Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Skuldavandi ríkissjóðs leystur

ef hann aðeins tekur til sín útistandandi fé sem hann á óumdeilanlegan rétt til.

Bergur Hauksson skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann kemur inn á mál sem mér hefur verið lengi hugleikið. En það er að taka hlut ríkissjóðs í lífeyrissjóðainngreiðslum strax eins og aðra staðgreiðslu.

Ég gleðst yfir því auðvitað að málsmetandi maður tekur undir þessi sjónarmið vesæls lífeyrisþegabloggara sem hafa skijanlega verið eins og vindur hjá eyrum ráðamanna.

Bergur segir m.a.:

" .......Hjá lífeyrissjóðunum liggur fé sem mun renna til ríkisins í formi skatts þegar sjóðsfélagar fá greiðslu úr lífeyrissjóðunum miðað við núverandi lög. Heildareignir lífeyrissjóðanna eru 2.583 milljarðar króna (2.583.000.000.000).

Ekki er ljóst hvað af þessu mun renna til ríkisins í formi skatts. Ef þetta er skoðað út frá þekktum tölum má þó nálgast hverjar þessar skattgreiðslur yrðu. Meðallaun árið 2012 voru kr. 402.000 á mánuði. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði er reiknað með að lífeyrisréttindi verði 56% af launum. Meðallífeyrisréttindi verða miðað við þá forsendu eru kr. 225.120 á mánuði (56% af 402.000). Miðað við núverandi tekjuskatt, væri skattur af þessari fjárhæð 16% ef tekið er tillit til persónuafsláttar. 16% af kr. 2.583.000.000.000 eru kr. 407.664.499.254.(á ári NB ! innskot mitt)

 

Ef lögum væri breytt á þann veg að þetta væri greitt í skatt nú þegar og þessi fjárhæð væri notuð til að lækka skuldir ríkisins þá myndi það þýða mikla ávöxtun fyrir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna sem þegna ríkisins. Betri ávöxtun tel ég ekki mögulega. Samkvæmt fréttum tók fyrri ríkisstjórn lán með 6,6% vöxtum. Ef slíkt lán væri niðurgreitt að fjárhæð kr. 407.664.499.254 þá sparast um tuttugu og sjö milljarðar króna í vaxtagreiðslur á ári. Ef þessari fjárhæð er dreift á hvern Íslending þá gerir það um áttatíu og fjögur þúsund krónur á mann á ári eða 320.000 krónur á fjögurra manna fjölskyldu. Sjá nánar í töflu.

 

Þjóðin er í höftum og þá þarf að grípa til annarra úrræða en ef þjóðin byggi við eðlileg skilyrði. Það þarf nýja hugsun. Ef til er enn betri leið til að ávaxta þessa peninga fyrir hönd sjóðsfélaganna en framangreind leið, þá er um að gera fyrir lífeyrissjóðina eða einhverja aðra að benda á hana. Augljóst er að svona kerfisbreyting myndi þýða einhverja vinnu varðandi útfærslu en eins og öll önnur kerfi, gerð af mönnum þá er hægt að breyta lífeyrisskerfinu. Það er hægt að breyta því sjóðsfélögum til hagsbóta.

 

Að öllum líkindum er besta ávöxtun sem tæk er fyrir þegna þessa lands og sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna, fjárfesting sem ekki er einungis mæld í vöxtum heldur einnig fjárfesting sem mæld er í góðu heilbrigðiskerfi. Til að viðhalda góðu heilbrigðiskerfi þarf að hafa gott starfsfólk. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk, sérhæft á sínu sviði hefur sagt upp störfum hjá Landspítalanum meðal annars vegna vinnuaðstöðu.

Nú síðast sagði upp störfum forstjóri spítalans. Ég þekki fyrrverandi forstjóra spítalans ekkert en það þarf ekki sérstakan gáfumann til að sjá að þar fór besti forstjóri sem hefur verið á Landspítalanum fram að þessu. Vonandi kom jafn góður maður í hans stað. Læknar lýsa hve álag hefur aukist vegna þess að starfsfólk hefur sagt upp og nýtt starfsfólk fæst ekki í staðinn. Tæki hafa bilað þannig að krabbameinssjúklingar eru sendir heim án meðferðar.

 

Miðað við kostnaðaráætlun nýs Landspítala er kostnaður við fyrsta áfanga um fjörutíu og fimm milljarðar króna. Áætla má að hönnunar- og framkvæmdatími sé í kringum fjögur ár. Stærstur hluti af framkvæmdakostnaði kemur til á síðasta ári. Uppsafnaður vaxtasparnaður á fjórum árum er um eitt hundrað milljarðar króna. Er spurning hvað ber að gera? Ekki má gleyma því að samkvæmt stjórnendum spítalans sparast töluvert þar sem viðhaldskostnaður verður töluvert minni. "

Það er svo borðliggjandi finnst mér að ríkið taki þessa peninga til sín, jafnvel eitthvað afturvirkt líka. og noti það núna í neyðinni.

Hvaða gaman hef ég af því að fá núna greiddan lífeyri að frádreginni staðgreiðslu í stað þess að fá bara lífeyrinn. Sem hefði verið mun hærri ef lífeyrissjóðurinn minn hefði tapað minna á hlutabréfabraskinu í gegn um árin. Minni upphæðir til að braska með= minna tap eða eitthvað minni hagnaður í besta falli.

Það er miklu meiri hagnaður  fyrir mig í því fólginn að leysa vanda ríkissjóðs núna heldur en að lífeyrissjóðirnir eigi sífellt að koma að öllum dægurflugum sem stjórnmálamönnum sérstaklega af vinstra kantinum eru sífellt að gína við.  Gera tillögur um að lífeyrissjóðirnir komi að hinu og þessu. Lífeyrissjóðafurstarnir sem enginn kaus, frekar en kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafa síðasta orðið í öllum slíkum "framfaramálum".

Verkurinn er áfram landsmanna sjálfra. En hann er að hafa vit til þess að halda minna hæfu en háværu fólki (lýðskrumari er gott orð sem hefði mátt vera nefnt til verðlaun) frá ákvarðanatöku um grundvallaratriði eins og Icesave til dæmis.Velja sér betri forystumenn framvegis.

Bergur Hauksson bendir á fljótvirka leið til þess að leysa skuldavanda ríkissjóðs. 

 

 


Gestir í eigin landi

er fyrirsögn á góðri grein Sigurjóns Skúlasonar í Mbl. í dag:

 "Það er sama hvort talað er við atvinnurekendur úr ferðaþjónustunni eða kjörna fulltrúa, úr augum þeirra allra skín gullgrafaraljóminn þegar þeir tala um aukinn ferðamannastraum til Íslands. Nú boðar iðnaðar- og viðskiptaráðherra frumvarp um náttúrupassa eftir áramót. Hugmyndin er sú að þeir sem ganga á náttúruna með viðveru sinni greiði fyrir það. Fjöldi ferðamanna hefur aukist verulega frá hruni og óumdeilt er að fjármagns er þörf til þess að koma til móts við þessa fjölgun, bæði til þess að byggja upp aðstöðu og til þess að hlúa að þeim stöðum sem verða fyrir mestu áreiti.

Í útfærslu sinni á náttúrupassanum styðst ráðuneytið við nýlega skýrslu frá Boston Consulting Group sem nýlega skoðaði þetta álitaefni. Lagt er til að ferðamenn kaupi passa til skamms tíma og fái þar aðgang að ákveðnum náttúruperlum. Íslenskir skattgreiðendur verða ekki undanskildir og munu þurfa að kaupa passann í gegnum skattkerfið til lengri tíma. Samtök ferðaþjónustunnar styðja slíka ráðstöfun, gegn niðurfærslu á annarri gjaldtöku. Kostirnir fyrir þá sem standa að þessu fyrirkomulagi eru margvíslegir; ferðaþjónustufyrirtæki þurfa ekki að hækka verðskrár sínar til þess að fjármagna uppbygginguna og munu njóta bættrar aðstöðu. Fjármagn mun streyma inn í sveitarfélögin, sem og um hendur sveitarstjórnarmanna, því er almenn ánægja þar. Loks mun ríkið fá aðra stoð undir rekstur sinn og frekari tækifæri til þess að hafa áhrif á hegðun almennings.

 

Einn hagsmunahópur hefur þó aldrei verið með í ráðum, íslenskir skattgreiðendur. Þeir sem nú þegar búa við háan tekjuskatt, næst hæsta virðisaukaskattinn innan OECD og nær hámarks útsvar í flestum sveitarfélögum landsins, auk ótal annarra beinna og óbeinna gjalda sem ríkið leggur á herðar þeirra.Vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum árum, og fyrir síðustu kosningar, lagt mikla áherslu á nauðsyn þess að létta á skattbyrði almennings er áætlun hans um náttúrupassann óboðleg. Hugmyndin um greiðslur notenda er um margt ágæt en hugsunin hefur aldrei verið sú að leggja slík gjöld ofan á allt annað, án þess að lækka aðrar álögur á móti. Komið er að þolmörkum þó ekki þurfi að bæta við greiðslum fyrir að ganga um stórbrotna íslenska náttúru, nokkuð sem forfeður okkar gátu ávallt gert ókeypis.

 

Óháð því hvort gjaldtaka í gegnum náttúrupassa sé hagkvæmasta leiðin til tekjuöflunar þá blasir annað álitamál við okkur. Geta skattgreiðendur treyst því að fjármagn það sem aflað verður með þessari aðferð renni allt til uppbyggingar og varðveislu íslenskrar náttúru? Aðrir tekjustofnar sem hafa átt að standa undir sérstökum atriðum hafa oft verið notaðir til þess að fjármagna aðra og óskylda starfsemi. Nefskatturinn til Ríkisútvarpsins og gjöld í Framkvæmdasjóð aldraðra eru dæmi sem flestir þekkja, auk áralangrar háttsemi ríkisins að nota bensíngjaldið í annað en vegaframkvæmdir.

Á meðan ekki er hægt að hlífa skattgreiðendum við gjaldtöku náttúrupassans, fyrst og fremst vegna reglna um mismunun á grundvelli EES-samningsins, þá ber ríkinu að skoða aðrar leiðir. Meðal annars með innheimtu virðisaukaskatts af ferðaþjónustunni án undantekninga, líkt og gistingu og fólksflutningum. Ef áætlun ráðherrans nær fram að ganga verða íbúar hér lítið annað en gestir í eigin landi."

Það er einmitt verkurinn. Allt frá þvi að Sjálfstæðisráðherran laumaði inn nefskattinum  vegna RUV þá er eins og við höfum dofnað fyrir vaxandi skattheimtu. Það liggur fyrir að öllum sértækum tekjustofnum til þessa eða hins er jafnharðan stolið í eitthvað annað. Við erum búin að fá nóg.

Burt með nefskattinn til RIV. Engann Náttúrupassa. Engar undanþágur í VSK kerfinu nema til útflutnings. Enga Fríhafnir.

Við eigum ekki að keppa að því að verða gestir í eigin landi.


Dapurt gengi Sjálfstæðisflokksins

í Reykjavík er óumdeilanleg staðreynd.

Að reykvískum Sjálfstæðismönnum sé bara nokkuð slétt  sama hverjir skipa framboðslista Sjálfstæðisflokksins í næstu borgarstjórnarkosningum hefðu einhverntíman þótt tíðindi, Nú kusu liðlega 5000 manns í prófkjörinu en árið 2005 kusu hálft þrettánda þúsund.

Ef þetta væri fótboltafélag myndu einhverjir velta því fyrir sér hvað væri að?  Er það þjálfarinn, leikmennirnir eða aðstaðan sem er að draga frá? Skoruðu leikmennirnir mörg mörk á síðustu leiktíð? Var kynjakvótinn að virka þegar helmingur í 10 efstu sætunum voru konur árið 2005? Er það ástæðan fyrir hruninu að of margar konur voru á listanum? Allavega snarféll þátttakan í næsta prófkjöri á eftir og svo snarféll hún aftur núna og er nú komin niður fyrir  fjórðung þeirra sem kjósa mega. Og konurnar kjósa ekki konurnar.

Í fótboltafélagi yrði þjálfarinn örugglega rekinn og fengnir aðkeyptir utanaðkomandi spilarar í stað þeirra leikmanna sem ekki skoruðu eða sýndu tilþrif í samspili á vellinum á keppnistímabilinu. Það er sama hversu vel menn vilja bera sig. Niðurstaðan er í rauninni hrikaleg. 

Þegar ég velti þessu fyrir mér finnst mér eins og að þeir sem verða kjörnir fulltrúar missi ansi fljótt tengslin við flokksmennina. Þeir fara að líta svo á að þeir hafi þegið vald sitt frá Guði og flokksmönnum komi ekkert við hvernig þeir fari með það. Þeir fara að verða uppteknir af allskyns kratamálum eins og velferð, framfærslu og félagsaðstoð en gleyma grunnstefi Sjálfstæðisflokksins sem eru atvinnumál og sjálfstæði einstaklinganna og landsins. Gleyma því að vera í harðri pólitík og sökkva sér í friðkaup við andstæðinganna og keppast við að tala vel um týpur eins og Gnarrinn  og Dag B. Umræðustjórnmál kallast þetta víst.

Félagsstarf flokksins í Reykjavík er greinilega í molum, enginn hugsjónaeldur á ferðinni eins og í ýmsum smærri byggðarlögum. Þar eru menn á kaffifundum  og að éta kruðerí, gefa út blöð og sprella eitthvað þó vissulega beri á fílabeinsturnavæðingu fulltrúanna  þar eins og virðist vera ráðandi sjónarmið í Reykjavík. Það er liðsandinn sem vantar í grasrótina í Reykjavík. Án hans næst ekki nein stemning upp. Formenn félaganna er allt of fyrirferðarlitlir og snúa ekki nóg upp á eyrnasnepla fulltrúanna sem eru allir orðnir kontóristar í fullu launuðu starfi milli prófkjara.

Ég held líka að lögin um fjármál flokkanna hafi verið það versta sem komið hefur fyrir Sjáflstæðisflokkinn. Þá þurfa menn ekki lengur að berjast fyrir tilveru sinni eins og var. Allt er komið á ríkisspenann. Sjálfstæðisflokkurinn liggur í drafinu með tilberunum af vinstri vængnum og tottar með þeim. Það er algerlega fáránlegt að stjórnmálaflokkarnir eigi að þiggja allt sitt úr ríkislúkunni og óskiljanlegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn skyldi samþykkja að bjarga vinstriflokkunum frá sjálfdauða með þessum hætti. Þessu á flokkurinn að reyna að breyta í fyrra horf ef hann á einhverja möguleika til þess á þessu þingi.Sjálfstæðisflokkur á að vera sjálfstæður í fjármálum líka eins og var á dögum Alberts og áður en Jónmundur veðsetti Valhöll.

Það vantar unga eldhuga fram á völlinn. Fólk með hugmyndir og ákafa. Ástríðupólitíkusa en ekki kontórista. Þar til þetta breytist verður gengi Sjálfstæðisflokksins jafn dapurt og raun ber vitni. 

 

 

 

 


Reykjavíkurbréf

Morgunblaðsins er kjarnyrt að þessu sinni. Og ekki er hægt að segja að þar sé skafið utanaf hlutunum né sannleikurinn ekki sagður. Og vissulega er hann ekki þægilegur fyrir alla.

Þar segir bréfritari m.a.:"

....Ekki þarf lengur um það að deila, að hið samtvinnaða íslenska bankakerfi í kringum furðu fámennan hóp eða klíkur hlaut að eiga ein sameiginleg örlög. Sá kostur var ekki fyrir hendi að einn banki færi en öðrum yrði bjargað. Meira að segja sparisjóðakerfið hafði verið sogað með og bundið örlögum hinna. Örfáa menn hafði grunað á undan öðrum að svona væri sennilega komið. Sumir þessara fáu sátu undir skipulögðu níði, sem beint var annars vegar út á við og hins vegar inn á við, að hinu pólitíska valdakerfi landsins. Og flesta langaði mjög til að trúa því að glansmyndin sem hafði verið dregin upp og ofurgróðinn sem um tíma hraut af til margra væri raunveruleiki. Þeir sem vöruðu við voru sagðir gera það af annarlegum ástæðum og jafnvel af óvild í garð þeirra sem glönsuðu helst. En grunsemdir af slíku tagi var ekki auðvelt að sanna og jafnvel ekki að byggja þokkalega undir......

......sem fóru fyrir gróðalestunum sem hrokkið höfðu af sínum teinum. Við þann hóp bættust óvænt nærsýnir sjálfskipaðir álitsgjafar og stjórnendur umræðu og reyndust nytsamir hjálparkokkar við að snúa umræðunni á haus, þegar þarna var komið. Því nytsama sakleysingja er ekki einu sinni hægt að kalla þá.

 Fyrir skömmu var upplýst að helstu fyrirferðarmenn íslensku efnahagsbólunnar sem sprakk réðu atvinnuspunameistara til að afvegaleiða umræðuna eftir »hrun« og vörðu til þess myndarlegum hluta af misvel fengnu fé sínu. Spunameistararnir sáust ekki fremur en spottamenn strengjabrúðanna, en urðu kostunarmenn annarra sem áttu ótrúlega greiðan aðgang að umræðuþáttum fjölmiðlanna, auk þess sem þeir beittu sér óspart, með öðrum aðkeyptum kröftum, á veraldarvefnum.

.....Í ljósi þessa alls má segja að það hafi litið út eins og pólitískt kraftaverk að takast skyldi að draga upp þá mynd, þegar að tjaldið lyftist af svikamyllunni, að Samfylkingin væri rétti aðilinn til að »moka flórinn« eftir Sjálfstæðisflokkinn og leiða ríkisstjórn í þeim tilgangi. (Að vísu hefur Steingrímur J. Sigfússon ítrekað gefið til kynna að vinstristjórnin hafi verið einhvers konar eins manns stjórn hans, án svefns og matar, í beinu umboði örlagadísanna).

En lykilinn að þessum undarlega öfugsnúningi á öllu því sem hafði gerst er þó ekki að finna í kraftaverki af neinu tagi. Það lögðust allir á eitt. Baugsmiðlarnir, sem lengi höfðu verið síamstvíburi Samfylkingarinnar, og eru enn, gerðu sitt til að hafa endaskipti á staðreyndunum, enda áttu tvíburarnir ríka sameiginlega hagsmuni. Allir vita hvernig Fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem rekin er fyrir nauðungaráskrift, einhenti sér í hið sameiginlega verkefni og hagaði sér eins og hún væri ráðherra án ráðuneytis í síðustu ríkisstjórn.

 

Og þannig vildi til að Morgunblaðið, undir skammlífri ritstjórn, sem tekið hafði við af Styrmi Gunnarssyni, lét ekki sitt eftir liggja, enda var aðalhugðarefni hennar að nota tímabundnar ófarir Íslands til að koma því í ESB. Sennilega er þetta einstætt í samtímasögu Íslendinga. Allir fjölmiðlar landsins, sem máli ná, voru samtaka og fylgdu takti sem handhafi einstæðrar skuldsöfnunar mets sló við að endurskrifa söguna í þágu aðila sem leikið höfðu landið svo grátt....


.....Það náðist á örfáum dögum um mánaðamótin örlagaríku að fastsetja kúrsinn sem skipti mestu. Það var mikilvægast alls á Íslandi á ögurstundu. Og það tókst áður en að Samfylkingin náði ákvörðunarvaldinu í stjórnarráðinu undir sig og komst síðar í þá sérkennilegu stöðu að þykjast verða Íslandsbjargvættur með VG. Með fyrrnefndum ákvörðunum var tryggt að Ísland kom, þrátt fyrir algjört bankafall, betur frá uppnáminu en mörg þjóð önnur, sem í holskeflinu lenti. En svo gleðilegt sem það var kom á móti að næstu ár, sem voru svo mikilvæg, fóru að mestu í súginn.

Hávaði og barsmíðar, sem ólíklegustu aðilar tóku þátt í að æsa til, skoluðu sundurlyndisöflum inn í stjórnarráðið. Icesave-samningar, hver af öðrum, og endalausar deilur um þá; svikum vafin aðildarumsókn að ESB; skrípaleikur kringum stjórnarskrá landsins og aðför að henni; Landsdómsmál og aðrar haturs- og hefndaraðgerðir smágerðra stjórnamálamanna; allsherjar stöðnun fjárfestinga, kotungsleg haftapólitík og ómarkvissar aðgerðir til að koma sér út úr þeim og minnimáttarkennd gagnvart AGS, svo fátt eitt sé talið, frestaði því alltof lengi að neikvæð áhrif bankafallsins fjöruðu út. 

Óhæfasta ríkisstjórn Íslands er á bak og burt. Í augnablikinu er það því ekki vandræðagangur af því tagi sem er háskalegasta hindrun uppbyggingar efnahagslífs á Íslandi. Hægt er að sjá fyrir sér að Ísland eitt og sér gæti verið komið í mjög góða stöðu til að grípa sín tækifæri, leggja grundvöll að bjartsýni, sem væri ekki belgingur einn, heldur á bjargi byggð og komið sér þannig á beina braut á 12-18 mánuðum.

En utanaðkomandi skilyrði kunna þó að hafa ófyrirsjánleg áhrif. Þeir sem mestu ráða í heimsbúskapnum og um það, hvort hann nái sér brátt á strik, eru ekki sannfærandi og því síður ganga þeir í takt.

Leiðtogar Evrópu gerðu ný mistök með hverjum neyðarfundinum sem þeir áttu. Þeir niðurlægðu bræðraþjóðir í vanda og keyrðu þær með efnahagslegu ofbeldi í niðursveiflu, sem illfært er upp úr og gerðu áratuga skuldaþrældóm í þágu áhættusækinna bankaglanna í Norður-Evrópu að einu framtíðarsýn í áratugi.

Flestir viðurkenna nú orðið að evran er ónýtur gjaldmiðill nema aðildarríki hennar verði þvinguð til að lúta einni efnahagslegri stjórn. Enn er þó neitað að horfast í augu við að ekki mun takast að beygja nægilega margar þjóðir í duftið, þótt tekist hafi að sverfa smám saman af fullveldi þeirra og sjálfstæði.

......... Þegar Bernanke hóstaði þessu upp úr sér hröpuðu pappírar þegar í verði og kaupahéðnum leið eins og bankastjórinn hefði boðið þeim vikugamlar ostrur í hádegismat og hlupu flestir á þá setuna. Þeir kölluðu í skyndi eftir sínum dollurum frá Kína, Indlandi og slíkum ríkjum og þá blasti við að þau lönd stefndu í ógöngur og gætu ekki áfram haldið uppi framleiðslustigi í Vesturheimi og hlutabréfin virtust því ætla að taka enn stærri dýfu. Þá guggnaði Bernanke bankastjóri og dró í land. Og þá varð aftur kátt í Kauphöllinni. Bandaríski seðlabankinn er því orðinn fangi eigin stefnu, sem hann veit og hefur vitnað um að fái ekki staðist til lengdar.

Í Evrópu eltu ríkisbankamenn hina kátu Kana og eru komnir með vextina niður í ekki neitt. Sparendur eiga því fáa kosti nema koddaverið eða að breyta aurum í steypu og búa til fasteignabólu sem ekki er innstæða fyrir. Og þá gæti niðurborandi spírallinn fljótlega farið að heilsa upp á fleiri en Grikki, Spán, Portúgal og Írland. Þegar blasir við að Ítalía er næsti kandídat. Og Frakkland er ekki langt undan. Þar er forseti við völd sem aðeins 3% frönsku þjóðarinnar treysta mjög vel. Hann hefur því enga stöðu til að blása bjartsýni og baráttuhug í landa sína.

Hið efnahagslega umhverfi Íslands, bæði nær og fjær, vekur því mjög blendnar tilfinningar um þessar mundir. Það þýðir þó ekki það að ríkisstjórnin megi draga að henda út misheppnuðum og skaðlegum úrræðum hreinræktuðu vinstristjórnarinnar, hvar sem eimir eftir af þeim. Stjórnar sem allt sveik og gekk fyrir sundurlyndi í eigin ranni, eins og Össur hefur upplýst og annars staðar, eins og allir gátu séð.

Óvissan erlendis eykur kröfuna á hendur okkur sjálfum um að draga ekki að búa enn frekar í haginn. Hún gerir óhjákvæmilegt að ekki dragist stundinni lengur að breyta um kúrs, svo Ísland eigi hægara með að standa af sér annan alþjóðlegan afturkipp í efnahagslífi heimsins, sem ekki er hægt að útiloka að geti verið skammt undan. Verði slíkum samdrætti í alþjóðlegum efnahagsbúskap á hinn bóginn forðað, munu okkar tímabæru aðgerðir skapa skilyrði fyrir heilbrigðum uppgangi og bjartri framtíð. Það bíða margir eftir slíkum skilyrðum og eru orðnir óþreyjufullir. "

Það er ekki beinlínis víst í huga bréfritarans að bjartari tíð blasi við í efnhagsmálum heimsins. Miklu fremur eru boðar greinilegir framundan. "Dáinn er dvergur, flúin hamratröll ,hnípin þjóð í vanda."

Markaðir erlendis eru á jafnvel niðurleið fyrir íslenskar afurðir og samkeppni vex á mörkuðum m.a. með eflingu í sölu á eldislaxi Norðmanna í Evrópu í samkeppni við þorskinn okkar. En lax er á boðstólum í fimm búðum á móti hverri einni sem selur þorsk eins og fram kom hjá Þorstein Má á Sprengisandi í dag.

Reykjavíkurbréf dagsins lýsir því ágæta vel hvernig fortíðin lítur út þegar rykið hefur nú sest nokkuð.

En það er varla hægt að segja að framtíðarsýnin sé sérlega björt. 

 


Framtíð flugvallarins

í Vatnsmýri er jafn óviss sem nokkru sinni áður.

Horfurnar fyrir framtíð hans breyttust ekkert við prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þáttökuleysi bendir ekki til þess að Reykvíkingar hafi teljandi trú á því að sá flokkur muni miklu breyta í málefnum borgarinnar í næstu kosningum.

Reykjavíkurflugvallar bíður því líklega framhald hins hægfara dauðastríðs sem hann hefur þurft að þreyja mörg undanfarin ár, nema fram komi einhver ný pólitísk öfl sem því geti breytt. Fyrir liggur nýtt Aðalskipulag sem gerir ráð  fyrir lokun vallarins. Ekkert bendir til annars en að framkvæmd þess haldi áfram.  Það sé því aðeins tímaspursmál hvenær völlurinn fari.

Engin uppbygging verður því eða endurnýjun á Reykjavíkurflugvelli næstu ár. Almannaflug og kennsluflug mun hverfa þaðan samkvæmt loforði innanríkisráðherra þó enginn viti enn hvert eða hvenær. Enda er almannaflug aðeins svipur hjá sjón frá því sem áður var.

Það er ekki hljómgrunnur fyrir því meðal borgarbúa að byggja upp Reykjavíkurflugvöll með aukinni starfsemi og aukningar umferðar vegna viðburða svo sem  ráðstefnuhalds og þinga til dæmis í Hörpunni eða skjótara millilandaflug.  Því miður stefnir ekki í slíkt. 

Úrslit prófkjörs Sjalfstæðismanna eru hvergi nærri bindandi fyrir framboðslista vegna þáttökuleysis.Þegar eru umræður hafnar um uppstillingu eða breytingar á listanum sem út kom. Ekki myndi ég persónulega telja líklegt að einhver þröngur hópur flokksmanna geti stokkað framboðsspil eitthvað betur en þau tæplega 5 þúsund gildu atkvæði gerðu. Slíkt myndi hugsanlega kveikja meiri deilur en það myndi sætta.

Það blæs ekki byrlega fyrir Sjálfstæðisflokknum um þessar mundir í þeirri viðleitni að endurheimta fyrri styrk í Reykjavík eða á landsvísu.  Má vera að tímarnir séu að breytast meira en við gerum okkur daglega grein fyrir. Fólk hugsi bara öðruvísi  en það gerði.

Tilkoma Jóns Gnarrs voru merkileg tímamót í stjórnmálasögunni. Það kann að þýða það að fólk hefur ekki sömu trú og það hafði á því að einstakir stjórnmálamen snerti þess hag svo nokkru nemi. Því sé bara miklu meira  að standa á sama en áður var og það segi við sjálft sig að þetta fari bara einhvernveginn, sama  hverjir sem bjóða sig fram til starfa og í hvaða röð.

Menn geta velt því fyrir sér hvort horfurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn geti komið einhverju verulega meiru til leiðar eða skapað einhverja hrifningarvakningu ef hann setti Hildi Sverrisdóttur í efsta sætið, Halldór í annað, Þorbjörgu í þriðja, Júlíus í fjórða Áslaugu í fimmta, Kjartan í sjötta, Láru í sjöunda og svo framvegis. Myndi unga fólkið flykkjast á kjörstaði vegna bernsku Hildar, reynslu Halldórs og Evrópuhugsjóna, fyrirmennsku og ríkidæmis Þorbjargar, glæsileika Áslaugar Maríu og vinsælda Kjartans ? Tæknilega er þetta hægt.

En myndi það breyta einhverju fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Það myndi áreiðanlega ekki breyta neinu fyrir flugvöllinn. Framtíð hans yrði ekki í minni óvissu en áður.  


Að verða úti á Sprengisandi

virðast geta orðið pólitísk örlög Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Þessi Samfylkingarkona hefur það ráð undir hverju rifi að ganga í Evrópusambandið. Hún sér enga framtíð fyrir Ísland aðra en að ganga þar inn og taka upp evru. Síðar talar hún fyrir launahækkunum sem bráðnauðsynlegum til handa íslenskum almenningi.

Hvernig framtíð Íslendinga verði spyr þessi kona sig. Án Evrópusambandsins er þessi framtíð henni óþægileg. Gjaldmiðill okkar er ekki til frambúðar segir hún og Sigurjón segir það einnig að svo sé því augljóst sé að vextir séu hér miklu hærri en erlendis.

Líklega finnst mörgum þetta engin ný tíðindi. Fyrir hrun máttu allir taka hér erlend lán með lægri vöxtum. Nú má það ekki lengur. Eftir stendur að Íslendingar eru sífellt að tala um vaxtaprósentur á erlenda gjaldmiðla og bera saman við vexti á verðbólgukrónum á Íslandi. Hverja er verið að reyna að blekkja? Ef verðbólga er hér meiri að meðaltali en í evrulandi þá verða hér vextir hærri.  

Hvaða framtíð í Evrópusambandinu er Sigríður Ingibjörg að tala um fyrir Íslendinga? Er það veruleiki Þjóðverja. Eða yrði staða okkar líkari stöðu minni ríkja eins og Grikkja eða Spánverja? Mun Evran duga okkur til að lækka hér kaup hjá völdum stéttum þegar markaðsaðstæður breytast? Hafa Íslendingar þá hæfileika til jafns við Þjóðverja til dæmis? Ég er nokkuð efins í því máli.

Við sáum á Davíðstímanum að okkar hagvöxtur er í öðrum fasa en hagvöxtur í Evrópu. Markaðsaðstæður hafa mun meiri áhrif hér á landi en í iðnríkjum.  Bandarísk áhrif geta haft meiri áhrif hér en fyrir austan okkur. Við eigum mun meiri auðlindir af náttúrunni hlutfallslega á hvern íbúa en íbúar í Evrópusambandinu. Með hagsýni gæti þetta skilað okkur inn í framtíð sem þyrfti ekki að vera sá Sprengisandur sem Sigríður Ingibjörg skiljanlega óttast að verða úti á.


Gulli góður í Kópavogi

í morgun. Þar stóð hann í tvo klukkutíma í ræðustól og kynnti tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar fyrir mannfjölda í Salnum í Kópavogi.

Gulli sýndi glærur yfir þau svið rikisreikningsins sem hópurinn hafði tekið fyrir. Andstæðingarnir hafa reynt að gera þessa vinnu tortyggilega á hinn spaugilegasta hátt sem fundarmenn hlógu dátt að þegar Gulli rakti  röksemdirnar lið fyrir lið.

Það setti bókstaflega hroll að undirrituðum þegar hann gerði sér ljóst hverskonar óskapnaðar kerfi við Íslendingar erum búnir að koma okkur upp. Hvílk kynstur af nefndum, ráðum, umboðsmönnum, apparötum og eftirliti til að fylgjast með öllu hinu eftirlitinu sem stendur sig ekki, rannsóknarnefndum, skýrslum og úttektum. Undirritaður spurði sjálfan sig að því, hvort einhversstaðar væri land sem hann gæti flutt til og flúið alla þessa upppsöfnuðu heimsku. Þetta væri þvílíkt net að það væri á einskis manns færi að greiða úr möskvunum.

En Gulli ætlar bersýnilega ekki að láta deigann síga heldur skera á flækjurnar. Hann  lagði áherslu á að Íslendingar ættu engra kosta völ annað en ganga í verkið og laga málin. Annars blasti bara gjaldþrot við. Síðasta ríkisstjórn jók skuldirnar svakalega og fjárlagahallinn er slíkur að ekki verður við búið lengur.  Hann verður kannski 1-2 % á þessu ári og hefur stundum verið mun meiri árin þar á undan. Gulli sagði að við yrðum að skila 3 % afgangi á ríkissjóði bara til þess að hætta skuldasöfnuninni. Við yrðum að skila  5 % afgangi ef við ætluðum okkur að borga einhverntíman niður skuldir.

Fundurinn var hinn fjörugasti og Gulli stóð sig afburðavel. Það er skömm að því hvað Gulli hefur verið rægður mikið fyrir þær sakir að hann var bara duglegri en aðrir að safna í kosningasjóði í góðærinu. Hann er góður drengur og duglegur og það á að nota hans góðu gáfur og krafta úr því að hann nennir þessu. 

Ég fór út með hrollinn. En  þó með einhverja vonarglætu um að þeir ungu menn sem nú eru með áhrif, eins og Gulli,Ásmundur, Sigmundur og Bjarni geri eitthvað í þessari vitleysu allri saman.

Fólkið er að vísu orðið óþreyjufulllt og langeygt eftir því að eitthvað verði gert sem bragð væri að. Það væri til dæmis talað mikið um vanda Íbúðalánasjóðs. Fram kom að hann væri búinn að fá 40 milljarða og vantaði 70 í viðbót. Verðum við ekki að spyrja okkur hvaða náttúrulögmál  það sé að sjóðurinn eigi að veita öllum allt að 80-90% lán?  

Þegar ég byggði fyrst var hlutfallið um 30 % af verði íbúðarinnar. Nú eru hámarkslán að vísu orðin 20 milljónir og duga fyrir 50% af algengri íbúðarstærð. En hlutfallið fer minnkandi í húsnæðisbólunni sem lífeyrissjóðirnir taka þátt í að blása upp. Það blasir við að í óefni stefnir í húsnæðismálum ungs fólks. Þesssvegna þarf að lækka húsnæðisverð en ekki hækka það með dellumaki frá Mannvirkjastofnun sem er búið að valda 20 % verðhækkun það sem af er. Smáíbúðahverfið ætti að njóta meiri athygli en Fossvogurinn.

Það er greinilega þvílík vitleysa og ofmönnun í öllu stjórnkerfinu, skólakerfinu og fjármálakerfinu að það verður að taka á þessu. Það eru til dæmis um pí-sinnum fleiri bankastarfsmenn á 1000 íbúa á Íslandi en í USA. Útibúafjöldi er líka pí sinnum fleiri á sama skala. Það er sam hvert er litið, það fer allt pí-sinnum fram úr áætlunum kerfisins. Svo gefur Steingrímur J. út bók og reynir að koma því inn hjá fólki að hann hafi bjargað þjóðinni og verið svo upptekinn að hann gleymdi að éta! Eiga menn ekki frekar að hugsa um allan þann hrylling sem þessi maður skilur eftir sig í fjármálum og varð þó minni en hann ætlaði þar sem þjóðin tók af honum ráðin í tvígang.

Vonandi gera þessi ungu menn eitthvað í þessu. Það eru til leiðir ef viljinn er fyrir hendi. Til dæmis að taka staðgreiðslu strax af öllum lífeyrisiðgjöldum og borga skuldir ríkissjóðs með því. Er það ekki alveg eins gott eins og borga 100 milljarða í vexti vegna þess að einhverjir menn útí bæ sem ég kaus ekki og hef aldrei séð eru að kaupa sig inn í öll fyrirtæki landsmanna og kaupa upp Bernhöftstorfur út um allt land fyrir lífeyrisiðgjöld landsmanna? Þetta er bara bí bí vitlaust að mér finnst.

En það er eins og það megi ekki einu sinni ræða það að breyta neinu án þess að kratar og kommar verði vitlausir og telji allt ómögulegt.   Gulli sagði frá því að sú setning sem hann hefði oftast heyrt þegar hann var ráðherra hefði verið: "En þetta er ekki hægt!" Hann sagðist aldrei hafa heyrt þetta og bara látið gera það sem hann hélt að væri rétt.

Möppudýrin munu leggjast þversum allstaðar sem þeir geta og segja að þetta eða hitt sé ekki hægt. Þeir mega bara ekki fá að ráða heldur Gulli sem er góður fyrir okkur og við eigum að styðja og styrkja til góðra verka. 

 

 

 


Hvað mega Vestmannaeyingar segja?

 

 

 

vestm
Keli vinur minn benti mér á það hvað flugvöllurinn í Vestmannaeyjum þrengir að byggðinni þar.
 
Þarf ekki að skipuleggja hann burt? Til dæmi til Þorlákshafnar? 
 
Keli segir svo:"Ef rétt er að þetta hafi ekki verið erlent hernaðarmannvirki, hvern á þá

að draga ábyrgðar vegna þessa "skelfilega skipulagsslyss" sem enginn

MENNTAÐUR skipulagsfræðingur með snefil af sjáfsvirðingu gæti samþykkt?

 

EN... vel á minnst...

Við hin búum líka á EYJU og í samfélagi sem byggir tilveru sína

á flugsamgöngum! 
 
 
Mér finnt bara nokkuð til í þessu hjá Kela. 

Hagræðingarhópurinn

hefur nú skilað tillögum sínum og hefur Ásmundur Einar Daðason verið skipaður aðstoðarmaður forsætisráðherra í því framhaldi. Guðlaugur Þór var varaformaður hópsins. Hann er með kynningu á dag í Salnum í Kópavogi kl.10:00 og eru allir velkomnir.

Styrmir Gunnarsson skrifar ágæta vel um ráðningu Ásmundar í Mbl. í dag. Hann gerir ekki lítið úr þeim fjandskap og viðspyrnu sem möppudýrin í ráðuneytunum munu veita og munu fleiri geta ímyndað sér við hvílíkar forynjur verður að eiga.

Styrmir segir m.a.:

..."Þingmaðurinn ungi hefur nú fengið mikið tækifæri og hann þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Hann mun standa frammi fyrir óvígum her andlitslausra huldumanna, sem reyna að bregða fyrir hann fæti við hvert fótmál. Hann getur sigrast á þeim með öflugum bakstuðningi hins almenna borgara. En til þess að fá þann stuðning þarf hann að sýna árangur í verki á mjög skömmum tíma. Það þurfa ekki allt að vera stórar ákvarðanir. Þær geta verið smáar í byrjun, svo fremi þær vísi veginn.

Það er hægt að framkvæma byltingar með ýmsum hætti. Það sem átti mestan þátt í að stjórnmálamenn í Evrópu fóru að losa um tengsl sín við fjármálafyrirtækin og taka undir þau sjónarmið almennings, að þeir sem gerðu mistökin ættu að standa eftir með afleiðingarnar sjálfir voru annars vegar úrslit kosninga.....

..... Rökin fyrir því að opinbera kerfið á Íslandi sé orðið ofhlaðið blasa við en þeim, sem vilja sjá frekari rök er bent á að lesa skýrslu McKinsey um Ísland sem kom út fyrir ári. Í svona málum eru alltaf einhverjar sjálfsblekkingar á ferð. Sú sem skýtur upp kollinum hér og þar í þessum umræðum er sú, að það sé hægt að koma fram kerfisbreytingum án þess að fækka fólki. Það er ekki hægt og mikilvægt að þjóðin horfist í augu við það.

 

En það er mikilvægt í þessu samhengi að minna á að grundvallarbreytingar þurfa að fara fram víðar en í opinbera kerfinu. Hið sama þarf að gerast í bönkum og í verzlun og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega eins og McKinsey bendir réttilega á. Einkageirinn þarf ekki síður að taka til hendi. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hefur minnt þá á það...."

 

Bjarni Benediktsson þarf að búa við það að upplýsingafulltrúi ráðuneytis hans sé kommi sem situr þar sem fastast eftir að Steingrímur J. réði hana þangað. Þetta hlýtur að vera óviðunandi.

 

Þannig er um allt stjórkerfið morandi í kommum og krötum sem vinstri stjórnin stráði þangað inn og eru stofanirnar á vegum Umhverfisráðuneytisins ekki einstakar í því efni. Þetta er gersamlega óþolandi. Það er réttur nýrrar stjórnar að hreinsa kerfið út af fólki sem fyrri valdhafar settu inn. Það er ekki hægt að hafa pólitíska andstæðinga og þá mögulega skemmdarverkamenn sér við hlið í vandasömum störfum. Gæti nokkur forstjóri starfað með starfsmann samkeppnisfyrirtækisins sér við hlið sem nánasta aðstoðarmann?

 

Fyrsta skrefið er því að hagræða því fólki  út  sem fyrri ríkisstjórn tróð pólitískt inn í stjórnkerfið. 



 

 


Hvernig í veröldinni?

er hægt að setja niður 3000 manna byggð ofan í þá 750 manna byggð  sem nú er  við Skerjafjörðinn án þess að tala við þá einu sinni? Eiga allir að keyra Suðurgötuna frá Kvosinni þar sem þeir munu væntanlega vinna?

Þeir íbúar sem í Skerjafirðinum búa vilja greinilega miklu frekar hafa flugvöllinn en nýja byggð á flugbrautunum. Og þeim mun ákveðnari eru þeir sem þeir hafa búið þar lengur.

Þetta finnst þeim Þorbjörgu Helgu, Jóni Gnarr, Degi B. Eggertssyni, Hildi Sverrisdóttur, Áslaugu Maríu Friðriksdóttur og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur ekkert mál. Það komi íbúunum ekkert við frekar en íbúum við Hofsvallagötu koma fuglahús við. Þeir geti bara kvartað við embættismenn borgarinnar en látið borgafulltrúana í friði með þess kyns röfl.   

Við getum ekkert gert með því að hætta að kjósa Jón Gnarr því hann er hættur. Við getum bara sleppt því að kjósa hina talsmenn hins nýja Aðalskipulags.

Á morgun er færi til að láta skoðun sína á Aðalskipulaginu í ljós með því að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Kjósum alla þá sem eru ekki Flugvallarvinir frá.  Hvernig í veröldinni er hægt að treysta þeim fyrir öðrum málum sem ekki skilja grundvallaratriði í borgarmálefnum eða til hvers borgir eru?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 3418189

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband