Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Er þetta boðlegt?

Alþingi hefur í vizku sinni ákveðið með meirihluta atkvæða að leggja eftirtaldar spurningar í þjóðaratkvæði:

1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Hvernig getur almennur kjósandi svarað svona spurningu með já eða nei? Þó að við gerum ráð fyrir að hvann hafi lesið allan textann í þaula og sé samþykkur einu en andvígur öðru, hvernig getur hann svarað með já eða nei?

2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?


Nei

Hvað er náttúruauðlind sem er ekki í þjóðareign? Er það eldgos í Heimaey? Hver á gosefnin og hitann? Er það stormurinn á Stórhöfða? Er ekki vindorka auðlind sem sumir nota en veldur öðrum tjóni? Eigum við rafmagnið frá vinmyllunum í Hollandi af því að lægðin kemur héðan? Á þá Evrópusambandið makrílinn ef hann kemur þaðan? Er fiskurinn í sjónum eða laxinn í ánni í veðsetjanlegri einkaeign? Skiptir máli hvar syndandi fiskur er staddur þegar hann veiðist?

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?


Nei

Hvernig á ákvæðið að hljóða ef svarið er já? Skal vera engin þjóðkirkja á Íslandi? Á núverandi ákvæði að gilda áfram? Eða á önnur kirkja en núverandi að taka við? Veit kjósandi örugglega hvernig ákvæðið hljóðar múna?

4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?


Nei

Hverskonar persónukjör er átt við? Skal vægi útstrikana breytast ef núverandi kerfi telst persónukjör? Eða er ætlunin að breyta öllu kosningakerfinu? Og þá hvernig?

5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?


Nei

Líklega er þetta eina spurningin sem rökfræðilega er hægtað svara með já eða nei. En hvernig verður já-framkvæmt? Þyrftu menn ekki að vita neitt um þau áform áður en þeir segja já?

6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?


Nei

Hvað er tiltekið hlutfall? "Hversu mjúkt er mjúkt?" spurði Guðmundur Einarsson verkfræðingur Bandaríki Norður-Ameríku. Því er enn ósvarað eftir því sem ég best veit.

Finnst fólki það auka veg og virðingu Alþingis að setja fram svona ógrundaðar spurningar og leggja þær fram í hundruð milljóna króna þjóðaratkvæðagreiðslu? Verður þetta höfuðarfleifð Hreyfingarinnar í íslenskum stjórnmálum?

Er það rétt af fólki að mæta til þessa atburðar ef því finnst sér misboðið með spurningunum?

Er þetta boðlegt af Alþingi Íslendinga? Eða bara mátulegt?


Hannes Hólmsteinn

kemst nálægt því nú síðast að skrifa af auðmýkt eins og mitt hjarta slær.

Hannes segir m.a.:

"Sjálfur hef ég haft tvíræða afstöðu til Evrópusambandsins. Mér finnst það æskilegt, ef það verður opinn markaður, þar sem menn geta skipst á vöru og þjónustu yfir landamæri í frjálsri samkeppni. Mér finnst sambandið hins vegar óæskilegt, ef það verður lokað ríki, girt tollmúrum, virkið Evrópa. Það er mér fagnaðarefni, ef Þjóðverjar og Frakkar hafa slíðrað sverðin eftir margra áratuga stríð og mannfórnir. Það er mér áhyggjuefni, ef Þjóðverjar og Frakkar ætla sér að drottna yfir smáþjóðunum í Evrópu.

Hvort mun Evrópusambandið breytast í ríkjasamband, þar sem samstarfið takmarkast við það, sem er öllum í hag, eða sambandsríki, sem hyggst veita Bandaríkjunum og Kínaveldi samkeppni um það, hvert sé aðsópsmesta stórveldið?

Draumar hafa þrjá eiginleika. Þeir geta ræst. Við getum vaknað af þeim. Þeir geta breyst í martraðir. Vonandi rætist draumurinn um opinn Evrópumarkað. Við verðum hins vegar að vakna af draumnum um, að við skiptum einhverju máli í Evrópusambandinu, og hyggja heldur að eigin málum. Og vonandi breytist draumurinn um Evrópustórveldið ekki í martröð...."

Ég er um margt af þessu sammála. Til dæmis um hvernig maður hefur sveiflast í afstöðunni til ESB. Ég viðurkenni fúslega að ég kom út ESB sinni af fundi með Uffe Elleman Jensen á Hótel Sögu fyrir margt löngu. Mér fannst hann svo langtum klárari en okkar sveitamenn í pólitík. Árin liðu, og maður ergist eins og hver sem eldist. Maður fer að spekúlera af hverju hlutirnir séu svona og hversvegna ekki eins og maður vill. Ég hef farið hringi og hringi en hef stöðvast lengst í þeim siðasta. Og það er merkilega ekki vegna dýpri skyggningar á Evrópusögu heldur vegna meiri kynna minna af Bandaríkjamönnum, sem þó eru yfirborðsleg.

Ég er orðinn sannfærður um að ESB breytist aldrei í ríkjasamband sem keppi við Bandaríkin, a.m.k. þau Bandaríki sem ég þekkti um mína daga sem brátt eru úti. Þar stendur þjóðerniskenndin sem ljón á vegi. Þjóðerniskenndin kemur í veg fyrir það að Íslendingar muni í bráð líta á sig sem einhverja Evrópumenn fremur en íslenska sveitamenn hvað þá fjölmemningarlega modernista í einhverju risavöxnu ríkjasambandi. Þjóðerniskenndina hef ég hvergi fundið sterkari en í Bandaríkjum Norður Ameríku, þó vissulega felist ekki í því neitt vanmat á Canada í norðrinu en Suður-Ameríku og Mexico hef ég aldrei augum litið og get því ekki dæmt um hvernig þær þjóðir líta á málin.

Af lengjandi dvölum mínum í Bandaríkjunum finnst mér ég skynja þá djúpu þjóðernisvitund sem þeir eiga gagnvart fánanum sínum og þjóðarsögu. Það stórveldisstolt sem þeir eiga sameiginlegt. Mér finnst beinlinis fallegt hvernig þeir hafa fánann í skólastofum og opinberum byggingum. Fáninn er samnefnarinn mikli sem allir eiga sameiginlega. Mér finnst þessi kennd dýpri en ég finn meðal góðvina minna til áratuga í Þýskalandi, sem muna fleiri flögg en þetta núverandi. Þeir eru flestir einlægir ESB sinnar. En af allt öðrum ástæðum en við erum að ræða hér uppi á Íslandi. Þeir skynja að Bandaríkin eru stór, jafnvel stundum stórt barn sem ekki má vanmeta. En þá stórt barn með stórt hjarta sem er jafnframt óendanlega máttugt en stundum nægilega víst innst inni til að sjá í gegn um vefara keisaranna.

Stóru stríðin og allt sem þeim fylgdi fyrir Þýskaland eru djúpt greypt í þjóðarvitund Þjóðverja og gefur þeim um margt aðra sýn en við höfum. Dauðans alvara ósigranna er önnur en okkar sem hugsanlega græddu eihverja peninga á öllu saman þrátt fyrir hörmungarnar sem vissulega voru miklar. Við misstum fleiri menn en Bandaríkin hlutfallslega í seinna stríðinu.

Þjóðir Evrópu eiga svo mikið hvorri annarri grátt að gjalda að þar er erfitt að stofna til hjúskapar eins og ráðgert var með Evrunni. Allavega á forsendum Stór-Þýskalands og þar áður Napoleons mikla, sem hafði fyrstu draumsýnirnar um sameiginlega mynt Evrópu.

Þar liggur mein Evrópuhugsjónarinnar. Við sáum í Bosníustríðinu að gamlar undir geta blætt og grátið þó mannsaldrar hafi liðið hjá. Sár borgarastyrjaldarinnar í Bandaríkjunum eru heldur ekki fullgróin. En þeir gera sitt besta til að lifa með þeim. Bretar eru enn varfærnir vegna gamals óvinskapar við Frakkland Napóleons. Minni þeirra er jafnvel enn lengra en það þar sem enn skiptir máli á Englandi hvort þú ert hvít eða rauð rós. Líklega eru þeir innst inni enn hræddari við Frakkland en Þýskaland ef grannt er skoðað. Bandaríkin eru þessvegna allt öðruvísi en Evrópa. Án þess að ég viti nærri nóg um þetta flókna samspil þjóðernis, landa og lýða sem í öllu þessu birtist.

Ég bý við hið yzta haf og sé ekki lengra fram á veginn en að ég muni hlusta á brimgnýinn ef einverjir verða ekki búnir að kaupa hann frá mér eða hirða hann eins og kvótann sem Hannes Hómsteinn þekkir allra manna best.

Ég þakka Hannesi Hólmsteini fyrir þessu einörðu skrif um málið mikla sem þjakar þreyttar sálir á Íslandi þessa dagana.

t.


Mörður svarar 8000 manns !

sem setja fram vantraust á ríkisstjórnina.

"Ágætu vantreystendur

Sjálfsagt að svara spurningu ykkar. Svarið er að ég ver núverandi ríkisstjórn vantrausti í þeirri stöðu sem þið búið til.

Ríkisstjórnin hefur unnið afrek við að koma íslensku samfélagi upp úr öldudalnum eftir hrun en á enn óunnið verk í þeim efnum. Að auki eru nú á dagskrá stórmál sem ekki verður séð að önnur tiltæk pólitísk öfl hafi nokkurn hug á að ráðast í, svo sem: Skynsamleg fiskveiðistjórn í anda jafnræðis og í samræmi við þjóðareign sjávarauðlindarinnar, og áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem gæti gjörbreytt stöðu og viðhorfum í sex áratuga hörðum átökum um virkjanir og nátttúruverðmæti.

Síðast en ekki síst er svo umsóknin um aðild að Evrópusambandinu. Aðild færir okkur traustan gjaldmiðil, og skapar grunn undir jafnvægi og framfarir í efnahags- og atvinnumálum, velferð og menntum. Við núverandi aðstæður verður viðræðum við Evrópusambandið ekki haldið áfram nema með fulltingi þess þingmeirihluta sem styður aðildarumsóknina... – en þjóðin öll tekur svo afstöðu til aðildar að loknum samningum. Að þessu samanlögðu er eðlilegt að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið. Því lýkur í apríl næstkomandi.
Mörður Árnason

PS: Ég hef engan rökstuðning séð fyrir tillögu ykkar um að ríkisstjórnin fari frá og gengið sé til kosninga. Gætuð þið sent mér slík rök?"

Þá hafa menn skoðað inn í heilabúið á þessum stjórnarþingmanni. Þjóðin virðist sammála Merði þar sem aðeins 8000 manns hafa nú skrifað undir áskorunina. Það er því lítil von að hægt verði að flagga mikið með þessa áskoun. Þjóðin virðist ekki sjá tilganginn og stjórnin situr þessvegna áfram.

Og svo væru fólk eins og Mörður, hvað þá hún Jóhanna sjálf,staðráðið í að hafa hvern þann erkibiskupsboðskap að engu sem styttir meintar þjáningar vantreystenda.

"Því fer sem fer" eins og Stuðmenn sungu.

Mörður hefur svarað 8000 manns.80.000 manns myndu varla duga til að laga til í hausnum á honum.


Orðið frjálst !

er inntak leiðara Morgunblaðsins í dag.

Þar er fjallað um gildi upplýsingarinnar og umræðunnar fyrir þjóðfélagið. Höfundur veltir stöðu þessara mála á Íslandi fyrir sér og lemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir allt stöndum við betur en margir aðrir.Höfundur segir m.a.:

"Það hefur verið einn af helstu kostum íslenskrar blaðaútgáfu að almenningur hefur átt þar góðan aðgang og getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Þeir, sem reynt hafa að koma greinum sínum inn í blöð í nágrannalöndunum, vita að slíkt er þrautaganga, sem sjaldan ber árangur. Fastráðnir blaðamenn eða blaðamenn á sérstökum samningum og fastir pistlahöfundar sjá nánast alfarið um öll skrif sem þar ganga á prent. Undantekningarnar eru ein og ein grein eftir þjóðþekkta menn sem viðkomandi blað telur sérstakan akk í að birta.

Ríkisútvarpið, sem er í »þjóðareign«, eins og Litla-Hraun og fiskimiðin, gefur eiganda sínum ekki sjálfsagðan aðgang að hljóðnemum sínum nema eftir sérstöku einhæfu vali, og stundar áróður sinn eins og sú »þjóðareign« sé alls ekki til staðar. Sérstök ákvörðun var tekin þar á bæ að fella orðið »ríkis« burt úr allri umfjöllun um stofnunina og nú er hún undantekningarlaust nefnd »RÚV« af öllum starfsmönnum sem þar eru vistaðir. En ríki og ríkiseign er þó hið lögvarða heiti yfir »sameign þjóðar«, en það hugtak hefur raunar enga afmarkaða merkingu að lögum.
Skatturinn sem fólk er lögþvingað til að greiða til stofnunarinnar er kallaður »þjónustugjald« en ekki skattur og ætti því helst að greiðast af Samfylkingunni sérstaklega, eigi að taka það hugtak bókstaflega.

Þótt dagblöðum hafi fækkað síðustu áratugina og þrengst hafi um þau blöð sem eru á markaði, eru þau enn mikilvægasti vettvangur almennings til umræðu, þótt settar hafi verið nokkrar skorður á lengd birts texta. Knappari texti þarf ekki að draga úr gildi greina og oftast er boðið upp á að lengri útgáfa sé birt á netmiðli blaðsins þyki mönnum mikið liggja við að allt efni frá þeim fái birtingu.

Netið er að verða sífellt virkari kostur fyrir fólk til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þótt margt sé óheflað og jafnvel ógeðfellt í bloggheimum dæmir hið versta sig smám saman úr leik og annað sem þar birtist er um margt upplýsandi og fróðlegt og til fyrirmyndar. .."

Þetta eru athyglisverðar hugleiðingar. Þeir sem búið hafa erlendis geta tekið undir þetta. Í gömlu Evrópu var nánast útilokað fyrir manninn á götunni að koma sínum sjónarmiðum fram fyrir daga Netsins. Menn geta séð hvaða aðferðum Adolf Hitler varð að beita til að berjast fyrir sínum skoðunum í algerlega fjandsamlegu umhverfi fjölmiðlunar. Því miður tókst ekki að þagga hann þó reynt væri.

Á móti kemur þar að erlendir blaða-og fréttamenn hafa yfirleitt nokkra yfirburði yfir venjulega íslennska kollega sína í þekkingu og ráðamenn sleppa oft ekki eins ódýrt og hér er venjan.

Hér er ástandið samt mun opnara. Morgunblaðið, Útvarp Saga, ÍNN, DV gera sitt til að opna fyrir skoðanir fólks. Samt er ástæða til að velta því fyrir sér hvaða ástand muni skapast verði áframhald á blaðadauðanum eins og þróunin virðist vera í heiminum.

Hvar værum við stödd á Íslandi ef menn gætu ekki komið greinum fyrir almenningssjónir eins og þær tvær greinar sem leiðarahöfundur vitnar til í Morgublaði gærdagsins. Fullyrða má að önnur þeirra greina ef ekkki báðar myndu hvergi hafa ratað í gegn umm þær ritskoðanir sem ríkir víða annarsstaðar. Þó Netið sé hinn nýji miðill sem ekki lætur eins auveldlega að stjórn, þá er orðið ekki allsstaðar frjálst.


7395 Undirskriftir á miðnætti!

er alltof lítið. Á þetta virkilega að mistakast?

Hvað er þessi þjóð að hugsa? Skilur hún ekki að hver dagur sem Þjórsá rennur óvirkjuð um Hvamm og Urriðafoss er dýr? Hvernig væri staðan ef við værum núna árið 2012 að byrja á Búrfellsvirkjun í stað 1964?

Tíminn er dýrmætur. Það liggur á! Fólkið er að flýja land í unnvörpum. Er okkur bara sama? Maður skilur sjávarútvegsfólkið og kvótagreifana sem hafa það fínt í gjaldeyrishöftunum.

En landfólkið er statt í miðri kreppu!


Á Björn kollgátuna?

um tilgang uppgjafarinnar um þjóðaratkvæði um ESB?
Björn segir:

"Það voru taktísk mistök að gera tillögum ríkisstjórnarinnar og Hreyfingarinnar um spurningaleik í formi þjóðaratkvæðagreiðslu svo hátt undir höfði að ætla að leggja ESB-viðræðurnar og framtíð þeirra í það púkk. Hefði tillaga Vigdísar Hauksdóttur hlotið samþykki hefðu átök vegna hennar dregið alltof mikla athygli að þessum bjálfalega spurningaleik..."

Voru okkar menn þá djúpvitrir eftir allt?

Hinsvegar skil ég enn ekki hvað þeir fengu fyrir? Björn getur þess ekki heldur þó líklega eigi hann kollgátuna.


7121. Verður þetta traustsyfirlýsing?

við ríkisstjórnina? Gangurinn er ekki meiri en þetta á 1.sólarhring. Hvernig gekk Icesave í samanburði?

Ef þetta nær ekki flugi hjá stelpunum, segir það manni þá að fólk telji að stjórnarandstaðan sé svo léleg að henni sé ekki treyst til að breyta neinu afgerandi fyrir þessa þjóð þó hún taki við tvíefld eftir kosningar?

Er eitthvað verulegt að hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkunum sem þeir sjá ekki ? Álítur fólk þá ekki hótinu skárri en hinir?

Er fólk þá ekki eftir allt svo óánægt með Jóhönnu og Steingrím?

Hjálpi mér þá allir heilagir !


Fær Stjórnarandstaðan eitthvað?

fyrir að gefast upp í stjórnlagaráðsbullinu? Eða liggur henni bara svona á í golfið?

Hver er díllinn? Hvað fær Saari? Fær stjórnarandstaðan virkilega ekki neitt?


3.9 á mínútu !

á www.kjosendur.is síðan 13:20 til 17:00. Alls eru þá 6075 búnir að skora á Jóhönnu SIgurðardóttir að segja af sér, rjúfa þing og boða til kosninga. Betur má ef duga skal!

Herðum sóknina !


5.3 á mínútu núna! Áfram!

kl.13.05 til 13.15 slaknaði á straumnum. Nú þarf að spýta í og taka áðí!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband