Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Auðlindagjald á ferðaþjónustuna

er ekki ósanngjarnara en samskonar gjald á sjávarútveginn.

Þessi ferðamannaiðnaður gerir út á sameiginlegar auðlindir landsmanna rétt eins og sjávarútvegurinn. Hversvegna á hann að geta selt ferðir á Gullfoss & Geysire, Goðafoss og Þingvelli án þess að skilja neitt eftir sig? Af hverju borum við ekki í Geysir til að selja hann betur? Það var borað í Strokk sem skemmtir ferðamönnum meira en nokkuð annað á landinu.Af hverju ekki í annars ónýtan Geysir?

Kerið er farið að selja inn á sig.Ferðamenn borga umyrðalaust enda vanir því að allt kosti. Klósettið á Hakinu kostar. Það er auðvitað í méli þar sem það tekur aðeins íslenska peninga eins og sveitamanna er háttur.

Ekkert klósett er á Gullfossi nema það sem tilheyrir einkareknum veitingastað sem leyfir rútuliðinu að losa sig við kaffið frá Hótel Geysi af gæsku síns hjarta. Á þessum stöðum er ekkert gert fyrir það sem verið er að sýna. Sparkið og troðningurinn eykst ár frá ári. Hvernig verður þetta þegar búið er að tvöfalda ferðamannatöluna úr 700.000 í 1. 5 milljónir?

Af hverju er ekki lagður fullur virðisaukaskattur á allt sem við kemur ferðaþjónustu? Rútubíla, hvalaskoðun, gistingu og gædaþjónustu. Af hverju á ekki að innskatta dekkin og olíuna? Rúmföt og mat?

Við verðum að fara að reka túrisimann eins og alvöru iðnað og láta hann skila eðlilega til samfélagsins sem hann er ekki að gera í dag.

Auðlindagjald á það sem verið er að selja af auðlindum landsins. 


Á Sprengisandi

 

hjá Sigurjóni Egils var Kári Stefánsson ásamt Stefáni Jóni Hafstein og Unni Brá.

Mikið skelfing  fannst mér leiðinlegt  að hlusta á Stefán lýsa afrekum Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili.

Kára fannst samt fremur lítið til koma afreka fyrri ríkisstjórnar og taldi að jafnvel hefðu það verið samantekin ráð annarra þjóða eftir G10 fund að láta Ísland laxéra duglega. Til dæmis hefðu Svíar dregið að sér útrétta hönd eftir það. Hann taldi að staðan á Íslandi hefði getað verið orðin miklu betri ef fyrri ríkisstjórn hefði tekið öðruvísi  á málum og aðstoð annarra þjóða hefði ekki verið afturkölluð og okkur verið heimiluð gjaldeyrisskipti eins og öðrum þjóðum.  

Óprýði var á umræðunni þegar Stefán Jón  rauk ítrekað upp upp með Samfylkingarrulluna um snilld Jóhönnu og Steingríms sem nytu virðingar og viðurkenningar um allan heim fyrir afrek sín. Það var þó alls ekki allt alvitlaust sem hann sagði í bland svo sem um ástandið á fjármálamarkaði um þessar mundir.

Kári lagði þunga áherslu á hversu við hefðum holað innan verlferðarkerfið og heilbrigðiskerfið. Hann talar virkilega af sannfæringu um skyldur okkar þjóðar til að sinna betur hinum veiku. Unnur Brá vildi hafa miklar áhyggjur af löggæslumálum en Kári vildi hafa meiri áhyggjur af því að sjúkrabill þyrfti að keyra framhjá einu slysi til að sinna öðru vegna sífellds niðurskurðar. Þjóðfélagið yrði að hafa velferðar og helbrigðskerfi ef það ætti að standast sjálft.

Upphróp og frammítökur  Stefáns Jóns  um ágæti Samfylkingar yfirskyggði að vonum margt skynsamlegt sem kom fram hjá hinum. Þó hann segði það ekki beint þá var greinileg  að eftirsjá eftir ESB aðild inni yfirskyggir annað í hans huga, svo slæmt sem ástandið væri hjá okkur. En Stefán  sagði samt réttilega að fjármálakerfið væri  rotið á Íslandi sem það er. Bankarnir raka saman gróða og tútna út með miklum vaxtamun en lífeyrissjóðir sem væri klíkustjórnað væru að blása í bólur og taka yfir fyrirtæki landsmanna í stórum stíl.

Kári benti á að valdið hefði verið farið að færast úr höndum stjórnmálamanna fyrir hrun og verið komið til fjármálafyrirtækjanna  og sér sýndist það sama vera að endurtaka sig núna án þess að stjórnmálamenn gerðu nokkkuð í því. Kári og Stefán voru sammála í því að vona að ríkisstjórnin myndi koma fram með stefnu sem vísaði veginn fram.

Kári tók sérstaklega fram að hann vonaði að menntamálaráðherra hefði kjark til að loka háskólanum á Bifröst, sem ekkert leggði til samfélagsins, sameina háskólana í Reykjavík, loka Hólaskóla og fela háskólanum á Akureyri frekar verkmenntun en bókvísi.

Hann taldi rangt  að stytta leið til stúdentsprófs þar sem íslenskir stúdentar stæðu sig yfirleitt vel í námi við erlenda háskóla sem sannaði gildi almennrar menntunar. Íslenskir háskólar ættu heldur ekki að vera að keppa innbyrðis heldur frekar að keppa við erlenda háskóla.

Það eru orð að sönnu að fjármálakerfið á Íslandi er orðið gerspillt. Lífeyrissjóðir vaða uppi  og leggja undir stjórnendur sína völd og áhrif sem engin fótur ætti að vera fyrir.Því er slegið upp sem fagnaðarboðskap þegar þessi batterí stofna nýja sjóði til að braska með lífeyrispeninga okkar undir forystu einhvers manns sem fæstir þekkja né vita hvaðan kemur.Lífeyrissjóðakerfið okkar  er rotið inn að kjarna en því miður er enginn sem vill taka á því máli. Völd stjórnendanna í gegnum peningana er orðið þvílíkt að þeir geta ógnað hverjum sem er og gera það.

Ríkisbankarnir, gamli og nýi Landsbankinn vaða upp stjórnlaust með sjálfstæða tilveru, spreða út ríkiseignum til sjálfra sín. Sagt er opinberlega að starfsmenn fjármálafyrirtækja séu á fullu fyrir sjálfa sig um leið og þeir víla og díla með þá peninga sem þeim er trúað fyrir.

Enginn veit hvað fram fer í skilanefndunum sem virðast ráðnar til eilífðarnóns. Það  þótti ekki fréttnæmt einu sinni að fjórir skilanefndarmenn hefðu til dæmis skipt með sér 160 milljónum á fyrrihluta þessa árs. Og veit nokkur hvað er raunverulega að gerast í Íslandsbanka eða Aríonbanka eða hverjir séu eigendur þeirra í raun og veru?

Löngu er orðið tímabært að Sprengisandur taki fjármálakerfið fyrir og fái alvöru menn til að fjalla um það. Jón Daníelsson virtist hafa margt fram að færa í því samhengi. Ólafur Arnarson og Guðmundur Franklín koma líka í hugann þegar leitað er að spyrjendum sem bragð væri að.

 

 

 


Bloggið mitt og Gallup

eru nákvæmlega sammála um fylgi þjóðarinnar við áframhald staðsetningar Reykjavíkurflugvallar.

Bæði Gallup og bloggið eru sammála um að fylgið sé 82.1 %.

Mitt blogg hefur auðvitað alla yfirburði yfir Gallup hvað fjölda atkvæða snertir svo sem sjá má til hliðar á síðunni. Ég óska Gallup auðvitað til hamingju með að komast að sömu niðurstöðu og lesendur minnar bloggsíðu hafa löngu komist að.

Það er ekki ónýtt fyrir Gallup að staðreyna svona kirfilega hversu góð mín bloggsíða er. Það væri óskandi að fleiri færu að dæmi Gallup og færu að taka meira mark á minni bloggsíðu.

Fyrir þá stjórnmálamenn okkar sem velkjast oft  í vafa  er því bent á að spyrja þessa bloggsíðu fyrst og svo  Gallup á eftir  og fara bara eftir því.


Ný síldarárás yfirvofandi?

í  Kolgrafarfirði.

Grípa til varna, girða, urða, ráðleysið er yfirþyrmandi. Það eru mál dagsins.

Samt er svarið á borðinu. Það er :

Gefa síldveiðar frjálsar á morgun. Veiða síldina áður en hún fremur sjálfsmorð.

Nei, Hafró ætlar að geyma hana í sjónum svo hún verði stór og feit til næsta árs. Sjálfsmorð síldar er ekki í spálíkönum þeirra.

Nei, fáum gröfur, tól og verktaka til að grafa næstu 50.000 tonnin sem hrúgast á okkur í næstu síldarárás.

Skyldi han Otto Wathne frændi minn hafa skilið hugstakið síldarárás? Honum hefði líklega dottið í hug fleiri tunnur og meira salt frekar en að bjóða út gröfurum.


Reykjavíkurbréf

Morgunblaðsins, algerlega nafnlaust að vanda, hittir vel í mark að þessu sinni:

Fyrir þá sem ekki lesa Morgunblaðið er ekki úr vegi að víkja nánar að því helsta:

"......Oft hefur verið á það minnt að á legsteini Jóns Þorlákssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, standi að þar hvíli Jón Þorláksson borgarstjóri og það einatt talið sýna hvernig Jón og aðstandendur hans horfðu til þess embættis. Skýringin gæti auðvitað verið önnur, því Jón var jú borgarstjóri þegar hann féll frá. Enginn vafi er þó á að Jón Þorláksson, sem var verkfræðingur, naut sín vel í embætti borgarstjóra, enda framtakssemi hans viðbrugðið. Hann hafði áður, sem verkfræðingur og kjörinn fulltrúi í borgarstjórn, komið að mikilvægum verkefnum sem skiptu miklu fyrir velferð borgarbúa og atvinnustig og styrk borgarinnar um langa tíð.

Á hálfrar aldar tímabili, frá árinu 1940 til ársins 1991, gegndu fjórir menn embætti borgarstjóra í 41 ár sem síðar áttu allir eftir að verða forsætisráðherrar og gegna því embætti sameiginlega í rétt tæp 28 ár (með Jóni Þorlákssyni 29 ár). Aldrei hefur þurft að vefjast fyrir borgarstjórn hver laun borgarstjórans ættu að vera. Þau fylgja einfaldlega formúlunni: Borgarstjóri skal hafa sömu laun og forsætisráðherra. Aldrei var að þessu fundið. Það segir með öðru hvernig innan borgarinnar og utan var litið til þessarar stöðu. Og lengi var það svo, að Reykjavík, höfuðborg landsins, var mótandi í mörgum efnum þjóðfélagsmála og önnur sveitarfélög og ríkisvaldið fylgdu í kjölfarið.

Borgarstjórinn og borgarstjórnin tóku sín verkefni mjög alvarlega og hátíðlega eins og sjálfsagt var. Borgin var í algjörri forystu í margvíslegum verklegum framkvæmdum og varð þekkt af skipulögðum, öguðum vinnubrögðum og viðbrögð yfirmanna þar á bæ þóttu gjarnan snarpari og sneggri en gerðist og gekk hjá ríkisvaldinu, sem bjó við flóknara stjórnkerfi eins og víðast er.

 

Í einhverri ímyndaðri baráttu við Sjálfstæðisflokkinn og »embættismannakerfi hans« ákvað R-listinn að hringla öllum verkferlum og stjórnkerfi borgarinnar og breyta heitum á flestum embættum, kubba þau í sundur svo einföld álitamál féllu undir fleiri en eitt embætti og fleira í þeim dúr. Málaflokkar, sem áður höfðu lotið gagnsærri stjórn, lutu nú óljósu stjórnkerfi og embætti borgarstjórans var veikt meðvitað, svo hann hefði ekki áberandi meira vald en aðrir foringjar þeirra flokka og flokksbrota sem stóðu að R-listanum. Borgarstjórinn hafði áður verið sagður sitja efst í píramítanum, í stjórnkerfi sem stundum er einmitt kennt við píramíta, sem er ekki endilega nákvæmt. Hvað sem því leið kom borgarstjórum þeirrar tíðar aldrei til hugar að varpa sinni ábyrgð á herðar embættismanna eða annarra starfsmanna borgarinnar. Borginni og fyrirtækjum hennar, sem áður höfðu verið nær skuldlaus, var svo steypt í skuldir, en allri þessari eyðslu sá þó ekki stað í neinu hlutfalli við stjórnlaus útgjöldin. Það var þó ekki fyrr en að R-listinn riðaði í átt að falli við brotthvarf forystumanns hans úr borgarmálum að borgarstjóraembættið laskaðist varanlega. Í framhaldinu komu og fóru borgarstjórar svo ótt og títt að borgarbúar festu vart á þeim tölu. 

 

Í kosningunum vorið 2010, þegar mikið fall blasti við Samfylkingunni í Reykjavík, var búið til framboð við hlið hennar til að taka við því fylgi sem hrykki þaðan og öðrum þeim sem mætti fá til fylgilags með töfrabrögðum og blekkingum. Bragðið lánaðist.

Jón Gnarr Kristinsson hefur síðan haldið bæði titli, launum og bíl borgarstjóra og er ekkert athugavert við það. Í raun hefur hann ekki orðið mikið öðruvísi »borgarstjóri« en hann gaf til kynna að hann myndi verða. Hann hefur vissulega svikið öll sín kosningaloforð (líka það eina sem hann lofaði að svíkja ekki). En öfugt við venjulega stjórnmálamenn hafði hann tilkynnt fyrir kosningar að það stæði til. Nægilega mörgum kjósendum þótti þetta fyndið nægilega lengi. Eitthvað hefur gleði þeirra spillst sem áttuðu sig á að loforðið um svikin virtist það eina sem Jón sagði í fullri alvöru.

Þeir hafa sumir reynt að gleyma grínistanum og segja nú í fullri alvöru að Jón Gnarr Kristinsson gegni í raun embætti sínu sem borgarstjóri. Það er sennilega fyndnara en flest það sem Jón hefur sagt sjálfur. Jón hefur mætt á fundi með borgarbúum og lesið upp skrifaða ræðu og síðan setið þegjandi hjá og látið embættismenn alfarið um að svara þeim spurningum sem borgarbúar bera fyrir brjósti.

Hann tilkynnti óvænt að hann hefði flutt skrifstofu borgarstjórans upp í Breiðholt til að vera nær borgarbúum og sást þar ekki meir eftir að þeim blaðamannafundi lauk. Það er óþarfi að draga úr því að Jón hefur klætt sig upp í kjóla og peysuföt nokkrum sinnum á kjörtímabilinu og sent eitt bréf til borgaryfirvalda í Moskvu, sem ekki hefur fengist staðfesting á að hafi borist þangað eða verið svarað. Jón Gnarr Kristinsson getur ekki kvartað yfir því.

Bæjarstjórinn á Akureyri sagðist nýlega hafa beðið svars við sínu bréfi til Jóns í hálft ár og ef horft er til hlutfalls vegalengda er sennilega langt í að svarbréfið frá Moskvu berist. En auðvitað er ekki útilokað að borgarstjórnin í Moskvu hafi fengið þá útskýringu frá Sendiráði Rússlands á Íslandi að bréf úr þessari átt eigi að taka sem hverri annarri vitleysu, enda standi vilji bréfritarans til þess og á heimaslóð taki hann enginn alvarlega.

Það er ekkert óbærilegt að borga á einu kjörtímabili 80 milljónir króna í laun og launatengd gjöld til Jóns Gnarr Kristinssonar fyrir uppistand, sem staðið hefur í tæp fjögur ár. Ef tímakaupstaxti uppistandara er skoðaður er meira að segja sennilegt að borgarbúar hafi fengið Jón ódýrt. Og við hann er persónulega ekkert að sakast. Segja má að hann hafi komið til dyranna eins og hann er klæddur það og það sinnið. En þeir sem bera ábyrgð á honum og láta út á við eins og hann sé að sinna venjulegum störfum borgarstjóra í Reykjavík hafa enga afsökun.

 

 

Borgin hefur drabbast niður þessi fjögur ár sem hún hefur lotið stjórn Samfylkingarinnar. Og þar sem stjórn borgar er langtímaverkefni er ljóst að áhrif aðgerðarleysis meirihlutans munu smám saman koma fram á næstu árum og mun taka töluverðan tíma og fjármuni að bregðast við og bæta úr. Borgarstjórnarmeirihlutinn er meðvitað að stofna til umferðaröngþveitis í bænum. Ekki eru efni til að fullyrða að meirihlutinn vilji umbjóðendum sínum illt. En þótt slíkir gjörningar byggist algjörlega á meinlokum og dillum eru þeir ekki betri fyrir það. Þegar upp úr sýður einhvers staðar í borginni út af einstökum asnaspörkum eru embættismenn látnir taka fram að borgarstjórinn og borgarfulltrúar hafi hvergi nærri ruglinu komið! Það er þó óþarfi af embættismönnunum að draga borgarstjórann inn í þetta. Það datt ekki nokkrum manni í hug að hann hefði átt nokkra aðild að ákvörðunum borgaryfirvalda.

Hann er að auki upptekinn við að skoða inn í fataskápinn og bíða svars frá Moskvu, á milli þess sem hann veltir fyrir sér hvers vegna þessi tjörn með gargandi öndum sé stödd fyrir utan nýju borgarstjóraskrifstofuna í Breiðholti. Meira en þetta er ekki hægt að leggja á einn mann. 

 

En embættismennirnir halda því sem sagt blákalt fram að kjörnir fulltrúar hafi hvergi komið nærri óvinsælum ákvörðunum og samt eru þær ákvarðanir eftir svo óvenjulegar játningar látnar standa áfram í óþökk borgarbúa, sem þær bitna á, eins og ekkert hafi ískorist! Og borgarfulltrúar allra flokka eða þessa eina flokks sem nú virðist í borgarstjórninni þegja þunnu hljóði.

 

 

En þar sem minnst var á Tjörnina: Það var nokkuð kvartað yfir mávageri á þeim slóðum í sumar, en nú hafa flestir mávar látið sig hverfa. Það kemur ekki á óvart. Þeir héldu upp og suður því þeim er það gefið að vita hvenær þeir eiga að láta sig hverfa.

Núverandi borgaryfirvöld virðast í einlægni telja það sitt helsta verkefni að hjóla í borgarbúa, hvenær sem því verður viðkomið. Í maí á næsta ári mun mávaskarinn skynja að nú skuli hann fara norður og niður.

Mikið yrði það gott fyrir Reykvíkinga, ef núverandi borgaryfirvöld þekktu þá jafn vel og vargurinnn sinn vitjunartíma. "

Í laugardagsblaðinu hélt Kolbrún Bergþórsdóttir því fram að Jón Gnarr hefði hugsanlega staðið sig vel sem borgarstjóri á PEN þingi rithöfunda. Þessu skal ég alveg trúa.  Ég skal alveg viðurkenna að ég hef oftar en einu sinni hlustað á Jón Gnarr flytja afbragðs góðar ræður án þess að lesa þær upp. Var hann líka ekki sagður lesblindur að einhverju leyti? Ég held að menn skuli ekki vanmeta Jón Gnarr á neinn hátt. Hann er óvenjulegur maður á margan hátt og hann er Borgarstjórinn í Reykjavík þó að hann virðist sumum vera  einskonar strengjabrúða hjá DayBee.

En kjósendur í Reykjavík hljóta að meta verkin en ekki merkin þegar kemur að málefnum borgarinnar og nærumhverfinu.Reykjavík er orðin raunaleg borg, þar sem margt virðist reka á reiðanum en reynt er að dreifa athyglinni frá því með glæstri framtíðarmúsíkk eins og breytingum á Aðalskipulagi sem nú er hampað sem mest. Þar skal Flugvöllurinn til dæmis lagður niður hvað sem 70.000 undirskriftir segja. það skipulag skal keyrt fram með illu eins og vegurinn í gegn um Gálgahraun. Mótmæli eða skoðanir kjósenda skipta suma kjörinna fulltrúa engu máli. Vi alene vider sögðu kóngarnir okkar í gamla daga.

En það sem höfundur Reykjavíkurbréfsins segir er í flestu tilliti rétt. Kjörnir fulltrúar eiga aldrei að geta varpað ábyrgð sinni á embættismenn. Hinsvegar finnst mér dæmin sanna  að embættismenn eru sumir svo frekir að þeir valta yfir kjörna fulltrúa. Þeir lyppist niður fyrir heimaríkum hundum eins og sumir embættismenn verða  líkastir þegar þeir eru búnir að hreiðra lengi og vel um sig og sömu fulltrúarnir eru ýmist í meirhluta eða minnihluta. Kannast engir við þetta ástand ? Þetta á sérsklega við um bæjarfulltrúa sem ekki hafa neinn tæknilegan  bakgrunn og geta því litla rönd við reist gegn alskyns fræðingum í apparatinu.

 Borgarfulltrúar eru kjörnir til að sinna málefnum borgaranna. Mér hefur alltaf fundist vel koma til greina að það sé fullt starf og þeir eigi að sinna því sem slíku. Auðvitað kostar það sitt. En slugs borgar sig yfirleitt aldrei.

Og Reykjavíkurbréfið er einmitt að lýsa slugsi.


Bullukollur

er Árni Páll Árnason þegar hann fer með svona texta:

"Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var að gera hlé á aðildar­viðræðum Íslands við Evrópusambandið. Nýlega ákvað svo Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra að leysa samninganefnd Íslands frá störfum. Árni segir að þrátt fyrir þetta sé aðildarferlið ekki dautt. „Auðvitað getur ríkisstjórnin sett málið í hlé og hún hefur ákveðið svigrúm til þess en ekki endalaust. Yfirlýsingar forystumanna ríkisstjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar voru þannig að þessir flokkar hafa ekkert umboð til þess að slíta viðræðum án þess að þjóðin fái fyrst að segja álit sitt á því. Ríkisstjórnin er mjög vaklandi í afstöðu sinni til aðildar. Það liggur fyrir að hún mun þurfa að leggja fyrir þingið stefnubreytingu ef hún ætlar að hætta aðildarferlinu.“

Er ekki skelfilegt til þess að vita að formaður 12.9 % kjósenda fari með svona bull?

Það stendur hvergi annað en það hjá Sjálfstæðisflokknum, að aðildarviðræður verði ekki hafnar á ný án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að hefja aðildarviðræður?  

Merkilegt að geta verið formaður í stjórnmálaflokki og fylgjast ekki betur með.

Árni Páll útnefnir sig sjálfan bullukoll með svona yfirlýsingum og fær ekki margar prósentur út á það. 

 

 


Prófkjör í Reykjavík

er nú ákveðið í nóvember.

Mikilvægt er að flugvallarvinir taki nú þátt og tryggi hagsmuni Reykjavíkurflugvallar.

Fyrir liggur að Júlíus Vífill, Marta Guðjónsdóttir og  Kjartan Magnússon styðja flugvöllinn og Guðlaugur Þór er talinn frekar hlynntur vellinum. Ég veit ekki um Hildi Sverrisdóttur og þekki ekki fleiri nöfn sem til greina koma.

Fyrir liggur hinsvegar að Gísli Marteinn, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Áslaug Friðriksdóttir hafa ákveðna afstöðu gegn flugvellinum, Því getum við ekki stutt þau og kjósum þau frá.

Hagsmuni Reykjavíkurflugvallar verðum við að láta ráða í prófkjöri Sjálfstæðismanna til Borgarstjórnar Reykjavíkur  síðla í nóvember. 


Sýrlandsstríðið

heldur áfram af hörku. En líklega ætlar Assad augnlæknir að sigra andstæðingana.

Sjálfur segir Assad að þeir séu ekki pólitískur andstæðingur heldur samsafn vígamanna sem séu fjármagnaðir af nágrannaríkjunum. Og víst er að í hópi þeirra eru ekki neinir sérstakir arabiskir vorboðar heldur AlQueda menn og Islamistar auk mýgrúts af útlendingaherdeildarmönnum og ævintýramönnum í leit að peningum og hasar. Ríkið er í upplausn vegna ófriðarins og almenningur þjáist. Uppreisnarmenn berjast líka innbyrðis af minnsta tilefni sem sýnir skipulagið.

Ég hef samúð með Assad augnlækni í viðleitni sinni til þess að koma á friði í landinu. Nú er ekki tíminn til að tala um democrazy í Sýrlandi heldur frið á sem fljótvirkastan hátt. Fólkið þar á langt í land með að geta farið með slíkt alveg eins og múslímaþjóðir eins og Saudar, Kuveitar, Emiratar, Írakar, Egyptar og Libýumenn. Vesturlönd eiga ekki í ljósi reynslunnar að fara að skipta sér af málum austur þar nema til að tryggja sér olíuna.

Assad augnæknir er ólíklega eins vondur og Saddam verkfræðingur var sagður  samkvæmt "áreiðanlegum upplýsingum" og CIA og M5. Honum treysti ég óhikað betur en AlQueda og Islamistum enda er hann upplýstur læknir eins og Day Be.

Sýrlandstríðinu lýkur vonandi sem fyrst með sigri Assad augnlæknis. 


Ríkisstarfsmönnum fjölgar

meðan samdráttur er á heilbrigðis-og löggæslusviði.

Hvar þá? Umhverfissviðið er fyrirferðarmest. Sem við var að búast þegar villta vinstrið fær völd.

Ég heyrði Óskar Bergsson lýsa því hvernig ráðningarbann hjá Reykjavíkurborg hefði virkað vel til að draga saman í rekstri án sárinda uppsagna. Það er bara ekki ráðið í þau störf sem losna af einhverjum ástæðum. Þannig næst skjótur árangur.

Ef hagræðingarnefndin gæti gert eitthvað í þá veru þá væri hægt að halda sjó með því að draga saman á umhverfissviði en fjölga á heilbrigðis-og löggæslusviði og hafa stjórna á útþenslunni. Ráða heldur engan ríkisstarfsmann framar nema upp á venjuleg lífeyriskjör.

Ríkisstarfsmönnum og fríðindum þeirra á ekki að fjölga heldur að fækka. 


Grunnskólinn er grunnurinn

að menntun æskulfólksins. Ég held að fáir hafi gert sér grein fyrir því hvað hælisleitendadekrið og flóttamannaviðatakan hefur fært íslenskum fjölskyldum mörg vandamál. Þetta má sjá í grein í Morgunblaðinu í dag:

" Margir nemendur af erlendum uppruna í grunnskólum landsins eiga í erfiðleikum með að ná fullum tökum á íslensku og kemur það niður á árangri þeirra.

Um þetta eru skólastjórar þriggja grunnskóla sammála en þeir starfa allir í hverfum þar sem hlutfall fólks af erlendum uppruna er hátt.

Haft var eftir Guðmundi Sighvatssyni, skólastjóra Austurbæjarskóla, í Morgunblaðinu í gær að hann hefði þungar áhyggjur af því að börn sem alast upp á heimilum þar sem íslenska er ekki töluð fengju ekki stuðning til jafns við nýbúa. Sagði Guðmundur að fjórði hver nemandi í skólanum byggi við tvítyngi á heimilinu en til samanburðar er hlutfall innflytjenda í hverfinu um 19%.

Spurð um hlutfall nemenda af erlendum uppruna í Fellaskóla segir Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri, að ríflega helmingur 323 nemenda búi við annað móðurmál á heimili en íslensku. Spurð hvernig þeim gangi í náminu, samanborið við nemendur sem hafa íslensku að móðurmáli, segir Kristín að mörgum þeirra reynist erfitt að læra íslensku..."

 

Hvernig geta menn búist við að menntað íslenskt fólk kom út úr þessum aðstæðum?  Þessa nemendur á að hafa í sér bekkjum. Þeir eiga ekkert erindi við að halda niðri námsárángri íslenskra barna. Þeir eru aðflutt vandamál sem verður að meðhöndla öðruvísi. Kenna þeim á málum sem þeir skilja. Mér er sem mér sæi mig í kínverskum barnaskóla. Ætli ég hæti lært eitthvað þar?

..."»Sem vonlegt er reynist íslenskan mörgum erfið, ekki síst m.t.t. hugtakaskilnings. Nemendur geta verið fljótir að tileinka sér einfaldan orðaforða til að bjarga sér í daglegum samskiptum en skortir oft dýpri skilning á tungumálinu. Svo má heldur ekki gleyma því að einstaklingarnir eru jafn ólíkir hvort heldur um er að ræða innflytjendur eða innfædda,« "segir Kristín.Innt eftir því hvort dæmi séu um að nemendur af erlendum uppruna standi höllum fæti í náminu vegna lítillar íslenskukunnáttu segir hún að »vissulega séu dæmi um það«.

»Við þurfum að leggja ríka áherslu á íslensku og læsi og beita fjölbreyttum aðferðum við kennsluna. Þá þarf nemendum að standa til boða góður stuðningur og fjölbreytt námsefni. Allir kennarar í Fellaskóla eru móðurmálskennarar en þurfa einnig að búa yfir aðferðum sem nýtast við að kenna íslensku sem annað mál. Góð íslenskukunnátta er grundvöllur þess að innflytjendur geti staðið jafnfætis innfæddum í námi og geti með góðu móti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Hér vinnum við að því að mæta þörfum nemenda eins vel og kostur er svo hver og einn finni sig á heimavelli. Það er í raun sameiginlegt verkefni allra í skólasamfélaginu,« segir Kristín..“

 Þetta vandamál sem Kristín lýsir er ekki líklegt til að skila þjóðfélaginu okkar út eðlilega menntuð fólki. Og þá mega menn ekki gleyma því að það eru þeir hægvirkari í bekknum sem skammta yfirferðina og verða til þess að öllum betri nemendunum leiðist og fá ekki viðspyrnu krafta sinna. Þessvegna er blöndun í bekki í stað vals eftir námsgetu búin að vinna stórtjón á menntun landsmanna. A bekkur á að vera A bekkur.

„…..Fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni að hlutfall fólks af erlendum uppruna í Reykjavík er hæst á Kjalarnesi eða um 31%.


»Það er misjafnt hvernig þeim gengur í náminu. Það er háð því hversu góðum tökum þeir hafa náð á íslensku. Það er allur gangur á því. Seint myndi ég svara því að það væri nægur stuðningur við þessa nemendur. Það þarf enda svo mikinn stuðning til þess að hann sé eins og við myndum vilja hafa hann í hinu fullkomna þjóðfélagi. En við reynum að styðja þessa nemendur eins og við mögulega getum miðað við þær forsendur sem við höfum til þess.«

Morgnblaðið spyr svo að lokum: "- Er hætta á að hluti þessa nemendahóps dragist aftur úr?"

Þorkell Daníel Jónsson skólastjóri  segir að ," Það er  vissulega hætta á því.«"

 Og það eru ekki bara nýbúarnir heldur hinir íslensku nemendur sem dragast aftur úr til tjóns fyrir okkar íslenska samfélag. Það bað ekki  um þessa nýbúa til þess verks að vinna skaða á okkar skólasamfélagi heldur var þessu fólki stundum þröngvað upp á okkur. Við sitjum uppi með gerðan hlut og verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur tl að veita því menntun svo það geti aðlagaðst samfélaginu.

 

En við megum ekki láta það kosta hvað sem er. Við megum ekki gera erlendum börnum lífið óbærilegt í skólum þar sem þau geta ekki fylgst með. Við megum ekki eyðileggja námið fyrir íslenskum börnum sem geta lært vegna þess að tíminn fer í að kenna útlendingum íslensku. Og svo bætast trúmálin inn í þetta til að fullkomna verkið að rifa grunninn undan grunnskólanum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband