Leita í fréttum mbl.is

EES og Schengen,

er það blessun eða bölvun Íslendinga?

Ég hef reynt að rifja það upp fyrir mér undanfarið, hver var raunverulegur ávinningur af EES samningnum.? Við höfðum EFTA samninginn sem hafði reynt okkur vel án þess að skuldbinda okkur um of.Hefur mitt líf til dæmis nema breyst til hins verra? Gátum við ekki létt af okkur ófrelsinu einir og sjálfir? Þurftum við að láta neyða frelsinu uppá okkur án þess að hafa neitt um það að segja?

Fengum við nikkuð nema sáralítið svo sem einhverja smátollaniðurfellingar á fiskiflökum á móti öllum þeim skyldum sem við undirgengumst? Við sóttum alla skóla í þessum Evrópuríkjum og ferðuðumst að vild um þau öll áður en þetta kom til. Við urðum hinsvegar að taka upp fjórfrelsið í staðinn sem ég er hættur að koma auga á að hafi raunverulega orðið til góðs. Við opnuðum á landakaup útlendinga, stjórnlausan innflutning framandi fólks, uppkaup risa á íslenskum dvergum. Enginn veit hversu mikið úr auðlindunum er búið í raun að selja en það er áreiðanlega meira heldur en minna.

Og Schengen er þjóðin áreiðanlega sammála um að hentar okkur ekki og hefur otðið okkur líklega bara til bölvunar það sem er. Og reglugerðarfarganið úr EES er að gera landið óbyggilegt á ýsmum sviðum og ástandið versnar ár frá ári og mylur bara undir dreissuga embættismenn landsins.

Má ekki velta fyrir sér hvort við séum ekki betur komnir með því að segja þessu öllu saman upp?

Hætta bara í EES og Schengen?


Sýn ASÍ á Evrópusamvinnuna

var birt í ritsmíð mikilli frá ASÍ frá árinu 2009 Þar er lýst óbilandi trú á kosti evruupptökunnar. Hvernig hefur þessi sýn þróast í ljósi tímans?

Þar birtu þeir sakleysislegan kafla um

"Maastrcht-skilyrðin", sem eru þessi:

1. Verðstöðugleiki. Verðbólga má ekki vera meiri en 1,5 prósentustig umfram
meðaltals verðbólgu í þeim þremur ríkjum þar sem hún er lægst.

2. Jafnvægi í ríkisrekstri. Halli í ríkisrekstri má ekki vera umfram 3% af
landsframleiðslu, nema hann teljist eðlilegur í ljósi sérstakra aðstæðna.

3.Skuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en sem nemur 60% af landsframleiðslu. Unnt er að veita undanþágu frá þessu skilyrði ef þróunin stefnir
í rétta átt.

Í eina skiptið í sögu lýðveldisins vorum við nærri því að ná þessum skilyrðum, en það var í fjármálaráðherratíð Gers H. Haarde í ríkisstjórn Davíðs. En þá talaði enginn um nauðsyn þess að afsala sér fullveldinu og taka upp evru sem lækkaði stöðugt gagnvart krónu á þeim tíma. Enda var mönnum þá ljóst að hagsveifla Íslands er með annarri öldulengd en sú í ESB og var það ljóst öllum á þeim tíma að Íslendingar höfðu algera yfirburði í hagvexti miðað vð ESB ríkin.Blindaðir af oftrú á sjálfa sig og snilld íslenskra útrásarvíkinga undir hljómsveitarstjórn Forseta lýðveldisins duttu Íslendingar útum þakgluggann á hraðferð sinni upp stigann í velsældarturninum.

Frá hruni 2008 eru Íslendingar hinsvegar langa vegu frá því að uppfylla þessi skilyrði og svo verður áfram út þennan áratug ef vinstri stjórnin situr til 2013 með velvilja ASÍ. Því áreiðanlega tekur minnst 3 ár að endurreisa þjóðina eftir þann skaða sem hún hefur þá hlotið fyrir tilverknað tvístirnisins Jóhönnu og Steingríms. Fyrst undir lok áratugsins gætu menn farið að ræða uppfyllingu markmiðanna. En óábyrgir verkalýðsforingjar innan ASÍ mun þá að venjulegum líkindum löngu hafa gert þær vonir að öngu með "kjaraleiðréttingum" minnihlutahópa og verðbólgu sem nær sér á strik við þær aðstæður.Hinn minnsti hagvöxtur mun kalla á gengdarlausar taxtahækkanir hjá langsoltnum lýðnum.Og hvaða gengi skyldi þá verða á evrunni í Grikklandi eða á Íslandi?

Ef ný þjóðasátt yrði gerð um að hækka ekki laun næstu 2 ár þá myndi gengið stórstyrkjast og verðlag stórlækka. En það virðist allt gleymt sem áður var gert og því fer líklega svo sem áður sagði.

Svo kemur stórmerkileg yfirlýsing sem væri gaman að vita hvort gengið hafi eftir í augum áróðusrdeildar ASÍ:

"Jafnframt hefur ítrekað verið bent á, að frá því EES samningurinn var gerður,
hefur samstarf ríkja Evrópusambandsins dýpkað og ný viðfangsefni verið felld
undir samvinnu þeirra. Út frá hagsmunum launafólks og vinnumarkaðarins
skiptir mestu dýpkun og nýsköpun samstarfsins, þar sem nýir málaflokkar
hafa verið felldir undir Evrópusamvinnuna eins og t.d. réttindi og staða
minnihlutahópa á vinnumarkaði. Annað dæmi er félagsmálastefna ESB sem
er mikilvæg stoð fyrir efnahags- og atvinnulíf framtíðarinnar."

Einmitt! Hefur samstarf Grikkja, Spánar, Ítalíu við ESB dýpkað? Er trú almenns launafólks á evruna í þessum löndum ósnortin? Þegar atvinnuleysi ungs fólks er 20-40 %? Er það þetta sem ASÍ sér í hillingum? Hefur allur Sjálfstæðisflokkurinn ekkert að segja um inngöngu í ESB? Hverjir ætla að ná saman um að ganga í ESB?

ASÍ gafst upp á stöðugleikasáttmálanum við Jóhönnu og Steingrím og gerði ótrúlega verðbólgukjarasamninga við SA. Nú ásakar forseti ASÍ ríkisstjórnina um svik við elli-og örorkufólk.Eitthvað er trúin á norrænu velferðarstjórnina vera farin að dala.

Hvernig samræmist framtíðarsýnin við nútímann í eftirfarandi málsgrein úr plagginu frá ASÍ:

" Umsókn um aðild að ESB og yfirlýsing um að Ísland stefni að því að taka
upp evru sem gjaldmiðil eykur trúverðugleika okkar í glímunni við veikingu
krónunnar og efnahagsvandann og hjálpar þannig til við að ná tökum á
gengi krónunnar, losa um gjaldeyrishömlur, lækka vexti og draga úr
verðbólgu.
Þessi afstaða er síðan áréttuð þar sem segir um áherslur ASÍ varðandi
stöðugleika:
• Koma á stöðugleika.
• Stefna að upptöku evru svo fljótt sem verða má.
• Hagstjórnin miði við að Ísland uppfylli sem fyrst ákvæði stöðugleikasáttmála"

Ég velti stundum fyrir mér hvort evrópusinnaðir Íslendingar séu yfirleitt með sjálfum sér í hugsjónaákvefðinni. Trúa þeir þessu sjálfir?

Ritgerðin um Sýn ASÍ um dásemdir ESB og upptöku evru finnst mér frekar vera tálsýn en farsæl framtíðarsýn um náðarfaðm ESB Íslendingum til handa.


WOW- MP-Banki, Voff Voff !

er nýtt sameyki í íslensku viðskiptalífi að fæðast?

gæti einhverjum dottið í hug þegar hann reynir að muna eftir gömlu útrásarvíkingunum Jóni ásgeir og Pálma Haraldssyni. En þeir komu eitthvað við sögu Íslandsbanka, BYR og fleiri fjármálastofnana og svo Icelandair Group, Flugleiða, Sterling og hvað þetta hét allt saman. Hvað skyldi ekki vera hægt að græða á lággjaldaflugfélögum ?

Skúli Mogensen er nýtt stirni á himninum. Hann er nýbúinn að kauppa sér MP-banka. Nú er hann að stofna nýtt lágfargjaldaflugfélag í stíl við Pálma Haraldsson, Astreus og Iceland Express og tékkneskt leiguflugfélag hans.

Fjölmiðlar flytja sem fyrr fagnaðarfréttir af athafnasemi Skúla sem brátt mun fljúga okkur ódýrt yfir Atlantshafið. MP-banki hefur ekki aðskilið rekstur sinn í fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Af hverju ekki? Er sjálfgefið að fólki lítist á að eiga spariféið sitt í MP-banka þegar þessi eignatengsli eru skoðuð? Hvar er MP sjálfur í þessu?

Nei nei, engin tengsli milli Skúla í MP-banka og Skúla í WOW(Í Andrésblöðunum er WOW það sem hundarnir segja á Íslandi Voff voff) frekar en í fyrra tilvikinu. Menn eru bara að versla með hlutabréf og það kemur ekkert málinu við þó þeir eigi í öðrum félögum og það hafi verið kölluð krosseignatengsl fyrir hrun. Maður bara leigir sér flotta stjórnarformenn sem allir treysta. Allt í þessu fína.Gunnar Andersen á sjálfsagt nóg með sig þessa dagana.

VOFF Voff, WOW !


Verðtryggingin

og allar ræðurnar um hennar aðskiljanlegu vondu náttúrur lætur mig stundum fá yfir höfðuðið.

Ég man hinsvegar nú orðið nokkuð langt aftur. Ég man að það var árið 1965 og ég var búinn að vera að vinna sæmilega vinnu eins og gekk og gerðist eftir nám ein tvö ár og flytja tvisvar á milli leigukjallara í Reykjavík. Þá sá ég auglýst fokhelda hæð í húsi sem maður ætlaði að byggja í Kópavogi. Brjálað verð, á sjöundahundruðþúsunda. Hvar átti maður að fá það?

Byggjandinn ætlaði að bíða eftir húsnæðisláninu. Hitt samkomulag. Um hvað segi ég núna. Maður var bara nánast eins og kirkjurotta sem sá ekki langt inn í framtíðina frekar en núna. Byggjandinn reyndist svo vera valmennið Stóri-Björn sem ég og flestir könnuðumst við frá fyrri tíð. Hann hjálpaði mér svo á margan hátt og gerði minn veg beinni en annars hefði orðið og við bjuggum báðir með fjölskyldum okkar í húsinu um langan aldur þangað til það sprakk utanaf minni.

Ég fékk lánað húsnæðislán svo 1966 þegar húsið var fokhelt. Samsvaraði hálfri "fokheldu", eða líklega 1/3 -1/4 af íbúðarverði til 20 ára óverðtryggt.Skammturinn var 340.000 í tvennu lagi með hálfsárs millibili held ég. Íbúðin mátti mest vera ca. 110 m2 íbúð skv. reglum Húsnæðismálastofnunar Ríkisins.

Endanlega flutti ég svo inn fyrir náð tengdapabba og með mikilli vinnu skyldmenna og vina fyrir einar 900.000 þúsundir minnir mig, mjög ódýrt var sagt. Þetta voru ganlar krónur NB. Önnur lán voru ekki í boði á markaði. Þetta tilsvarar líklega húsnæðisláni(eða styrk sem unga fólkið myndi kalla því það segir að ég og mín kynslóð hafi aldrei borgað neitt) sem nemur 7-10 milljónum í dag af svona íbúð í stað þeirra 20 sem nú eru lánaðar verðtryggðar. Ég fékk lán hjá ömmu Sigríði og pabba, vask í Þorláksson & Norðmann, drasleldhúsinnrétting hjá einhverjum innflytjanda, eldavél hjá Smith og Norland og ofn hjá Rafha osfrv.(gengur enn!) Kannski eitthvað á víxli hjá Jóhanni Hafstein, sem einn bankastjóra lánaði ungu fólki í þá daga á víxli ef þú þekktir einhvern sem vildi skrifa uppá.

Engin önnur lán voru í boði. Íbúðin ,myndi kosta núna í byggingu líklega 40 milljónir eða 4 milljarða í þessum gömlu krónum. Sem getur vakið menn til umhugsunar um árangurinn af ábyrgri kjarabaráttu ASÍ allan þennan tíma, viskunni í að strika út tvö núll. Fjögurþúsundprósent kauphækkun og allir eru óánægðir með laun sín. Íslensk efnahagsmál og stjórnmálasagan þá líka eru bara revía og farsi því að bófaflokkar leika hér lausum halda og kalla sig stéttarfélög. En stunda bara mannrán, gíslatöku og fjárkúgun ef grannt er skoðað.

Svo var víst sett einhver smáverðtrygging á húsnæðislánið seinna. En þetta er langt að baki svo ég man þetta ekki lengur. Þetta var basl og maður átti oft varla að éta þó maður fengi sér stundum flösku um helgar eða legði í. Maður var ungur, átti börn og var ástfanginn, átti gamlan bílskrjóð og gerði við hann á götunni. Svei mér ég veit varla hvernig þetta baslaðist allt. Fólk flutti almennt inn í hurðarlaust á steininn beran. Bara SÍS og frægðarmenn fengu lán í bönkunum, ekki venjulegt fólk. Fáir voru ríkir og öngvir eins og útrásarvíkingar á einkaþotum. En þá voru stundum böll um helgar og dans sem nú er mest aflagt nema í sveitinni.

Menn sátu í kös á biðstofum bankastjóranna í þá daga og fengu oftar nei því öngvir peningar vorur til. Dásamlegt basl og áhyggjur sem eru núna auðvitað gulli laugaðar þegar ævin er svo gott á enda.

Svo kom verðtryggingin og allt í einu gátu allir fengið 70-80 % lán og svo seinna í vitleysunni 110 % Og menn þurftu ekki lengur að kaupa steypuna fyrirfram eins og menn vildu ólmir gera heldur gátu alltíeinu sparað á banka. En nú eru allir málsmetandi menn á móti verðtryggingu og þá því að fólk geti átt peningana sína í banka óhulta frá verðbólgunni. Helst það ekki í hendur?

Einn mikill andstæðingur verðtryggingar segir að peningarnir eigi bara að koma úr baunkunum. En til þess að banki geti lánað út, þarf hann smá innlögn af peningum sem hann getur svo margfaldað. Nema svo mikið sé til af erlendum peningum að þú getir fengið lán í þeirri mynt. Sem varð svo ólöglegt. Svo höfum við Seðlabanka til að skrúfa upp verðlagið með stýrivöxtum. Horft til baka finnst manni heldur lítið til koma hagvísinda þeirra stjórnmálamanna sem maður gapti uppí þá. Einar Oddur og Guðmundur Jaki standa þó uppúr flatneskjunni í mínum huga. Þeim tókst það sem hinum tókst ekki, að innleiða vott af skynsemi í þjóðlífið þó það sé nú löngu gleymt.

Eftir mína fyrstu byggingatíma komu svo lífeyrissjóðirnir okkar til sögunnar. Þeir lána ekki út nema vísitölutryggt, sem allir hljóta að sjá að er ekki hægt öðruvísi. Íslensk króna eða Evra, alveg sama hvort því verðbólgan er meira en 5 % í Evrulöndunum.

En með lífeyrissjóðina sjá menn líklega núna, eftir töpin, spillinguna og vitleysuna að það var tóm vitleysa frá upphafi að stofna þá nokkurntíman með þessum hætti, óteknum skattpeningum ríkisins að stórum hluta og iðsgjöldum. Allir hefðu betur bara borgað inn til ríkisins fasta upphæð og fá síðan próventu í ellinni.Hafa svo kannski haft leyfi til að draga annað eins frá skatti í frjálsa ráðstöfun. Annað áttu menn að sjá um sjálfir og spara sér afskipti bjálfa, skálka og stjórnmálamanna í þeirri röð. En nú er ekki til sá þjóðmálaskúmur sem ekki er uppfullur af tillögum hvað eigi að kaupa með þessum peningum öllum sem eru í sjóðunum.

Svo hvað er framundan? Verðtrygging eða ekki verðtrygging? Ég held að verðtryggingin sé nauðsynleg og fráleitt að binda verðtryggðan sparnað til þriggja ára eins og nú er gert. Sparisjóðsbók á að geta verið verðtryggð og bera lága vexti eða óverðtryggð og bera hærri vexti. Seðlabankinn á ekki að skipta sér af vöxtum það sannar sagan að hefur reynst bara vitleysa. "Vextir eiga að vera svo háir sem til eru fífl að borga." sagði gamli Sveinn og hafði rétt fyrir sér í því sem flestu öðru.

Það er frelsið sem skiptir öllu og frjálshyggjan sem það byggist á. Að þjóðin losni undan oki kommúnismanum sem hún býr við núna og "Davíðstímarnir" komi aftur, þar sem allir gátu átt þá mynt sem þeir vildu sjálfir. Þurftu ekki þetta kratakjaftæði um upptöku Evru og svo framvegis. Við myndum áreiðanlega fara ögn varlegar í sakirnar og gæta okkar betur í næstu umferð.

En verðtrygging inneigna og skulda er nauðsynleg. Ábyrg hegðun gerir verðtrygginguna áhrifalausa með öllu. Bavíanaháttur stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda hækkar hinsvegar höfuðstól skulda vegna verðbólguframleiðslu þessara aðila.

Okkur vantar tilfinnanlega skynsemi eins og gamli Sveinn sagði. Þá er verðtryggingin ekkert vandamál.


EES-Schengen

eru orð sem heyrðust á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og var þá ekki verið að hrósa þessum gerningum. En Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á að hafa komið þessum málum í gegn og ekki má mikið hnjóða í þessi apparöt án  þess að Björn Bjarnason komi með allt sitt vit og rökþunga til að verja Schengen að minnsta kosti. Og verður þá oftar en ekki lítið úr formælingum annarra. Við verðum vitni að því seint og snemma að Jón Baldvin Hannibalsson hreykir sér af því að hann hafi komið þessum samningi í gegn, hann sé hinn mikli spámaður sem allt hafi gert. En hann var aðeins talsmaðurinn útávið og hjalparkokkur. Án Sjálfstæðisflokksins gat hann minna en ekki neitt þó grobbið vanti aldrei í kratana.

En það þýðir ekki að það ríki koppalögn í Sjálfstæðisflokknum  um ágæti Schengen samstarfsins, hvað þá um ágæti eftiráspekingslegra málalenginga Jóns Baldvins .  Björn Bjarnason telur að  samningurinn hafi fært okkur fleira gott en illt.  Hann hefur þó ekki útskýrt enn fyrir mér hversvegna Bretar geta staðið utan hans og virðist ganga vel.  Bretland er eyja eins og Ísland og hefur langa reynslu af því hvílík vernd landinu hefur verið í aldanna rás af þessum vatnsborða sem umlykur eyjarnar.Það er í fyllsta máta skiljanlegt að svo reynd þjóð noti þetta til að stýra umferð til og frá landinu þó að sé fullseint í rassinn gripið hjá þeim þegar svo mikið af óþjóðum er þegar komið til þessara miklu landa Engla,  Saxa, Kelta og  Skota.

Menn hérlendis hafa af því vaxandi áhyggjur hvernig skipulögð erlend glæpastarfsemi skýtur hér rótum. Líkstungumaðurinn Gajdas sem var í aðkomubanni til landsins fór og líklega fer kannski enn allra sinna ferða út úr landinu hvað sem fyrri málum líður.  Úraþjófarinir geta þá birst hér aftur án þess að við Franch Michelsen vitum af því.  En ég kemst ekki inn í landið nema hafa íslenskt vegabréf.  Þegar ég held því fram að við getum tekið upp vegabréfaskyldu til landsins og frá, þá er mér svarað með kuldalegri þögn.  Schengen er eitthvað heilagt vé sem ég má ekki hafa skoðanir á.

Ég held því samt fram að Íslendingum sé fullheimilt að taka upp vegabréfskyldu samkvæmt undaþáguákvæðum í samningnum ef vilji væri til. Það getur til dæmis verið kallað bráðabirgðaráðstöfun vegna "tímabundinnar" vaxandi erlendrar glæpastarfsemi sem getur svo staðið með með lotum og hléum eins lengi og verkast vill. Viljinn er bara allt sem þarf til að hrinda þessu í framkvæmd.

Sama máli gegnir í EES-samningnum. Í honum er nóg af ákvæðum sem geta leyft okkur að teygja hann og toga.  En af  hálfu okkar  ráðamanna úr öllum flokkum hefur ekki verið vilji til að reyna að milda ákvæðin. Svo að embættismenn eins og þeir eru nú vel til forystu fallnir eða hitt þá heldur, fá sjálfdæmi í framkvæmd allrar sérviskunnar.  Sem dæmi hér um eru RARIK og Orkusalan og ýmislegt annað sem óþarfi er að eltast við vegna sérstöðu landsins  eins og til dæmis Flugmálstjóri lemur sem ófrávíkjanlegar staðreyndir sérvisku EASA áfram án tillits til hvaða píslir og tjón hann er að vinna með kreddufestu sinni þegar flugaðstæður hérlendis eru svo gerólíkar því sem gerist í litlu Evrópu. Afþví bara segja þessir menn og yppta öxlum og komast upp með alla sína vitleysu  þegar stjórnmálamenn taka ekki í lurginn á þeim eins og þeir eiga að gera.

Við getum lifað við bæði EES og Schengen ef við höfum vilja til.


Útrásarvíkingar

finnst mér persónulega að ættu ekki að reka flugfélög eða starfsemi sem verslar með líf og limu fólks.

Mér finnst að farþegar eigi að geta treyst reglufestu flugfélaga og heiðarleika. Það er sagt að það séu ástæður fyrir því að ekki öll flugfélög fá að fljúga til Bandaríkjanna.

En lifi samkeppnin segja útrásarvíkingar á hátíðastundum . Þeir halda mikið upp á jafnræðisregluna á markaði, sérílagi að hún gildi fyrir fyrir aðra sem eigi að borga skuldir sínar.


Að vinna sigurinn

er ef til vill erfiðara verkefni en margir halda í pólitík. Sumum prófkkjörsbaráttum lýkur bara ekki fyrr en annar liggur í valnum. Menn geta unnið sigur í kosningu "milli vina og samherja" eins og það heitir. Davíð Oddsson vann Þorstein Pálsson frá Selfossi þaðan sem Davíð kom líka. Það sjá allir hvernig þeim gekk sambýlið eftir það. Og nóg önnur dæmi blasa við.

Bjarni vann Hönnu Birnu í drengilegum slag sagði hann. En landsfundarfulltrúar eru ekkert endilega á sama máli að baráttan hafi verið með öllu silkimjúk af hálfu sóknaraðila, hvers stuðningmenn skýrðu ástæður sínar fyrir mótframboði með ýmsum hætti og virtust talsvert minnisgóðir í sumum tilvikum.

Samlíf andstæðinganna verður ekki endilega mikið og gott fram að næsta landsfundi, en sumir óánægðir sögðu við hina eins og Skugga Sveinn: "Hittumst á Kili." "Við erum rétt að byrja."

Nýkjörinn formaður á því vandaverk fyrir höndum. Að honum verður sótt hvað sem menn vilja trúa öðru. Hver mistök á svellinu geta orðið dýrkeypt.

"Það er algerlega miskunnarlaust starf að vera formaður Sjálfstæðisflokksins" sagði Bjarni Benediktsson eldri. Því verður formaður að vanda sig vel og hafa hinna bestu manna yfirsýn með sér í hinum stóru málum en ekki hlusta bara á einn eða tvo höfuðsnillinga sem alllt þykjast vita. Formenn þurfa að hafa eyrað líka við grassvörðinn og treysta ekki blint á ískalt mat einhverra sjálfskipaðra ofurgáfumanna.

Það þarf stundum alþýðlegt vit og farsælar meðalgáfur til að greina á milli útreiknaðra valkosta. Þar skilur oft á milli feigs og ófeigs.

Það þarf nefnilega að vinna sigurinn líka í pólitík.


Að loknum Landsfundi

stendur uppúr hjá mér, sem minna en einum þúsundasta af fundinum, að ég er ánægður með það sem að mér snýr. Lítið peð á átakafundi er ánægt með visku landfundar sem birtist í niðurstöðum fundarins sem allir geta lesið á vef flokksins, www.xd.is.

Landsfundur tekur eindregna stöðu með Reykjavíkurflugvelli og þýðingu hans fyrir höfuðborgina á þeim stað sem hann er og í þeirri mynd sem hann er nú. Landsfundur sýndi sig að sýna hlutverki vallarins fullan flugtæknilegan skilning sem varavöllur fyrir alþjóðaflug. Hann áttar sig á því að Reykjavíkurflugvöllur verður þarna áfram sem miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs. Allt tal um stórsjúkrahús í Reykjavík er samofið tilvist vallarins. Allar aðrar skipulagshugmyndir verða að víkja fyrir skynseminni og talnaturnar sem reistir hafa verið í óraunsæi ýmsra frammámanna í reykvískum stjórnmálum eru hrundir til grunna.

Hanna Birna Kristjánsdóttir áttaði sig á því, að hún kæmist hvergi á Landsfundinum með því að taka undir fjandskap við tilvist Reykjavíkurflugvallar, sem Gísli Marteinn er helstu samnefnari fyrir. Málflutningur Gísla Marteins um að landsfundur væri í mótsögn við sjálfan sig þegar hann blandaði sér í skipulagsmál sveitarfélags með þessum hætti hafði ekki áhrif til þess að lina afstöðu landsfundarfulltrúa.Var ótrúlegt að verða vitni að eindreginni afstðu fundargesta í þessu máli.

Bjarni Benediktsson var kosinn formaður með 55 % atkvæða á móti 44 % atkvæða Hönnu Birnu.Tæplega annar hver landsfundarfulltrúi treystir Hönu Birnu betur en Bjarna Benediktssyni. Hefðu aðeins 76 landsfundarfulltrúa af rúmum þrettánhundruð breytt nafninu á atkvæðaseðlinum hefði Hanna Birna sigrað. Svo knappt var þetta

Þetta lýtur að vera Bjarna mikil aðvörun um að hann verði bæði að vanda sig og leggja sig enn meira fram til að vinna sér inn aukið traust flokksmanna. Sem hann getur hægleg svo vel gerður maður til munns og handa.

Hanna Birna átti auðvitað undir högg að sækja þar sem hún er ekki þingmaður og fundarmenn margir komu ekki auga á það hvernig formaður flokksins gæti verið utan þings svo vel sé. Hönnu verður ekki skotaskuld úr því að breyta þessu í næstu kosningum hvenær sem þær verða. Hún er og verður stærð sem ekki er auðveldlega litið framhjá í pólitík.

En eins og Ólöf Nordal varaformaður orðaði það, þá kom tími Jóhönnu svo sannarlega í íslenskum stjórnmálum. En það sem verst væri, að í huga okkar ætlaði honum bara aldrei að ljúka og engar kosningar væru í augsýn. Ólöf hlaut svo yfirburðar kosningu í embætti varaformanns.

Davíð Oddsson sem ávarpaði fundinn óvænt við mikinn fögnuð sagði einhvernvegin, að norræna velferðin sem stjórnin hefði lofað að færa Íslendingum væri í reynd sú sú að fara með "Norrænu" á vit velferðarinnar á Norðurlöndum. Og fleira sagði Davíð í gamni og alvöru. Hann er og verður fremstur meðal jafningja í Sjálfstæðisflokknum fyrir leiftrandi fjör og persónutöfra sína. Þar sem hann kemur gerist yfirleitt eitthvað.

Sjálfstæðisflokkurinn lýsti sig reiðubúinn að berjast gegn skuldavanda heimilanna með ráðum og dáð. Hann lofaði að aflétta öllum sköttum sem vinstri stjórnin hefði hækkað og fundið upp sem nýja. Hann lofaði að vinna að atvinnusköpun umfram allt, beisla orkulindirnar og NÝTA TÆKIFÆRIN eins og var yfirskrift fundarins. Hann trúir því að aukin atvinna muni færa ríkinu meiri skatta en sem nemur lækkun gjaldanna. Þar liggur munurinn á stjórnlyndi og frjálslyndi.

Það verður nóg af fýlupúkum í Sundlaugunum og öðrum förnum vegum svo og á samanlögðum fjölmiðlum landsins til að rakka allt þetta niður og reyna að gera alla þessa viðleitni landsfundarfulltrúa fyrirlitlega og fábjánalega. Þetta munum við Sjálfstæðismenn sem lögðum á okkur að vinna að tillögum landsfundar,þola og svara fullum hálsi. Fundur okkar snéri að því að reyna að leysa vandamál, -ekki landsfundarfulltrúaanna eða félaga í Sjálfstæðisflokknum sérstaklega, heldur landsmanna allra. Sjálfstæðismenn trúa á þjóðina, landið okkar Ísland, Sjálfstætt Ísland eins og nafn flokksins okkar ber með sér, og teljum hagsmunum þess, nú sem fyrr, betur borgið utan ESB

Sjálfstæðisflokkurinn vill sækja fram og bæta böl. Það eru skilaboðin frá þessari samkomu í Laugardalshöll. Því það er sagt að ætíð sé betra að veifa röngu tré en öngu og má eiga við þá sem láta dæluna ganga og allt vilja rakka niður í forina sem tengist Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórnin hefur ekkert tré á loft, aðeins njólarætur og þöngulhausa sem ekkert verður á byggt.

Sjálfstæðisflokkurinn er leiður yfir því virðingarleysi sem Ríkisstjórnin sýnir því góða fólki í Evrópubandalaginu með því að halda áfram viðræðum við það eins og allt sé í stakasta lagi. Sjálfstæðismenn þola ekki slíkt og vilja gera hreint borð og segja við viðsemjendurna, að best sé að fresta frekari viðræðum meðan þjóðin gerir upp við sig hvað hún vilji sjálf.Það er þjóðin sem á síðasta orðið.

Kosningar er krafa Sjálfstæðisflokksins. Fyrr fær þjóðin ekki viðnám fyrir krafta sína til að NÝTA TÆKIFÆRIN.

Það er boðskapur Landsfundar Sjálfstæðisflokksins til þjóðarinnar.


Góð tillaga hjá Jóni Magnússyni

Jón Magnússon leggur fam eftirfarandi tillögu á Landsfundi: 

"Tillaga 3 Úrvinnsla skulda heimilanna

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur réttlátt að höfuðstóll verðtryggðra lána verði færður til þeirrar viðmiðunarvísitölu sem var í gildi 1.10.2008.  Frá 1.10.2008 hefur íbúðarverð lækkað gríðarlega í verði. Á sama tíma hefur verið samdráttur í þjóðarframleiðslu og veruleg rauntekjulækkun.  Taka verður tillit til þessara staðreynda og gæta þess að réttlæti ráði ferðinni við úrvinnslu skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja. Þannig verði miðað við almennar aðgerðir til að leysa skuldavandann en ekki sértækar. Með sértækum aðgerðum hefur verið og verður búið til ójafnræði milli borgaranna. Með þeirri niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra  lána sem hér er lagt til er ekki lengur um forsendubrest að ræða og tryggt er eðlilegt jafnræði fjármagnseigenda og skuldara." 

Þessa leið hefði átt að fara strax í ársbyrjun 2009, svo sjálfsögð skynsemi sem hún er.

Hugmyndir Lilju Mósesdóttur hafa líka ratað inn á Landsfund þar sem tekið er á lyklaskilamálinu fyrir vonlaus heimili sem annars horfa fram á gjaldþrot og eilífa útskúfun.

Styðjum þessar hugmydindir báðar.


Ekkert Já spjald

var hafið á loft í stóra salnum í Laugardalshöll þegar ég bað viðstadda sem vildu ganga í Evrópusambandið að hefja þau á loft. Mér var bannað af fundarstjóranum að halda áfram og klára málið, ég ætti að spyrja forystumennina en ekki salinn. æEg fékk ekki að klára það sem mig langaði til. Mig langaði nefnilega að að fá að sjá rauðan spjaldaskóg í salnum gegn ESB aðildinni.

Ég verð hinsvegar að sætta mig við hálfsigur því ekkert JÁ spjald var hafið á loft. Forystumenn, Bjarni, Ragnheiður Elín og Ólöf Nordal voru hinsvegar einhuga í því að telja hagsmunum Íslands betur borgið utan ESB. Þar kom ekkert JÁ spjald á loft.


Innrás ESb sinna

á landsfundinn er hafinn. Í þetta sinn reyna þeir að kljúfa flokkinn með fíngéreruðum skoðanakönnunum.

"Í könnun, sem MMR gerði fyrir Andríki og sagt var frá á mbl.is í gærkvöldi, sögðust 50,5% vilja draga aðildarumsóknina til baka en 35,3% vildu halda umsókninni til streitu. 14,2% voru hvorki fylgjandi því né andvíg að draga umsókn til baka."

Því miður tók Heimssýn ekki ákalli mínu til hjálpar með því að fá þessari ESB "Einsatzgruppe" sparkað út í horn á Landsfundi heldur er henni leyft að eitra andrúmsloftið með lævísi eins og í tilvitnaðri "skoðanakönnun" sem ekki endurspeglar landsfundinn. Jafnvel formaður virðist hræddur við þetta lið. En þeir eru bara draugur sem þarf að kveða niður af meirihlutanum eins og síðast.

Það er best að fá þá á dyr sem fyrst.


Ræða Bjarna

við setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins féll í góðan jarðveg.

 Formaður kom víða við og tók á vandamálum þjóðarinnar. Hann rakti hvernig vandi heimilanna hefði vaxið ár frá ári frá hruni en ekki minnkað eins og stjórnarliðar halda fram.  Þá eru fjárfestingar á landinu minni en þær hafa verið nokkru sinni frá stofnun  lýðveldisins. Hann rifjaði upp hvernig staða flokksins hefði verið þegar hann tók þá ákvörðun að nú væri komið að sinni kynslóð að leggja eitthvað af mörkum þegar hún mætti sinni fyrstu kreppu efir að hafa búið við góð kjör alla sína tíð. Með þetta í huga hefði hann boðið sig fram þó hann hefði vitað að erfið ganga væri framundan. Síðan hann hefði orðið formaður hefði fylgi flokksins aukist úr 23 % í 36  % Hann hefði gefið sig allan í þetta starf og væri reiðubúinn að gera það áfram með ykkur. Bjarni varð oft að gera hlé á ræðu sinni vegna lófataks fundamanna.

Bjarni fór yfir atvinnuleysi 12000 landsmanna og tölur um langtíma atvinnuleysi fólks sem hefur verið án vinnu 6 mánuði eða lengur.   Þessi hópur væri því miður að stækka. Í sumum byggðarlögum væri atvinnuleysi 11 %  Undirrituðum fannst Bjarni þarna sleppa ríkisstjórninni of billega með því að tala þarna ekki um tölurnar um landflóttann þegar hann ræddi þessar atvinnuleysistölur, sem hefði gert þennan kafla mun ískyggilegri.  Þó Bjarni vissulega gerði áhyggjum sínum af landflóttanum skil síðar í ræðunni, þá finnst þessum skrifara betra að að horfa á þetta tvennt í samhengi.

Bjarni fór yfir hlut sinn og þingflokks í Icesave I. Þeir hefðu verið sakaðir um ólýðræðislega vinnubrögð af stjórnarliðum fyrir að vilja ræða málin í stað þess að skrifa undir. Það hefði þó leitt til undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðis. Hann rakti Icesave ll og III og minnti á að þeir hefðu alltaf tekið fram að þeir teldu að þjóðin ætti að segja síðasta orðið við samninginn  þó að þeir hefði samþykkt þann síðasta 12 en 5 verið á móti eða setið hjá og þannig hefði meirihluti þingflokks ekki viljað vera á móti því að reyna að leysa málið eftir að það var orðið 400 milljörðum betra í það minnsta en það sem Steingrímur hefði viljað samþykkja strax í Icesave I.

Bjarni rakti sögu fyrstu pólitísku réttarhaldanna á Íslandi  sem ríkisstjórnin hefði hrint af stað sem væri Landsdómsmálshöfðunin yfir Geir Haarde sem hún vildi koma í fangelsi. En Geir hefði beitt sér fyrir setningu neyðarlaganna, sem núverandi stjórnarliðar hefðu margir ekki samþykkt(Steingrímur J Sigfússon var víst einn ! innsk. skrifara) sem líklega hefðu núna bjargað þjóðinni frá því versta af Icesave. Bjarni sagði þessa málshöfðun vera þeim til eilífrar skammar sem að henni hefðu staðið. Þó svo að aðalmálsatvikunum hefði nú verið vísað frá þá léti ríkisstjórnin ekki laust og vildi í það minnsta hafa af Geir Haarde æruna þó hún hún nái líklega ekki öðru.    Bjarni fullvissaði Geir um það persónulega að hann stæði  órofa þétt að baki hans og eftir ákafar undirtektir  fundarmanna gat hann bætt við að Geir gæti heyrt það að svo væri um fleiri.  Bjarni fékk skyndilega eitthvað í hálsinn eftir þessa tilfinningasþrungnu stund og fékk sér tvisvar vatn áður en hann hélt áfram eftir stutt hlé og var ekki laust við að undirritaður hefði líka þegið vatnssopa þegar samkenndin með Geir flæddi um salinn.

Bjarni hélt svo áfram af stígandi krafti. Hann lýsti ráðleysi ríkisstjórnarinnar á öllum sviðum. Í bankamálum væri staðan sú að 80 milljarðar rynnu til vogunarsjóðanna sem hefðu fengið bankana en heimilin fengju ekki neitt. Ríkisstjórnin væri heillum horfin, hefði engar lausnir í atvinnumálum og það eina sem Steingrími dytti í hug í ríkisfjármálum, væri að hækka skatta og segði um þau mál:"You aint seen nothing yet!".

Aðildarviðræðurnar við ESB væru ekki sæmandi af okkar hálfu þegar viðsemjendunum væri ljóst að hugur ríkisstjóraninnar fylgdi ekki máli, sérstaklega þegar VG hefði álíka mikinn hug á að ganga í ESB og að ganga úr NATO.  Sjálfstæðisflokkurinn hefði viljað þjóðaratkvæði um viðræðurnar.

Bjarna varð tíðrætt um gildi sjálfstæðisstefnunnar fyrir land og þjóð og vitnaði meira til hennar en aðrir formenn hafa gert sem ég minnist.  Hann sagði sjálfstæðisstefnuna samofna þjóðinni, hún boðaði einstaklingsfrelsi manna sem virtu lýðræðisreglur, og lagði áherslu á orðin "stétt með stétt" og "gjör rétt þol ei órétt" sem eru líka einkunnaorð flokksins. Hann sagði að hefði tekist að eyðileggja Sjálfstæðisflokkinn hér um árið þegar atsóknin og óeirðirnar stóðu sem hæst, þá hefði flokkurinn verið stofnaður aftur á morgun. Svo mjög þarfnaðist þjóðin sjálfstæðisstefnunnar. Því sjálfstæðisstefnan væri stál sem hert hefði verið í eldi baráttunnar í 80 ár.

Ræðunni lauk svo með þessum orðum :

"Framundan er mikil barátta. 
Baráttan fyrir því að koma núverandi vinstristjórn frá völdum og stefnumálum okkar
sjálfstæðismanna til framkvæmda.


Við skulum öll standa saman í þeirri baráttu. 
Þessa baráttu vil ég leiða sem formaður Sjálfstæðisflokksins og berjast við hlið ykkar
fyrir hugsjónum okkar allra og fyrir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn inn í nýja tíma – til
glæstra sigra.


Ég mun hvergi draga af mér.  Því heiti ég ykkur.

Við skulum berjast sem einn maður gegn vinstriöflunum sem nú eru við völd í þessu
landi, því þegar við sjálfstæðismenn stöndum saman, stenst enginn stjórnmálaflokkur
á Íslandi okkur snúning.


Við skulum nýta þennan landsfund sem upphaf þeirrar baráttu.
Ég veit að barátta okkar mun leiða íslensku þjóðina út úr erfiðleikunum.

Sjálfstæðisstefnan er verkfærið sem gerir Íslendingum kleift að nýta tækifærin.

Barátta okkar mun skapa nýja framtíð, nýtt upphaf !

Kæru vinir,
Fertugasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins er settur. "

Bjarni sagðist í skýrum orðum vilja leiða baráttuna fyrir því að þjóðin nýtti tækifærin og sækti fram til sigurs og að hann sæktist eftir endurkjöri .

Var honum ákaft fagnað í lok ræðunnar og mátti heyra á máli manna í salnum, að þarna hefði foringi Sjálfstæðisflokksins  flutt ræðu sem virkilegt bragð væri að.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 3420775

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband