Leita í fréttum mbl.is

Nútíminn eða fortíðin

hlýtur að koma í hugann þegar maður sér mynd frá veiðum uppsjávarskipanna Breka og Baldvins Þorsteinssonar.

G.Tómas Gunnarsson veltir  þessu fyrir sér. hvernig tæknin hefur breytt öllu í sjávarútvegi Íslands.

Hann segir í sömu mund og Ögmundur Jónasson er að prédika gegn kvótakerfinu:

"Það er auðvelt að reikna út hvort að vænlegra er að fjárfesta í tækjabúnaði sem er í vinnslu 8 til 10 klukkustundir, 5 daga í viku í landi, eða 24 stundir, 7 daga vikunnar út á sjó.

Munurinn á nýtingu tækjanna er yfir 100 klukkustundir á viku eða meira en þreföld.

Það er m.a. munurinn á vinnslu í landi og á frystitogara.

Það er ekki síst fyrir tilstuðlan fyrirtækja, sem Íslendingar eru svo stoltir af, s.s. Marel, Skagans 3X o.s.frv. sem þessi þróun varð.

Vildu Íslendingar vera án þeirra?

Það eru svo framfarir í kæli- og flutningatækni sem hafa valdið því pendúllinn hefur sveiflast aftur til landvinnslu, með aukinni vinnslu alla leið í neytendapakkningar.

En það hefði ekkert nema "óendanlegur fiskur" komið í veg fyrir samþjöppun í útgerð á Íslandi.  Hugsanlega hefði "dauðastríð" einstakra útgerða orðið lengra og líklega sársaukafyllra ef kvótakerfisins hefði ekki notið við.

En það má ætla að ástand fiskistofna væri sömuleiðis mun verra.

En framsalinu var einmitt ætlað að stuðla að samþjöppun, sömuleiðis Úreldingarsjóði á meðan hans naut við.

Það var einfaldlega ekki til nægur fiskur fyrir alla útgerðarbæi á Íslandi. Svo er ekki enn og ólíklegt að verði nokkurn tíma.

En auðvitað er þarft að ræða sjávarútveg á Íslandi og hvað megi betur fara.

Hvað er rétta hámarkið í hvað varðar kvótahlutdeild? Á að bjóða upp aflaheimildir?  Ef svo, til hvað margra ára í senn? Á þá fyrst og fremst að selja hæstbjóðanda, eða eiga önnur lögmál að gilda?

Eiga "byggðasjónarmið" að vega þyngra en arðsemissjónarmið?

Ætti að vera skylda að hluti hverrar löndunar fari á markað, eða ætti allur afli að gera það?

Eða er núverandi fyrirkomulag býsna gott?

Það er full ástæða til að ræða fyrirkomulag fiskveiða í Íslensku lögsögunni, en látum ekki glepjast af "fortíðarþrunginni lýðskrums rómantík" um að hægt sé að hverfa aftur - til fortíðar."

Þjóðin fær ekki nóg í skatt af fiskinum í sjónum eins og var í fortíðinni á tímum reglubundinna gengisfellinganna. Útgerðin græðir of mikið segja þeir.

Má ekki breyta því í nútímanum án stjórnarbyltinga og fallaxa?


Lýræðisvitund Íslendings

birtist mér eftirminnilega í aðsendu bréfi:

"Trump var löglega kosinn þó demókrötum líki það ekki og hann hafi ekki fengið meirihluta atkvæða almennings. Og Khamenei var löglega kosinn þó þér líki það ekki. Khamenei, eins og Trump, er yfirmaður heraflans og undir fulltrúadeild. Og "Klerkastjórnin" er kosin í almennum kosningum hver 4 ár.

Trump og Khamenei og stjórnarfar Bandaríkjanna og Íraks eiga meira sameiginlegt en hvort heldur sem er við okkar stjórnarfar og kosningar æðstu manna okkar. Hvort Írakar hafi séð að þeir kæmust upp með ýmsan ósóma og pólitískt svínarí með því að kópera Bandarískt stjórnarfar læt ég ósagt."

Það eru virkilega til Íslendingar sem trúa á að í Íran ríki sambærilegt lýðræði á við Bandaríkin,þó svo að allir frambjóðendur verði fyrst að fá samþykki 12 manna ráðsins.

Skyldu þessir Íslendingar vilja hafa svona lýðræðisvitund hér á Íslandi?


Gunnar Smári Egilsson

sem sumir kenna við fjögurra-blaða Smára,hefur tilkynnt um framboðsundirbúning Sósíalistaflokks síns.

Gunnar þessi var fyrrum handgenginn Jón Ásgeiri og stórkapítalinu. bjó í Arnarnesinu með öðru stórmenni, en hefur nú söðlað um og er orðinn sannfærður sósíalisti með stjórnmálaflokk um sig.

Þetta er mjög sannfærandi framboð og líklegt til árangurs þar sem nokkuð tómarúm hefur myndast þar sem áður var Sjálfstæðisflokkurinn án þess að þeim flokki hafi tekist að koma sósíalismanum ómenguðum til skila í samkeppni  við V.G. sem hefur mjög slaknað í þeirri baráttu.

Það verðu spennandi að sjá hverskonar stjórnmálaminni kjósendur Gunnars Smára nýsósíalista hafa þegar kosið verður.


Forréttindablinda

er yfirskrift eftirfarandi greinar á Stundinni, sem nú bíður með öðrum kommatittaútgáfum í ofvæni eftir ríkisstyrk frá Lilju Alfreðs:

"Við undirritaðar skorum á borgarráð að hafna breytingum á opnunartíma leikskóla sem samþykktar hafa verið í skóla- og frístundaráði. Við gerum okkur grein fyrir að þjónustan mun hafa áhrif á lítinn hóp borgarbúa, en tölfræði getur verið hættuleg forsenda ákvarðanatöku.

Samkvæmt skýrslu starfshópsins eru 937 börn með dvalarsamning til kl. 17.00, u.þ.b. 18% allra leikskólabarna. Helmingur þeirra er að jafnaði sóttur fyrir kl. 16.30, en ekki er hægt að gera ráð fyrir að það séu alltaf sömu börnin. Ákvörðunin mun því hafa áhrif á þjónustu við 18% leikskólabarna. Ef við veltum fyrir okkur þessum tölfræðilegu forsendum, þá leikur okkur forvitni á að vita hvar mörkin liggja. Væri nóg að 30% barna væru með samning til 17.00? Helmingur? Hversu stór hópur þarf hópurinn að vera til að borgin veiti tiltekna þjónustu?

Í fjölmiðlum er haft eftir borgarfulltrúum meirihlutans að breytingarnar muni ekki hafa mikil áhrif og að leikskólastjórnendur telji að ekki sé um viðkvæmasta hópinn að ræða. Ekkert kemur þó fram í skýrslunni sjálfri sem bendir til þess að aðstæður fólksins hafi verið kannaðar, né heldur mögulegar afleiðingar ákvörðunarinnar á aðstæður þess.

Tölfræðilegar forsendur um að eitthvað sé að jafnaði einhvern veginn eru ekki góðs viti. Það er augljóst  að 937 fjölskyldur hljóta að vera talsvert fjölbreyttar og ástæðurnar fyrir lengd samningsins margvíslegar. Sú þekking sem skapast hefur innan félags- og kynjafræði hefur sýnt að þar sem ekki er tekið tillit til kvenna og jaðarsettra hópa við ákvarðanatöku, má gera ráð fyrir að þarfir þeirra og aðstæður gleymist eða verði undir. Ákvarðanir teknar af léttúð gagnvart þeim skyldum borgarfulltrúa að taka tillit til kvenna og jaðarsettra hópa eru líklegar til að stuðla að meira misrétti og meiri jaðarsetningu.

Í greinum okkar hafa komið fram ítrekaðar áhyggur af áhrifum breytinganna á stöðu kvenna, stöðu fátæks fólks og fólks með lítið stuðningsnet. Samtvinnuð jaðarsetningaráhrif eru líkleg til að koma fram, þar sem allra viðkvæmustu hópunum er ýtt enn frekar út á jaðarinn. Rökstuðningur sem byggir á samtali borgarfulltrúa við stjórnendur um ætluð líkindi án nokkurrar gagnaöflunar er því miður ekki traustvekjandi. Þvert á móti er hann til marks um forréttindablindu þar sem fólk í forréttindastöðu gefur sér að fólk sem ekki nýtur forréttinda hljóti að geta reddað sér.

Það er einlæg von okkar að borgarráð fari gaumgæfilega ofan í saumana á fyrirhuguðum breytingum, átti sig á þeim áhrifum sem þær geta haft á borgarbúa og finni aðrar leiðir til að létta álagi af börnum og leikskólastarfsfólki í Reykjavík.

Anna Ingeborg Pétursdóttir, Claudia Overesch, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Elísabet Ýr Atladóttir, Gunnur Vilborg, Hafdís Eyjólfsdóttir, Halldóra Jónasdóttir, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, Hildur Björk Pálsdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir, Margrét Inga Gísladóttir, María Lilja Þrastardóttir Kemp, Ósk Gunnlaugsdóttir, Sóley Tómasdóttir, Sunna Símonardóttir og Þóra Kristín Þórsdóttir

Stytting opnunartíma leikskólans segir Dagur B. að sé  til að minna streituna sem leikskólavist veldur hjá börnum og starfsfólki. Þá vita menn sannleikann um leikskólana séð með augum Samfylkingarinnar sem áður þakkaði sér allt félagslegt.

Annars var okkur bent á það sem búum á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarinnar, svo sem Kópavogi, Reykjanesbæ, Selfossi og Hveragerði, að við eigum að vinna að endurkjöri Dags B. sem Borgarstjóra. Þannig vinnum við okkar sveitarfélögum mest gagn í forréttindablindunni.

 


Trúður?

er það sem Khamenei kallar Trump.

Trump er ekkert ánægður með kjaftinn á keilunni.

Hvað voru þeir Hitler og Göbbels þegar þeir voru að flytja stríðsræður sínar í Sportpalast? Þóttust þeir ekki vera að tala í nafni þýzku þjóðarinnar? En gleymdu að geta þess að þeir voru bara ólýðræðislegir einræðisherrar sem stjórnuðu í krafti undanþágu frá stjórnarskránni.Í skjóli SS-sveitanna og Gestapo?

Hefur ekki Khameinei byltingarvörðinn? En Trump hefur bara Fulltrúadeildina yfir sér.

Hver þessi Khamenei sem þykist tala í nafni Persa? Hvaða umboð hefur hann? 

Trump var löglega kosinn þó demókrötum líki það ekki. 

Kaus einhver Khamenei eða klerkastjórnina?

Hverjir eru trúðar í pólitík?


Frábærar systur

úr Hveragerði, þær Aldís bæjarstjóri Hvergerðis og Guðrún formaður í Samtökum Iðnaðarins, Hafsteinsdætur úr Hveragerði voru gestir hjá Sjálfstæðisfélagi Kópavogs nú fyrir hádegi á laugardegi.

Aldís ræddi um málefni sveitarfélaga og nauðsyn þess að við byggðum þetta land allt. Hún nefndi að aðeins 16 % þjóðarinnar byggju á öllu landinu sem væri utan höfuðborgarsvæðisins. Hvergerði væri í stöðugum vexti en þeir vildu stýra fjölguninni og láta hana haldast í hendur við vöxt innviðanna. Þeir í Hvergerði væru að gera meira en að stýra sveitarfélagi, þeir vildu skapa samfélag þar sem fólki liði vel í og atvinna væri fyrir íbúana. Það væri einmitt að gerast í Hveragerði, þar fjölgaði fyrirtækjum og öll þjónusta væri í vexti. 

Aldís sagðist vera búin að vera sveitarstjóri Sjálfstæðisflokksins  í 14 ár en í sveitarstjórnarpólitík í 25 ár. Hún  sagðist starfsins vegna eðlilega vera í stöðugu sambandi við ráðherrana. Hún sagðist sakna þess að flokksmenn almennt styddu ráðherra sína ekki nægilega vel. Hún sagðist hinsvegar vera bæjarstjóri allra Hvergerðinga og hefði fyrir reglu að spyrja aldrei um flokkskírteini þegar um málefni bæjarfélagsins væri að ræða. 

Guðrún lagði mikla áherslu á menntunarmál og nauðsyn eflingu verkmenntunar. Það gagnaði lítið að kunna allt á bókina en standa ráðþrota þegar klósettið heima hjámanni væri stíflað. Hún ræddi málefni fyrirtækja á landinu og lýsti áhyggjum yfir því að við værum að missa fyrirtæki úr landi, meðal annars vegna þess að orkuverð hjá okkur væri ekki lengur samkeppnisfært þó fleira auðvitað kæmi til.  Gagnaver væri til dæmis nú að rísa í Svíþjóð en ekki hérlendis í og með vegna þessa atriðis. Össur væri að mestu leyti enn hér á landi vegna þess að forstjórinn Jón Sigurðsson væri svo mikill Íslendingur en eignarhald fyrirtækisins og fleiri slíkra væri komið til útlanda. Marel væri langt til komið í eigu útlendinga og svo væri um fleiri. Hún benti á að forstjóraskipti hefðu orðið í öllum fyrirtækjunum í orkufrekum iðnaði hérlendis á árinu nema einu, sem væri í Straumsvik. Það benti allt í eina átt.

Guðrún lagði áherslu á að landsmenn styddu við og hjálpuðu útlendingum sem væru að ferðast um landið nú í erfiðum skilyrðum. Þetta væru okkar gestir og viðskiptavinir sem væru óvanir að keyra við okkar erfiðu skilyrði.Guðrún minnti á að mikið væri ógert í að halda við innviðum á Íslandi. Fyrir nokkru hefði verið áætlað að uppsöfnuð þörf gæti numið um 380 milljörðum og það hefði ekki lækkað. Þetta væri langt í frá einskorðað vandamál við Ísland heldur vandmál flestra vestrænna ríkja.

Báðum varð þeim tíðrætt um regluverkjaflækjur hérlendis. Allt væri gert of flókið í opinberri stjórnsýslu.Sama ferlis væri krafist til að byggja bílskúr og stórbygginga. Við Íslendingar yrðum að leggja áherslu á nýsköpun í iðnaði sem yrði það sem þjóðin yrði að hafa lífsframfæri af í framtíðinni, við gætum ekki bara lifað á auðlindum landsins eins og verið hefði. 

Miklar og fjörugar umræður urðu á fundinum um margvísleg málefni í framhaldi af framsögu systranna.  Hálendisþjóðgarðurinn kom á dagskrá og fram kom að margir telja hér sunnanlands  að það mál sé hvergi nærri nægilega vel undirbúið og borin von væntanlega að það mál sé að fara í gegn um Alþingi. 

Einhver hafði það eftir gárungum að íbúar sveitarfélaganna utan höfuðborgarinnar yrðu að sjá til þess að Dagur B. Eggertsson yrði endurkosinn borgarstjóri í Reykjavík því dæmin sönnuðu að þá yxu þau hraðast eins og Hveragerði, Selfoss, og Reykjanesbær væru bestu dæmin um.

Aldís var spurð út í mjúkhúsið mikla sem þeir Hvergerðingar reistu af mikilli djörfung. En 2000 manna bæjarfélag hafði ekkert afl til að reisa íþróttahús af venjulegri gerð og leitaði því annarra leiða. Aldís smalaði bæjarbúum í sjálfboðavinnu til að vinna við uppsetningu hússins sem tókst með miklum ágætum. Húsið er nú búið að fá margar eldskírnir í veðraham og er bæjarstjórinn nýfarinn að sofa nokkuð áhyggjuminni en fyrst í stað þar sem húsið hefur staðist hverja raun.  Hamarshöllin eins og það heitir nú hefur gert kraftaverk fyrir  alla bæjarbúa til gönguferða og hverskyns íþróttaiðkana. 

Fram kom á fundinum að Sjálfstæðismenn eru almennt leiðir yfir því hversu hægt flokknum miðar í að einfalda regluverk og lækka álögur á borgarana. Þeir eru greinilega óánægðir með rekstur heilbrigðismálanna undir miðstýringarstefnu Svandísar Svavarsdóttur. 

Fundurinn stóð fram yfir venjulegan fundartíma, svo góður rómur var gerður að máli þessara frábæru systra, Aldísar og Guðrúnar Hafsteinsdætra.


Róbert Spanó

er til umfjöllunar hjá Páli Vilhjálmssyni bloggkóngi. Hann segir:

"Róbert Spanó dæmdi í Mannréttindadómstól Evrópu fyrir æskuvin sinn Vilhjálm H. Vilhjálmsson í máli gegn íslenska ríkinu. Málið snerist um vinnulag dómsmálaráðherra Sigríðar Á. Andersen og alþingis við skipan dómara við landsrétt. 

Nú fer málið fyrir yfirrétt Mannréttindadómstólsins og aftur er Spanó mættur í dómarasætið en vitnisburður Sigríðar afþakkaður.

Hvað yrði sagt ef dómari í landsrétti fylgdi dómsmáli yfir í hæstarétt og dæmdi aftur í sama máli? Jú, það yrði kallað réttafarshneyksli, dómsmorð, enda útilokað að viðkomandi dómari væri óvilhallur. Dómur felur í sér afstöðu dómara, annars væri enginn dómur. Dómari sem fylgir máli frá einu dómsstigi yfir á annað er í raun að endurskoða sjálfan sig.

Einu sinni trúði Evrópa á guðlegt einveldi. Núna á guðlega dómara. Séð frá Íslandi er hvorttveggja brandari"

Merkilegt ef þetta þykir allt í lagi hjá Evrópudómstólnum þegar þetta stingur svona í stúf við það sem við eigum að venjast í dómsmálum.

Eru fjárhagslegir hagsmunir það sem úrslitum ræður fyrir lágt launaðan íslenskan embættismann? Burtséð frá því er Róbert Spanó stætt á því að láta sem ekkert sé og sitja í dómnum? 

Hefði ekki einhverjum dottið í hug að Róbert Spanó, sem er vandur að virðingu sinni innanlands á Íslandi myndi í þessu tilviki stíga til hliðar rétt eins og Sigríður Andersen gerði sem málsaðili?

 

 


Hversvegna?

heldur ríkisstjórnin rígfast í ríkisvæðingarstefnu Svandísar Svavarsdóttur og VG í heilbrigðismálum?

Björn Bjarnason veltir þessu fyrir sér á máli sem jafnvel ég skil.

" Með þetta í huga er dapurlegt að fylgjast með umræðunum um Landspítalann og kreppuna sem þar ríkir. Vandinn hefur magnast við ríkisforsjárstefnuna sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fylgir. Það leiðir aðeins til vandræða að herða ríkistökin á þessu sviði eins og öllum öðrum. Af því að ráðherrann fylgir þessari stefnu beinast öll spjót að henni í stað þess að leitað sé annarra lausna.

Um miðjan tíunda áratuginn var staðan þannig að á háskólastigi að Háskóli Íslands sat um menntamálaráðherrann á svipaðan hátt og Landspítalinn gerir um heilbrigðisráðherrann núna. Í stað þess að sitja með allan þunga háskólanáms á herðum menntamálaráðuneytisins var losað um tök ríkisvaldsins á háskólamenntun. Staðan breyttist á örfáum árum. Þeir sem vilja í raun létta á spennunni vegna Landspítalans og auðvelda honum að sinna hlutverki sínu sem bráða- og háskólasjúkrahúss verða að létta af honum verkefnum með því að heimila öðrum að sinna þeim.

590456Svigrúm af þessu tagi er eitur í beinum núverandi heilbrigðisráðherra vegna hollustu við úrelt stjórnmálaleg viðhorf um hlutverk ríkisins. Hvarvetna þar sem sósíalísk miðstýringarsjónarmið ráða verða til biðraðir og þegar þær eru á bráðamóttökum er meira í húfi en til dæmis í pósthúsum.

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir í Morgunblaðinu í dag (17. janúar):

„Hægt er að minnka álag á starfsemi Landspítala með því að endurskoða hvar þjónusta vegna átaks- og sérverkefna er veitt í heilbrigðiskerfinu sem ekki krefst hátækni inngripa og gjörgæslu lækna. [...]

Með stefnubreytingu heilbrigðisyfirvalda sem miðar að því að minnka aðflæði á Landspítala í þjónustu sem hægt er að veita utan sjúkrahússins, á fleiri stöðum en í heilsugæslunni og á hjúkrunarheimilum, er hægt að skapa nauðsynlegt svigrúm til að minnka álag á Landspítalann og starfsfólk hans. Slík breyting myndi auka öryggi sjúklinga, bæta skilvirkni þjónustu og leiða til hagkvæmari rekstrarniðurstöðu fyrir samfélagið allt.

Engin önnur skynsamlegri lausn er í augsýn. Bráðaveikindum verður ekki afstýrt en aðflæði og skipulag annarra heilbrigðisþjónustu má hæglega endurskoða og veita víðar en á Landspítala.“

Það er óskiljanlegt að heilbrigðisráðherra VG skuli velja núverandi víglínu í átökum um þjónustu Landspítalans. Hjá ráðherranum ráða úreltar pólitískar kreddur sem vinna gegn þeim markmiðum sem sett eru með opinberum fjárveitingum til heilbrigðisþjónustu "

Í minni fjölskyldu hef ég horft upp á tvær ferðir til Svíþjóðar á kostnað ríkisins í hnjáliðaaðgerð sem eru samanlagt miklu dýrari en fyrir lá að Klínikin var reiðubúin að framkvæma þær. Maður stendur agndofa yfir að horfa upp á svona sóun þjóðarauðsins þó að maður blessi árangurinn sem við blasir eftir aðgerðirnar í Svíþjóð. Manni finnst þetta samt ekki rétt og skilur ekki hugsunina á bak við þetta enda er enginn sem útskýrir þetta fyrir manni svo maður skilji.

Er hugsanlegt að vandi heilbrigðiskerfisins sé sá, að kostnaðurinn fylgir ekki sjúklingnum sem hann getur beint þangað sem hann kýs? Svipað og hugmyndir hafa verið uppi um í menntakerfinu, að bestu skólarnir í kostnaði og kvalíteti fái til sín viðskiptin? Liðskipti kosta þetta sem framlag af hálfu ríkisins og sá fær framkvæmdina sem best býður en sjúklingur má eiga afganginn ef einhver verður eða borgar milligjöf ef þörf krefur?

Væri hægt að prófa þetta á einföldustu aðgerðunum? Til dæmis hnjáliðsaðgerð? Klíníkin býður ákveðið verð og ríkið leggur fram þá upphæð sem það treystir sér til? Svo má spinna áfram eftir þeirri reynslu?


Margsköttun

er viðurkennd aðferð stjórnmálamanna á Íslandi. Þeir hafa komist upp með það lengi að tví- ef ekki þrískkatta sömu eignir manna.Leggja skatt ofan á skatt.

Vilhjálmur Bjarnason fer ofan í þetta í niðurlagi ágætrar greinar í Morgunblaðinu í dag. Greinin er hér í heild sinni:

Fjárhagslegt frelsi og frelsi þjóðar

"Á þeim dögum sem þjóðin er að undirbúa gögn til að gera keisaranum skil á fjárhagslegum gögnum er vert að íhuga fjárhagslegt frelsi og gildi frjáls sparnaðar og setja það í samhengi við frelsi þjóðar.

Egill og hodd

Egill, afi minn í tuttugasta og áttunda lið, Skallagrímsson vissi sem var að þingheimur gengi af göflum ef þingmenn kæmust í annarra manna fjármuni. Því vildi hann sjá þegar þingmenn hlypu til þegar hann dreifði silfri sínu af bökkum Almannagjár. Hluti þingmanna nútímans er svipaður að eðli og því, sem Egill taldi samtímamenn sína. Reyndar var Egill lítið betri sjálfur, því hann vildi helst vera í samskiptum við hoddfjendur, en hodd merkir silfur og hoddfjendur því þeir er ekki vildu eiga silfur. Það silfur gat Egill eignast.

Árni byskup

Önnur lýsing er til um deilur í þingheimi um skattlagningu. Frá því segir í Arna byskups sögu að Loðinn Leppur sendimaður Noregskonungs fann að tíundargerð Árna byskups í heimsókn sinni. Þar segir: „Þið byskuparnir heimtið tíund af sylgjum og silfurbeltum, koppum og keröldum og öðru dauðu fé, og undra ég mjög hví landsbúar þoli yður slíkar óhæfur og gerið eigi norræna tíund að eins og þá sem gengur allan heiminn, og einsaman er rétt og lögtekin“ Byskup svarar fullum hálsi aðfinnslunum; „Af orðum Innocenti páfa vitum vér að sú tíundargerð er eigi okur og vinnur engum manni sálutjón.“ Þarna bjargaði Evrópusamvinna! Það hafa fleiri gengið af göflunum en þingheimur í hug Egils. Ekki fyrir svo löngu gengu íslenskir hæstaréttardómarar af göflunum þegar þeir dæmdu í máli er varðaði lögmæti auðlegðarskatts, sem lagður var á „auðlegð“ árið 2009. Þar var forsenda lögmætis auðlegðarskatts gagnvart stjórnarskrá sú að skatturinn væri tímabundinn. Annaðhvort eru skattar almennt lögmætir eða ólögmætir. Hið tímabundna lögmæti er vandfundið í lögskýringargögnum.

Annar byskup, og háyfirdómari

Lengi var að svo að fjármálastarfsemi hér á landi var aðeins í milliskrift hjá kaupmanni og sparnaður var í vaðmáli og sméri. Þó voru til auðmenn. Á nítjándu öld voru það bræður tveir frá Víðivöllum. Háyfirdómari og byskup. Þeir stunduðu lánastarfsemi á sinni tíð, fyrir daga Landsbankans. Þegar byskupinn var búinn að lána þjóðsagnasafnaranum fyrir húsi, þá voru lánamálin leyst með því að byskupsdóttirin giftist fóstursyni þjóðsagnasafnarans. Byskupinn gaf svo dóttur sinni hús þjóðsagnasafnarans í brúðargjöf.

Seðlabanki

Fyrstu hugmyndir um banka á hinu endurreista Alþingi voru árið 1847 þegar rætt var um seðlabanka. það var banki til að gefa út seðla til að greiða fyrir viðskiptum. Þarna virðist sú hugmynd komin fram að peningar, seðlar og mynt, séu almennt samþykkt til lúkningar skulda. Í umræðinni 1847 er aðalatriðið ekki um fjármálastofnun til að stuðla að peningalegum sparnaði og lánaviðskiptum. Umræða um fjármálastarfsemi á Íslandi hefur aldrei komist á það stig að það sé samhengi milli innlána og útlána, miðlun fjármagns. Umræðan er aðeins sú að sparendur eigi að styrkja bónbjargarfólk með lánveitingum. Bónbjargarfólkið er að uppistöðu atvinnulíf. Mestur hluti lánsfjármagns er til atvinnulífis en vissulega þurfa einstaklingar á lánum að halda til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þá skiptir lánstíminn máli.

Siðaðar þjóðir

Á meðal siðaðra þjóða, sem vilja styðja við frelsi einstaklinga og þjóðfrelsi, þá er talið eðlilegt að einstaklingar eigi sem næst þriðjung eigna sinna í fasteignum, annan þriðjung í auðseljanlegum verðbréfum og það sem eftir er í lausu fé, en það eru peningar og peningaígildi, sem eru almennt samþykkt til lúkningar skulda. Það er tómt mál að tala um hlutabréfaeign almennings eftir þá meðferð, sem almenningur hlaut á árunum 2003 til 2008. Eftirlitsmenn eigenda hlutafélaga, endurskoðendur, voru staðnir að beinum lygum. Hlutabréfaeigendur hafa engar bætur fengið frá endurskoðendum, en það hafa kröfuhafar fengið. Það ríkir en vantraust á hlutabréfamarkaði. Hér á landi er leitast við að einstaklingar eigi ekki peningalegar eignir, eignir sem gefa af sér fjáreignatekjur. Því er á mörkum að þjóðin teljist til siðaðra þjóða. Stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, ganga hart fram í skattlagningu fjáreignatekna.

Skilningur á skattandlagi

Fæstir stjórnmálamenn skilja hvað er skattaandlag. Almennt er skattandlag verðmætaaukning, en ekki verðmælisbreyting. Þannig er arður ekki skattandlag. Arður er ráðstöfun á hagnaði, og hagnaður er skattlagður í tveimur þrepum, hjá félaginu sem hagnast og hjá móttakanda arðs. Þannig er hagnaður skattlagður um 37,6% en ekki 20% eins og er skattlagningarhlutfall félaga því arður er skattlagður sérstaklega við útborgun. Fæstir skilja eðli verðbóta. Ef til vill, þegar verðbætur eru kynntar á ensku, en það er „inflation adjustment“. Verðbætur geta ekki verið skattandlag. En skattlagt hér um 22%. Gengismunur, sem verður til vegna gengisfalls gjaldmiðils gagnvart öðrum gjaldmiðli, er ekki skattandlag. Þá er erlendi gjaldmiðillinn jafn mikill í þeim gjaldmiðli, hvernig sem gengis þess gjaldmiðils þróast gagnvart öðrum gjaldmiðli. Gengismunur er skattlagður um 22%, vegna skorts á skilningi á skattandlagi. Sumarbústaður er sumarbústaður og stækkar ekki um 25% þó að verðlag breytist um 25%. Þar sem enginn veit hvert er stofnverð sumarbúastaðar, þá er helmingur andvirðis sumarbústaðar við sölu talinn til tekna og skattlagður um 22%. Því til viðbótar geta þessar verðmælingar komið til skerðingar á bótum almannatrygginga hjá skattþegni, ef við á.

Dreifing á annarra manna eignum

Skattlagning af því tagi, sem hér er lýst, er eignaupptaka vegna verðbólgu. Það er verðbólga sem hefur skapað þessar verðmælisbreytingar. Eignaupptaka gerist fyrst og fremst hjá siðlausum þjóðum, og þá fyrst og fremst hjá þeim, sem telja sig hafa vitsmuni til að dreifa annarra manna eignum að geðþótta. Og refsa ráðdeild og sparsemi. Ef til vill finnst þeim þetta einfaldur hór, sem þeir eiga við samvisku sína.

Frjáls þjóð í frjálsu landi

Þjóð getur aðeins verið frjáls ef hún á frjálsan sparnað. Þvingaður sparnaður í formi lífeyriseignar er góður til síns brúks. Ef ekki eru hvatar til frjáls sparnaðar veit enginn eyðsluna fyrr en öll er. Þá er frelsið farið og komið helsi í stað frelsis. "

Vel þekkt er að gamlingjar geta ekki selt gamla sumarbústaði eða gamlar eignir eða jafnvel erfðagóss vegna þess að þá eru teknar af þeim ellibæturnar. Mörkuðum skattstofnum er varið í óskyld mál án þess að teljandi athugasemdir séu við það gerðar.

Spurning er hversvegna stjórnmálamönnum er liðin sú frjálslega umgengni um almannafé sem hér hefur lengi tíðkast.

Er það frelsi þjóðar?


Aðförin að Reykjavíkurflugvelli

heldur áfram. Það á að kakka niður steinsteypu inn á vallarsvæðinu með stýrðri lóðaúthlutunum. Eins og ekki væri nóg að gert með Nýpólahverfi Valsgæðinganna á gömlu flugbrautinni. Líklega eitt óvistlegasta íbúðarhverfi sem lengi hefur verið byggt og verðugur minnisvarði um gömlu Pólana sem þar stóðu í nágrenninu og voru aldrei málaðir nem þegar kóngurinn kom.

Fleira vinnur Dagur B. Eggertsson sér til ágætis í svikum við borgarana sem kusu hann frá en Þórdís Lóa setti inn aftur vegna gamalla fjölskylduerja við Íhaldið.

Síðasta afrek hennar og Dags. B. er að loka leikskólunum fyrr til að létta álagið á börnunum ! SIC! 

Þá vita menn það. Leikskólar eru áþján á notendunum, jafnt börnum sem starfsmönnum.


Halldór Benjamín

Þorbergsson,hagfræðingur,  framkvæmdastjóri S.A. var á fundi eldri Sjálfstæðismanna í Valhöll nú um hádegið.

Þetta eru nokkurskonar leifarnar af Sjálfstæðisflokknum eins og hann var í gamla daga sem þarna kemur á miðvikudögum í Valhöll í hádeginu undir stjórn nafna míns Blöndal sem mætir þarna af gamalli tryggð frekar en einhverri stóránægju með sílækkandi gengi flokksins í dag. Hvað þá nýjustu stjórnarathafnirnar sem birtust til dæmis í  forystu í hækkunum vöru og þjónustu ríkisins nú um áramótin þegar flokkurinn hefur með þátttöku í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur  tekið forystu í að kynda verðbólgubálið með hækkunum um ca. 2.5 % á margvíslegri þjónustu og vöru sem auðvitað gleður engin heimili í landinu en leysir líklega fátt af fyrirliggjandi vanda sem er ærinn.

En Halldór Benjamín flutti þarna þvílíkt afburða erindi að menn stóðu eiginlega kjaftstopp og spurðu jafnvel minna en oft áður sem bendir til þess að yfirferðin hafi verið góð. Maðurinn er svo skýr í framsetningu að menn komust ekki hjá því að skilja hvert einstakt atriði í hagfræðinni sem þarna kom fram. Einn fundarmann gekk svo langt að líkja málflutningnum við Einar Odd sáluga, bjargvættarinnar frá Flateyri, þegar hann var að berja þjóðarsáttina inn í hausamót landsmanna af öllum stéttum fyrir þrjátíu árum.

Halldór Benjamín ræddi lífskjarasamningana frá apríl á síðasta ári. Hann taldi þá merka fyrir þær sakir sérstaklega að í fyrsta sinn hefðu allir lagst á eitt að gera skynsamlega samninga, ríkisvaldið, fjármálakerfið og verkalýðshreyfingin sem hann lauk sérstöku lofsorði á. Þetta hefðu verið krónutölusamningar sem færðu þeim mest sem minnst hefðu.  Til að útskýra hvaða vandaverk hefði verið um að ræða, þá spurði hann fundarmenn hvað þeir héldu að S.A. þyrfti að gera marga kjarasamninga? Enginn vissi rétta svarið en þeir eru um 200.Verkalýðsfélög eru því greinilega allt of mörg sagði Halldór Benjamín, það væri verið að gera kjarasamninga við minna en 5 manna félög á stundum sem væri greinlilega ekki mjög skilvirk vinnubrögð.

Halldór Benjamín lagði áherslu á gildi hagvaxtar fyrir þjóðfélagið. Fyrsta spurning sem svara þyrfti í kjarasamningum væri hvað væri til skiptanna? Síðan kæmi spurningin hvernig ætti að skipta því. Í þessu værum við eftirbátar frænda okkar á Norðurlöndum sem kynnu þetta mun betur en við. 

Hann ræddi gildi hagvaxtar fyrir þjóðfélög. Hann benti á að 1 % hagvöxtur væri 70 ár eða ein mannsævi að skila sér í tvöföldun lífskjara meðan 4 % hagvöxtur skilaði þeim árangri á 18 árum.

Nú væri búið að semja við 95 % almennra launþega. Þá væri komið að opinberum starfsmönnum sem því miður hefðu oft hugmyndir um að þeir gætu fengið eitthvað allt annað og meira en samið hefði verið um á almennum vinnumarkaði.  Það ætti auðvitað ekki að ganga svo fyrir sig í þeirri röð, það væri almenni markaðurinn sem ætti að leiða kjaraviðræður.

Hann sagði að Íslendingar ættu að vera stoltir af þeim árangri sem náðst hefði í lífskjarasókn.  Á síðustu árum hefði náðst fram um 50 % kaupmáttaraukning hjá þeim sem lökust hefðu  haft  kjörin og um 35 % hjá þeim sem betur máttu sín.

Eftir hrunið hefðu ríkisskuldirnar verið heil landsframleiðsla. Nú tíu árum seinna ættum við Íslendingar 300 milljarða umfram erlendar skuldir, við værum orðnir nettó fjármagnsútflytjendur í stað skuldara.Þetta væri árangur sem við gætum verið stoltir af sem þjóð.

Halldór Benjamín ræddi talsvert um menntun og ástand hennar í landinu. Hann sagði að við værum of skammt komnir að samhæfa kennslugreinar í Háskólum og þarfir atvinnulífsins, það væri verið að útskrifa fólk í námsgreinum sem ekki væri eftirspurn eftir í atvinnulífinu en svo  skorti fólk og menntun í öðrum greinum, sérstaklega í iðn og verkmenntun.

Bretar væru komnir mun framar í leiðbeina ungu fólki í þær greinar sem atvinnulífið þarfnaðist þó að við værum að byrja þessa starfsemi.

Menn væru margir að klára 3. ára háskólanám á 5 árum. Sér fyndist allt of margir vera í háskólanámi af hálfum hug eða líka væri margt sem fólk væri að gera meðfram náminu sem ylli þessu. Ungt fólk yrði að velja sér námsbrautir meira með tilliti til þess hvar eftirspurnin væri. Háskólanám væri ekkert endilega fyrir alla og því yrði að efla verkmennta-og tæknigreinar sem atvinnulífið þarfnaðist.

Hann kom inn á umhverfismál og sagði að hann teldi að fyrirtækin myndu láta sig umhverfismál varða af sjálfu sér því þau sem ekki gerðu það myndu verða undir í samkeppni. Við Íslendingar værum ekki stærstu mengunarvaldar í plasti í veröldinni. En við gætum auðveldlega orðið stærstu þolendur skaðlegra áhrifa örplasts í sjávarútvegi og í súrnun hafsins. Því skiptu umhverfismálin miklu máli fyrir Ísland og við yrðum að láta þau mál okkur skipta.

Hann ræddi peningamál og vaxtamál. Hann bað viðstadda gamlingjana að hugsa til baka aftur í tímann til þess þeir voru að hefja lífið.  Hvað hefði þá skipt ungar fjölskyldur mestu máli? Það var hvað fékkst fyrir launin. Verðbólgan hefði verið versti óvinur heimilanna og svo væri enn. Þess vegna skipti stöðugleikinn höfuðmáli og hvað fengist fyrir launin. 

Hann sagðist vera bjartsýnn á framtíð Íslands, Hann hvatti menn til að kynna sér hina óhemju framleiðni sem haldið hefði innreið sina í sjávarútvegsfyrirtæki landsmanna, sjálfvirknina sem væri komin á ótrúlegt stig.  Þetta myndi breiðast út og menntun og tækni myndi taka stakkaskiptum á komandi tímum.

Hann taldi að menn myndu skipta um starfsvettvang oftar en verið hefði og sí- og endurmenntun myndi eflast í landinu. Fólk þyrfti líka að geta verið lengur á vinnumarkaði en en verið hefði með samningum milli aðila, þar sem margir vildu starfa meira og lengur og jafnvel taka þátt í hlutastörfum í meira mæli.

Halldór Benjamín vakti óskipta athygli fyrir skipulagðan og prúðmannlegan málflutning. Einhverjir höfðu á orði að vel væri ef einhverjir forystumenn Sjálfstæðisflokksins gætu flutt mál sitt með sambærilegum hætti og komið skynsamlegum skilaboðum til þjóðarinnar.

Í heild var þessi fundur einhver sá besti sem undirritaður hefur lengi setið og var hann einnig fjölsóttur og vonar hann að mörgum hafi verið eins farið þegar þeir fóru út.


2 kellingar, 1 kall

sækja um ríkislöggustjórann.

Önnur hvor kellingin fær jobbið því annað væri brot á jafnréttislögum. Kallinn fær ekki kaup í heilt ár sem skaðabætur því hann er kall og ekki einu sinni hommi og á því öngvan rétt á jafnrétti eða sanngirni miðað við kellingarnar. 

Úlenn dúllen doff.

Sumum finnst að kellingar eigi ekki að vera Bandaríkjaforsetar, hershöfðingjar, biskupar né lögreglustjórar. Vidoq var kall, Agnar Koefoed lögreglustjóri á stríðsárunum var líka kall og Jón Arason og Gizur Ísleifsson voru líka kallar.

Ég er auðvitað kallremba en styð Einar umfram Ólínu ekki bara þess vegna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 3421085

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband