Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

Heyr á endemi Ólína Kérúlf

hvaðan í veröldinni kemur þér sú viska að ríkisstjórnin okkar sé komin á enda og eigi að fara frá? Um þetta bullar þú á Sprengisandi rétt í þessu.

Veistu ekki að hún hefur 38 Alþingsimenn á móti ykkur tætingsliðinu sem vitið ekki hvert þið eigið að horfa til að finna hvaðan vindurinn blæs? 

Mér finnast það svik við mig sem átti þátt í því að koma þér sem lengst frá völdum að fá ekki lengra frí frá þér og þinni visku. Ég krefst þess að stjórnin sitji út kjörtímabilið bara til þess að halda þér áhrifalausri sem allra lengst.

Heyr á endemi Ólína Kérúlf.


Engum manni er Trump líkur

"at hvatleik sínum og áræði."

-og þó.

Nú segir hann flokksstjórn Republikanaflokksins míns að hann ætli að hafa hamskipti-Metamorhosis. Verða Forsetalegur í tali hér eftir og segja skilið við stórkarlalega fortíð framboðsins síns. Hann sér sigurinn í augsýn og skiptir um gír. Enginn frýr honum vits fremur en Hvamm-Sturlu.

Einn sem einhverjir þekktu tók sér tvö kjörtímabil í það að breyta sér úr kommúnista og andstyggð góðra manna yfir í landsföður. Og svo aftur í eftirlætisgoð millanna. Og svo aftur í landvætti sem sumir barnslegir sóru eiða á hættustundu. Engu breytir þó vissulega hafi komið timar sem í lífi Hrafnkels Freysgoða. Þeir eru skuldbundnir sjálfum sér og eið sínum og geta hvergi flúið sjálfa sig fremur en Hrafnkell gat.

Því er fróun í því fólgin að fylgja líka erlendum kappa í anda og hvika hvergi fremur í trúnaði við hann.

Því engum manni er Trump líkur þar westanhafs að "hvatleik sínum og áræði".


Friðkaupastefna

var á sínum tíma búið til sem heiti á undansláttarpólitík Neville Chamberlain við ágangi Adolf Hitlers. Friður um okkar daga sagði Chamberlain heimkominn af Münchenarfundinum með Adolfi og Bretar fögnuðu honum skiljanlega heilshugar. Alltof margir mundu hryllinginn í forinni í Flanders. Hann var kallaður urrandi stríðsæsingamaður úti í horni hann Winston Churchill, þessi "hálfameríska fyllibytta" eins og Hitler kallaði hann.

Það er merkilegt að í stjórnmálum verða menn alltaf að taka út sársauka á sjálfum sér áður en þeir hverfa frá trúnaði við þá sem segja að allt reddist þetta blessunarlega eins og Chamberlain virkilega vildi. Núna upplifum við svipaða tíma gagnvart ágangi Islam. Við kaupum frið af þeim en þeir láta ekki staðar numið frekar en Adolf. Þeir eru einbeittir í illsku sinni eins og hann. Við hrekjumst undan frá einni skotgröf í aðra.

Jón Magnússon gerir hina nýju friðkaupastefnu leiðtoga Vesturland að umtalsefni í grein í Morgunblaðinu í dag.

Fyrir  þá sem ekki lesa Morgunblaðið set ég greinina hér í þeirra von að einn og einn sérvitringur slysist á að að lesa hana hér. Jón segir:(Bloggari beitir feitletrunum að eigin vali)

"Þann 31. október 1934 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli valdstjórnarinnar gegn Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi og dæmdi hann í 200 króna sekt fyrir þá landráðasök að hafa móðgað kanslara Þýskalands, Adolf Hitler, með því að kalla hann blóðhund. Þáverandi dómsmálaráðherra höfðaði málið að kröfu þýskra stjórnvalda.

Þann 15. apríl 2016 ákvað Angela Merkel Þýskalandskanslari að höfða mál á hendur grínistanum Jan Böhmermann að kröfu tyrkneskra stjórnvalda fyrir að móðga forseta Tyrklands með því að segja að hann kúgaði minnihlutahópa, kristið fólk og Kúrda.

Þann 26. september 2015 var ráðstefna í danska þinghúsinu í Kaupmannahöfn. Fjallað var um Múhameðsteikningarnar í Jótlandspóstinum og tjáningarfrelsið. Liðin voru 10 ár frá birtingu þeirra. Rithöfundurinn og blaðamaðurinn Henryk Broder flutti þar erindið „Say goodbye to Europe“. Spurður eftir erindi Broders hvernig mér hefði fundist það svaraði ég að þetta hefði nú verið meira svartagallsrausið. Í erindi sínu vék Broder að takmörkun tjáningarfrelsis í Evrópu, sérstaklega þegar vikið væri að íslam. Hann sagði m.a. að Evrópa hefði framið sjálfsmorð á grundvelli hugmynda um frið, umburðarlyndi og fjölmenningu. Heigulsháttur og hugmyndafræðileg uppgjöf Evrópu væri í dularklæðum umburðarlyndis.

Þann 25. október 2015 sá ég að Broder hafði rétt fyrir sér. Þá virti Sjálfstæðisflokkurinn ekki tjáningarfrelsið og kom í veg fyrir málefnalega umræðu um málefni flóttamanna og hælisleitenda. Þegar flokkur sem kennir sig við einstaklingsfrelsi og einstaklingshyggju virðir ekki tjáningarfrelsið stendur hann ekki lengur fyrir þær hugsjónir sem hann var stofnaður til að standa vörð um. Heigulsháttur og hugmyndafræðileg uppgjöf birtist þar í dularklæðum umburðarlyndis.

Angela Merkel hefur ákveðið að ríkisstjórn Þýskalands skuli ráðast gegn tjáningarfrelsinu og ákæra listamann fyrir grín um Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta að ósk hans. Erdogan hefur fangelsað alla blaða- og fréttamenn Tyrklands sem hafa vogað sér að gagnrýna hann og benda á staðreyndir um stjórnarfarið í Tyrklandi. Ákvörðun Merkel um að ríkið ákæri listamann að kröfu Erdogans er tekin þrátt fyrir að Erdogan hafi sjálfur höfðað mál gegn listamanninum fyrir saksóknara í Mainz. Frægasti sonur Mainz er Johannes Gutenberg, sem fann upp prentvélina, sem varð upphaf nútímalegrar tjáningar. Óneitanlega sérstæð tilviljun. Það er dapurlegt að svo skuli komið fyrir Kristilegum demókrötum í Þýskalandi, flokki Konrads Adenauer, sem nasistar sviptu embætti og komu í útlegð, að hann skuli standa fyrir aðför að tjáningarfrelsinu.

Á sama tíma fordæma Græningjar í Þýskalandi Merkel og segja að hún hefði átt að gera Erdogan það ljóst að það sé tjáningarfrelsi í Þýskalandi og segja honum að virða tjáningarfrelsið heima hjá sér. Formaður Sósíaldemókrata í Þýskalandi fordæmir ákvörðunina, hún samrýmist ekki nútímalýðræði. Flokkar hægrimanna í Evrópu stóðu vörð um tjáningarfrelsið þegar sótt var að frelsi og mannréttindum á grundvelli heildarhyggju kommúnismans.

Nú er sótt að frelsi og mannréttindum á grundvelli heildarhyggju íslam. Þá bregðast helstu flokkar hægrimanna í Þýskalandi og Íslandi. Hlutlægar, málefnalegar umræður um íslam og málefni innflytjenda eru ekki heimilaðar og Kristilegi demókrataflokkurinn í Þýskalandi stendur fyrir pólitískri ákæru á hendur listamanni að kröfu blóðhundsins Erdogans Tyrklandsforseta. Hugmyndafræðileg uppgjöf stjórnenda þessara flokka er alger.

Fyrir tíu árum vísaði Anders Fogh Rassmusen, þá forsætisráð- herra Dana, sendimönnum íslams út þegar þeir kröfðust þess að hann bannaði Múhameðsteikningarnar í Jótlandspóstinum og þeim yrði refsað sem bæru ábyrgð á gerð þeirra og útgáfu. Anders Fogh benti þessum kauðum á að í Danmörku væri tjáningarfrelsi og ríkisstjórnir legðu ekki hömlur á það.

Tjáningarfrelsið er mikilvægustu mannréttindi á hugmyndafræðilegu markaðstorgi lýðræðisþjóðfélaga. Reynt er að vega að því með margvíslegum hætti. Íslamistar og taglhnýtingar þeirra ákæra fólk eins og Oriönu Fallaci, sem nú er látin, Mark Steyn, Geert Wilders o.fl. o.fl., sem staðið hafa fyrir málefnalegri umfjöllun um íslam. Ruglaðasti hópur stjórnmála- og háskólaelítunnar úthýsir málefnalegri umræðu m.a. með því að rugla hugtakið hatursumræða og banna eða útvísa umræðu um mikilvæg þjóð- félagsmál.

Innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins skipar sérstakan lögreglufulltrúa til að koma í veg fyrir málefnalega umræðu fari hún yfir þau geðþóttamörk sem þöggunarsinnar telja heimila. Skoðanalögregla Reykjavíkurborgar lúsles skrif borgarstarfsmanna að næturþeli og veitir þeim tiltal að geðþótta.

Lýðræðissinnar, hvar í flokki sem þeir standa, verða að rísa upp gegn þeirri ógn sem sóknin gegn tjáningarfrelsinu er. Sókn sem vegur að mikilvægustu mannréttindum og lýðfrelsi. Það verður að gera á sama grundvelli og lýðræðissinnar brugðust við heimsyfirráðastefnu kommúnismans. Nú snýst málið um heimsyfirráðastefnu öfga íslam."

Skaðaðu ekki skálkinn svo hann skemmi þig ekki var góð og gild aðvörun til þeirra sem vildu forðast slagsmál. Hin nýja friðkaupastefna þess liðs sem nú tranar sér mest fram á leiksviði stjórnmálanna reynir að þagga alla gagnrýna umræðu niður með upphrópunum um rasisma og nasisma.

Munu þeir tímar koma að menn iðrist þeirra friðkaupa sem nú standa yfir?

 


Gleymið ekki öllu

því sem Ólafur Arnarson skrifaði 15.nóvember 2011 á Pressunni um þátt þáverandi fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar um innheimtur skulda íslenskra heimila eftir hrun.

Þá voru einnig völdum skuldakóngum gefnar upp sakir samkvæmt sérstökum dauðalista stjórnvalda sem voru Norræna Velferðarstjórnin þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Sú stjórn átti það eina hreina stefnumál eftir að troða Íslandi í ESB með illu fremur en góðu.En sú stjórn var látin lifa sjálfa sig átölulaust og umboðslaus í hálft kjörtímabil án þess að tunnur væru barðar og eldar kveiktir.

 

Ólafur skrifar m.a. svo:

"Þetta vekur stórar spurningar. Hvenær vissi FME að vogunarsjóðir ættu miklu meira en helming krafna í gömlu bankana? Alþjóðlegir fjármálamarkaðir hafa vitað þetta frá því á árinu 2009 og ég benti á það í pistli í maí 2009 að upphaflegir lánveitendur íslensku bankanna væru búnir að selja skuldabréfin í þeim á hrakvirði en fjármálaráðherra seldi ekki bankana í hendur kröfuhafa fyrr en árið 2010, með samþykki FME. En hvenær vissu fjármálaráðherra og forstjóri FME af þessu? Vissu þeir kannski aldrei neitt í sinn haus?

Fjármálaráðherra og forstjóri FME skulda skýringar á því hvers vegna þeir færðu hrægammasjóðum íslenska bankakerfið á silfurfati. Ráðherrann hafði enga lagaheimild til að selja hlut ríkisins í nýju bönkunum og FME virðist hafa gefið blessun sína þrátt fyrir það og þrátt fyrir að kaupendurnir væru alræmdustu spákaupmenn samtímans – þeir hinir sömu og áður höfðu hagnast á því að taka stöðu gegn Íslandi á afleiðumörkuðum í aðdraganda hruns.

Íslenska þjóðin hlýtur að geta krafist skýringa á því hvers vegna fjármálaráðherra seldi vogunarsjóðum bankana og skotleyfi á skuldara án lagaheimildar og komst upp með það. Myndum við ekki krefjast rannsóknar ef yfirvöld gerðu samning við dæmda barnaníðinga um dagvistun barna?"

Þetta er sami fjármálaráðherrann og ætlaði að leggja Icesave á herðar íslenskra skattgreiðenda með Svavars(Gestssonar)samningunum "glæsilegu". Þeir samningar hefðu þýtt að 280 milljarðar hefðu verið á gjalddaga núna sem vextir af skuldinni sem væri öll eftir ógreidd.

Þessi maður var formaður Vinstri Hreyfingarinnar,-Græns Framboðs, skammstafað VG. Hann setti svo Katrínu Júlíusdóttur fyrir sig af klókindum til að hafa fallegri framhlið út á við þar sem hann hafði sjálfur hlotið nokkuð blendið rygti eftir sínar lækningatilraunir efnahagsmeina.

Enginn velktist þá í vafa hver þó réði mestu um för VG frá fámennum leiktjaldasýningum félagsins, hver legði öll ráð, hver hefði hin raunverulegu völd. Þetta virkaði svo vel að sakleysingjar íslenskir í skoðanakönnunum hafa mest traust á Katrínu þessari Júlíusardóttur til allra stjórnmálastarfa. Það virðist engar spurningar hvarfla að þeim hvort hún sé hinn engifríði holdgervingur traustsins eða aðeins strengjabrúða hins reynda stjórnmálarefs sem hefur setið 33 ár á Alþingi?

Svo blessaði Guð Ísland eftir hrunið og fyrirsjáanleg svik Samfylkingarinnar sem allir núverandi forystumenn þess félags stóðu að, að þessi kaleikur var frá íslenskri þjóð tekinn. Í heimi fjölmiðlanna var Samfylkingin ekki einu sinni í hrunstjórninni heldur bara Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn einn og óstuddur.

Almenningur er hinsvegar aldrei minntur á það að þessi stjórn bjargaði þjóðinni með neyðarlögunum svo langt sem hún náði áður en hún var barin út með trumbuslætti og brennum Austurvallarindíánanna.Heljartök þessa liðs á meirihluta fjölmiðlunar landsmanna hræra samt steypuna allar götur síðan með rangupplýsingum, rógi og hálflygum, svo að stór hluti hennar trúir því að tunnubarsmíðar fárra þúsunda eigi að ráða stjórnsýslu lýðveldisins.

 

Frá dögum Brunos virðist alltaf hægt að finna heilaga einfeldninga til að leggja sprek í bálkesti feigðarinnar. Það er það verkefni sem Steingrímur heldur að sínu sporgöngufólki með stuðningi meirihluta fjölmiðlanna,  því hvenær sem upp kemur álitamál er hann eða Katrín spurð fyrst um álit.

Það væri óskandi að einhverjir myndu ekki gleyma sögunni þegar Austurvallarsöfnuðurinn er búinn að berja styttingu kjörtímabilsins og núverandi hagvaxtartímabils inn í stjórnskipunina. Búið að ná fram skaða á efnahag þjóðarinnar og lífskjörum  með því að koma henni hálfu ári  fyrr í hendur fákunnáttu og draumlyndis. Andri Snær Magnason, Hallgrímur Helgason,Birgitta Jónsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Árni Páll Árnason skipa framvarðasveit hins nýja Íslands. Ráðgjafarnir verða Steingrímur J. Sigfússon, Magnús Orri Schram og Helgi Hrafn Gunnlaugsson.

"Íslands ógæfu verður allt að vopni" sagði maðurinn. Það væri æskilegt að þið kjósendur gleymið samt ekki öllu strax og hoppið í kanálinn þó að ykkur sé daglega sagt að gera það af RÚV, Fréttablaðinu, Stöð2 og 101 liðinu.


Hversvegna er ég snuðaður?

um fríið frá því að hafa vinstri villingana yfir mér í landstjórninni? Það átti að standa í full fjögur ár. En nú heimta þeir afslátt og fá hann hjá mínum mönnum sem ég kaus.

Ég kaus þá frá því þeir gerðu mér ekkert nema óleiki og andstyggilegheit á alla enda og kanta og sátu heilt kjörtímabil siðferðilega og tæknilega steinrotaðir.Þeir sátu og sátu og kvöldu land og lýð. Enginn barði tunnur þess vegna.Aumingjar sem við erum alltaf íhaldið.Að .þora ekki að berja þetta lið sundur og saman á Alþingi.

Af hverju er verið að taka af mér nærri þrjá fjórðu úr ári sem ég á inni af fríi frá þeim? Af hverju á að hugsanlega að dæma mig til vistar undir landsstjórn Birgittu Jónsdóttur sem ég vantreysti mjög til þeirra verka. Ég gæti meira að segja endað með þessa mánuði undir Steingrími J. Sigfússyni sem ég þoli alls ekki vegna fyrri reynslu.

Af hverju á að snuða mig um fríið af því að einhver háttsettur Tortólugaur úr Samfylkingunni lemur olíutunnur á Austurvelli? Eru það Framsóknarmennirnir sem bregðast svona við alltaf til vinstri ef á reynir?

Vilhjálmur Bjarnason skrifar góða grein um snuðarahátt Framsóknar í Moggann í dag sem allir ættu að lesa. Þeir eru líklega gerendurnir í friðkaupastefnunni.


Þroskaður frambjóðandi

er kominn fram og býður fram þjónustu sína.

Þannig lýsir Forsetaframbjóðandi sjálfum sér og Íslendingum: 

Að vera Íslendingur er eins og að eiga þroskaheftan síamstvíbura,“ segir Andri Snær Magnason rithöfundur á Facebook síðu sinni í kvöld. Þar lýsir hann óánægju sinni með kjósendur Framsóknarflokksins á satírískan máta en formaður flokksins tilkynnti í dag að hann hefji formlegar viðræður með Sjálfstæðisflokknum um stjórnarmyndun.

Svohljóðandi er satíra Andra Snæs: „Ég kaus Framsókn vegna þess að mér var lofað 100% láni og hlustaði ekki á viðvaranir um ofþenslu á sama tíma og Kárahnjúkar voru í byggingu en þegar kerfið hrundi kaus ég Framsókn til að lækka lánið sem ég tók þrátt fyrir aðvaranir því það á að sækja 300 milljarða til útlendra sílamáfa og láta mig fá þá beint í vasann í staðinn fyrir að borga skuldir ríkissjóðs þótt viðskiptahallinn aukist þegar ég sólunda aurnum núna fyrirfram en það má sprengja upp krónuna tímabundið með ati í Helguvík og ef ég missi húsið í því hruni þá get ég kosið Framsókn út á lolololoforð um 100% lán og ... ehh að vera Íslendingur er eins og að eiga þroskaheftan síamstvíbura."

Mikið rosalega er gott að vita af því að þjóðin skuli eiga og framfæra svona snillinga með 18 milljónum fyrir eina bók  til að sækjast eftir Forsetaembættinu.Já, það er orðin breyting á frá dögum Bólu-Hjálmars.

Hvað er eiginlega að mér sjálfum að virða íslenskt þjóðerni, tungu og sögu og vilja varðveita þetta?

Ég hlýt að vera þessi þroskahefti bróðir rithöfundarins.


Trump fer á toppinn !

Fram kem­ur í frétt AFP að Trump hafi fengið 60,5% at­kvæða en John Kasich 25,1% og Ted Cruz 14,5%. Cl­int­on hlaut 57,9% at­kvæða en keppi­naut­ur henn­ar, öld­unga­deild­arþingmaður­inn Bernie Sand­ers 42,1%. 

Þennan mann vilja 101 liðar hérlendis og hafa til þess stuðning vinstri fjölmiðlaelítunnar úrskurða að sé fífl? Hvað hæfileikum þarf maður ekki að búa yfir til eð gera þetta sem Trump gerir á eigin vegum? 

Vonandi verðu þessi maður Forseti Bandaríkjanna en ekki klækjakvendið Hillary. En um ótrúlegan svika-og blekkingaferil Clinton hjónanna má lesa á netinu, frá Whitwater og síðan áfram.Hreint ótrúleg lesning.

Trump fer á toppinn hvað sem 101 segir!


Froðusnakk

 

og innantómt bull um eitthvað sem er ekki til og verður aldrei er farinn að einkenna málflutning vinstri manna eins og Magnúsar Orra Schram sem kynnir nú sjálfan sig til leiks sem væntanlegan samnefnara þessarar hjarðar.

Óli Björn Kárason tekur þetta til umræðu í ágætri grein í Morgunblaðinu í dag. Ég gríp níður í henni og feitletra að vild:

 

"Fulltrúar vinstri flokkanna sem mynda meirihluta borgarstjórnar boðuðu til málfundar síðastliðinn laugardag í Iðnó að frumkvæði Magnúsar Orra Schram, sem sækist eftir að verða formaður Samfylkingarinnar. Ræddir voru möguleikar til „samvinnu umbótaaflanna á næsta kjörtímabili,“ eins og sagði í fundarboði.

Reykvíkingar hafa kynnst „umbótaöflunum“ síðustu árin; gatnakerfið er í molum, fjárhagur borgarsjóðs ósjálfbær enda eytt um efni fram, skorið er niður hjá leikog grunnskólum en ráðist í fjárfrek gæluverkefni, stjórnkerfið þanið út, þjónusta við eldri borgara skert, götur eru skítugar og borgin sóðaleg. „Umbótaöflin“ í Reykjavík vilja víkka út samvinnuna og láta hana ná til landsins alls að loknum þingkosningum. Ríkisstjórn vinstri flokkanna er í undirbúningi, pökkuð inn í umbúðir hljómfagurra orða.".......

 

"..Það eru öfl sem vilja nýja gerð af pólitík og nýjar áherslur í stjórn landsmála. Það er mikill áhugi á að reka nýja gerð af pólitík, segja skilið við þessa gömlu pólitík og reka framtíðarpólitík.“..

 

".. Þeim fellur betur að nota klisjur og innantóma frasa; ný gerð af pólitík, framtíðarpólitík, samræðupólitík, heiðarlegri stjórnmál, lýðræðislegur farvegur og öðruvísi pólitík.

Orðskrúð veitir litla innsýn í hugsjónir eða fyrir hvað viðkomandi stjórnmálamaður eða -flokkur stendur. Aðeins sagan og reynslan gefur kjósendum möguleika á því að meta hvers megi vænta þegar og ef ríkisstjórn „umbótaaflanna“ tekur við völdum.

Í Reykjavík er alvarleg staða borgarsjóðs lítið áhyggjuefni þeirra sem boða „nýja pólitík“. ..

Með svipuðu hugarfari verður tekist á við ríkisfjármálin. Vandinn verður alltaf skilgreindur þannig að nauðsynlegt sé að auka tekjur, þ.e. hækka skatta og álögur.

Þetta vita borgarbúar og þetta upplifðu landsmenn í tíð síðustu ríkisstjórnar „umbótaaflanna“, sem hækkaði skatta jafnt á almennt launafólk sem á fyrirtæki.

 

... Borgarstjóri fór í felur þegar fjölmiðlar vildu upplýsingar um hvað ætti að gera til að lagfæra götur borgarinnar. Embættismaður var látinn svara. En að lokum náðu fjölmiðlar í borgarstjóra sem sagðist hafa sett sig í samband við „vegamálastjóra og bæjarstjórana á höfuðborgarsvæðinu“ og menn hefðu „miklar áhyggjur af stöðu gatnakerfisins“.

Nokkrum vikum síðar hafði borgarstjórinn samband við fjölmiðla og lét þá vita að hann yrði á dekkjaverkstæði. Fjölmiðlar mættu, tóku myndir og hugguleg viðtöl við borgarstjórann í vinnugalla með loftpressulykil að vopni...(Hugsið ykkur! Fellur kjósandi Samfó fyrir þessu? innskot bloggara)

 Framtíðarpólitíkin hefur endaskipti á hlutunum og þingræðisreglan er hundsuð þegar það hentar.

 

Í þættinum Eyjan á Stöð 2 síðastliðinn sunnudag lýsti Magnús Orri áðurnefndum fundi: „Maður fann að fullt fullt af fólki úr ólíkum áttum, ekki alltaf sammála, en það var sammála um einhver grunngildi, einhverja nálgun og það var líka sammála um það að ef við erum ósammála

þá förum við með deiluefnið í lýðræðislegan farveg, eins og til dæmis ESB-málið.

... Magnús Orri greiddi atkvæði gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu vinstri stjórnarinnar yrði sett í „lýðræðislegan farveg“ í júlí 2009. Þannig var almenningur aldrei spurður álits um hvort rétt væri að óska eftir aðild. Hið sama gerðist nokkrum mánuðum síðar.

Þá tók Magnús Orri þátt í því að fella tillögu Péturs heitins Blöndal um þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans.

 „Umbótaöflin“ í samsteypustjórn Samfylkingar og Vinstri grænna töldu ekki ástæðu til að segja af sér og boða til kosninga, ekki frekar en þegar stjórnin missti þingmeirihluta. Þannig hefur „opnari pólitík“ og „meiri auðmýkt“, sem Magnús Orri talar fyrir, birst kjósendum á síðustu árum.

 Eftir hannaða atkvæðagreiðslu var niðurstaðan sú að Geir H. Haarde stóð einn frammi fyrir Landsdómi. Síðar reyndi formannsframbjóðandinn að réttlæra ákæruna á hendur fyrrverandi forsætisráð- herra og skrifaði í Fréttablaðið 14. maí 2011:

„Með því er ekki sagt fyrir um sekt eða sakleysi, enda er það landsdóms að komast að efnislegri niðurstöðu og ber ég fullt traust til þess að þar njóti Geir sanngjarnrar og réttlátrar málsmeðferðar og að málinu ljúki með efnislega réttri niðurstöðu.“

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 16. desember sama ár gekk Magnús Orri lengra og spurði hvort ekki væri farsælast fyrir Geir H. Haarde, væri hann saklaus, „að fá stimpil á það frá Landsdómi um að svo sé“. Þannig er „heiðarlegri“ pólitík fólgin í því að hafa endaskipti á hlutunum og ganga gegn meginreglu réttarríkisins um að enginn sæti ákæru, nema því aðeins að meiri líkur en minni séu taldar á sakfellingu.

....... Þannig skýrast línurnar í íslenskum stjórnmálum, þótt kjósendur séu lítt fróðari um stefnu „umbótaaflanna“ sem hafa tileinkað sér frasa og fagurgala; umbúðastjórnmál án innihalds "

Maður er í rauninni gáttaður á að lesa þessa samantekt Óla Björns.

Ef það er einhver sem finnst þessi málflutningur Magnúsar Orra Schram vera í lagi, þá hefur sá sami skilið Samfylkinguna í botn sem stjórnmálaafl froðusnakks og glamuryrða.


Hver á leik?

núna þegar Ólafur Ragnar er búinn að frelsa okkur frá því að þurfa að kjósa 7 % Forseta?

Verður ekki að breyta einhverju í Stjónarskránni? Hvernig er það ferli?

Hvaða ráðmenn ætla að sjá um þeta mál? Eða er þeim slétt sama?

Hver á leik ef okkur er ekki sama?


Nýja vinstrið

ætlar að verða svipað og gamla vinstrið þó að vinstri Píratar hafi bæst í hópinn á helginni. Væntanlega skilar hægri helmingurinn af sjóræningjaflokknum sér til föðurhúsanna án þess að mikið upphlaup verði.

Það sem er aðeins fyrirkvíðanlegra við næstu stjórnarskipti er að vinstri menn eru miklu röskari til illra verka en hægri menn. Þeir  eru enga stund að gera hundrað breytingar á skattkerfinu sem næsta hægri stjórn þykist ætla að rúlla til baka en tímir ekki að skila aurunum strax.

Allt þetta þekkjum við. Illhuga-liðið sem lemur og ber allt sem nærtækt er knýr fram breytingar eins og styttingu kjörtímabilsins sem enginn vitiborinn maður sá neina ástæðu til. Allt til að þóknast Austurvallarskrílnum.

Það er ekki víst að afskipti Ólafs Forseta af væntanlegum stjórnarmyndunarviðræðum verði á þann veg sem öllum líkar. Hann er ólíkindatól karlinn þó að við treystum honum betur en mörgum öðrum.

En það er eins og eitthvað illkynja mein hafi sest að í þjóðarsálinni. Illur hugur er ræktaður gegn öllum stjórnmálamönnum sem ekki eru sannfærðir vinstrimenn og öreigar? Staðalímynd af stjórnmálamanni er að verða sú að þar sé á ferð gjörspilltur einstaklingur sem eigi enga aðra hugsjón en að stela sem mestu fyrir sig og sína? Hann þekki ekki hugsjónir um að vinna fyrir fólkið heldur bara að eigin hag?

Er skýringin sú að allt of margir úr stjórnmálastétt bregðast trausti fólks?  Er ef til vill komið að því að það verði að rannsaka feril og fortíð allra sem bjóða sig fram miklu harðar en nú er gert áður en listarnir eru settir fram?

Er einhver trygging fyrir því að byltingar skili betra fólki fram? Hvað um kenninguna sem segir að summa lastanna hjá mannskepnunni sé yfirleitt föst stærð? Maður kjósi þennan frá til að bæta haginn en fái svo einhvern steingrím i staðinn sem er miklu verri?  

Munu næstu kosningar skila einhverju öðru en við höfum? Og verður nýja vinstrið betra en það gamla sem er þegar tekið við að kenna því nýja?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband