Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Jón Steinar Gunnlaugsson

var stórskemmtilegur á fjölmennum fundi Sjálfstæðismanna í Kópavogi nú fyrir hádegi. Athugasemdir Jóns Steinars um dómskerfið á Íslandi hafa vakið þjóðarathygli.

Hann segir berum orðum að vinnuálagið á Hæstarétti sem með þeim ódæmum að hljóti eitt og sér að leiða til verri niðurstöðu þó ekkert annað kæmi til. Jón sagði margar sögu sem dæmi um brotalamir úr kerfinu frá  lögmanns-og dómaratíð sinni sem spannar bráðum mannsaldur.Nú er Jón Steinar snúinn aftur í lögmennskuna með syni sínum. Ekki þarf að efa að þar muni þurfa númerakerfi í afgreiðslunni slík sem frægð Jóns er orðin í lögheimum.

Jón segist snemma orðið var við þá réttlætiskennd í brjósti sér sem hefur fylgt honum alla tíð. Ef maður gerir rétt og það sem maður er sannfærður um að sé rétt þá verður allt annað í lagi.Hann fór yfir æsku sína og uppvaxtarár, náms og háskólaár og svo veru sína í lögmennskunni og svo í dómarastörfum. En Jóni eru ofarlega í huga réttarheimildir þegar að dómum kemur. Að dæma eftir lögum sé sú eina skylda dómara og því sé aðeins ein niðurstaða rétt í dómsmálum en ekki álitamál.Jón taldi að aðeins reyndir málflytjendur ættu að verða dómarar þar sem þeir hefðu talað við fólk og séð sorgir þess. Háskólaprófessorar töluðu bara við lagastúdenta og ungir héraðsdómarar töluðu bara við lögmenn. Málflytjandinn væri í snertingu við lífið sjálft sem mótaði hann á annan hátt.

Hann sagði að sér fyndist vanta millidómsstig í dómskerfið á Íslandi. Sín tillaga væri að núverandi Hæstiréttur yrði gerður að millidómsstól í heilu lagi en raunverulegur Hæstiréttur stofnaður fyrir ofan hann þar sem ráðherrar hverju sinni skipuðu dómara eftir yfirheyrslur fyrir nefnd Alþingis í beinni útsendingu þar sem þekking kandídata yrði könnuð svo allir sæju fyrir sig hvernig þeir stæðu sig.  Það mátti heyra saumnálar detta undir lestri Jóns Steinars sem stóð yfir í meira en klukkustund.

Umræðurnar og fyrirspurnirnar urðu fjölmargar, Jón svaraði  öllu hnitmiðað og oft hnyttið þanngi að allur salurinn klappaði. Varð að slíta fundinum með úrskurði fundarstjóra ef átti að enda hann á tilsettum tíma því menn vildu óðfúsir halda áfram að spyrja Jón spjörunum úr.

Jón Steinar Gunnlaugsson var mikill gestur og góður í Kópavogi þennan kalda laugardagsmorgun.

 


Er útigangur á hrossum?

ennþá til sveita án þess að fleygt sé í þá?

Þegar maður fer um uppsveitir Árnessýslu þá sér maður víðast að hross standa í heyrúllu. Nema fyrir fyrir ofan Laugabakka undir Ingólfsfjalli sé ég hrossastóð sem ég hef engin merki séð að gefið hafi verið. Vomandi missýnist mér.

Þarf ekki að aðgæta hvernig sé háttað með fóðrun útigangshrossa í sveitum landsins þegar jarðbönn hafa verið svo lengi sem verið hefur?


"Um krosstré eik og epli"

er fyrirsögn Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins. Fyrir þá vinstri menn sem tilheyra þeim "engum" sem lesa Morgunblaðið og ætla að ganga í Evrópusmabandið finn ég mig knúinn að vekja athygli þeirra á bréfinu.Þar segir:

"Svo bregðast krosstré sem önnur tré« er haft á orði bili einhver eða eitthvað sem traustast þótti. Þá er gefið að í krosstrén fari einungis eðalviður og hann sé andstæðan hreina við fúaspýturnar, sem engan burð hafa.

 Svissneskt efnahagslíf hefur þótt vera þannig tré. Þegar að spýtnabrakið þyrlaðist um allt fyrir tæpum 8 árum haggaðist Sviss ekki.

Enda hafði flest í því landi gengið eins og úrvals klukkurnar, sem það er frægt fyrir. Sviss hafði staðið hlémegin við tvær heimsstyrjaldir og hinum, hvorum megin víglínunnar sem þeir stóðu það og það sinni, þótt gott að vita af túnbletti í virkisgarði mesta fjallgarðs álfunnar, þar sem fjármunir ættu öruggt skjól, jafnvel á mestu ólgutímum. Á þessu græddu báðir og ekki bara þeir heldur ekki síður Sviss.

Sviss var ekki spurult land í bankaviðskiptum og það taldi sér ekki koma við hvort fé væri vel eða illa fengið, enda er flókið að skera úr slíku með óyggjandi hætti. Það er fleira götótt en ostar, segja þeir í Sviss.

Margur einræðisherrann átti sinn sérstaka lífeyrissparnað í bankahvelfingum í luktum fylgsnum byggðum á sama grunni og hafði haldið uppi Alpafjöllunum, án þess að kikna.

Annars konar glæpaforingjar af öllum stærðum og gerðum áttu sín misstóru hólf á sama stað. Og það áttu líka heiðarlegir menn, héðan og þaðan, sem ekki voru endilega að plata skattstjórann sinn. Sumir þeirra hurfu úr heimi áður en þeir gátu vitjað sjóða sinna og vegna pukursins fóru reikningsnúmerin og leyniorðin iðulega með þeim í gröfina, hvort sem það voru steypuklumpar fyrir utan hafnarkjaftinn í New York, skrautlegir fjölskyldugrafreitir í Mónakó og Madrid eða lágt leiði í Fossvogi.

Svissneskir bankar voru því ekki einvörðungu fjármálastofanir heldur jafnframt eins konar munaðarleysingjahæli fyrir fé, sem hafði farið endanlega á mis við eiganda sinn. Það fé var því ekki án hirðis, eins og mun hafa verið til á Íslandi, ef marka má umræðu, sem þar fór fram og var ekki vitlausari en önnur.

Það er ekki svo lítil flís af stórbrotinni sögu, sem hvelfingarnar geyma, og ekki hefur mátt á milli sjá, hvort þær eða lyklapétrar þeirra, virðulegir og flinkir bankamenn, kunnu betur að varðveita leyndardóma. Það er helst á síðustu árum sem Bandaríkjunum, í krafti síns styrks og stöðu, sem sjálfskipuð alþjóðalögregla, þegar þeim þykir það eiga við, hefur tekist að reka fleyga hér og þar í þagnarmúrana.

Eftir sem áður hefur Sviss, sem fjármálamiðstöð, enn nokkra sérstöðu. Þar er stjórnarfar stöðugra en í nokkru öðru lýðræðisríki, ríkidæmi mikið og öflugur seðlabanki.

Þegar stjórnvöld í Bern og Seðlabanki Sviss tilkynntu, við upphaf evrukreppunnar, að þau myndu ekki leyfa vantrú á evrunni, með tilheyrandi flótta yfir í svissneska frankann, að hafa nema takmörkuð áhrif á gengi hans, var því trúað. Ekki einungis sem nýju neti, heldur fremur eins og nýjum reglum, sem Sankti Pétur hefði birt um opnunartíma Gullna hliðsins næstu5-10.000 árin.

En í vikunni dró Seðlabanki Sviss yfirlýsingu sína fyrirvaralaust til baka. Frankinn hækkaði um 30%. Kenningar peningafursta sem staðist höfðu í áratugi ef ekki aldir gufuðu upp. Jötungripið í fjármálaheiminum, límið óbilandi, hélt ekki.

Fjöldi gjaldmiðlakaupmanna er sagður kominn í þrot eða laskaður mjög. Stórar fúlgur hafa sveiflast handa á milli. Orðspor svissneska seðlabankans verður seint samt aftur, segja þeir sem best þekkja til. Markaðsbréf tóku miklar dýfur. En áfallið stóð þó skemur en ætla hefði mátt. Bréfin eru byrjuð að rétta dálítið úr kútnum aftur, þegar þetta er skrifað. Það er ekki hin venjulega ástæða: Þegar bréf taka mikla dýfu sjá áhættumenn kauptækifæri. Ástæðan fyrir batanum er önnur og þýðingarmeiri nú. Hún er sögð sú, að nú er að koma 22. janúar. Þá vona menn að Draghi seðlabankastjóri evrunnar standi loks við hálfkveðnar vísur upp í ótvíræð loforð að hann muni áður en illa fari ræsa prentvélar myntarinnar, svo um muni. Það er ekki rétt að segja að við þessa atburðarás séu bundnar vonir. Menn þykjast vissir í sinni sök. Þetta hljóti að gerast og þá muni peningar, sem koma hvergi frá, flæða í stríðum straumum um alla Evrópu til að kaupa pappíra sem eru lítils virði, en seljandinn þurfi samt engu að kvíða. Sem sagt heimatilbúin Himnaríkisparadísarsæla í boði hússins.

Þjóðverjar hafa hingað til ekki samþykkt að slík naglasúpa verði elduð í þeirra potti. En nú spá margir því að sú staðfesta sé við það að bresta.

Það er talið mjög fátítt að tvö af mestu eðaltrjám í hinum fágæta skógarlundi krosstrjáa bregðist með svo stuttu millibili. Það er hins vegar alvanalegt með önnur tré.

Seinna krosstréð sem virðist við það að bregðast er frú Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvorki meira né minna.

Það hafa allir þóst vita það lengi, að sullum bullum kokkamennska að hætti Marios Draghi sé eitur í beinum kanslarans og landa hennar flestra. En þrátt fyrir það og það, þótt sjálfur Stjórnarskrárdómstóll Þýskalands verði ekki skilinn öðruvísi en svo, að þýskum stjórnvöldum sé að stjórnarskrá með öllu óheimilt að standa að ákvörðunum sem knýja á í gegn um stjórn Seðlabanka evrunnar.

Allir vita nú, hvers vegna svissneska krosstréð, sem gert var úr sama eðalvið og krossbogi Williams Tells, brást í vikunni, svo brothljóðin heyrðust yfir Alpana þvera og endilanga, en hvorki bjöllukýr né bissnesmenn vildu trúa því sem þeir heyrðu. Krosstréð stóðst einfaldlega ekki lengur.

Þrýstingurinn var orðinn óbærilegur. Jafnvel fjárhirslur, sem búið var að moka í dag og nótt um aldir, gátu ekki andæft lengur.

En hvað ræður því, að veðbankar og braskarar hafa nú sannfærst um að hin máttuga Merkel sé að lenda í hinu sama og svissneski seðlabankinn?

Evruríkin eru í niðursveiflu, það blasir við öllum. Kreppan, sem hver »leiðtogafundurinn« af öðrum hefur sagt að væri búin, dýpkar sífellt. Hlutabréfamarkaðurinn, sem virtist vera að braggast aftur eftir svissneska áfallið, er ekki allur þar sem hann er séður. Hann hefur hlustað á loforð SE og Marios Draghis bankastjóra hans, sem sagði á miðju ári 2012 að bankinn myndi »gera það sem þyrfti« til að tryggja lok evrukreppunnar. Hvað eftir annað hefur Draghi sagt að hjálpræðið sem dygði væri nú rétt handan við hornið. En þegar svo er komið, að jafnvel þýski dráttarklárinn fer aðeins fetið, þegar hann á annað borð hreyfist, er ekkert handan við hornið lengur. Það verður ekki lengur komist hjá því að standa við stóru orðin. Markaðurinn er fyrir löngu búinn að »verðleggja« þessi loforð og færa þau inn í dálka sína, kredit-megin. Það er eitt af því fáa, sem eitthvað kveður að, sem færa hefur mátt þeim megin. Líði 22. janúar án þess að hljóð heyrist og síðan dynur frá prentvélunum, sem breyta skulu galtómi í gull, þá verður markaðurinn »að skila« þessum færslum til baka. Og hann á ekki fyrir þeim færslum. Og þá mun miklu meira fylgja í kjölfarið segir evrópska bankaelítan og það má í senn kenna ótta og ógnun í hreimnum.

Þremur dögum eftir hinn afdrifaríka 22. janúar eru svo grísku kosningarnar. Brussel bindur vonir við að með áróðursbarsmíðum og hótunum úr allri álfunni hafi tekist að hræða líftóruna úr grískum kjósendum, sem voru laskaðir fyrir. Þeir muni því áfram haltra hoknir undir oki AGS og ESB. Það er vel líklegt að svo kunni að fara.

En komi 22. janúar og fari hjá án þess að gulleggin gangi aftur af gervigæsinni í Frankfurt og ofan í körfur hinna gráðugu og mistæku, þá þarf naumast um að binda í Aþenu, segja hinir sérfróðu.

Angela Merkel eigi því ekki marga leiki í þeirri stöðu.

Kannski ekki neinn.

Hún sé sennilega fyrir löngu orðin skák og mát, þótt svo virðist sem svissneska skákklukkan sé enn að ganga á hana af heimsfrægri nákvæmni sinni.

»Who will tell her?« gæti Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, spurt á sinni ítölskuskotnu ensku.

»Perhaps Tell,« gætu þeir svarað úr seðlabankanum í Bern.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Matteo vinnur úr því svari."

Því er haldið fram að stór hluti Sjálfstæðisflokkssin vilji ganga í Evrópusmabandið. Enginn virðist nenna því að reyna að telja þá saman sem flykkjast til funda við Benedikt. Ég man vel handauppréttingarnar á Landsfundinum fræga þar sem þetta mál var afgreitt. Miklu minna en 5 % Landsfundar voru í Evrópuhópnum sem ætlaða að stela fundinum á lævísan hátt.

Svo hlustar mður á tvo hagfræðinga í Útvarpi og annan þeirra doktor halda því fram að víð Íslendingar séum að loka á Evrópusmabandið með því að hætta viðræðunum þegar hið sanna er að Evrópusambandið sleit þeim á ómerkingina frá Íslandi sem höfðu ekkert sjávarútvegsumboð og sagðist ekki geta sýnt á spil sín við þær aðstæður.

Það eru því engar aðildarviðræður í gangi af hálfu viðsemjandans. En við höfum engan Vilhjálm Tell til að skjóta eplið af hausum hinna trúuðu. Það eru allir svo hræddir við að skotið fari framhjá. Óviljandi eða viljandi. Þessvegna bara látum við frekar dumma.

 


Lífseig lygin

um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til viðræðuslita við ESB. Í Fréttablaðinu er fagnað úrsögn Baldurs Dýrfjörðs úr Utanríkismálanefnd vegna svika um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landsfundarsamþykkt á sama fundi og úrsagnarmaðurinn Dýrfjörð var kosinn hljóðaði þannig:

"Ályktað er að aðildaviðræðum skuli hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."

Nú bregður að vísu svo svo við að á vefnum www.XD.is var þessi klausa:

"Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram."

Ég hef vakið athygli á þessari misfellu en án árangurs.Landsfundarályktun er sú sem gildir. Hafi einhver forystumaður látið skilja sig öðruvísi er það hans prívatmál en ekki vandamál flokksins.

Landsfundarályktun segir hátt og skýrt:

"Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."

Þó að Fréttablaðið haldi áfram með þessa lífseigu lygi þá breytir það engu um hver stefna flokksins sé hvað sem Baldri Dýrfjörð kann að finnast.

 


Schengen-Syndrome-Heilkennið

sem þjáir nú orðið frekar fáa íslenska ráðamenn hefur um all-langt skeið verið öryggismálum Íslands fjötur um fót.

Nú skrifar Björn Bjarnason  enn um þá fullyrðingu að við værum útilokaðir frá öllum viðskiptum við alþjóðalögreglu og gagnagrunna um hverskyns reyfara ef við værum ekki í þessu samstarfi. Hann hefur lengi haldið þesu fram án þess að kannað hafi verið hvort þetta sé endilega svona alvarlegt.  

Björn skrifar núna svo á wwww.bjorn.is:

" Í dag lýsti ég á Evrópuvaktinni undrun minni á umræðunum um utanríkismál í landinu um þessar mundir eða skort á þeim og má lesa það hér. 

Eins og sjá má á textanum botna ég ekkert í þeim sem halda í þá skoðun að aðildin að Schengen sé undirrót þess vanda sem að steðjar hér og veldur ótta margra við útlendinga. Þessi skoðun er einföldun á flóknu viðfangsefni sem verður ekki auðveldara viðfangs með úrsögn úr Schengen.

Ítarlega var kannað hvort aðild að Schengen bryti í bága við stjórnarskrána og var það álit sérfróðra manna að svo væri ekki. Íslendingar ættu ekki aðild að Europol, Evrópulögreglunni, væru þeir ekki í Schengen-samstarfinu, ekki heldur að Eurojust eða öðru slíku samstarfi, þeir hefðu ekki heldur aðgang að gagnagrunnum Schengen-ríkjanna. Segi menn rangt til nafns eða gefi upp rangan fæðingardag við skráningu í flug eða nota fölsuð skilríki gildir hið sama hvort sem ríki eru utan eða innan Schengen að þeir geta villt á sér heimildir. Það fer eftir árvekni við eftirlit hvort mönnum tekst að svindla - eftirlit er unnt að stórauka í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að sjálfsögðu var það pólitísk ákvörðun að ganga í Schengen og það er einnig pólitísk ákvörðun að slíta samstarfinu. Er einhver stjórnmálaflokkur með það á stefnuskrá sinni."

Hér hátt til höggs reitt og margt af því sem Björn segir get ég að minnsta kosti ekki tekið sem algildum rökum.

Ég get varla ímyndað mér að breska konungsríkið geti verið án þeirra upplýsinga og samstarfs sem Björn telur okkur sjálfkrafa missa gengjum við úr EES og Schengen samstarfinu. En þær úrsagnir þurfa þó víst ekki einu sinni að fylgjast að.

Konungsríkið Bretland á sín landamæri að sjó eins og Íslendingar. Náttúrleg landamæri og notfærir sérþað. Væri það ekki beinlínis á móti hagsmunum Btelands og yfirvalda annarsstaðar ef ekkert samstarf væri þarna á milli?

Af hverju komast menn upp með það að segja "rangt til nafns og gefa upp rangan fæðingardag við skráningu í íslensk flug eða nota fölsuð skilríki?" Það er aðeins mögulegt vegna þess að Ísland er í Schengen. Annars væri hér vegabréfaskylda og til dæmis kæmu færri hælisleitendur hingað á þann hátt sem þeir koma núna og myndu ekki verða hér innlyksa árum saman eins og nú er. Hversvegna erum við að búa þetta vandamál til? Er ekki opið fyrir flesta að geta komið hingað pappíralausir og eftirlitslaust? Hvað með líkstungumanninn Kaunas sem var í endurkomubanni?

Björn segir enn:

"Hér á landi er lögreglu heimilt að greina allar farþegaskrár og í því felst virkari landamæravarsla en að skoða vegabréf í lansamærahliði. Þetta er mikilvægt greiningarstarf sem skilar árangri í baráttu við skipulagða glæpahópa og hryðjuverkamenn. Hafa ber í huga að um 98% þeirra sem koma til landsins fara um Keflavíkurflugvöll og flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að haldið sé uppi virku eftirlits- og greiningarstarfi þar skiptir sköpum í öryggisgæslu lögreglu."

Mér er fyrirmunað að skilja síðari röksemdafærslu Björns. Það er eins og hann gangi út frá því að við Íslendingar getum ekki greint vegabréf í Leifsstöð og borið þau undir gagnagrunna  því að Interpol muni hafa lokað á okkur af því að við hættum í Schengen? Finnst einhverjum þetta trúlegt sem hefur farið í gegn um landamæraeftirlit í Bandaríkjunum? Er það trúlegt að Bandaríkjamönnum séu meinaður aðgangur að evrópskum glæpa-og hryðjuverkaskrám af því að þeir eru ekki í Schengen?  Væri slíkt í þágu hagsmuna heildarinnar og baráttunnar gegn hryðjuverkum?

Af hverju fæst Schengen aðildin ekki rædd á vettvangi stjórnmálanna? Meirihluti þjóðarinnar vill ganga úr þessu samstarfi ef marka má skoðanakannir.Meirhluti þjóðarinnar vill hert eftirlit í Leifsstöð. Lögreglan telur þörf á breytingum.

Hvernig er hægt þjást endalaust af þessu Schengen-Syndrome-Heilkenni án þess að málið sé að minnsta kosti skoðað í alvöru?

 


Gróðurhúsagaldurinn

hefur tröllriðið heiminum í áratugi. Hafa snjöllum plötuslögurum eins og Al Gore tekist að sanka að sjálfum sér óhemju auðæfum í krafti firringarinnar. Skólabróðir minn dr.Baldur Elíasson hafði starf við að dæla CO2 ofan í hafið á vegum Brown Bowery.Allskyns ráðstafanir vegna lækkunar á CO2 eru gerðar sem eiga flestar bara eitt sameiginlegt og það er að myrða skattfé almennings. Algerlega ósannað er að jörðin sé að hitna af mannavöldum. ég vísa á skrif Ágústar H. Bjarnason verkfræðings og frænda míns i áratugi um þetta mál. wwww.agbjarn.blog.is

Í dag skrifar Pétur Guðvarðsson ágæta grein í Mbl.Hann ræðir þetta mál af yfirvegun:

"Allt talið um gróðurhúsaáhrif og þar með loftslagsbreytingar af mannavöldum byggist á kennisetningu nokkurri, sem soðin var saman á ráðstefnu í útlöndum, gott ef ekki á vegum loftslagsnefndar SÞ. Kennisetning þessi hljóðar svo í nafni Páls Bergþórssonar veðurfræðings, sem var meðal þeirra fyrstu, sem kynntu þessa kenningu á Íslandi:

 

»Talið er að snefilefni í andrúmslofti geti hugsanlega hindrað hitaútgeislun jarðarinnar, sem myndi þá orsaka uppsöfnun hita = hlýnandi veðurfar.« Þetta er auðsjáanlega ekki nein vísindaleg niðurstaða þó að þeir, sem halda þessu fram í nafni vísindanna séu titlaðir vísindamenn. Það er auðséð af orðalagi þessarar kenningar að menn vita ekki hvort þetta er rétt heldur eru menn að geta sér til »talið hugsanlegt«. Enda hafa ekki fundist neinar sannanir þrátt fyrir áratuga »rannsóknir«. Þegar bent er á þetta er svarið oftast að það séu svo sterkar vísbendingar um að kenningin sé rétt að það þurfi varla að sanna málið frekar. En vísbendingar eru túlkunaratriði. Menn geta tekið hvaða fyrirbæri sem vera skal og túlkað það sem vísbendingu um að það gerist sem viðkomandi óttast eða vill forðast. Túlkun er alltaf persónuleg og ekki eru það vísindaleg vinnubrögð að blanda persónulegum skoðunum saman við vísindalegt starf enda verður starfið þá óvísindalegt. En það er einmitt megin hlutverk vísindanna að sanna, sanna hvað er rétt og hvað er fordómar eða hindurvitni eða einfaldlega tilbúningur!

 

Vísindalegar staðreyndir eru hinsvegar að jörðin kælist ekki með útgeislun hita. Kaldir hlutir eins og jörðin geta auðsjáanlega ekki sent frá sér hitageisla enda hefur geislun ekki áhrif á loftið yfirleitt. Sólargeislarnir hita ekki loftið sjálft, ef svo væri væri gufuhvolfið heitt en ekki ískalt eins og það er. Jafnvel geimurinn væri þá heitur! Sólin hitar fast efni og fljótandi, loftið hlýnar svo af snertingu við fast efni og fljótandi og þegar það hlýnar þenst það og léttist og kemst þannig á hreyfingu mest upp á við. Uppstreymi er hin eiginlega aðferð náttúrunnar til að halda jafnvægi í hitafarinu. Hlýja loftið stígur upp og kólnar eftir því sem hærra dregur því uppi yfir er fimbulkuldi. Og það gildir fyrir allar lofttegundir enda er andrúmsloftið blanda lofttegunda, köfnunarefni um 80% og súrefni um 20%, snefilefnin eru samtals minna en 0,1% af heildarloftmassanum.

 

Þegar hlýja loftið streymir upp þá hlýtur eitthvað að koma í staðinn, þá kemur kalda loftið niður úr háloftunum á þeim svæðum jarðarinnar þar sem ekkert uppstreymi er, þar sem jörðin er þakin ís eða snjó. Þetta er hin eilífa hringrás loftsins, sem felur í sér hringrás vatnsins, sem alkunn er.

 

Hér hefur verið sýnt fram á að kenningin um gróðurhúsaáhrif er algjör tilbúningur og því eru allir samningar um þessi efni og ímyndaðar afleiðingar þeirra ógildir enda gerðir á fölskum forsendum. Athyglisvert væri að leggja ágreining um framkvæmd slíkra samninga fyrir dómstólana, þá yrði að sanna forsendur þeirra.

 

Sama er um lög sem sett hafa verið á grundvelli umræddrar kenningar, þau hafa að sjálfsögðu engan grundvöll heldur og eru því gildislaus. Vilji yfirvöld setja lög á vísindalegum forsendum yfirleitt hlýtur það að vera fyrsta skilyrðið að þær forsendur séu þá sannaðar svo óyggjandi sé, annars má búast við að þær verði afsannaðar einhvern daginn. Og hvernig ætti þá að bæta það óhagræði og tjón sem slík löggjöf hefur valdið að óþörfu?

 

Ef hlýnandi veðurfar stafar af umframmagni af CO² í loftinu þá hlýtur það gagnstæða að gilda þegar veðurfar er kólnandi. Eitt mesta harðindatímabil sem komið hefur á Íslandi var á síðari helmingi nítjándu aldar. Árið 1863, í byrjun þessa harðindatímabils, var byrjað að mæla hitastig kerfisbundið í Stykkishólmi og er samanburður við þá mælingu notaður til að sýna þróun veðurfarsins á Íslandi síðan þá. (Það hlýtur að hafa vantað CO² í andrúmsloftið.) Svo hafa »vísindamenn « þungar áhyggjur af að harðindunum linni um sinn. Þó vita allir að veðurfar á jörðinni hefur sveiflast allt frá upphafi vega. Sveiflurnar hafa verið misjafnlega djúpar og misjafnlega langar og enga reglu hægt að finna í þeim efnum og svo verður áfram hvað sem menn »álíta« eða telja. Sama þótt »vísindamenn« reyni að telja saklausum almenningi trú um einhverja fjarstæðu.

 

Það er varla mikið að marka rannsókn þegar rannsakandinn er búinn að ákveða niðurstöðuna fyrirfram samkvæmt sinni persónulegu trú. Það væri álíka eins og að glæpamaðurinn ætti að rannsaka glæpinn og jafnvel fella dóm um hann líka."

Um nauðsyn þess að Kyotobókunin taki gildi hefur miklu táraflóði veri úthellt af íslenskum spekingum sem vita allt um gróðurhúsaáhrifin og hnattræna hlýnun.

Segir ekki lögmal hitafræðinnar að varmi geti ekki af sjálfsdáðum flutt sig af kaldari stað yfir á heitari? Er ekki beinlínis hressandi að lesa svona yfirvegaða grein eins og Pétur skrifar? Er ekki  búið að gala þennan gróðurhúsagaldur nógu lengi?


Nómenklatúran nærist

vel núna á ummælum Ásmundar Friðrikssonar.

Allir ráðast á hann fyrir kuteisislega uppástungu um að Islendngar kynni sér hverjir byggi þetta land og hverjir séu að koma hingað í stríðum straumum.Þetta má greinilega ekki ræða.

Björn Bjarnason telur sig þess umkominn að hrauna yfir þingmanninn. Það er samt Björn sem ber mikla ábyrgð á því að innflytjendur og hælisleitendur streyma hingað inn vegabréfalausir á grundvelli Schengen. Værum  við ekki í Schengen færi hér enginn inn án vegabréfs. Þá er hægt að kanna bakgrunn hvers og eins án þess að hafa fleiri orð um það. Sami Björn hafði skoðun á því að Hells-Angels í heild sinni væru hér óæskilegir ferðamenn.

Nauðsyn eftirlits sér auðvitað hver lögreglumaður fyrir sig. En ekki höfundar Schengenaðildarinnar sem opnuðu flóðgáttirnar. 

Og Nómenklatúran nærist á því að níða þingmanninn fyrir að hafa skoðun.

 


Er fegurðarsmekkur ráðandi?

í atvinnumálum?

Spurningar sem koma í hugann vegna höfnunar Bláskógabyggðar á uppsetningu vindmylla.

Er mönnum í sveitarstjórn stætt á því að hafna alfarið grænum, endurkræfum og sjálfbærum raforkuvirkjunum eins og vindmyllum á grundvelli þess að sumum kunna að finnast þær ljótar? 

Hvernig á að dæma hvað sé ljótt og hvað sé fallegt?

Ef 100 manns segja að þær séu ljótar en 90 segja að þær séu ekki svo ljótar, á þá að stoppa bygginguna?  

Hvað er ljótt? Er til einhver ríkisskilgreining á því?  Hvað ræður afstöðu sveitarstjórnarmanna í Bláskógabyggð? 

Er það smekkur þeirra sem fyrir tilviljun sitja núna í sveitarstjórn Bláskógabyggðar sem á að ráða? 

Á smekkur skipulagsfulltrúans í Bláskógabyggð sem þar situr núna að ráða? 

Hvervegna hefur hann aðra afstöðu eða réttari en skipulagsfulltrúinn í næstu sýslu þar sem vindmyllur hafa verið reistar?

Á fegurðarsmekkur að ráða umfram þjóðarhag?

Þjóðina vantar rafmagn. Hverjir eru þá einstakir sveitarstjórnarmenn að hindra þjóðina í því að vinna rafmagn? Í einkaframkvæmd? Á þann hátt sem er 100% endurkræfur að afskriftatíma liðnum?  Sem getur jafnvel verið minna en 25 ár?

Koma tímabundin stöðuleyfi ekki til greina eins og veitt er fyrir gámum og bráðabirgðamannvirkjum?

Eiga bara geðþóttaákvarðanir byggðar á fegurðarsmekk einstaklinga að ráða þegar taka á ákvarðanir sem varða þjóðarhag? 


Bara ekkert í Bláskógabyggð

 Hæg en stöðug aukning hefur verið í heildarraforkunotkun í landinu. Lítið bætist við framboðið því ekki er mikið virkjað. Orkukaupendur verða varir við að samkeppni er ekki mikil um að bjóða fram raforku og verðið fer hækkandi. Dæmi um það eru breytingar Landsvirkjunar á skilyrðum fyrir afhendingu á ótryggðri orku sem leiðir að óbreyttu til hækkunar á orkukostnaði fiskimjölsverksmiðjanna. Annað dæmi er minnkandi áhugi orkufyrirtækjanna á útboði Landsnets á orku til að mæta flutningstöpum á þessu ári. Aðeins tvö orkufyrirtæki buðu fram orku og þó ekki næga og verðið reyndist 23% hærra en á síðasta ári. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að verðhækkunin hljóti að sýna minni samkeppni, að samkeppni um söluna dragi verðið ekki lengur niður.

 Megnið af framboðinni orku kom frá Landsvirkjun, eitthvað frá Orkuveitu Reykjavíkur en HS Orka tók ekki þátt. Guðmundur segir að einhverjar aðstæður hafi verið að breytast á markaðnum.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir að gagnaver og annar iðnaður um allt land hafi verið að bæta við sig og almenn umsvif, svo sem í ferðaþjónustu, kalli á aukna raforkunotkun. Landsvirkjun hafi haft ákveðið svigrúm en nú sé að koma að þeim tímapunkti að raforkan verði uppseld.

Með samningum við kísilver hefur Landsvirkjun lokið við að selja þá orku sem hún átti fyrirliggjandi. Björgvin segir ekki hægt að fullyrða hvenær virkjuð orka í landinu verði uppseld en farið sé að styttast í það."

Við þessar aðstæður synjar Bláskógabyggð  undirrituðum um leyfi til að setja upp vindmyllu til raforkuvinnslu við virkjun Hitaveitu Bergstaða. Allir sjá hvernig raforka til lýsingar í gróðurhúsum fer saman við jarðhitavinnslu. Enda leggur bjarmann frá ylræktinni í Reykholti og Flúðum hátt til lofts. Á Kópsvatni er óhemju jarðvarmi fyrir hendi sem enn er ekki nýttur. 

Það er ekki eins og að verðið sé að fara fram á óendurkræfar framkvæmdir  sem spilla náttúru landsins eins og Hálslón og Kárahnjúkastífla. Vindmyllan er fest með hundrað boltum.Séu þeir teknir sést ekkert eftir. Allt horfið. Skipulagsnefnd Bláskógabyggðar leyfir sér að afgreiða þetta út af borðinu til margra ára án þess að reyna á sig.

Áður höfðu sömu yfirvöld bannað jarðeiganda á Skeiðum að setja upp vindmyllur á eigin landi.  Þær myllur hafa verið reistar í Þykkvabæ.  

Afturhaldið hjá byggingaryfirvöldum í Bláskógabyggð er ekki af þessari öld heldur hinni þegar Skeiðamenn riðu til Reykjavíkur að mótmæla símanum. Þrátt fyrir raforkuskort í landinu þá skal bara ekkert gert í Bláskógabyggð.


Skopmyndir eru ekki endilega fyndnar

þegar þær eiga að vera fyndnar á kostnað einhvers sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér.

Finnst fólki það vera fyndið ef ég geng á eftir fötluðum einstaklingi á Laugaveginum og geri hróp að honum vegna fötlunar hans og velji honum hin hraklegustu orð eða brandara? Ef ég veitist að vegfarendum með öskri og óhljóðum um hverslag fífl þeir séu, asnalegir í útliti eða klæðaburði? Eins og fullur og vígalegur  slagsmálafiskari á sveitaballi? Finndist einhverjum þetta vera bara fyndið? Er það fyndið að teikna klámmyndir af Jésú og postulununum og selja fyrir peninga? Er það bara fyndið að teikna skrípamyndir af Múhameð? 

Er þetta kannski frekar heimskulegt athæfi? Bæði það og svo siðlaust og ruddalegt? Finnst mér það kannski ruddaskapur að einhver segi mér að ég sé bæði lítill,ljótur, heimskur  og feitur? Allt saman bæði satt og rétt. En í hvaða tilgangi segir maðurinn mér þetta? Til að skemmta mér? Til að ég verði vondur og reyni að berja hann? Sem ég þori ekki af því að hann er stærri en ég? Hann eltir mig á Laugaveginum og lætur þetta klingja á mér sífellt og allir horfa á mig? Er þetta ekki skylt einelti sem þykir ekki fínt í skólunum?

Mér finnst fyndni margra ekki vera fyndni.Sérstaklega finnast mér vinstri menn oft vera lítið fyndnir en það er bara smekkur minn.  Mér finnst ljótt að hæðast að fötlun minni máttar.Ofsatrúarmenn finnast mér vera fatlaðir því þeir eru pikkfastir í eigin huga. Sumar skopmyndir finnast mér ekki fyndnar heldur bara heimskulegar og fyrir neðan velsæmi. Það eru meira að segja til lög gegn slíku.

Það er ljótt að skopast að minni máttar var mér og fleirum kennt í æsku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband