Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2021

Sjálfstætt fólk

Vilhjálmur Bjarnason, hann Villi okkar Bjarna, skrifar skarpa grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fjallar um gengisleysi Sjálfstæðisflokksins og orsakirnar fyrir henni.

Hann ber saman einyrkjahugsjón kaupmannsins á horninu og kvótagreifanna sem hafa í reynd eignast fiskimiðin með gögnum og gæðum.Vissulega hafa orðið til kraftaverk í skjóli einkaeignarinnar eins og skipið Vilhelm Þorsteinsson og Samherji. Það verður ekki fyrr en kvótafélög landsins eru komin í  almannaeigu að von er til þess að almenningur sætti sig við fyrirkomulagið og leiti a ný til Sjálfstæðisflokksins á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar frá 1929. En hvenær slíkur skilningur nær inn fyrir höfuðskeljar þeirra sem vilja hefja sig upp til forystu í þeim flokki hans Bjarts í Sumarhúsum get ég ekki spáð fyrir um. En líklega mun þó það frumkvæði koma innanfrá úr fyrirtækjunum eins og menn hafa raunar séð örla á.

Það verða ávallt að vera kjölfestur til staðar í rekstri útgerðarfyrirtækja eins og Brims og Samherja.En allar raddir verða að heyrast ef von á að ver til að víðtækar sáttir náist.

Ef arðsemi hverfur úr rekstri eins og gerðist hjá kaupmönnunum á horninu, verða engin skip einsog Vilhelm Þorsteinsson byggð. Þar á milli verður að vera gullinn meðalvegur og þeir Þorsteinn Már og Warren Buffet verða að fá að njóta sín til heilla fyrir þjóðina.Að fá að skapa og njóta umfram lágmarksþarfir er eiginlega öll sú umbun sem slíkum mönnum ber. 

En fyrir þá sem hvarflað hafa frá Sjálfstæðisflokknum vegna hugsjónaleysisins og eru hættir að lesa Mogga, þá vil ég tilfæra þessi skrif Villa Bjarna og biðja menn að skynja það sem að baki býr og knýr hann til ljóða.

Aðeins endurvakinn hugsjónaeldur getur endurlífgað okkar gamla Sjálfstæðislflokk. Það eru menn eins og Villi og Óli Björn Kárason sem eru okkar von um að svo megi verða þó að aðrir forystumenn sýni nú örlítil lífsmerki í aðdraganda kosninga. En ekki er vafi á að skerpa verður átakalínurnar í pólitík gegn miðjumoði Evrópusambandsáróðursins og hefja Bjart í Sumarhúsum til fyrri virðingar með þjóðinni. Sem betur fer birtist Bjartur víða nú til dags og mörg útrásarfyrirtæki prýða velli þjóðlífsins.

"Fáar skáldsögur Nóbelskáldsins hafa fengið viðlíka viðtökur og Sjálfstætt fólk. Skáldsagan kom út í fjórum bindum, en þau voru sameinuð í einni bók, sem ber sama heiti og þessi grein.

Viðtökur þessarar skáldsögu, sem kann að flokkast undir félagslegt raunsæi, voru með ýmsum hætti. Bændur keyptu skáldsöguna til þess að fletta henni, en stungu bókinni í fjóshaug sinn. Á hinn veg voru þess dæmi að erlendir ferðamenn, veðurtepptir á Íslandi, gerðu sér erindi í leigubíl frá Keflavíkurflugvelli til Gljúfrasteins, til þess að tjá skáldinu að það væru óteljandi Guðbjartar starfandi í New York.

Þessi saga skáldsins um ferðamanninn fannst þeim er þetta ritar ótrúleg, allt þar til prófessor í hagfræði í Bandaríkjunum lyftist úr sæti sínu þegar hann skynjaði að nemandi hans væri frá Íslandi; hann hafði aldrei lesið aðra eins skáldsögu og „Independent People“. Prófessorinn dáðist að frásögninni um einyrkjann, það væru óteljandi einyrkjar um öll Bandaríkin, raunar fjölluðu allar kennslubækur í hagfræði og fjármálum um Bjart í Sumarhúsum.

Alþjóðlegir Íslendingar

Kannski hefur Bjartur í Sumarhúsum verið alþjóðlegastur Íslendinga sinnar tíðar. Og Bjartur svífur enn yfir og allt um kring hjá okkur í öllum þeim sem vilja sýna frumkvæði sér og sínum til bjargar.

Annar Íslendingur er ekki síður merkur maður, ekki síður alþjóðlegur. Það er Jón Hreggviðsson. Hann var svo sjálfstæður að hann gat sagt; „það sem maður tekur ekki hjá sjálfum sér tekur maður hvergi“. Honum var einnig sama hvort hann væri sekur eða saklaus, svo fremi að hann hefði bátinn sinn í friði.

Einyrkjar í Sjálfstæðisflokknum

Einyrkjar, allir trillukarlar landsins, hafa löngum átt skjól í Sjálfstæðisflokknum. Nú segja trillukarlarnir mínir við mig, að þeir eigi ekkert skjól, þeir séu aftur orðnir smalar hjá hreppstjóranum. Einyrkinn, sem átti skjól í Sumarhúsum, er aftur farinn að hokra í Veturhúsum. Til þess voru refirnir alls ekki skornir.

Þegar fiskveiðistjórnarkerfið ber á góma, eru svör þingmanna Sjálfstæðisflokksins „hagkvæmni“. Vissulega hefur hagkvæmni og árangur fiskveiða á Íslandi vaxið verulega frá 1984, þegar aflamarki var úthlutað eftir aflareynslu þeirra skipa, sem stunduðu á þeim tíma miðin, og aflamarki var úthlutað.

Dregið úr sókn

Ég er alls ekki viss um það, að þeir sem studdu það að dregið væri úr sókn í takmarkaða fiskistofna árið 1984, hafi gert sér grein fyrir því að þar með væri lokað fyrir þá, sem ekki stunduðu fiskveiðar árið 1984 og ókomnar kynslóðir, að geta stundað fiskveiðar, að eilífu, á grundvelli þessa „manntals“ árið 1984. Eina leiðin væri að kaupa sér aðgang af þeim eru voru á réttum stað í manntalinu árið 1984, erfingjum þeirra, eða af þeim sem þegar hafa keypt sér aðgang að auðlindinni.

Lög um stjórn fiskveiða

Hafa ber í huga að,

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Hagkvæmni í fiskveiðum hefur ekki skilað sér í auknu kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins. Það kann að vera að rétt sé að auka frelsi strandveiðimanna. Þeir eru sjálfs sín herrar og miklir menn á sínu fleyi!

Hví hefur dregið úr kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum? Hví hafa einyrkjarnir horfið? Kjörfylgið hefur sveiflast nokkuð í liðnum kosningum, með leitni niður á við, úr tæpum 40% í 25%, en nokkru lægra í skoðanakönnunum. Þetta er alls óásættanlegt fyrir sjálfstætt fólk og borgaraleg öfl, sem hingað til hafa átt skjól hjá Sjálfstæðisflokknum. Trillukarlar og einyrkjar eru ósáttir við hlutskipti sitt.

Kaupmaðurinn á horninu

Einyrkjar, sem kölluðust „kaupmaðurinn á horninu“, eru horfnir. Í þeirra stað eru komnir risar á smásölumarkaði með afkomu sem jafnast helst til tískuvöruverslana í útlöndum, sem hafa einkasölu á sínum vörumerkjum, það sem kallað er einkasölusamkeppni. Er það ásættanlegt að leggja 5% skatt á alla neyslu, til að ná hagnaðarmarkmiðum, þegar samkeppni á að virka? Í virkri samkeppni nálgast hagnaður 0% af veltu, en þar sem veltuhraði vöru er mikill kann að myndast hagnaður af fjármagni, sem bundinn er í rekstrinum. Sjálfstætt fólk vill ekki vera féþúfa fyrir banka eða vildarviðskiptavini þeirra!

Fjármál hjá sjálfstæðu fólki

Sá er þetta ritar hefur helgað líf sitt fjárhagslegu sjálfstæði fólks. Með fjárhagslegu sjálfstæði er átt við réttinn til að eiga og réttinn til að taka lán. Þar í milli er miðlari fjármagns, banki eða lífeyrissjóður einstaklinga til sameiginlegrar fjárfestingar fyrir sjóðfélaga, til að eiga lífeyri á efri árum. Slíkur sparnaður er þóknanlegur. Ætla mætti að frjáls sparnaður einstaklinga væri stjórnvöldum ekki þóknanlegur, því ávöxtur slíks sparnaðar er skattlagður í drep, rétt eins og frestun neyslu é hættuleg. Í tímaritinu „Fjármál og ávöxtun“ kemur fram að jafnvel verðtryggðir reikningar bera neikvæða ávöxtun, eftir skattlagningu. Slíkt er tilræði við fjárhagslegt sjálfstæði fólks. Vissulega eru skattleysismörk, en það sem er umfram skattleysismörkin virðist hættulegt fyrir sjálfstætt fólk.

Skjól fyrir sjálfstætt fólk

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið skjól fyrir sjálfstætt fólk, einyrkja, frumkvöðla og trillukarla. Ef skil verða á milli þeirra og flokksins, þá er spurning hvort einhver þörf sé fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Varla er ætlunin að flokkurinn verði flokkur bænda og embættismanna?

Bjartur hefur ævinlega talað fyrir Sjálfstætt fólk. Í uppgjöri hans við sjálfstæðið sagði Bjartur; „ég segi fyrir mig, maður fer á mis við lífið þángaðtil maður er orðinn sjálfstæður. Fólk sem er ekki sjálfstæðisfólk, það er ekki fólk. Maður sem er ekki sjálfra sinna, hann er eins og hundlaus maður.“

Sjálfstætt fólk og borgaraleg öfl verða að standa saman."

Okkur vantar stjórnmálalegt skjól fyrir sjálfstætt fólk sem ekki trúir á inngöngu í tollabandalag fárra landluktra aðkrepptra ríkja gegn öllum heiminum heldur trúir á frelsið og sjálfstæðið.


Enn hrærir Þorsteinn Pálsson

steypuna sína fyrir Evrópusambandsaðild fyrir "His Masters Voice" Hafskips Helga. Vonandi fær hann vel borgað fyrir þessi verk sín.

Í dag skrifar Þorsteinn:

"Helsta ástæðan fyrir efasemdum og andstöðu margra við fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu er ótti við að miðin fyllist aftur af erlendum fiskiskipum. Ef þessi ótti væri byggður á rökum ætti ég heima í liði efasemdarmanna.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins á engin þjóð rétt til veiði í landhelgi annarrar nema að baki liggi nýleg veiðireynsla. Hún er ekki fyrir hendi. Ísland þarf því ekki undanþágu til þess að halda erlendum veiðiskipum utan lögsögunnar.

Miðjan í skrúfstykki

Þeir sem eru lengst til vinstri lýsa Evrópusambandinu sem háborg óhefts kapítalisma. Hinir, sem eru lengst til hægri, draga upp mynd af endurborinni sósíalískri ráðstjórn.

Rangar staðhæfingar og öfgasjónarmið af þessu tagi á ystu vængjum stjórnmálanna hefta markvissa rökræðu um þessi efni. Miðjusjónarmiðin hafa einfaldlega verið föst í skrúfstykki öfganna.

Nýjar aðstæður kalla á að við losum umræðuna úr þessari þvinguðu stöðu.

Þörfin er nú meiri en áður að koma ár okkar fyrir borð í fjölþjóðasamvinnu og nýta öll tækifæri til að gæta hagsmuna landsins. Þar ráðast möguleikarnir á fjölþættari verðmætasköpun.

Að sitja við borðið

Helstu hagsmunir okkar í fjölþjóðasamstarfi snúast annars vegar um varnir og öryggi og hins vegar um efnahag og viðskipti.

Í Atlantshafsbandalaginu á Ísland sæti við borðið. Vitaskuld ráða stærri ríki mestu. En reynslan hefur samt sýnt að þannig gætum við best hagsmuna þjóðarinnar á þessu sviði.

Ísland á aðild að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES. Í því felst að ríki með fulla aðild ráða nær allri löggjöf á sviði viðskipta, fjármála, samkeppni, margvíslegra félagslegra réttinda á vinnumarkaði, eftirliti með heilbrigði og hollustu, neytendavernd og á ýmsum öðrum sviðum.

Samt er sú spurning ekki á dagskrá hvort hagsmunagæslan yrði ekki sterkari á þeim vettvangi með því að sitja við borðið eins og í Atlantshafsbandalaginu.

Á komandi árum þurfum við með margvíslegu móti að auðvelda atvinnulífinu að hlaupa hraðar. Full aðild opnar nýjar leiðir til þess um leið og hún auðveldar okkur mikilvæga hagsmunagæslu. Versta leiðin til að gæta íslenskra hagsmuna er að standa utan gátta hvort sem við sækjum á eða andmælum.

Endurnýjun miðjustjórnmála

Evrópusambandið er ein merkilegasta tilraun á síðari tímum til þess að auka hagsæld og tryggja frið með víðtækri samvinnu. Í raun og veru má segja að Evrópusambandið sé eins konar Kaupfélag þjóðanna.

Samvinnufélög voru áhrifamikil á síðustu öld hér á landi, bæði í innflutningi og útflutningi. Þau voru fjarri því að vera gallalaus og leystu ekki allan vanda. Einkafyrirtækin skákuðu þeim gjarnan. En það sem dró bændur og útflytjendur sjávarafurða inn í samvinnufélög var sú grundvallarregla að réttur þeirra minnstu var tryggður.

Halldór Ásgrímsson var framsýnn utanríkisráðherra. Hann náði að tengja hugmyndafræði samvinnufélaga við þau tækifæri, sem Ísland á í Evrópusamvinnu. Hann vildi endurnýja miðjupólitíkina með því að setja þau mál á dagskrá. Þörfin fyrir þá endurnýjun blasti við fyrir tveimur áratugum. Hún er enn óleyst verkefni.

Dagskrármál

Auðvitað réðu þeir stærstu mestu í samvinnufélögunum á sínum tíma. En þeir minni voru nokkuð öruggir um að ekki var troðið á rétti þeirra. Minni ríki í Evrópu hafa einmitt sótt í Evrópusambandið af sömu ástæðu. Þau hafa styrkt efnahag sinn og um leið tryggt stöðugleika og öryggi í viðskiptum.

Evrópusambandið er málamiðlun. Það hafnar óheftum markaðsbúskap og einhliða félagslegum lausnum. Þess vegna eru f lokkar yst til hægri og vinstri gjarnan í andstöðu við samvinnu af þessu tagi.

Miðjumoð þykir ekki alltaf skemmtilegt. En þegar upp er staðið skiptir þó mestu máli að það sem sagt er og gert leiði til farsældar.

Samvinna á grundvelli málamiðlana hefur reynst öðrum minni þjóðum í Evrópu hagfelld. Það er andstætt íslenskum hagsmunum að blása þá leið út af borðinu. Við þurfum að nálgast viðfangsefnið með öðrum hætti en fyrir tólf eða tuttugu árum. En það á að fara á dagskrá."

Já, þetta mál mætti fara á dagskrá og lagt í dóm kjósenda.

Afgerandi höfnun á aðild myndi hreinsa loftið í stjórnmálum á íslandi og við fengjum frið fyrir þessum endalausu staðhæfingum um bjarta framtíð.

Þorsteinn tyggur áfram um trú sína á því að sæti við borðið þýði mikil áhrif á málefni sambandsins.

Utanríkisráðherra greinir frá því í Morgunblaðinu í dag að hlutfall tollskrárnúmera sem ekki bera toll hér er þannig 89,6%, en um 27% í ESB. Því myndi verð á mörgum vörum og þjónustu hér á landi hækka við inngöngu í ESB.

 

Það er kannski við hæfi að Þorsteinn jafni Evrópusambandinu við kaupfélögin gömlu og mæri Halldór Ásgrímsson formann Framsóknarflokksins í sömu andránni.

Þorsteinn viðurkennir að þeir stærri hafi haft meiri áhrif í kaupfélögunum og svo muni einnig vera um Evrópusambandið. Enda sýnist nú flestum að Þjóðverjar og Frakkar hafi þar meiri áhrif en smærri þjóðir. Það er því ekki á vísan  að róa með þau áhrif sem sæti við borðið muni hafa þó Þorsteinn telji það helsta kostinn.Guðlaugur Þór færir hinsvegar gild rök fyrir þeim neikvæðu áhrifum sem það kynni að hafa í för með sér.

Ég held að það væri til góðs að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu með auknum meirihluta í ljósi mikilvægis málsins um Evrópusambandsaðild Íslands svo að við fengjum frið fyrir þessum sífelldu prédikunum evruspekinga um ágæti þess að ganga í tollabandalag þriggja tuga ríkja á móti afgangnum af heiminum eða með orðum Guðlaugs Þórs:

"Því hefur einnig verið haldið fram að undir EES-samninginn falli öll helstu málefnasvið ESB og við séum því eins og áhrifalaust aðildarríki að sambandinu. Þetta er líka fullkomlega rangt. 

Mestu skiptir fyrir okkur að við erum ekki hluti af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni sem enginn getur lengur mælt bót.

Þar fyrir utan erum við laus við stefnu ESB þegar kemur að landbúnaði/dreifbýlisþróun, skattamálum, gjaldmiðilssamstarfi, byggðastefnu, réttarvörslu, dóms- og innanríkismálum, tollabandalagi, utanríkistengslum, öryggis- og varnarmálum, fjárhagslegu eftirliti, framlagsmálum og stofnunum. Af 34 köflum ESB-löggjafarinnar eru tíu kaflar að fullu hluti af EES-samningnum en þrettán kaflar standa alfarið fyrir utan. Linnulausar rangfærslur ESB-sinna víkja ekki staðreyndum til hliðar.

Innganga í ESB myndi þýða að við tækjum upp 100% af ESB gerðum en ekki 13,4%. Innganga í ESB myndi þýða að allir 34 málaflokkar ESB ættu við um okkur en ekki einungis þeir sem okkur eru hagfelldastir.

Staðreyndin er sú að við erum aðilar að sérsniðnum samningi sem hentar íslenskum hagsmunum ákaflega vel og gerir um leið að verkum að engin þörf er á inngöngu í tollabandalag ESB-ríkjanna.

Gleymum því ekki að hlutfall tollskrárnúmera sem ekki bera toll hér er þannig 89,6%, en um 27% í ESB. Því myndi verð á mörgum vörum og þjónustu hér á landi hækka við inngöngu í ESB."

Það væri léttir að því að Þorsteinn Pálsson og ámóta Evruspekingar hættu að þreyta okkur með Evrópusambandssteypuhrærslu sinni sem þjóðin vill hvorki sjá né heyra.

 


Ábyrgð Alþingis

og skortur á henni er umfjöllunaratriði Arnars Þórs Jónssonar í skarpri athugun í Morgunblaðsgrein í dag.

Arnar segir:

"Saga mannkyns sýnir að frelsið er dýrmætt og lýðræðið viðkvæmt. Dæmin sanna einnig að ótemprað vald er ógn við hvort tveggja.

Stjórnarskrá okkar geymir mikilvæg ákvæði um temprun ríkisvaldsins. En hvaða varnir hefur íslensk þjóð gagnvart erlendu valdi þegar það seilist til áhrifa hérlendis og kallar eftir yfirráðum sem stjórnarskráin ætlar íslenskum yfirvöldum einum? Á síðustu árum hafa ytri og innri mál lýðveldisins þróast með þeim hætti að ekki verður lengur undan litið. Dynjandi óveðursskýin ættu nú að vera greinileg öllum þeim sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra.

Bönd lýðræðisins trosna

Tengslarofið milli almennings og valdhafa birtist í ýmsum myndum og skulu hér nefnd nokkur dæmi:

1. ESB hefur í framkvæmd tekið yfir hluta af valdsviði Alþingis með þeim hætti að aragrúi reglna streymir nú í gegnum þjóðþing Íslendinga á ári hverju án efnislegrar aðkomu, endurskoðunar eða breytinga af hálfu íslenskra þingmanna. Evrópureglur þessar hljóta lagagildi hér á landi án þess að fá hér lögformlega rétta meðferð í samræmi við stjórnarskrá og þingsköp.

Í stað þriggja umræðna á Alþingi hljóta reglur þessar afgreiðslu sem þingsályktanir. Þetta er vafalaust þægilegra fyrir ESB, en hvað með íslenska þjóðarhagsmuni? Má una við það að þingsályktun sé veitt sama gildi og lögum sem hlotið hafa þinglega og stjórnskipulega rétta meðferð? Er ásættanlegt fyrir þjóð sem kallast vill sjálfstæð að við getum breytt öllum lögum sem eru í gildi hérlendis, nema þeim sem eiga stoð í EESsamningnum, vegna þess að við höfum engan aðgang að því valdi sem setur reglur á grundvelli EES?

2. Með innleiðingarferlinu hefur embætti forseta lýðveldisins verið gengisfellt, því framangreind „skemmri skírn“ rýrir ekki aðeins stjórnskipulega stöðu Alþingis heldur gerir synjunarvald forsetans óvirkt. Báðar þessar staðreyndir veikja þá lýðræðisvörn sem Alþingi og forseta er ætlað að veita almennum borgurum hér á landi samkvæmt stjórnarskrá.

3. Eitt mikilvægasta atriði stjórnskipulegrar valdtemprunar og lýðræðisverndar gagnvart meirihlutavaldi er heimild dómstóla til dæma um hvort lög brjóti gegn stjórnarskrá. Nú er svo komið að íslenskir dómstólar fara í reynd og í æ ríkari mæli ekki með þetta eftirlitshlutverk hvað viðvíkur hinum ört stækkandi hluta laganna sem eiga uppruna sinn hjá ESB. Í framkvæmd er æðsta úrskurðarvald um Evrópurétt hjá dómstól ESB, sem leggur EFTA-dómstólnum línurnar og þangað leita íslenskir dómstólar ráða um túlkun Evrópureglna, þ.m.t. Hæstiréttur. Í því samhengi öllu hafa reglur ESB um fjórfrelsið tekið sæti einhvers konar „yfirstjórnarskrár“, sem allt annað verður að lúta. Þessu til viðbótar hefur Mannréttindadómstóll Evrópu tekið sér vald, sem þeim dómstól var aldrei ætlað, til íhlutunar um innri málefni íslenska lýðveldisins.

4. Reglurnar í þriðja orkupakka ESB voru þess eðlis að þær hefðu með réttu átt að fara í gegnum þrjár umræður á Alþingi og fá að því loknu samþykki forseta lýðveldisins. Gagnrýnisvert er að þetta hafi ekki verið gert. Sú staðreynd að Hæstiréttur Noregs hefur nú ákvarðað að taka skuli til efnismeðferðar málshöfðun „Nej til EU“ vegna innleiðingar þriðja orkupakkans í Noregi er enn eitt viðvörunarljósið. Verði niðurstaða norskra dómstóla sú að reglur þriðja orkupakkans hafi verið svo viðurhlutamiklar að aukinn meirihluta hafi þurft á norska stórþinginu, þá mun jafnframt opinberast að meðferð Alþingis á málinu hafi verið til stórfellds vansa, svo að jafna mætti því við trúnaðarbrest gagnvart íslenskri þjóð. Hér er ekki lítið í húfi.

5. Á sama tíma hafa aðrir öryggishemlar lýðræðis og borgaralegs frelsis slaknað á tímum Covid-19: Aðgerðir stjórnvalda vegna kórónaveirunnar hafa stórlega hamlað öllu félagsstarfi og þar með veikt borgaralegt aðhald gagnvart miðstýrðu valdi. Aðgerðir stjórnvalda hafa leitt til efnahagslegs tjóns, atvinnuleysis, einsemdar, kvíða, þunglyndis, félagslegs rofs o.fl. sem allt mun hafa langvarandi fjárhagslegar, félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar. Í stað valddreifingar og einkaframtaks hefur öll þróunin verið í átt til miðstýringar og ríkisrekstrar. Niðurstaðan af öllu þessu er sú að lamandi hönd hefur verið lögð á lýðræðislega virkni borgaranna. Sagan sýnir að þegar frjáls félagasamtök veikjast verður auðveldara fyrir fulltrúa ríkisvalds (og þeirra sem tala sem málsvarar siðferðilegs meirihluta) að beita borgarana kúgun og ofríki með tilheyrandi skerðingu frelsis og réttinda.

6. Í öllu þessu samhengi eru ótaldar þær hættur sem þjóðaröryggi Íslendinga stafar af skipulagðri glæpastarfsemi, erlendu hervaldi, samkrulli valds og fjármagns, misnotkun fjölmiðla, njósnastarfsemi, veiku fjarskiptaöryggi o.fl.

7. Hvort sem veik staða lýðveldisins nú skýrist af vanmetakennd eða fyrirhyggjuleysi má öllum lesendum þessarar greinar vera ljóst að við svo búið má ekki lengur standa.

Höfum við metnað til að stýra eigin vegferð?

Erlendar lagareglur eru samkvæmt framansögðu innleiddar hér í stórum stíl með lítilli eða engri þátttöku kjörinna fulltrúa íslensku þjóðarinnar og þar með án þess að Íslendingum hafi gefist viðunandi tækifæri til að hafa áhrif á efni þeirra reglna.

Á mannamáli þýðir þetta að íslenskt löggjafarvald hefur að miklu leyti verið yfirtekið af erlendu valdi.

Þar við bætist að æðsta túlkunarvald um lögmæti þessara reglna hefur í veigamiklum efnum verið eftirlátið erlendum embættismönnum. Með þessu hefur endurskoðunar- og aðhaldshlutverk Alþingis og íslenskra dómstóla verið veikt eða gert óvirkt. Þar með hafa lýðræðislegar undirstöður stórlega skaðast. Í framkvæmd birtist þetta í skerðingu þeirrar réttarverndar sem stjórnarskráin ætlar almennum borgurum. Neitunarvald forseta hefur, jafnvel í stærstu málum, verið gert óvirkt.

Embættismenn í erlendum borgum, sem enga ábyrgð bera gagnvart Íslendingum, taka í sívaxandi mæli afdrifaríkar ákvarðanir um íslensk innanríkismál. Allt framangreint hefur grafið undan stoðum lýðveldisins Íslands. Sem sjálfstæð þjóð stöndum við nú veikum fótum. Ef svo heldur fram sem horfir er alls ekki víst að frjálslynd lýðræðishefð haldi hér velli.

Í kvæði sínu „Alþing hið nýja“ kallaði Jónas Hallgrímsson eftir því að Íslendingar, sem lengi hefðu „dvalið draumþingum á“ vöknuðu til vinnu og metnaðar. Slík hvatning á fullt erindi nú, ekki síður en þá."

Það er ekki vafi á því að Arnar talar hér fyrir munn margra sem hafa horft á þessa þróun úr fjarlægð með undrun og ofboðið geðleysi íslenskra þingmanna.

Spurningin er sú hvort hér verði á breyting eða áframhaldandi fúsk þingflokks Sjálfstæðisflokksins  sem birtist best í 3.Orkupakkamálinu verði að viðurtekinni venju eða hvort Alþingi hugleiði ábyrgð sína eitthvað betur.

      


Til hamingju Samherji

með nýja skipið Vilhelm Þorsteinsson.

Maður er gersamlega kjaftstopp eftir að hafa horft á myndbandið um  skipið. Þvílíkt furðuverk og snilld er þetta allt að maður trúir varla sínum eigin augum.

Þetta skip á kvótakerfinu tilvist sína að þakka. Ólympiskar veiðar hefðu aldrei leitt til þess að þetta skip hefði verið byggt. Fúl staðreynd fyrir markaðssinna. En því miður er það svo.

Þetta skip er þjóðarstolt. Megi því vel farnast í bráð og lengd.

Til hamingju Samherji með þetta skip og allt sem því fylgir. 


Af hverjum andskotanum

erum við að skapa okkur þessi vandamál á landamærunum?

Af hverju segjum við ekki flugrekendum og Norrænu að enginn fái að fara frá borði sem ekki er bólusettur, mótefnamældur eða með nýtt smitpróf við komuna til landsins? Það er þeirra vandmál.

Af hverjum andskotanum erum við að skapa okkur þá áhættu að leyfa farþegaflytjendum að koma hingað með öll þessi vandamál?


Áminning sr. Geirs Waage

Afsal fullveldisins Íslands til ESB

...." Annað mál er sú umræða og það sjónarmið sem undarlegt nokk hefur heyrst í Sjálfstæðisflokknum og utan hans sem er að „fullveldi Íslands verði best varðveitt og aukið með því að bjóða öðrum aðkomu að því.“ Kannist þið við þessa kennisetningu? Ég sem þvergirðingur og tossi á erfitt með að skilja hluti sem eru ofar mínum skilningi og get því ómögulega skilið þessa kennisetningu þ.e. það að ganga í Evrópusambandið og deila fullveldi okkar með því sé til þess að varðveita sem best fullveldi Íslands.

Þetta er ofar mínum skilningi. Ég hef þó gert mér grein fyrir því að hagsmunir þeirra sem hafa aðstöðu til að láta þá ganga fyrir hagsmunum annarra þeir snúast yfirleitt fyrst of fremst um auð og aðstöðu til auðsöfnunar áður en þeir fara að snúast um grundvallargildi eins og fullveldi, eins og sjálfstæði, eins og manngildi.

Þegar við gengum í EES var því heitið að innan 5 ára yrðu allir tollar niður fallnir af íslenskum sjávarafurðum.

Enn í dag eru um 15% tollar á mjög mörgum sjávarafurðum.

Ég tek eindregið undir þá skoðun að það var algjört hneyksli að taka þátt í viðskiptabanni ESB á Rússa einkum þegar ESB var ekki reiðubúið að fella niður innflutningstolla á íslenskar sjávarafurðir.

Þarna er ég að tala um hagsmunina. Þarna hefði farið betur ef ESB hefði hlustað á okkar kröfur og við fylgt þeim kröfum eftir sem við ekki gerðum.

Höldum grunngildum Sjálfstæðisflokksins í heiðri

Þetta dæmi nefni ég hér vegna þess að það borgar sig aldrei, þegar upp er staðið að láta magann ráða fyrir hjartanu þegar við tölum um grunngildi eins og fullveldi. Það borgar sig aldrei. Það hefnir sín alltaf. Því það kemur ekkert í staðinn fyrir það manngildi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt í grunninn rétt eins og forfeður okkar lögðu virðingu fyrir lögunum og virðingu fyrir því sem býr að baki laganna í grunninn"


Hugleiðing Ásmundar

Friðrikssonar á aðalfundi félags sjálfstæðismanna um fullveldismál er allrar athygli verð. Menn lesi þennan texta og hugsi sér hvor sé merkilegri pappír og þjóðhollari , Ásmundur þessi eða Björn Leví siðameistari Pírata með Þórhildi Sunnu og húsaleigusérfræðingnum á malbikunarjakkanum Jóni Þór  sem kalla Ásmund öllum illum nöfnum vegna dugnaðar hans og yfirferð við þingstörf.

 RÆÐA ÁSMUNDAR FRIÐRIKSSONAR ALÞINGISMANNS  á aðalfundi Félags Sjálfstæðisfólks um fullveldismál (úrdráttur ritara).

Ásmundur óskaði formanni og nýkjörinni stjórn innilega til hamingju með kjörið. Hann kvaðst vera mjög þakklátur fyrir að fá að mæta á fund FSUS og geta verið hluti af hópnum. Hann hefði gjarnan viljað sjá mun fleiri félaga sína úr þingflokknum á fundinum til að heiðra samkomuna með nærveru sinni og hlusta á þar sem þar fer fram. Kvaðst sammála flestu því sem kom fram í ræðu Jóns formanns.

Síðan ræddi hann um fullveldishugtakið:

Hvað er fullveldi?

Þegar rætt er um fullveldið, þá velti ég því fyrir mér sem þingmaður hvernig fullveldið snertir okkur í daglegu lífi, einkum í atvinnulífinu á Íslandi? Þá verður manni hugsað til útvegsbóndans.

Í dag eru útvegsbændur einungis til á tyllidögum, karlar sem eiga trillur og nokkrar kindur. Nú eru þetta orðnar tvær stórar atvinnugreinar. En hvernig hefur þessum stéttum vegnað?

Þeim hefur að öllum líkindum vegnað mjög vel í upphafi í gjöfulu landi sem Ísland er. Í dag er staðan hjá bóndanum í Öræfum sem vill hætta búskap eftir 45 ára þannig að enginn vill taka við af honum vegna þess að búskapurinn stendur ekki undir þeim kjörum sem fólk vill lifa af í dag. Fæðu- og matvælaöryggi tengist óhjákvæmilega afkomu bænda sem er í dag fyrir neðan allar hellur. Það er fullkomin hætt á því að engin nýliðun verður í greininni vegna óviðunandi afkomu og þá hverfur þetta öryggi sem við viljum búa við í fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Bóndinn í Öræfum sem á 400 ærgildi vill hætta búskap og þarf jafnvel að gefa stofninn af því að enginn vil hefja búskap með skuldum og tekjum sem eru í boði. Gefi bóndinn hjörðina er það gjafagjörningur sem þarf að borga skatt af. Bóndinn er því í afskaplega erfiðri stöðu við lok lífsstarfsins. Hefði sami maður aftur á móti gerst útvegsmaður og átt skip með 400 tonna kvóta þá fengi hann um 1,6 milljarða í sinn vasa ef hann seldi við starfslok. Þetta er munurinn á ævikjörum bóndans og útvegsmannsins í dag. Hugsum um það, að þó afkoma bænda sé óaðskiljanlegur hluti af fæðuörygginu í þessu landi þá er innflutningur einnig mikilvægur því olía, sáðvara, fiskiskip vélar og tæki þurfum við að flytja inn. Innflutningur landbúnaðarafurða þarf að taka mið af stöðu á markaði og þeirri staðreynd að Evrópusambandið tollar fisk- og landbúnaðar afurðir frá Íslandi. En við þurfum að hafa vilja til þess að standa með bændum. Þeir keppa við há laun og dýra þjónustu. Þeirra hlutur er oftast fyrir borð borinn. Í dag er það þannig að íslenskt lambakjöt er 3. dýrasta lambakjöt í Evrópu en íslenskir bændur fá lægst hlutfall af þeim tekjum í sinn vasa af öllum bændum í Evrópu. Það er verkefni okkar að bæta kjör bænda, lækka skattana og álögur á fólkið. Láta okkur líða betur í þessu samfélagi.

Þriðji orkupakki ESB og fullveldið

Fyrir um ári síðan þegar við stofnum þetta félag okkar og við vorum að ræða innleiðingu 3. orkupakka ESB í íslensk lög, þá vorum við að ræða nákvæmlega þetta sama mál. Verðmætasköpun auðlindanna og hver á að ákveða hvað á að gera við orkuna, sameign okkar? Á að senda hana óbeislaða úr landi og nýta hana til virðisauka erlendis eða nýta til innlendrar verðmætasköpunar og vel borgandi starfa. Þetta var það sem sameinaði okkur, draumur um verðmætar auðlindir í okkar eigu og umsjón.

Fullveldið og sjávarútvegurinn

Fáir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru nær sjávarútveginum en ég og ég tel mig þekkja vel til greinarinnar og ég hef alla tíð verið talsmaður kvótakerfisins. En ég hef aldrei verið talsmaður vondrar umgengni þeirra og hvernig þeir fara með þau verðmæti sem þeim er trúað fyrir og snerta afkomu annarra. Þar eru ákvarðanir teknar, nánast á hverjum degi hvort fiskurinn sem dregin er úr sjó er unnin í landinu eða fluttur óunnin til útlanda. Ákvörðun um það hvort virðisaukinn af afurðinni verður til í landinu eða hvort hann verður til í útlöndum ætti að vera okkar sameiginlega hagsmunamál. Það er óréttlæti sem ég sætti mig ekki við og Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hafa að spyrna við í þeirri umræðu. Sjálfstæðisflokkurinn er meðfylgjandi kvótakerfinu og var eini flokkurinn á Alþingi sem greiddi atkvæði á móti framsali fiskveiðiheimilda sem öll lætin snúast um í dag. Árið 2019 óskaði ég eftir umræðum í Atvinnuveganefnd að taka á útflutning á óunnum fiski. Íslendingar flytja út um ca. 40.000 tonn af óunnum fiski á ári. Verðmætasköpunin og virðisaukinn af því magni verður til í öðrum löndum. 40.000 tonn af fiski er atvinna í hátæknifrystihúsi fyrir um 300-350 manns. Hvaða samfélag þarf ekki á slíkri atvinnustarfsemi að halda? Brim vinnur um 24.000 tonn á ári og skapar atvinnu fyrir 150 manns í frystihúsi félagsins á Granda. Brim skilar gríðarlega góðri afkomu og er til fyrirmyndar í öllu því sem þeir gera. Brim er á hlutabréfamarkaði og þar eru upplýsingar úr rekstrinum sem kallað er á í samfélaginu skilyrði. Upplýsingaskylda fyrirtækja á markaði ætti að leiða til þess að fleiri af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum væru þar inni. Það mundi skapa aukna með auknu aðgengi upplýsinga. Það er að gerast að stóru fyrirtækin kaupa ársreikninga smærri þjónustufyrirtækjanna. Þau hringja svo og segja: „Reikningurinn í síðasta mánuði var allt of hár hjá þér! Ég var nú bara að skoða afkomutölurnar þínar og ég óska eindregið eftir því að eiga þátt í þessum hagnaði sem þú ert að mynda hjá þessu fyrirtæki. Þú ert að græða mikið og ég vil eiga þátt í því og þið verðið að lækka reikningana til okkar.“ Á sama tíma greiða fyrirtækin eigendum sínum milljarða í arðgreiðslur. Góða afkoma er mikilvæg, líka fyrir þá litlu. Ég þekki sjálfur til lítils fyrirtækis sem var komið að fótum fram eftir að hafa í 7 ár gefið 40% afslátt af allri sinni vinnu, öll árin, hvern einasta klukkutíma! Þegar maður snýr svo peningnum við og veltir því fyrir sér hvernig útgerðin fór að við skiptingu verðmæta af veiði loðnu sem loksins lét sjá sig eftir tvö mögur ár. Þá er tekin ákvörðun um hvað sjómennirnir fá í hlut. Útgerðin ákveður að 33% af verðmætunum sem þar eru sköpuð verði notað til að borga fyrir fiskinn sem kemur úr sjónum þegar fiskiðnaðurinn almennt býr við að lágmarki um 50 - 70% hráefniskostnað. Með þessu fá sjómennirnir lægri laun, þeir greiði lægri skatta og hafnarsjóðirnir fá lægri tekjur. Þá lækkar grunnurinn að veiðigjaldinu og svo er kvarta yfir því að það sé allt of hátt. Það ríkir engin sátt um að svona verði áfram staðið að málum. Sterk og stöndug útgerð og vinnsla er mikilvægur efnahagslegur þáttur í landinu en það verður að ríkja sátt um skiptingu verðmætanna og hlutur samfélagsins má ekki vera fyrir borð borinn. Á síðustu loðnuvertíð sýnist mér framlegðin í frystingunni hafa verið um 50%. Þetta þýðir að hafi loðnuvertíð verið 30 milljarðar þá var rúmur helmingur af því skilgreindur sem framlegð. Hefðu þeir sjálfir þurft að gefa 40% afslátt, eins og ungi maðurinn með fyrirtæki sitt, þá hefðu tekjurnar ekki verið nema 18 milljarðar. Hvernig hefði þá farið fyrir vinnslunni? Á sama tíma og við flytjum störf til Evrópusambandsins erum við að keppa við markað sem greiðir lægri laun og þar eru stofnstyrkir við uppbyggingu fiskiðnaðarins 80% af kostnaði. Hvernig eigum við að keppa á þeim markaði um verð á ferskum fiski. Á sama tíma er ESB með tolla á margar tegundir fiskafurða frá Íslandi t.d. flatta löngu, makríl er kallað eftir að afnema tolla á innfluttum landbúnaðarafurðum. Þegar Ísland varð þátttakandi í viðskiptabanni ESB á Rússland var þess óskað að í staðinn hætti ESB að leggja tolla á íslenskar afurðir. Því var harðlega neitað. Samt eltum við ESB í þessu rugli sem viðskiptabannið er og við töpuðum á því vel borgandi mörkuðum og stórsköðuðum útflutning Íslands á makríl og landbúnaðarafurðum. Einungis einn þingmaður stóð í lappirnar á Alþingi gegn viðskiptabanninu (innskot ritara: lesendur geta giskað á hver það var).

Fullveldið birtist okkur daglega með einhverjum hætti

Við þurfum að líta okkur nær þegar við íhugum fullveldi Íslands. fullveldið birtist í fleiri þáttum en einungis í góðum ræðum og skrifum. Það birtist í afkomu fólksins á hverju degi og þar sé ég fullveldið snerta okkar í hversdeginum. Ræðum hvernig fæðuöryggi, afkoma bænda, afkoma sjómanna, afkoma sveitarfélaganna hafnanna og í raun allra, tengist í rauninni því fullveldi sem við viljum búa við í sátt sem samfélag. Við viljum að verðmæti auðlinda landsins verði að virðisauka fyrir fólkið í landinu. Að auðlindirnar skapi hér vel launuð störf og við höldum áfram að þróa atvinnugreinarnar sem með styrk sínum skapa skjól og tækifæri fyrir nýsköpun í landinu. Þess vegna höfum við tekið til umræðu í atvinnuveganefnd þingsins útflutning á óunnum fiski. Þar eru tækifæri sem við verðum að skoða og þar ættu hagsmunir samfélagsins að ráða í samkeppni við ríkisstyrkta fiskvinnslu í Evrópusambandinu og lág laun. Það er verkefni sem ég vil ræða og finna á lausn með Sjálfstæðisflokknum í forystu.

Staða Sjálfstæðisflokksins;

Það er full ástæða fyrir okkur Sjálfstæðismenn til að eiga þennan góða félagsskap hér til að ræða þessi mál frá mjög mörgum hliðum. Við þurfum að vera ófeimin að standa vörð um afkomu og hagsmuni fólksins í landinu. Ekki sérhagsmuni, heldur hagsmuni samfélagsins alls! Þegar ég heyrði fyrstu ræðu Jóns Magnúsonar núverandi formanns félagsins fyrir rúmum 40 árum vorum við allir þar. Peyjarnir á bryggjunni í Vestmannaeyjum voru allir í Sjálfstæðisflokknum. Þeir eru færri í dag sem vinna á bryggjunni og kjósa Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að Alþingiskosningum. Þá er eins og margir treysti sér ekki til að kjósa flokkinn til Alþingis eins og hann er í dag. Ég þori þó að fullyrða það að í mínu kjördæmi kjósa í sveitarstjórnarkosningum um 50% Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Allt frá Suðurnesjabæ og austur að Höfn og við sjáum tölur eins og 74% í Rangárþingi Ytra og slíkar tölur hafa einnig sést úti í Vestmannaeyjum en þegar kemur að skoðanakönnum um Alþingi erum við rétt í rúmum 28% í Suðurkjördæmi og 24% á landsvísu. Hvað veldur þessum mun? Við þurfum að hugsa vel um það. Ég hef haldið því fram að flokkurinn hafi fjarlægst fólkið, ekki öfugt.

Að lokum

Ég er Þakklátur fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag. Ég mun taka undir þá rödd sem hér fær að heyrast og kallað er eftir í okkar flokki og úti í samfélaginu eins og við höfum heyrt á opinberri umræðu. Lifandi umræða um fullveldið í hversdeginum er mikilvægt innlegg sem hér er opnaður vettvangur fyrir. Þakka fyrir að fá að hitta ykkur þetta góða og skemmtilega fólk og finna hvað allir eru velkomnir til umræðu um þessi mál. Ég óska félaginu og ykkur öllum Guðs blessunar


Aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál

Ræða Erlends Borgþórssonar á aðalfundi:

"SKÝRSLA STJÓRNAR Ágætu félagar, Við erum nú á okkar fyrsta aðalfundi frá stofnun félagsins hinn 1.desember 2019. Til að fara aðeins yfir tilurð félagsins þá vorum við margir sjálfstæðismenn á umliðnum árum að nokkru leyti ósáttir við stefnu forystu flokksins.

Stefnu sem við töldum ekki vera í samræmi við hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, stefnu sem okkur oft á tíðum virtist meira í ætt við stefnu andstæðinga flokksins. Þetta var algengt umræðuefni á meðal flokksmanna og horfðum við á eftir mörgu góðu flokkssystkini hverfa á braut vegna þessa. Þá byrjaði að þróast sú hugmynd að stofna félag innan flokksins sem hefði það að markmiði að viðhalda þeirri ímynd og hugmyndafræði sem hafði gert Sjálfstæðisflokkinn að stærsta stjórnmálaafli þjóðarinnar, nánast frá stofnun hans og fram á þessa öld.

Þetta er stefna sem byggist á íhaldssemi og frjálslyndri alþjóðlega sinnaðri stefnu. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður af tveimur stjórnmálaöflum sem að mörgu leyti höfðu ólíka sýn, en það sem sameinaði þá var baráttan um fullt sjálfstæði þjóðarinnar, sem tókst að lokum árið 1944. Sjálfstæð þjóð með stefnu Sjálfstæðisflokksins er það sem gerði flokkinn að því afli sem hann varð. Flokkurinn hefur frá upphafi haft forystu um nánast allar framfarir sem hafa orðið með það að markmiði í byrjun að ná sömu lífskjörum almennings á Íslandi og í Skandinavíu. Það tókst undir handleiðslu og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins þ.e. að nýta frelsi einstaklingsins til orðs og athafna.

Til marks um forystu flokksins í öllum helstu framfaramálum þjóðarinnar, þá var fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Þorláksson aðalhvatamaður að virkjun Elliðaár til framleiðslu á rafmagni fyrir Reykvíkinga, hann stofnaði Vatnsveitu Reykjavíkur til vatnsöflunar í Heiðmörk en áður höfðu Reykvíkingar fengið mengað vatn úr Vatnsmýrinni sem olli m.a. taugaveiki í Reykjavík, Jón stofnaði Hitaveitu Reykjavíkur og lagði leiðslu frá Reykjum í Mosfellsbæ, eitthvað sem gjörbreytti lífsgæðum almennings í Reykjavík. Á undanförnum áratug hefur mörgum flokksmönnum, ekki bara í Sjálfstæðisflokknum því þessi umræða fer víst einnig fram í öðrum flokkum, virst sem stór hluti forystu þjóðarinnar hafi misst sjónar á mikilvægi þess að viðhalda sjálfstæðinu.

Það virðist sem þjóðinni sé stýrt af embættismönnum sem fara fram, veifandi reglugerðarverkum erlendra þjóða sem sett eru ofar íslenskri löggjöf. Allt er þetta í nafni þess að þá séum við í þjóð á meðal þjóða þegar í reynd við erum þá eingöngu þjóð á meðal ríkja sem sífellt minna orðið á ráðstjórnarríkin sálugu, sem liðu undir lok á níunda áratug síðustu aldar, þá búin að eyðileggja alla innviði þjóða sinna með álíka stjórnarháttum og við viljum aðhyllast í dag. Hvílík alþjóðahyggja! Þessu viljum við breyta og það hefur sameinað okkur í Félagi sjálfstæðismanna um fullveldismál. Við viljum viðhalda þeirri stefnu að vera frjálslindir, alþjóðasinnaðir íhaldsmenn.

Við viljum nýta auðlindir þjóðarinnar til að styrkja land og þjóð sem fullvalda sjálfstætt ríki. Á stofnfundi hinn 1.desember 2019 var ákveðið að félagið skyldi ávallt halda uppi þeim góða sið að halda ár hvert upp á Fullveldisdaginn 1. desember. Þrátt fyrir Covid-19 sem haldið hefur nánast öllu félagsstarfi niðri, þá héldum við upp á daginn með þvi að senda út hátíðardagskrá í gegnum YouTube.com Fengum við Styrmir Gunnarsson formann félagsins og einnig hátíðargest, sem var Arnar Þór Jónsson héraðsdómari.

Skrifstofa Sjálfstæðisflokksins og sérstaklega framkvæmdastjóri flokksins Þórður Þórarinsson eiga heiður skilið fyrir veita dyggilega aðstoð að gera þetta mögulegt. Þetta tóks frábærlega vel og vakti mikla ánægju. Til marks um það þá hafa í dag 1.120 manns horft á upptökuna, álíka efni sem er á youtube og líkja má við 1.desember hátíð okkar er yfirleitt með um 40-50 áhorf. Þetta sýnir, að ég held, þann mikla áhuga sem þjóðin hefur á fullveldinu og ekki síður mikilvægi þess fyrir þjóðina að viðhalda sjálfstæði sínu. Sjálfstæði þjóða er ekkert sjálfgefið, það þarf að hlúa vel að því því en sagan segir okkur hversu auðvelt það er að tapa sjálfstæði þjóðar."

Jón Magnússon lögmaður var kjörinn formaður félagsins. Hann flutti ávarp:

 

Kæru vinir.

Ég þakka það traust sem þið sýnið mér með því að kjósa mig sem formann félagsins. Við sendum öll okkar bestu kveðjur til fráfarandi formanns félagsins, Styrmis Gunnarssonar með ósk um góðan bata og þakkir fyrir það mikla starf, sem hann hefur unnið fyrir félagið. Í ljósi þess var vel við hæfi að gera hann að heiðursfélaga eins og samþykkt var af öllum fundarmönnum hér fyrr á fundinum.

Stofnfundur félagsins var haldinn þ.1.12.2019 á þeim fundi talaði Jón Gunnarsson ritari Sjálfstæðisflokksins um nauðsyn þess að við berum virðingu fyrir skoðunum hvers annars og markmiðið væri að ná sem flestum sem virða grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins til að starfa á vettvangi hans.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður flutti líka ræðu á stofnfundinum og sagði m.a, „Skilaboðin mín sem Sjálfstæðismanns hér í dag eru að við hlustum á raddir fólksins í landinu og þá vakna aftur væntingar um fyrri styrk Sjálfstæðisflokksins.“ Formaður félagsins Styrmir Gunnarsson sagði við það tækifæri, að markmiðið væri að skapa sérstakan vettvang til þess að ræða um þau málefni líðandi stundar sem snerta fullveldi þjóðarinnar og halda jafnframt uppi reglubundinni fræðslu ekki síst fyrir ungt fólk um sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Athyglisverðar voru líka ræður þeirra Viðars Guðjohnsen jr. og Jónasar Elíassonar á stofnfundinum en þeir gerðu hvor á sinn hátt með skörulegum hætti grein fyrir mikilvægum atriði sem varða sjálfstæðis- og fullveldisbaráttu þjóðarinnar. Allt frá stofnun félagsins hefur verið leitast við að félagið fengi skipulagsbundinn sess innan Sjálfstæðisflokksins. Því miður hefur það ekki gengið sem skyldi fram að þessu, en í samtali við ritara flokksins Jón Gunnarsson í dag, sagði hann að samþykkt hafi verið að félagið starfi innan vébanda Sjálfstæðisflokksins, sem félag Sjálfstæðisfólks á grundvelli skipulagsreglna flokksins, en geti ekki kosið fulltrúa á Landsfund eða í flokksráð flokksins.

Félagið hefur ekki fengið neina formlega tilkynningu um þetta, en þessi atriði mun nýkjörin stjórn taka upp við forystu flokksins við fyrsta tækifæri og leiða þau til lykta. Barátta þjóðarinnar fyrir sjálfstæði og fullveldi er löng og þeirri sögu var gerð góð skil á stofnfundi félagsins og ákveðnir þættir hennar hafa verið rifjaðir upp og verið til umræðu á fundum félagsins á liðnu starfsári. Mér finnst samt við hæfi að rifja upp nokkur atriði um sögu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga Á tímum verslunareinokunarinnar á tímum dansks einvaldskonungs urðu Íslendingar að sæta afarkostum varðandi verslun og viðskipti. Landinu var skipt niður í umdæmi sem iðulega tóku ekki mið af staðháttum og fólkið hafði ekki frelsi til að versla við þá kaupmenn, sem þeir vildu heldur einungis við þá, sem þeim var heimilað miðað við búsetu.

Sagan af Hólmfasti Guðmundssyni hjáleigumanni á Brunnastöðum skýrir vel niðurlægingu Íslendinga á einokunartímanum og orsök eymdarinnar, sem landsmenn neyddust til að búa við. Hólmfastur gerði sig sekan um þann glæp að selja kaupmanninum í Keflavík 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd árið 1698 í stað þess að eiga þessi viðskipti við kaupmanninn í Hafnarfirði. Vegna þessa var hann kaghýddur við staur af því að hann gat ekki greitt sektina sem hann var dæmdur til að greiða og amtmaðurinn helsti valdsmaður hins danska arfakonungs vildi ekki líta við gömlu bátskrifli sem Hólmfastur átti.

Einokunarverslunin gekk sitt skeið á enda og breyting varð á verslunarhögum landsmanna til hins betra en það gerðist ekki baráttulaust. Það er nú einu sinni þannig, að ófrelsi einokunar- og einvaldsafla verður aldrei lagt niður nema til komi barátta frjálsborins fólks fyrir rétti sínum. Í baráttuvímu í upphafi 20.aldarinnar voru landsmenn fullir bjartsýni og kröfðust fulls stjórnskipulegs fullveldis.

Árið 1907 voru kosnir úr öllum kjördæmum landsins fulltrúar til að mæta á Þingvallafund, sem haldinn var í júní 1907 á þeim fundi sagði Bjarni frá Vogi m.a. í ræðu: „Það er fyrsta grein laga vorra, að oss öllum skylt að vilja, að Ísland nái aftur fornum frægðarljóma sínum og sjálfstæði og víkja aldrei“ og nokkru síðar: „En þeir menn, sem berjast með erlendu valdi gegn rétti þessarar þjóðar og þeir sem eigi vilja berjast með þjóðinni – þeir menn skulu gerðir þjóðernislausir vargar í véum.“ Í dag þekkjum við hverjir það eru, sem eru þjóðvinir og vilja berjast á forsendum fullvalda þjóðar og hverjir það eru sem meta fullveldi þjóðarinnar með sama hætti og baunaréttur var metinn forðum þegar frumburðarréttur var seldur í árdaga. Fullvalda þjóð má aldrei falla í þá freistni að selja fullveldisrétt sinn vegna ákveðinna veraldlegra tímabundinna gæða.

Margir halda að baráttu fyrir frelsi og fullveldi geti verið endanlega útkljáð í bráð og lengd á ákveðnum tímapunkti eða vegna ákveðinna atburða. En svo hefur aldrei reynst. Slíkri baráttu lýkur aldrei. Við sem börðumst gegn kommúnismanum á meðan sú böðuls hendi ógnaði sjálfstæði og tilverurétti frjálsra ríkja í Evrópu töldum að við hefðum sigrað þegar járntjaldið féll og Sovétríkin liðuðust í sundur. En svo var ekki. Kommúnistarnir fóru í felur en sækja nú fram með ýmsu móti til að grafa undan vestrænum þjóðfélögum og menningarlegum gildum vestrænna þjóða, frelsi þeirra og fullveldi. Baráttunni fyrir frelsinu lýkur aldrei og baráttu smáþjóðar fyrir að halda fullveldi sínu og sjálfstæði lýkur aldrei.

Í því sambandi er rétt að rifja upp það formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson eldri sagði um þessi mál, þegar flestir meðal þjóðarinnar töldu að hinu endanlega markmiði varðandi frelsi og fullveldi þjóðarinnar væri endanlega náð með samningnum sem tók gildi þ. 1. Desember 1918 Bjarni segir að með vissum hætti megi segja að ánauð þjóðarinnar hafi verið lokið með ofangreindum samningi en hann spyr.

„Var fullt stjórnskipulegt frelsi hennar með því fengið“? Var verkefni hinar eiginlegu sjálfstæðisbaráttu þar með úr sögunni? Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan , sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína, nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni, ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefði lögformlegt gildi nema óðalsbóndinn samþykkti? ------ „og mundi hann telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði, sem því skilyrði væri háður, að þrjátíu menn mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann“?

Þessi lýsing Bjarna heitins Benediktssonar eins merkasta stjórnmálamanns þjóðarinnar fyrr og síðar á vel heima sem lýsing á því ástandi sem við búum við í dag í sumum samskiptum við Evrópusambandið á grundvelli EES samningsins. Því verður að breyta og það kallar á endurskoðun á samningnum. Margir hafa haft allt á hornum sér gagnvart þessu félagi og talið þau sjónarmið og áherslur sem félagið beiti sér fyrir eigi ekki heima í nútímaþjóðfélagi. Þar er helst vikið að sjónarmiðum sem varðar gæslu hagsmuna lands og lýðs, ættjarðarást sem og vernd íslensks þjóðernis. Fáir hafa andmælt og skilgreint betur hvað um er að ræða en fyrrum biskupinn yfir Íslandi Sigurbjörn Einarsson en hann sagði m.a.í bók sinni Draumar landsins árið 1949.

„Ættjarðarást sem hverjum heilbrigðum manni er í blóð borin, á að leiða til þjóðrækni og þjóðhollustu. Það er manngildiskrafa. Og svo sem á öðrum sviðum gilda hér meira athafnir en orð.“ Einnig: „Hollur metnaður fyrir hönd þjóðar sinnar niðurlægir enga aðra þjóð, Hann er þvert á móti þjónusta frumlægrar, eðlisgóðrar hvatar við mannkynið. „ Sama hugsun er reifuð af Jóni Sigurðssyni forseta heitnum en hann sagði í ritgerð sinni „Um Alþingi Íslendinga árið 1841. „Veraldarsagan ber ljóst vitni þess, að hverri þjóð hefur þá vegnað bezt, þegar hún hefur sjálf hugsað um stjórn sína og sem flestir kraftar hafa verið á hræringu.“ Ágæta fundarfólk. Ég lít svo á, að með starfsemi okkar séum við að halda áfram baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir fullu sjálfstæði og fullveldi.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa ætíð háð þá baráttu með rökum frelsisins og heilbrigðrar þjóðerniskenndar. Þannig eigum við líka að fara að. Þess vegna eigum við að setja sér metnaðarfull markmið í starfi félagsins. Við myndum okkar félag á grundvelli sjónarmiða okkar og hugsjóna. Við ömumst ekki við því að aðrir myndi önnur félög sem okkur kunna að vera mótdræg, en viðmiðun okkar er að sækja fram á grundvelli ákveðinna frelsishugmynda, sem við höfum skilgreint með einstaklingsfrelsi og þjóðfrelsi að leiðarljósi í samræmi við grunnhugmyndir Sjálfstæðisflokksins frá stofnun hans.

Höft og bönn vegna Kóvíd faraldursins munu taka enda, en meðan takmarkanir eru þá verður stjórnin að ráða fram úr því með hvaða hætti hún tryggir að félagsstarfsemin sé lifandi. Þær áætlanir sem gerðar voru í tíð fyrri stjórnar um fundi og fræðsluerindi eru góðra gjalda verð og ber að hrinda í framkvæmd, þegar aðstæður leyfa. En fram til þeirrar stundar skulum við undirbúa okkur sem mest og best og starfa á þeim grunni sem skáldkonan Margrét Jónsdóttir sem orti ljóðið „Ísland er land þitt“, sem sumir segja að ætti að vera þjóðsöngur Íslands, en hún sagði Fylkið ykkur jafnan undir merki þeirra, er vilja vernda og efla íslenskt þjóðerni og íslenska tungu og reynið ávallt að fylgja málstað þeirra sem berjast fyrir því sem er rétt. Gjör rétt þol ei órétt var vígorðið sem bæði ég og fyrrverandi formaður störfuðum eftir. Við skulum starfa með þeim hætti."

Ég vil hvetja alla Sjálfstæðismenn til að senda tölvupóst til Jóns Magnússonar :

jm@ilog.is 

 með kt. heimilisfangi, netfangi og farsíma og Jón mun koma því áfram til ritara.
 
Það er best að fá þetta í einu með hverju nafni svo hægt sé að senda það  til þess sem sér um félagatalið. 
 
Þó að miðstjórn vilji ekki enn viðurkenna þetta félag formlega þá skulum við reyna að gera það nægilega stórt þannig að hún verði að taka tillit til þess.
 
Berjumst gegn landsöluöflunum í Viðreisn og Samfylkingunni.Störfum í anda sjálfstæðistefnunnar frá 1929.
 
Sameinaðir stöndum vér í Félagi sjálfstæðismanna um fullveldismál. 
 

 


Fullveldi Íslands

er efni kollega Bjarna Jónssonar á bloggi hans .

"

Fullveldið birtist í mörgum myndum

Þann 24. marz 2021 var haldinn aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál - FSUF í Valhöll.  Þar var kjörinn formaður Jón Magnússon, hrl.  Margt fleira fór þar fram, og voru m.a. haldnar 3 ræður, sem fylgja fundargerðinni og getur að líta í viðhengi þessa pistils.  Vert er að benda sérstaklega á ræðu Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns, sem lýsti margbreytilegum birtingarmyndum fullveldis, aðallega tengdum atvinnulífinu.  Allt var þar satt og rétt.  

Því verður heldur ekki neitað, að ein af skyldum fullvalda ríkis er að útvega þegnum sínum bóluefni með sjálfstæðum samningum við viðurkennda birgja eftir þörfum.  Að ná hjarðónæmi í heimsfaraldri er heilsufarslega og efnahagslega mikilvægt.   Að útvista þetta verkefni hjá ríkjasambandi, þar sem landið á ekki aðild, er ótrúleg áhættusækni og bæði lágkúruleg og bíræfin hugmynd. 

Reynslan af því að geta nákvæmlega engin áhrif haft á samningana um bóluefnin er líka ömurleg.  Svona hugmynd verður aðeins til hjá vanmetakindum, og það er alvarlegt veikleikamerki, að ríkisstjórnin skyldi vera svo lítilla sanda og sæva að gefa þessi mikilvægu mál frá sér með því að samþykkja þessi ósköp.  Engum þarf þó að koma á óvart metnaðarleysi vinstri grænna í þjóðfrelsisefnum, þegar reynslan frá 2009-2013 er höfð í huga. Það verður þó að svipta hulunni af því, hvaðan þessi tillaga kom, og hvernig og hvers vegna hún var samþykkt.  Var gerð bókun við þessa samþykkt í ríkisstjórn ? 

Ef þessi ósköp hafa runnið ljúflega niður um kokið á öllum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þá er greinilega ekki vanþörf á að skerpa á fullveldisbaráttunni innan þess flokks, sem stofnaður var til að berjast fyrir fullu sjálfstæði landsins frá gamla sambandsríkinu (nýlenduherrunum) á grundvelli viðskiptafrelsis, atvinnufrelsis og einkaframtaks, allt í anda Jóns Sigurðssonar, forseta.  Hvar er metnaðurinn nú ?  Að dinglast þæg aftan í stórríki Evrópu, eins og Viðreisn hefur nú undirstrikað, að hún vill.

Morgunblaðið hefur verið iðið við að benda á undirmálsvinnubrögð Evrópusambandsins við bóluefnaútvegun og afar gagnrýnið á framgöngu íslenzku ríkisstjórnarinnar í bóluefnamálum gegn C-19 og er það vel, enda í raun um stórpólitískt mál að ræða, sem varðar gríðarlega hagsmuni.  Forystugreinin 23. marz 2021 var helguð þessu máli og hét:

"ESB þolir ekki dagsljósið eða nær að flýja það".

"En ESB var enginn Trump [í bóluefnasamningum] og hörmung uppmáluð var að fylgjast með vinnubrögðunum þar.  Án þess að segja frá því opinberlega gekk íslenzka ríkisstjórnin í ESB í bóluefnamálum, rétt eins og hún svipti íslenzka þjóð fullveldi í raforkumálum.  [Þarna eru 2 fullveldismál dregin fram í dagsljósið og varða bæði sjálfstæðismenn og landsmenn alla miklu - innsk. BJo.] Það hefur ekki verið upplýst, af hverju ríkisstjórnin álpaðist í barnaskap aftan í pilsfald ESB í bóluefnamálum.  Vanmáttugar þjóðir, þegar innlimaðar og komast hvergi, hafa hins vegar afsakanir, þótt dapurlegar séu. 

Embættismenn hér fara létt með veika þriggja flokka stjórn, sem er sjálfri sér sundurþykk og telur sig geta falið það með því að breiða yfir öll átakaefni.  Embættismennirnir eru fyrir löngu gengnir í ESB, eins og sást í Icesave og orkupakkanum.  Forsætisráðherrann hefur í tvígang sagt opinberlega, að "auðvitað gætu Íslendingar tekið frumkvæðið í bóluefnamálum, þrátt fyrir að hafa falið Brussel verkefnið". En hún hefur ekki sýnt neitt frumkvæði, og þetta muldur hefur haft minna en nokkur áhrif."

Þetta "muldur" heyrðist ekki frá þeim stöllum, Svandísi og Katrínu (viðhlæjendum), fyrr en Evrópusambandið var komið með allt niður um sig og gaf aðildarríkjunum frelsi til að reyna sjálf. Hlekkir hugarfarsins eru svo níðangurslegir, að ráðherrarnir hreyfa hvorki legg né lið til sjálfstæðra tilburða til hliðar við ESB, þótt heimild sé til. Þeir máttu allan tímann reyna við aðra birgja en ESB samdi við.  Það heyrist t.d. ekki múkk í Stjórnarráðinu sem svar við tilboði Maríu Zakarova um viðræður um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V.  Ráðherrunum dettur ekki í hug að nota tímann og hefja viðræður, af því að Lyfjastofnun Evrópu er enn með bóluefnið til rannsóknar.

Hvað skyldu margir stjórnarþingmanna kokgleypa þá tímaskekkju Viðreisnar á formi væntanlegrar þingsályktunartillögu að hefja á ný aðlögunarviðræður við ESB fyrir Ísland ?  Þingflokkur Viðreisnar er haldinn þráhyggju af verstu gerð og þarfnast einskis fremur en ævilangs orlofs frá þingstörfum úr hendi kjósenda. 

Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var haldið áfram að velta fyrir sér dæmalausum undirlægjuhætti við ESB og Lyfjastofnun þess, þrátt fyrir tugmilljónir bólusetninga á Bretlandi með "fyrri skammti", án alvarlegra athugasemda Lyfjastofnunar Bretlands vegna aukaverkana eða ófullnægjandi virkni.  Þessi rörsýn er orðin sjúkleg:

"Tilvikin [um aukaverkanir OAZ-innsk. BJo] voru örfá, sem nefnd voru til sögu um blóðfall, sem hefði komið upp á um líkt leyti og bólusetning á viðkomandi. Ísland, sem aldrei hafði orðið vart við neitt slíkt, hoppaði þegar um borð í þetta sökkvandi fley.  Var það með vísun í vísindi eða einungis ómæld heimska ?  Er virkilega svona lítill munur á "vísindum" og heimsku ?  Kort, sem birt voru um alla Evrópu, sýndu Ísland með yfirskrift um það, að Ísland treysti ekki bóluefninu !  (Yfirskriftin hefði verið betri svona: "Apar eftir, eins og vant er.") Ef raunveruleg ríkisstjórn hefði verið í landinu, hefði slíkt ekki gerzt !

 Hér er fast kveðið að orði í forystygrein, en ekki að ósekju.  Það er eins og íslenzkum embættismönnum og ráðherrum sé fyrirmunað að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli beztu fáanlegu þekkingar, en snúist þess í stað eins og skopparakringlur í kringum hvaða bolaskít sem frá Brüssel berst.

Núverandi sóttvarnarfyrirkomulag er afspyrnu heimskulegt, enda rekst þar hvað á annars horn. Er einhver glóra í því að leyfa fjölda manns að safnast saman við gosstöðvar í Geldingadölum á Reykjanesi, en loka öllum skíðasvæðum á landinu með harðri hendi ?  Hvað hafa mörg C-19-smit verið rakin til skíðasvæða á Íslandi ?  Hver er smitstuðull þar, ef hann þá er stærri en 0 ?  Hver er smitstuðullinn í sundlaugum landsins, í líkamsræktarstöðvum, í verzlunum og hótelum o.s.frv. ?  Eftir rúmlega árs langa söfnun gagna, smitrakningar og sóttkvíar, ættu þessar tölur að vera fyrir hendi, en þær hafa ekki verið opinberaðar.  Það ættu yfirvöld þó að gera hið fyrsta. Á meðan þau gera það ekki, liggja þau undir ámæli um að beita miklu klunnalegri og "kommúnistískari" sóttvarnaraðgerðum en nauðsyn ber til með grafalvarlegum efnahagslegum og félagslegum afleiðingum.  

"Frá tilkynningu um ný bóluefni í nóvember [2020] erum við komin upp í 4 % bólusetningu ! [20.734 eða 5,7 % þjóðarinnar fullbólusettir 31.03.2021-innsk. BJo.] Heilbrigðisráðherra hefur ekki sagt af sér eða ríkisstjórnin öll, sem ætti að vera niðurlút gagnvart þjóðinni.  Samþykkti hún að stöðva notkun bóluefna, sem milljónir og jafnvel milljónatugir höfðu notað, án þess að þeirra afbrigða hefði orðið vart, sem blásin voru upp og hlaupið eftir hér ? Það var a.m.k. ekkert vísindalegt við slíka ávörðun. Hver tók hana þá í raun ?  Hvert hefur afsökunarbeiðni borizt út af tiltækinu ?  Fjölmiðlar gærdagsins vítt og breitt gengu út frá því, að EMA (European Medicines Agency) mundi þann dag lýsa því yfir, að bóluefnið rægða sé öruggt. En nú óttast margir, þ.á.m. sumir rógberanna, að margir hugsi sig um áður en þeir láta bólusetja sig.

Ég vil gerast félagi í þessum nýja Sjálfstæðisflokki Jóns Magnússonar og vona að fleiri vilji gera slíkt hið sama. Ég er búinn að fá upp í kok af skriðdýrshætti þingflokksins undir forystu orkupakka-Bigga gagnvart ESB og vil fá afgerandi afstöðu Sjálfstæðismanna gegn því tollabandalagi 27 þjóða gegn öllum heiminum.

 


Æ,Æ aumingja Morgunblaðið

 

það er líklega göfugur tilgangur Morgunblaðsins að sýna fram á víðsýni sína að eyða dýrmætum pappír í að birta greinar eins og þá sem birtist þar eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem er langhundur með skömmum um Morgunblaðið og allt sem það stendur fyrir.

Okkur lesendum blaðsins er ekki skemmt með að sjá svona vitleysu prentaða eftir fyrrum varaformann Sjálfstæðisflokksins eða þá sambærilegt bull eftir Björn Leví sem þar birtist ítrekað. Þorsteinn Pálsson má eiginlega eiga það að hlífa okkur við sinni Evrópudýrkun með því að halda sig við Fréttablaðið og mætti Þorgerður taka hann til fyrirmyndar.


En í laugardagsblaðið skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir af sinni óendanlegu hagfræðispeki:


“Viðreisn hefur lagt fram á Alþingi tillögu um að fela ríkisstjórninni nú þegar að taka upp viðræður við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum til þess að styrkja stöðugleika krónunnar og tryggja að Ísland geti gripið til jafn öflugra viðreisnaraðgerða og helstu viðskiptalöndin.

Jafnframt þessu höfum við kynnt tillögu sem felur í sér að treysta þjóðinni til að ákveða hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið.


Það er varfærið en eðlilegt skref. Það kostar hins vegar vandaðan undirbúning og krefst lengri tíma. Ný nálgun.

Hér er á ferðinni ný nálgun.


Við leggjum höfuðáherslu á að ná alþjóðlegu samstarfi um að styrkja krónuna. Til þess að geta notið kosta innri markaðar Evrópusambandsins til fulls þurfum við gjaldmiðil sem stenst samanburð við evruna eða samstarf sem nær sama markmiði.


Viðreisn atvinnulífsins þolir enga bið. Upptaka evru með fullri aðild að Evrópusambandinu tekur tíma. En við getum á grundvelli EESsamningsins farið fram á gjaldmiðlasamstarf með sama hætti og Danir.
Það verkefni viljum við nú setja í forgang.

Samkeppnishæfni Íslands er undir. Þjóðviljalummur Ritstjórar Morgunblaðsins rísa upp á afturlappirnar á skírdag vegna þessarar nýju nálgunar á þeim vanda sem við hverjum manni blasir.

Þegar ég rýni í rökin þá minnir það mig á þegar ég fletti einhverju sinni í gömlum eintökum af Þjóðviljanum. Hann hamaðist gegn sérhverju skrefi sem Ísland tók í átt til aukinnar alþjóðasamvinnu með nákvæmlega sama málflutningi.

Auðvitað styrkjum við fullveldi landsins með aukinni samvinnu við Evrópuþjóðirnar.

Við gerum það með varnarsamstarfi við þær sömu þjóðir í NATÓ. Það er rökleysa að halda því fram að efnahagssamstarf við þessar þjóðir ógni fullveldinu en varnarsamstarfið styrki það. Með aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn tökum við sjálfkrafa upp kjarnann í allri löggjöf þess.

Við sitjum hins vegar ekki við borðið eins og í NATÓ. En enginn hefur haldið því fram að Ísland hafi glatað fullveldinu 1994 þegar EES-aðild var ákveðin.
Viðbótarskrefið til fullrar aðildar er miklu minna.
Leiðarahöfundar loka augunum Hitt atriðið sem leiðarahöfundarnir nefna gegn tillögunum er staðhæfing þeirra um að krónan hafi reynst traustari gjaldmiðill en evran. Hvernig rímar þetta nú við veruleikann? Evran haggaðist ekki þrátt fyrir efnahagssamdrátt í kjölfar Covid-19.


Íslenska krónan hrundi.


Ísland er eina landið á Vesturlöndum þar sem efnahagssamdráttur hefur leitt til aukinnar verðbólgu. Verðbólguþak Seðlabankans er sprungið.
Mun alvarlegri staðreynd blasir við. Krónuhagkerfið er of lítið til þess að prenta peninga fyrir ríkissjóð við þessar aðstæður. Fyrir vikið er ríkissjóður að taka innlend lán á hærri vöxtum en grannþjóðirnar og erlend lán með mikilli gengisáhættu. Þetta gerir það að verkum að svigrúm ríkissjóðs er minna til björgunaraðgerða en annarra þjóða, nema beita eigi skattahækkunum eða niðurskurði eins og Samtök atvinnulífsins telja hættu á.


Fyrir utan þetta er mesta atvinnuleysi sögunnar staðreynd. Fyrir öllu þessu loka leiðarahöfundar augunum. Léttúð Fjármálaráðherra hefur nú lagt fram frumvarp sem færir Seðlabankanum völd til þess að beita jafn umfangsmiklum höftum og gert var eftir hrun.


Ísland er eina vestræna ríkið sem er með gjaldmiðil sem heldur ekki velli án þess að Seðlabankinn fái varanlegar heimildir af þessu tagi. Viðskiptaráð líkti þessu frumvarpi við léttúð.

Ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekki fjallað mikið um þetta frumvarp. En það er viðurkenning Sjálfstæðisflokksins á því að ekki er unnt að stjórna krónunni án hafta. Hvað veldur þögn ritstjóra Morgunblaðsins um haftafrumvarp formanns Sjálfstæðisflokksins?


Morgunblaðið hefur spáð dauða evrunnar á hverju ári í meir en áratug. Samt er hún annar sterkasti gjaldmiðill í heimi. Lítill skilningur Kjarni málsins er að íslenskt atvinnulíf þarf rekstrarumhverfi sem auðveldar því að hlaupa hraðar. Það gerist ekki með hærri verðbólgu en í samkeppnislöndunum, ekki með hærri vöxtum en í samkeppnislöndunum, ekki með óstöðugri gjaldmiðli en í samkeppnislöndunum og ekki með valdframsali til Seðlabankans til þess að beita umfangsmeiri gjaldeyrishöftum en samkeppnislöndin.


Ég veit að Viðskiptaráð notaði stórt orð þegar það hakkaði niður haftafrumvarp fjármálaráðherra og sagði það bera vott um léttúð. En ég finn ekki annað betra orð til þess að lýsa skrifum ritstjóranna. Alltént lýsa þau ekki ríkum skilningi á þeim vanda sem við blasir í ríkisfjármálum og þeim miklu áskorunum sem atvinnulífið stendur frammi fyrir.”


Mér finnst þetta með óspaklegustu greinum um hagfræði sem ég hef lengi lesið. Vonandi láta kjósendur ekki blekkjast til að leggja trúnað á ruglið um evruna og krónuna þegar þeir hafa athugað staðreyndir og og fullyrðingarnar sem formaðurinn setur fram í mörgum setningum í greininni.

Að segja:"Auðvitað styrkjum við fullveldi landsins með aukinni samvinnu við Evrópuþjóðirnar."

Er það framför að ganga í tollabandalag 27 þjóða gegn afganginum af heiminum? Að halda því fram að Nato samstarfið byggist upp á samstarfi við Evrópuþjóðirnar án Bretlands en ekki Bandaríkjanna? Hvernig getur hún Þorgerður Katrín sett svona vitleysu fram?

Ef menn athuga gengisþróun evrunnar síðust ár þá er erfitt að halda því fram að gengishrun hafi orðið.

En að halda því fram að það sé efnahagshrun á Íslandi að evran kostar núna 147.8 kr.

Var það hrun á gengi krónunnar að evran kostar núna í kreppunni 147.8 kr?

En kostaði 2014 157kir?
Var það réttara gengi að evran kostaði fyrir Covid í túristabúmminu 2018 121.5?

Eða 2017 119.25?

Eða af hverju kostaði hún 2016 140.6?

Eða af hverju kostaði evran 2015 147.85?

Eða af hverju kostaði evran 2014 157?

Meðalgengi evru er á þessum árum er 137.2. Þetta speglar almennt ástand í hagkerfinu sem er í allt öðrum fasa en efnahagsástand hinna landluktu Evrópuþjóða.


Hvar er þetta hrun?

Í augnablikinu er evran 7 % yfir meðaltali síðustu 5 ára í þeirri djúpkreppu sem við erum stödd í núna. Sem myndi gerbreytast strax ef hægt væri að bólusetja þjóðina sem hefur klikkað gersamlega vegna ræfilkdóms ríkisstjórnarinnar. 

Vill Þorgerður útiloka að evran lækki ekki í verði ef efnahagslífið tekur við sér með minnkun á covid-vandanum og fjölgun ferðamanna eftir Covid? Á einhver að niðurgreiða gengið?


Hverskonar endemis bull getur einn stjórnmálamaður borið fram í blekkingaskyni. Hversvegna er Morgunblaðið að birta svona svívirðingagreinar um sjálft sig úr svona sandkassahagfræði fullveldissala?


Hvernig ætlar þessi kona að tryggja Íslendingum evrur á föstu gengi? Þegar til dæmis flugumferðarstjórar eða ljósmæður hækka laun sín á einu bretti um 30%. Hvar ætlar hún að fá evrurnar?


Hvað hefur verið rétt gengi á evrum allan þann tíma sem Þorgerður þessi hefur verið að darka í pólitík og lántökum?
Hvaðan kemur þessari fullveldissölukonu sú viska að hún geti stjórnað gengi evru á markaði?

Verð á markaði fer eftir framboði og eftirspurn.. Það eru umsvifin í þjóðfélaginu, gangurinn í atvinnulífinu sem stjórnar genginu á evrunni. Gengið styrkist þegar okkur gengur vel. Veikist þegar kreppir að.

Það er billeg sölumennska hjá landsöluflokkunum tveimur, Samfylkingu og Viðreisn að halda að þeir geti blekkt kjósendur með því að lofa þeim gengisfestu. Yrði það til hagsbóta fyrir atvinnulífið sem fengi þá ekki að njóta velgengninnar?  Hvaðan kemur þeim sú viska?


Líti menn til Grikklands og skoði hvernig þeirra efnahagsfasi rímar við þann íslenska. Allt í klessu.

Af hverju ekki að skoða staðreyndir þegar Þorgerður talar um hrun:

Upplýsingar frá Seðlabanka Íslands:

Dag:

Mán:

Ár:2014


Gjaldmiðill Mynt Miðgengi
Bandaríkjadalur USD 114
Sterlingspund GBP 188,33
Kanadadalur CAD 101,21
Dönsk króna DKK 21,036
Norsk króna NOK 18,787
Sænsk króna SEK 17,737
Svissneskur franki CHF 128,75
Japanskt jen JPY 1,1125
SDR XDR 176,02
Evra EUR 157

 

Gengi
Skráð viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands: 20.3.2015
Dag:

Mán:

Ár:


Gjaldmiðill Mynt Miðgengi
Bandaríkjadalur USD 138,35
Sterlingspund GBP 204,02
Kanadadalur CAD 108,98
Dönsk króna DKK 19,843
Norsk króna NOK 17,082
Sænsk króna SEK 15,932
Svissneskur franki CHF 140,1
Japanskt jen JPY 1,1424
SDR XDR 190,32
Evra EUR 147,85


Gengi
Skráð viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands: 22.3.2016
Dag:

Mán:

Ár:


Gjaldmiðill Mynt Miðgengi
Bandaríkjadalur USD 125,37
Sterlingspund GBP 179
Kanadadalur CAD 95,96
Dönsk króna DKK 18,874
Norsk króna NOK 14,881
Sænsk króna SEK 15,187
Svissneskur franki CHF 129,19
Japanskt jen JPY 1,123
SDR XDR 175,7


Evra EUR 140,67


Kínverskt júan CNY 19,304
Ný-Sjálenskur dalur NZD 84,56
Ástralíudalur AUD 95,22
Hong Kong dalur HKD 16,169
Suður-Afrískt rand ZAR 8,225
Tékknesk króna CZK 5,203
Ungversk forinta HUF 0,4522
Tyrknesk líra TRY 43,58
Króatísk kúna HRK 18,668
Pólskt slot PLN 33,009
Rússnesk rúbla RUB 1,8488
Nígerísk næra NGN 0,6298
Tævanskur dalur TWD 3,8628
Suðurkóreskt vonn KRW 0,1081
Súrinamskur dalur SRD 31,571
Ísraelskur sikill ILS 32,564
Singapúrskur dalur SGD 92,14
Mexíkóskur pesi MXN 7,194
Indversk rúpía INR 1,878
Búlgarskt lef BGN 71,92
Brasilískt ríal BRL 34,612
Taílenskt bat THB 3,5892
Jamaískur dalur JMD 1,0308
Sádi-arabískt ríal SAR 33,43


Gengi
Skráð viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands: 28.3.2017
Dag:

Mán:

Ár:


Gjaldmiðill Mynt Miðgengi
Bandaríkjadalur USD 109,79
Sterlingspund GBP 138
Kanadadalur CAD 81,92
Dönsk króna DKK 16,028
Norsk króna NOK 12,913
Sænsk króna SEK 12,513
Svissneskur franki CHF 111,43
Japanskt jen JPY 0,9929
SDR XDR 149,97


Evra EUR 119,25

Gengi
Skráð viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands: 28.3.2018
Dag:

Mán:

Ár:


Gjaldmiðill Mynt Miðgengi
Bandaríkjadalur USD 98,02
Sterlingspund GBP 138,73
Kanadadalur CAD 76,03
Dönsk króna DKK 16,307
Norsk króna NOK 12,603
Sænsk króna SEK 11,817
Svissneskur franki CHF 103,05
Japanskt jen JPY 0,9263
SDR XDR 142,88


Evra EUR 121,5


Dag:
Mán:Des

Ár:2019

Gjaldmiðill Mynt Miðgengi
Bandaríkjadalur USD 122,87
Sterlingspund GBP 160,29
Kanadadalur CAD 93,56
Dönsk króna DKK 18,283
Norsk króna NOK 13,71
Sænsk króna SEK 13,069
Svissneskur franki CHF 125,32
Japanskt jen JPY 1,124
SDR XDR 169,39


Evra EUR 136,6

Dag:16

Mán:Des

Ár:2020


Gjaldmiðill Mynt Miðgengi
Bandaríkjadalur USD 127,34
Sterlingspund GBP 172,53
Kanadadalur CAD 99,81
Dönsk króna DKK 20,856
Norsk króna NOK 14,671
Sænsk króna SEK 15,25
Svissneskur franki CHF 143,89
Japanskt jen JPY 1,2322
SDR XDR 183,52


Evra EUR 155,2

 

Dag:

Mán:Mar

Ár:2021


Ekki er hægt að birta gengi fram í tímann, birti í stað þess nýjasta skráða gengi. Skráð: 31.3.2021
Gjaldmiðill Mynt Miðgengi
Bandaríkjadalur USD 126,31
Sterlingspund GBP 173,79
Kanadadalur CAD 100,18
Dönsk króna DKK 19,913
Norsk króna NOK 14,818
Sænsk króna SEK 14,466
Svissneskur franki CHF 133,78
Japanskt jen JPY 1,1406
SDR XDR 178,97


Evra EUR 148,1

Vonandi hafa kjósendur þrek til að gegnumlýsa bullið sem svona plötutrymbill eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir setur fram sem aðeins væri á færi Loga Más í Samfylkingunni að toppa.

Aumingja Morgunblaðið að vera að prenta svona vitleysu og angra okkur lesendur með því


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 3418323

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband