Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Það er dapurlegt

að maður fái bréf frá Sjálfstæðismanni sem lýsir svona hugsunum:

"Ég var stoltur af því að kenna mig við Sjálfstæðisflokkinn. 

Byrjaði 1974 og þá bara 12 ára

að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá var

kosningayfirlýsingin "Varist vinstri slysin".

Seinna var það "Báknið burt"

 

Núna horfi ég uppá eitthvað sem ég hefði

aldrei trúað. 

 

Forystan er ekki í tengingu

við grasrótina. Forystan virðir ekki samþykktir

landsfundar. Eins og þær hafi ekki verið til.

 

Forystan hagar sér EKKI eins og

sjálfstæðismenn, heldur algjörir lúserar

með eigin hagsmuni í forgangi.

 

Ekki þjóðar.

 

Nafnið sem slíkt, Sjálfstæðiflokkur, ætti að vera

nógu hvetjandi fyrir alla til að kjósa: Sjálfstæðisflokkurinn stétt með stétt.

 

Það vísar í þann grunn sem allir vilja vera í."

 

Hugsið ykkur hvað það er dapurlegt fyrir mann sem Sjálfstæðismann að fá svona tilskrif.

Að flokksmenn séu almennt ekki að tala flokkinn upp úr 19.8% fylginu sem hann er kominn niður í  heldur eitthvað sem stefnir bara niður.Enginn eldmóður, enginn baráttuandi, engin gömul grundvallaratriði. Þess í stað orkupakki,17 nýir aðstoðarmenn,  meira EES og refsiaðgerðir gegn Rússum.

Ég get sjálfur ekkert gert í neinu vegna aldurs og sit líklega ekki fleiri landsfundi Sjálfstæðisflokksins. En eins og Douglas McArthur orðaði það, þá deyr gamall hermaður samt aldrei heldur bara dofnar og hverfur sýn.

En að það skuli vera sjálfstæðismaður frá 1974 sem er að hugsa svona finnst mér samt dapurlegt. 


Sannleikurinn um CO2

er þessi:

CO2 hefur ekki verið lægra í andrúmslofti jarðar í 800 milljón ár.

average-global-temperature Ýmsir loftslagfræðingar hafa veri að reyna að draga þetta línurit í efa og segja að sé teygt á skalanum á endanum komi sannleikir IPPC í ljós. Þetta er alrangt því að ppm af CO2 er lágt.

Það sést glöggt á næstu mynd:

 

 

CO2 í 800000ár Þetta sýnir að allar niðurstöður fjörtíuþúsund fífla AlGore í París eru byggðar á bulli sem er að stórskaða efnahag Íslands og fleiri.

Nú blæs RÚV í herlúðra í dag og fimbulfambar um nýja skýrslu 300 bandarískra vísindamanna sem breytu öllu fyrir Bandaríkin.Þetta er dæmigerð falsfrétt sem breytir engu.

Nature er að enda við að birta grein sem sýnir að hitnun hafanna hefur aukið við magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu en ekki öfugt. Og af hverju hitnar á jörðinni? Hver leggur til hitann. Hver er það sem getur breytt hitastigi jarðar? getur enginn horft til sólar?

Og svo stíga milljónir tonna af allskyns gösum upp frá jöklunum okkar og hverasvæðum og eldfjöllum. Og ráðamenn okkar eru tilbúnir að senda Evrópusambandinu tékka fyrir þessu öllu sem við borgum með sköttunum.

Að hugsa sér að við skulum kjósa þetta fólk með opnum augum þegar sannleikurinn um CO2, sem gerir jörðina græna, blasir við.

 


Gengur sameiningin eftir?

sem hvatt var til á þessari síðu 15.ágúst s.l.

Þá var sagt hér:

"WOW

 

vill fá 12 milljarða svo að félagið geti haldið áfram á sömu braut. Þessir milljarðar eru nóg til næstu tveggja ára svo við getum haldið áfram að kaupa ódýra farseðla.

Warren Buffet er víst ekki líklegur að kaupa í flugfélagi eins og WOW eða Icelandair. Af hverju skyldi honum þykja svona vænt um peninga? Það er nú eitthvað annað með íslenska lífeyrissjóðapeninga. Sagði ekki einhver að þeir væru stundum án hirðis?

Af hverju voru Flugleiðir stofnaðar á sínum tíma? Hafa Íslendingar ráð á tveimur forstjórum í sitt hvorum sandkassanum eða verðum við ekki að hugsa um stóru myndina: Samgöngur við landið  eða ekki samgöngur?

VOFF VOFF!" 

Nú er verið að reyna að tryggja íslenskar flugsamgöngur til og frá landinu. Vonandi tekst það. En er ástæða til að vera að burðast með þetta WOW? Er þetta einhver nauðsynlegur minnisvarði um skuldasöfnun og niðurboð  Skúla Mogensen?

Þurfum við nema eitt merki og  eina tegund flugvéla? 

Gangi sameiningin eftir verður ekki skynsemin að ráða?


3.orkupakkinn enn

sem forystan án flokksins ætlar að berja í gegn um Alþingi?

Elías Elíasson lýkur grein sinni um málið í Morgunblaðinu í dag svofellt:

" Það er einnig ljóst, að með viðbótarreglugerð ESB nr. 347/2013 verður allt vald um það hvort hér kemur sæstrengur eða ekki tekið úr höndum íslenskra stjórnvalda og fært í hendur framkvæmdastjórnarinnar. Í samningaviðræðum um skiptingu kostnaðar milli landa verður landsreglarinn síðan fulltrúi Íslands, en má þó ekki taka við fyrirmælum íslenskra stjórnvalda, heldur verður að fylgja reiknireglum og viðmiðum sem ESB setur einhliða.

Eftir sæstreng stýrir ACER útflutningi orku frá Íslandi. Sæstrengur á forsendum þriðja orkupakkans með viðbótum er glapræði fyrir Ísland.

Sú tenging við orkukerfi Evrópu er meginmarkmið landsreglarans og til þess eru refirnir skornir. Annaðhvort stjórnar rafmagnið auðlindinni eða auðlindavinnslan stjórnar rafmagninu. Af eðlisfræðilegum ástæðum er ekki um annað að ræða.

Auðlindir Íslands eru undanskildar EES-samningunum og ekki var litið svo á, að fyrsti orkupakkinn eða sá annar breyttu því. Uppskipting fyrirtækja og ákvæði um jafna stöðu þegna ESB-ríkja til stofnunar og reksturs fyrirtækja hér var ekki heldur talið koma auðlindinni við.

En þegar orka auðlindarinnar er sett undir stjórn landsreglara sem er háður framkvæmdavaldi ESB, en óháður íslenskum stjórnvöldum þannig að þau hafa ekki lengur aðkomu að auðlindavinnslunni, þá er of langt gengið"

Og sá möguleiki er alveg opinn að ESB leggi sæstreng til Íslands fyrir eigin reikning. Varla stæði á fullveldissöludeildinni að samþykkja landtökubeiðnina þegar slík verðmæti eru boðin fram?

Hvar verður þá þýðingarleysi 3.orkupakkans og markaðsvæðingarinnar?


Gömlu tímarnir komi aftur

er það sem söngurinn um afnám verðtryggingar á útlánum til allra gengur út á. Söngurinn dunar á Útvarpi  Sögu allan liðlangan daginn og veður uppi á dagblöðum. Aldrei er minnst á það hversvegna verðtryggingin var sett á í upphafi.

Vilhjálmur Bjarnason lýkur grein sinni í Morgunblaðinu í dag svofellt:

"Arfur heimastjórnar

Þegar horft er til baka felst arfur heimastjórnarinnar í nokkrum þáttum. Það tókst að koma á mögnuðum deilum í sáraeinföldu máli. Það var símamálið. Það var nógu einfalt til að allir hefðu vit á því. Þannig var farin hópreið til Reykjavíkur til að berjast gegn lagningu landsíma. Sennilega hafa forystumenn þeirrar suðurreiðar talið að GSM-símar væru á næsta leiti árið 1906.

Önnur arfleifð er hús Landsbókasafns Íslands, Safnahúsið við Hverfisgötu. Það er falleg bygging og vel gerð þrátt fyrir þyngd sína.

Þriðja arfleifðin sem nefna mætti er Tjarnargatan. Þar byggðu hinir danskmenntuðu embættismenn heimastjórnarinnar hús sín. Þau hús eru úr takti við önnur íbúðarhús á þeim tíma.

Álitamál er hvort þeir sem þar byggðu hafi fengið lán hjá nýstofnaðri veðdeild Landsbanka Íslands. Í lögum nr. 1/1900 segir: „Í Landsbankanum í Reykjavík skal stofna veðdeild til þess að veitt verði lán um langt árabil og með vægum vöxtum gegn veði í fasteignum.“

Hvaðan átti lánsfé að koma?

Með þessum lagatexta var lagður grunnur að því að færa lántakendum sparifé landsmanna á silfurfati.

Þetta var áður en hugtakið verðbólga varð til, það hugtak var kallað dýrtíð.

Til eru þeir sem vilja taka þennan dýrðartíma upp aftur, að taka sparifé frá börnum og öldruðum og færa þeim sem byggja við tjarnargötur hvers tíma, gegn vægum vöxtum, en það þýðir á skiljanlegu máli að borga ekki til baka í jafnvirði. Þennan arf heimastjórnarinnar er enn verið að takast á við."

Annað nefnir Vilhjálmur í grein sinni. En það er að Framsóknarflokkurinn var stofnaður í landlegugleðskap á Austfjörðum, svo miklum að aðeins eini bindindismaðurinn í hópnum mundi glögglega hver hafði verið kosinn formaður. Ekki að furða þó flokkurinn hafi löngum verið talinn opinn í báða enda og sagt bæði já já og nei nei og hallur undir gamla tíma þegar SÍS sat fyrir lánafyrirgreiðsluni í bönkunum fyrir tíma verðtryggingarinnar sem gerði útaf við apparatið.  

 


Víglundur Þorsteinsson

var vinur minn víst. Ég setti eftirtalin minningarorð í Morgunblaðið í gær. Ég endurtek þau hér því ekki lesa allir Mogga:

"Það er sumarið 1964 og ég er eitthvað að gera mig breiðan út af vigtarmálum á steypubílum á Ártúnshöfða. Það er uppistand og ég kalla á lögguna. Þarna kemur til mín hár og myndarlegur ungur maður sem ég vissi að hét Víglundur og var að læra til lögfræðings en naut einhverra metorða hjá BM Vallá, sem var samkeppnisaðilinn um steypusálirnar. Hann spyr mig brosmildur hvað ég sé nú að bralla.

Kynni okkar áttu eftir að verða mikil næstu 38 árin. Við urðum harðir samkeppnisaðilar og það gustaði oft. En við vorum báðir sjálfstæðismenn og það hjálpaði. Hann var mun vinsælli maður af alþýðu en ég með mína mörgu hnýfla og einfaraeðli á þeim árum. Hann hafði afskipti af stjórnmálum en ég var feiminn. Hann var félagslyndur og hafði traust manna. Við reyktum báðir og vildum hætta. Hann hætti seinna í vindlunum í beinni útsendingu á Hótel Borg þegar hann var orðinn formaður iðnrekenda. Ég hætti margoft ævilangt allt til 2002 þegar það loks tókst. Veit ekki um staðfestu „Lundans“.

Það kom oftlega fyrir að við tókum tal saman um allt annað en steypumarkaðinn. Ég fann fljótt að mig munaði um margar upplýsingar sem frá honum flæddu. Hann var ótrúlega athugull, víðsýnn og fróður. Og það var yfirleitt mjög gott á milli okkar.

Árin liðu og fyrr en varir voru mín steypuár orðin 38. Þá lauk þeim skyndilega. Þetta var í upphafi mestu steyputíðar Íslands og nú hófst uppgangur Víglundar fyrir alvöru. Hann keypti djarfur upp fjölda fyrirtækja og áhrif hans urðu mikil fram að hruni. Þá var hann leiddur fyrir aftökusveit að hans eigin sögn og missti fyrirtækið. Ég missti líka hlutfallslega margt vegna eigin fíflsku, sem er ekki betra að lifa með en það sem Víglundur þurfti að þola fyrir atbeina óvina sinna.

Ég er staddur á svölum í Salnum í Kópavogi einhvern tímann á  sumri 2002. Enn í sárum eftir atvinnumissinn og áttavilltur enn sem komið var.

Þar sé ég Víglund allt í einu og hann kemur til mín og réttir út höndina. Hann tekur í mína og heldur henni fastri. Hann flytur langa ræðu með augunum einum og svipbrigðum meðan við horfumst í augu. Það streymir frá honum þvílík hlýja og samúð að ég hef ekki fundið neitt þvílíkt fyrr né síðar. Ekkert orð fer okkur á milli. Mér eru fyrirgefnar fornar vanhugsanir. Ég veit ekki hversu lengi við stöndum þarna meðan gestirnir tínast út í kringum okkur. Þegar þessu langa handabandi lýkur förum við sitt í hvora áttina og okkar samskipti verða ekki fleiri þessa heims.

Nú er Víglundur allur án þess að ég vissi hann veikan enda upptekinn sjálfur af sama kvilla. Ég tóri enn og get rifjað minningarnar upp. Og þær eru miklu fleiri sem eru góðar og hlýjar um manninn Víglund en um þær stundir sem hvassviðrin gengu yfir fyrir margt löngu.

Áhrifamaður í lífi okkar beggja og örlagavaldur að ýmsu leyti, Benedikt Magnússon frá Vallá, sagði eitt sinn við mig í öli okkar og horfði fast á mig:

„Embættið þitt geta allir séð. En ert þú, sem berð það, maður?“

Ég ber minn brest.

Víglundur Þorsteinsson var mikill maður í mínum augum. 


Villuljós Björns og Davíðs

Bjarnasonar og Þorlákssonar.

Þeir segja:

Fyrst Björn:

"Mikill munur er á því sem segir í föstum skoðanadálkum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins um 3. orkupakkann. Ég hallast á sveif með þeim skrifa í Fréttablaðið og vitna til marks um það í tvo þeirra.

Mikill munur er á því sem segir í föstum skoðanadálkum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins um 3. orkupakkann. Ég hallast á sveif með þeim skrifa í Fréttablaðið og vitna til marks um það í tvo þeirra." 

Björn er Evrópusinni og vill greinilega ganga þar inn.

Davíð segir:

" Davíð Þorláksson, lögfræðingur og fyrrv. formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, skrifar bakþanka í dag (21. nóvember) og segir:

„Eins drepleiðinlegt og það kann að hljóma þá kemst enginn upplýstur kjósandi hjá því að setja sig aðeins inn í þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem Ísland þarf að innleiða vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Til að einfalda þér lífið þá er þetta það sem þú þarft að vita: Þriðji orkupakkinn mun ekki hafa nein áhrif á almenning á Íslandi, felur ekki í sér framsal á forræði yfir auðlindum, felur ekki í sér framsal valds til ESB og skyldar okkur ekki til að leggja sæstreng. Samt er þessu öllu haldið fram í umræðunni.

Það var gæfuspor að ákveðið var að orkumál yrðu hluti af EES. Fyrsti og annar orkupakkinn hafa fært okkur grundvöll fyrir markað og samkeppni í framleiðslu og sölu á rafmagni. Enda ættu ekki önnur lögmál að gilda um rafmagn en aðrar neysluvörur. Samkeppni lækkar verð og bætir þjónustu. En af hverju er þá þessi hiti út af orkupakkanum? Sumir virðast nota hann sem tylliástæðu til þess að skapa umræðu um útgöngu Íslands úr EES án þess að segja það berum orðum. Og skyldi engan undra enda er vandséð að mikill stuðningur væri við það.

Innganga Íslands í EES er það besta sem hefur komið fyrir Ísland í mjög langan tíma. Útflutningsfyrirtækin, sem eru grundvöllur lífsgæða okkar allra, hafa í gegnum EES aðgang að innri markaði Evrópu. Það er því mikilvægt að ríkið innleiði orkupakkann og standi vörð um veru Íslands í EES en láti það ekki gerast að okkur verði laumað út bakdyramegin“.

Hörður Ægisson viðskiptaritstjóri  segir í leiðara föstudaginn 16. nóvember:

„EES-samningurinn, sem er vissulega ekki fullkominn, er mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands. Sú skoðun hefur hingað til verið nokkuð óumdeild. Það er ábyrgðarhlutur, sérstaklega hjá þeim þingmönnum sem ættu að minnsta kosti að vita betur, að standa fyrir þeirri umræðu sem við höfum orðið vitni að, þar sem röngum upplýsingum hefur vísvitandi verið haldið að almenningi. Ef hinn raunverulegi tilgangur með þessu rugli er að setja af stað atburðarás sem felur í sér að Ísland segi sig að lokum frá EES-samningnum þá eiga menn bara að gangast við því. Það er kominn tími til að lyfta þessari umræðu á aðeins hærra plan.“

Þessir menn skauta fram hjá því að gerist Íslendingar aðilar að ACER þá ber þeim styðja ákvarðanir þess.

ACER vill sæstreng.

Ef ESB vill leggja sæstreng á eigin kostnað  þá getum við ekki staðið á móti því. Þar með erum við komnir á samkeppnismarkað Evrópu um Raforku.

Mótmæli þeir þessu ef þeir geta séu þetta villuljós.

 


Furðustrendur

V.G. opinberast einkar skýrt í boðskap Katrínar Jakobsdóttur um endalok og úreldingu hagvaxtar.

Jón Magnússon hrl.  lýsir þessu svo:

" fundi VG og verkalýðshreyfingarinnar í dag var athyglisvert að heyra, að forsætisráðherra segir að hagvaxtarstefnan sé að líða undir lok og horfa þyrfti til jafnvægis umhverfisþátta, efnahagsþátta og félagslegra þátta. Þá sagði forsætisráðherra að við gerð kjarasamninga þyrfti að hafa í huga hvernig ætti að takast á við loftslagsbreytingar.

Boðskapur forsætisráðherra er athyglisverður. Boðuð eru versnandi lífskjör og efnahagskerfinu sem hefur bætt lífskjörin hvar sem er í heiminum er hafnað. Hugmyndafræði frjálsrar samkeppni og hagvaxtar er úrelt að mati forsætisráðherra. Nú skal takast á við loftslagsbreytingar og launþegar verða að axla ábyrgð á því og þola versnandi lífskjör þar sem að hagvaxtarstefnan hefur runnið sitt skeið á enda....."

Hvort skyldi þetta ná eyrum Sólveigar Önnu og Gunnars Smára? Hvaða áhrif hefur þessi yfirlýsing á prósentukröfurnar þeirra ?

Hvar er hagfræðiskilningur þessa fólks staddur?. Kauphækkanir og minnkandi framlegð? 

Hvar er samhengið á furðuströndum flokksins V.G.?


Eru 7 milljarðar til bankanna

virkilega meira áríðandi en til heilbrigðismála?

Hefði ekki verið þess virði að lækka bankagróðann um þessa milljarða og nota þá til aðkallandi verkefna? Myndu bankarnir ekki lifa það af?

Geta bankarnir ekki verið án 7 milljarðanna í ljósi aðstæðna?


Nú dámar manni

ekki athafnir Sjálfstæðisflokksins manns gamla.

Formaðurinn mælir fyrir gengdarlausri útþenslu báknsins sem Steingrímur Jóhann ræður sér varla fyrir ánægju yfir.Þvílíkur samhugur er í stjórnarsamstarfinu.

Eyrún Magnúsdóttir skrifar svo um málið í Morgunblaðið:

"Þau eru heldur misvísandi skilaboðin sem berast nú frá alþingi.

„Það er ánægjuefni að við erum núna að sækja fram á nýjan leik, við erum að byggja upp og efla starfsemi þingsins eftir tíu ára hlé …“

Svo komst forseti þingsins, Steingrímur J. Sigfússon, að orði í fréttum í vikunni þar sem fjallað var um þau áform að bæta við 17 nýjum aðstoðarmönnum handa þingmönnum.

Ráðning þessara nýju aðstoðarmanna kemur til með að kosta allt að 200 milljónir að sögn þingforsetans.

Margir klóra sér eflaust aðeins í höfðinu yfir þessum tíðindum. Annars vegar er það auðvitað merkilegt að það eigi að fá 17 nýja starfsmenn á þing sem telur 63 þingmenn. Hins vegar er ekki síður áhugaverð sú yfirlýsing þingforseta að nú sé tími til að „sækja fram“. Í tíu ár hafi verið dregið saman, en nú sé lag og nú séu til peningar í ný verkefni.

Þetta stangast að mörgu leyti á við þau skilaboð sem fjárlagafrumvarpið sendir. Þar er alls ekki sami tónn.

„Mikilvægt er nú, þegar gera má ráð fyrir að í sljákki eftir mikinn vöxt síðustu ára, að áfram sé tryggð festa og varfærni í stjórn opinberra fjármála,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu í þinginu á dögunum. Hvernig þetta tvennt fer saman verða einhverjir aðrir en undirrituð að svara.

Sýnir það sérstaka varfærni í stjórn opinberra fjármála að bæta 17 manns með óljósa starfslýsingu í aðstoðarlið stjórnmálamanna? En einhverra hluta vegna virðast vera til peningar fyrir svona verkefnum, þrátt fyrir yfirlýsingar um að varfærni skuli höfð að leiðarljósi og fáir stjórnmálamenn virðast ætla að fetta fingur út í þetta. Enda þægilegt að fá fleiri aðstoðarmenn.

En einhvern veginn langar mig frekar að búa í samfélagi þar sem eru til peningar til að ráða 17 sálfræðinga á heilsugæslustöðvar eða framhaldsskóla, 17 nýja sérkennara á leikskóla eða bara 17 manns í skilgreind verkefni sem skila okkur raunverulegum ábata út í samfélagið. Kannski gæti 17 manna teymi nýst í að finna lausn á vanda sprautufíkla og annarra sjúklingahópa sem engar lausnir fá.

En að „sækja fram“ í velferð væri auðvitað alls ekki nógu varfærið."

Hvert er minn gamli flokkur kominn?

Einu sinni hljómaði kjörorðið "Báknið burt" 

 

Skyldi Óli Björn Kárason styðja þetta? ég vona að hann geti sannfært mig um að hrópa húrra fyrir formanninum og flokknum mínum. 

Nú dámar mér ekki sem gömlum flokkshesti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 3419710

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband