ekki verið spurður og svo er um fleiri þessu tengdu.

Við stofnfjáraðilar vorum sviknir um gjaldþrot bankans sem hefði leitt sannleikann í ljós hverjir stálu þessu, hverjir stálu hinu og hverjir bera ábyrgðina. Það er búið að reka BYR af fjármálaráðuneytinu í meira en tvö ár ólöglega af Steingrími J, Sigfússyni án þess að neinn fái að vita sanneikann um gang mála.  Niðaþoka leryndarhyggjunnar er yfir öllu.

Það sem hefur gerst síðan er að stjórnendur bankans voru sýknaðir í Héraðsdómi af milljarðs sjálftöku úr sjóðum bankans í sambandi við þegar þeir létu  Exeter Holdings kaupa stofnfjárbréf sín á yfirverði með peningum BYR. , sem var búið að blessa yfir í reikningum 2008. Þetta voru víst bara venjuleg viðskipti samkvæmt dómnum. Allir sloppnir. Ragnar Zeta, Jón  Þorsteinn, Birgir Ómar og hvað þeir hétu nú allir.

Sigurður Jónsson  er síðan að ég hef séð frummælandi á ráðstefnum KMPG um viðskiptahætti og ber höfuðið hátt sem löggiltur endurskoðandi. Algerlega blásaklaus. Ekki ein einasta tala sem úrslitum réði í ársreikningum sem hann samdi fyrir BYR virðist samt hafa verið rétt. Hvert er eiginlega hlutverk löggiltra endurskoðenda? Geta þeir bara skrifað undir hvað sem er og verið lausir allra mála? Hafa þeir engin siðalögmál? Eða starfsheiður að verja?.

 Guðlaugur Þór alþingismaður hefur reynt að krefja Steingrím Sigfússon svara um tölur þær sem hann hefur sýslað með af opinberu fé í sambandi við fall BYR og framhaldslíf sparisjóðsins og svo lika Sparisjóðs Keflavíkur sem er ekki minna mál að vöxtum og handfjatlað af sama Steingrími með sama hætti og BYR.Það virðist bera ámóta árangur og að röfla uppí norðanvindinn. 

Og svo er það framsal hans á Íslandsbanka og Aríon banka til einhverra erlndara vogunarsjóða sem samt bera nöfn eins og  Bæjarins Partners, Borgartún Associates, Geysir Advisors, Grindavík Fund, Gullfoss Partners, Keflavik Associates, Laugavegur Partners, Silfra Fund, Soltún Partners og annarra þekktra nafna...". Heimilin fá ekki séð að þessir eigendur muni bera hag þeirra fyrir brjósti. Þeir vilja hinsvegar ná sem mestu fé í sinn hlut.

Oft hefur maður fórnað höndum í önn dagsins þegar manni ofbýður eitthvað og sagt að Ísland væri bananalýðveldi og réttarkerfið rotið og hlutdrægt. Maður hefur samt alltaf komið niður á jörðina og reynt að þrauka áfram og vonað að Eyjólfur myndi  hressast eins og Kiljan þegar hann horfði framhjá skelfingum kommúnismans í sömu von. En 600 börn eru farin úr landi með foreldrum sínum á þessu ári einu. Hefur þetta  fólk fórnað höndum í síðasta sinn hérlendis?

Eftirfarandi saga  þó ljót sé lýsir kannski tilfinningum hins almenna manns til íslenska  kerfisins og vonbrigðum hans með starfhætti þess  nokkuð vel:

"Ég var fastur í umferðarteppu á Sæbrautinni þegar það var bankað á rúðuna hjá mér. "Hvað er í gangi," spurði ég. 
"Hryðuverkamenn eru búnir að ráðast inn í Alþingi og halda öllum þingmönnum þar gíslingu," sagði maðurinn. "Ef þeir fá ekki 100 milljónir fyrir klukkan 8 munu þeir hella bensíni yfir alla og kveikja í. Við erum þess vegna að banka hérna á og safna framlögum."
 
"Og hvað eru menn að gefa í þetta," spurði ég
"Sirka 10 lítra."
 

Er þetta land ekki bara svona vonlaust um þessar mundir að þessi kaldrani lýsir stemningunni.   Steingrímur Sigfússon fer fram með hvaða hætti sem honum sýnist og svara engu nema því sem honum passar. Skattleggur allt sem hreyfist og fjandskapast við við alla viðleitni til að vekja upp atvinnulífið.  Er nokkur von meðan  hann er þarna í ráðuneytinu? Engin  von um að landið rísi hjá þessari þjóð? Formaður stjórnmálaflsins VG kosinn með innan við hundrað atkvæðum sem slettir skít í fjöldahreyfinguna Sjálfstæðisflokkinn við öll tækifæri?

 Spillingin virðist æða áfram. Hinir og þessir fá afhent verðmæti og afskriftir. Flest önnur fyrirheit svikin. Allt hjúpað leynd og pukri. Hversu lengi mun þessi ríkisstjórn sitja áfram í blindri sjálfumgleði sinni í skjóli einnota þingmanna sem vita sumir líklega að þeir munu aldrei komast á þing aftur í kosningum. Þeir eru sjálfir búnir að sjá fyrir því.

Svo þýðir nokkuð að röfla meðan þetta ástand varir? Er nokkur von fyrr en vorið 2013?  

 

Ofbeldi gegn konum

er alþjóðlegt þema dagsins í dag. Konur verði fyrir ofbeldi víða um heim. BBC skýrir frá því að það hafi hætt að senda kvenkyns fréttaritara til Egyptalands eftir endurteknar kynferðisárásir af hendi múgsins sem er í seinni byltingunni frá sjálfum sér eins og Frakkar upplifðu með valdatöku Napóleons. Það er enn beðið eftir nýjum Saddam, Gaddafi og Múbarak í arabalöndunum. Það verður erfitt að kenna þessum þjóðum democrazy að hætti vestrænna ríkja.

BBC skýrði líka frá því að 9 konur væru meðal 29 myrtra í Noregi af völdum nákominna. Ofbeldi gegn konum í Noregi væri mikið sagði viðmælandinn og mun meira en opinberar tölur segja. Sjónvarpið sýndi myndir af viðbjóðslegu ofbeldi gegn konum í Múslímaríkjunum þar sem þeir hella sýru í andlit kvenna fyrir einhverjar sakir.

En hvað með meðvirkni kvenna í ofbeldi? Hin viðbjóðslega umskurn stúlkubarna í múslímaríkjunum er framkvæmd af konum. Skyldi slíkt tíðkast hér á landi meðal múslíma? Hvað myndum við gera í því? Kvendýr eru yfirleitt grimmari en karldýrin í náttúrunni. Leigubílstjórinn minn í Miami sagði að það væri alls ekki hættulegt að aka leigubíl þar á nóttinni. Maður tæki bara ekki upp þeldökka persónu og "sérstaklega ekki kvenkyns því þær væru mun lífshættulegri af tegundinni" bætti hann við. Cherzes la Femme segja Frakkar þegar þeir vilja leita útskýringa á einhverju skelfilegu. Guðrún Ósvífursdóttir og Hallgerður Langbrok hafa verið uppi á ölllum tímum.

Það er sjálfsagt að vinna gegn ofbeldi á öllum sviðum. En þá er engin stikkfrí.

 


EES og Schengen,

er það blessun eða bölvun Íslendinga?

Ég hef reynt að rifja það upp fyrir mér undanfarið, hver var raunverulegur ávinningur af EES samningnum.? Við höfðum EFTA samninginn sem hafði reynt okkur vel án þess að skuldbinda okkur um of.Hefur mitt líf til dæmis nema breyst til hins verra? Gátum við ekki létt af okkur ófrelsinu einir og sjálfir? Þurftum við að láta neyða frelsinu uppá okkur án þess að hafa neitt um það að segja?

Fengum við nikkuð nema sáralítið svo sem einhverja smátollaniðurfellingar á fiskiflökum á móti öllum þeim skyldum sem við undirgengumst? Við sóttum alla skóla í þessum Evrópuríkjum og ferðuðumst að vild um þau öll áður en þetta kom til. Við urðum hinsvegar að taka upp fjórfrelsið í staðinn sem ég er hættur að koma auga á að hafi raunverulega orðið til góðs. Við opnuðum á landakaup útlendinga, stjórnlausan innflutning framandi fólks, uppkaup risa á íslenskum dvergum. Enginn veit hversu mikið úr auðlindunum er búið í raun að selja en það er áreiðanlega meira heldur en minna.

Og Schengen er þjóðin áreiðanlega sammála um að hentar okkur ekki og hefur otðið okkur líklega bara til bölvunar það sem er. Og reglugerðarfarganið úr EES er að gera landið óbyggilegt á ýsmum sviðum og ástandið versnar ár frá ári og mylur bara undir dreissuga embættismenn landsins.

Má ekki velta fyrir sér hvort við séum ekki betur komnir með því að segja þessu öllu saman upp?

Hætta bara í EES og Schengen?


Sýn ASÍ á Evrópusamvinnuna

var birt í ritsmíð mikilli frá ASÍ frá árinu 2009 Þar er lýst óbilandi trú á kosti evruupptökunnar. Hvernig hefur þessi sýn þróast í ljósi tímans?

Þar birtu þeir sakleysislegan kafla um

"Maastrcht-skilyrðin", sem eru þessi:

1. Verðstöðugleiki. Verðbólga má ekki vera meiri en 1,5 prósentustig umfram
meðaltals verðbólgu í þeim þremur ríkjum þar sem hún er lægst.

2. Jafnvægi í ríkisrekstri. Halli í ríkisrekstri má ekki vera umfram 3% af
landsframleiðslu, nema hann teljist eðlilegur í ljósi sérstakra aðstæðna.

3.Skuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en sem nemur 60% af landsframleiðslu. Unnt er að veita undanþágu frá þessu skilyrði ef þróunin stefnir
í rétta átt.

Í eina skiptið í sögu lýðveldisins vorum við nærri því að ná þessum skilyrðum, en það var í fjármálaráðherratíð Gers H. Haarde í ríkisstjórn Davíðs. En þá talaði enginn um nauðsyn þess að afsala sér fullveldinu og taka upp evru sem lækkaði stöðugt gagnvart krónu á þeim tíma. Enda var mönnum þá ljóst að hagsveifla Íslands er með annarri öldulengd en sú í ESB og var það ljóst öllum á þeim tíma að Íslendingar höfðu algera yfirburði í hagvexti miðað vð ESB ríkin.Blindaðir af oftrú á sjálfa sig og snilld íslenskra útrásarvíkinga undir hljómsveitarstjórn Forseta lýðveldisins duttu Íslendingar útum þakgluggann á hraðferð sinni upp stigann í velsældarturninum.

Frá hruni 2008 eru Íslendingar hinsvegar langa vegu frá því að uppfylla þessi skilyrði og svo verður áfram út þennan áratug ef vinstri stjórnin situr til 2013 með velvilja ASÍ. Því áreiðanlega tekur minnst 3 ár að endurreisa þjóðina eftir þann skaða sem hún hefur þá hlotið fyrir tilverknað tvístirnisins Jóhönnu og Steingríms. Fyrst undir lok áratugsins gætu menn farið að ræða uppfyllingu markmiðanna. En óábyrgir verkalýðsforingjar innan ASÍ mun þá að venjulegum líkindum löngu hafa gert þær vonir að öngu með "kjaraleiðréttingum" minnihlutahópa og verðbólgu sem nær sér á strik við þær aðstæður.Hinn minnsti hagvöxtur mun kalla á gengdarlausar taxtahækkanir hjá langsoltnum lýðnum.Og hvaða gengi skyldi þá verða á evrunni í Grikklandi eða á Íslandi?

Ef ný þjóðasátt yrði gerð um að hækka ekki laun næstu 2 ár þá myndi gengið stórstyrkjast og verðlag stórlækka. En það virðist allt gleymt sem áður var gert og því fer líklega svo sem áður sagði.

Svo kemur stórmerkileg yfirlýsing sem væri gaman að vita hvort gengið hafi eftir í augum áróðusrdeildar ASÍ:

"Jafnframt hefur ítrekað verið bent á, að frá því EES samningurinn var gerður,
hefur samstarf ríkja Evrópusambandsins dýpkað og ný viðfangsefni verið felld
undir samvinnu þeirra. Út frá hagsmunum launafólks og vinnumarkaðarins
skiptir mestu dýpkun og nýsköpun samstarfsins, þar sem nýir málaflokkar
hafa verið felldir undir Evrópusamvinnuna eins og t.d. réttindi og staða
minnihlutahópa á vinnumarkaði. Annað dæmi er félagsmálastefna ESB sem
er mikilvæg stoð fyrir efnahags- og atvinnulíf framtíðarinnar."

Einmitt! Hefur samstarf Grikkja, Spánar, Ítalíu við ESB dýpkað? Er trú almenns launafólks á evruna í þessum löndum ósnortin? Þegar atvinnuleysi ungs fólks er 20-40 %? Er það þetta sem ASÍ sér í hillingum? Hefur allur Sjálfstæðisflokkurinn ekkert að segja um inngöngu í ESB? Hverjir ætla að ná saman um að ganga í ESB?

ASÍ gafst upp á stöðugleikasáttmálanum við Jóhönnu og Steingrím og gerði ótrúlega verðbólgukjarasamninga við SA. Nú ásakar forseti ASÍ ríkisstjórnina um svik við elli-og örorkufólk.Eitthvað er trúin á norrænu velferðarstjórnina vera farin að dala.

Hvernig samræmist framtíðarsýnin við nútímann í eftirfarandi málsgrein úr plagginu frá ASÍ:

" Umsókn um aðild að ESB og yfirlýsing um að Ísland stefni að því að taka
upp evru sem gjaldmiðil eykur trúverðugleika okkar í glímunni við veikingu
krónunnar og efnahagsvandann og hjálpar þannig til við að ná tökum á
gengi krónunnar, losa um gjaldeyrishömlur, lækka vexti og draga úr
verðbólgu.
Þessi afstaða er síðan áréttuð þar sem segir um áherslur ASÍ varðandi
stöðugleika:
• Koma á stöðugleika.
• Stefna að upptöku evru svo fljótt sem verða má.
• Hagstjórnin miði við að Ísland uppfylli sem fyrst ákvæði stöðugleikasáttmála"

Ég velti stundum fyrir mér hvort evrópusinnaðir Íslendingar séu yfirleitt með sjálfum sér í hugsjónaákvefðinni. Trúa þeir þessu sjálfir?

Ritgerðin um Sýn ASÍ um dásemdir ESB og upptöku evru finnst mér frekar vera tálsýn en farsæl framtíðarsýn um náðarfaðm ESB Íslendingum til handa.


WOW- MP-Banki, Voff Voff !

er nýtt sameyki í íslensku viðskiptalífi að fæðast?

gæti einhverjum dottið í hug þegar hann reynir að muna eftir gömlu útrásarvíkingunum Jóni ásgeir og Pálma Haraldssyni. En þeir komu eitthvað við sögu Íslandsbanka, BYR og fleiri fjármálastofnana og svo Icelandair Group, Flugleiða, Sterling og hvað þetta hét allt saman. Hvað skyldi ekki vera hægt að græða á lággjaldaflugfélögum ?

Skúli Mogensen er nýtt stirni á himninum. Hann er nýbúinn að kauppa sér MP-banka. Nú er hann að stofna nýtt lágfargjaldaflugfélag í stíl við Pálma Haraldsson, Astreus og Iceland Express og tékkneskt leiguflugfélag hans.

Fjölmiðlar flytja sem fyrr fagnaðarfréttir af athafnasemi Skúla sem brátt mun fljúga okkur ódýrt yfir Atlantshafið. MP-banki hefur ekki aðskilið rekstur sinn í fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Af hverju ekki? Er sjálfgefið að fólki lítist á að eiga spariféið sitt í MP-banka þegar þessi eignatengsli eru skoðuð? Hvar er MP sjálfur í þessu?

Nei nei, engin tengsli milli Skúla í MP-banka og Skúla í WOW(Í Andrésblöðunum er WOW það sem hundarnir segja á Íslandi Voff voff) frekar en í fyrra tilvikinu. Menn eru bara að versla með hlutabréf og það kemur ekkert málinu við þó þeir eigi í öðrum félögum og það hafi verið kölluð krosseignatengsl fyrir hrun. Maður bara leigir sér flotta stjórnarformenn sem allir treysta. Allt í þessu fína.Gunnar Andersen á sjálfsagt nóg með sig þessa dagana.

VOFF Voff, WOW !


Verðtryggingin

og allar ræðurnar um hennar aðskiljanlegu vondu náttúrur lætur mig stundum fá yfir höfðuðið.

Ég man hinsvegar nú orðið nokkuð langt aftur. Ég man að það var árið 1965 og ég var búinn að vera að vinna sæmilega vinnu eins og gekk og gerðist eftir nám ein tvö ár og flytja tvisvar á milli leigukjallara í Reykjavík. Þá sá ég auglýst fokhelda hæð í húsi sem maður ætlaði að byggja í Kópavogi. Brjálað verð, á sjöundahundruðþúsunda. Hvar átti maður að fá það?

Byggjandinn ætlaði að bíða eftir húsnæðisláninu. Hitt samkomulag. Um hvað segi ég núna. Maður var bara nánast eins og kirkjurotta sem sá ekki langt inn í framtíðina frekar en núna. Byggjandinn reyndist svo vera valmennið Stóri-Björn sem ég og flestir könnuðumst við frá fyrri tíð. Hann hjálpaði mér svo á margan hátt og gerði minn veg beinni en annars hefði orðið og við bjuggum báðir með fjölskyldum okkar í húsinu um langan aldur þangað til það sprakk utanaf minni.

Ég fékk lánað húsnæðislán svo 1966 þegar húsið var fokhelt. Samsvaraði hálfri "fokheldu", eða líklega 1/3 -1/4 af íbúðarverði til 20 ára óverðtryggt.Skammturinn var 340.000 í tvennu lagi með hálfsárs millibili held ég. Íbúðin mátti mest vera ca. 110 m2 íbúð skv. reglum Húsnæðismálastofnunar Ríkisins.

Endanlega flutti ég svo inn fyrir náð tengdapabba og með mikilli vinnu skyldmenna og vina fyrir einar 900.000 þúsundir minnir mig, mjög ódýrt var sagt. Þetta voru ganlar krónur NB. Önnur lán voru ekki í boði á markaði. Þetta tilsvarar líklega húsnæðisláni(eða styrk sem unga fólkið myndi kalla því það segir að ég og mín kynslóð hafi aldrei borgað neitt) sem nemur 7-10 milljónum í dag af svona íbúð í stað þeirra 20 sem nú eru lánaðar verðtryggðar. Ég fékk lán hjá ömmu Sigríði og pabba, vask í Þorláksson & Norðmann, drasleldhúsinnrétting hjá einhverjum innflytjanda, eldavél hjá Smith og Norland og ofn hjá Rafha osfrv.(gengur enn!) Kannski eitthvað á víxli hjá Jóhanni Hafstein, sem einn bankastjóra lánaði ungu fólki í þá daga á víxli ef þú þekktir einhvern sem vildi skrifa uppá.

Engin önnur lán voru í boði. Íbúðin ,myndi kosta núna í byggingu líklega 40 milljónir eða 4 milljarða í þessum gömlu krónum. Sem getur vakið menn til umhugsunar um árangurinn af ábyrgri kjarabaráttu ASÍ allan þennan tíma, viskunni í að strika út tvö núll. Fjögurþúsundprósent kauphækkun og allir eru óánægðir með laun sín. Íslensk efnahagsmál og stjórnmálasagan þá líka eru bara revía og farsi því að bófaflokkar leika hér lausum halda og kalla sig stéttarfélög. En stunda bara mannrán, gíslatöku og fjárkúgun ef grannt er skoðað.

Svo var víst sett einhver smáverðtrygging á húsnæðislánið seinna. En þetta er langt að baki svo ég man þetta ekki lengur. Þetta var basl og maður átti oft varla að éta þó maður fengi sér stundum flösku um helgar eða legði í. Maður var ungur, átti börn og var ástfanginn, átti gamlan bílskrjóð og gerði við hann á götunni. Svei mér ég veit varla hvernig þetta baslaðist allt. Fólk flutti almennt inn í hurðarlaust á steininn beran. Bara SÍS og frægðarmenn fengu lán í bönkunum, ekki venjulegt fólk. Fáir voru ríkir og öngvir eins og útrásarvíkingar á einkaþotum. En þá voru stundum böll um helgar og dans sem nú er mest aflagt nema í sveitinni.

Menn sátu í kös á biðstofum bankastjóranna í þá daga og fengu oftar nei því öngvir peningar vorur til. Dásamlegt basl og áhyggjur sem eru núna auðvitað gulli laugaðar þegar ævin er svo gott á enda.

Svo kom verðtryggingin og allt í einu gátu allir fengið 70-80 % lán og svo seinna í vitleysunni 110 % Og menn þurftu ekki lengur að kaupa steypuna fyrirfram eins og menn vildu ólmir gera heldur gátu alltíeinu sparað á banka. En nú eru allir málsmetandi menn á móti verðtryggingu og þá því að fólk geti átt peningana sína í banka óhulta frá verðbólgunni. Helst það ekki í hendur?

Einn mikill andstæðingur verðtryggingar segir að peningarnir eigi bara að koma úr baunkunum. En til þess að banki geti lánað út, þarf hann smá innlögn af peningum sem hann getur svo margfaldað. Nema svo mikið sé til af erlendum peningum að þú getir fengið lán í þeirri mynt. Sem varð svo ólöglegt. Svo höfum við Seðlabanka til að skrúfa upp verðlagið með stýrivöxtum. Horft til baka finnst manni heldur lítið til koma hagvísinda þeirra stjórnmálamanna sem maður gapti uppí þá. Einar Oddur og Guðmundur Jaki standa þó uppúr flatneskjunni í mínum huga. Þeim tókst það sem hinum tókst ekki, að innleiða vott af skynsemi í þjóðlífið þó það sé nú löngu gleymt.

Eftir mína fyrstu byggingatíma komu svo lífeyrissjóðirnir okkar til sögunnar. Þeir lána ekki út nema vísitölutryggt, sem allir hljóta að sjá að er ekki hægt öðruvísi. Íslensk króna eða Evra, alveg sama hvort því verðbólgan er meira en 5 % í Evrulöndunum.

En með lífeyrissjóðina sjá menn líklega núna, eftir töpin, spillinguna og vitleysuna að það var tóm vitleysa frá upphafi að stofna þá nokkurntíman með þessum hætti, óteknum skattpeningum ríkisins að stórum hluta og iðsgjöldum. Allir hefðu betur bara borgað inn til ríkisins fasta upphæð og fá síðan próventu í ellinni.Hafa svo kannski haft leyfi til að draga annað eins frá skatti í frjálsa ráðstöfun. Annað áttu menn að sjá um sjálfir og spara sér afskipti bjálfa, skálka og stjórnmálamanna í þeirri röð. En nú er ekki til sá þjóðmálaskúmur sem ekki er uppfullur af tillögum hvað eigi að kaupa með þessum peningum öllum sem eru í sjóðunum.

Svo hvað er framundan? Verðtrygging eða ekki verðtrygging? Ég held að verðtryggingin sé nauðsynleg og fráleitt að binda verðtryggðan sparnað til þriggja ára eins og nú er gert. Sparisjóðsbók á að geta verið verðtryggð og bera lága vexti eða óverðtryggð og bera hærri vexti. Seðlabankinn á ekki að skipta sér af vöxtum það sannar sagan að hefur reynst bara vitleysa. "Vextir eiga að vera svo háir sem til eru fífl að borga." sagði gamli Sveinn og hafði rétt fyrir sér í því sem flestu öðru.

Það er frelsið sem skiptir öllu og frjálshyggjan sem það byggist á. Að þjóðin losni undan oki kommúnismanum sem hún býr við núna og "Davíðstímarnir" komi aftur, þar sem allir gátu átt þá mynt sem þeir vildu sjálfir. Þurftu ekki þetta kratakjaftæði um upptöku Evru og svo framvegis. Við myndum áreiðanlega fara ögn varlegar í sakirnar og gæta okkar betur í næstu umferð.

En verðtrygging inneigna og skulda er nauðsynleg. Ábyrg hegðun gerir verðtrygginguna áhrifalausa með öllu. Bavíanaháttur stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda hækkar hinsvegar höfuðstól skulda vegna verðbólguframleiðslu þessara aðila.

Okkur vantar tilfinnanlega skynsemi eins og gamli Sveinn sagði. Þá er verðtryggingin ekkert vandamál.


EES-Schengen

eru orð sem heyrðust á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og var þá ekki verið að hrósa þessum gerningum. En Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á að hafa komið þessum málum í gegn og ekki má mikið hnjóða í þessi apparöt án  þess að Björn Bjarnason komi með allt sitt vit og rökþunga til að verja Schengen að minnsta kosti. Og verður þá oftar en ekki lítið úr formælingum annarra. Við verðum vitni að því seint og snemma að Jón Baldvin Hannibalsson hreykir sér af því að hann hafi komið þessum samningi í gegn, hann sé hinn mikli spámaður sem allt hafi gert. En hann var aðeins talsmaðurinn útávið og hjalparkokkur. Án Sjálfstæðisflokksins gat hann minna en ekki neitt þó grobbið vanti aldrei í kratana.

En það þýðir ekki að það ríki koppalögn í Sjálfstæðisflokknum  um ágæti Schengen samstarfsins, hvað þá um ágæti eftiráspekingslegra málalenginga Jóns Baldvins .  Björn Bjarnason telur að  samningurinn hafi fært okkur fleira gott en illt.  Hann hefur þó ekki útskýrt enn fyrir mér hversvegna Bretar geta staðið utan hans og virðist ganga vel.  Bretland er eyja eins og Ísland og hefur langa reynslu af því hvílík vernd landinu hefur verið í aldanna rás af þessum vatnsborða sem umlykur eyjarnar.Það er í fyllsta máta skiljanlegt að svo reynd þjóð noti þetta til að stýra umferð til og frá landinu þó að sé fullseint í rassinn gripið hjá þeim þegar svo mikið af óþjóðum er þegar komið til þessara miklu landa Engla,  Saxa, Kelta og  Skota.

Menn hérlendis hafa af því vaxandi áhyggjur hvernig skipulögð erlend glæpastarfsemi skýtur hér rótum. Líkstungumaðurinn Gajdas sem var í aðkomubanni til landsins fór og líklega fer kannski enn allra sinna ferða út úr landinu hvað sem fyrri málum líður.  Úraþjófarinir geta þá birst hér aftur án þess að við Franch Michelsen vitum af því.  En ég kemst ekki inn í landið nema hafa íslenskt vegabréf.  Þegar ég held því fram að við getum tekið upp vegabréfaskyldu til landsins og frá, þá er mér svarað með kuldalegri þögn.  Schengen er eitthvað heilagt vé sem ég má ekki hafa skoðanir á.

Ég held því samt fram að Íslendingum sé fullheimilt að taka upp vegabréfskyldu samkvæmt undaþáguákvæðum í samningnum ef vilji væri til. Það getur til dæmis verið kallað bráðabirgðaráðstöfun vegna "tímabundinnar" vaxandi erlendrar glæpastarfsemi sem getur svo staðið með með lotum og hléum eins lengi og verkast vill. Viljinn er bara allt sem þarf til að hrinda þessu í framkvæmd.

Sama máli gegnir í EES-samningnum. Í honum er nóg af ákvæðum sem geta leyft okkur að teygja hann og toga.  En af  hálfu okkar  ráðamanna úr öllum flokkum hefur ekki verið vilji til að reyna að milda ákvæðin. Svo að embættismenn eins og þeir eru nú vel til forystu fallnir eða hitt þá heldur, fá sjálfdæmi í framkvæmd allrar sérviskunnar.  Sem dæmi hér um eru RARIK og Orkusalan og ýmislegt annað sem óþarfi er að eltast við vegna sérstöðu landsins  eins og til dæmis Flugmálstjóri lemur sem ófrávíkjanlegar staðreyndir sérvisku EASA áfram án tillits til hvaða píslir og tjón hann er að vinna með kreddufestu sinni þegar flugaðstæður hérlendis eru svo gerólíkar því sem gerist í litlu Evrópu. Afþví bara segja þessir menn og yppta öxlum og komast upp með alla sína vitleysu  þegar stjórnmálamenn taka ekki í lurginn á þeim eins og þeir eiga að gera.

Við getum lifað við bæði EES og Schengen ef við höfum vilja til.


Útrásarvíkingar

finnst mér persónulega að ættu ekki að reka flugfélög eða starfsemi sem verslar með líf og limu fólks.

Mér finnst að farþegar eigi að geta treyst reglufestu flugfélaga og heiðarleika. Það er sagt að það séu ástæður fyrir því að ekki öll flugfélög fá að fljúga til Bandaríkjanna.

En lifi samkeppnin segja útrásarvíkingar á hátíðastundum . Þeir halda mikið upp á jafnræðisregluna á markaði, sérílagi að hún gildi fyrir fyrir aðra sem eigi að borga skuldir sínar.


Að vinna sigurinn

er ef til vill erfiðara verkefni en margir halda í pólitík. Sumum prófkkjörsbaráttum lýkur bara ekki fyrr en annar liggur í valnum. Menn geta unnið sigur í kosningu "milli vina og samherja" eins og það heitir. Davíð Oddsson vann Þorstein Pálsson frá Selfossi þaðan sem Davíð kom líka. Það sjá allir hvernig þeim gekk sambýlið eftir það. Og nóg önnur dæmi blasa við.

Bjarni vann Hönnu Birnu í drengilegum slag sagði hann. En landsfundarfulltrúar eru ekkert endilega á sama máli að baráttan hafi verið með öllu silkimjúk af hálfu sóknaraðila, hvers stuðningmenn skýrðu ástæður sínar fyrir mótframboði með ýmsum hætti og virtust talsvert minnisgóðir í sumum tilvikum.

Samlíf andstæðinganna verður ekki endilega mikið og gott fram að næsta landsfundi, en sumir óánægðir sögðu við hina eins og Skugga Sveinn: "Hittumst á Kili." "Við erum rétt að byrja."

Nýkjörinn formaður á því vandaverk fyrir höndum. Að honum verður sótt hvað sem menn vilja trúa öðru. Hver mistök á svellinu geta orðið dýrkeypt.

"Það er algerlega miskunnarlaust starf að vera formaður Sjálfstæðisflokksins" sagði Bjarni Benediktsson eldri. Því verður formaður að vanda sig vel og hafa hinna bestu manna yfirsýn með sér í hinum stóru málum en ekki hlusta bara á einn eða tvo höfuðsnillinga sem alllt þykjast vita. Formenn þurfa að hafa eyrað líka við grassvörðinn og treysta ekki blint á ískalt mat einhverra sjálfskipaðra ofurgáfumanna.

Það þarf stundum alþýðlegt vit og farsælar meðalgáfur til að greina á milli útreiknaðra valkosta. Þar skilur oft á milli feigs og ófeigs.

Það þarf nefnilega að vinna sigurinn líka í pólitík.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband