Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Hvernig urðu jöklabréfin ríkiskuldir

Íslendinga þegar það voru gömlu glæpamannabankarnir þrír sem söfnuðu þeim? Þessar spurningar vöknuðu við að hlusta á Illuga Gunnarsson og Yngva Örn á ÍNN í kvöld.

Skeði þetta allt þegar Geir Haarde lýsti því yfir, í algerri nauðvörn í myrkrinu svarta(og algeru heimildarleysi líka), sem Pétur Blöndal básúnaði svo út um heimsbyggðina, að íslenska ríkið ábyrgðist öll innlán og sparifé á Íslandi? Var þetta fært svo yfir á útlendar krónueignir í bönkunum sem nú eru uppspretta gjaldeyrishaftanna okkar?

Var þetta virkilega það eina í stöðunni? Getum við engan leik tekið upp aftur og nú með fyllstu hörku? Segjum eigendunum að því miður séu bankarnir gjaldþrota. Allar innistæður séu tapaðar. Íslenska ríkið muni aðeins bæta íslenskum þegnum innlán sín. Basta. Tekið bankana af útlendu vogunarsjóðunum með hörku? Lokum þeim með pennastriki ef þörf krefur. Komumst við ekki alveg af án þeirra allra?

Hversvegna voru jöklabréfin ekki látin rúlla strax með gömlu bönkunum? Voru þau ekki bara innistæður hjá þeim? Varla voru þau á einhverjum sérstökum innlánsreikningum í Seðlabanka og þar með ríkistryggð? Voru þau ekki bara hver önnur innlán í bönkunum sem áttu bara að tapast þegar þeir rúlluðu?

Gat ekki íslenska ríkið ákveðið öðruvísi að bæta innlendum almenningi sparifé sitt í þessum þremur glæpamannabönkunum þó þeir létu eignir og skuldir útlendingana rúlla? Voru ekki bankarnir búnir að vinna gegn hagstjórn yfirvalda með taumlausum innflutningi erlendra krónuinnistæðna og grafa þannig undan baráttu Seðlabankans við þensluna? Höfðu þeir ekki þannig stundað landráð í beinum skilningi?

Og beit svo ekki afglapinn Steingrímur J. höfuðið af skömminni með því að gefa vogunarsjóðunum þrotabúin með öllum innistæðunum? Þessa sömu vogunarsjóðabanka sem nú ofsækja íslensk heimili með fyllstu innheimtuhörku? Munu íslenskar puntudúkkur nægja til að breiða yfir eðli þessara banka? Verða þeir ekki bara illfygli og blóðsugur í hugum margra Íslendinga hvað sem auglýsingarnar segja?

Er snjóhengjan sjálfskaparvíti vanstjórnunar og ráðleysis íslenskra stjórnmálamanna sem gerðu jöklabréfin að þjóðarskuldum? Gjaldeyrishöftin sem afleiðing af ræfildómnum verði hér um ótal ókomin ár?

Ég er svartsýnn á framhaldið þegar við hugsum um heildardæmið og hrikalega stærð vandans. Núveramdi stefna drepur okkur sem þjóð. Við verðum að brjótast út úr herkvínni. En til þess þarf forystumenn. Hvar er þá að finna?

Ég fæddist í þennan heim ófrjáls í gjaldeyrishöftum. Ég mun líklega deyja ófrjáls í gjaldeyrishöftum þó ég verði mjög gamall.


Getur það verið?

að við fáum sömu eða svipaða stjórn aftur eftir næstu kosningar?

Ef við horfum á Holland þá gerðist þetta þar.

Ef við hlustum grannt á Sigmund Davíð í eldhúsdagsumræðunum, þá læðist að manni grunur um að ekki sé allt sem sýnist í stjórnmálahugsun landsmanna. Steingrímur gæti hafa talað af einhverjum skilningi sem okkur Sjálfstæðismönnum er hulinn. Fólkið treystir ekki flokknum til að hafa fundið fjölina sína eins og Steingrímur orðaði það. Og mikið skratti talaði kallinn nú glæsilega, það má hann eiga(sko, ég er farinn að leffla fyrir honum strax !)

Líklega verða kosningarnar ekki eins afgerandi ósigur fyrir ríkisstjórnarflokkana okkar eins og margir eru búnir að tala sig uppí. Það eru teikn á lofti um hið gagnstæða.

Getur það verið?


Þörf grein um skuldavandann

eftir Pétur fasteignasala í Florida er í Morgunblaðinu í dag.

Hin opinberi fréttaflutningur frá Bandaríkjunum hérlendis er sá að þar sé fólkið kúgað af auðvaldinu og ekkert sé gert af opinberri hálfu til að hjálpa fólki. Grein Péturs fer skilmerkilega yfir þau atriði sem snúa að heimilum í USA sem eru í svipuðum vandamálum og íslensk heimili. Ég hvet fólk til að lesa grein Péturs.

Sjálfur staðnæmdist ég við við atriði sem eru of svipuðum toga og lyklafrumvörpin voru. En þau hafa verið stöðvuð af harðsnúnum hópi fjármálamanna og stjórnmálamanna sem mæla fagurt við kosningar en hyggja flátt.

Grípum niður í grein Péturs:

".... Viðmiðið er að ef kostnaður við fasteignina er hærri en 31% af tekjum heimilisins þá á viðkomandi heimili við fjárhagslegt harðræði að stríða...

,,,Hver lánaflokkur hefur sína leið að markmiðinu, sem er það sama hjá öllum: að komast hjá nauðungarsölu....

... Þó það sé bannað að taka við greiðslu frá fólki sem er í fjárhagsvanda þá er það stór atvinnugrein að aðstoða fólk við lausn á fjárhagsvandamálum...(íslenskar lögfræðistofur mitt innskot)..

....Ef lántakinn er með lán tryggt af VA(fyrir hermenn) þá er best fyrir hann að byrja á því að tala við lögfræðiþjónustu hersins, þar sem þeir aðstoða lántakann við að skipuleggja pappíra skrifa bréf sem útskýrir vandamálið og leiða hann í gegnum kerfið. Ef ekki tekst að breyta og hagræða láninu þá er lántakanum boðið að selja húsið á markaðsvirði (hjá VA kallast það »Compromised Sale« eða málamiðlunarsala) og síðan eru eftirstöðvar lánsins látnar falla niður....

Þegar FHA ábyrgist lánið,... þá þarf lántakinn að byrja á því að tala við fjármálaráðgjafa .... Ef þetta virkar ekki af einhverjum ástæðum þá getur lántakinn selt eignina á markaðsvirði og eftirstöðvar lánsins felldar niður.

Þá er komið að almennu lánunum og ef við byrjum á GSE eða alríkistryggðum lánum þá hafa Fannie Mae og Freddy Mac (innskot: stærstu tryggingafyrirtæki lána, með um 75-80% markaðshlutdeild, í eigu alríkisins í dag) þróað kerfi sem kallað er HAMP (Home Affordable Modification Program), mætti kalla á íslensku »Að hafa efni á, lánabreytingar heimilisins«. Markmið þessa kerfis er eins og nefnt hefur verið að ofan, að koma í veg fyrir nauðungarsölu heimilisins.

....Ef HAMP virkar ekki fyrir lántakandann þá er honum heimilt að selja eignina í skortsölu (Short Sale) og eru eftirstöðvarnar gefnar eftir, ásamt því að lántakandinn fær að lágmarki 366.630 kr til þess að aðstoða hann við flutning úr húsinu....
Þessar lausnir eru ætlaðar þeim sem nýta eignina sem lögheimili þ.e. búa í eigninni, fjárfestar fá stundum sömu aðstoð en það er engin trygging fyrir því."

Takið eftir því, að þarna í þessu vonda landi "nýfrjálshyggjunnar" er boðið
upp á endir mála, niðurfellingu eftirstöðva og hreint borð fyrir heimilið til að byrja uppá nýtt.

Hérna? Fyrr frýs í helvíti en að lántakandi sleppi þegar hann verður gjaldþrota og missir heimilið. Ekkert annað hlýtur náð fyrir hinum íslenska stjórnmála-fjármálaflóka( Political-Financial Complex, (PFC í anda Eisenhowers sem skilgreindi the Military-Industrial Complex sem nokkurskonar verkfæri djöfulsins 1961).

Grein Péturs um skuldavandann er þörf lesning fyrir okkur sem getum ekki gert upp við okkur hvort við höldum með bankanum eða barninu.Við veljum hinsvegar alltaf bankann af einhverjum ástæðum nema í ræðum fyrir kosningar.


Ekki voru þær rismiklar

réttardagaumræðurnar.

Ömurlegt var að hlusta á forsætisráðherra landsins grenja yfir að stjórnarandstaðan léti sig ekki i friði og nauðsyn væri að hún færi að vinna með sér að hennar góðu málum.

Hún sleppti auðvitað algerlega eina máli flokksins síns, að koma Íslendingum í hernaðarbandalagið ESB. Líklega hafði hún ekki heyrt um refsiaðgerðir þessa ágæta sambands gegn Íslendingum sem samþykktar voru þennan sama dag þannig að það kom ekki inn í stílinn sem hún las upp fyrir þing og þjóð og hefur því greinilega verið saminn daginn áður en það kom til.

Og ekki stóð á henni að fjölga störfum enn á ný: "Á þessu ári hafa orðið til um 4.600 ný störf og ekkert bendir til annars en að framhald verði á lífskjarasókn Íslendinga á komandi árum, ef áfram verður haldið á sömu braut,".. Hugsanlega má finna eitthvað af þessum í Noregi gangi mönnum það illa hérlendis.

Svo fimbulfambaði hún að vanda um tillögur stjórnlagaráðs sem brýna nauðsyn bæri til að samþykkja í skoðankönnuninni hinn 20 október. Það mál yrðu allir að samþykkja.

Og svo kom allsherjarmálaráðherrann og taldi það bestu fyrir áframhald björgunaraðgerða sinna á þjóðarhag sem væru um það bil að takast, að Sjálfstæðisflokkurinn yrði sendur afgerandi í eyðimörkina í kosningunum.

Svo vogaði hann sér að segja eftir 90 milljarða hallarekstur sjálfs síns á ríkissjóði á síðasta ári: "Gengið hefur mun betur hér að koma böndum á hallarekstur ríkisins og auka hagvöxt en í öðrum ríkjum sem glímdu við efnahagserfiðleika." Við lok ræðu sinnar kallaði hann eftir því að aðrir flokkar sameinuðust um að gefa Sjálfstæðisflokknum frí frá landstjórninni í það minnsta eitt kjörtímabil í viðbót.Enda væri sá flokkur aðstjórna Bretlandi um þessar mundir þar sem allt væri í klessu.

Annað hvort er þessi maður svo vitlaus að hann veit ekki betur eða svo ósvífinn að ljúga upp í opið geðið á tilheyrendum um það að allt væri að komast í stakasta lag. Þannig yrði best fullkomnað þetta mikla verk sitt ef kjósendur í vor myndu hjálpa Sjálfstæðisflokknum til að finna fjölina sína næstu fjögur ár.

Steingrímur sleppti því líka eins og Jóhanna að ræða um sérstakt áhugamál sitt að ganga í ESB og taka upp Evru. Makríllinn og refsiaðgerðir ESB voru ekki á dagskránni hjá honum frekar en Svavarssamningurinn um Icesave sem væri búinn að kosta þjóðina 150 milljarða í vöxtum þá þegar án þess að komið væri að höfuðstólnum hefði þessi sami Steingrímur fengið vilja sínum framgengt.Svo grenjaði hann undan stjórnarandstöðunni eins og Jóhanna: "Hróp að okkur sem tókum við þrotabúinu og höfum gert húsið allsæmilega íbúðarhæft á nýjan leik er engin manndómsprufa."

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins flutti skörulega ræðu og flutti áberandi best ræðumanna. Hann sagði m.a. :

"Neyðarlögin og samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn voru mikið gæfuspor, - gæfuspor sem stigið var án stuðnings Vinstri grænna. Á það þarf nefnilega að minna, þegar fjármálaráðherrann fyrrverandi, núverandi atvinnuvegaráðherra, talar um hetjulegt björgunarstarf sitt við að draga landið frá brún gjaldþrots. Það þarf að minna á, að það sem hefur haft mest um það að segja, að færa Ísland hraðar í átt til efnahagslegs bata en ýmis samanburðarríki, eru verk fyrri ríkisstjórnar..."

Um aðildarviðræðurnar við ESB sagði Bjarni:

"Í þessum deilum okkar við ESB kristallast sú staðreynd að við eigum ekkert erindi í aðildarviðræður við sambandið...¨

"Ríkisstjórnin frestaði áformum um hallalaus fjárlög með vísan til þess að allt gengi svo vel og fór í beinu framhaldi tugi milljarða fram úr á fjárlögum. Árið 2011 var hallinn um 90 milljarðar.

Það bættust 90 milljarðar við vandann árið 2011..."

..."Árlega höfum við lagt fram ýtarlegar tillögur um aðgerðir fyrir heimilin og hvernig endurreisa megi íslenskt efnahagslíf. Beinar aðgerðir eins og lækkun bensíngjalda sem hefðu átt að vera einfaldar í framkvæmd og skila sér strax, skattalækkanir, flýtimeðferð ágreiningsmála um gengislán, endurskoðun tolla og gjalda til að lækka vöruverð ásamt lægri virðisaukaskatti á barnaföt sem og leiðir til að örva fjárfestingar fyrirtækja, hvati til að ráða nýja starfsmenn auk uppbyggingar í orkuframleiðslu svo nokkur atriði séu nefnd..."

"...Ef það væri í raun svo að ríkisstjórnin tryði því að fólki án atvinnu væri að fækka og vinnumarkaðurinn að stækka, ætti hún þá ekki að standa við gefin loforð og draga úr álögum á fyrirtæki, eins og gert var ráð fyrir í kjarasamningum síðasta árs?

Nei, þessi ríkisstjórn ætlar ekki að gera það. Hún ætlar sér að vísu að standa við það að lækka atvinnutryggingagjaldið - en á móti hækkar hún almenna gjaldið - svo fyrirtækin sitja eftir með sömu byrði. Þannig stendur ríkisstjórnin við loforð sín.

Ríkisstjórnin bregst líka við vaxtamöguleikum ferðaþjónustunnar með því að hóta þreföldun virðisaukaskatts og hækkun vörugjalda á bílaleigubíla.

Og fyrst rætt er um skattahækkanir má geta þess að fjölskyldurnar í landinu fá líka kveðju frá stjórninni með tæplega milljarðs skattahækkun í formi vörugjalda á matvæli.

Forsætisráðherra talar um stórkostlegan árangur í efnahagsmálum á meðan hann eykur á byrðar og álögur á fyrirtæki og fólk. Þessu er svo fylgt eftir með því að tala enn eitt árið um róttækar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Á hverju einasta ári er talað um gagngera uppstokkun á mikilvægustu atvinnugrein okkar. Það sem forsætisráðherra ekki sér er að stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokki er sjálfstætt efnahagsvandamál. ..."

Ólöf Nordal sagði um skuldavanda heimilanna sem

.." Þrátt fyrir að einkaneysla aukist hér á undanförnum mánuðum þrengist enn að hjá fjölskyldum. Það er áhyggjuefni að yfirdráttaskuldir landsmanna hrannist hér enn upp og vekur spurningar um á hvaða grunni sú neysla sem hér er byggist. Það er ótækt fyrir okkur að útgjöld heimila séu byggð á lántökum – hvað þá jafndýrum lánum og yfirdráttur og greiðslukort eru. Við þessu verður að bregðast og það verður að ráðast að rót vandans en ekki fresta og lengja í. . Það má gera í góðu samstarfi hér í vetur ef allir leggjast á eitt...."

Guðlaugur Þór sagði í sinni ræðu m.a.:

"Það er ekki innistæða fyrir sjálfshóli forystumanna ríkisstjórnarinnar.
Forsætisráðherra talar um árangur í atvinnumálum. Ekkert er fjarri lagi. Hver sem hefur aðgang að alnetinu getur farið á vef Hagstofunnar og séð að störfum hefur fækkað á milli mánaða á þessu ári! Og fækkað frá sama tíma í fyrra..."

"Á einu ári eru framlög í atvinnuleysistryggingsjóð, tapaðar skatttekjur vegna brottfluttra og atvinnlausra 49 milljarðar eða yfir 40% af tekjuskatti einstaklinga.,,"

",,Það var bara einn banki sem lánaði það ár og setti reyndar met í útlánum! Og hvaða banki skyldi það nú vera, jú það var Íbúðalánasjóður.
Ráðherrann sem fór með þann sjóð, þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hreykti sér af því í fjölmiðlum að hafa náð að auka lán úr sjóðnum.
Það fólk sem tók Jóhönnulánin í góðri trú árið 2008 er ekki í góðri stöðu í dag.

Um leið talar forsætisráðherra um að þjóðin sé bjartsýn. Það er alveg rétt þjóðin er að aukast bjartsýni vegna þess að það eru kosningar í vor!"

Í ljósi niðurstöðunnar á nýliðnum samráðsfundi fjármálafyrirtækja gegn almenningi, þá sést hvílíkt haf er á milli ætlana og efnda um hag heimilanna í valdatíð þessarar ríkisstjórnar. Sama hvað forsætisráðherra sagði um annað. Vandinn er óleystur.

Þessvegna voru þessar eldhúsdagsumræður ömurlegar því þær vekja ekki vonir um breytingar eða batnandi tíð.


Heródes og Pílatus voru sammála

um að breyta engu í bankakerfinu, hvað sem liði reynslunni frá hruninu.

Bankastjóri erlendu vogunarsjóðanna sem eiga Aríon banka og fulltrúar hins vogunarsjóðabankans, Íslandsbanka og forstjóri hins handónýta Fjármálaeftirlits sem hefur aldrei gert neitt fyrir neinn, þeir voru allir sammála um að halda peningamagnsblæstrinum áfram í bönkunum. Stjórnlausri prentun rafpeninga með bankamargfaldaranum mikla og skilja ekki að viðskipta-og fjárfestingabankastarfsemi eins og best gerðist á tímum gamla Kaupthings. Það var þá sem Ólafur Ólafsson í Samskip tók lán hjá bankanum til hlutabréfakaupa í honum sjálfum. Ólafur fékk afskrifaða 63 milljarða og flúði svo til Sviss þaðan sem ekki er hægt að framselja hann. Og Tenghuis bræður, Al Thani og Hauch & Aufhauser bankinn upplogni eru löngu gleymd nöfn. En Ólafur hélt tannféinu frá Sverri Hermannssyni, skipafélaginu Samskip eftir að afskriftin var fengin hjá slitastjórninni.

Þeir vilja allir halda áfram spilinu og hræra í sömu grautarskálinni og Ólafur og Bakkabræður gerðu á sinni tíð í Kaupthingi. Hafa fullt frelsi til að að blanda saman viðskiptum og fjárfestingu eins og þá tíðkaðist í tíð bankabarnanna sem héldu að þau væru orðin stór.

Frosti Sigurjónsson hefur lýst þeirri hættu sem allri hagstjórn í Íslands stafar af rafkrónuframleiðslu bankanna. Þeir þenja út hagkerfið þegar ríkisstjórnir vilja hægja á. Má minna á tilgangslausar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans að fornu og nýju sem er eins og vatn á gæs á bankakerfið sem heldur áfram sinni eigin efnahagsstefnu.

Það er einföld aðgerð að stýra þessu. Það er að ríkisstjórnin stjórni CAD hlutfalli bankanna með afgerandi hætti. Myndi það ekki virka eins og Frosti vill?

Á fundi fjármálafyrirtækjanna voru þeir Heródes og Pílatus hinsvegar sammála um að samþykkja ekkert sem gæti takmarkað frelsi þeirra til skemmdarverka hvað sem kjörnir fulltrúar fólksins vilja gera til að stýra efnahagsmálunum. Og þeir voru líka sammála um að gera ekkert til að létta undir hjá alþýðunni frekar en á dögum Krists sáluga.


Eigum við að láta smala okkur?

á kjörstað í október til að greiða atkvæði um stjórnarskrárbullið sem kratarnir og kommarnir blésu til eftir hrunið vegna þess að núverandi stjórnarskrá er þrándur í götu til fullveldisafsals landsölunnar til ESB? Forsætisráðherra grenjaði á landsmenn að mæta úr ræðustól Alþingis í kvöld við dynjandi undirspil trumbanna á Austurvelli. Eigum við að gera henni til geðs að mæta?

Þessar arfavitlausu spurningar sem á að leggja fyrir þjóðina, bæði tvíræðar, heimskulegar og leiðandi, er að mínu viti ekki svaraverðar. Þá er bara spurningin: Á ég að mæta til að segja nei eða á ég að sýna fyrirlitningu mína á málatilbúnaðinum með því að sitja heima?

Ef ég og mínir líkar sitja heima, þá samþykkja kommarnir og kratarnir spurningarnar með svona 30 % atkvæða. Það túlka þeir sem frægan sigur og auglýsa um alla jörð. Eftir þessu verður farið hvað sem tautar segja þeir. Alveg eins og þegar Ingibjörg Sólrún sagði flugvallarkosninguna bindandi og að eftir henni verði farið þó að helmingur kjósenda hafi setið heima í mótmælaskyni og atkvæði verið hérumbil hnífjöfn með og á móti.

Hver á að segja mér til? Á ég að láta Jóhönnu smala mér á kjörstað til að greiða atkvæði í máli sem mér kemur ekki við? Það eru mínir fulltrúar á Alþingi sem eiga að gera breytingar á stjórnarskránni. Ekki Alþingi götunnar úr 101 Reykjavík.


Fegrunaraðgerð?

stjórnmálaflokks getur verið fólgin í því að þekkt andlit dragi sig í hlé. Sérstaklega ef að styrr hefur staðið um athafnir viðkomansi á kjörtímabilinu.
Aðrir kynnu að segja að flokkurinn sé bara að mála yfir nafn og númer með kattarþvotti. Tilgangur hans og stefna sé jafn skuggaleg og áður.

Væri flokkur sem býður fram óþekkt andlit flekklauss fólks þannig kjörþokkafyllra framboð en framboð einstaklinga með fortíð? Vissulega hafa flekklaus framboð eins og til dæmis Hreyfingin visst forskot á gamla syndara þegar þau fyrst koma fram. En þessi nýju framboð eru svo fljót að missa sakleysið og opinbera sig í að vera ekki hætinu skárri en gamla gengið. þessvegna er fjórflokkurinn svonefndi sú kjölfesta sem þessari þjóð hefur best dugað. Þröskuldarnir sem halda flokksbrotum úti mega alls ekki lægri vera. þessvegna er meðal annars rétt að vera á móti tillögum stjórnmálaráðs.

Einn bóndi lýsti þessu á framboðsfundi svona:" Ég á hest sem er bæði slægur, hrekkjóttur og latur. En hann er hestur sem ég þekki. Það er ekkert víst að ég fái betri hest ef ég fer í hestakaup því þá fæ ég hest sem ég ekki þekki. Eins er þetta með þingmennina okkar......"

Svona að óreyndu kann það að skipta máli fyrir kjósendur að rægja burt gott fólk af framboðslistum og fá einhverjar óþekktar stærðir í staðinn. En eins og bóndinn sagði, þá eru nýju andlitin eitthvað sem við þekkjum ekki og eru oftar en ekki furðu fljót að missa sakleysið. Það eru ekki allar fegrunaraðgerðir til fjár fyrir flokka.

Og svo er pólitíkin hópstarf þar sem sólóspil og upphlaup hafa lítið gagnast þjóðinni hvað sem fegurð einstakra andlita líður. Það er langhlaup að leiða þjóð til lífskjarabóta.


Launastefna Guðbjarts

er eitthvað sem menn mega velta fyrir sér þegar þeir horfa á prósessíuna á eftir Ólafi forseta út úr þinghúsinu í dag.Skyldu læknar verða með heiðursvörð á Austurvelli?

Hvað á þessi að fá mikla hækkun miðað við þann sem gengur við hliðina á honum?
Er forsvaranlegt að borga honum þessum jafn mikið og honnum hinum sem er að reyna að vinna fyrir kaupinu sínu? Er ekki þessi miklu vitlausari en hinn? Á ekki heldur að borga þeim meira eftir því sem þeir tala meira í þinginu? Eða væri ekki líka best að hafa þennan á Kanarí og senda honum kaupið þangað?

Af hverju ganga þingmennirnir ekki á stöðluðum búningi eins og þeir gera í Kína til að undirstrika launajöfnuðinn? Þeir gætu haft mismunandi höfuðföt eftir því hvaða flokki þeir tilheyra þá stundina. Fallega rauð föt myndu til dæmis greina okkur frá Kíinverjum.

Er ekki Guðbjartur annars jafnaðarmaður?


Er Haarde að harðna?

spyr maður sig þegar Geir Hilmar boðar nýjan sjónvarpsþátt með sér um þjóðmál á ÍNN.

Það er að vonum að mörgum finnst Geir ekki hafa sagt sitt síðasta orð í pólitík. Hann virðist hafa staðið af sér erfið veikindi sín og baráttuþrekið virtist ólamað með öllu í orrustunni við forynjurnar fyrir Landsdómi. Þjóðin stóð með Geir en fordæðuskapur rægjendanna varð til lítils sóma.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða höndum Geir fer um andstæðingana í hinum nýju þáttum og hvernig hann lítur á pólitíska sviðið svona í aðdraganda þess að þetta ömurlega Alþingi með þetta úrval rógbera og lygamarða innanborðs fer að syngja sitt síðasta. Skyldu margir sjá eftir þeirri sveit?


Jafnaðarmennskan

birtist á mörgum sviðum. Jöfnuður þýðir samt venjulega það að draga þá betri niður en lyfta hinum.

Tengdafaðir minn var kallaður Jón Dýri. Það var nú af því hann var dýralæknir. Svo hætti hann vegna aldurs og við tók annar dýralæknir sem líka hét Jón. Hann tók þóknun skv. gjaldskrá og þá stóð ekki á köllunum að kalla hann Jón Rándýra. Hann gerði einu sinni sem oftar við spena yfir einn beljukall sem spurði hvað það kostaði. Hann fékk svar við því. Kallinn þagði um stund á eftir. Þá spurði Jón Rándýri, finnst þér þetta dýrt Magnús minn? Nei, sjálfsagt er þetta ekki endilega dýrt sagði Magnús. En ég var bara að hugsa hvað ég skuldaði honum Jóni Dýra mikið.

Það er nefnilega allt afstætt og misjafnt. Ég veit að það eru til miklu betri verkfræðingar en ég. Menn eru svo misjafnir Mér þótti alltaf ósanngjarnt í gamla daga að þurfa að borga mönnum sama kaup skv. taxta. Sumir unnu illa fyrir sínu en aðrir gerðu miklu meira og hefðu átt að fá tvöfalt meira en hinn. En það er erfitt á stórum vinnustað að borga eftir verðleikum. Það er bara taxtinn sem hefur verið knúinn fram með verkföllum sem gildir.Því verður jafnaðarmennskan alltaf spurningin um að draga allt niður á flatneskjuna, finna lægsta samnefnarann.

Menn eru langt frá því að vera jafnir. Þó að menn séu kannski fæddir jafnir eins og Lincoln ræddi um í Gettysburgarávarpinu þá er svo misjafnt hvernig menn rækta sjálfa sig og hæfileika sína. Þar munar áreiðanlega mikið um uppeldið. En það eitt dugar ekki þegar kemur að hæfileikunum. Þar sitjum við eftir puðararnir meðan hæfileikamennirnir halda á nýjar slóðir. Einstein var fæddur í mannsmynd og hæfileikarnir sásut ekki endilega á útlitinu. En hann var Einstein og ég er bara ég þó ég hefði frekar viljað líkjast honum.

Frelsi jafnrétti og bræðralag. Þetta getur allt staðist. En þegar hið fyrrtalda er fengið þá kemur að bræðralaginu. Og þá er það yfirleitt einkennið á jafnaðarmönnum að þeir eru svo miklir ójafnaðarmenn að þeir tolla ekki í einum flokki lengi í einu. Maður þarf ekki lengi að horfa á Alþingið okkar til að sjá að þetta er mun útbreiddara meðal jafnaðarmanna heldur en þeirra sem jafnaðarmenn og alþjóðasinnar kalla sauðheimska íhaldsmenn og ESB andstæðinga. Þeir geta ekki praktisérað Egalité.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband