Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Forysta án flokks

virðist vera möguleg staðreynd og gilda um Sjálfstæðisflokkinn.

Maður skynjar gamla samhugann meðal félaganna til áratuga. Þeir skilja ekkert í stefnu forystunnar og nenna ekki að ræða hana vegna þess að þeir þekki hana ekki til hlítar.  Þeir standa vörð um forystumennina sé á þá ráðist en hrifningu er óvíða að finna. Sumir þekkja ekki einu sinni nöfnin á miðstjórnarmönnum flokksins eða varaformanni þó þeir mæti á alla fundi.

Forystan eyðir varla merkjanlegu púðri í að hafa samband við grasrótina þó ódýrt sé. Hún er upptekin af sjálfri sér sjálfrar sín vegna. Venjulegir flokksmenn fá yfirleitt stjörnur í augun og upptendrast af því einu að sjá formanninn og endist það í langan tíma. Hvað þá hafi hann heilsað þeim eða nikkað til þeirra líður gjarnan yfir þá stjórnmálalega og þeir eru endurfæddir til nýrrar vonar um að 19 % verði einhvern tímann aftur að 39 %. Hvað svo gerist á þinginu er önnur saga.

Ég er ekkert viss um að þetta sé nokkuð öðruvísi hjá öðrum flokkum á þingi. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei litið á sig sem venjulegan stjórnmálaflokk. Hann hefur gert aðrar kröfur til sín en þær.  Hvað þá að hann sætti sig við að vera orðinn örflokkur. Han gerir meiri kröfur til sín en þeir dæguflugnaflokkar sem nú tímabundið ráða umræðunni. En veikleikar flokksins blasa við öllum sem vilja sjá. 

Nú segir Moggi:

"Reikna má með að 6-8 aðstoðarmenn alþingismanna taki til starfa frá næstu áramótum, að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis. Aðstoðarmönnunum verður svo fjölgað út kjörtímabilið þar til fjöldi þeirra nær 15-17. Helgi sagði að þegar ríkisstjórnin var mynduð hefði verið lögð áhersla á að styrkja Alþingi. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefði strax skoðað hvernig það mætti gera. Byrjað var á að styrkja nefndasvið og lagaskrifstofu þingsins. "

Hafði forysta Sjálfstæðisflokksins fyrir því að kynna þetta mál fyrir flokksmönnum? Skyldi vera mikil hrifning í grasróti yfir  því að nú fái Björn Leví aukinn skrifkraft til fyrirspurnagerða? Hundruð milljóna aukin skattheimta í boði Sjálfstæðisflokksins því allir peningar koma frá fólkinu. Nú þurfi að byggja við Alþingi og fresta því Landspítalanum? Í alvöru má fækka þingmönnum og aðstoðarmönnum á tímum Google.

Það er allstaðar verið að gera meiri kröfur til allra um vinnuframlag. Af hverju sífellt minni til kjörinna fulltrúa? 

Skrautbullið frá Steingrími Jóhanni sem forseta Alþingis streymir nú til styrktar málinu með búktali Helga Bernódussonar, gengur ekki í óbreytta Sjálfstæðismenn. Sem skiptir forystuna greinilega engu máli því hún talar ekki við þá líklega fyrr en kannski dregur að næstu kosningum.

Þetta var ekki svona í formennskutíð Davíðs Oddssonar. En hann verður víst seint hægt að klóna í fleiri en því eina eintaki sem bráð pólitísk þörf virðist nú á meðal Sjálfstæðismanna. 

Grasrótin er enn á sínum stað En eldmóð Sjálfstæðisstefnunnar er hvergi lengur að finna enda heyrist lítið lengur á hana minnst.

Forysta án flokks, það virðist vera nýi 19.8 % stjórnunartíminn. 

 

 


Tryggvi Gíslason

skólameistari á Akureyri er með snöggtum geðslegri tillögu en Steingrímur J. Sigfússon talaði fyrir í sjónvarpinu í fyrradag.

Tryggvi segir;

" Fjölga á aðstoðarmönnum þingflokka á Alþingi um sautján til þess að auka virðingu þingsins, að því er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í fréttum í gær. 

Virðing Alþingis hefur aldrei verið minni, þannig að sannarlega er þörf á að auka virðingu þess.  Endurheimt virðingar Alþingis felst hins vegar ekki í því að fjölga aðstoðarmönnum þingflokkanna heldur í því að bæta störf,hegðan og framkomu alþingismanna.

 

Íslendingar eru fámenn þjóð og vafamál hvort við höfum hæfan mannafla og fjármuni til þess að halda uppi svo fjölmennu þingi með 63 alþingismönnum.  

Sé borinn saman fjöldi þingfulltrúa í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ættu alþingismenn á Íslandi að vera 10 talsins miðað við fólksfjölda og sé litið til Bretlands og breska fulltrúaþingsins ættu alþingismenn á Íslandi að vera sjö.

Með því að fækka alþingismönnum um helming og hækka laun þeirra um helming mætti fá hæfara fólk til þessara mikilvægu starfa. Þannig væri einnig unnt að spara ríkissjóði yfir tvo milljarða króna í rekstrarútgjöldum á ári.  

Með fækkun alþingismanna væri einnig unnt að hætta við fyrirhugaða skrifstofubyggingu fyrir Alþingi, sem er í burðarliðnum, en í frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins er mælt með því að ráðast í skrifstofubyggingu á Alþingisreitnum.  Samkvæmt þarfagreiningu og húsrýmisáætlun er þörf fyrir um 5.000 m² nýbyggingu ásamt um 750 m² bílakjallara – bílakjallara!

Byggingarkostnaður er áætlaður 2.588 milljónir króna, en þá er ekki tekið tillit til verðbóta og kostnaður vegna skrifstofu- og tækjabúnaðar.  Þarna væri því unnt að spara um þrjá milljarða í byggingarkostaði og um einn milljarð á ári í rekstrarkostnaði. Alls nemur árlegur rekstrarkostnaður, sem spara mætti með þessum hætti, um þremur milljörðum króna."

Hversvegna þarf Entrophian í stjórnsýslunni  bara að vaxa? Af hverju er ekki hægt að fara leið Tryggva? 

Ég vildi að málsmetandi maður eins og til dæmis Óli Björn sem einn fárra vill minnka kostnað myndi tjá sig um þetta mál. Það er óþarfi að búast við undirtektum frá kerfismönnum af vinstri kantinum. Þeir geta aldrei hugsað sér að minnka opinberan kostnað né hugsað sér að þeir sjálfir gætu misst sig. 

Tryggvi Gíslason hefur lagt til vitræna tillögu og rökstutt hana kostnaðarlega.

 


Enn bréf frá Gísla

og með mjög athyglisverða tillögu varðandi þjóðina.

Gísli segir:

"EINFÖLDUM  LÍFIР HJÁ  FÁMENNI  ÍSLENDINGA

Förum til fyrri daga, þegar menn voru ástfangnir af ástinni og börnin ólust upp við ástúð og góða siði inni á heimilinu með mömmu og pabba og oft í návist ömmu og afa.  Börnin lærðu að lesa og skrifa undir handleiðslu mömmu og pabba, ömmu og afa.  Börnin töluðu fullorðins mál og tóku snemma þátt í daglegu lífi heimilanna.  Gleymum ekki, að „VINNAN göfgar manninn“.  Langur vinnudagur á heillandi vinnustað er heilsubætandi.

Við áttum meistara í orði og verkum, sem bárust til annarra þjóða.  Það er erfitt að horfa til stofnana, skóla og kennara, sem ætlast er til að vinni öll mikilvægustu verk í uppeldi barnanna, sem best er í faðmi foreldra og fjölskyldu.

Móðurástin er ofar allri ást?.

Borgum stúlkum eða hjónum eina miljón frá Ríkinu fyrir fyrsta barn.  Sama gildir um barn 2 og 3.  Þetta geymist á lokuðum reikning til síðari tíma.  Síðan greiðir ríkið 200 þúsund á mánuði til foreldris fyrir að vera heima hjá sér fyrsta árið eða lengur og kenna börnunum að lesa og skrifa.  Það er hvatning og peningar fyrir vel unnin verk. 

Boðum ungu fólki SPARNAÐ en ekki eyðslu.  

Hvetjum EKKI til fóstureyðinga.  Margt úrvals fjölskyldufólk á Íslandi bíða eftir íslenskum fóstur börnum.  Hvetjum til væntumþykju og samvinnu hjá fámenni ÍSLENDINGA, sem telur um 300 þúsund.  Fjölgum okkur SJÁLF um 1500 einstaklinga á ári, sem samsvara öllum íbúum Siglufjarðar, svo dæmi sé tekið.  SKIPAÐUR fjölþjóða innflutningur frá ESB löndum, er EKKI ósk Íslendinga.

Tryggjum okkur með NATO og USA, sem ber af öðrum Vesturlöndum til góðrar samvinnu og viðskipta.  Gleymum ekki, að ÖLL ómenguð framleiðsla frá ÍSLANDI Bændum og Sjávarútvegi er fyrir HEIMSMARKAÐ, en ekki bara ESB lönd.  

Verum ein þjóð án skuldbindinga og án SKIPANA frá ESB, EES og SCHENGEN. Árlegur kostnaður við EES og ESB kosta ÍSLENDINGA miljarða á ári.  

Nýr skattur vegna „Loftslagsmála“ hljómar ILLA fyrir ÍSLAND.  Loftslagsmál er hluti að „sköpuninni“, af hita og kulda skeiðum?.  BLÁI HERINN, sem stofnaður var fyrir tugum ára á Íslandi til að hreinsa plast og netadræsur úr fjörum landsins er OKKAR loftslagsmál. 

BESTI þáttur um LOFTSLAGSMÁL var að enda á þætti MARK LEVIN við MEISTARA LOFTSLAGSMÁLA  PATRIC J. MICHAEL á FOX sjónvarpsstöðinni 10. nov.2018.

Innheimtum að nýju í Hvalfjarðar göngum „NÝTT“ gjald?.  Þetta skapar ÖRYGGI, sjáanlegt ÖRYGGI og EFTIRLIT í þessum 6 km. jarðgöngum. 

Innheimtum Kr.5000 af erlendum ferðamönnum, sem KOMA erlendis frá til ÍSLANDS.  Þetta táknar ÖRYGGI og ÓMENGAÐ ÍSLAND.  Þetta gefur Ríkinu um 20 miljarða í þjóðvegina ásamt Hvalfjarðargöngum.  NEI Við  VEGASKATTI.

Fækkum alþingismönnum og lækkum ofurgreiðslur frá Kjararáði til Alþingismanna, sem illa stjórna Landinu okkar.  Kjararáð var stofnað af Alþingi, sem hefur eitrað öll samskipti um launakröfur á landinu öllu.

ÍSLANDI vantar Þjóðernissinnaða ÞJÓÐARLEIÐTOGA á ALÞINGI, sem vinna vel fyrir FÁMENNI okkar ÍSLENDINGA og almanna HEILL. 

Gísli Holgersson"

Tillaga Gísla um greiðslu til hvers barns fæddu af íslensku foreldri er allrar athygli verð. Í ljósi þess að hver kona fæðir nú aðeins 1.7 barn er auðsætt að þjóðin er að deyja út. Hyggjum við virkilega  til þess að bæta fallandi fæðingartíðni Íslendinga með innflutningi erlendra þjóða? 6 hver maður hérlendis er þegar af erlendu bergi brotinn.

Ég styð þessa tillögu Gísla um fæðingarstyrki. Ég held að greiðslan til ungabarnsins megi vera verulega hærri. Hún verður þvi ómetanlegur styrkur við 18 ára aldur. Auk þess finnst mér að hver  móðir eigi að fá verulega greiðslu fyrir að fæða Íslandi barnið í stað þess að borga fyrir fóstureyðingu. Okkur ber skylda til að stuðla að fæðingum íslenzkra barna.

Þetta bréf frá Gísla á erindi til okkar allra.

 


Viðskiptakjörin snarbatna

með steypiflugi olíuverðsins.Tunnan af WTI Crude er komin niður í 59 dollara úr 76 í september. Hvað þýðir þetta ekki fyrir Icelandair og stóð Skúli Mogensen tveimur fótum til skammt eins og Þórólfur Skallagrímsson?

Spurning er hvaða áhrif þetta hefur á kaupmátt launþega? Ætla þeir að taka tillit til þessa í kröfugerðinni?

Það hlýtur að hafa áhrif á kaupmátt alþýðu þegar viðskiptakjör á olíu snarbreytast svona.


EES

samningurinn er Gunnari Heiðarssyni áhyggjuefni eins og fleirum.

Gunnar skrifar svo:

"Um þá hagsmuni sem við Íslendingar höfum af EES samningnum er fátt að segja og ekki allir á eitt sáttir. Í það minnsta er svo komið í dag að vegna aðildar að þessum samningi erum við að greiða ýmislegt hærra verði en áður, auk þess gjald sem við greiðum fyrir aðildina. Þar er verið að tala um tugi milljarða á ári og þætti sjálfsagt einhverjum það nokkuð hátt gjald til að fá tollaafslætti inn í ESB.

Víst þykir þó að Björn Bjarna og hans nefnd muni sjá allt til góða þessum samningi, er gjarnan svo þegar útsýnið er skoðað með blinda auganu.

Þegar EES samningurinn var saminn og samþykktur af minnsta meirihluta á Alþingi, án aðkomu þjóðarinnar, var ljóst að þrjú megin málefni voru utan þess samnings, sjávarútvegur, landbúnaður og orkumál.

Enn hefur okkur tekist að halda sjávarútveginum utan samningsins, hversu lengi sem það mun halda.

Landbúnaður er óbeint kominn inn í hann, með dómi EFTA dómstólsins, sem ákvað að breyta íslenskum landbúnaði í viðskipti og dæma út frá því. Og ráðamenn þjóðarinnar sátu hjá eins og barðir hundar.

Það var hins vegar með fyrstu tilskipun ESB um orkumál sem Ísland festist í neti ESB um orkumál og enn frekar þegar Alþingi samþykkti 2. tilskipunin um þetta málefni.

Þessar tvær tilskipanir hafa þó haft frekar lítil áhrif hér á landi og það litla til hins verra. Samkvæmt þeim varð að skipta orkufyrirtækjum upp í vinnslu, dreifingu og sölu. Búa til þrjú fyrirtæki með þremur yfirstjórnum um það sem áður var eitt fyrirtæki með einni stjórn, með tilheyrandi aukakostnaði.

Þá voru feld úr gildi lög um skipan orkumála hér á landi. Þar tapaðist m.a. út eini varnaglinn sem var til fyrir heimili landsmanna, en hann hljóðaði upp á að hagnaði orkufyrirtækja skildi ráðstafa til lækkunar orkuverðs og að aldrei mætti láta heimili landsins niðurgreiða orku til annarra nota. Það væri því vart hundrað í hættunni þó ESB ákveði að fyrstu tveir orkupakkarnir verði aftengdir."

Ég hef enn ekki sannfærst um að breytingar á EES samningnum myndi verða Íslandi til óbætanlegs tjóns. Ég hef ekki séð þá upptalningu sem gæti sannfærir mig um slíkt. Miklu fremur hef ég grun um að hagsmunir ESB af samningnum séu meiri en okkar Íslendinga.

Ég sakna röksemdafærslu manna eins og Björns Bjarnasonar fremur en tómra fullyrðinga um skaðann af missi EES samningsins og Schengen.

 


Geta aðstoðarmennirnir ekki bara séð um þetta?

Þegar maður horfir yfir þingsalinn á Alþingi þá spyr maður sjálfan sig stundum hversu háttað sé með andlegt atgervi ýmissa þingmanna? 

Hvort þeim sé vel treystandi til þess að vera þarna með atkvæðisrétt? Hvort þeir yfirleitt skilji það sem fram fer eða geti dregið ályktanir af atburðarásinni? 

Það virðist vera svo komið að hinir greindari meðal þingmanni efist um þetta. Því eru þeir sammála um nauðsyn þess að ráða 17 nýja aðstoðarmenn til að hafa vit fyrir þingmönnunum og leiðbeina, svo þeir ekki fari sér að voða, ýti á rétta takka eða rati yfirleitt rétta leið um þingstiguna, hafi þeir endur og sinnum eitthvað til málanna að leggja.

Þarna er sköpuð atvinna fyrir menntað fólk, jafnvel með gráður í stærðfræði eða öðrum vísindagreinum frá Háskólasamfélaginu. Aðstoðarfólk sem þjóðin getur treyst fyrir málum sínum. Kostnaður skiptir auðvitað engu máli þegar allir eru sammála um nauðsynina. Það mátti lesa glöggt úr andliti þingforsetans í sjónvarpinu að hann er búinn að reikna út þjóðhagkvæmnina fyrir þessar ráðningar og ekki reyndu fréttamenn að leita frekara álits. 

Það skiptir þá núna minna máli hvernig þingmennirnir eru sjálfir innréttaðir, sem ýmsir hafa vissulega haft áhyggjur af. Fólkið getur eftirleiðis sett traust sitt á aðstoðarmennina sem jafnvel geta bara séð um þetta sjálfir ef þörf krefur. 

 


Kjarasamningur Eflingar og SA.

er miklu merkilegra plagg en ég hafði ímyndað mér. 123 blaðsíður.

https://efling.is/adalkjarasamningar/,

Eftir að hafa lesið í honum fyllist ég virðingu fyrir því mikla verki sem hann er. Þeim mun minna skil ég í því ef allt sé svo ómögulegt í kjarasamningum að nú verði að fara í verkföll til að rétta hag hinna kúguðu.

"Fram þjáðir verkamenn og fjöldinn snauði, því fáninn rauði okkar merki er." 

Kjarasamningurinn er hið merkilegasta plagg.

 


Er EES einhvers virði?

Sigurður Ingi Jóhannsson setur fram eftirfarandi fullyrðingu í Morgunblaðsgrein um hegina:

"EES-samningurinn er Íslendingum gríðarlega mikilvægur, ekki síst þegar hagsmunir sjávarútvegsins eru annars vegar. Það að bera saman íslenskar sjávarafurðir og afurðir verksmiðjubúa meginlandsins er þó eins og að bera saman tómata og ananas. Ég lít svo á að það sé þess virði að berjast fyrir breytingum á EES-samningnum til þess að vernda þá góðu stöðu sem við höfum á sviði landbúnaðar, dýraheilbrigðis og lýðheilsu. Um þetta er gríðarleg vakning um allan heim en ekki síst á Norðurlöndum."

Stenst þessi fullyrðing? Ég held að það megi draga í efa.

Fólk kaupir fisk af okkur vegna vörunnar sjálfrar. Við höfum sótt skóla í Evrópulöndum fyrir tíma Evrópusambandsins og ferðast um öll lönd fyrir tíma Schengen. Frjálst flæði fólks og fjármagns hefur ekki fært okkur neitt sem við getum reiknað okkur til tekna. Miklu heldur hefur þetta skapað okkur hættu og vandamál. Svo hvar er þá nokkuð sem vinnst? 

Af hverju er þssi EES samningur svo heilagur að ekki megi endurskoða virði hans?


Staðfastur formaður

Sjálfstæðisflokksins í fullveldismálum er Bjarni Benediktsson.

Allskyns skrifarar eru að væna formanninn um óheilindi gagnvart Evrópumálunum og að hann jafnvel sé í liði með fullveldissölunum í Samfylkingarflokkunum. Ekkert er fjarri lagi. 

30.01.2013 sagði Bjarni á Alþingi:

"Það verður ekki annað séð en að meiri­hluti nefnd­ar­inn­ar sé að opna fyr­ir það að þingið geti án þess að það verði borið und­ir þjóðina tekið ákvörðun um að fram­selja rík­is­vald til alþjóðastofn­ana sem við Íslend­ing­ar eig­um ekki aðild að,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, á Alþingi í dag í ann­arri umræðu um frum­varp til nýrr­ar stjórn­ar­skrár.

Vísaði Bjarni þar til meiri­hluta stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar þings­ins og ákvæða frum­varps­ins um ut­an­rík­is­mál. Benti hann á að í grein­ar­gerð með frum­varp­inu segði að þetta væri hugsað til þess að greiða fyr­ir eðli­legri þróun sam­starfs­ins um Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins.

„Það er mín skoðun að hér sé ekk­ert annað á ferðinni held­ur en full­kom­in eft­ir­gjöf gagn­vart óþolandi kröf­um Evr­ópu­sam­bands­ins um að við fram­selj­um til stofn­ana, sem við eig­um enga aðild að og starfa á grund­velli ESB-sátt­mála, rík­is­vald og þannig verði horfið frá tveggja stoða kerf­inu sem EES-sam­starfið hef­ur ávallt byggst á,“ sagði hann.

Bjarni beindi orðum sín­um til Val­gerðar Bjarna­dótt­ur, þing­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og for­manns stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar, og spurði hvers vegna í ósköp­un­um nefnd­in væri að leggja til að ekki yrði áfram starfað á grund­velli tveggja stoða kerf­is­ins.

Skír­skotaði hann þar til þess fyr­ir­komu­lags að Ísland og önn­ur aðild­ar­ríki EES sem standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins heyra ekki und­ir vald fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins og dóm­stóls þess held­ur sér Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) og EFTA-dóm­stóll­inn um eft­ir­lit með fram­kvæmd EES-samn­ings­ins gagn­vart þeim.

Val­gerður svaraði því til að upp kæmu at­vik þar sem ekki næðist sam­komu­lag um að byggja á tveggja stoða kerf­inu. Þar hefði Alþingi verið að leika sér á gráu svæði með til­liti til stjórn­ar­skrár­inn­ar. Bjarni vísaði þess­um um­mæl­um á bug og sagði skýrt að framsal valds til stofn­ana sem Ísland ætti ekki aðild að væri brot á stjórn­ar­skránni.

„Þetta er ekk­ert annað en und­ir­gefni við óþolandi kröf­ur Evr­ópu­sam­bands­ins sem menn eiga að mæta af hörku eins og ávallt hef­ur verið gert fram til þessa, á til dæm­is við um banka­til­skip­un­ina sem núna er í far­vatn­inu, og það er ekk­ert hægt að tala svona um það að við höf­um verið að leika okk­ur á ein­hverju gráu svæði,“ sagði Bjarni enn­frem­ur."

Fólk ætti að hafa meiri áhyggjur af öðrum stjórnmálamönnum en Bjarna Benediktssyni þegar kemur að varðveislu fullveldis Íslands á 100 ára afmæli þess.

 

Að trúa á stokka og steina

sæbrautfremur en mislæg gatnamót er það sem fram fer í höfðum Borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík.

Maður horfir á grjótgarðana sem hann reisir meðfram Miklubrautinni og hugsar svo um hugmyndir hans um að byggja neðanjarðarmannvirki fyrir brautina með neyðaraðkomum  slökkviliðs og sjúkrabíla,og líklega mathalla líka, auk vélrænnar loftræsingar,  í stað þess að leysa umferðarmálin við Kringluna á svona einfalda máta sem á myndinni sést, þá undrast maður hugmyndaflugið. Það er ótrúlega mikið af fjármunum og hugviti sem menn geta beitt til að komast að óhagkvæmustu lausninni fyrir allan almenning.

Það er skelfilegt til þess að vita að þessi meirihluti er að reyna sitt ýtrasta til að framkvæma óafturkræf skref í umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins með  því að gefa einkaaðilum ótakmarkað veiðileyfi á skuldsettan Borgarsjóð við Kringluna. Hann reynir að láta vatnið renna upp í móti með því að berjast fyrir hundraðmilljarða Borgarlínu sem er fyrirfram dauðadæmd því að fólkið vill hafa einkabílinn sem sitt farartæki. Það er ljóst öllum öðrum en fólkinu sem er í meirihlutanum.

Hann trúir á stokka og steina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 3418388

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband