Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Makalaust

ef Jón Ásgeir fær Björn Bjarnason dæmdan fyrir meiðyrði út á það að segja að Jón Ásgeir hafi verið dæmdur sekur um fjárdrátt þegar hann segist bara hafa verið dæmdur fyrir bókhaldsbrot. Sem er eitthvað sárasaklaust því rangfærslur í bókhaldi eru sjaldnast gerðar nema í frómum tilgangi um bætta niðurstöðu í hörðum heimi. Og svo eru menn ekki alltof góðir af náttúrunni í smáatriðum eins og Deirdre Lo kemur snemma auga á.

En það sem sumir menn komast ekki yfir ennþá, er það að Bónusfeðgar skyldu vera sýknaðir af í að taka peninga almenningshlutafélagsins Baugs og kaupa Baug fyrir sjálfa sig með þeim peningum og breyta því í einkahlutafélag sjálfs síns. Þetta stimplaði dómsvaldið sem viðskipti en ekki fjárdrátt eins og saksóknari vildi. Þetta veit ég að situr enn í mörgu fólki sem ömurleg niðurstaða í Baugsmálum. 

Ég er sem sagt að reyna að lesa Rosabauginn eftir Björn og er um það bil vel hálfnaður. Það sem af er bókarinnar finnst mér þetta vera mjög vel unnið og vandað verk. Björn dregur fram urmul staðreynda og tilvitnana. Mér finnst hann yfirleitt láta menn njóta sannmælis og skýra málin frá báðum hliðum. Björn fer yfir þetta umfangsmesta og dýrasta mál Íslandssögunnar frá upphafi og ég get ekki séð að hann sé annað að gera en fylgja sögunni eins og hún gerðist, vegna þess að stöðugar tilvitnanir í skrifaðar heimildir gefa ekki færi á því að breyta neinu um atburðarásina.

 Þetta er feikna yfirgripsmikið verk og vel unnið sem Björns er von og vísa.  Vitanlega léttir það höfundi um leið og það staðreyndabindur hann, að Björn hefur haldið úti vefriti sínu frá upphafi netaldar  þar sem hann skýrir frá atburðum um leið og þeir gerast. Að þessu leyti er þetta verk einstakt því að höfundur getur ekki gert tilraun til þess að segja söguna eins og hann vildi að hún hefði gerst heldur er bundinn af staðreyndum samtímans og eigin orðum.  Enda er ég sannfærður um það eftir að hafa fylgst með skrifum Björns þennan tíma, að Björn vill á engann halla hvorki í þessum málum né öðrum. Ég hygg að meirihluti þjóðarinnar muni taka undir það. Þó andstæðingar hans spari sig hvergi í andsvörum þá eru yfirburðir Björns hvað staðreyndir varðar augljósir. En hér áttust við í íslensku þjóðfélagi stærri og voldugri aðilar en nokkru sinni fyrr. Er málskostnaðurinn einn talinn nema milljörðum króna þannig að ekki er um venjulegt innbrot í sjoppu að ræða. 

Satt að segja á ég í mesta basli í fyrstu umferð að fylgjast með fléttunum sem Jón Ásgeir lék í fjölmiðlakaplinum sínum og get alls ekki haft yfir öll fyrirtækjanöfnin sem hann notar í síbreytilegu fjármálaumhverfi sínu þegar best lætur. Milljarðatöp í rekstri virðast hinsvegar gufa upp í  eitthvað svarthol en ný stöndug fyrirtæki spretta stöðugt upp sem ætluðu að gera nýja hluti.  Hvert peningarnir fóru eða hver borgaði né heldur hvaða eignir standa á bak við Fréttablaðið og Stöð 2 í dag veit sjálfsagt enginn. En óumdeilt er að yfirstjórnin í þessu fjölmiðlaveldi er óbreytt og máttur þess mikill til skoðanamyndunar. Ein bók má sín væntanlega lítils gegn stöðugum straumi innrætingar vilji slíkir miðlar beita sér.

En hvernig sem hlutirnir snúast og velta, þá er það með sömu leikendunum aftur og aftur sem  leikritið er spilað. Nöfn eins og  Gunnar Smári Egilsson, Sigurjón Egilsson, Þorsteinn Pálsson, Reynir Traustason og sonur hans, Ari Edwald, Sigurður G. Guðjónsson, Hreinn Loftsson, Gestur Jónsson, Steinar Berg, ásamt með aragrúa smástirna vinna að því allan tímann að gjöra veg Jóns Ásgeirs beinan í augum almennings.  Allir meginþræðir virðast liggja beint til hans. Stundum er togað vel í af örlögunum og líka heilladísunum sem koma til skjalanna þegar mest á ríður. Og sumir segja að stundum styðjist þær dísir við mannlega hjálp í störfum sínum. Jón Jósep hefur birt athyglisverðar myndir á taugagreiningarformi sem sína hversu óhemjuflókið net Baugsveldið spann um þjóðfélagið á sinni tíð.

Fjölmiðlaveldið sjálft gengur enn í eitthvað smækkaðri mynd á blússandi siglingu eftirhrunsáranna.   Fréttablaðið er þrungnara af auglýsingum en nokkru sinni.   Bónusfeðgar eru eiginlega aftur orðnir góðu strákarnir í hugum almennings sem allir voru að hrekkja svo til blásaklausa. Gott að Pálmi Haraldssson vinur þeirra getur enn séð þeim fyrir ódýrum expressflugförum þegar þeir fara að vitja landa sinna úti í heimi. Slíkir menn láta ekki afturkippi slá sig út af laginu sem betur fer.

Ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðlaveldisins er spurning sem ber á góma í bók Björns. Jón Ásgeir heldur því fram að það gildi hjá sér.  Samt eru mörg dæmi um það, hvernig Jón Ásgeir notaði  fjölmiðlana sína til að fegra myndina af sér og taka út óþægilegar fréttir að því er fyrrum starfsmenn bera. Og makalaust fannst mörgum á sínum tíma að Jón Gerald Sullenberger fekk nákvæmlega sama dóm fyrir kreditreikninginn og Jón Ásgeir þegar upp var staðið, eða þrjá mánuði skilorðsbundið. Eiginlega fyndið.

Þetta er eiginlega maklaus saga  hvernig Jón Ásgeir nær að snerta nærri hvern einasta mann eitthvað á gervöllu Íslandi.  Á hann yfirleitt nokkurn sinn jafningja í Íslandssögunni? Er hann ekki sá þjóðarmögur og fyrirmynd sem æskan ætti að líta upp til?  Víg-og sókndjarfur,óhræddur við tölur og smáatriði. Maður slíkrar gerðar að það er á við langt háskólanám að kynnast honum að sögn Pálma Haraldssonar? Þarf hann ekki líka að fá að njóta sannmælis fyrir dugnað sinn og þor? 

Eiginlega makalaus saga um röskleika ókvalráðra manna sem verða að rosabaug yfir ráðafárri þjóð.

 

 

 


Hvað er framundan?

á Íslandi?

Svo lengi sem þetta Alþingi situr verða næsta litlar  framfarir í landinu. Fólksflóttinn heldur áfram og léttir á tímabundið á atvinnuleysinu.  Ýmsu í umhverfi atvinnurekstrar mun miða eitthvað afturábak í besta falli eins og sjávarútvegi við óbreytt aflamark. Fyrirtækjarekstur verður enginn sem heitir í þá veru sem áður var næstu ár,  hlutabréfaviðskipti verða næsta lítil meðal almennings, skattafslættir til hlutabréfa eins og var fyrir 1990 eru aflagðir og verða ekki á dagskrá á næstunni.  Sparnaður fólksins dregst saman, bæði af því að kjörin rýrna í verðbólgunni og þess að hvergi er hægt að fá ávöxtun á sparnað. Menn leggja alefli sitt í steinsteypu og skattsvik af öllu tagi,  þar sem ríkið er svo afdráttarlaus óvinur hvers manns í landinu, að menn flýja skiljanlkega í ósýnilega  hagkerfið. Það er unnið svart, smyglað, svikið og falsað sem aldrei fyrr.

Svo fellur þetta Alþingi auðvitað einhvern tímann og annað nýtt kemur. Hugsanlega þingfólk sem hugar að því að þegnunum þurfi að standa opnar dyr viðskipta, hér starfi bankar sem greiða ávöxtun þannig að sparnaður eflist og að lán verði fáanleg til framfara þó  ekki verði það á neinum óskhyggjuvöxtum eins og núverandi postular tala um.  Almenningshlutafélög myndast einhverntímann aftur þo ekki sé það í augsýn ennþá.  Vonandi verður  lokað  á auðveldar innkomur  yfirtökuhákarla og innanúrnagara sem kalla sig stundum kjölfestufjárfesta og óðu hér uppi og eru hér enn.  Menn öðlast smátt og smátt trú að að þeir geti verið óhultir á Íslandi með eignir sínar og þurfi ekki að sæta afturvirkri skattlagningu. Stjórnarfar þarf að verða sæmilega stöðugt aftur með öruggum þingmeirihluta yfirvegaðra stjórnmálamanna en ekki upphrópara í vínkilgeðsveiflum. Helst má líta til þess að það fólk komi úr Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, þar sem það sýnist stöðugra á geði en það fólk sem helst skreytir  hina flokkana.

Hér verður að ríkja viðskiptafrelsi og öll höft á fjármagnsflutninga verða að heyra sögunni til. Skýrar reglur um bankastarfsemi og ábyrgð á innistæðum verða að vera til staðar og skipting banka í viðskipta-og fjárfestingabanka verður að vera skýr.  Takmarka þarf vald verkalýðsfélaga til skemmdarverka og vægi atkvæða verður að jafnast til að minnka gíslatökur minnihlutahópanna. Taka þarf upp vegabréfaeftirlit til að verjast ágangi glæpamanna og gæta þess að framkvæmdastig í landinu fari ekki yfir það sem vinnumarkaður ræður við án þess að allt springi í loft upp. Aðild að Evrópusambandinu verður ólíklega samþykkt á næstu árum og íslenska krónan verður með okkur lengi enn.

Þegar þetta er allt fengið, þá er framtíðin bara fjandi björt fyrir Ísland.  Því landið er fagurt og frítt, þó fólkið sé h.......

Öll él styttir upp um síðir. Líka á Alþingi.                              


Kapítalisminn

hefur gert Bandaríkin stór. Ein meginstoð þjóðfélagsins eru gjaldþrotalög ríkisins. Lögaðili verður gjaldþrota á einfaldan hátt. Mál hans eru gerð upp án tafar, allar eignir eru seldar og aðilinn er laus allra mála. Enginn eltir hann með neitt úr hans fyrra lífi og hann er ekki brennimerktur vegna gjaldþrotsins nema hann hafi gerst sekur um svindl.Hann byrjar aftur með hreint borð.

Þannig hreinsar bandaríski markaðurinn sig. Þeir sem lifa af samkeppnina fá aðeins betri aðstgæður á markaði þar til að nýir samkeppnisaðilar rísa.

Hér á Íslandi er þessu ekki þannig varið. Einstaklingar sem verða gjaldþrota eru hundeltir til æviloka og geta aldei um frjálst höfuð strokið.Sá sem missir húsið sitt á uppboði fyrir slikk eer persónulega ábyrgur fyrir restinni. Ef fyrirtæki eiga í hlut, þá er oft farið öðruvísi að. Fyrirtæki tengjast oft pólitískum flokkum ósýnilegum böndum og bankarnir hafa lengst af verið samþættir pólitík líka. Afleiðingin er sú að markaðurinn fær ekki að njóta sín. Fallítt fyrirtækjum er haldið á floti af því að svo og svo margir missi vinnuna ef þau loki og svoleiðis félagslegar bábiljur eru notaðar til réttlætingar ríkisaðstoðar við að "bjarga störfunum"..

Auðvitað er það eðli markaðarins að leysa úr vöntun. Hann er ekkert annað en vöntun einhvers á einhverju. Hér er það af einhverjum ástæðum talið að starf manns sem hann vinnur hjá einhverju fyrirtæki sé nauðsynlegt og ómissandi í sjálfu sér. Burtséð frá því hvort það hafi verið orðið óþarft af þeim ástæðum að fyrirtækið var komið á hausinn og aðrir þar með hafi verið farnir að gera það betur. Í þessu augnamiði fara hérlendir bankar eða ríkisvaldið að reka gjaldþrota fyrirtæki vegna þess að það þurfi að vernda störfin, það glatist svo mikil þekking ef fyrirtækið lokar og þar fram eftir götunum. Afleiðingin er markaðsskekking og samkeppnin fær ekki umbun erfiðis síns. Og þjóðfélagið í heild sinni fær því minna með meiri kostnaði í sinn hlut.

Hvað myndi breytast ef til dæmis N1 yrði lokað, Húsamiðjunni, Pennanum, Landsbankanum, BYR, SPKEF, Högum, SJÓVÁ, ARION, Björgun,BM Vallá, Steypustöðin og hvað þetta heitir allt saman sem er á framfæri og miskunn ríkisins og banka þess? Jú, starfsfólkið yrði atvinnulaust í bili. En myndi ekki vöntunin á markaði kalla á að einhverjir þurfi að auka framboð? Og líklega á hagkvæmari hátt. Auðvitað er þetta sársaukafullt og alltaf sorglegt þegar gróin fyrirtæki hverfa. En fuglinn Fönix rís úr öskunni í Bandaríkjunum og hver man þar nú eftir því að Enron hafi eit sinn verið stór vinnustaður?

Á Íslandi ríkir ekki markaðskerfi eða kapítalismi heldur mistýrður pilsfaldakapítalismi, sem er öðru nafni kallaður sósíalismi andskotans.

Er hægt að kenna kapítalismanum um hvernig komið er?


Erlendur gjaldmiðill

á Íslandi er draumsýn ýmissa sem halda i sakleysi sínu, að þá verði allt gott á Íslandi. Hér verði hægt að fá óverðtryggð lán til langs tíma á 5 % vöxtum, engin verðbólga verði og svo framvegis. Síðasta uppfinningin er að fá hingað kanadadollara af því að það gengur svo brösótt með evruna.

Grikkir standa frammi fyrir því að öll laun í landinu verða að lækka um 25 % eða Grkkland fer á hausinn. Og auðvitað fer Grikkland á hausinn því enginn verkalýðsforkólfur samþykkir að lækka kaupið fyrir sitt fólk sem búið er að hækka með ærinni fyrirhöfn, svo sem skrúfugerð og verðhækkunum í kjölfar þeirra. Nóg er nú dýrtíðin fyrir.

Við þessar aðstæður tala Íslendingar um það eins og sjálfsagðan hlut, að við þurfum bara að skipta út ónýtri krónunni okkar svo nýjusu kauphaækkanir geti orðið varanlegar.Og fjöldi félaga með lausa "kjarasamninga" sem eru ef grannt er skoðað aðeins spurning um hversu verðbólgan eigi að vera mikil og hversu mikið meiri hjá öldruðum og öryrkjum. Á netinu í dag er gamla fólkinu bent á það hversu mikið kjör þess og aðbúnaður muni batna ef það fengi að fara í fangelsi í stað elliheimila. Því miður ekki alveg út í hött.

Á Íslandi er Starfsgreinasamband með 18 félögum. Ég held að starfandi séu tugir félaga til viðbótar sem geta farið í verkföll til þess að knýja fram kjarabætur. Veikt ríkisvald okkar hefur sýnt sig að geta ekkert í viðskiptum við þessa óaldarflokka, sem ríða um héruð og taka það af bændum sem þeim sýnist, rétt eins og höfðingjarnir gerðu á Sturlungaöld þegar sláttur var úti og hægt var að fara að stunda slátrun á óvinum höfðingjanna.Í þeim túrum fengu bændur bæði að éta og fara á fyllerí svo að þeir létu ekki bíða lengi eftir sér þegar slíkt bauðst.

Er ekki kominn tími til að við högum fjármálaumræðunni í þjóðfélaginu á raunsæjan hátt? Veltum fyrir okkur af hverju Þýskaland er svo máttugt sem það er? Af hverju launin hafa ekki hækkað þar í takt við Grikkland? Af hverju Íslendingar geta ekki haft annan gjaldmiðil í landi sínu annan en þann, sem þeir geta svikið, hrakið, falsað, stolið og logið að sjálfum sér með eins og þá lystir? Við höfum hreinlega ekki félagsþroska til annars.

Á tímunum fyrir 2008 máttu allir eiga þá gjaldmiðla sem þeir vildu og setja í skúffur hjá sér eða eyða í útlöndum. Er það ekki ásættanlegra markmið að skapa þá tíma aftur heldur en að krefjast erlends gjaldmiðils í landinu? Skipta á Steingrími, Mávi og einhverjum nýjum Davíð?

Meðan við búum við okkar agaleysiá vinnumarkaði þá förum við beinustu leið í flokk með Grikklandi ef við ekki höfum ekki krónuna. En erlenda gjaldeyrisfrelsið frá Davíðstímanum væri ágætt að endurheimta. Og það gerist með atvinnu og fjárfestingu í landi krónunnar góðu sem bjargaði okkur frá hörmungum Grikkja, Íra, Spánverja og Portúgala.

Það er hægt að fá þessa tíma aftur alveg eins og þjóðarsáttin virkaði á sínum tíma. En til þess þarf að endurheimta vitið sem nú er ekki að störfum í þjóðfélaginu. En það er þarna úti einhversstaðar og einhverntíman kemur það til baka og stynur við þungann eins og Káinn reyndi á sjálfum sér. Þá verður krónan jafngóð og hver annar erlendur gjaldmiðill.


Leggjum honum lið!

Þorsteinn Pálsson skrifaði góða hugvekju í Baugstíðindin á laugardaginn var um réttarhöldin yfir Geir Haarde. Þar fer ríkisvaldið fram með ótakmarkað fé skattborgaranna tiil að framleiða málsskjöl og ávirðingar á einstakling sem verður að verja sig með sínu eigin fé. Sannarlega Davíð á móti Golíat.

Þorsteini Pálssyni verður hugsað til annarra réttarhalda fyrir síðustu heimsstyrjöld. Þá hamaðist glæpamaðurinn Stalín með öllu afli Sovétríkjanna gegn einstaklingum.

Þorsteinn segir m.a.:

“Niðurstöður rannsóknarnefndarinnar verða hvorki sannaðar né afsannaðar með vísindalegum aðferðum eða lagarökum. Sama er um mat fyrrverandi forsætisráðherra á aðstæðum árið 2008. Kjarni málsins er sá að réttarhöldin snúast um mat á aðstæðum sem menn axla pólitíska ábyrgð á í lýðræðisríkjum en eru fundnir sekir fyrir þar sem önnur gildi eru æðri. Réttarhöld Stalíns gegn Búkharín á ofanverðum fjórða áratug síðustu aldar eru þekkt dæmi um pólitískan málarekstur. Þeim verður alls ekki í einu og öllu jafnað til þeirra réttarhalda semhefjast í næstu viku, af þeirri ástæðu að þar markaði dauðinn endalokin. Þau réttarhöld spunnust þó inn í íslensk stjórnmálaátök og íslenskar bókmenntir enda var Halldór Laxness viðstaddur. Hann skrifar um þau í Gerska ævintýrinu og segir: "Sú lifandi mynd baráttunnar milli pólitískra höfuðafla … er svo skyld náttúruöflunum sjálfum að atriði eins og siðferðileg eða lögfræðileg "sekt" samsærismannanna, eða sú persónulega refsíng sem beið þeirra, verða í raunréttri smámunir sem ekki freista til kappræðu. Þegar svo djarft er teflt um örlög 170 miljón manna, og raunar als heimsins, einsog blökkin gerði, þá fara ræður um "sekt" að fá býsna smáborgaralegan hljóm, sömu leiðis býsnanir útaf réttlátum eða ránglátum aftökum.""

Þessi viðurstyggilega afstaða kommúnistans Halldórs Kiljan Laxness til lífs og dauða Búkaríns og félaga dugði mörgum Íslendingi til ævarandi fyrirlitningar á manninum bak við pennann þó maður gengi undir manns hönd að hvítþvo Nóbelsskáldið.

Sem betur fer erum við Íslendingar hættir að beita refsingum eins og Laxness dásamaði Stalín fyrir. Engu að síður eru þau dusilmenni sem samþykktu að draga Geir Haarde fyrir landsdóm, láta hann verja öllu sínu fé til að verjast upplognm sökum og koma honum síðan í fangelsi til langs tíma, í raun og veru svipaðrar náttúru. Fólk sem er eins eins og gamla konan sem lagði sprek í bálköst Brúnós í einfeldni sinni. Slíkt fólk gætir þess ekki að hvað það gerir þegar því finnst við hæfi að beita öllu afli íslenska ríkisins gegn einum manni.

Á sjötta hundrað manna lögðu leið sína í Hörpuna í gær til að láta í ljós siðferðilegan stuðning við Geir Haarde. Þar mátti sjá mörg þekkt andlit úr vinstri flokkunum þannig að þetta mál byggir á fleiru en venjulegri pólitískri skiptingu. Sómatilfinningin er sem betur fer innbyggð í flest fólk fremur en innprentuð.


Kristrún Heimisdóttir flutti drengilega ræðu á fundinum. Hún sagði að hún hefði aldrei orðið vitni að öðrum eins heigulshætti en þeirra háttvirtu þingmanna sem greiddu ákærunni atkvæði sitt án þess að hafa reifað málið fyrir sér sjálfir heldur hlýtt forsögn illra anda annarra í blindni.

Vonandi sjá réttsýnir menn að Geir Haarde er liðveislu þörf í baráttu hans við ofureflið.

Leggjum honum lið!


Allir í verkfall !

nú síðast flugvirkjar. Svo leikskólakennarar. Svo flugumferðarstjórar. Svo kennarar. Svo lögreglan.Svo...

John Hanson frá MIT flutti yfirgripsmikinn fyrirlestur í HR um rannsóknir síns skóla á flugumferð í USA. Mér heyrðist að 80.000 flug ættu sér stað á dag í Bandaríkjunum. Hann sýndi hreyfimynd af flugumferð inn til New York. Satt að segja skilur maður ekki hvernig hægt er að stjórna þessu þannig að vel fari. Hvað þá að þetta eigi eftir að aukast um allan helming.

John var spurður um það, hvernig Bandaríkjamenn stjórnuðu stjórnendunum sem stýrðu umferðinni. Á Íslandi væru þeir alltaf í verkfalli. Hann sagði að þeirra flugumferðarstjórar hefðu ekki verkfallsrétt. Reagan hefði rekið þá alla í einu þegar þeir fóru í verkfall og voru þeir aldrei endurráðnir.Nýtt fólk var ráðið og allt gekk vel. Nú væru allir sem hann réði í staðinn að komast samtímis á aldur þannig að bráðavöntun væri á flugumferðarstjórum hjá þeim. Maður dró þá ályktun að Bandaríkjamenn hefðu þá afstöðu að lykilmenn í þjónustu ríkisins hefðu hugsanlega ekki verkfallsrétt. Enda væri erfitt að ímynda sér að stéttarfélag hinna 12 hershöfingja gæti farið í verkfall þegar ætti að fara í stríð. Opinberir starfsmenn væru hugsanlega undir einhverskonar heraga.

Hér er hugtakið agi og skylda næstum ekki til. Allir hafa skotleyfi á samfélagið undir merkjum stéttabaráttunnar. Það er eiginlega skondið að velta þessu fyrir sér. Opinberum starfsmönnum var veittur verkfallsréttur held ég í tíð íhaldsstjórnar,, hvaða ár sem það nú var. Áður lutu þeir kjaradómi held ég.

Nú er nýbúið að semja við láglaunafólkið um ákveðna verðbólgu með taxtahækkunum sem ríkið á ekki fyrir eins og fram kemur í greinargerðinni fyrir kvótafrumvarpinu.Þá koma hálaunahóparnir og skammta sér meira með verkföllum. Allt í leiðréttingarskyni að sjálfu sér,þolinmæðin á þrotum og allt það, ´þolandi samningsleysi svo og svo lengi.

Nú hljóta allir að sjá að það er um að gera að fara í verkfall. Þau eru svo skemmtileg og standa svo stutt af því að þau eru raunverulega bara í plati.Hér er enginn Reagan sem kann að reka hann.

Allir í verkfall!


Eru skólarnir að skila?

því sem foreldrar ætlast til?  Það er að krökkunum sé kennt eins mikið og unnt er.

þegar ég var í skóla voru yfir 30 í bekk. Þá var skipt í bekki eftir námsgetu. Í heild leið börnunum vel minnir mig innan um jafningja. Ef einhverjum fór að ganga verr í einstökum fögum eftir því sem árin liðu, þá fór þetta  fólk gjarnan annað eða var flutt milli bekkja.

Nú skilst manni að bannað sé að velja í bekki. Þeir námfúsu og tossarnir séu saman. Getur afleiðingin skilað besta árangri? Leiðist ekki öllum í bekknum, bæði þeim besta og þeim lakasta? Sá lakasti tekur alla hina. Svo bætist við nýbúavandamálin. Börn nýbúa fá sum ekki aðstoð heims því foreldrarnir eru ekki mæltir á íslensku. Sum börn eiga heldur ekki brúklega foreldra.

Svo eru kjarafélög kennara öflug. Gera skrúfur og setja þjóðfélaginu fyrir hvað þeim þóknist. Sem þarf ekki að vera sama og börnunum þóknast. Kennari sem nær árangri fær ekki meira greitt en sá sem getur ekki kennt.

Milton Friedmann vildi koma á samkeppni milli skóla. Hver nemandi fengi ávísun á lágmarksskólavist, sem gæti verið venjulegur íslenskur skóli. Hann gæti fengið betri skóla keyptan.  Efnafólk gæti keypt betri skóla þó ekki sé víst að þeirra krakkar séu betri námsmenn. Og ekki sé víst að fjárhæðin sé svo svimandi ef samkeppni er virk. Ef til vill væri líka hægt að hafa styrkjakerfi eftir einkunnum? 

Af hverju er ég að skipta mér af þessu sem ég hef ekki vit á? Jú, mér nefnilega ofbýður þegar ég rekst á það aftur og aftur að fermingarkrakkar kunna ekki margföldunartöfluna.

Svo eru það Menntaskólarnir. Einn góður skólamaður sagði mér að sín verstu mistök hefðu verið að innleiða haustpróf fyrir fallista. Fyrir bragðið hefði stúdentsstandardinn lækkað og meðaleinkunn á stúdentsprófi fallið um heilan. Afleiðingin væri sú að léttustu deildir Háskólanna fyllast af fólki sem á ekkert erindi í Háskóla. Af hverju er ekki númerus klásus í öðrum deildum en læknadeild? Síur? 

Er þetta einhvernvegin svona? Eru skólarnir að skila okkur því besta? Höfum við ráð á öðru?

 


"Við látum ekki

fiskimiðin okkar af hendi, hvorki til ríkjasambanda né fyrirtækja. Þau eru miðin okkar," sagði Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra í ræðu sinni vegna sjómannadagsins.

Hóla-Jón er horskur í tali. En hann er líka þingmaður VG. Hvað er VG að gera? Stendur það ekki í aðildarviðræðum við ESB sem hefjast af krafti á 17.júní n.k. á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri fyrir vestan einhversstaðar?

Ásmundur Daði gat ekki þolað Hólamannahögg Jóns Bjarnasonar og flýði með þingmennsku sína yfir í Framsókn. Honum finnst greinilega  það vera hans einkamál hvernig hann öðlaðist þingkjör sitt. Allt í plati vinstri grænir, þið kusuð víst Framsókn? Svipað er með Lilju og Atla. Þau virðast ekki spá mikið í flokkseininguna eða hverjir kusu þau. Er þetta flokkaflandur ekki komið í hreina vitleysu þannig að menn eigi þá hreinlega að fara í frí og kalla inn varamenn ef þeir geta ekki á sárshöfði setið? Hafa kjósendur ekkert með hegðun þingmanna sinna að gera ?

Hvað um það. Jón í VG segist hafa sjávarútvegsstefnu á sjómannadaginn. Hver verður hún á 17.júni?  Hvaða stefnu hefur VG eiginlega í sjávarútvegsmálum ? 


BYR

í seglin?

Hvað eru menn að kaupa þegar fjölmiðlar segja menn slást um að kaupa BYR?

Starfsmenn? Innlán? Tölvubúnað? Sálir?

Hvað er Byr? Þetta var almenningseign sem ég átti í og tók lán til að styrkja. Stofnfjáreigendur lögðu fram 30 milljarða til viðbótar þeim tugum sem þeir áttu fyrir til að styrkja fyrirtækið. Glæpamenn bjuggu til svikamyllu og stálu öllu þessu fé og meira til. Við eigendurnir, íslenskir þegnar, erum sagðir hafa tapað öllu sem við áttum við þessar aðgerðir. Enginn spyr hvert peningarnir fóru eða hvar þeir séu.Glæpamennirnir bara hlæja að okkur fíflunum.

Peningar stofnfjáreigenda gufuðu upp þegar eignarhluti okkar varð verðlaus þegar búið var að stela bankanum af okkur. Kemur Steingrímur J. Sigfússon í gervi frelsarans og leggur góðan tug milljarða af peningum Íslendinga, okkar stofnfjáreigenda líka, til að halda BYR í gangi. Fyrir hverja?

Nú er allt til sölu hjá Steingrími sem segist vera að viðhalda sparisjóðahugsjóninni með því að halda BYR í gangi. Menn slást um að fá að kaupa BYR segja ríkisfjölmiðlarnir. Einn einkabanki MP og síðan umboðsmenn peninga Íslendinga sem eru hinir ríkisbankarnir. Skattpeninga sem Steingrímur fór með sem sína. Bankar sem eiga flesta Íslendinga með húð og hári.Allt ein guðleg kómedía eins og hjá Dante.

Bankar eru tölfræðilega alltof og margir á Íslandi miðað við Bandaríkin.Þrisvar sinnum fleiri bankastarfsmenn heldur en þar og útibú líka.

Það er aldeiis BYR í seglin.


Frumvarpið

um stjórn fiskveiða,1475 mál, lagt fram á Alþingi.

Ég var að reyna að stauta mig í gegnum þennan óskapnað og finnst það hreint ekki auðvelt mál.

Nokkur meginatriði er hægt að greina:

Í fyrsta lagi að lagt er til að ráðherra skipti úthlutuðum heildarafla í tvo flokka. Í flokk 1 falla samningar um nýtingarleyfi á aflaheimildum en í flokk 2 fellur aflamagn sem úthlutað er án nýtingarsamninga. Hlutir undir flokki 2 eru strandveiðihluti, byggðahluti, leiguhluti, línuívilnunarhluti og bótahluti. Ráðherra verður heimilt að ákveða skiptingu úthlutaðs afla milli flokka 1 og 2 sem og hluta í flokki 2. Til leiguhluta skal ráðstafa því magni sem bætist í flokk 2 þegar tiltekinni aukningu aflaheimilda í strandveiðihluta og byggðahluta hefur verið náð. Gert er ráð fyrir að tilfærsla milli flokka og hluta fari fram í áföngum á 15 ára tímabili þannig að í lok þess verði að jafnaði 15% þorskígilda þeirra fisktegunda sem sæta takmörkunum í flokki 2, að undanskildum þorski, ýsu, ufsa og steinbít, enda gilda sérreglur um þá stofna.


    Í öðru lagi er lagt til að í stað árlegrar úthlutunar aflahlutdeildar eða krókaaflamarkshlutdeildar verði gerðir tímabundnir samningar við útgerðir um nýtingarleyfi á aflaheimildum. Skulu útgerðir, sem úthlutað hefur verið aflahlutdeild eða krókaaflamarkshlutdeild á fiskveiðiárinu 2010/2011 og uppfylla tiltekin skilyrði, eiga rétt á slíkum samningum. Samningarnir skulu í upphafi vera að hámarki til fimmtán ára með möguleika á framlengingu um átta ár. Fiskistofa skal annast samningsgerð í umboði ráðherra.


    Í þriðja lagi er lagt til að varanlegt framsal aflahlutdeilda verði óheimilt nema í undantekningartilvikum. Þó er í bráðabirgðaákvæði VI heimild til varanlegs framsals aflahlutdeildar til 15 ára sem háð er samþykki ráðherra og tilteknum skilyrðum. Skal ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, eiga forleigurétt á þeim réttindum sem eru andlag framsals. Kostnaður ríkisins vegna forleiguréttar skal fjármagnaður með tekjum af veiðigjaldi. Falli ráðherra frá forleigurétti flyst hann til lögheimilissveitarfélags framseljandans.


    Í fjórða lagi er lagt til að framsal á aflamarki milli skipa óskyldra aðila innan fiskveiðiársins verði takmarkað við 25% í stað 50% heimildar gildandi laga og að réttindi til framsals verði að mestu áunnin með veiðum.


    Í fimmta lagi er lagt til að óheimilt verði að veðsetja aflahlutdeild fiskiskips eða önnur réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeildar. Þegar gerðar veðsetningar skulu þó halda gildi sínu en óheimilt verður að endurnýja eða framlengja veðsetninguna þegar undirliggjandi veðsamningur rennur út. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að miðað sé við að slík veðréttindi verði ekki aðfararhæf og falli því niður við gjaldþrot en til að tryggja það þurfi að gera breytingar á ýmsum lögum og er annað frumvarp boðað í þeim efnum.


    Í sjötta lagi er lagt til að veiðigjald verði tvöfaldað þannig að það verði 19% í stað 9,5%. Einnig er gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka en ekki er tilgreint á hvaða reglum eða viðmiðum það eigi að byggjast og því erfitt meta hvaða áhrif það kynni að hafa á þessa tekjuöflun ríkissjóðs. Sömuleiðis er lagt til að við ákvörðun veiðigjalds verði útreikningi framlegðar breytt þannig að í stað þess að draga reiknaðan rekstrarkostnað frá aflaverðmæti verði notað nýjasta framlegðarhlutfall (EBITDA) í rekstraryfirliti fiskveiða sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir. Undanfarinn áratug hefur þetta hlutfall framlegðar yfirleitt verið rétt um eða yfir 20% af tekjum fiskveiða. Árið 2009, síðasta árið sem reikningar liggja fyrir frá Hagstofunni, hafði hlutfallið hækkað í um 26% og er gert ráð fyrir að það haldist áfram hátt í ár. Endurspeglar það væntanlega þá miklu veikingu íslensku krónunnar sem varð við efnahagsáfallið árið 2008. Núverandi áætlanir um tekjur af veiðigjaldinu byggjast á þessari framlegð og verður því að hafa fyrirvara á því að draga kunni úr framlegðinni ef gengi krónunnar tekur að styrkjast á komandi árum. "

 Stjórnlyndisfnykinn leggur af þessu frumvarpi langar leiðir og er eiginlega verri en óþefurinn sem mörgum finnst leggja af óbreyttu kvótakerfinu.  Í þessu frumvarpi stefnir flest í stóraukin völd fjármálaráðherra um meðferð veiðigjaldsins eða auðlindarentunnar eins og þeir kalla það hagfræðingarnir. Ekki eru neinir smápeningar á ferðinni:

"Þannig má áætla að miðað við 12,6 mia.kr. heildartekjur af veiðigjaldi og leigu aflaheimilda að 15 árum liðnum, núverandi íbúafjölda og landað aflaverðmæti undanfarinna 15 ára að framlag á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu gæti legið nærri 1 þús. kr. á ári en á Austurlandi og Vestfjörðum gæti það orðið nálægt 55 - 60 þús. kr. eða um fimmtíufalt hærra. "

Enda eru efasemdir um að frumvarpið yfirleitt standist jafnræðisreglur af þessum sökum prentað með frumvarpinu.

 

." Breytingar af þessum toga gætu einnig í sjálfu sér líka falið í sér fordæmi sem erfitt gæti verið að sjá fyrir hvaða afleiðingar hafi fyrir tekjuöflunarkerfi og fjármálastjórn hins opinbera að öðru leyti verði haldið áfram á þessari braut."

Og enn segir:

"Það kann því að orka tvímælis að almenn skattlagning á sameiginlega auðlind eigi að koma sumum landsmönnum meira til góða en öðrum eftir því hvar á landinu þeir búa, þ.m.t. þeim sem starfa við annað en sjávarútveg eins og á við um meiri hluta þeirra sem búa í sjávarbyggðum. Fram hafa komið ábendingar um að slíkt fyrirkomulag kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en þó er engin umfjöllun eða rökstuðningur um það í greinargerð frumvarpsins. Þar segir einungis að ætlunin sé að stuðla að meiri sátt um ráðstöfun veiðigjaldsins og að eðlilegt sé að sjávarbyggðir njóti sanngjarns hluta af þessum ríkistekjum af auðlindinni."

Og svo gæjast útfhárin rauðu  uppúr hálsmálinu:

    Fyrir liggur að afar erfið staða blasir við í ríkisfjármálunum sem kallar á það að leita verður allra leiða til að afla aukinna tekna og að engin slík tækifæri verði látin fara forgörðum til að draga úr og stöðva mikla skuldasöfnun ríkissjóðs um þessar mundir. Þörf fyrir það hefur enn ágerst við það að ríkissjóður hefur nýverið axlað auknar skuldbindingar til að greiða fyrir ásættanlegum lyktum kjarasamninga til lengri tíma sem ætti að geta stuðlað að auknum hagvexti og orðið öllum aðilum til hagsbóta. Mörkun teknanna til aukinna framlaga til sveitarfélaga og annarra verkefna styður því ekki eins og unnt væri við markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum.
    Ljóst er að frumvarpið felur í sér umtalsverða viðbót í öflun skatttekna fyrir ríkissjóð þegar hún verður að fullu komin til framkvæmda því gera má ráð fyrir að heildartekjuöflun með þessum hætti verði um 12,6 mia.kr. Sú fjárhæð svarar til tæplega 3% af skatttekjum ríkissjóðs. "

Almennt séð virðast manni þessi lög illa unnin og ógreinleg samsuða úr allskyns hlutum sem ekki stæðist kröfur til stílagerðar í skóla. Lög eiga að vera einföld og auðskilin en ekki moldviðri almenns texta eða skrúðmælgi sem þetta lagafrumvarp er fullt af. Enda er höfundum ljóst að þeir skilja þau ekki sjálfir heldur segja að treysta verði á að þingleg meðferð muni snikka lögin  til!

Sem texti er þetta frumvarp  Alþingi til lítils vegsauka og sjálfsagt mátulegt að það fái að liggja yfir þessu í allt sumar ef það liggur svona á, sem það aðvitað ekki gerir nema hvað mögulegan líftíma stjórnarinnar áhrærir. (Sem landvættir gefi að fari að styttast). 

 Fyrir utan það meginatriði að það er ekki að leysa neitt afgerandi í kvótamálum þjóðarinnar nema að banna umdeilda veðsetningu kvótans, þá er það að aðallega að stórauka vald skrifræðisins yfir aflafé fólksins.Og úthluta ókeypis gjöfum til verðugra sem þeir sjálfir voru búnir að fá borgaðar í mörgum tilvikum.  Það ætlar að taka 20 % af öllum virðisauka sjávarútvegsins og nota í pólitískar dúsugjafir og þar með atkvæðakaup um landið þvert og endilangt.

Þetta er enn ein samsuða krata og komma til að herða tökin á alþýðulýðveldinu Íslandi. Ríkisvæða undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar sem hefur nú bjargað henni svo frá því að hrunið varð að jafnvel AGS er ánægt með Steingrím. Allt  á þetta að verða með stórum og vanhugsuðum inngripum kontórista  í heim sem þeir ekki þekkja nema af afspurn, sem er sjósókn og útgerð við strendur Íslands.

Skynsamur maður sem fengi það verkefni að breyta sjávarútvegskerfi sem virkar í eitthvað annað myndi minnast eins Murphys-lögmálsins sem segir : "Ef það virkar, reyndu ekki að laga það."  Það er betra að fara varlega í allar stórbreytingar á svona kerfi sem er búið að virka í aldarfjórðung og er jafnþýðingarmikið. En þorri landsmanna er pirraður útí augljósa agnúa á þessu kerfi, sem hefur fært völdum aðilum stórauðævi fyrir ekki neitt jafnvel án þess að það hafi verið skattlagt sértsaklega. Það er hinsvegar ekkert áhlaupaverk með það  réttlæti frekar en annað.

Kvótakerfið er auðvitað hægt að afnema á einni nóttu og gefa veiðar á Íslandsmiðum frjálsar öllum íslenskum skipum.Ekkert vandamál  þar. Óhagkvæmni kæmi auðvitað upp þegar skipin geta ekki geymt fiskinn í sjónum. Og svo vildu margir sjálfsagt fara að kaupa skip og trolla uppí landssteinum. En við öllu þessu er ég viss um að hægt sé að sjá á ýmsa vegu á mun auðveldari hátt en samkvæmt þessu nýja frumvarpi Ólínu Þorvarðardóttur og meðkrata hennar.

Það verður alltaf vandaverk að nýta ósjálfbæra auðlind og verður aldrei leyst svo öllum líki. Kvótakerfið var tilraun til þess en á það hefur verið hlaðið mörgu sem mönnum ekki líkar og truflar réttlætistilfinngu margra.  En var ekki hér  að störfum sáttanefnd sem var komin að niðurstöðu ? Er  nú blásið á það allt ?

Liggur svona mikið á með þetta frumvarp ?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 3418162

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband