Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Bjarni skrifar flokksmönnum

sínum reglulega.

Ég get ekki séð að þetta sé bundið þeim trúnaði að ég megi ekki birta kafla úr þessu til þess að veita sumum lesendum þessa bloggs innsýn í Sjálfstæðisflokkinn, sérlega fyrir þá sem sem sjá þar aðeins eitthvað "forstokkað blámannabandalag". Í síðasta bréfi vekur Bjarni athygli á eftirtöldum þáttum:

"Ríkisstjórnin hefur hækkað skatta um 90 milljarða.

Fjárlagafrumvarpið mun hækka lán heimilanna um 4-5 milljarða. Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafa þá hækkað lán heimilanna um 30 milljarða á kjörtímabilinu, eða yfir hátt í 250.000 að meðaltali á hvert heimili.

Aðhaldsaðgerðir eru mun minni en samið var um í stöðugleikasáttmálanum og koma mest fram í því að ekkert er framkvæmt. Opinber fjárfesting er nú hin minnsta í 70 ár en samt er "fjárfestingaáætluninâ" tilefni blaðamannafundar og lúðrablásturs.

Raunverulegur sparnaður er af skornum skammti.
Skuldir ríkissjóðs hafa aukist ár frá ári, vaxtagjöld ríkisins eru komin í 90 milljarða á ári.

Það er í takt við allt framangreint, að nú er stefnt að eignasölu ríkisins til að standa undir útgjöldum í stað þess að greiða niður skuldir."

Formaður lýkur bréfi sínu þannig:

"Kæru vinir,

það er hægt að gera svo miklu betur. Tækifærin eru til staðar. Með hvetjandi umhverfi og raunverulegum stuðningi stjórnvalda er hægt að snúa vörn í sókn á skömmum tíma. Það verður verkefni okkar á nýju ári að kynna fyrir kjósendum áherslur okkar og lausnir. Lægri skatta, skynsamlega nýtingu auðlindanna, ábyrg ríkisfjármál og aukið frelsi til athafna. Það eru spennandi tímar framundan. Við ætlum að leiða þjóðina saman á framfarabraut og til öflugrar sóknar fyrir bættum lífskjörum.

Ég þakka fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða, óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og hlakka til samstarfs um sigur á nýju ári. "

Þetta lýsir þeirri braut sem formaðurinn vekur athygli flokksmanna á að hverfa þurfi frá. Það þarf hugmyndaflug að sjá í þessu heitingar gegn þeim verst settu. Sjá í þessu einlægan vilja til að gera þá ríku ríkari á kostnað þeirra verr settu.Sjá í þessu afturhald með því að flykkja sér ekki um ESB. Svo lengi má telja róg og útúrsnúninga villta vinstrisins að hvern meðalsnotran myndi æra.

Ég vil heldur að Bjarni skrifi flokksmönnum eins og mér en að hlusta á Steingrím J. öskra í RÚV og steyta hnefann að landsmönnum þegar árangur hans er dreginn í efa.


Lyklahugmyndin kveður ?

með ákvörðun Lilju Mósesdóttur að sækjast ekki eftir þingsæti.

Mér er svo sem alveg sama hverjir eru í þessum vinstri tætingsflokkum sem engu áorka yfirleitt. Ég gaf svo sem ekkert fyrir hennar pólitík nema eitt. Hún vakti máls á nauðsyn þess að fólk væri ekki dæmt til útlegðar fyrir það að geta ekki borgað. Fólk gæti losnað við eignaskuldir sínar með því að skila lyklinum. Svipað og er í Bandaríkjunum.

Hérna er venjan að fólk sé elt persónulega út yfir gröf og dauða vegna skulda sem stofnast af kaupum á hinu og þessu. Sett i gjaldþrot sem fyrnist aldrei ef kröfunum er haldið við eins og skatturinn gerir. Getur aldrei risið upp aftur og er brennimerkt til lífstíðar. Skítleg afgreiðsla í skítaþjóðfélagi sem býr svona að þeim þegnum sínum sem hafa misstigið sig. Oft þeim hrekklausustu og smæstu af smærri meðbræðrum okkar.

Ég hef reynt að hreyfa þessu innan Sjálfstæðisflokksins en ekki tekist að fá nægilegt fylgi við hugmyndir um breytingar á gjaldþrotalögum í þessa veru. En vonandi verður þetta tekið upp af mér meiri mönnum í flokknum þar sem þetta er nauðsynlegt réttlætismál.

Seljandi og kaupandi bera sameiginlega ábyrgð. Lánveitandi á að taka mið af gjaldfærni lántakanda. Þú berð ábyrgðina ef þú lánar óvita byssuna þína. Hvorki óvitinn né hvað þá byssan. Peningar eru líka eignir sem eru lánaðar. Það er auðvelt að slasa sig á þeim. Þetta er ekki bara einstefna.

Ég vona að lyklahugmyndin lifi þó Lilja kveðji.


Pungtrúin

mín hefur beðið hnekki undanfarna daga.

Ég var búinn að leysa mínar nettengingar með 3-G pungum frá Símanum auðvitað, (sem ég vona að sé í þjóðareign og verði það með öllu sem honum fylgir nema Bakkabræðrum og Milestone og hákarlasjóðabönkunum). Þetta er búíð að vera fínt í haust þangað til fyrir örfáum dögum að það fór að draga niður í þessu. Og í fyrradag varð allt steinastopp og svo aftur eftir hádegi í gær. Það virkar nú ennþá fyrir hádegi á laugardegi en það fer væntanlega versnandi með álaginu.

Ég talaði við 800 7000 nokkrum sinnum og þar sem ég var með tvennt af öllu hlið við hlið gátu þeir ekki þvælt mér neitt í tæknimálum og urðu að viðurkenna að vandamálið lægi í kerfinu hjá þeim, þeir sæju bara að það væri ekki að gera sig. Sorry Stína. Gamli þjóðarsíminn endurfæddur. Brosa og borga.

Ef að líkindum lætur reyna þeir eitthvað að gera í þessu en hvenær?. Veit einhver í bloggheimum hvað er að gerast í þessum pungmálum 3-G og 4-G ?Hvað á maður að gera? Það þýðir ekki að hringja í 800 7000 til þess held ég.

Pungtrú mín hefur fengið áfall.Vonandi ekki varanlega.


Erum við enn þjóð?

Íslendinga? Enginn virðist sjá neitt sniðugt eða hliðstæðu í færslunni hér á undan. Það er eins og við séum þegar komin í ESB og enginn fær gert við því.

1258 var orðið hallæri á Íslandi og skipakomur fáséðar.Kyrkingur þarmeð væntanlega í versluninni og prjónles og kæfa óseld sem og fiskur en skortur á allri innfluttri vöru, járni, tjöru, ljáum osfrv. Farþegaskipaferðir líklega strjálast. En menn fóru framan af öldinni milli landa að vild á dekkuðum farþegaskipum sem tóku meira en hundrað farþega í reglulegum siglingum. En þessi skip vorur svonefndar bússur, hétu líka t.d.Grobussan, sem eru undanfarar stækkandi briggskipa. Veðráttan í landinu var kólnandi og herti að öllum landbúnaði. Og hún átti eftir að versna til muna á miðöldunum með öllu því hallæri sem fylgdi. Það var mjög kalt til dæmis þegar Gizur reið í Eyjafjörð að drepa brennumenn frá Flugumýri líklega um jólaföstu 1253. Með honum í ferð var Præst-Johan, líklega Dani, sem var sérlega ókvalráður þegar kom að því að fást við Kolbein Grön sem var afarmenni. En Gizuri þótti fátt til þeirra allra koma sem hann drap á undan Kolbeini í þessum túr.

Í gamla sáttmála 1261 var orðin ástæða til að semja sérstaklega um að Íslendingum séu tryggðar siglingar þriggja skipa minnir mig. Með þessu lauk erjum Sturlungaaldar og manndrápum höfðingja lýkur hugsanlega að miklu leyti þegar Gissur afhausar Þórð Andrésson fyrir samsærið og tilræðið gegn sér sem jarls Noregskonungs. En hann var Hákon gamli, sem okkar þjóðskáld kallaði Hákon Fúla sem hirti frelsi vort. Nú heitir samningamaður ESB Stefán Fúle.

Var hægt að áfellast Íslendinga fyrir það sem þeir gerðu 1261? Þeir voru í nauðum sem líklega áttu bara eftir að versna. Þeir töldu betra að eiga skjól hjá konungi sem tryggði frið í landinu og verslun.

Núna, árið 2012, eru svipuð mál í gangi og sitt sýnist hverjum. Margir segja að okkur vanti skjól og liðveisla við okkar vandamál sem eru talsverð. En margir telja að við eigum miklu fleiri úrkosti núna en mönnum buðust á dögum Gizurar.

Gizur hefur fengið harðan dóm í sögunni. En hann leið meiri raunir á sinni ævi en fáir menn geta skilið hvernig hann þoldi án þess að sturlast. Hann orti:

Enn mank böl þat brunnu
Baugahlín og mínir
skaði kenni mér minni
mínir þrír synir inni.
Glaður munat Göndlar Röðla
gnýskerðandi verða
brjótur lifir sjá við sútir
sverðs nema hefndir verði.

eða eitthvað þannig minnir mig.Maður getur skilið hvað honum fannst hann þyrfti að gera eftir Flugumýrarbrennu.

Nú er okkur sagt að enginn nema ESB geti kannski aflétt af okkur gjaldeyrishöftunum ef við göngum inn í höll konungs sem hirðmenn. Ekki sér maður að ÍSlendingar hafi haft af því langtíma hagnað sem þeir gerðu 1261. En eitt er víst að konungsgarður er víður inngöngu en þröngur útgöngu.

Sagan kennir okkur auðvitað aldrei neitt sem þjóð. Ef við þá erum enn þjóð?


Söguleg stund

í sögu Íslands var þegar Gissur Þorvaldsson kvaddi Hákon konung Fúla í Björgvin um haustið árið 1258.gusurhak

Stýrivexti niður í 1 %

tímabundið til að reyna að kikkstarta höktandi efnahagslífinu. Skylda bankana til að taka við verðtryggðum innlánum til óbundins tíma. Fólk þarf að geta geymt peningana án þess að spekúlera í því að það verði að kaupa eitthvað strax. Vísitölu má finna sem ekki mælir skattahækkanir.

Verðbólgan fer niður við þetta en ekki upp eins og hún gerði stöðugt þegar Seðlabankinn var alltaf að hækka stýrivexti til að elta verðbólguna. Þá streymdu inn jöklabréfin og snjóhengjan myndaðist í og með með gengisbundnu útlánunum. Verkaði bara þveröfugt eins og fyrri daginn.

Hættum tímabundið að elta stöðugt hagsmuni bankanna og lífeyrissjóðanna og þvingum þá í alvöru samkeppni og bönnum samráðið milli þeirra. Bankakerfið er útblásið af vindi og óþarfa. Hér eru miklu fleiri bankastarfsmenn en í USA að sýsla við minni peninga.

Gerum nú eitthvað annað en að hlusta stöðugt á þessa fræðinga alla. Gerum tilraun með lækkun stýrivaxta í einhvern tíma og sjáum hvað skeður.


Erum við Evrópuþjóð?

"Væri ég Íslendingur myndi ég ekki spyrja hvaða slæmu hlutir gætu gerst ef við göngum ekki í Evrópusambandið. Ég myndi spyrja öðruvísi og ekki eins pragmatískt: »Við erum Evrópuland, við deilum gildum með öðrum Evrópuríkjum og viljum veg Evrópu sem mestan. Af hverju leggjum við henni ekki lið, höfum áhrif og tökum þátt?«« svaraði Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, spurningu á opnum fundi í Þjóðmenningarhúsinu í gær.... "

Það er mynd af fundinum þar sem sést að Össur situr við háborðið. Það er enginn mynd framan úr sal til að sjá hversu margir voru á þessum opna fundi.

En stenst fullyrðing mannsins?

Mér finnst við vera Íslendingar fyrst og fremst en ekki innilokaður Eistar undir hrammi rússneska bjarnarins. Við eigum jafnstóra íslenska þjóð í Bandaríkjunum og Canada. Okkar rætur eru miklu alþjóðlegri en Eista og landluktir Evrópumenn.Við erum sjómenn og ferðamenn. Við erum alltaf langt á undan Evrópumönnum að tileinka okkur tækni Ameríkumanna sem flest kemur þaðan. Við erum alþjóðlegir þó við syngjum þýsk lög. Við erum frjáls þjóð.

Þessi sífellda innræting krata og fullveldissala um að við séum einhverjir sérstakir Evrópumenn er ekki við hæfi. Við erum ekkert frekar Evrópuþjóð heldur en íslensk.


Á ég að borga?

fyrir annað eins fíflarí og þetta stjórnlagaráðsfrumvarp?

Á ég engan endurkröfurétt á neinn fyrir ónýta vinnu? Ber enginn ábyrgð á þessari dellu?

Prófessor Sigurður Líndal tekur saman nokkur grundvallaratriði sem augljóslega geta alls ekki gengið í neinni löggjöf, hvað þá sjálfri stjórnarskránni.

Tínum saman nokkur atriði úr upptalningu hans:

1.Hvað það merkir í stjórnarskrártillögunum »mannamálið« að lifa með reisn? Er það væri ekki í samræmi við mannlega reisn að liggja í sjúkrarúmi á göngum?

2.Í 23. grein að allir skuli eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu. Hvað er nákvæmlega heilsa? Gæti þetta ekki ýtt undir kröfur á heilbrigðiskerfið, ef menn teldu sig ekki fá þjónustu í samræmi við þetta ákvæði?

3.Réttur til sannfæringar. Gæti ekki einhver agnúast út í skóla fyrir að kenna eitthvað sem þeim líkar ekki? Til dæmis trúlausir foreldrar sem agnúast út í kristinfræðikennslu? Hvað með kynþáttaskoðanir? Hvað með byssueign?

4.Þingræðisstjórn sett í staðinn fyrir þingbundna stjórn í 1. grein núverandi stjórnarskrár? Á 19. öld þótti þingbundin stjórn m.a. þýða takmarkað neitunarvald konungs. Með þingræðisstjórn er merkingin þrengd mjög mikið. Takmarkar þetta ekki vald Alþingis? Þingræði merkir að hver ríkisstjórn verður að njóta meirihluta stuðnings Alþingis eða hlutleysis en þingbundin stjórn er miklu víðtækara hugtak.

5.Svo er komið að orðinu jafnræði. Í 6. grein stjórnlagafrumvarpsins segir að öll séum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar. Þetta er gott og blessað en það tengist réttlæti og þá verðum við að hafa í huga að réttlætishugtakið er dálítið flókið. Þ.e. jafnaðarréttlæti eða verðleikaréttlæti.

6.14. greinin eer um að stjórnvöld skuli tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Hvernig? Er þetta réttur til skrifstofu, ritara og tölvu?

7.18. greinin um að öllum skuli tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. Af hverju er þetta þarna?

8.Í 22. greininni segir að öllum skuli með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og í 25. greininni er kveðið á um réttinn til sanngjarnra launa. Hvað merkir þetta eiginlega? Gæti launamaður farið til atvinnurekanda og sagst hafa ósanngjörn laun.Geta allir heimtað það? Á eldri borgari rétt á fríu fæði og klæði?

9. 7. greinin um að allir hafi meðfæddan rétt til lífs. Þá byrja deilur um fóstureyðingar, ekki satt? Lögmætar eða ekki?

10. 24. greininni að menntun skuli miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýninni hugsun og vitund um mannréttindi, lýðræðisleg réttindi og skyldur.Á sérkennsla alltaf að innihalda fræðslu um mannréttindi og gagnrýna hugsun?

11.20. greinina þar sem er kveðið á um takmarkanir, þ.e. að ekki megi leysa upp félag með ráðstöfun stjórnvalds. Af hverju má ekki banna um sinn félag sem hefur ólöglegan tilgang? Hvað með Al Queda?

12.Verður ráðherrum breytt í ráðuneytisstjóra?
Stjórnlagaráð leggur til breytingu á hefð sem nær aftur til landshöfðingja
Af hverju má ráðherra ekki sitja á þingi?Allt frá tímum Hannesar Hafstein hafa ráðherrar setið á þingi. Landshöfðingi sat á þingi líka.

13.Í 13. greinin frumvarpsins er vikið að eignarréttinum. Mér finnst algjör óþarfi að fella niður að eignarrétti fylgi skyldur.

14Ljóst er að þjóð getur ekki verið aðili að eða handhafi eignarréttar á auðlindum. Í greininni eru svo felldar burtu allar helstu heimildir eignarréttarins eins og ráðstöfunarréttur, skuldfestingarréttur og aðrar heimildir takmarkaðar, svo sem umráðaréttur eða hagnýtingarréttur. Ákvæðið verður mótsagnakennt.

15.Í 86. grein frumvarpsins segir að ráðherrar séu æðstu handhafar framkvæmdavalds hver á sínu sviði. Forsetinn er hvergi nefndur þar.

Þessir punktar sýna að þetta er gersamlega óbrúkanlegt plagg. Illa unnið og illa hugsað. ´

Ég mótmæli því að skattfé sé notað til að borga fyrir svona lélegt verk. Þetta stjórnlagaráðslið getur ekki tekið peninga fyrir að skila slíku handóýtu plaggi. Það á að endurgreiða eða endurbæta.

Til viðbótar mótmæli ég því að dýrum tíma Alþingis sé eytt í umræður um svo ónýtt plagg, þegar hver meðalsnotur maður getur séð eftir samantekt Sigurðar Líndal að textinn er óbrúklegur með öllu þar sem hvert rekur sig á annar horn. Slíkt gengur ekki í stjórnarskrá sem á að vera grundvöllur allra laga og mannréttinda.

Enginn ráðuneytisstjóri né ráðuneyti myndi nokkru sinni hafa sent frá sér svona illa unnið lagafrumvarp. Þetta er algerlega óbrúkleg samsuða amatöra í stjórnskipun sem hafa ekki haft neina grundvallarþekkingu til að bera í lagasmíði. Fyrir utan áberandi skort á heilbrigðri skynsemi.

Ég vil ekki borga fyrir svona fíflarí.Ég vil fá endurgreitt.


1% stýrivextir

eftir að

"Peningastefnunefnd Seðlabanka Svíþjóðar lækkaði stýrivexti bankans um 0,25 prósentur í dag og eru þeir nú 1%. Ástæðan er minni hagvöxtur á evrusvæðinu. Er lækkunin í takt við væntingar markaðarins. Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar kemur fram að samdrátturinn á evru-svæðinu hafi greinileg áhrif á efnahag Svíþjóðar og að útflutningstekjur hafi dregist saman. Það sem af er ári hafa þó nokkur fyrirtæki sem skráð eru á markað í Svíþjóð tilkynnt um að þau ætli eða hafi sagt upp fólki vegna samdráttar.
Seðlabanki Svíþjóðar lækkaði einnig verðbólguspá sína fyrir næsta ár, úr 0,7% í 0,3%. Svíþjóð er í Evrópusambandinu en í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2003 hafnaði þjóðin inngöngu í evru-svæðið. Í síðustu viku lækkaði Seðlabanki Finnlands hagvaxtarspá fyrir næsta ár og það gerði danski Seðlabankinn einnig í síðustu viku."

Svo sagði í Mogga.

Það er ein meginástæða fyrir því að stýrivextir eru svona háir á Íslandi. Það er vegna ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna sem er meiri en 3.5 %. Öll yfirbyggingin kemur þar ofan á.

Nú hafa málsmetandi menn velt því fyrir sér hvort vextir á Íslandi þurfi að vera háir vegna krónunnar? Enginn hefur fundið neina skothelda ástæðu til þess. Innlánsvextir bankasamráðsins eru núna neikvæðir, það er peningar sem lagðir eru inn í banka brenna upp í verðbólgunni. Það er það vaxtastig sem alltaf hefur verið talið eðlilegt í Þýskalandi frá því að ég man eftir mér. Neikvæðir innlánsvextir en stighækkandi útlánsvextir og brjálaðir dráttarvextir. Og vextir greiddir af skuld fyrirfram með peningum en aldrei lagðir ofan á höfuðstól.

Svona er það líka í Þýskalandi um þessar mundir. Ég talaði við vin minn í Göppingen um daginn. Hann sagði nóg að gera í teikningabransanum. Útlansvextir væru mjög lágir núna svo fólk tæki lán til að kaupa steypu. Það væri nóg atvinna og ró á vinnumarkaði. Enginn væri að rugga bátnum. Þjóðfélagið gengi vel og skipulega. Engir hópar hefðu dregist svo afturúr að þeir væru að biðja um leiðréttingar á þessu svæði. Það gæti verið að það væri verra fyrir norðan, en hann fylgdist ekki svo með því meðan honum liði vel og Frakkar reistu kjarnorkuver á landamærunum til að sjá þeim fyrir straum og Rússar sköffuðu gasið. Merkel reisti bara vindmyllur til grænnar orkuöflunar.

Heimskan og bullið sem hér ræður ríkjum er hinsvegar svo að okkur Íslendingum eru allar bjargir bannaðar. Við erum með Seðlabanka sem heldur genginu í skrúfstykki svo að ofsagróði er í útflutningi. Þá finnst valdamönnum(sérstaklega þessum með svona nokkur hundruð atkvæði á bak við sig)að það sé lag að leggja skatt á gróðann og festa kvótann í stjórnarskrársessi til næstu áratuga. En pína alþýðuna áfram með sköttum, bensíngjöldum og skipulögðu okri á innfluttum vörum.

Skattleggja og eyða. Þetta manifesto stjórnlyndisins öðru nafni félagshyggjunnar og sósíalismans, leikur hér lausum hala.

Hér er hægt að lækka stýrivextiniður í 1 %. Lífeyrissjóðirnir geta haft sína ávöxtunarkröfu eins og þeim sýnist. Hér er hægt að bjóða upp á mínusvexti og verðtryggingu í þeim hlutföllum sem mönnum dettur í hug. En samtrygging bankanna og afleitt samsæri þeirra gegn almenningi hefur engann áhuga fyrir neinu öðru en óbreyttu ástandi. Það og fleira bíður nýrrar ríkisstjórnar eins og Gylfi segir.

Seðlabankinn stýrir vöxtunum en hefur aldrei getað stýrt verðbólgunni. Hitastillirinn hjá honum er eins og hitastillir á gamla geislahitanum, virkaði aldrei á neðri hæðinni nema of heitt yrði á efri hæðinni. Og vonlaust að kæla neitt fyrr en allir voru flúnir út.

Og svo eins og kallinn sagði Pretero cenceo Carthaginem esse delendam. Sem þýðir auðvitað nýtt Alþingi sem fyrst.

1 % stýrivextir á morgun er það sem þjóðin þarf til að reyna að örva atvinnulífið.


Hvernig reiknast síldin?

í Kolgrafarfirði inn í kvóta næsta árs?

Ég les á bloggi Jóns "fisks" Kristjánssonar að þarna hafi verið megnið af síldarstofninum samankominn. Hvað er hún að vilja þarna? Til þess að fremja sjálfsmorð spyr maður sig?

Hafró er búin að setja vísindalega kvóta á þá fiska og síldar sem má drepa svo að stofnarnir haldi sér. Hversu mörg tonn af síld fara þarna forgörðum óveidd?

Ef maður horfir á myndir kafarans, þá gæti maður giskað á að sé svona eitt lag á botninum á 10 km2 svæði þarna við og útifyrir Kolgrafarfirði og 20 síldar liggi á fermetra og vigti hálft pund hver þá eru þetta einhverjar 200 milljón síldar upp á 100 milljón pund eða 50 000 tonn. Hvað hefði þetta magn gefið í tekjur ef það hefði verið veitt? En það var ekki veitt því það átti að friða það.

Eru vísindin okkar svo klár að við getum reiknað okkur hagnað út úr því að geyma fisk í sjónum fremur en að veiða hann þegar gefur? Er svona mikil hætta á ofveiði yfirleitt? Eða helst verðið á kvótanum betur uppi með nægum takmörkunum? Veðið má ekki rýrna í bankanum.

Ef veitt er í óhófi og framboðið minnkar hættir þetta þá ekki sjálfkrafa að borga sig? Hvernig á að reikna svona atburði inn í módelin? Hvað ef þorskurinn syndir út fyrir landhelgina okkar? Hvað er þessi makríll að vilja hingað. Veit hann ekki að ESB á hann?

Verður ekki að skera síldveiðar myndarlega niður á næsta ári til þess að viðhafa ábyrga fiskveiðistjórn?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 62
  • Frá upphafi: 3418156

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband