Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Sjóvá

er búið að vera mitt tryggingafélag í mörg ár. Þar á ég fullt af yndislegum vinum sem hafa annast mín mál í áratugi.

Ég átti þangað erindi í dag útaf árekstri. Sama góða þjónustan og viðmótið. Á leiðinni út fór ég að hugsa hvað hefði gerst í þessu góða félagi sem ég hef átt viðskipti við í 50 ár. Gerði ég mér ljóst að síðustu árin var félagið ekki gjaldfært?  Það tók við iðgjöldum án þess að geta trygg neitt. Þessi klettur í hafinu sem maður treysti í gegnum þykkt og þunnt í gegnum marga fyrri úrvalsforstjóra sem maður kynntist.

Ástæðan? Það höfðu komið þangað skítugir þjófar sem gárungarnir nefna "Daltonbræður". Þeir stálu heilögum bótasjóðnum sem félagið hafði byggt upp með hjálp skattborgara þessa lands frá stofnun félagsins. Félaginu hafði verið rústað í samsæri þessara drullusokka og hjálparkokka þeirra sem margir ganga með hvítt um hálsinn og uppbrett nef enn þann dag í dag.  Eyðilagt þetta tryggingafélag svo að Steingrímur J. fann sig knúinn til að skella hálfumöðrumtug milljarða af ríkisfé, framhjá Alþingi,  inní félagið til að almenningur væri ekki í vindinum með eignir sínar ótryggðar. Þjófarnir ganga um bísperrtir, rífa kjaft og þykjast ekkert vita hvar peningarnir eru. Hvar í veröldinni gæti þetta gerst nema á Íslandi?

Nú er verið að selja félagið með afslætti til einhvers dularfulls aðila með stórum afföllum. Það er verið að selja mig og mitt traust með. Allt með venjulegu gegnsæi ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Finnst ekki einhverjum skítalyktina leggja langar leiðir frá þessu öllu saman ?

Mikið lifandis er búið að fara illa með þetta gamla og góða nafn. SJÓVÁ, þar sem traustið bjó einu sinni í veröld sem var. Traustið kemur ekki umsvifalaust aftur þó einhverjir huldumenn eignist það með afslætti.


Gegnsæi

er eitt af frösunum sem ríkisstjórnarflokkarnir tala um að Sjálfstæðisflokkinn vanti. Illu heilli hlustaði flokkurinn á þetta kommabull og fór með þeim í að opna reikninga sína. Auðvitað er þetta fáránlegt og engum kemur við hvað stjórnmálaflokkur frekar en  saumaklúbbar gera  við þá peninga sem þeir hafa eða hafa ekki. Nema þeir séu algerlega á opinberu framfæri eins eina von og vinstri manna er.

Hafi þeir ekki peninga fá þeir skrifað hjá þeim sem eru nógu vitlausir að lána þeim. Svo borga þeir ekki eins og instri Grænir sem skulda almenningi 100 milljónir. Borga auðvitað aldrei frekar en þeir standa við nokkuð annað. Hver halda menn að sé svo vitlaus að láta þá fá peninga eða skrifa hjá þeim næstu kosningabaráttu?

Samfylkingin er einstaklega heilög í peningamálum. Hún saug þó Baugsspenann fastast allra flokka. Nú birta þeir ekki reikningana yfir sukkið. Ætli þeir kunni ekki bókhald?  Nákvæmni hefur hinsvegar aldrei verið þeirra sterka hlið þegar sannleikurinn er annarsvegar svo maður minnist Ingibjargar Sólrúnar og hennar yfirlýsinga.

Íhaldið kom sér í vandræði með því að skila aftur peningunum sem þeir voru búnir að fá hjá Landsbankanum og slíkum pappírum. Stórskuldugir eftir.  En flokksmenn hafa þó sýnt það að þeir láta ekki flokkinn sinn fara á hausinn. Fyrr borga þeir sjálfir eins og þeir sýndu í styrktarmannakerfinu sem Frikki Sóf kom á.

En slík hugsun er ekki til hjá vinstraliðinu.  þar veit heldur enginn hver verður í flokknum eftir næsta klofning. Þar er allt svo gegnsætt að enginn telur sér skylt að koma  til hjálpar.

Kannski að  Steingrímur J. eigi eftir að skýra það með gegnsæjum hætti  hvernig hann ætlar að gera upp skuldirnar hjá VG?

 

 


Flokkshollusta

er nokkuð óþekkt fyrirbrigði hjá vinstri mönnum.

Þetta má glöggt sjá í bréfi Karólínu Einarsdóttur :

"Með þessu bréfi segi ég mig úr Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og frá öllum trúnaðarstörfum sem ég gegni innan eða á vegum flokksins.

Í nokkurn tíma hefur flokkurinn að mínu mati verið að fráhverfast hugmyndafræðinni sem hann var stofnaður um..... Sú ákvörðun flokksforustunnar að standa ekki við stefnu flokksins í veigamiklum málum hefur haft afdrifaríkar afleiðingar, bæði skaðað flokkinn og gert vinstri stefnuna ótrúverðuglega. Í nær tvö ár hefur flokkurinn verið klofinn í afstöðu til margra mála eins og t.d. ESB, samstarfið við AGS, IceSave, Magma og nú síðast fjármálafrumvarpið......

 Lítið sem ekkert hefur verið gert til að reyna að miðla málum af alvöru og er svo komið að fólk hefur safnast í fylkingar og gert málefnalegan ágreining að persónulegum. Þau vinnubrögð sem eru viðhöfð í flokknum eru heldur ekki líkleg til að skapa traust né sætti milli fólks. Flokkurinn logar í illdeilum og ég er orðin sannfærð um að hvorki verði hægt að ná fram sáttum í flokknum né að flokksforystan muni vinna eftir stefnu flokksins........ "

Vinstri menn þrá fátt heitara en að fá svona fréttir af Sjálfstæðisflokknum. Þeim hefur aldrei orðið að ósk sinni. Af hverju ekki? Það er af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hugsjón að byggja á. Hún liggur fyrir frá 1929 og er skrifleg og einföld svo allir skilja. Hún hefur gert  Sjálfstæðisflokkinn að því sem hann er.

Hver veit fyrir hvað flokkur eins og Vinstri Hreyfingin-Grænt Framboð stendur fyrir? Er það einhversstaðar skráð?  Blasir ekki við að menn hafa þá stefnu sem gefur best í aðra hönd hverju sinni? Snýst ekki allt um það að ákveðnir flokksbroddar séu ráðherrar? Víli og díli daglega sjálfum sér til dýrðar? Skítt með allar hugsjónir ?

Núverandi klemma leysist ekki fyrr en VG hrynur í frumeindir sínar og fólkið í landinu sér að það hefur elt mýrarljós út á evrópufrerann þar sem kjarasamningaskálkar hrópa hó í sinn hverri áttinni.

Það verða ábyrgir stabílir stjórnmálaflokkar að koma að stjórninni, ekki flokkar sem eru eins og þeir séu úr kvikasilfri, þar sem droparnir geta runnið saman eða slettst út um allt. Stjórnmál eru langhlaup þó nóg sé af hirðfíflum og trúðum til að bjóða þjónustu sína við skyndilausnir  fyrir góða borgun og þægindi.

Það verður flokkshollustan sem límir saman björgunarliðið.

 

 





 


Auglýst eftir peningastefnu?

er heiti á enn einni áróðursgrein í Baugstíðindum grein eftir Valgerði Bjarnadóttur. Höfundurinn hefur dvalið lengi í Brüssel og þekkir innviði Evrópusamstarfsins innanfrá. Núna er hún þingmaður fyrir þá stefnu að ganga í Evrópusambandið.

Frúin segir m.a.:

,,," afgreiðslu AGS á efnahagsaðstoð til okkar segir að nú verði kveðið á um að við þurfum eða verðum að móta okkur peningastefnu til frambúðar...."

Hvernig eru hlutir til frambúðar yfirleitt ?

 

......"Krónan hefur ekki reynst okkur vel, það liggur í augum uppi og það sýna rannsóknir. Væntanlega eiga enn fleiri rannsóknir eftir að sýna það, og útlista alls konar villur sem gerðar voru við stjórn peningamála undanfarin ár og jafnvel áratugi...."

Hvort kom á undan, hænan eða eggið? Ég er sammála henni um að villur voru gerðar í peningamálum. Sú stærsta var að keyra upp vexti innanlands og örva innstreymi fjármagns frá Evrópusambandinu án þess að stöðva dreifingu þess innanlands. En þetta keyrði gengi krónunnar upp og gerði hana að sterkasta gjaldmiðli í heimi. Þann eina sem hægt var að geyma og ávaxta án verðrýrnunar sem eignir í erlendum gjaldmiðlum voru undirorpnar. Þessu hefði verið hægt að stjórna en var ekki gert og helstu fjárhagslegu kostunarmenn  Samfylkingarinnar fóru fremstir í flokki í þessum dansi. 

Krónan reyndist okkur vel þá. Henni var steypt bæði af af utanaðkomandi og innanaðkomandi áhrifum. Þau seinni voru beinlínis Baugstengd sem má tengja beint við Samfylkinguna og áhrif hennar þar sem Valgerður unir sér best. Krónan sjálf hefur ekkert með þetta að gera.

....."Stjórnmálamenn sem mæla fyrir aðild okkar að Evrópusambandinu verða ekki sakaðir um stefnuleysi í peningamálum. Aðild að sambandinu myndi færa okkur inn í myntsamstarfið þótt við gætum auðvitað ekki umsvifalaust skipt á krónu og evru. Aðild að ESB er hins vegar forsenda fyrir því að við getum nokkurn tímann skipt krónunni út fyrir evruna....."

Já, það er rétt hjá Valgerði, Evrópusinnarnir eru sem betur fer flest samankomnir í einum flokki,- Samfylkingunni. Hjálparmenn eins og Steingrímur J. og Þorsteinn Pálsson eru ekki tákn um stuðning annarra flokka við þá stefnu. Kratar eru duglegir við að búa til Evrópuarma í Sjálfstæðisflokknum út á nokkrar hjáróma raddir sem þar heyrast auðvitað. En Sjálfstæðismenn hafa séð hvað þessi þjóð getur ef hún stillir saman strengi sína, sem því miður er of sjaldan.

Nú eru tímar þjóðarsáttar og skilningur á að halda aftur af taxtahækkunum til kjarabóta og verðlagslækkana líklega liðnir en tími guðmundanna  kominn með ófyrirséðum afleiðingum.

Enn segir Valgerður:

...."Í mínum huga þurfum við að hugsa þetta í tveim eða kannski er réttara að segja þrem skrefum. Fyrst þurfum við að brúa bilið þangað til við komumst inn í hið svokallaða ERM II. Það gerum við með því að losa um gjaldeyrishöftin eins og kostur er. En við neyðumst til að hafa þau áfram í einhverri mynd. Evrópusambandsríki sem ekki uppfylla skilyrði til að taka upp evru geta verið í ERM II, það er annað skrefið. Þá tengist gjaldmiðillinn evru með vikmörkum upp á 15%. Ef útlit er fyrir að gengið sveiflist út fyrir vikmörkin kemur Evrópski seðlabankinn sjálfkrafa til hjálpar.

Þegar Maastricht-skilyrðin hafa verið uppfyllt tökum við síðan upp evru, það væri þriðja skrefið.

Auðvitað verður hvorki lífið sjálft né efnahagslífið eilífur dans á rósum við að ganga í ESB, en það mun sannarlega verða auðveldara að ráða við - allavega það síðarnefnda. Þau þrjú skref sem ég nefndi eru stóru mikilvægu skrefin. Vissulega þarf svo alls konar ráðstafanir og krúsidúllur í kring, en það er allt miklu auðveldara viðfangs.

Annað hvort þetta eða áframhaldandi gjaldeyrishöft fyrir barnabarnabörnin.

Það er ekki þeirra sem vilja halda samningaviðræðunum við ESB áfram að segja fyrir um einhverja aðra leið í peningastjórn þjóðarinnar.

Það er hinna, þeirra sem ekki vilja fara ESB-leiðina, að segja okkur hvernig þeir hugsa sér að losa um gjaldeyrishöftin og halda efnahagslífinu hér stöðugu. Við bíðum spennt - að minnsta kosti ég."

Við eigum eftir að vinda ofan af jöklabréfunum sem halda genginu í lás. Stjórnvöld eru að reyna að halda sjó með höftum. Útflutningurinn gengur sem aldrei fyrr og smátt og smátt mun þessi fangelsisvist sem við erum nú í minnka þrýstinginn. Spurningin er hvað verður hér eftir að þeirri styrjöld lokinni?  Ellilífeyrisþegar, öryrkjar og innflytjendur  stjórna landinu en vinnufæra og menntaða íslenska fólkið farið úr landi?

Peningastefna með fljótandi gengi gengur upp ef innanlandsforsendur eru í lagi. Ef hér verða knúnar fram skammtíma taxtahækkanir til forréttindahópa þá fellur gengið. Þjóðarsátt hækkar gengið og lækkar verðlag. Og það er alveg sama hvaða peningaseðlar verða hér í umferð. Evruseðlarnir hverfa við þær aðstæður og atvinnuleysið leggst yfir landið eins og á Spáni, Grikklandi og Írlandi svo eitthvað sé nefnt. Krónuseðla prentum við sjálf og gjöldum þannig lausung við lygi.

Þessi fabúla frúarinnar um framtíðina er algerlega óraunhæf og mun ekki ganga eftir. Nema Valgerður geti samið við alla guðmundana til frambúðar.Þá myndu ERM-skilyrðin skapast og við gætum gert allt sem við vildum í þessum peningamálum sem frúin hefur áhyggjur af.

Ég myndi hafa meiri áhyggjur af atvinnumálum til skemmri tíma en svona fabúlum um framtíðina. Hún er nefnilega í besta falli engin frambúð. Það eru næstu ár hinsvegar og þau eru dimm ef helstefna og peningadraumórastefna ríkisstjórnar Valgerðar Bjarnadóttir fær að leika hér lausum hala.

 

 


Scherlock Holmes

væri gott að geta hringt í til þess að fá mynd af því hverjir þeir erlendu kröfuhafar séu sem Steingrímur er búinn að segja okkur að eigi bankana.

Thingvellir Fund er nafn sem greinilega ekki tengist Íslandi neitt. Það er  þar sem einhver staður í Noregi er með svipað nafn. Ef maður maður fengi drukkinn Íra til að bera fram nafnið Björgólfur væri gaman að vita hvernig það hljómaði. Fyrirtækið Burlington Loan Management á eins árs afmæli síðar á þessu ári. Það býr í skúffu í Dublin og hefur ekki síma.

Skilanefndir okkar vita víst ekkert hvaða lið er á bak við þessi nöfn sem gera 300 milljarða kröfur í Giltini og Kaupþing og eiga þá samkvæmt því sem Steingrímur segir. Þeirra er bara að flokka og fletta fyrir tuttuguþúsund kall hver maður á klukkutímann.

Ætli Scherlock Holmes sé hvergi í símaskránni hjá Sérstökum úr því að Eva Joly má ekki vera að þessu lengur?


Hvaðan kemur þessi illska

og ómennska inn í í höfuð fólksins?

Við hugsuðum ekki svona í gamla daga. Menn voru taldir friðhelgir liggjandi á jörðinni. Gizur frændi lét sig hafa það að höggva Sturlu fallinn á Örlygsstöðum enda var honum ekki ætlað líf. Gizur galt verksins samt margfalt síðar. Menn afla sér ekki virðingar með lágkúru.  Enginn skerti hár á höfði Napoleon eftir ósigur hans. Þó lágu allnokkrir í valnum af hans völdum. Hann hefði líklega heldur aldrei sparkað í liggjandi mann á tímum þegar riddaramennska var einhvers metin. En henni lauk líklega með fyrra stríði. Gasklefar og  fjöldamorð urðu að tíðaranda.

Það vantar eitthvað í uppeldið hjá okkur Íslendingum. Eitthvað semn ekki er kennt í nútíma hryðjuverkaskólum. Maður skilur ekki framgöngu fólksins í slagsmálum lengur. Áframhald þessa kallar á vopnaburð.

Maðurinn sem réðist á morðingjann í Arizona og yfirbugaði hann var sjálfur með byssu á sér sem hann snerti ekki af yfirvegaðri skynsemi. En hann sagðist ávallt bera hana með sér af öryggisástæðum. 

Upphófst auðvitað aftur söngurinn um byssurnar sem drepa. Skrúfjárn drepa líka ef þeim er beitt. Skór á fæti er vopn. Spark í höfuð er vopnuð manndrápstilraun. Skórinn er skór. Það er hinsvegar hugurinn sem fremur verkin ekki verkfærin.

Nú á að byggja 50 herbergja fangelsi. Ég er nýbúinn að sjá kostnaðaráætlun um 60 herbergja lúxushotel. Þar kostaði herbergið um 7 milljónir. Ætli nýja fangelsið kosti undir 20 milljónum á klefann? 

Af hverju skyldu fangar búa við betri miklu betri kjör en öryrkjar? Stundum öryrkjar af völdum fanganna. Hafa öryrkjar ráð á einni nótt á lúxushótelum?

Verðum við ekki að hugsa um það, hvaðan þessi ómennska illska kemur?  Þetta var ekki svona. Hvað breyttist?

 


Fljúga hvítu fiðrildin

fyrir utan glugga.
Þarna siglir einhver inn
ofurlítil dugga.

Afi minn og amma mín
úti' á Bakka búa.
Þau eru bæði sæt og fín,
þangað vil ég flúa. (fljúga ?)

Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður' á bæi,
sækja bæði sykur og brauð,
sitt af hvoru tagi.

Sigga litla systir mín
situr úti' í götu,
er að mjólka ána sín
í ofurlitla fötu.

Eitthvað tvennt á hné ég hef,
heitir annað Stína.
Hún er að láta lítið bréf
í litlu nösina sína.

Fuglinn segir bí bí bí, bí bí segir (hún)Stína, kveldúlfur er kominn í kerlinguna mína. 

 Tunglið, tunglið taktu mig, og berðu mig upp til skýja,þar situr hún móðir mín og kembir ull(u) nýja

Eru þessar  vísur ekki annars yndislegar og líðandi. Svífa langt yfir dægurþrasinu. Yrkir enginn svona fallega lengur eða heyrir maður ekkert lengur fyrir hávaðanum af engu?

 Eru þær allar eftir Sveinbjörn Egilsson ? Ég er ekki með það á hreinu hvernig þær eru réttastar. Hvort ég hafi lært þær réttar?


Steingrími sé lof og dýrð!

Í þingskjali 1328 -601.mál, á 138 löggjafarþingi 2009-2010frá fyrra ári er að finna þessar setningar:

"Skilanefndum var gefinn kostur á að tilnefna einn fulltrúa sinn í stjórn eignarhaldsfélagsins, en hinir tveir, þ.m.t. stjórnarformaðurinn, skyldu vera óháður. Útnefning allra stjórnarmanna eignarhaldsfélaganna er háð samþykki Fjármálaeftirlitsinsog skulu þeir uppfylla kröfur þess, m.a.um þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi. Stjórn eignarhaldsfélaganna fer með atkvæðisrétt þann sem Glitnir og Kaupþing öðlast í Íslandsbanka og Arion og útnefnir stjórnarmenn bankans. Skilyrði Fjármálaeftirlitsins kveða einnig á um það að af stjórnarmönnum bankans sjálfs skuli skilanefnd aðeins hafa einn fulltrúa,en aðrir skuli vera óháðir, þ.m.t. stjórnarformaður.Í ljósi framangreindrar umfjöllunar má lýsa aðkomu kröfuhafa.."

Síðar segir;„Íslenska ríkið er 13% eigandi að Arion banka og Kaupskil ehf., dótturfélag í 100% eiguKaupþings banka, á 87% hlut í Arion banka. Meðan á slitameðferð stendur eru kröfuhafarekki eigendur Arion banka frekar en annara eigna Kaupþings. Það hvort kröfuhafar eignistArion banka á einhverjum tímapunkti veltur á því hvernig lokum slitameðferðar verðurháttað. Aðkoma kröfuhafa að Arion banka í dag er því engin.“

Hvað er Steingrímur J. búinn að segja okkur oft að erlendir kröfuhafar eigi Arion banka?

Síðar á listanum vekur eftirtalinn listi um samþykktar kröfur í Kaupþing athygli:Samþykkt UpphæðDeutsche Bank Trust Company Americas 578.052.048.121Seðlabanki Íslands 93.076.500.000Arion Banki hf. 11.787.355.197Kjalar hf. 7.257.786.121Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) 1.110.773.576Commerzbank AG 137.402.911Deutsche Trustee Company Limited 3.413.188Samtals 691.425.279.114

Ólafur Ólafsson í Sviss sem búinn er að fá Samskip endurúthlutað er sjö- sinnum stærri kröfuhafi en tryggingasjóður innistæðueigenda. Hvenær eignaðist hann allt þetta fé? Hvert fóru allir þessir peningar? Þeir gufuðu ekki bara upp en  eru til ennþá. Þeir eru bara ekki tapaðir heldur hafa skipt um hendur. Það er málið sem fólk verður að gera sér ljóst. Þessvegna er menn handteknir og settir inn erlendis þegar svona mál koma upp.

Finnst fólki þetta ekki allt gagnsætt og auðskilið? Væri ekki fróðlegt að fá skipuritið um stjórn bankanna birt með nöfnum þeirra sem í því eru og upplýsingar um tekjur hvers og eins vegna þessara starfa?

Hugsið ykkur alla þá dýrðardaga sem þetta skilanefndarfólk upplifir með tuttuguþúsund kall á tímann? Finnst einhverjum líklegt að þessi störf verði drifin af? Mér þætti merkilegt ef þeim lyki nokkurntíman.

Það fer ekki á milli mála að yfir íslenska bankakerfinu ríkir einvaldur að nafni Steingrímur J. Sigfússon. Okkar sólkóngur. Ekki furða þó V.G. þoli honum ýmislegt við þessar aðstæður.

Honum sé lof og dýrð um langa hríð.


Hver á Íslandsbanka?

spyrja margir. Ekkert svar fæst við því auðvitað. Hlutafélag í eigu ríkisins segja sumir. Erlendir kröfuhafar segir Steingrímur J. En auðvitað trúir honum enginn frekar en fyrri daginn.

Íslandsbanki er í miðju söluferlinu á Magma og leifarnar af Geyser Green sem Hannes Smárason og Jón Ásgeir eiga. Björk og einhverjar tugþúsundir vilja ræða það mál. En Íslandsbanki gefur bara langt nef.

Íslandsbanki er innheimtuaðili á hendur þeim sem voru gabbaðir af Jóni Ásgeiri til að kaupa viðbótarstofnfé í BYR á láni frá Glitni sem tryggt væri aðeins í öllum stofnfjárbréfunum sem viðkomandi átti. Ekki aldeilis núna vinir, nú skuluð þið borga í topp skuldirnar, sem Íslandsbanki keypti auk þess á slikk af þrotabúi Glitnis. Greiðsluskyldan fellur ekki niður þó að ekki hafi verið krafist annarra trygginga en í bréfunum sjálfum. Þar sem þau eru ónýt þá skuluð þið borga með húsunum ykkar.

Börnin sleppa þar sem Íslandsbanki áttar sig á því að það er ekki góð latína að rukka þau. En gamlmennin verða hundelt áfram . Eina 95 ára veit ég um sem skuldar 80 milljónir og er farin á taugum af því að hún sé fram á að missa íbúðina sína.Lipurtungur Glitnis plötuðu hana til að skrifa undir á sömu forswendum og þeir lugu að hinum. Þeir vinna flestir áfram hjá Íslandsbanka og muna nú ekki neitt. Bankinn er búinn að fella niður á svakalegustu dæmin eins og þar sem örvita Alsheimerssjúklingur átti í hlut. Hinu er haldið áfram þó ýmsir séu að reyna að verja sig fyrir dómi. Og margir telja sig vita að dómsvaldið gengur yfirleitt erinda krúnunnar.

Íslandsbanki, sem enginn veit hver er, er áfram banki þúsundanna og öllum er sama.Hvert á fólk svo sem að fara? Hver á Arajón banka? Hver á BYR? Hver á Landsbankann? Hver á Sparisjóð Keflavíkur?Þetta er kallað fjármálakerfið ?

Hver á það? Steingrímur J.og Már Seðla ?


Sorry Stína,

það er bara útilokað að klára Icesave núna. Enda er þetta stórt mál sem þarf að athuga í ró og íhugun hvað sem þeir segja á ÍNN.   Málið verður bara ekki útkljáð á þessu þingi, það er svo margt sem þarf að athuga fyrst.

Svo er hreint ekki ráðlegt að fara með það fyrir þingið með tunnuslagarana fyrir utan.

Og svo með allan samhljóminn í Vinstri Grænum?  Stjórnin er öll af vilja gerð.  Þetta tekur allt tíma.

Og svo er það Forsetinn, hver veit hvað hann gerir.  Og svo kjarasamningarnir og kvótinn.

Og svo er alltaf að rukkast inn af Landsbankanum og það fer beint til ykkar. Það er bara alveg útlokað að klára málið í hvelli.

Því miður mine udlandske venner, það er bara útilokað að drífa þetta af. Við vinnum af krafti í málinu. En þetta er ekkert einfalt mál.

Sorry Stína.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 3418202

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband