Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Verðtryggingarvitleysan

er möluð dag og nótt af allskyns fólki sem reuynir að koma því inn hjá fólki, að maður sem fær lánaðan mjólkurlítra eigi aðeins að skila einum lítra af undanrennu. Það sé hæfilegt.

Það er allt annað mál að innlend verðtryggingarvísitala má ekki mæla skattahækkanir ríkisvaldsins.

Án verðtrygginar er hinsvegar erfitt að uppfylla þarfir langtímafjármögnunar. Hvernig á að varðveita getu lífeyrissjóðanna til að greiða lífeyri? Eða er það ekki lengur tilgangurinn þegar hægt er að skattleggja þá eða braska með þá að vild?

Á Deiglan.com birti Jón Steinsson 19. mars 2006 grein um verðtryggingu.

Eftirfarandi punktar koma þaðan þegar Jón veltir fyrir sér neikvæðri umræðu um verðtryggingu á Íslandi:

"Þessi almenna skoðun Íslendinga er mjög á skjön við niðurstöður hagfræðinga.
Hagfræðingarnir John Campbell (Harvard) og Joao Cocco (London Business School)
birtu fyrir nokkru ýtarlegan samanburð á ágæti mismunandi húsnæðislána fyrir
neytendur.*

Campbell og Cocco báru saman þrenns konar húsnæðislán: 1) Lán með
föstum nafnvöxtum; 2) Lán með breytilegum nafnvöxtum; og 3) Lán með föstum
raunvöxtum (þ.e. verðtryggð lán).

Ein helsta niðurstaða þeirra er að verðtryggð lán séu umtalsvert hagstæðari fyrir neytendur en óverðtryggð lán.

Campbell og Cocco benda á að eðli áhættunar sem fylgir mismunandi gerðum
húsnæðislána sé mismunandi. Lánum með föstum nafnvöxtum fylgir miklar sveiflur í heildarverðmæti lánsins. Þetta er vegna þess að verð á skuldabréfum til þrjátíu ára með föstum nafnvöxtum er mjög næmt fyrir breytingum á langtímavöxtum. Annar ókostur við lán með föstum nafnvöxtum er að þau bera að jafnaði hærri vexti en lán með breytilegum vöxtum. Kosturinn við slík lán er hins vegar að raungildi afborgana slíkra lána eru mun stöðugri en raungildi afborgana lána með breytilegum vöxtum.

Helsti ókostur lána með breytilegum nafnvöxtum er að raungildi afborgana slíkra lána getur breyst mjög hratt ef langtímavextir hækka vegna væntinga um aukna verðbólgu í framtíðinni. Annar ókostur er að sá sem tekur lán með breytilegum vöxtum ber áhættu sem fylgir sveiflum í raunvöxtum. Á móti kemur að slík lán bera að jafnaði lægri vexti og að heildarverðmæti þeirra sveiflast mun minna. Hættan á því að verðgildi lánsins verði hærra en verð húseignarinnar er því minna en þegar lán með föstum nafnvöxtum eiga í hlut.

Campbell og Cocco benda síðan á að verðtryggt lán verji lántakanda gegn sveiflum í heildarverðmæti lánsins sem fylgja sveiflum í nafnvöxtum án þess að hann þurfi að taka á sig áhættuna sem fylgir sveiflum í raungildi afborgana og áhættuna sem fylgir sveiflum í raunvöxtum. Þeir benda einnig á að vextir af verðtryggðum lánum séu að jafnaði lægri en vextir af lánum með föstum nafnvöxtum þar sem tímaróf raunvaxta sé flatara en tímaróf nafnvaxta og einnig vegna þess að rétturinn til þess að greiða lánið upp sé ekk
i jafn dýr (þar sem hann er ekki jafn verðmætur).

Campbell og Cocco meta þann hag sem bandarískir neytendur myndu hafa haft af því að hafa haft aðgang að verðtryggðum lánum á tímabilinu 1962-1999 og komast að því að hann sé talsverður. Hagur íslenskra neytenda af verðtryggðum lánum er ef eitthvað er meiri en hagur bandarískra neytenda þar sem verðbólga á Íslandi hefur verið og mun að öllum líkindum halda áfram að vera sveiflukenndari en verðbólga í Bandaríkjunum."(* “Household Risk Managment and Optimal Mortgage Choice,” Quarterly Jour)

Það vantar átakanlega í þessa umræðu alla, hversu fólki sem vill leggja fyrir og eiga aurana sína trygga í verðbólgubálinu er gert erfitt fyrir. Samráð og samsæri íslenskra banka gegn almenningi birtist í því meðal annars að þeir eru samstillitir í að taka ekki við verðtryggðum innlánum nema til 3 ára. Vandalaust ætti að vera að bjóða upp á verðtryggðar bækur til skemmri tíma, til dæmis með núll eða mínus vöxtum. Þá sæi sparandinn strax hvernig hans fé reiðir af í verðbólgunni til skemmri tíma. Hvatinn til að eyða féinu myndi minnka. En svo merkilegt sem það er, finnst Íslendingum verðsamráð og markaðsmisnotkun í lagi þegar bankar eiga í hlut. Slíkan þrælsótta bera þeir fyrir bankavaldinu að þeir láta bjóða sér hvað sem er, bara ef þeir fá að halda Visakortinu.

Það er fullkomlega óábyrgur málflutningur sem ýmsir leyfa sér að krefjast þess að verðtrygging verði bönnuð. Muna menn ekki lengur hetjulega baráttu Jóhönnu Sigurðardóttur, þá þingmanns Alþýðunnar, fyrir upptöku verðtryggingar til varnar almenningi?

Nú kalla menn þetta verðtryggingarvitleysu!


Glórulaus

forstokkun stjórnaherranna birtist lesendum Morgunblaðsins í dag.

Þar þylur forsætisráðherran upp ávirðingar Sjálfstæðisflokksins við efnahagsstjórn fram að hruni. Segir að hallarekstur ríkissjóðs hafi numið yfir 200 milljörðum árið 2008 og Seðlabankinn hafi orðið gjaldþrota. Nú verði halli ríkissjóðs aðeins 4 milljarðar á næsta ári.

Hún lætur þess auðvitað ógetið að uppsafnaður ríkissjóðshalli nemur 400 milljörðum í tíð hennar ríkissstjórnar. Fjárlög hennar hafa ekki staðist eitt einasta ár og vitað er að fjárlög næsta árs eru vanáætluð um tugi milljarða þá þegar. Síðust fjárlög ríksisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru því jafn ábyrgðarlaus sýndarmennska og þau haf verið hvert einasta stjórnarár hennar.

Jóhanna reynir að vanda að breiða yfir skipbrot sitt með fúkyrðaflaumi um Sjálfstæðisflokkinn og athafnir hans sem auðvitað breytir engu um stöðu mála. Nú er hrunið alfarið málefni Sjálfstæðisflokksins og skeði á hans vakt. En hún lætur auðvitað vera að minnast þess að hún sat sem ráðherra í þeirri ríkissjórn og hennar flokkur fór með ráðuneyti bankamála.

Seðlabankinn hefur auðvitað ekki verið lýstur gjaldþrota enda getur hann ekki orðið gjaldþrota eðli málsins samkvæmt. Bankinn varð skiljanlega fyrir þungum slögum í hrunorrustunni þegar hann var að reyna að bjarga afgangnum af bankakerfinu í hruninu með umdeildum aðferðum. En ábyrgðarlaust tal ráherrunnar um gjaldþrot bankans er út í hött og samráðherrann Steingrímur J. Sigfússons staðfestir það raunar í sinni sjálfshólsgrein í sama blaði að Seðlabankanum tókst að selja skuldabréf fyrir tvo milljarða Bandaríkjadollara með ársmillibili og fjármagna þannig uppsafnaðan ríkissjóðshalla Steingríms og Jóhönnu.

Steingrimur J. er jafn veruleikafirrtur og venjulega þegar hann ræðir um fjármál. Hann sannar að vísu með litfögrum línuritum sínnum hversu stjórninni tókst að safna upp 400 milljarða ríksissjóðshallanum. En útleggingarnar eru náttúrlega rangar að mestu og ályktanir hans eftir því. Maðurinn veit ekki sitt rjúkandi ráð um hvert stefnir nú í uppgjöri bankanna frekar en hann sá til lands í Icesave á sínum tíma. En afleiðingar gjafagerninganna hans á bönkunum ógna sjálfri tilveru Íslands um langan aldur ef ekki tekst að grípa í taumanna þegar hann hrökklast loks frá völdum og þá heldur fyrr en seinna.

Veruleikafirring ríkisstjórnarinnar er glórulaus.


Vesöld stjórnmálaflokkanna

er áhyggjuefni mörgu fólki. Bæði Styrmir Gunnarsson í Morgunblaðinu og

Jón Magnússon hrl. á víðlesnu bloggi sínu velta þessu fyrir sér.

Jón segir svo :

"Einu sinni var miðað við að sá sem hefði réttindi bæri líka skyldur. Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem hefur hvað harðast berst fyrir því að allir skuli fá allt á annarra kostnað.

Við formannskjörið núna er spurningin, hvort að þeir einir hafi kosningarétt sem hafa staðið við félagslegar skyldur sínar gagnvart flokknum eða allir eigi að fá allt fyrir ekkert. Báðir formannsframbjóðendurnir og annað málsmetandi fólk í Samfylkingunni og segir ekki koma til greina að réttindum fylgi skyldur. Allir skuli fá að kjósa óháð því hvort þeir hafa greitt til flokksins það sem þeim ber að greiða.

Samfylkingin er því miður ekki eini flokkurinn sem hefur þau viðhorf að réttindum fylgi ekki ábyrgð eða skyldur. Stjórnmálaflokkar eru almennt hættir að innheimta félagsgjöld eftir að þeir voru ríkisvæddir. Flokksskrár eru því að verulegum hluta ómarktækar. Prófkjörin og stjórnmálin í landinu ganga síðan í takt við marktæki flokksskránna.

Afnema verður þá spillingu sem felst í því að stjórnmálaflokkar taki milljarða á ári frá skattgreiðendum og þeim gert að standa undir rekstri sínum sjálfir. Það er óneitanlega öfugsnúið að allir aðrir eigi að greiða fyrir starfsemi stjórnmálaflokka en þeir sem eru í flokkunum."

Hér er talað um kjarna málsins. Að setja stjórnmálaflokka á ríksspenann býður glundroðanum heim. Menn geta rokið til að stofnað klúbba utan um ekki neitt og verið komnir á ríkisframfæri þjóðinni bæði til höfuðverkjar og skaða. Það er itlaust að stjórnmálaklúbbar eigi að fá ríkisstyrki en saumaklúbbar eigi ekki að fá styrki.

Styrmir Gunnarsson veltir fyrir sér gengisleysi stjórnmálaflokka almennt. Af hverju þeir séu ekki lengur sá miðpunktur sem þeir voru. Styrmir telur upp margar ástæður sem valdi þessu. Með almennuviðskiptafrelsi og verðtryggingunni hafi þeir misst tökin á stýringu fjármagnsins og verslun með lífsins
gæði. Og síðan hafi þeir misst tökin á embættaveitingum að miklu leyti líka með faglegri vinnubrögðum.
Og flokksblöð hafi horfið af sjónarsviðinu sem auki enn á áhrifamissirinn.

Einmitt þessi atriði sem þessir menn tala báðir um, að stjórnmálaflokkar hafi fjarlægst fólkið með því að engu máli skipti hvort þú greiðir félagsgjald eða ekki, þú skulir mega greiða atkvæði í forystukosningu
eftir sem áður og hafa áhrif á stefnu flokksins án þess að taka þátt í starfseminni. Njóta allara réttinda en hafa engar skyldur.

Sjálfstæðisflokkurinn komst vel af áður en ríkisstyrkirnir komu til. Það þoldu ekki litlu öfundarkommaflokkarnir og djöfluðust á Sjálfstæðisflokknum með að gera flokka framtalsskylda gegn aukinni framfærslu. Þetta skyldi aldrei verið hafa samþykkt af Sjálfstæðisflokknum. Hann átti að vera hreyfing fólksins og kostuð af því en ekki ölmusumaður með litlu öreigaflokkunum við ríkisjötuna.

Flokkurinn sannaði með styrktarmannakerfinu að hann gat séð fyrir sér sjálfur. Hann gat verið sjálfstæður og lifað með flokksmönnum, fyrir flokksmennina og vegna flokksmannanna.Og þjóðin þurfti á honum að halda sem fjöldahreyfingu til framfara.

Allt þetta hefur borið af leið með því að stilla sér upp í röðina með beiningamönnunum, sem ekki geta starfað í stjórnmálum hvað þá flokkar nema að fá til þess styrki. Það er nokkuð ljóst að það verður ekki mikið úr
baráttu stjórnmálamanns sem styðst aðeins við 199 atkvæði, hvað þá að örfá hundruð manna geti talist stjórnmálahreyfing. Slíkar samkundur eru meira í ætt við saumaklúbba landskvenna: Sem víst eru gagnmerkar stofnanir og hafa áhrif langt út fyrir sínar raðir þó þeir séu ekki á ríkisframfæri. Engum dettur í hug að krefja þá um bókhaldið, félagatöl né framlög.

Stjórnmálaflokkar þurfa að brjótast út úr þessari herkví. Sjálfstæðisflokkurinn getur riðið á vaðið með því að segja sig frá þeim einhliða. Hinum verður þá ekki vært að vera áfram einir í spillingunni og þetta heyrir þá sögunni til. Bókhald flokka og innri mál frambjóðenda og hverjir styrki þá kemur engum öðrum við en þeim sjálfum upp frá því. Annars bíður stjórnmálaflokkanna bara meiri hnignun og vesöld.


Marshalláætlunin

einnig nefnd Marshallhjálpin, var áætlun Bandaríkjanna á eftirstríðsárunum (1948-53) og átti að stuðla að endurreisn efnahagslífs í stríðshrjáðum löndum Evrópu eftir eyðileggingu seinni heimstyrjaldarinnar. Áætlunin var nefnd í höfuðið á þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna George Marshall sem hafði verið yfirmaður stríðsrekstrar risaveldisins frá byrjun.

Í bókinni Crusade in Europe skýrir Dwight D. Eisenhower frá tilurð Marshallhjálparinnar. Bandaríkjamenn mundu eftir Versalasamningunum og afleiðingum þeirra. Þeir skildu hversu miklu skipti að þjóðirnar kæmust á fæturna aftur eftir ófriðinn undir nýrri forystu.

Þess vegna var Marshallhjálpin sett upp sem við Íslendingar nutum vel og lengi. Þó að við séum nú bæði hættir að framleiða sement og áburð því við nennum helst engu lengur sem þjóð nema víxla pappír. Við höldum víst flest að raunverulegu verðmætin nú til dags verði til í bönkunum og útlánum eða styrkjum í rafkrónum. Vinnuafl megi alltaf flytja inn til að virkja vatnsföllin ef einhverntíman gerist.

Bók Eisenhowers er mikil gullnáma um rekstur styrjaldarinnar í Evrópu. Bandaríkjamenn þeir ráku annað stríð samtímis í Kyrrahafi án afskipta Evrópumanna og kláruðu það líka. Það segir sína sögu stærð og getu Bandaríkjanna. Vandamál eftirstríðsins voru einnig eitthvað sem menn óttuðust mjög. En fljótlega komu önnur stríð til að héldu áfram að keyra þjóðfélagið áfram með samvinnu "the military-industrial complex"sem Eisenhower skilgreindi svo í upphafi stjórnmálaferils síns. Fáar hagfræðikenningar virðast geta reiknað út áhrif styrjalda á efnahagslíf eða hvað gerist án þeirra svipað og að skógar virðast vera háðir skógareldum með vissu millibili.

Eisenhower lýsir á einarðan og sanngjarnan hátt mönnum og málefnum í styrjöldinni með öguðum efnistökum þessa afburða menntaða hermanns sem hann var. Margir gætu lært ritstíl af þessum manni. Eisenhower talar ekki illa um nokkurn mann, aðeins betur um suma eins og t.d. Marshall. En hann er alltaf í boltanum en ekki manninum. Allt sem hann segir er um störf þeirra stríðsmanna en minnist aldrei á einkalíf þeirra né sitt.

Hafi einn maður haft einhvern tímann haft stórt stjórnunarverkefni með höndum, þá var það þetta Evrópustríð og þá bliknar flest annað í samanburði við stærð þessa rekstrar sem honum var falið að stýra sem yfirstjórnandi. Hvort sem skrifstofan var í hóteli, tjaldi, bíl, skipi eða í flugvél þá leit Eisenhower á þetta sem verkefni til að leysa og gerði það af skyldurækni án bónusa og feitra eftirlaunasamninga eins og nú er ekki hægt að vera án ef á að reka eina sjoppu. Hann leit á sig sjálfan aðeins sem einn hermann í þjónustu lands síns.

Marshallaðstoðin var í megindráttum í formi úttekta á bandarískum vörum. Landbúnaðarvélar og allskyns búnaður var keyptur til ÍSlands og jafnframt var ráðist í stærri framkvæmdir s.s. byggingu virkjana, áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og fleira.

Fjárveitingarnar skiptust í þrjá flokka: Óafturkræf framlög: 29.850.000 kr. Lán: 5.300.000 kr. Skilorðsbundin framlög: 3.500.000 kr.
Samtals: 38.650.000 kr. Umreiknað í dollara virðist þetta samsvara 6 milljónum dollara. Bretland og öxulveldin fengu fimmhundruðfalda þessa upphæð hvort.

Í samhengi til að skilja þýðingu Marshallhjálparinnar fyrir Ísland má nefna að hún nemur andvirði þeirra 30 togara sem Íslendingar voru búnir að semja um smíði á í Bretlandi í stríðslok. Ímyndið ykkur 30 togara, hvað þeir kosta marga milljarða í dag? Þeir voru auðvitað minni og ófullkomnari þá en nú. En samt er þetta risaupphæð.

Nýsköpunartogararnir voru svo keyptir eftir þetta og komu til landsins eftir að sú stjórn fór frá í ársbyrjun 1947. Allir byggðir eftir gamla laginu þó íslenskur vélstjóri hafi þá verið búinn að teikna nútímatogarann. En hann var aldarfjórðungi á undan sinni samtíð og fékk ekki stuðning.

Ég man sem strákur eftir miða á traktornum sem kom í sveitina mína þar sem vitnað var í þessa Marshallaðstoð sem tengdist traktornum. Þannig snerti Marshallhjálpin líf flestra Íslendinga á einhvern hátt á þessum tíma. Pabbi vann fyrir áburðarverksmiðjuna lengi og fleira í þessum dúr.

En merkilegust er Marshallhjálpin fyrir að vera fyrstu öfugu stríðsskaðabæturnar í heiminum. Öxulveldin, Ítalía og Þýskaland fengu nærri jafnmikið og bandamaðurinn Bretland. Í fyrsta sinn hugsaði sigurvegarinn um framtíðina hjá óvinunum sem auðvitað voru bara samskonar fólk sem hafði verið hertekið af stjórnglæpamönnum eins og Hitler og Mussolíni. Því eru stjórnmálamenn alltaf hættulegustu skepnur jarðarinnar og eiginlega sjaldan ástæða til að gráta fall þeirra né brotthvarf þó misvondir séu sjálfsagt.

Þessvegna er Marhalláætlunin ein sú allra merkilegasta í mannkynssögunni.


Neyðarréttur?

er hugtak sem kom úpp þegar ég las um aðfarir Svandísar umhverfis gagnvart fólkinu á Kirkjubæjarklaustri og þar áður í Vestmannaeyjum.

Eygló oddviti lýsti því hvernig fólkinu eru bannaðar allar bjargir til að hita sundlaugina sína og skólahúsið vegna hás rafmagnsverðs þegar Svandís af sínni alkunnu samningalipurð og ástar á alþýðu lætur loka sorpbrennslunni sem hefur gegnt þessu hlutverki. Allt útaf einhverju díoxíni sem hingað til hefur fokið á haf út þar sem fólk er ágætlega heilsugott í plássinu. Hvað á svo sem betra að gera við sorp annað en að nota það til orkuvinnslu?

Ég varð var við útboð í Færeyjum þar sem tilbjóðendum var gefinn kostur á að koma með vindmyllur og skaffa úr þeim rafmagn á föstu verði per kwst. Mig minnir að lægsta verð hafi verið 0.32 aurar danskir á kílówattstundina. Sem er bara þokkalegt verð eða hvað Eygló góð?

Hversvegna reynir Eygló ekki að fá svona tilboð fyrir sitt pláss. Hún sér um skipulagsmálin og mótmælin, sem verða legíó veit ég. Tilbjóðandi sér um að skaffa rafmagnið á föstu verði tlil að hita sundlaugina. Ég skal útvega henni addressur og byrjendaleiðsögn ef hún vill.

En þangað til finnst mér að þeir Kirkjubæjarklaustrar eigi bara að kynda sinn ofn á grundvelli neyðarréttar. Það er ekki hægt að fara svona fram gegn fólkinu eins og Svandís gerir. Afrek hennar í þágu atvinnuleysis og eymdar þjóðarinnar eru orðin alveg nægileg og gott til þess að vita að hennar valdatíma lýkur í fyrirsjánlegri framtíð.

Er ekki þess vegna ráð að hrista hana af sér með skírskotun til neyðarréttar?


EES-Úrelt þing!

Á Vísindavefnum er að finna nokkur atriði sem vert er að staldra við. Þar er vikið að einni meginröksemd aðeildarsinna að án aðildar höfum við engin áhrif á lagasetningar.

 " EES-samningurinn var upphaflega gerður milli tveggja jafnrétthárra ríkjablokka og byggðist á gagnkvæmum viðskiptahagsmunum beggja aðila. Um var að ræða tólf ríki ESB og sex EFTA-ríki, með 30 milljónir íbúa sem voru að auki langmikilvægasti markaður Evrópusambandsríkjanna. Eftir að bróðurpartur EFTA, Austurríki, Finnland og Svíþjóð, söðluðu um yfir í ESB aðeins ári eftir gildistöku EES-samningsins hefur vægi EFTA-ríkjanna minnkað töluvert og sífellt hefur orðið erfiðara fyrir okkur Íslendinga að ná fram hagsmunamálum okkar. Nú eru aðeins þrjú ríki með 4,8 milljónir íbúa eftir EFTA-megin hryggjar á meðan aðildarríki ESB eru orðin 25 talsins með 480 milljónir íbúa. Formleg staða samningsins er óbreytt en pólitískt vægi EFTA-stoðarinnar hefur minnkað mikið".

 Svo rembumst við að halda því fram að aðildarviðræðurnar muni færa okkur fangið fullt af sérákvæðum fyrir Ísland því ESB sé svo mikið í mun að eignast okkur.

 " Til að mynda hafði Ísland í upphafi aðgang að fjölda nefnda sem undirbúa lagasmíð ESB sem síðan gilda fyrir allan innri markaðinn. Á undanförnum misserum virðist ESB hafa tekið þá stefnubreytingu, meðvitað eða ómeðvitað, að túlka samninginn þröngt. EES-ríkjunum hefur í kjölfarið verið meinaður aðgangur að undirbúningsvinnu lagasmíðar sem hefur leitt til þess að Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa nú miklu minni möguleika á að koma hagsmunamálum sínum á framfæri heldur en á fyrsta skeiði samningsins". Áhrifagetan blasir við.

 " Til að mynda gekk ansi brösuglega að tryggja stækkun EES samhliða stækkun ESB. Það eykur enn á vandræðin að EES-samningurinn er nú rekinn á lægra stigi en áður innan stjórnsýslu ESB og svo virðist sem embættismenn sambandsins hafi misst áhugann á samstarfinu þótt þeir verði augljóslega að virða samningsskuldbindingar sínar".

 Sem sagt EES er í litlum hávegum haft innan stóra ESB. Áhrif Íslendinga eru vart mælanleg.

 " Evrópusambandið sjálft hefur breyst mikið frá því EES-samningurinn var gerður en hann hefur ekki þróast í takt við þær breytingar. EES-samningurinn byggist á Rómarsáttmálanum og ákvæði hans eru samhljóða texta sáttmálans eins og hann var þegar viðræðum lauk. Frá þeim tíma hafa þrír nýir sáttmálar ESB litið dagsins ljós: Maastricht 1993, Amsterdam 1997 og Nice 2000. Með þeim hafa orðið töluverðar breytingar á starfsemi og samstarfsgrunni Evrópusambandsríkjanna sem hefur bæði orðið nánara og samstarfssviðum verið fjölgað. Framkvæmdastjórn ESB á samkvæmt EES-samningnum að tala máli EFTA-ríkjanna innan stofnana ESB en síðan samningurinn var gerður hefur verulega dregið úr völdum hennar. Aukið vægi Evrópuþingsins og Ráðherraráðsins hefur orðið til þess að erfiðara reynist að fá framkvæmdastjórnina til að tala máli EES-ríkjanna gagnvart ráðinu og aðildarríkjunum þar sem hún þarf að hafa meira fyrir því en áður að halda til streitu eigin sjónarmiðum og áhersluatriðum. Hefur það þrengt verulega að möguleikum EES-ríkjanna til að hafa áhrif á Evrópulöggjöfina sem þó gildir á öllu EES-svæðinu eftir sem áður  ".

 "  Færa má rök fyrir því að EES-samningurinn falli orðið illa að breyttum stofnanaramma ESB. Aukin krafa um lýðræði, gegnsæi og einsleitni gerir það að verkum að embættismannasamningur eins og EES fær minna vægi en áður. Af ofangreindu má fullyrða að vægi samningsins hafi minnkað og að hann nái ekki lengur með fullnægjandi hætti yfir samstarf EES-ríkjanna og ESB. Þróunin hefur um leið fært EES-ríkin meira út á hliðarlínuna í evrópsku samstarfi ".

 Og enn er hnykkt á:

 " Frumkvæði og lokaákvörðun um innleiðingar lagasetninga er í auknum mæli komið á Evrópuvettvanginn og fá svið samfélagsins eru undanskilin. Á sumum þeirra eins og í umhverfismálum og matvælaeftirliti er nær öll lagasetning sem tekur gildi á Íslandi í höndum embættismanna og fulltrúa annarra ríkja í Brüssel en ekki í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Íslandi. Borgarar ESB hafa jafnframt margvíslegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem íslenskir borgarar hafa ekki en ákvarðanir í stofnunum ESB byggja á fjölþættu samráði við sérfræðinga, stjórnmálamenn og hagsmunaaðila í aðildarríkjunum ".

 Háskólasamfélagið setur þessa fullyrðingu fram án þess að færa nein haldbær rök fyrir máli sínu:

 " Fullyrt er að samningurinn hafi stuðlað að auknum stöðugleika í efnahagslífinu og leitt bæði til aukins frjálsræðis og nútímalegri stjórnunarhátta. Hann hefur einnig verið ein helsta lífæð Íslands í alþjóðasamvinnu. Til að mynda hefur aðgangur að mörkuðum ESB stóraukist og þátttaka í samstarfsáætlunum ESB, svo sem á sviði vísinda, menntamála og menningarmála, hefur skilað umtalsverðu fjármagni og þekkingu inn í íslenskt þjóðfélag. Til að mynda fengu íslenskir athafnamenn að reyna sig í evrópsku atvinnulífi og vísindamenn hér á landi komust í mun betri tengsl við aðra evrópska fræðimenn svo eitthvað sé nefnt ".

 Ómótmælt er að íslenskir bankamenn reyndu fyrir sér fyrir hrunið í evrópsku atvinnulífi. Ósönnuð er fullyrðingin um betri tengsl vísindamanna við evrópska fræðimenn enda varla hægt að þakka EES fyrir Google og netið.

 " Samningurinn felur í sér frjáls þjónustuviðskipti, fjármagnsviðskipti og viðskipti með iðnvarning, og jafnframt frjálsan atvinnu- og búseturétt alls staðar á svæðinu. Er þetta stundum nefnt fjórfrelsi. Enn fremur eru í samningnum ákvæði um samvinnu í félagsmálum, neytendamálum, jafnréttismálum, rannsóknum og þróun, menntamálum og umhverfismálum. Þegar samningurinn tók gildi hér á landi samþykktu íslensk stjórnvöld um leið að taka upp í íslenskan rétt nær allar þær viðskiptareglur sem giltu á evrópskum mörkuðum. Í samningnum felast því ekki aðeins frjáls viðskipti og sameiginleg réttindi heldur einnig að vissu marki sameiginlegar reglur á ýmsum sviðum til að tryggja sanngjarna samkeppni í viðskiptum, neytendavernd, vernd umhverfisins, félagsleg réttindi og svo framvegis ".

 Hvernig er staðan með fjórfrelsið á Íslandi um þessar mundir eftir að Íslendingar fengu að reyna sig?

 Það þarf líklega ekki að endurtaka að það er þjónustan og atvinnu-og búseturétturinn sem hér er fyrir hendi. Iðnvarningur eins og makrílafurðir eru álíka viðskiptafrjálsar og hvalaafurðir og flest er einokað í ESB af stórum blökkum.Landið er opið fyrir hvaða ruslaralýð sem er en við getum ekkert farið nema til EFTA-ríkisins Noregs vegna atvinnuleysis allstaðar í ESB.

 Vísindavefurinn telur sem meginforsendu erfiðleikanna nútildags vera:

 " Mestu munar að Evrópusambandið (ESB) hefur breyst mikið frá því EES-samningurinn var gerður og innganga tíu nýrra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu í ESB markar nýtt upphaf í evrópsku samstarfi "

 Það er verkurinn við þenna Vísindavef Háskólans sem ég get varla séð að mikið annað en útibú frá Samfylkingunni og áróðursarmur. ESB er bandalag þróunarríkja sem við eigum ekkert sameiginlegt með. Við erum miklu betur stödd en meðaltalið þar.

 Háskólafólkið matar stjórnmálamenn samtímans á rangupplýsingum og órökstuddum fullyrðingum um eitthvað ágæti sem er ekki eins og það segir vegna breyttra aðstæðna. Verða Íslendingar ekki að fara að gera kröfur til þess um breytt og betri vinnubrögð í meðhöndlun staðreynda?

 Mín niðurstaða sveigist meira í þessa átt sem lengra frá líður: Við eigum ekkert með þennan EES samning og Schengen lengur að gera annað en að segja honum upp. Standa á eigin fótum héðan í frá og versla í austur og vestur eins og okkur lystir.

 ESB var aldrei annað en tollabandalag gegn umheiminum. Þar höfum við ekkert að kaupa.

 EES er úrelt þing.


Lánlaust lið

hefur ráðið för í fjármálum Íslands þetta kjörtímabil. Sem flestir þyrftu að lesa eftirfarandi: 

Umsögn Frosta Sigurjónssonar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 12. 12 2012:

Peningavaldið - Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingskjal 510 - Mál nr. 415.


Með peningavaldi er átt við valdið til að búa til peninga, eða ígildi peninga, og setja í umferð.

Ógætileg meðferð peningavaldsins er vafalítið ein af höfuðástæðum hrunsins og má færa rök fyrir því að ný stjórnarskrá fjalli um peningavaldið og hvernig skuli koma í veg fyrir að því verði misbeitt.

Stjórnarskrá þarf einnig að gera greinarmun á valdi til útgáfu og úthlutunar nýrra peninga en þessi tvö valdsvið mega ekki vera á sömu hendi.

Það hlýtur að teljast alvarlegur galli á stjórnarskrárfrumvarpinu að í því sé ekki gerð tilraun til að koma böndum á peningavaldið.

GREINARGERÐ

Taumlaus peningamyndun er meginorsök hrunsins
Við einkavæðingu viðskiptabankanna árið 2002 færðist peningavaldið að mestu leiti frá ríkinu til eigenda bankanna. Á næstu fimm árum ríflega fimmfölduðu einkabankarnir peningamagn í umferð. Sú aukning var gersamlega úr samhengi við vöxt þjóðartekna og afleiðingin var hrun gjaldmiðilsins.

Enn hefur ekkert verið gert til að koma peningavaldinu í skjól fyrir sérhagsmunum. Enn hafa einkabankarnir aðstöðu til að búa til peninga og ákveða hver skuli fá nýja peninga. Verði þessu ekki breytt, mun það halda áfram að bitna á landsmönnum með verðbólgu, vaxtabyrði, óstöðugleika og skuldsetningu.

Viðskiptabankar búa til ígildi peninga með útlánum
Viðskiptabankar eru í aðstöðu til að skapa ígildi peninga með útlánum. Viðskiptabanki skapar ígildi peninga með því að veita lán og afhenda lántakanda innstæðu í stað seðla. Innstæðuna býr bankinn til úr engu. Innstæðan er í raun loforð bankans um að afhenda seðla hvenær sem óskað er. Innstæðan er handhægari en seðlar og lántaki og allir aðrir líta á innstæðu í banka sem ígildi peninga, enda er hægt að nota þær til að greiða skuldir og jafnvel skatta.

Peningamyndun er skattheimta
Bankinn hagnast mjög á því að búa til ígildi peninga, því hann greiðir litla sem enga vexti á innstæðuna en innheimtir hins vegar markaðsvexti á útlánið. Íslenskir bankar hafa búið til 1.000 milljarða með þessum hætti og nema tekjur banka af vaxtamun inn- og útlána tugum milljarða árlega.

Banki sem eykur eigið fé sitt um 2 milljarða getur búið til 25 milljarða af nýjum innstæðum og lánað þær út (miðað við 8% eiginfjárkröfu). Þegar veitt eru ný lán myndast innlán sem eru nýir peningar og rýra verðgildi þeirra peninga sem fyrir eru. Innstæður í bönkum eru í minna mæli óverðtryggðar en útlán og bankar græða því á rýrnun þeirra.

Fái bankar að beita peningavaldinu í eigin þágu, er ekki við öðru að búast en þeir leggi sig alla fram um að auka gróða sinn af vaxtamun og verðbólgu, þótt það verði á kostnað alls almennings.

Alþjóðlegt vandamál
Sama fyrirkomulag peningamála er við lýði í nær öllum löndum. Peningavaldið er víðast hvar komið í hendur einkaaðila. Afleiðingin er nánast taumlaus peningaprentun. Vaxtabyrði þjóða af því að hafa gjaldmiðil sinn að láni frá einkabönkum þyngir í sífellu skuldabyrði þeirra. Svo er komið að alvarleg skuldakreppa ríkir í heiminum og á torgum stórborga safnast almenningur saman til að mótmæla ráðaleysi stjórnvalda.

Peningavaldið tilheyrir þjóðinni
Taka þarf peningavaldið frá viðskiptabönkunum og skipta því upp milli seðlabanka og ríkisstjórnar landsins.

En það nægir ekki að koma peningavaldinu til ríkisins, einnig þarf að tryggja tvískiptingu valdsins til að draga úr freistnivanda.

Seðlabanki fari með útgáfuvald peninga
Seðlabankinn gefur í dag út seðla og mynt, en þessir miðlar eru sáralítið notaðir í viðskiptum. Bankainnstæður (rafrænir peningar) búnar til af einkabönkum eru uppistaðan í peningamagni landsins. Bankar skapa peninga með útlánum og nær allt fé í landinu er myndað með þessum hætti og ber vexti sem greiðast bönkum. Þessu þarf að breyta.

Aðeins Seðlabanki ætti að hafa leyfi til að búa til peninga fyrir fyrir hagkerfið og hann getur gert það án skuldsetningar.

Seðlabanki á að meta og stýra því hve mikið peningamagn er í hagkerfinu á hverjum tíma, út frá þjóðhagslegum markmiðum eins og verðbólgu, sjálfbærum hagvexti, atvinnuleysi og fleiri þáttum.

Ríkisstjórn fari með úthlutunarvald peninga
Í dag ákveða bankar hverjum skuli afhenda nýtt fé og til hvers það skal notað. Hagsmunir bankans ráða þar för, þótt nýir peningar rýri alla peninga sem fyrir eru í kerfinu.

Þar sem nýir peningar valda kostnaði hjá öllum almenningi, er eðlileg krafa að nýjum peningum sé ráðstafað með lýðræðislegum hætti. Ríkisstjórn er best til þess fallin og getur gert það með fjárlögum.

Nánari upplýsingar um peningavald og skiptingu þess má finna á www.betrapeningakerfi.is

Virðingarfyllst


Frosti Sigurjónsson
rekstrarhagfræðingur

Fólk þarf að gera sér grein fyrir að þarna er á ferðinni vandamál sem taka verður á. Bankarnir sem auglýsa sig sem vini fólksins eru það ekki.  Þeir eru líka óvinir hagstjórnar landsins og hafa oftlega eyðilagt tilraunir löglega kosinna yfirvalda til að aðhalds þegar þeim hefur sýnst svo.

Í dag hafa þeir enn á ný komist til of mikilla áhrifa. Arion banki og Íslandsbanki  eru líka í eigu óvina fólksins að mestu leyti, sem eru alþjóðlegir hákarla-og hrægammasjóðir. Þeir hafa enga líklega fáar aðrar hugsjónir en að mergsjúga land og þjóð. Það er skömm fyrir málsmetandi menn að láta kaupa sig til þjónustu á vegum þessara afla.

Vonandi ber nýtt Alþingi gæfu til þess að taka þessi mál fastari tökum en það lánlausa lið sem ráðið hafa ferðinni í íslenskum fjármálum  síðustu fjögur ár.


Gott hjá Jóni

Ragnari Ríkharðssyni á bloggi sínu. Mér finnst alveg ástæða til að undirstrika það hér, hvernig rangupplýsingar stjórnarliðanna bylja sífellt á Sjálfstæðisflokknum. Ég birti því hér  ágæta greiningu Bassans á þessum málum ef einhver hefði ekki lesið: 

"Í kjölfar þess hruns, sem varð á fjármálamörkuðum heimsins fóru spunameistarar vinstri flokkanna á fullt að semja sannfærandi lygi, til þess að SF og VG kæmust loksins til valda, en þjóðin hafði að sjálfsögðu hafnað þessum flokkum eftir að hún fékk að kynnast því hvernig sjálfstæðisstefnan virkar í raun.

Það er afrek út af fyrir sig, að takast að blekkja stóran hluta þjóðarinnar þegar flestir hafa netaðgang og kunna að slá inn "Google" og lesa þær upplýsingar sem birtast þar. En leti fólks og trúgirni gerir það að verkum, að spunameistarar hafa frítt spil og segja má að forverar þeirra hafa dyggilega náð að sverta Sjálfstæðisflokkinn, þannig að eftirleikurinn er ekki flókinn.

Samfylkingin t.a.m. hefur náð að fela það nokkuð vel, að sá ágæti flokkur tók fullan þátt í því sem þau kalla "nýfrjálshyggju" í dag og þar kom Sjálfstæðisflokkurinn hvergi nærri. Á landsfundi SF árið 2007 var m.a. gerð ályktun sem ber yfirskriftina "Traust og skapandi atvinnulíf".

Í 9. grein segir orðrétt: "Skapa hagstætt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í fjármálaþjónustu sem standist fyllilega samkeppni við það sem best gerist í öðrum löndum". Það er erfitt að skilja hvað jafnaðarmannaflokkur er að fara, þegar hann setur sér þá stefnu að vilja skapa hagstæðara rekstrarumhverfi fyrir fjármálafyrirtæki á tímum, þar sem fjármálageirinn skilaði methagnaði ár eftir ár. Nýfrjálshyggjan er nærtækasta skýringin, en samfylkingarfólk boðaði hana af meiri krafti árið 2007 en innblásinn trúboði boðar kristna trú.

Ráðherra bankamála dásamaði bankanna og útrásina í viðtölum, en hann kom úr vinstri armi flokksins, þannig að ekki fer á milli mála hvað nýfrjálshyggjan hafði sterk ítök í flokki jafnaðarmanna árið 2007.

Svo hrundu allir bankar árið 2008 og sparisjóðir flestir hrundu líka. Trúgirni fjöldans var slík, að spunameisturunum tókst að sannfæra marga um að hægt væri að kenna einkavæðingunni um. Ef einkavæðingin hefði valdið hruninu, þá er líklegt að eingungis tveir bankar á Íslandi hefðu hrunið.

En hverjar eru þá orsakir hrunsins?

Sagt er ágætlega frá því í skýrslu Rna, sem allir dásama en fáir hafa lesið. Ef flett er á bls. 58. í fyrsta bindi skýrslunnar, þá er auðvelt að átta sig á þeim. Gríðarlegt magn af fjármagni hafði myndast víða og leitaði ávöxtunar. Á sama tíma ríkti ofurtraust á mörkuðum því enginn stór banki hafði fallið ansi lengi. Í framhaldinu komu nýjar og áður óþekktar fjármálaafleiður ásamt undirmálslánunum í USA.

En er þá ábyrgð sjálfstæðismanna þá engin? Jú, hún er sannarlega mikil og því miður veru gerð mörg mistök, bæði afdrifarík og stór.

Frá árinu 1991 höfðu ríkisútgjöld aukist um hundruðir milljarða, hjá ríki og sveitarfélögum, báknið þandist út og opinberum störfum fjölgaði meira en góðu hófi gegndi. Flokkurinn stóð ekki nógu vel við sína stefnu og lærði ekki af sínum merku frumherjum, sem þekktu lífið og heiminn í sínum tærustu myndum. Þeir gleymdu þeirri staðreynd, að þegar kemur mikil uppsveifla, þá kemur alltaf mikil kreppa, fyrirhyggjan var af skornum skammti.

En alltaf þegar sagan er skoðuð, þá standa sjálfstæðismenn sig ávallt best. Skuldir voru greiddar niður og það kom sér vel, einnig framkvæmdu sjálfstæðismenn, í samstarfi við marga, þá miklu snilld sem í neyðarlögunum felst. En það var ekki sjálfgefið að þau myndu standast en oft þarf að taka áhættu og hjá skynsömum mönnum heppnast áhættan oftast eins og síðar kom í ljós. Hægt er að segja að betra hefði verið að hafa ákveðið hámark á innistæðum sem tryggðar voru af ríkinu, en það gengur bara betur næst. Fáir eru svo lánsamir að geta tekið kórréttar ákvarðanir í óþekktum aðstæðum, sjálfstæðismenn eru jú mannlegir eins og hinir, en þeir hafa stefnuna framyfir aðra.

Ef aðferðir Jóns Þorlákssonar hefðu verið teknar til fyrirmyndar, en hann var einn af höfundum sjálfstæðisstefnunnar og hún var hans lífsstefna, þá stæðum við mun betur að vígi í dag.

Þegar Jón Þorláksson var fjármálaráðherra, þá skar hann niður í góðæri og fækkaði opinberum störfum. Þegar kreppti að var hægt að setja opinbert fé í framkvæmdir til að verja hagvöxt. Það er sjálfstæðistefnan í efnahagsmálum og óskandi að henni verði fylgt um ókomna tíð.

Þá þarf þjóðin engu að kvíða.

Kjósendur verða að lesa sér til og kynna sér staðreyndir. Um leið og þeir ná að sannfæra fólk um lygina, þá kemur vinstri stjórn og þjóðin hefur varla efni á að búa við fleiri ár með vinstri flokkanna í valdastólum. "

Svo mörg voru þau orð.

Við getum rifist endalaust um hvað við hefðum átt að gera öðruvísi. Hvernig við stýrum fortíðinni langtum betur en við gerðum þegar hún var nútíð.

Aðalatriðið er hvað við gerum í framtíðinni. Munum við geta gert eitthvað rétt?

Allavega var þessi pistill góð áminning og hvatning frá Jóni Ragnari.


Mun eitthvað breytast?

spurði ungi maðurinn sem eg var að spjalla við.

Umræðuefnið var núverandi ástand í þjóðafélaginu. Við voum sammála um að það væri kreppa. Arvinnutækifæri væru fá. Mikið af iðn-og tæknifólki væri farið úr landi. Jafnvel hlutfallslega meira af stjórnarandstæðingum en hinum. Við vorum nokkuð sammála um að efast um að þetta fólk væri líklega ekki nokkuð að snúa heim jafnvel þó atvinna hérlendis ykist eitthvað. Þetta fólk væri að festast í betri kjörum. Hér myndi ekkert breytast hratt. Allt myndi taka langan tíma. EES myndi láta vinnufúsu fólki fyrr snjóa hér inn áður en Íslendingar flykktust í störfin.

Munu gjaldeyrishöftin nokkuð fara þó að ný stjórn taki við spurði hann? Mér vafðist tunga um tönn. Mun atvinnuástandið batna ef farið verður í virkjun ? Verður ekki heimtað að setja allt á yfirsnúning, allt skal klárað á methraða í þágu vaxtanna? Alveg eins og í Kárahnjúkum? Þegar fólkið fæst ekki innanlands, því margt fólk er búið að venja sig á atvinnuleysið sem lífsstíl, verður þá ekki  flutt inn fólk?  Þúsund Kínverjar, voru þeir ekki auðfengnir í Kárahnjúkum?  Innlent iðn-og tæknilært fólk er orðið fáséð í landinu sagði hann. Menn auglýsa eftir slíku fólki og það kemur nánast enginn. Og þeir sem koma eru áberandi óhæfir og ætla sér ekki í neina vinnu? Koma jafnvel drukknir?  Og nú eiga sveitarfélögin að taka við stvinnuleysisboltanum og fyrirfram er vitað að þau geta ekki neitt fjárhagslega og eru mjög ráðalaus til viðbótar.

Hverju ætlið þið Sjálfstæðismenn að breyta spurði hann?  Ætlið þið að taka á skuldavanda heimilanna og vísitölulánunum? Ég sagði að við hefðum verið að tala um þeta á  landsfundinum síðast  en þetta hefði verið talað niður vegna lífeyrissjóðanna og bankanna.  Og þið hafið ekki minnst á þetta síðan sagði hann. Ég sagði að við hefðum verið valdalausir. Munuð þið gera eitthvað afgerandi á fyrstu hundrað dögunum? Þið fáið ekki lengri tíma áður en fólkið snýst gegn ykkur og lemur pönnurnar á Austurvelli sagði hann.

Aftur vafðist mér tunga um tönn. Treysti ég svo mikið á okkar fólk? Er það svona yfirmátalega líklegt til stórræðana? Eru vandamálin ekki svo hrikaleg líka? Tekur ekki tíma að koma stóru skipi úr langlegu á siglingu?

Ég fór svo að lesa bók Styrmis Gunnarssonar um valdabröltið í Sjálfstæðisflokknum fyrir rúmum aldarþriðjungi. Fyrst brosti ég nú yfir því hvernig höfundur reynir að gera sjálfan sig að miðpunkti sögunnar ef ekki aðalgeranda í stjórnmálum sem var ekki mín upplifun atburðanna þá. En svo fór að daga upp fyrir mér við lesturinn að flestar þessar stórstjörnur flokksins míns virtust vera meira uppteknir af sjálfum sér og sínum hagsmunum en þjóðarinnar. Þetta virtist vera endalaust skæklatog og tafl um embætti og vegtyllur sjálfum sér til handa meðan verkefnin sátu á hakanum. Óðaverðbólgan æddi áfram og þeir gátu ekkert gert lengst af. Voru þeir ekki miklu meira uppteknir af sjálfum sér og sínum  hagsmunum en öðrum  málum?  Þó gerðist auðvitað margt merkilegt á þessum árum. En var ekki hægt að gera miklu betur?  Mér fór að líða verr og verr við lesturinn.  Verður þetta ekki bara eins núna? Þeir munu ekkert gera því allur tíminn mun fara í þá sjálfa og þeirra eigin völd og bitlinga. Hafa þeir eitthvað breyst?

Ég varð að viðurkenna að ég hafði ekki haft svör af sannfæringu við öllum spurningum unga mannsins. Framtíðin er ekki björt þó margt geti breyst. Það er hinsvegar  útséð um að ekkert breytist með að kjósa núverandi valdhafa áfram.Um það vorum við sammála.

En mun eitthvað afgerandi breytast þó við kjósum öðruvísi?


sinnum 2.5=sykurkílóið í mars

samkvæmt nýjustu lýðheilsuráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.

"Öll lífsins gæði ber að skattleggja" er haft eftir ráðgjafa Steingríms J. Sigfússonar í skattamálum. Ráherrann hefur fylgt þeirri línu í þaula af mikilli hugkvæmni.

Það hefur verið umræða í þjóðfélaginu að offita sé vandamál. Henni veldur að hluta ofneysla sætinda og gosdrykkja. Allir vita að hækkanir á áfengisgjaldi eru aðeins gerðar með heilsufarshagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Það snertir bindindismenn ekki hið minnsta og greiða þeir því ekki sanngjarnan skerf sinn til ríkissjóðs. Sykurskattur og smokkaskattur er því auðvitað kjörin leið til að ná til þeirra einnig því að vís maður hefur sagt að summa lastanna sé yfirleitt konstant eða fasti hjá mannfólkinu. Því séu bindindismenn hugsanlega varasamri en aðrir á öðrum sviðum mannlífsins og er þetta leið til að jafna skattbyrðina.

Valdi þessi hækkun sykursins hækkun sem nemur 0.1% á vísitölunni veldur það jafnmikilli hækkun á skuldum heimilanna og hækkunin á snússinu var áður búin að gera eða 2.5 milljörðum króna. Samtals 5 milljarðar í hækkun af þessum tveimur atriðum. Í allt er talið að skuldir heimilanna hafi hækkað um 30 milljarða vegna 90 milljarða aukinnar skattheimtu ríkisstjórnarinnar.

En athyglisverð hugleiðing er sú, að þessi sykurhækkun muni engu skila í ríkiskassann í næstu framtíð þar sem sykurkaupmenn hafi birgt sig upp. Hækkunin til almennings muni lenda hjá þeim. Þeir væru líklega litlir kaupmenn ef þeim dytti þetta ekki í hug.

Í dag er Þorláksmessa á vetri og nú er sólin tekin að hækka á lofti Það gerir tilhugsunina um hækkun á sykri á útmánuðum bærilegri. 2.5 sinnum verðið í dag á sykri í mars er það sem þjóðin mun greiða fyrir göfuga viðleitni ríkisstjórnarinnar til að stuðla að betra heilsufari hennar með minni sætindaneyslu.


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 3419866

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband